Róleg helgi

Capitol Hill

Það er sunnudagur og ég er búin að vera á fótum síðan laust eftir átta. Þegar maður þarf að vakna klukkan hálf sjö á vinnudögum er það hreinlega að sofa út að vakna um átta leytið. Þetta er mjög ólíkt mér. Ég vakna aldrei fyrr en um níu um helgar og oftast seinna. Ég sef reyndar yfirleitt ekki til ellefu eins og hér áður fyrr.

En ég nýtti morguninn þolanleg. Er búin að þvo þvott og hengja út, fá mér góðan morgunmat (sauð meira að segja egg) og laga grein sem verður birt í UBCWPL fljótlega. Fljótlega ætla ég út að labba og smá saman að mjaka mér vestur fyrir miðbæinn þar sem Rachel Wodjak býr. Ég er að fara í bröns til hennar. Rachel útskrifaðist úr málvísindum í UBC í fyrra og er alveg fanta góður málfræðingur.

Á föstudag skruppum við Auður - íslenskur nemandi hér í Ottawa - út að borða og löbbuðum svo um miðbæinn. Þar var alveg nóg að gera og ég held að það hafi allir verið í bænum. Hér er svo hlýtt að það sátu allir úti og drukku og átu og skemmtu sér. Við fórum reyndar heim upp úr ellefu, enda ég orðin þreytt og Auður ætlaði að vakna snemma og læra. Envið höfðum borðað á flottum stað sem heitir Touché og litirnir þar inni voru alltaf að breytast, borðin voru skær appelsínugul og þetta var svona almennt nútímastaður. Fékk mér vísundaborgara sem var bara alveg ágætur. Ég fékk mér reyndar svoleiðis stundum í Manitoba og verð ég að segja að þótt vísundakjötið sé býsna gott þá held ég að beljan sé nú bara betri.

Ég gær fór ég í brönns til Gurli Woods sem er danskur prófessor við Carlton. Ég þekki hana í gegnum Skandinavíu fræðin. Fékk svona ekta danskt hlaðborð. Alveg meiriháttar. Eftir á labbaði ég um bæinn svolítið, fór aðeins að versla. Kom svo heim og talaði við Danny vin minn á netinu í svolítinn tíma. Hann er náttúrufræðingur og er að fara sem leiðsögumaður á skemmtiferðaskipi sem mun koma við á Íslandi. Ja, ekki beinlínis leiðsögumaður. Frekar sem sérfræðingur í náttúruvísindum og ljósmyndari. Ég er ekki alveg viss um hvað hann gerir um borð - hann fer vanalega með fólk í alls kyns ferðir hér í Kanada, meðal annars til Hudson Bay að taka myndir af ísbjörnum, og svo mikið um Alaska, North West Territories, Yukon og Nunavut. Ég var að segja honum hvað hann ætti að gera; fá sér pylsu, fara í sund, labba upp kirkjutröppurnar, fá sér heitt kakó á Bláu könnunni. Þegar ég var að enda við að tala við hann hringdi mamma, langt komið fram yfir hennar háttatíma, og við spjölluðum heillengi. Alltaf gott að heyra að heiman. 

Ég læt hér fylgja með mynd af ráðhúsinu í Ottawa. Ég var búin að sýna ykkur mynd af því en frá öðru sjónarhorni. Þessi finnst mér flott og ég skil loksins af hverju alltaf er vísað til svæðisins í fréttum sem 'Capitol hill' - höfuðborgarhæðinnar. 


Rannís styrkur

Svo virðst sem mér hafi verið veittur einnar komma sex milljóna styrkur frá Rannís. ég er reyndar ekki enn búin að fá formlegt bréf um það enda fer pósturinn minn allur til Vancouver og ég er í Ottawa, en ég fann frétt á heimasíðu Rannís og lista yfir styrkþega og þar var mitt nafn á meðal. Þetta er auðvitað alveg frábært. Gott að fá viðurkenningu heimanað og að ég fæ einhvern fjárhagsstuðning frá mínu eigin landi. Hingað til hafa Kanadamenn borgað fyrir skólagöngu mína.

17. júní

Ráðhúsið í Ottawa

Klukkuna vantar núna fimm mínútur í tólf á miðnætti að kvöldi sautjánda júní og þjóðhátíðardagurinn er næstum liðinn. Heima á Íslandi er hann auðvitað gærdagurinn því nú sofa Íslendingar á sínu græna að morgni átjánda júní. Átjándinn er auðvitað næstum því jafn merkilegur því þann dag var Paul McCartney fæddur fyrir 64 árum. ÞIð vitið hvað það þýðir; allir munu syngja When I'm 64. Og við munum segja, Já Paul, we still need you.

Í dag hitti ég Íslendinga og Vestur Íslendinga í Ottawa sem eru ekki mjög margir miðað við slétturnar og vesturströndina. Haldinn var fagnaður heima hjá einum Íslendingnum sem býr í fallegu húsi við vatn (sem ég held að heiti Mississippi vatn). Þar voru víst um 60 í dag. Fáni var dreginn að húni, þjóðsöngurinn sunginn og svo var borðað.

Ég er núna búin að vinna fyrstu vikuna mína og það hefur bara gengið vel. Nemandinn er býsna góður og gengur alveg ágætlega. Hún hefur reyndar þurft að fara nokkuð á fundi o.s.frv. þannig að ég hef þrisvar sinnum fengið frí eftir hádegið sem hefur verið ákaflega gott. Einu sinni fór ég að versla, einu sinni fór ég að klifra og einu sinni var ég túristi og labbaði um borgina og tók myndir. Hún verður meira við í næstu viku þannig að ég mun þurfa aðeins meira að vinna. Erfiðast er að þurfa að vakna hálf sjö á morgnana. Ég hef ekki þurft að gera það í mörg ár. Heima í Vancouver vakna ég bara þegar ég er útsofin sem oftast er um níu leytið. Það sem erfiðast er er að þurfa að fara í snögga sturtu, rífa í sig matinn og rjúka út. Ég er vön að geta dundað mér á morgnana. Lesa tölvupóstinn minn, sinna ýmsum smá munum, o.s.frv. En þetta venst sjálfsagt eins og annað. Verst er að ég er orðin dauðþreytt eldsnemma.

Ég mun segja ykkur meira frá kennslunni og borginni seinna. Núna verð ég að fara að sofa .


Á leið til Ottawa

Á morgun fer ég til Ottawa. Það er alveg ótrúlegt að það skuli aðeins vera vika síðan ég var beðin um að koma til Ottawa að kenna íslensku. Svona gerast hlutirnir stundum hratt. Þannig var það næstum því þegar ég flutti til Kanada. Ég fékk að vita í byrjun ágúst að ég hefði fengið starfið og fyrsta september var ég í Winnipeg. Marion vinkona mín kom í gær og hjálpaði mér að pakka. Mér finnst það eitt það leiðinlegasta sem ég geri. Hún var mjög hörð við mig og bannaði  mér að taka nokkuð sem ég gæti ekki notað alla vega við þrennt annað. Hún náði að koma öllu í fremur litla ferðatösku og eina flugfreyjutösku af minnstu gerð. Ég mun aldrei komast með þetta allt til baka nema hún komi til Ottawa að pakka fyrir mig. Annars á ég ábyggilega eftir að kaupa eitthvað þar þannig að ég er algjörlega ristuð, eins og sagt her hér vestra. En þá verð ég bara að senda eitthvað með rútu. Það er órúlega ódýrt. Eða að borga yfirvigt! Línuskautarnir taka mikið pláss.

En sem sagt, næst þegar ég sendi póst verð ég í höfuðborg Kanada.


Af undanförnum dögum

Ottawa 

Ókei, það er orðið allt of langt síðan ég skrifaði. Það er að hluta til vegna þess að ég fór til Toronto í viku - á ráðstefnu - en ég hafði svosem aðgang að pósti á meðan ég var þar svo ég hefði getað fært inn reglulega. En einhvern veginn hefur svo margt gerst að í stað þess að skrifa á fullu um það allt endaði ég á því að skrifa ekkert.

Öfugt við bækur sem svona oftast nær byrja  á því sem fyrst gerðist ætla ég að rekja mig svona nokkurn veginn afturá bak. Ekki þannig að frá öllu sé sagt í öfugri röð en svona í megindráttum.

Sumarið mitt átti að vera afslöppunarsumar með svona þriggja til fjögurra tíma vinnu á dag (að ritgerðinni) og að öðru leyti ætlaði ég að dunda mér á ströndinni, fara í langa göngutúra o.s.frv. En þess í stað verður þetta vinnusumar. Á mánudaginn var hringt í mig og ég beðin um að koma til Ottawa og kenna íslensku í sumar. Nemendurnir verða verðandi sendiherra Kanada á Íslandi og eiginmaður (eða eiginkona - veit það ekki fyrir víst). Ég ætlaði ekki að gera þetta því þetta eyðileggur alveg afslöppunina, en kostirnir eru:

1. Ég hef aldrei komið til Ottawa
2. Það eru aðeins tveir tímar til Montreal og ég hef heldur aldrei komið þangað
3. Hver veit nema að ég fái góð sambönd
4. Peningar
5. Aukin reynsla
6. Nýtt fólk og ný ævintýri

Gallar:

1. Ég mun augljóslega ekki vinna mikið að ritgerðinni minni
2. Þekki engan þarna
3. Engir klifurfélagar, og þar að auki þyrfti ég að borga aftur ef ég færi í klifursal þarna (er með árskort hér)
4. Get ekki spilað lengur með fótoltaliðinu mínu
5. Ottawa er ekki við sjóinn, þar af leiðir, engin strönd.

En ég hef sem sagt ákveðið að skella mér og undirbúningstíminn er stuttur - ég flýg á mánudaginn. Seg ykkur meira frá þessu síðar

 

Toronto

Toronto ferðin heppnaðist vel. Ég flutti tvo fyrirlestra og gekk vel í bæði skipti. Ég kynntist ekki mörgu nýju fólki en styrkti böndin við fólk sem ég hef hitt áður á þessum ráðstefnum. Skandinavíufélagið var aftur með partý heima hjá Börje (finnskukennara í Toronto - við fórum þangað líka þegar ráðstefnan var síðast í Toronto) sem á hús við Simcoe vatn. Hann er auðvitað með gufu í litlu húsi niður við vatnið. Alvöru Finni. Eftir að ráðstefnunni lauk fór ég niður í miðborgina (York háskóli er í norðurhluta borgarinnar, um það bil klukkutíma frá miðborginni), borðaði hádegisverð með Brian vini mínum, síðan gengum við um í klukkutíma eða svo og þá þurfti ég að halda út á flugvöll. Toronto er ekkert sérlega skemmtileg borg. Ég myndi flytja þangað ef ég fengi vinnu en ég er ekkert sérlega spennt fyrir því að vera þar. 

 

Slysið

Ég fékk vondar fréttir að heiman þegar ég var í Toronto. Ég var að lesa moggann á netinu og sá þá að það hefði kviknað í Akureyrinni og tveir sjómenn farist. Haukur bróðir er á Akureyrinni og ég gat varla andað. Ég rauk út af fundinum sem ég var á (já, ég var að skoða tölvupóst á meðan ég var á fundi - það var verið að ræða eitthvað leiðinlegt) og hringdi heim. Enginn svaraði hjá mömmu og pabba, sem var skrítið því klukkan var býsna margt heima...nei bíddu, kannski ekki svo margt. Toronto er þremur tímum nær Íslandi en Vancouver er. Alla vega, ég hélt að klukkan væri orðin svo margt og þau ekki heima. Það auk á áhyggjurnar. Sem betur fer náði ég á Gunna sem gat sagt mér að það væri í lagi með Hauk. Mér létti mikið en eins og Gunni sagði, þá þýðir þetta bara það að einhver önnur fjölskylda hafði misst ástvin. Þetta var svo hræðilegt. Ég veit eiginlega ekkert ennþá. En svona er alltaf skelfilegt. Bruni er alltaf hræðilegur en úti á sjó. Þar er ekki hægt að hlaupa út úr húsinu og horfa á eldinn taka yfir. Það verður að slökkva. Það er ekki um annað að ræða. Mér skilst að sjómennirnir hafi staðið sig frábærlega við að ná tökum á eldinum en það var hörmulegt að hann náði fyrst tveimur mannslífum. Hugur minn er með fjölskyldum mannanna tveggja.


Komin til Toronto

Þetta hefur verið langur dagur. Vaknaði klukkan fimm í morgun (eftir að hafa verið að pakka og að ganga frá vinnu þar til klukkan tvö) og dreif mig á flugvöllinn. Flugið til Toronto frá Vancouver er um fjórir og hálfur tími og að viðbættri bið eftir fólki sem var seint, og bið eftir töskunni minn var þetta heillangur tími. Síðan var ekkert smá mál að komast til York háskóla sem er í norðurhluta stór-Toronto-svæðisins. Við komum ekki á kampus fyrr en um fimm að Toronto tíma (tvö að Vancouver tíma) sem þýðir að það tók okkur um það bil tvo tíma í strætó að komast frá flugvellinum að háskólasvæðinu. En ég er búin að tékka mig inn (gisti á Garði), búin að skrá mig á ráðstefnuna, borða, athuga tölvupóstinn og get núna dólað mér þar til tími er kominn til að fara að sofa. Ráðstefnan byrjar klukkan níu í fyrramálið, sem er sex að mínum tíma, þannig að það er best að hefja aðlögun strax. Annars er hnéð á mér að drepa mig. Það var of mikið álag á því að spila fótbolta fjóra daga í röð og að sitja svo í flugvél í svona langan tíma með hnéð bogið var einfaldlega og mikið. Ég haltra núna um eins og aumingi. 

Skrifa meira á morgun og segi ykkur hvernig fyrr fyrirlestur minn fór.


Júúúúúúúúúúúúúúúúúúhú! Go Taylor!!!!!!!!!!

winningidol.jpg

Óskin rættist í kvöld. Taylor Hicks er American Idol. Löngu orðinn ástin mín en það er ágætt að hinir annars vitlausu Ameríkanar völdu rétt. Ég reyndi að kjósa en ætli þeir leyfi nokkuð kanadískum símum að ná í gegn. Við Taylor ætlum að giftast um leið og hann er búinn að ferðast um landið með hinum ædolunum. Ég er reyndar ekki búin að segja honum það ennþá - hann hefur nóg á sinni könnu núna - en ég get ekki séð að það verði neitt vandamál með það. Vonin er að hann eignist nógu mikið af peningum til þess að ég geti byggt klifurvegg í kjallaranum okkar!!!!! Ég held ég hafi ekki orðið svona ástfangin síðan ég kynntist Paul McCartney, 10 ára gömul. Alltaf jafn hallærisleg. 

 


Fótboltamót á Saltspring eyju

pros.jpg

Um helgina fór Presto liðið til Saltspring eyju að spila á fótoboltamóti. Leikirnir okkar fóru á eftirfarandi hátt:

4-1
1-1
4-0
5-4
2-1

Við komumst því í útslitaleikinn þar sem við lékum gegn liðinu sem við gerðum jafntefli við. Þar töpuðum við því miður 2-1 og urðum því í öðru sæti. Við fengum hins vegar um 25.000 krónur fyrir það og ætlum núna að kaupa rauðan fótbolta og upphitunarjakka. Við verðum heldur betur flottar þar.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að þessi góði árangur er fyrst og fremst fimm stelpum úr annarri deild að þakka. Þær spiluðu með okkur á mótinu því við vorum ekki með fullt lið og þær voru hreinlega frábærar. Það var líka eins gott því mörg liðin sem við spiluðum á móti voru þriðju deilarlið eða annarrar deildar og við hefðum nú ekki staðið okkur vel á móti þeim án þessarra auka stelpna. En við lærðum líka mikið af því að spila með þeim. Því miður dugði það okkur ekki í leiknum í gær sem við töpuðum 3-2, jafnvel þótt við spiluðum mun betur en hitt liðið. Ætli við höfum ekki bara verið þreyttar.


pros.jpg

Fótbolti og meira ædol

Við spiluðum okkar þriðja leik í kvöld og unnum loksins, 3-2. Ég skoraði þriðja markið okkar og ég verð að segja að það var bara nokkuð laglegt mark. . Ég lék á vörnina og skaut ekki fyrr en ég var nokkuð viss um að hafa gott skot. Í síðasta leik komst ég ein inn fyrir en markmaðurinn náði að þrengja svo að mér að ég náði ekki að setja boltann inn. Vildi ekki sömu mistök núna.

En þótt við hefðum unnið leikinn var það ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hitt liðið spilaði færri, 8 til 9 leikmenn (ein meiddist og varð að fara út af). Við hefðum átt að hakka þær, þar sem við höfðum fleiri leikmenn, en þær voru einfaldlega mjög góðar og voru alltaf á undan að boltanum. Þar að auki voru þær nokkuð hrottalegar - sérstaklega ein - og hún hljóp mig tvisvar niður. Í fyrra skiptið komst hún upp með það og ekkert var dæmt en í seinna skiptið fengum við aukspyrnu. Það varð ekkert úr henni.

Eldsnemma á morgun fer ég yfir til Saltspring eyju þar sem við munum taka þátt í fótboltamóti yfir alla helgina - endar á mánudaginn. Því miður kemst ekki markmaðurinn okkar með og við þurfum því að skiptast á að vera í marki. Það er alveg ömurlegt og við eigum ábyggilega eftir að fá á okkur fullt af ódýrum mörkum. En aðalatriðið er að hafa gaman af þessu.

Í sjónvarpinu er helst í fréttum að Taylor er kominn í úrslitin í American Idol. Það er eins gott að hann vinni hina leiðinlegu Katharyn McPhee. Eliott aðdáendur eru allir reiðir yfir því að þegar tilkynnt var að hann hafi fengið fæst atkvæði þá fagnaði Katharyn og foreldrar hennar (sem eru forrík og búa í Beverly Hills), á meðan Taylor og hans foreldrar voru sorgmædd yfir því að sjá Elliot fara. Og þau leyfðu sér ekki að fagna fyrr en eftir á. Þetta gæti eftir að hafa mikil áhrif því margir aðdáendur Elliots munu núna kjósa Taylor. Þeir munu ekki fyrirgefa Katharyn þetta. Þar að auki er ljóst hvað Elliot vill. Þegar talað var við hann eftir keppnina sagði hann að Taylor væri frábær náungi og mjög hæfileikaríkur en um Katharyn sagði hann að hún væri falleg stelpa. Ég held að Elliot muni kjósa Taylor. Svei mér þá, það er meira að segja möguleiki að ég hringi inn og kjósi Taylor. Það er, ef síminn leyfir kanadískum númerum að ná í gegn. Hef aldrei einu sinni prufað. Mér hefur alltaf verið nákvæmlega sama áður.


Um amerískt sjónvarp

Taylor Hicks

Núna er svokallaður 'sweepstake' mánuður í Bandaríkjunum. Það þýðir að sjónvarpsstöðvarnar eru að keppast við að fá sem mest áhorf - meira nú en vanalega. í maí er talið nákvæmlega hversu margir horfa á hvern þátt og svo nota sjónvarpsstöðvarnar þetta til að ákveða hvaða þætti á að höggva o.s.frv. Í kvöld var meira að segja vísað í þetta í Boston Legal. Denny Crain segir við Shirley: "Shirley, it's sweepstake month". Og Shirley svarar: "Denny, I'm not gonna kiss you". Og svo gerir hún það samt. Mér fannst ferlega fyndið að þeir skyldu vísa svona beint í samkeppnina. 

Vanalega er sjónvarpið gott í maí. Þá eru allir þættir að fara í sumarfrí og út af 'sweepstake' þá reyna þeir að gera eitthvað sérstakt. Eitthvað spennandi svo maður horfi. Law and Order náði í síðustu viku að komast aftur upp í annað sætið á miðvikudagskvöldi klukkan 10. Er þó enn á eftir CSI, sem mér þykir nú orðið nokkuð þreytt. Annars eru L&O aðdáendur í hnút af spenningi. Það er búið að segja að stórfelld breyting verði á þættinum og að einhver muni hætta (þ.e. annar er Anna Parisse sem ákvað að hætta nú nýlega). Sumir óttast að það sé Sam karlinn sjálfur sem sé búinn að fá nóg, enda búinn að vera Jack McCoy í...hvað...ellefu ár? Ég vona að það sé ekki hann því L&O mun missa mikið þegar hann hættir. Sömuleiðis vona ég að það sé ekki Jessi Martin sem þó gæti verið að hætta því hann er nú farinn að fá aðalhlutverk í bíómyndum. er núna að kvikmynda Sexual Healing sem er um Marvin Gay. Jessi leikur Marvin og syngur sjálfur öll lögin. Síðasti þáttur vetrarins verður á morgun og er búið að lofa mikilli skemmtun.

Aðalskemmtunin mín í kvöld var þó American Idol. Aðeins þrír keppendur eru eftir, Taylor Hicks, Elliot Yamin og Katharin McPhee. Mér finnst Kat frekar leiðinleg og vil að hún hætti en mér sýnist það verði Elliot sem fer heim á morgun. Taylor var stórkostlegur að venju og ætti að vera öruggur. En við fáum að sjá það á morgun. Ég set aftur mynd af Taylor hér því hann er uppáhaldið mitt. Soul Patrol Taylor. Sould Patrol!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband