Bjartsýnn

Annað hvort er þessi breski mannfræðingur ákaflega bjartsýnn eða þá hann er tungumálasnillingur. Að telja sig geta lært og skrásett tungumálið á einu ári er hér um bil útilokað. Tungumál eru flóknari en svo.

Málvísindadeild Háskólans í Bresku Kólumbíu hefur náð ákaflega langt í því að rannsaka tungumál indjána hér í fylkinu og einn umsjónakennara minna er til dæmis ákaflega framarlega meðal merkingarfræðinga sem vinna með sjaldgæf tungumál. Maðurinn hennar er setningafræðingur og saman hafa þau tvö unnið í áraraðir við að skrásetja Lilloet málið sem aðallega er talað í um þriggja klukkutíma fjarlægð frá Vancouver. Þau myndu vera fyrsta fólk til að viðurkenna að þau ættu langt í land með að skilja tungumálið. 

Það er skylda í deildinni að taka áfanga í aðferðafræði við tungumálarannsóknir lítt þekktra tungumála og ég tók þann áfanga þegar ég var á öðru ári í náminu. Tungumálið sem notað var það árið heitir Gitxsan og er af Tshimsian ætt, talað aðallega í norðurhluta Bresku Kólumbíu í bæjunum Kispiox og Hazelton og svæðunum ar í kring. Til var málfræðibók fyrir tungumálið, samið af málfræðingnum Bruce Rigsby sem hafði dvalið langtímum á svæðinu fyrir einum tuttugu árum. Málfræðin var nokkuð heilleg og tókst hann á við hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingafræði, setningafræði og að litlu leyti merkingarfræði. Viðamikið verk og mikilvægt. En þegar við, hópur um 12 nemenda, fórum að vinna með málhöfunum sjálfum kom í ljós hversu djúpt þú þarft í raun að kafa til þess að skilja hvað er í gangi.

Ég lagði fyrst og fremst áherslu á tíð og horf í málinu og skoðaði þar sérstaklega morfem eins og dim sem fyrst og fremst merkir framtíð, gi sem merkir þátíð í ákveðnum samböndum, yukw sem merkir framvinduhorf og hlaa sem er flókið fyrirbæri og virðist standa fyrir að atburður er í nánd. Rigsby sagði að hlaa væri venjulegt byrjunarhorf en rannsóknir mínar sýndu að svo var ekki. Þá hafði hann lítið sagt um gi. Á yfirborðinu virðast þessar litlu einingar hafa ákveðna merkingu en þegar betur er að gáð er oft ýmislegt annað að gerast. Rigsby gerði sig besta og í hvert sinn sem ég skoða málfræðina hans dáist ég að því hversu vel honum tókst til. En eina leiðin til að ná að skýra tungumál virkilega vel er að kafa ofan í það og eyða miklum tíma með málhöfunum sjálfum.

Það er þess vegna sem ég segi að ætlunarverk þessa breska mannfræðings er ómögulegt. Hann getur safnað eins miklu af uppteknum textum eins og hann vill en það mun ekki eitt og sér bjarga málinu eða varðveita það. Jafnvel þótt hann nái á einu ári að læra málið svo vel að hann geti talað það eftir eitt ár (sem ekki er líklegt því þetta mál er væntanlega tengt inuktituk og því býsna flókið) þá mun það ekki vera nægjanlegt heldur því þótt maður geti talað tungumál mun maður aldrei ná orðaforðanum sem innfæddir hafa, maður fær aldrei sama skilning og málvitundin verður aldrei sú sama. Ég ætti að vita það. Ég er búin að búa í enskumælandi landi í næstum ellefu ár og tala það reiprennandi, en ég get ekki einn heyrt muninn á sumum sérhljóðum sem notaðir eru í málinu.

Eina leiðin til að virkilega varðveita mál er að halda því lifandi. Ef það tekst ekki verður að vinna eins miklar málfræðirannsóknir á því og hægt er áður en síðasti málhafi deyr. Það þarf að skrásetja eins mörg smáatriði og hægt er. Hreinar upptökur af einhverjum sem talar málið er ekki að varðveita það, því komandi kynslóðir munu aldrei skilja hvað segir á þessum upptökum.

Mál sem eingöngu er til á segulbandi er dautt mál.


mbl.is Skrásetur tungumál á Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur matur á borðum

Sjáið hvað ég var að borða í dag: Skyr og harðfisk með íslensku smjöri.

íslenskur matur

Ykkur finnst það líklega ekki bloggunarvert. En hjá mér er þetta hátíðarmatur því það er ekki oft sem ég fæ að borðað ekta íslenskt. Íslenskur matur er ekki seldur í Vancouver. Hef reyndar séð úthafsrækju frá Íslandi einu sinni eða tvisvar en það er undantekning. Fyrir jólin er svo hægt að kaupa innfluttan harðfisk sem Íslendingafélagið flytur inn, en til þess verður maður að fara á basar félagsins.

Og hvernig fékk ég þetta þá? Ekki lét ég senda mér smjör og skyr frá Íslandi. Það hefði skemmst á leiðinni, og þar að auki hefði ég ekki fengið að flytja það inn. Kanadíska innflutningsráðið er stíft á matvælum. Miklu stífara en þeir eru sunnan landamæra. En það var einmitt þar sem ég keypti þetta. Í Whole Foods í Seattle er hægt að kaupa skyr og smjör og súkkulaði frá Siríusi. Íslenskt mjólkursúkkulaði er einmitt besta mjólkursúkkulaði í heimi svo ég keypti fjögur stykki. Þau eru búin. Ég lét suðusúkkulaðið eiga sig því þótt ég sé suðusúkkulaðimanneskja (fremur en mjólkursúkkulaðis) þá verð ég að viðurkenna að ólíkt mjólkursúkkulaðinu er suðusúkkulaðið frá Íslandi ekki best. Lindt, Valhrona og Michel Cluizel gera öll betra suðusúkkulaði.

En sem sagt, keypti súkkulaði, skyr og smjör í Seattle, setti í kælitösku með ís og keyrði til baka (skaust fyrst til að sjá Ringo Starr spila á trommur og syngja). Átti svo gamlan harðfisk (hann skemmist ekkert ef bréfið er óopnað) og naut mín vel þar sem ég sat yfir kræsingunum. Það er reyndar ekkert súkkulaði á myndinni sem ég tók í dag því ég kláraði það í gær.

Ef aðeins Seattle væri aðeins nær þá myndi ég keyra reglulega niðureftir, bara til að kaupa skyrið og súkkulaðið. En með endalausum biðum á landamærunum þá tekur yfirleitt um fjóra tíma að fara þarna suðureftir. Því miður. 

Og nú ætla ég að spila fótbolta og brenna smjörinu.


Svona rétt að láta frá mér heyra

Ég hef ekki bloggað mikið að undanförnu. Bæði er að ég hef reynt að einbeita mér að því að skrifa ritgerðina mína í stað þess að blogga, en einnig það að  ekki hefur verið frá miklu að segja. Ég borða, sef, skrifa ritgerð og ýmist spila fótbolta, hjóla eða geng á fjöll til að fá smá hreyfingu. 

Annars fór ég í brúðkaup um helgina. Rina sem vann með mér hjá VANOC giftist ástinni sinni, honum Carlo.  Þau eru bæði af filipískum uppruna og voru hérumbil allir í veislunni filipískir. Á Íslandi er ég með minnsta fólki, hvar sem ég kem, en í filipískri samkomu er ég bara nokkuð há. Allir voru mjóir og litlir. Varla sást feit manneskja og varla sást hávaxin manneskja. Ég held það hafi kannski verið fimm ljóshærðir af 150 veislugestum. Það er eiginlega ótrúlegt í Kanada hvað fólk af sama uppruna heldur mikið saman. Eins og ég segi, flestir þarna voru filipískir, og þegar ég fór í jarðaför um daginn þar sem sá látni hafði verið af portúgölskum uppruna, þá voru næstum allir í kirkjunni portúgalskir. Ég hef séð líka hvernig fólk af kínverskum, indverskum og japönskum hefur tekið yfir heilu hverfin og jafnvel heilu borgirnar. Í Richmond hér beint fyrir sunnan Vancouver er um helmingur allra borgarbúa af kínverskum ættum - ég hef meira að segja að það sé hátt upp í 60%. Ég veit ekki hvort þetta er rétt en það er ljóst að Kínverjar eru fjölmargir þar því þegar maður fer í verslunarmiðstöðina þarna syðra þá er í mesta lagi fjórðungur hvítur. Og flest skilti á verslunum eru á kínversku. Við Íslendingar erum of fáir til að halda svona saman og raunar gerum við lítið af því að hittast. Ég hef til dæmis ekki séð Íslending hér síðan sautjánda júní og þó búa þó nokkuð margir á svæðinu. Ætlaði reyndar að reyna að koma á íslenskri grillveislu á ströndinni fyrir sumarlok. Þyrfti kannski að drífa í því.

Ritgerðarskrif ganga bara nokkuð vel. Í síðustu viku sagði umsjónarkennarinn mér að hún þyrfti ekki að sjá kafla tvö aftur fyrr en ég skilaði ritgerðinni inn. Ég ætla reyndar að skipta þeim kafla í tvo. Hann er núna rúmlega 90 síður og betra er að hafa tvo 45 síðna kafla. Sérstaklega af því að hinir kaflarnir þrír eru í kringum þá lengd. 

Ég ætla að reyna að skrifa aðeins oftar hér á bloggið en get ekki lofað að það verði mjög oft samt sem áður. En ég vona að þið hafið ekki alveg gefist upp á mér þótt ekki sé oft uppfært.


Mamma Bamba ræðst á gæludýr - athyglisvert myndband

Þegar við heyrum minnst á dádýr hugsum við vanalega um Bamba og mömmu hans og fáum tár í augun. Þegar ég sé þessar fallegu skepnur í sínu náttúrulega umhverfi stoppa ég alltaf og dáist að þeim um stund. En það er líka skap í þeim og það sjáum við ekki oft. En nýlega hafa dádýrin í kringum Cranbrook í Bresku Kólumbíu sýnt og sannað að engum skal dirfast að abbast upp á þau. Í þessu myndbroti sem tekið var nýlega í bænum má sjá móður verja barnið sitt. Það sem er kannski skrítnast við þetta er að það er köttur sem abbast ubb á Bamba en móðirin ræðst á hund sem er þarna nálægt (reyndar ræðst hún líka á köttinn síðar). Fólki hefur brugðið við að sjá þetta því fæstir höfðu séð þessa hlið á mömmu Bamba, en á móti held ég að allir skilji hana. Hún hlýtur að hafa talið meiri ógn stafa af hundinum en kettingum enda hundurinn stærri og sterkari, og hugsanlega hefur Bambamamma slæma fyrri reynslu af hundum.

Viðbót: Las í athugasemd við myndbandið að dýragæslumaður sem sá myndbandið heldur því fram að móðirin sé enn með barni og það skýri að hluta til árásargirnina. Og konan með vídeóvélina virkaði ekki heldur beinlínis sem afslappandi pilla. 

 

En þetta myndband sínir bara eitt af fjölmörgum dádýraárásum undanfarnar vikur og í mörgum tilfella hefur um hreina árás verið að ræða þar sem ekkert ungviði hefur verið nálægt og enginn verið að abbast upp á dýrið. Væntanlega hefur þetta eitthvað með það að gera að þessar skepnur hafa í auknum mæli verið að flytjast nær borgum og bæjum þar sem auðveldara er að afla sér ætis en úti í náttúrunni. Þau gerast þar með vön mönnum og gæludýrunum þeirra og með betri þekkingu kemur meira öryggi. 

Enginn veit nákvæmlega hvað skal gera. Þetta eru yfirleitt yndislegar skepnur sem við viljum hafa í kringum okkur en það þarf greinilega að finna mörkin svo hvorugur aðili hljóti skaða af. 

 


Stjörnum prýddir tónleikar - Ringo í essinu sínu

Það eru liðin rúm tuttugu ár síðan Ringo Starr kom í fyrsta sinn fram með sinni breytanlegu hljómsveit, 'The All Star Band'. Þá voru í hljómsveitinni m.a. Billy Preston og Joe Walsh. Síðan hefur hann reglulega farið í tónleikaferð með hljómsveitinni, en hljómsveitarmeðlimir koma og fara eftir því sem hentar í hvert sinn. Það virðist aldrei vera vandamál fyrir Ringo að fá menn til að spila með sér. Bæði er að hann er léttur og skemmtilegur og virðist koma vel saman við alla, en einnig er hann auðvitað goðsögn í lifanda lífi sem fyrrum Bítill. Þeir Burton Cummings og Randy Bachman (úr Guess Who og Bachman líka úr BTO) hafa líka spilað með honum, svo og Peter Framton, sonur Ringos Zak Starkey, og fleiri og fleiri. Þegar ég keypti miða á Ringo og All Star Band 2010 vissi ég því að ég mætti eiga von á að sjá fleiri stjörnur en Ringo. En ég vissi ekki hverjar.

Tónleikarnir voru haldnir á túni við víngerð í Woodinville, Washington ríki, rétt norðaustan við Seattle. Þar er búið að koma fyrir stóru tjaldi og á hverju sumri eru haldnir þar fjölmargir tónleikar. Tónleikagestir mæta með kex og osta og kaupa svo vín á staðnum. Síðan er setið á dúkum og teppum og matur snæddur á meðan beðið er eftir að tónleikar hefjist. Ég kom fremur seint, stuttu áður en tónleikarnir hófust, en af því að ég var bara ein var miklu auðveldara að finna auðan blett á lóðinni, en ef ég hefði verið með öðrum. Ég fékk því magnað stæði, beint fyrir framan sviðið, fyrir aftan dýrasta svæðið þar sem fólk sat á stólum. En af því að við sátum í brekku sá maður yfir þá sem voru fyrir framan. Þetta var frábært útsýni þegar miðað er við að ég keypti ódýrasta miða. Ætti kannski að útskýra að ódýrustu miðarnir voru sæti á grasinu en ekki í stólum eins og dýrari miðarnir. En það er líka langbest. Það er þannig sem fólk nýtur nestisins og þess sem svæðið hefur uppá að bjóða. 

Ringo var ótrúlega tímanlegur. Á miðanum stóð að tónleikar hæfust klukkan sjö og ég held hún hafi ekki verið mikið yfir það þegar maður heyrði allt í einu fyrstu tónana af 'It don't come easy'. Ég skimaði eftir trommaranum snjalla en hann kom ekki á svið fyrr en rétt áður en kom að hans hluta í laginu: Got to pay your dues if you want to sing the blues, but you know it don't come easy...

Karlinn er orðinn sjötugur en hann hreyfði sig eins og unglingur og reitti af sér brandarana þar að auki.

Eftir upphafslagið skellti Ringo sér í gamla Bítlalagið 'Honey don't en síðan kom að nýrra lagi sem ég þekkti ekki en kallast 'Choose love'. Það hljómaði fallega og Ringo gerði þetta vel.

En nú kom að stjörnunum. Fyrstur var kynntur til sögunnar Rick Derringar sem eitt sinn spilaði með hljómsveitinn The McCoys og þeirra stærsti smellur var án efa lagið 'Hang on Sloopy' sem sat í einu viku á toppi breska vinsældarlistans þar til því var skellt um koll af Bítlunum með 'Yesterday'. Það var alla vega nógu vinsælt til þess að ég hafi heyrt það.

Á eftir Rick Derringer tók við snillingurinn Edgar Winter með næststærsta smell sinnar hljómsveitar (The Edgar Winter Group): 'Free Ride'. Ótrúleg tilviljun að fyrir ferðina niðureftir setti ég saman disk með eintómum þjóðvegalögum og þar á meðal var einmitt við Free Ride með Edgar Winter Group. Winter var fyrsti maðurinn (að eigin sögn) að setja ól á hljómborð og spila á það eins og gítar.

Þegar þriðja stjarnan var kynnt til sögunnar, Wally Palmer úr hljómsveitinni The Romantics, stóð ég loks á gati...þar til fyrstu tónar lagsins hófust: 'Talking in her sleep'. Þekkti það undireins. "When you close your eyes and go to sleep/And it's down to the sound of a heartbeat/I can hear the things that you're dreaming about/When you open up your heart and the truth comes out. You tell me that you want me/You tell me that you need me... Ah, níundi áratugurinn!!! Ringo sagði eftir lagið: Einu sinni talaði ég í svefni!

Ringo söng 'I wanna be your man' en síðan kynnti hann næstu tvær stjörnur. Fyrst var það Gary Wright sem þekktastur er fyrir smellinn 'Dreamweaver' sem hann samdi eftir að George Harrison gaf honum bók um hindúisma.

Á eftir Wright var röðin komin að bassaleikaranum Richard Page úr hljómsveitinni Mr. Mister. Sú hljómsveit var einnig mjög vinsæl á níunda áratugnum og lögin þeirra eru nátengd unglingsárum mínum. Page klikkaði ekki heldur fór beint í lagið Kyrie sem var ótrúlega vinsælt á Íslandi í kringum áramótin 1985/86. Þetta var ágætis uppbót fyrir það að ég fór aldrei á tónleika á unglingsárunum. 

Aftur var komið að Ringo og hann söng fyrst nýja lagið sitt 'The other side of Liverpool' sem fjallar um æskuárin, og svo skellti hann sér beint í Yellow Submarine og allir sungu með.

Nú var komið að öðrum umgangi hjá stjörnunum og Winter hóf seinni umferð með aðalsmelli sínum, laginu 'Franskenstein' þar sem hann spilaði bæði á hljómborð og saxafón. Ég las einhvers staðar að hann hafi átt einn stærsta þátt í að gera syntheziserinn að vinsælu hljóðfæri og að 'Frankenstein' hafi verið fyrsta lagið þar sem svuntuþeysir var í aðalhlutverki. Ég var annars hissa á því að 'Frankenstein' hafi verið vinsælla lag en 'Free Ride' því ég þekkti aðeins það síðara.

Ringo söng lagið Peace Dreamer, einnig af nýju plötunni en það var ekki eins gott og 'The other side of Liverpool'. En kannski var það bara vegna þess að ég hafði aldrei heyrt það en var búin að heyra Liverpool lagið. Síðan hófst lagið Back Off Boogaloo sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Ég hlustaði á Ringo í bílnum á leiðinni niðureftir og hækkaði alltaf í þegar kom að þessu lagi.

Nú var komið að Palmer sem söng lagið 'What I like about you' sem var fyrsti smellur The Romantics. Virkilega gott lag þótt það veki ekki hjá mér eins miklar minningar og 'Talking in her sleep'.  Á eftir Palmer söng Derringer annan af sínum smellum, Rock and Roll Hoochie Koo, og skellti sér svo bein yfir í Eruption með svakalegu gítarsólói. Gítarinn hreinlega hljóðaði í næturkyrrðinni.

Ringo tók því næst gamla Bítlalagið 'Boys'. Ókei, það var ekki upphaflega Bítlalag. Það var fyrst sungið af The Shirelles, en Bítlarnir tóku það síðan upp og það kom út á fyrstu plötu þeirra, Please Please me. Áður en hann byrjaði með Bítlunum söng Ringo þetta lag með Rory Storm and the Hurricane og honum þykir greinilega enn vænt um lagið. Þegar hann kynnti það sagðist hann ætla að syngja lagið því honum þætti það gaman. 

Komið var að tveim síðustu lögum stjarnanna. Fyrst söng Wright 'Love is alive'  og síðan söng Ricard Page hitt Mr. Mister lagið sem varð vinsælt, 'Broken Wings'. Það var greinilegt að yngri mennirnir tveir Richard Page og Wally Palmer voru ekki eins þekktir og hinir því undirtektirnar við þeirra lögum voru ekki eins miklar og hjá hinum eldri. En kannski ekki skrítið. Tónleikagestir voru flestir komnir yfir fimmtugt og margir hverjir á sjötugsaldri. Þetta var að miklu leyti fólkið sem hefur fylgt Ringo frá upphafi. En þegar Romantics og Mr. Mister voru vinsæl þá voru þau væntanlega upptekin við að ala upp börn og hlusta á gamlar plötur frá sjöunda og áttunda áratugnum. 

Ringo sá um að ljúka tónleikunum og við tók syrpa af frábærum lögum. Fyrst 'Photograph', síðan 'Act Naturally', þá 'With a little help from my friends' og að lokum 'Give peace a chance'. 

Mér fannst vanta nokkur lög sem ég hefði gjarnan viljað heyra. Þar situr á toppnum lagið 'Goodnight Vienna' af samnefndri plötu. En ég hefði líka viljað heyra 'You're sixteen', 'Oh my my' og 'No no song'.  Og að sjálfsögðu hefði ég viljað heyra 'Octopus' garden' og 'Don't Pass me by'. Ó hvað gaman hefði verið að syngja með.

Almennt séð voru tónleikarnir frábærir og sá gamli hefur engu glatað. Hann spjallaði við tónleikagesti á milli laga og þóttist meira að segja gleyma sér á spjallinu. Eitt sinn sagði hann: "Ég veit ekki hverjir hafa meira gaman af þessu, þið eða ég." Stjörnurnar hans voru fjölbreyttar svona hver úr sinni áttinni og allt saman frábærir tónlistarmenn. Það kryddaði tónleikana að heyra svona margt skemmtilegt. Ég viðurkenni reyndar að ef ég hefði farið á Paul McCartney tónleika þá hefði ég ekki verið ánægð með að aðrir væru eitthvað að frekjast til að syngja, en á Ringo tónleikum er það allt í lagi því það var bara svo gaman að vera þarna. Þar að auki er ég vön því að hlusta á Ringo tromma á meðan aðrir syngja. 

Og það að tónleikarnir fóru fram undir beru lofti í fallegu umhverfi vínekrunnar sakaði ekki.

Ég get sagt með sanni að brosið í andliti mér fór ekki af mér allt kvöldið, nema að sjálfsögðu til að syngja með. 

Hér er myndband sem einhver tók upp á tónleikum fyrr í sumar. Eitthvað er reyndar að hljóðblöndun þarna í upphafi. En þetta er gott sambland af því sem þarna var boðið uppá:

 
P.S. Ég tók ekki myndirnar á síðunni. Myndavélar voru ekki leyfðar á svæðinu og ég vildi ekki taka sénsinn. Svo myndirnar á síðunni eru af netinu, teknar hér og þar, og engin þeirra á All Star tónleikum.

Eitthvað sem drottinn bjó til

Fyrir nokkrum dögum horfði ég á lítið þekkta sjónvarpsmynd frá HBO sem nefnist Something the Lord made eða 'Eitthvað sem drottinn bjó til'. Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um lækninn Dr. John Blalock og aðstoðarmann hans, hinn ómenntaða Vivien Thomas. Saman breyttu þessir tveir menn nútímalæknavísindum þegar þeir framkvæmdu fyrstu hjartaaðgerðina.

Ég hafði aldrei heyrt neitt um þessa menn og ekkert heldur um hina svokölluðu Blue babies, eða 'bláu börnin'.

John Blalock var virtur skurðlæknir og yfirlæknir á skólasjúkrahúsinu Johns Hopklns í Baltimore. Á meðan hann vann í Nashville réð hann til sín ungan, svartan smið, Vivien Thomas, með drauma um að verða læknir. Thomas var búinn að safna fyrir skólanámi í mörg ár þegar bankinn sem geymdi peninga hans fór á hausinn og þar með draumurinn um að verða læknir. En Blalock sá getu þessa unga manns og réð hann til sín sem aðstoðarmann og síðar sem yfirmann rannsóknastofu sinnar. Var Blalock duglegur að kenna Thomas það sem hann kunni og auk þess lá Thomas yfir bókum. Kunnátta hans í læknisfræði var því jafnmikil og læknis sem gengur í skóla, en maður fær ekki gráðu fyrir það.

Þegar Blalock tók við stöðu yfirlæknis við Johns Hopkins tók hann Thomas með sér og fékk því framgengt að hann yrði gerður að yfirmanni rannsóknastofunnar. Slíkt var þá algjörlega óþekkt að svartur maður gegndi svo hárri stöðu. Þetta var á fimmta áratugnum en enn þurftu svartir að ganga inn um annan inngang að sjúkrahúsinu. Thomas sætti mikillar gagnrýni læknanna á staðnum en ekki síður frá öðrum svertingjum sem fannst sumum hann telja sig merkilegri en þá af því að hann fékk að ganga um í hvítum slopp. 

Stuttu eftir að þeir Blalock og Thomas komu til Baltimore tók Blalock að sér það verkefni að finna lausn á vanda hinna svokölluðu bláu barna, sem fengu ekki nóg súrefni í lungun. Vegna anna við kennslu og skurðaðgerðir hafði hann hins vegar lítinn tíma til að sinna rannsóknum svo Thomas sá að mestu um rannsóknavinnuna, en fékk hjálp frá Blalock. Þeir náðu eða endurgera í hundi ástand bláu barnanna, en það eitt tók marga mánuði. Þegar það hafði tekist tóku þeir við að finna lausn og lá lausnin í því að leiða æðar framhjá vandræðastaðnum. Ég er ekki læknir svo ég get ekki lýst þessu nákvæmlega en þið finnið nánar um þetta m.a. á Wikipedia. Þeir þurftu að prófa sig svolítið áfram en þetta tókst. Án mikilla æfinga var ákveðið að framkvæma aðgerðina á lítilli stúlku, Eileen, sem var um það bil að deyja úr veikinni. Margir lögðust hart að Blalock að gera þetta ekki þar sem hann væri í raun að framkvæma tilraun á barninu en með samþykki foreldra var ákveðið að drífa í þessu ef það mætti bjarga lífi Eileen. Blalock framkvæmdi aðgerðina (þar sem Thomas var ekki með læknaleyfi) en hann lét Thomas standa fyrir ofan sig og segja sér til. Þetta olli mikilli reiði læknasamfélagsins en Blalock fékk sínu fram. 

Aðgerðin tókst vel og Eileen var enn á skurðborðinu þegar litur hennar breyttist úr bláu í bleikt. Ótrúlega áhrifaríkt atriði. Veit ekki hvort það gerðist svo fljótt í alvörunni.

Fyrsta hjartaskurðaðgerð í heimi og John Blalock varð að hetju. Skrifað var um hann í blöðum og myndir birtar af honum út um allt. Ekki var minnst á Vivien Thomas. Og það sem var kannski verst var að í þakkarræðu við verðlaunaafhendingu, þakkaði Blalock læknunum sem aðstoðuðu hann en hann sagði ekki orð um Thomas, sem þó átti jafnmikinn þátt í að þetta tókst. Thomas, smiður eins og ég áður sagði, hafði t.d. sjálfur smíðað og hannað mörg verkfæri til að nota við aðgerðina, og mér skilst að sum þeirra séu enn notuð. Þetta olli vinaslita á milli mannanna, og Thomas hætti að vinna fyrir Blalock. Hann komst hins vegar fljótt að því að þessi vinna var líf hans, svo hann kyngdi stoltinu og bað Blalock um vinnu. Thomas varð síðar gerður að kennara við Johns Hopkins og fékk að lokum þá viðurkenningu sem hann átti skilið.

Á vefnum má finna athugasemdir fólks þar sem mikið er talað um kynþóttafordóma og því haldið fram að jafnvel Blalock hafi verið haldinn kynþáttafordómum og því hafi Thomas ekki fengið þær þakkir sem hann átti skilið. Og það er ábyggilega margt til í því. Á fimmta áratugnum voru kynþáttafordómar enn mjög sterkir í Bandaríkjunum og talið var að svartir menn ættu ekkert erindi í heim hvíta mannsins.

En það má heldur ekki gleyma því að Thomas var óskólagenginn og próflaus og ég hef fulla trú á því að það hafi spilað jafnmikið hlutverk í því að hann fékk ekki þá viðurkenningu sem hann átti skilið. Akademíska samfélagið er snobbað og þeir sem eru minna menntaðir fá yfirleitt að finna fyrir því. Ég veit af eigin reynslu eftir að hafa kennt í háskóla með aðeins masterspróf. Ekki var litið á mig sem fræðimann eins og hina sem höfðu doktorsgráðu. Ég held að minna hafi farið fyrir þessu á Íslandi en hér í N-Ameríku skiptir prófgráðan ótrúlegu máli og ekki síður úr hvaða skóla maður útskrifast. Gráður eru ekki allar jafnar. Ég held nefnilega að það hafi verið býsna erfitt fyrir læknana við Johns Hopkins að veita ómenntuðum manni þá viðurkenningu sem Thomas átti skilið. Fáránlegt auðvitað, enda vitum við að það er ekki það sama að vera menntaður og skólaður, og að sjálfsögðu átti Thomas að fá sömu viðurkenningu og Blalock. En það má ekki ganga út frá því að hörundslitur hans hafi verið eina ástæðan fyrir því að hann fékk hana ekki fyrr en á gamalsaldri.

Viðbætur: Las rétt í þessu að heiðursdoktornafnbótin sem John Hopkins veitti Thomas havi ekki verið í læknavísindum heldur í lögum, sem er auðvitað skrítið þegar tekið er tillit til þess að hann hafði ekkert með lög að gera. Kannski þýðir þetta einfaldlega að Lagadeildin ákvað að það væri þess virði að heiðra hann, en læknadeild sá ekki ástæðu til þess. Enn er fólk að berjast fyrir því að læknadeildin við John Hopkins skólann sjái sóma sinn í því að veita Vivien Thomas heiðursdoktorsgráðu í læknavísindum, þrátt fyrir að hann sé fallinn frá.


Eggið og hænan

Ég á svolítið erfitt með að sjá hvernig rökin í þessari grein ganga í berhögg við kenningar Chomsky's þótt höfundar komist kannski að þeirri niðurstöðu. Ég sé ekkert í greininni sem í raun gengur gegn hugmyndum Chomsky's um alþjóðlegu málfræðina og um innbyggða möguleika mannsins á að læra tungumál. Hann sagði heldur aldrei að öll tungumál væru eins eða hér um bil eins heldur að öll tungumál byggðust á ákveðnum takmörkuðum fjölda af reglum.

Ég held að ein kenning hljóðkerfisfræðinnar sem á ensku nefnist Optimal Theory lýsi þessu best. Þar er gert ráð fyrir að öll tungumál heims hafi í raun sömu hljóðkerfisreglurnar en reglunum er raðað á mismunandi hátt og að mismunur á milli tungumála sé afleiðing þessarar mismunandi röðunar. Tökum sem dæmi tvær reglur sem stangast á í tveggja atkvæða orðum:

1. Áhersla er alltaf á öðru atkvæði.
2. Áhersla er aldrei á síðasta atkvæði.

Orð eins og 'kona' t.d. myndi brjóta aðra hvora þessa reglu. Spurningin er hvora regluna myndi hún brjóta? Segjum að í tungumáli A sé röð reglnanna tveggja sú að reglu eitt er raðað hærra en reglu tvö. Þá er verra að brjóta reglu eitt en reglu tvö og talandi myndi því fylgja reglu eitt og brjóta reglu tvö. Niðurstaðan væri sú að áherslan væri á öðru atkvæði jafnvel þótt það þýddi að hún væri á síðasta atkvæði orðsins:

ko'na

Segjum svo að í tungumáli B væri þessu öfugt farið. Röð reglnanna væri sú að regla tvö væri sett hærra en regla eitt og því mikilvægara að hafa ekki áherslu á síðasta atkvæði en að hafa áhersluna á öðru atkvæði. Niðurstaðan væri því:

'kona

Optimality theory passar því hugmyndir Chomsky's því öll tungumál hafa allar þessar reglur en munurinn á milli tungumálanna kemur fram í því hvernig reglunum er raðað.

Við vitum líka að börn fæðast með getuna til þess að framkvæma öll möguleg hljóð sem notuð eru í málkerfum. En smátt og smátt fara þau að móta hljóðkerfið í huga sér og á ákveðnum aldri fara þau að missa getuna til þess að móta þau málhljóð sem ekki eru hluti af því tungumáli sem þau læra af umhverfinu. Vegna þessa eiga ung börn auðveldara með að ná framburði erlends tungumáls en fullorðnir. Við fæddumst öll með möguleikann á því að bera fram smelluhljóðin í sumum afrískum málum en fæst okkar gætu það á fullorðins aldri. 

En svo við víkjum að þessari grein. Það er margt áhugavert í henni en sumt er alls ekki útskýrt nægjanlega til þess að hægt sé að draga af því neinar niðurstöður. T.d. þegar talað er um áströlsku tungumálin þar sem nauðsynlegt er að vita áttirnar til þess að geta talað um einföldustu hluti. Því er haldið fram að af því að áttirnar eru svona mikilvægar í tungumálinu þá verði þær mikilvægar í samfélaginu því fólk þarf að vita hver áttin er til að geta talað. Hér er ekki ljóst hvort kom á undan, eggið eða hænan. Hugsanlegt er að áttir hafi verið svo mikilvægar í samfélaginu að það endurspeglaðist í tungumálinu og er nú orðið samgróið því. Ef áttirnar hafa að öðru leyti misst mikilvægi sitt en lifa fyrst og fremst í tungunni þá er það samt engin rök fyrir því að tungumálið hafi mótað menninguna. En er greinilega merki um að tungumálið hefur áhrif á núverandi menningu. 

En það var líka margt athyglisvert í þessari grein. T.d. kom í ljós að í ensku þar sem lítill munur er gerður á milli vilja- og óviljaverks (Jón braut vasann) átti fólk mjög auðvelt með að munu hver gerði hvað, hvort sem það var af ásettu ráði eða ekki. Í spænsku og japönsku hins vegar, þar sem gerandi er oftar notaður með viljaverki (Jón braut vasann) en ekki þegar um óviljaverk er að ræða (vasinn brotnaði) áttu menn erfiðara með að muna hver braut vasann ef það var óviljandi. Þetta styður væntanlega þá skoðun að fólk noti alvöru setningar til þess að leggja hluti á minnið. Í íslensku notum við sitt á hvað 'Jón braut vasann' og 'vasinn brotnaði' ef brotið var óviljandi. Þar mun spila margt inn í hvort við notum germyndina eða þolmyndina, svo sem hvort það skiptir máli að það var Jón sem braut vasann, hvort við vitum hver braut vasann o.s.frv. Í slíku tilfelli held ég að menningin myndi hafa meiri áhrif á hvora setninguna við notum en ekki það að málið hafi áhrif á menninguna.

Annað dæmi: Litir eru mismunandi milli tungumála. Í íslensku notum við fyrst og fremst grunnlitina og síðan forskeytin dökk- og ljós- án örfárra samsettra lita (blágrænn) og annarra samsettra orða (karrígulur). Konur hafa yfirleitt víðara litróf en karlar. Enska hefur miklu fleiri orð sem notuð eru að öllu jafnaði, svo sem navy, turqois, tan, o.s.frv. Er íslensk menning eitthvað ólitríkari en enskan bara af því að þeir hafa fleiri orð? Eða er því öfugt farið kannski? Sum tungumál hafa aðeins tvö eða þrjú orð yfir liti. Tungumál í New Guinea og Congo hafa t.d. bara svart og hvítt. Mörg afrísk tungumál hafa svart, hvítt og rautt, o.s.frv. Nú hlýtur fólkið að sjá alla litina eins og við, en þeir greina kannski ekki á milli þeirra. Þeir sjá kannski litbrigði af sama lit þar sem við teljum okkur sjá marga liti. En er það svo af því að þeir hafa bara tvö  orð yfir litina eða hafa þeir bara tvö orð vegna þess að þeir þurfa ekki á fleirum að halda?

Ég er ekki að segja að þessi grein sé bull, en varast ber að draga og miklar ályktanir af því sem þar kemur fram því það getur oft verið mjög erfitt að greina að hvort kom fyrst, eggið eða hænan. 

 


mbl.is Hafði Chomsky rangt fyrir sér?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki séns að þetta verði brúðkaup aldarinnar

Brúðkaup aldarinnar? Í alvöru? Dóttir fyrrum forseta giftir sig og það er brúðkaup aldarinnar? Ekki séns. Það gæti vel verið að það sé viðburður sem vekur athygli í Bandaríkjunum en dettur nokkrum manni í hug að brúðkaup Chelsea Clinton verði stærra eða mikilvægara en þegar t.d. Vilhjálmur prins giftir sig, sem samkvæmt öllum slúðurblöðum verður að öllum líkindum innan tveggja ára? Þegar Karl og Díana giftu sig var það sýnt í beinni útsendingu út um allan heim og allar líkur eru á að svo verði einnig þegar Vilhjálmur giftir sig. Þá munu einnig verða útbúnir minjagripir af öllu tagi eins og þegar pabbi hans gifti sig. Leirtau, spilastokkar, minjaskeiðar, plattar, o.s.frv. Ekkert brúðkaup forsetadóttur mun komast nálægt því í athygli.


mbl.is Brúðkaup aldarinnar í uppsiglingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarlög - ábendingar þegnar

Ég var að dunda mér við það í morgun að setja saman disk með sumarlögum. Hann er ekki tilbúinn. Öll lögin verða að hafa 'summer' í titlinum. Ég er ekki búin að ákveða endanlega hvaða lög verða á disknum, né röðina, nema hvað hann mun pottþétt hefjast á 'Summer in the city' sem er besta sumarlag allra tíma.Hér eru lögin sem ég er komin með.

1. Summer in the City - Lovin Spoonful
2. Hot summer nights - Meatloaf 
3. Summer loving - Grease
4. Here comes the sun - The Beatles
5. Summertime - Robbie Williams
6. Lazy Hazy days of summer - Nat King Cole
7. In the summer time - Mongo Jerry
8. Summer Jammin - Inner CIrcle
9. Sunny - Bony M
10. Summertime Blues - Eddie Cochran
11. Summer '79 - The Ataris
12. The boys of summer - Don Henley
13. Summer of 69 - Bryan Adams
14. Summer fades to fall - Faber Drive
15. Summer holiday - Chris Isaak
16. Summertime - Kenney Chesney
17. Unemployed in the summertime - Emiliana Torrini
18. Summer skin - Death Cab for Cutie
19. All summer long - Kid Rock
20. School's out for summer - Alice Cooper
21. Gold int he air of summer - Kings of convenience

Allar ábendingar um önnur góð sumarlög vel þegnar en munið að orðið 'summer' eða þá 'sumar' verður að vera í tilinum. Heyrðu, var ekki til lag með Ingimar Eydal kallað 'Sumarást'?

Ef þið hafið skoðun á hver af þessum lögum verða að vera á disknum og hverjum ég ætti að henda, þá eru slíkar ábendingar að sjálfsögðu þegnar líka.  Eins og er eru þetta of mörg lög svo ég verð að skera niður.


Geitungastríðið

Ég hata geitunga. Þetta eru litlar, ljótar skepnur sem ekkert gott láta af sér leiða. (Ókei, þeir éta önnur skordýr sem oft kemur sér vel en fyrir  utan það...) Í fyrra grunaði mig að við hefðum geitungabú undir þakinu og hugsanlega inni í risgeymslunni minni því ég var alltaf að finna geitunga inni i íbúðinni þrátt fyrir net fyrir gluggum. Þar að auki voru óvenju margar í geymslunni.

Undanfarna daga höfum við tekið eftir geitungum sem skríða inn um holu undir þakinu (einmitt þar sem geymslan mín er) og það þýðir nær pottþétt að þarna er bú. Svo við hringdum í húseigandann og báðum hann um að senda meindýraeyði, en hann neitaði. Sagði að það væri ekki hans mál. Bull og vitleysa. Húseigandi sér um slíkt í húsum. Hann sagði að við gætum spreyjað þetta. Svoleiðis dugar næstum aldrei. Spreyið kemst ekki inn í búið og maður nær þeim ekki. En við ákváðum, öll sem búum í húsinu, að prófa þetta, og ef ekki gengi þá myndum við hringja á meindýraeyðinn og senda svo bara reikninginn til húseigandans.

Svo ég fór og keypti sprey. Bæði til notkunar utanhúss og innanhúss. Notaði fyrst innanhússspreyið í geymslunni hjá mér, og nýi nágranninn á miðhæðinni spreyjaði svo hinu inn um gatið. Gallinn er að þegar maður spreyjar þessu helvíti undir þakið þá kemur það inn. Ég sat og horfði á vídeó og fylgdist af og til með geymslunni, en ekkert gerðist. Nema mér fór að verða óglatt. Bölvað eitrað kom inn í íbúðina. Svo ég galopnaði gluggann í svefnherberginu, tók sængina mína fram í stofu, lokaði inn í svefnherbergið og svaf svo í stofunni í nótt. Svaf illa. Ekki góður sófi. 

Í morgun opnaði ég svo varlega hurðina og bjóst allt eins við að sjá geitunga á sveimi í herberginu, eftir að hafa flúið búið sitt í geymslunni, en sá engan. Allt lék í lindi. Engir geitungar hafa heldur sést við holuna í dag. En ég er ekki tilbúin til að fagna sigri enn. Ég er ekki viss um að við höfum náð þeim. Kannski koma þeir aftur á kreik á morgun eða hinn.

Og svo borga þessir andskotar ekki einu sinni leigu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband