Stöðumat
16.5.2006 | 06:43
Nýlega fékk ég stöðumat frá Háskólanum. Þetta er svona yfirlit yfir það hvernig ég hef staðið mig og hvar ég er stödd í náminu. Skýrslunni er skipt í tvo hluta. Fyrst koma upplýsingar um árangur hingað til (þ.e. hvernig ég hef staðið mig) og síðan kemur mat frá umsjónarkennara (umsjónarkennurum í mínu tilfelli því ég hef tvo). Lauslega snarað á íslensku segir þetta.
1. hluti: Námsskilyrði
Þú hefur lokið öllum skilyrðum nema lokaritgerðinni og hefur færst á kandidatsstig. Þar sem þú hófst nám í september 2003 verðurðu að ljúka öllum skilyrðum fyrir ágúst 2009.
Til hamingju með að fá UGF næsta ár.
2. hluti: Mat frá umsjónarkennurum
Deildin er ákaflega ánægð með árangur þinn. Þú hefur varið báðar GP ritgerðirnar og skilað þeim inn, auk þess að skrifa verkefnislýsingu fyrir doktorsritgerðina. Þú hefur einnig verið mjög dugleg við að halda fyrirlestra og fá verk þín birt og þú hefur auk þess byrjað vel á doktorsritgerðinni. Gott hjá þér!
Ég var auðvitað mjög ánægð með þessa umsögn. Það er gott að heyra að það er metið sem maður gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mæðradagur
14.5.2006 | 06:43
Ég vil byrja á því að óska öllum mæðrum til hamingju með daginn. Reyndar er ennþá 13. maí hjá mér en það er bara tæpur klukkutími í þann fjórtánda. Annars er ég orðin svo rugluð að ég veit ekki hvort mæðradagurinn er alls staðar 14. maí eða hvort það er bara hér í Kanada. Einhvers staðar sá ég á gamalli bloggsíðu þar sem fólk vísaði í mæðradaginn sem 12. maí. Mig vantar sárlega íslenskt dagatal svo ég geti séð hvenær merkilegir dagar eru heima. Vanalega sendir mamma mér dagatal en það gleymdist í ár. Ég er einna hrifnust af þessum litlu þríhyrndu dagatölum sem maður fær t.d. hjá Landsbankanum. En sem sagt, 14. maí er mæðradagur í Kanada.
14. maí er líka afmælisdagurinn hennar ömmu Gunnu. Hún var fædd 1915 og hefði því orðið 91 árs hefði hún lifað. Einn afmælisdaginn hennar eignaðist einhver læðan okkar kettlinga. Ég held það hafi kannski verið Skotta. Við ræddum um að setja bara borða á kettlingana og gefa svo ömmu þá í afmælisgjöf. Sú held ég að hafi orðið snarbrjáluð. Ekki það að henni hafi verið illa við ketti. En hún hefði líklega ekki viljað fá eina fimm, eða hversu margir sem þeir voru nú í gotinu.
En sem sagt, í tilefni þess að amma hefði orðið níutíu og eins árs í dag (kominn 14. maí á Íslandi) verð ég að syngja fyrir hana. Guðrún Helga, ef þú sérð þetta, taktu undir:
You are my sunshine
My only sunshine
You make me happy
when skies are gray
You never know dear
How much I love you
Oh please don't take my sunshine away.
Og það þarf ekki að taka það fram að þetta á að syngja mjög illa. Þá sagði amma alltaf mæðulega: Æi stelpur mínar. Getiði ekki hætt þessu.
Amma var svo sannarlega ekki hin týpíska amma. Maður gat ekki átt von á því að hún laumaði að manni gotteríi eða smápening. Almennt séð held ég að hún hafi ekkert verið sérlega mikið fyrir krakka. Þegar við vorum börn sóttum við miklu meira til afa. En þegar við eltumst breyttist þetta. Ömmu fannst ákaflega gaman að spjalla við okkur Guðrúnu Helgu þegar við vorum komnar í menntaskóla. Þá vorum við orðnar nógu þroskaðar til að hægt væri að eiga við okkur almennilegar samræður. Þegar hún var að lesa stórvirkið um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og hann Daða endursagði hún söguna í smáatriðum. Það skipti engu þótt við reyndum að segja henni að við hefðum engan áhuga á Ragnheiði og Daða. Henni var alveg sama, henni fannst svo gaman að segja okkur frá þessu. Þetta virðist ganga í ættum. Kristbjörg langamma var víst svo minnug á sögur að ef fólk missti af útvarpssögunni fór það bara til langömmu og hún endursagði síðasta lestur. Amma sagði okkur frá Ragnheiði og mamma gerir allt sem hún getur svo hún fái að segja mér frá því sem gerist í Glæstum vonum. Ég reyni að segja henni að ég hafi engan áhuga en hún hefur erft frásagnargleði mömmu sinnar og ömmu og það er rétt svo ég sleppi með aðalatriðin. Og þið sjáið að ég hef erft þetta líka. Ég ætlaði bara að óska mömmu til hamingju með mæðradaginn og ömmu heitinni til hamingju með afmælið, og í staðinn byrja ég að tala um Ragnheiði og Daða. Ömmu þótti það ógurlega leiðinlegt þegar við Guðrún vitnuðum í Megas og sungum: Rangheiður biskupsdóttir brókar- var með -sótt. En hún erfði það ekki við okkur og í staðinn kenndi hún okkur klámvísur. "Ljósum sokkum kemur á, klæðadokkin hýr á brá..." Nei, þetta er ábyggilega ritskoðað. ég get ekki farið með klámvísu á vefnum. Þið verðið bara að trúa því að amma mín skuli hafa kennt mér klámvísur. Já, hún var ekki eins og flestar ömmur og það var alveg frábært að mörgu leyti. Ég átti eina svona fullkomna ömmu sem bakaði kökur, prjónaði, gaf mér nammi og brauð og eldaði handa mér uppáhaldsgrautinn minn þegar ég bað hana um það. Það var amma Stína. Amma Gunna gerði ekkert af þessu en hún gerði svo margt annað. Hún var fyndin og skemmtileg og gerði svo margt sem kom á óvart. Þegar ég hugsa um hana koma svo mörg fyndin atriði í hugann. Eins og þegar mamma var að taka myndir af okkur Guðrúnu í íslenska þjóðbúningnum og amma stóð fyrir aftan hana og kom okkur til að hlæja með því að reka út úr sér tennurnar og setja upp alls konar grettur. Á myndunum erum við skellihlæjandi og ég held að það sé engin þeirra alvarleg.
Hún sagði okkur líka margar sögur frá því hún var ung. Sumar þær sögur hafa orðið frægar í fjölskyldunni og flestir geta farið með þær orðréttar: "Á böllunum í gamla daga vorum við Snjóa systir alltaf fyrstar fram á gólfið að dansa. En svo urðu Snjóa og afi þinn svo full að við Árni urðum að fara með þau heim."
Þegar hún hitti Offa, fyrrverandi kærastann hennar Guðrúnar Helgu, í fyrsta sinn, leit hún á hann, mældi hann svo út og sagði: "Þú ert feitur!" "Ég veit það" sagði Offi greyið. Hvað annað gat hann sagt. Amma var líklega búin að gleyma því að hún hafði farið í garnastyttingu. Eftir á spurði hún mig: "Heldurðu að hann sé farinn að fara uppá hana?" Amma þó, hvað heldurðu að ég hafi vitað um það.
Já, þetta var hún amma mín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
American Idol
10.5.2006 | 07:15
Hvernig er það, horfa Íslendingar á American Idol eða er það bara íslenska 'ædolið' sem er sýnt heima? Ef þið sjáið ekki það ameríska vitið þið ábyggilega ekkert um hvað ég er að tala núna á eftir en ég ætla nú samt að láta móðinn mása.
Ég horfi almennt ekki á veruleikaþætti. Finnst þeir leiðinlegir, enda einbeita þeir sér að því að sýna fólk að rífast, svikult fólk með undirlægjuhátt o.s.frv. Þetta á ekki við um American Idol. Þar er söngurinn í aðalhlutverki og við fáum aldrei að sjá á bak við tjöldin. Sem er akkúrat eins og ég vil hafa það. Eiginlega er American Idol ekki veruleikaþáttur. Hann er meira eins og spurningakeppni eða eitthvað svoleiðis.
Ég hef af og til horft á þáttinn undanfarin fjögur ár. Ég horfði ekki fyrsta árið nema á úrslitaþáttinn sem ég sá einhvern hluta af. Vanalega er ég reyndar ekki heima þegar þátturinn er sýndur en ef ég er heima kveiki ég vanalega á sjónvarpinu og svo dunda ég mér við að skrifa á meðan lögin eru flutt en hlusta sérstaklega á gagnrýnina. Ég er búin að komast að því að ég hef ekkert vit á tónlist. Alla vega er ég oft gjörsamlega úti að aka þegar ég ber mig saman við Simon og hans lið. Vanalega er mér líka alveg sama um hver vinnur og hver heldur áfram o.s.frv. Það var helst að ég fylkti mér í lið í annarri keppninni, þar sem Clay Aikon og Rubens kepptu. Ég hélt með Ruben sem er stór svartur bangsi með yndislega rödd. Ég hef reyndar ekki keypt plötuna hans enda syngur hann lög sem mér finnst ekkert sérlega skemmtileg.
En að þessarri keppni. Þetta er í fyrsta sinn sem ég horfi á keppnina af áhuga og ég held að það sé vegna þess að svo margir góðir eru þarna núna, og enginn þeirra er að syngja þessi hræðileg danslög sem hafa verið svo vinsæl í þessarri keppni. Þau sem kepptu í kvöld Chris, Elliot, Katharyn og Taylor eru öll stórgóðir söngvarar og öll gætu unnið og öll eiga eftir að búa til áhugaverðar plötur.
En ég á erfitt með að gera upp hug minn. Ég verð þó að segja að eftir frammistöðuna í kvöld held ég að Katharyn eigi skilið að fara heim. Og hún er líka sú sem mér er mest sama um. Hún hefur stundum staðið sig frábærlega en svo inn á milli er hún hreinlega leiðinleg. Og hún var pottþétt verst í kvöld. Hins vegar er hún eina konan sem er eftir og hún má ábyggilega fá fullt af atkvæðum út á það. Þar að auki á hún víst stóran aðdáendahóp.
Mér finnst Elliot yndislegur. Hann hefur fallega rödd og mér líkar við hann. Simon líkar ekki við hann og hann er ófríðastur þeirra fjögurra og á eftir að tapa á því. Í alvöru, fullt af fólki fer eftir svoleiðis hlutum. Margir hafa sagt að hann sé hreinlega ekki efni í stjörnu þótt hann hafi augljóslega hæfileikann. En í kvöld stóð hann sig frábærlega, og á virkilega skilið að komast áfram.
Chris er maður að mínu skapi. Hans tónlist er greinilega rokk alternative sem er einmitt sú tónlistastefna sem ég hlusta mest á þessa dagana og mér finnst alltaf gaman að hlusta á hann syngja. Ég veit að ég á eftir að kaupa plötu frá honum. Hann er líka rokkstjarna í sér. Ég get séð hann sem framvörð vinsællar hljómsveitar. Margir halda að hann eigi eftir að vinna og ég held að hann myndi ekki valda vonbrigðum.
Já, Chris og Elliot eru báðir frábærir, en ég verð að viðurkenna að hjartað er nú í eigu Taylors. Það var persónuleiki hans sem heillaði mig áður en ég fór virkilega að hlusta á hann syngja. Hann er alltaf ánægður og það er enginn sem lifir sig eins inn í tónlistina og hann. Hann á líka bestu setninguna: "It's music, man. If music is in your heart, you feel it, you play it, you sing it, you perform it, you bust your buns doing it. Thats what its all about!" En málið er að Taylor er einfaldlega frábær söngvari. ég hlóð niður af neitnu nokkur af lögunum hans frá því fyrir keppnina og þau eru virkilega góð. Hann hefur þessa yndislegu soul-rödd og það er svo mikill innileiki í því sem hann gerir. Þegar platan hans Taylors kemur út þá mun ég kaupa hana, og ef hann fer í tónleikaferð (aðra en þá með öllu idolgenginu) þá mun ég fara og sjá hann. Það skiptir ekki máli hvort hann vinnur eða ekki. Taylor er þegar orðinn stjarna.
í næstu viku vil ég sem sagt sjá Taylor, Chris og Elliott og það skiptir eiginlega ekki máli hver vinnur keppnina. Þeir eiga allir eftir að ná langt. Kannski er best að Elliot vinni því hann á lengst í land og þarf hjálp frekar en hinir tveir. Taylor og Chris eru einfeldlega báðir orðnir stjörnur nú þegar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Palli og Heather
10.5.2006 | 06:55
Var að sjá á Visi að vandamál eru í hjónabandi hans Palla míns og konu hans. Eiga þau að vera flutt í sundur. Ég myndi ekki segja að þetta kæmi algjörlega á óvart en þykir þetta þó sorglegt. Karlgreyið, en hvað var hann líka að hugsa að fara að giftast konu sem er á aldur við krakkana hans. En það er alltaf slæmt þegar hjónabönd ganga ekki upp.
Nú haldið þið víst að ég sé himinlifandi af því að hann sé kannski að komast aftur á laust og að ég geti þá mætt á staðinn og gripið. En ég verð að benda á þá óyggjandi staðreynd að hann er orðinn alveg hundgamall. Eftir um tvo mánuði getur hann sungið When I'm 64 og það verður ekki lengur í framtíðinni. Jú, þegar ég var svona 10-14 ára dreymdi mig um að giftast Paul (þegar mig var ekki að dreyma um að giftast Paul Young eða George Michael - hvað vissi ég að hann væri hommi - George, það er að segja) en ég vildi gifast ungum Paul. Þeim sem varð frægur og var ennþá ungur og fallegur. Því miður er Paul búinn að vera gamall og hrukkóttur í nokkuð langan tíma núna og þótt ég elski hann enn, og þótt það hafi verið ógurlega gaman að sjá hann á tónleikum, þá myndi ég nú ekki vilja sjá hann naktann. Sorry.
En þetta er verst fyrir barnið. Beatrice er bara tveggja ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Námsstyrkur
6.5.2006 | 06:27
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kosningaréttur
6.5.2006 | 06:23
Eitt af því versta sem ég get hugsað mér er að geta engin áhrif haft á það sem gerist í kringum mig. Af því að ég er íslenskur ríkisborgari, en ekki kanadískur, hef ég engan rétt til kosninga hér í Kanada. Þess vegna get ég ekkert gert til að koma í veg fyrir að hálfvitar séu kosnir í allar stöður. Núna eru nokkurs konar sjálfstæðismenn þjóðarstjórnina og nokkurs konar hægrisinnaður Framsóknarflokkur við stjórn Bresku Kólumbíu. Hvort tveggja er slæmur kostur og vinstrimenn, NDP, komast lítið áfram. Þó eru þeir við völd í bæði Manitoba og Saskatchewan og gengur vel þar, en í öðrum fylkjum gengur ekki svo vel. Nú er ég ekki að segja að mitt eina mögulega atkvæði hefði breytt neinu, þar sem í engum þessa kosninga hefur nokkur unnið með einu atkvæði, en mér fyndist ég samt hafa einhver áhrif ef ég gæti kosið.
Það sem hefur huggað mig er að ég hef alla vega haldið kosningarétti mínum á Íslandi. Til dæmis kaus ég í síðustu ríkisstjórnarkosningum, og í síðustu forsetakosningum, en nú var ég að komast að því nýlega að ég hef ekki kosningarétt í sveitastjórnarkosningum. Ég hélt að það sama ætti við og um Alþingiskosningarnar, að ég ætti kosningarrétt þar sem ég átti síðast lögheimili. En nei, það er ekki svo. Maður missir kosningarrétt sinn við það að flytja burt. Nú þykir sumum það kannski eðlilegt, benda á að fyrst maður býr ekki í viðkomandi sveitafélagi ætti maður ekki að hafa nein áhrif á það sem þar fer fram. En fyrir okkur sem erum í þessarri stöðu lítur málið öðruvísi við. Ég hef engan kosningarétt í Kanada, og nú eru Íslendingar farnir að plokka af mér kosningaréttinn líka. Ég hef sem sagt ekki nein áhrif á það hvernig neinni borg er stjórnað. Mér líður svolítið eins og Stefáni G. þegar hann sagði: Ég á einhvern veginn orðið ekkert föðurland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fótboltavertíðin hefst.
5.5.2006 | 04:39
Í kvöld spiluðumvið (Vancouver Presto) fyrsta fótboltaleik sumarsins. Við spiluðum á móti Vancouver Geckos en þær lentu í þriðja eða fjórða sæti í deildinni í vetur (og við vorum nokkkuð lægri!!!). Því miður töpuðum við leiknum. Við komumst ekki almennilega í gang fyrr en í seinni hálfleik en á meðan við spiluðum illa náðu þær að skora þrjú mörk á móti aðeins einu frá okkur. Við bættum við í seinni hálfleik en leikurinn endaði samt 3-2. Ég skoraði bæði mörkin okkar og er þokkalega ánægð með það. Það hefði verið gott að bæta við einu svo við gætum jafnað en það fór ekki þannig. Í fyrra sumar töpuðum við aðeins tveimur leikjum eða svo þannig að kannski er þetta bara dæmi um að fall er fararheill.
Fjórar nýjar stelpur spiluðu með okkur. Ein þeirra, Lisa, er frá Englandi og hefur aldrei spilað áður en er mikill fótboltaaðdáandi (Arsenal) og hefur andað að sér fótboltaloftinu frá fæðingu. í sínum fyrsta leik var hún þegar orðin betri en sumar stelpurnar okkar sem eru búnar að spila í þrjú ár. Hún sýndi mikli betri skilning á leiknum og var hörku dugleg líka. Sú á eftir að verða góð. Ég spái því að ef hún spilar með okkur næsta vetur þá verði hún orðin svaka góð næsta vor. Okkur veitir ekki af fleiri góðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Röð og regla
3.5.2006 | 17:06
Í nótt mun merkileg stund gerast í lífi okkar allra. Nokkuð sem gerist aðeins einu sinni á öld. Tölurnar í dagsetningu og tíma raðast þannig saman:
01:02:03 04/05/06
Þetta er auðvitað athyglisvert fyrir alla sem hafa áhuga á röð og reglu. Þannig að ég legg til að þið vakið fram eftir í nótt - alla vega þar til tvær mínútur yfir eitt.
Ég mun ábyggilega ekki gera það, jafnvel þótt ég sé meyja og ætti því að hafa gífurlegan áhuga á röð og reglu. Nei, fyrst og fremst vegna þess að ég er enn dauðþreytt. Í gær hjólaði ég í Cliffhanger (klifursalinn) í fyrsta sinn síðan í fyrra sumar (sirka 50 mínútur að hjóla aðra leið), klifraði svo í eina þrjá tíma og hjólaði svo heim. Og þar sem ekkert ykkar hefur heimsótt mig þá vitið þið ekki að ég bý upp á stórri hæð og það er býsna erfitt að enda svona hjóltúr á því að hjóla upp brekkuna. Stundum ef ég er þreytt leiði ég hjólið upp erfiðasta hjallinn en í gær hjólaði ég með Matt (einum af klifurfélögum mínum) og fannst því of aumingjalegt að gefast upp. Í dag lætur líkaminn mig vita af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er vorið komið?
1.5.2006 | 18:21
Ég var eitthvað að væla um það að það væri alltaf rigning hérna í Vancouver. Það er næstum því alveg satt. Í vetur settum við næstum því met (fyrir borgina). Það rigndi eina 30 daga í röð. Svo rigndi ekki í einn dag og eftir það fór að rigna aftur í aðra 30 daga eða svo. Í fyrra kom vorið einhvern tímann í febrúar. Nú er 1. maí og það er spurning hvort vorið sé komið.
Reyndar er grasið algrænt en það er ekkert skrítið. Hér er grasið grænt allan veturinn. Öll þessi rigning auðvitað. Og blómin eru á fullu. Túlipananarnir eru meira að segja farnir að skrælna eins og sést á annarri myndinni. Kirsuberjatrén eru farin að fella krónuna og allt er bleikt í kringum mig. Þannig að það lítur út eins og vor. En maður fer út og það er kalt og hvasst. Og þar til í dag var skýjað, dimmt og af og til blautt.
En þetta átti ekki að vera vælublogg. Mig langaði bara að sýna ykkur þessar myndir. Önnur er af húsinu mínu og blómunum fyrir utan og hin er af gangstéttinni fyrir framan húsið. Í gær var kirsuberjatréð svo fallegt en í dag er það að verða bert út af vindinum. Annars er Vancouver ekki vindasöm borg. Mig er bara farið að langa að ganga um í stuttbuxum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1. maí
1.5.2006 | 07:58
Fyrsti maí var að renna í garð hér vestra og ég gleymdi að syngja Maístjörnuna. Það er kannski allt í lagi af því að allir halda að hún sé um 1. maí hvort eð er. En þeir sem hafa lesið Heimsljós vita auðvitað að ljóðið er um 30. apríl. Þess vegna segir hann: Og í kvöld lýkur vetri sérhvers vinnandi manns og á morgun skín maísól, það er maísólin hans. Annars er ekkert haldið upp á fyrsta maí hér í Kanada. Verkalýðsdagurinn er í september. Þannig að ég mun ein steyta hnefann og syngja nallann.
Þegar ég var barn var fyrsti maí nokkurn veginn í sama klassa og sjómannadagurinn og sautjándi júní. Maður var dressaður upp og fór í bæinn. Það sem er mér þó minnistæðast af öllu er að fyrsta maí fór afi í fínustu jakkafötin sín, setti á sig hatt (kannski gerði hann það bara einu sinni en þannig man ég þetta) og var með rauða merkið í barminum. Það er synd að viðurkenna að ég man ekki lengur hvernig verkalýðsmerkið er. Þegar ég reyni að hugsa um það kemur bara í ljós rauða blómið sem Kanadamenn hengja á sig til að minnast fallinna hermanna. En sem sagt. Afi fór í fínu fötin sín og svo var farið niður í bæ og í kröfugöngu. Því miður nýtur þessi dagur ekki sömu virðingar og áður. Fer nokkur í kröfugöngu lengur? Reyndar man ég eftir því að hafa skellt mér í eina þegar ég var í háskólanum heima. Við fórum nokkur úr íslenskunni og staðsettum okkur í göngunni á milli herstöðvarandstæðinga og femínista. Áður en við vissum af vorum við komin með fána og hljóðfæri og örkuðum niður Laugarveginn með látum. Ég sakna þess. Rétt eins og ég sakna þess að sjá gömlu mennina í sínu fínasta pússi reyna að berjast fyrir betra lífi fyrir sig og börnin sín.
Ég vona að allir fylki í bæinn og berjist fyrir hærri launum og betri aðstæðum. Mér sýnist ekki veita af. Ég verð reið í hvert sinn sem ég les fréttirnar að heiman. Vitiði að þeir eru í alvöru að tala um að einkavæða háskólana. Vita þessir asnar ekki að það er ekkert sem gerir Íslandi að eins farsælu landi eins og vel menntaðir þegnar þess. Og þetta á að taka frá okkur!!! Ok, ég ætla ekki að byrja á þessu. Ég þarf að fara að sofa og vil ekki fá martraðir um íslensku ríkisstjórnina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)