Löggan bankar uppá

Ég var í símanum í kvöld við vinkonu mína þegar bankað var á hurðina hjá mér. Það var hið hvimleiða bank klikkuðu nágrannakonu minnar svo ég var ekkert sérlega hamingjusöm og taldi að ég gæti haldið samtalinu stuttu ef ég væri enn í símanum (þótt það hafi reyndar aldrei gengið áður). Ég opnaði hurðina en sagði Elli vinkonu minni strax að ég myndi hringja í hana aftur. Jú, klikkaða nágrannakonan var þarna en með henni lögreglukona. Ég á því ekki að venja að lögreglan banki upp á hjá mér.

Rita hin klikkaða heldur því sem sagt fram að brotist hafi verið inn til hennar og veskinu hennar stolið, en þjófurinn missti síðan veskið á leiðinni út því það fannst í stiganum fyrir utan eldhúsdyrnar hennar - sem aldrei eru læstar.

Sem sagt, þjófur fer inn i bakgarðinn, gengur upp tröppurnar, fer inn um bakdyrnar, á meðan hún er inni á baði, selur veskinu hennar, fer aftur út en missir veskið á leiðinni og stoppar ekki til að taka það, þótt hann hafi alls ekki verið truflaður við iðjuna. Hann var sem sagt nógu kaldur til að fara inn í húsið á meðan eigandinn var þar, en ekki nógu kaldur til að taka upp veskið sem hann missti. Jæja, kannski var þetta vitlaus þjófur. Lögreglunni fannst þetta greinilega ekki mjög trúverðuglegt því þegar Rita fór inn í íbúðina sína þá spurði hún mig hvort það væri allt í lagi með Ritu. Ég hélt nú ekki, en gat ekki annað en hvíslað því það var opið inn í íbúðina og ég veit ekki hversu vel kerlingin heyrir. Sagði því lögreglukonunni að fara niður í kjallara að tala við Alison því ég taldi að Alison gæti sagt henni meira án þess að eiga á hættu að Rita heyrði allt. Hún er nógu klikkuð svo hún viti ekki að við erum að segja lögreglunni að hún sé klikkuð.

Annars var víst tvisvar brotist inn til vinkonu hennar neðar í götunni svo kannski vildi hún bara vera eins!

Hún er með hitann í íbúðinni á heilanum og talar stanslaust um dragsúginn í íbúð hennar. Í gær var dragsúgurinn sem sagt svo sterkur að hún varð að halda sér svo hún dytti ekki. Haldiði að þetta sé eðlilegt. Og þegar ég sting upp á því að íslenskum hætti að þetta sé bara draugur, þá er henni ekkert skemmt. 

En alla vega, fékk lögregluheimsókn á mánudagskvöldi. Smá krydd í lífið!

P.S. Því miður var lögreglan sem bankaði upp á frá Vancouver löggunni en ekki Riddaralöggunni, og hún var líka kona en ekki constable Benton Fraser sem er á myndinni. Ah, góðir þættir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Vorkenni aumingja konunni, hlutskipti hennar greinilega ekki gott og ekki batnar það að eiga "hískrandi og pískrandi" nágranakonu eins og þig! Því vorkenni ég þér ekkert, sæktu bara sjálf um í löggunni eða hernum þarna til að komast í tæri við einhvern riddara í pokabuxum og kannski með korða!

Gleðileg jól aftur fröken Kristín og vegni þér vel í framtíðinni.

(og ef þú skildir ekki vita, þá mun sjónvarpið hér gera OL góð skil og sýna frá þeim á hverjum degi.)

Magnús Geir Guðmundsson, 30.12.2009 kl. 18:37

2 Smámynd: Sigurjón

Gleðileg jól kæra frænka og vonandi þarf lögreglan ekki að hafa mikil afskipti af þér á nýju ári.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 30.12.2009 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband