Ímynd lögreglunnar

Um 6.500 lögreglu- og hermenn komu til Vancouver í febrúar til að sjá um löggæslu á Ólympíuleikunum. Þeir bjuggu á skemmtiferðaskipum niðri við bryggju. Skömmu eftir komu skipanna fóru að ganga villtar sögur um lífið um borð og skipið fékk alls kyns uppnefni. Það besta var Screw canoe. Þegar sögur heyrðust um að lögreglumenn hefðu verið sendir heim magnaðist orðrómurinn. Sögur gengu m.a. um að hórum væri smyglað um borð í hokkítöskum, en öryggisgæsla var ströng um borð.

Í gær töluðu fulltrúar lögreglunnar loks um málið og kom í ljós að þótt sögur hefðu verið stórlega ýktar var heilmikið til í þeim. T.d. viðurkenndu forsvarsmenn lögreglunnar að fimmtán löggæslumenn hefðu verið sendir heim, fjórtán karlar og ein kona. Í um fjórum eða fimm tilfellum var um að ræða kynferðislega áreitni karlkyns lögreglumanna gegn samstarfsmönnum sínum af fallegra kyninu. Í einu tilfelli var um að ræða búðarhnupl, í öðru tilfelli mætti lögreglumaður á vakt með engar kúlur í byssunni sinni og í enn öðru tilfelli fór lögreglumaður snemma af vaktinni sinni til að fara á hokkíleik. Í flestum tilfella þar sem lögreglumenn brutu á sér var áfengi haft um hönd.

Fyrir leikana hafði verið talað um að banna alla drykkju lögreglumanna á meðan á leikum stæði en til þess að slíkt væri hægt hefði þurft að borga öllum hálfgert bakvaktargjald, þar sem eina leiðin til að banna drykkju í frítíma er að hafa alla á bakvöktum. Það var því ekki gert og fyllerí var því töluvert. 

Eitt og sér er þetta ekki mikið mál. Lögreglumenn eru yfirleitt venjulegt fólk sem brýtur á sér á stundum eins og aðrir. Það sem kannski gerir málið verra er að undanfarin tvö þrjú ár hafa verið allt of mörg tilfelli í Kanada um brot lögreglumanna, ýmist á vakt eða ekki. Þeir eru t.d. enn að súpa seiðið af dauða pólska innflytjandans sem var drepinn með teiserbyssu á Vancouver flugvelli. Ekki löngu eftir það var einn fjögurra lögreglumanna sem þar voru að verki, handtekinn eftir að valda árekstri þegar hann var að keyra fullur. Og hann var ekki eini lögreglumaðurinn í Vancouver sem hefur verið tekinn fyrir að keyra fullur síðustu tvö árin. Ég man eftir alla vega tveimur slíkum tilfellum. Og í fyrra kom upp tilfelli þar sem lögreglumenn drápu heimilislausan mann sem þeir héldu að hefði brotist inn í búð. Þeir börðu hann til dauða. Hann var saklaus.

Lögregluyfirvöld hafa reynt að bæta ímynd lögreglunnar en það er ekki auðvelt þegar meðlimir hennar halda áfram að brjóta af sér. Gallinn er að það er með þessa starfstétt eins og aðrar, það þarf ekki nema örfáa hálfvita til að eyðileggja fyrir öðrum. Þeir lögreglumenn sem ég hef kynnst, t.d. í gegnum Ólympíuleikana, hafa allir verið fínustu menn sem aldrei myndu gera neitt af sér. En þeir þurfa að líða fyrir mistök annarra.


Ekki víst mikið dýrara en forsetaembætti

Það er ekki langt síðan ég las grein um kostnaðinn við bresku konungsfjölskylduna og þar kom í ljós að það er ekki mikið dýrara að hafa konungsfjölskyldu en t.d. forseta. Það fer til dæmis enginn kostnaður í kosningar fjórða hvert ár. Ég man ekki hvernig þetta var annars brotið niður og borið saman en munurinn var sem sagt ekkert ógurlega mikill, og á móti kom að breska konungsfjölskyldan t.d. er ákveðið túristaaðdráttarafl. Skoðunarkannanir á Bretlandi hafa meðal annars sýnt að fjöldi ferðalanga kemur til að sjá Buckingham höll og fleira tengt konungsfjölskyldunni. Fólk sem annars hefði kannski ekki komið til Bretlands. Ég veit ekkert hvort þetta er satt en það er heldur ekkert ódýrt að vera með forseta.

Þetta fer að sjálfsögðu allt eftir því hvernig fólk notar peningana. Sjáið bara greinina í blaðinu í dag um bruðl íþróttamálaráðherra Rússa þegar hann kom hingað til Vancouver. Sparsöm drottning getur kostað minna en eyðslusamur ráðherra!


mbl.is Breska konungsfjölskyldan kostaði 38,2 milljónir punda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp fyrir mitti á öðrum fæti???

Ég nenni yfirleitt ekki að skammast út af málfari enda væri maður þá alltaf að, en þetta er annar dagurinn í röð þar sem ég get ekki setið á mér. Hvernig væri nú að blaðamenn læsu yfir fréttirnar sínar áður en þeir birta þær. Og enn betra væri að láta einhvern annan lesa fréttirnar yfir.

Í þessari frétt um drenginn sem lenti í kviksyndinu segir:

 Hann var sokkinn upp fyrir mitti á öðrum fæti...

Í alvöru? Upp fyrir mitti á öðrum fæti??? Hvernig í ósköpunum er það hægt? Fætur hafa ekki mitti. Og hafi hann verið sokkinn upp fyrir mitti á sér (en ekki á fætinum), þá hljóta báðir fæturnir að hafa verið komnir undir þar sem eina leiðin til þess að vera fastur í leðju upp fyrir mitti er að mjaðmagrindin og allt annað hafi verið komið undir líka. Hafi aðeins annar fóturinn verið í leðjunni en ekki hinn þá getur hann ekki hafa verið kominn dýpra en sem nemur mótum leggjar og mjaðmagrindar. Passa sig aðeins. 


mbl.is Dreng bjargað úr kviksyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þeirra bandi???

Sagði hann ekki frekar eitthvað í líkingu við að heppnin hafi ekki verið 'þeirra megin'? Ég held að ekki sé hægt að persónugera heppni og láta hana vera á einhvers bandi. Þeir geta sagt að dómarinn hafi ekki verið á þeirra bandi, en heppni er eitthvað sem þú annað hvort hefur eða ekki. Annars kann ég ekki spænsku og kannski er hægt að persónugera 'heppni' í því máli.
mbl.is Martino: Heppnin ekki á okkar bandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænlandsferðin 1980

Í dag eru 30 ár liðin frá því Vigdís var kjörin forseti, eins og allir vita. Það þýðir líka að fyrir þrjátíu árum var ég á Grænlandi með fimm öðrum krökkum frá Akureyri og fararstjóranum okkar Helga Má.

Tilefnið va r 50 ára afmæli Narsaq bæjar og var sex krökkum frá öllum vinarbæjum Narsaq boðið að vera viðstaddir afmælisfagnaðinn. Valinn var einn ellefu ára krakki frá hverjum skóla í bænum en greinilega var einhver misskilningur í gangi því sumir skólar völdu krakka sem voru á ellefta ári á meðan aðrir völdu krakka sem voru orðnir ellefu ára og voru á tólfta ár og jafnvel orðnir tólf. Vegna þessa dreifðist aldurinn svo að ég var enn bara tíu ára, Siggi, Helga, Linda og Einar voru ellefu og Eiríkur var tólf. Aldurinn hafði áhrif á tungumálagetuna og þar með getuna til þess að eiga samskipti við krakka frá öðrum löndum. Ég var bara búin að læra dönsku í eitt ár og var ekki byrjuð í enskunámi. Samskipti fóru því fram á heimatilbúnu táknmáli.

Þetta var ævintýralegur tími. Við vorum flest ef ekki öll í burtu frá foreldrum í fyrsta sinn á ævinni og sváfum átta saman í herbergi, sem í raun var bara skólastofa þar sem búið var að setja dýnur á gólfið. Ætlunin var að krakkarnir kynntust vel og því var bara einn frá hverju landi í hverju herbergi, en strax fyrsta daginn fóru fram innbyrðist herbergisskipti og fljótt voru Linda og Helga komnar inn í herbergi hjá mér. Það var betra að hafa stuðning hver frá annarri þegar maður svaf í ókunnugu rúmi langt frá mömmu og pabba. Það dugði ekki fyrir alla því mikið var grátið á næturnar. Ég man sérstaklega eftir einni hollenskri stelpu sem hafði gífurlega heimþrá. Fararstjórinn hennar, stór og svartskeggjaður maður í klossum eyddi miklum tíma í okkar herbergi til að reyna að hugga hana og þegar hann fór á kvöldin fengu allar faðmlag sem vildu. Hann gat vel tekið á sig að vera einn allsherjar herbergispabbi.

Á hverjum morgni reistum við fána landsins okkar, tvö og tvö saman, og á hverjum kvöldi tókum við fánann niður. Einn daginn varð Linda fyrir því óláni að fáninn snerti jörðu. Hún komst í gífurlegt uppnám og tautaði í sífellu að við yrðum að brenna fánann. Við stóðum öll sex saman og ræddum hvað gera skyldi þegar einhver benti á að fáninn mætti ekki snerta íslenska jörð. Ekkert væri minnst á hvað gera ætti ef hann snerti grænlenska jörð, og þar með var það útrætt.

Við skemmtum okkur vel allan tímann á Grænlandi og tókum þátt í alls konar leikjum og kvöldvökum. Við fórum meðal annars í ratleik sem náði út um allan bæ. Okkur var skipt upp i hópa og svo fengum við alls konar vísbendingar um hvert við ættum að fara. Hópurinn minn átti fyrst að fara að eins konar félagsheimili og þar áttum við að biðja um vatn að drekka. Við hlupum þangað og báðum um vatnið en konan sem rak staðinn vildi endilega gefa okkur gos í staðinn. Það tók heillangan tíma að telja henni trú um að það yrði að vera vatn. Í annarri þrautinni fórum við niður á bryggju og þar áttum við að veiða fisk. Ég fékk marhnút á öngulinn og ætlaði að henda honum útí eins og maður gerði heima á Akureyri, en einhver náunginn greip fiskinn frá mér. Marhnútur er víst dýrindismatur á Grænlandi. 

Við fengum að sjá bátana koma að landi með nýveiddan sel. Veiðimaðurinn skar hann í sundur strax á bryggjunni og bauð hverjum sem vildi að smakka hráan og heitan selinn. Mig minnir að Eiríkur hafi verið sá eini sem þorði að smakka. Í annað skiptið fórum við í Brattahlíð og skoðuðum rústir af bæjum Eiríks rauða. Við fórum líka til Igaliko og þurftum að ganga töluvert til að komast þangað því bærinn er á öðrum firði sem of langt er að sigla til. Frá þeirri ferð man ég aðallega eftir kirkjunni og því að við fengum hrikalega vondar samlokur. Matur fannst mér almennt fremur vondur þarna en kannski var ekki að marka, ég var tíu ára. Mjólkurvörur höfðu allar skrítið bragð og ég man að okkur fannst osturinn þarna alveg hreint ógeðslegur. Einu sinni sáum við einn fararstjórann setja hnausþykka sneið af osti á brauðið og borða. Við horfðum á agndofa og með klígju. Ég man líka eftir þegar við fengum rækjur og þær voru bornar á borð með augum, öngum og öllu. Þann dag hætti ég að borða rækjur.

Við fórum líka í ferð með dönsku varðskipi og var ætlunin að sjá einhverja ísjaka, eða það skildist mér. Eitt herbergið á skipinu var fullt af blöðrum. Þetta var eins konar diskótek en í stað hlupu allir um og sprengdu blöðrur. Ég forðaði mér. Ferðin varð endasleppt því skipið rakst á ísjaka. Það hristist til og þeir sem voru standandi hentust til og féllu jafnvel í gólfið. Linda lenti í fanginu á skipstjóranum og varð það heilmikið umræðuefni í langan tíma á eftir. Það kvöldið skrifaði ég í dagbókina (sem við urðum að halda): "í dag fórum við í ferð til að skoða ísjaka en komumst ekki fyrir ísjökum." Ég held að tíu ára ég hafi ekki alveg fattað hvernig þetta hljómaði. 

Þetta var dásamlegur tími og mig hefur alltaf langað að fara til baka. Kannski við förum öll sjö þangað 2020 og fögnum fjörutíu ára Grænlandsafmæli.


Mah na mah na

Við sem ólumst upp á tímum Prúðuleikaranna munum öll glögglega eftir hinu frábæra lagi Mah-na mah-na. Lagið var víst samið af Piero Umiliani fyrir ítalska heimildarmynd um líf í Svíþjóð sem kallaðist Svezia, Inferno e Paradiso.

En þótt lagið sé án efa þekktast í flutningi Prúðuleikaranna þá voru það ekki þeir sem fyrstir fluttu lagið fyrir fyrir Jim Henson því það kom fyrst fram í Sesame Street þar sem Bip Bippadotta og tvær Anything Muppet girls (sem líkjast Kermit) fluttu lagið. Síðar var það flutt af Mahna Mahna og bakraddasöngvurum hans í Ed Sullivan þættinum. Takið eftir að bæði Bip Bippadotta og Mahna Mahna eru glettilega líkir Dýra.

Hér er lagið flutt af Bip Bippadotta í Sesame street 



Og hér í flutningi Mahna Mahna

 

 



Óeirðir við G8 fundinn

Nokkur þúsund svartklæddra mótmælenda eru nú samankomin í Toronto til að mótmæla G8/G20 fundunum sem fram fara 6_World_Summit.sff.jpg í borginni þessa dagana. Gluggar hafa verið brotnir í bönkum, á kaffihúsum og í búðum og hefur fjöldinn reynt að komast í gegnum varnargirðingar fundarstaðarins. Sumir eru vopnaðir hafnaboltakylfum, aðrir hömrum...en óeirðalögrelgan hefur náð að höndla ástandið þokkalega og aðeins 40 hafa verið handteknir. Kurteisi Kanadamanna virðist jafnvel ná til mótmæla því þessar óeirðir eru tiltölulega rólegar miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum þegar stórríkin hittast.
mbl.is Fordæma árás N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég skrifaðist á við McCartney yngri

Fyrir mörgum árum flaug ég milli Munchen og London. Ég var búin að taka mér sæti og var að koma mér fyrir þegar tveir ungir menn ganga fram hjá mér á leið í sæti sín aftar í vélinni. Ég varpaul_james_mccartney strax sannfærð um að annar þessa pilta væri James McCartney, sonur Bítilsins sjálfs. Ég hafði aðeins séð eina mynd af honum frá unglingsárum en það nægði til þess að ég væri þess fullviss að þetta væri sonur Pauls. Þar að auki er hann sterklíkur pabba sínum. Ég sá hann síðar í fluginu þegar ég skrapp á baðherbergið og sá þar hvar hann sat aftarlega í flugvélinn sömu megin og ég. Ég vissi að Rut vinkona mín biði eftir mér í London og lét mig dreyma um að Paul stæði við hliðina á henni.

Þegar ég sagði frá þessu síðar átti fólk erfitt með að trúa því að ég hefði í raun séð James. Hann hefur næstum aldrei sést á myndum og ef þið leitið á honum á netinu sjáið þið hversu fáar myndir eru í raun til af honum, alla vega samanborið við aðra Bítlasyni.

Síðar sama ár var ég að fikta á netinu og fann vefsíðu sem kallaðist whois. Maður gat slegið inn nöfn og fengið upp hvort einhver með því nafni væri skráður fyrir netfangi. Ég sló inn að gamni mínu McCartney, í von um að finna Paul (þótt mér hafi í raun ekki dottið í hug að hann myndi nokkurn tímann skrá sig undir réttu nafni á netinu). Ég fann ekki Paul en ég fann 'James Louis MCartney'. Var mögulegt að sonur McCartneys væri skráður fyrir netfangi undir eigin nafni? Ég ákvað að senda honum póst. En í stað þess að vera eins og einhver brjálaður Paul aðdáandi, ákvað ég að spyrja bara um James. Svo ég skrifaði honum örstutt bréf sem hljómaði einhvern veginn svona: 'Er mögulegt að þú hafir verið í British Airways flugvél á milli Munchen og London, þennan ákveðna dag?' Hann skrifaði mér til baka og sagði: 'Það passar.' Svo ég skrifaði honum aftur til að útskýra af hverju ég spurði þessarar undarlegu spurningar og að ég hafi bara viljað fá að vita fyrir víst að það var í raun hann sem ég sá. Hann skrifaði mér aftur til baka og sagði mér þá m.a. að hann væri búinn að vera að vinna svolítið með pabba sínum og að hann spilaði meðal annars á gítar í einu lagi á nýju plötu pabba síns sem væri væntanlega nokkrum mánuðum síðar. Þetta hljómaði allt mjög spennandi en auðvitað var mögulegt að þetta væri í raun einhver að bulla. Nema hvað nokkrum mánuðum síðar kom út platan Flaming Pie og eitt það fyrsta sem ég gerði var að athuga hvort James McCartney spilaði á gítar í einhverju laganna. Og jújú, James er skráður sem lead gítaristi á Heaven on a Sunday. Þann dag vissi ég fyrir víst að ég hafði í alvöru séð James í flugvélinni og að það var hann sjálfur sem skrifaði mér. Hey, fyrir mikinn Paul McCartney aðdáanda er ekkert smá spennandi að hafi átt í tölvusamskiptum við einkasoninn!

Áður hafði ég skrifast á við bæði May Pang, fyrrum kærustu Johns Lennons, og Laurence Juber sem var gítaristi í síðustu útgáfu Wings.

Ástæða þess að ég rifja hér upp kynni mín af James McCartney er sú að eftir mörg ár við gítardútl hefur hann loks rifið sig upp úr feimninni og er farinn að spila með eigin hljómsveit. Hér fyrir neðan má m.a. sjá hann syngja lag Neil Youngs Old man. Ég þekki ekki lagið sem hann spilar strax á eftir í sama vídeói. Það gæti verið eitt af hans eigin. Hann semur sín eigin lög eins og pabbi gamli. Og eins og pabbinn getur hann spilað á hvað sem er. Hann er víst fanta gítarleikari en spilar líka á píanó og trommur og ukulele. Í seinna vídeóinu hér að neðan spilar hann á píanó og virðist alveg þokkalegur við það.

 

Snillingurinn John Samson

John Samson er snillingur. Ég hef bloggað um hann áður.

David Arnason, annar Vestur Íslendingu, prófessor í ensku við Manitobaháskóla og fyrrum yfirmaður minn við íslenskudeildina, kenndi John eitt sinn á námskeiði í ljóðagerð. Hann sagði að aldrei á sínum 30 ára kennsluferli hefði hann kennt eins efnilegu ljóðskáldi. Og fleiri hafa tekið eftir snilldinni í textum John's. Þegar platan Reconstruction site kom út fékk hún meðal annars þann dóm að textar hljómsveitarinnar væru þeir langbestu sem heyrðust í tónlist í dag.

Hér eru nokkur frábær Weakerthans lög.

Psalm for the Elks Lodge

 

 Sun in an empty room

 

Watermark

 

And my favorite of their videos: Our retired explorer


 
 

Því miður var vídeóið ekki til í minni útgáfu þannig að það passar ekki alveg á síðuna.


mbl.is Útnefndur listasendiherra Winnipeg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta kvennahlaupið í Winnipeg fyrir sjö árum

Í dag eru liðin sjö ár frá því fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í Winnipeg. Ég stóð fyrir því að koma hlaupinu á með hjálp nokkurra góðra Íslendinga og Vestur Íslendinga. Ég hafði hugsað um það frá því ég flutti fyrst til Kanada að koma þessu hlaupi á, en það var ekki fyrr en síðasta árið mitt í Winnipeg sem ég dreif í þessu.

Í kringum sjötíu konur og einn hundur tóku þátt og peningarnir sem söfnuðust voru gefnir til vestur-íslenska blaðsins Lögbergs-Heimskringlu sem átti þá í töluverðum fjárhagsörðugleikum. 

Hér er vídeó sem ég gerði á sínum tíma um þetta skemmtilega hlaup.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband