Hlynsíróps smoothie með bláberjum - æðislegt
9.5.2010 | 20:47
Walmart risinn er illur
9.5.2010 | 17:27
Spurningin núna er hvort þessar konur halda vinnu sinni yfir höfuð. Walmart hefur hingað til ekki einu sinni leyft stéttarfélag innan fyrirtækisins. Allt gert til að halda starfsmönnum sem mest niðri. Þeir hafa ítrekað ráðið fólk í hlutastörf, nægilega fáa klukkutíma á dag til þess að þeir þurfi ekki að útvega heilsugæslu eða önnur slík réttindi.
Í hvert sinn sem starfsmenn hafa reynt að stofna stéttarfélag til þess að reyna að koma þessum málum í rétt horf þá hefur þeim verið hótað uppsögnum. Starfsmenn UFCW sem er stéttarfélag fólks í matariðnaðnum, hafa ítrekað reynt að fá starfsmenn Walmart til þess að taka þátt í stéttarfélögum en slíkar kosningar hafa alltaf farið þannig að starfsmenn hafna stéttarfélaginu. UFCW hefur sakað Walmart um að hræða starfmenn með uppsögnum.
Árið 2005 var svo loksins stofnað Walmart stéttarfélag í myllubænum Jonquiere í Quebec. Ekki löngu síðar lokaði Walmart versluninni. Skýringin var sú að þeir ættu í fjárhagsörðugleikum en allir vissu að þetta var vegna stéttarfélagsins. Sögurnar sem maður heyrir þaðan eru oft hrikalegar og það er ljóst að stanslaust er brotið á hagsmunum starfsfólk. Þess vegna er það svolítið kaldhæðnislegt að horfa á auglýsingar frá þeim sem hér um bil allar ganga út á það hvernig Walmart er eins og fjölskyldufyrirtæki þar sem allir eru eins og ein stór fjölskylda. Je, ræt!
![]() |
Saka Wal-Mart um kynjamisrétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hetja saksótt
7.5.2010 | 18:00
Árið 2007 kviknaði í húsi þegar fimm ára gamalt barn var að fikta með eldspýtur. Barnapían sem var aðeins tólf ára gömul náði að koma barninu út ásamt þriggja ára systkini þess og gæludýri heimilisins. Komið var fram við stúlkuna sem hetju.
Nú, þremur árum síðar hefur eigandi hússins og faðir barnanna tveggja, ákveðið að kæra barnapíuna fyrir vanrækslu. Hann segir að hún hefði átt að passa barnið betur svo það hefði ekki getað kveikt eldinn. Þetta er barnapían sem bjargaði lífi barnanna hans með snarræði...aðeins tólf ára gömul. Ég veit ekki hvað það er sem fær fólk til að hegða sér svona. Græðgi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Við viljum tvö kanadísk lið í úrslitin
7.5.2010 | 17:08
Já, Montreal hefur staðið sig vel og það er að miklum hluta að þakka hinum stórkostlega markmanni Halek. Hann hefur hreinlega staðið á haus í markinu og stoppað hérum bil allt sem nærri því kemur. Annar frábær Montreal leikmaður er Cammaleri sem Montreal fékk síðastliðið haust frá Calgary. Hef aldrei skilið hvað Calgarymenn voru að hugsa að láta Cammaleri frá sér. Þeir sögðust hafa gert það af því þeir urðu að losa peninga en í hokkíinu er þak á þeim fjármunum sem má eyða. Calgary vildi halda Olli Jokinen frekar en Cammaleri en það reyndist heimskulegt því að lokum skiptu þeir á Jokinen líka. En Montreal græddi vel og Cammaleri hefur launað þeim traustið og hefur 13 stig í úrslitakeppninni og situr í sjötta sæti. Sá eini frá Montreal sem kemst á topp 30 listann.
Á meðan Montreal slæst við Pittsburgh spilar Vancouver við Chicago sem sló þá úr keppni í fyrra. Við unnum fyrsta leikinn en töpuðum næstu tveim þannig að staðan er 1-2 eins og er. Við verðum að vinna leikinn í kvöld til að eiga raunverulega möguleika á að komast áfram því það er ekki líklegt að við næðum að vinna Chicago þrjá leiki í röð. Þeir eru með ungt og sterkt lið sem samt sem áður er komið með heilmikla leikreynslu eftir að hafa spilað þrjár umferðir í úrslitakeppninni í fyrra. Þar að auki var fjöldi leikmanna Chicago sem spilaði í gullleiknum á Ólympíuleikunum. Brent Seabrook, Jonathan Toews og Duncan Keith spiluðu allir fyrir Kanada og Patrick Kane lék fyrir Bandaríkin.
Draumastaðan er að bæði Vancouver og Montreal vinni sína mótherja og komist að minnst kosti í úrslitaleiki sinnar deildar. Vancouver í vestrinu og Montreal í austrinu. En best af öllu væri auðvitað að þessi tvö lið spiluðu úrslitaleikinn um Stanley bikarinn. Tvö kanadísk lið hafa ekki spilað um bikarinn síðan Calgary vann Montreal 1989.
![]() |
Montreal er enn á lífi í NHL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningahneyksli ná ekki alltaf til frambjóðenda
5.5.2010 | 17:06
Af því að kosningar nálgast á Íslandi langar mig að segja ykkur frá máli sem er í gangi núna hér í réttarsölum Bresku Kólumbíu.
Fyrir rétt tæpu ári voru fylkiskosningar hér í Bresku Kólumbíu þar sem frjálslyndiflokkurinn sigraði enn og aftur með aulann Gordon Campbell í broddi fylkingar. Í hvert sinn sem ég spyr kunningja mína sem kjósa flokkinn af hverju þeir halda áfram að kjósa þetta lið sem ekkert hefur gert nema slæmt, benda þeir á ferjurnar sem NDP keypti í sinni valdatíð. Þær ferjur voru alltof dýrar og voru aldrei notaðar í það sem þær voru ætlaðar (siglinga á milli Vancouver og Victoria). Í staðinn var frjálslyndi flokkurinn kosinn þrátt fyrir að flokkurinn hafi svo svakalega skert framlög til skólamála að þúsundum kennara hefur verið sagt upp í þeirra valdatíð, og fjölda skóla lokað. Þá hefur niðurskurður til heilbrigðiskerfisins verið all svakalegur, og ofan á allt þetta virðist flokkurinn umvafinn skandölum. Einn sá þekktari er handtaka fylkisstjórans Gordons Campbells á Hawaii. Hann var handtekinn fyrir að keyra útúrdrukkinn. Í ferð þar sem hann var staddur á Hawaii til að heimsækja viðhaldið sitt. Konan sat heima á meðan. Sjá mynd af Campbell sem er svo fullur að hann brosir eins og asni á handtökumyndinni.

En ég ætlaði ekki að skrifa um flokkinn í heild heldur um mál sem er í gangi í dómsstólum núna.
Í fyrra kom í ljós að bæklingur á kínversku hafði verið prentaður og borinn út á kínversk heimili í Vancouver-Fraserview hverfinu. Þar var ráðist gegn NDP frambjóðandanum Gabriel Yiu sem sjálfur er af kínverskum ættum. Sagt var að Yiu stefndi að því að leyfa marijúana, að að hann myndi aldrei taka á glæpavandanum sem borgin ætti við. Bent var á að andstæðingur hans, lögreglumaðurinn Kash Heed myndi vera sá eini sem næði að stöðva glæpamennina. Bæklingurinn var hrein áróðursherferð gegn þessum eina frambjóðanda og á sama tíma hreinn stuðningur við Heed. Heed sigraði með 9.549 atkvæði gegn 8.801 atkvæðum Yiu. Heed var síðan gerður að dómsmálaráðherra.
Nú hafa komið fram gögn sem sýna skýrt fram á að bæklingurinn var gefinn út af framboði Heed og kosningastjóri hans hefur verið ákærður, svo og eigandi fyrirtækisins sem prentaði bæklinginn - og sem svo vill til að er stuðningsmaður frjálslynda flokksins.En talið er að ekki sé hægt að sýna fram á vitneskju Kash Heed um málið. Hann neitar meira að segja að hafa heyrt um þennan bækling áður, þrátt fyrir að fjallað hafi verið ítarlega um málið í öllum fjölmiðlum á sínum tíma. Um leið og dómur féll gegn kosningastjóranum og prentaranum, og um leið og Heed var sýknaður, tók hann aftur við stöðu sinni sem dómsmálaráðherra, en hann hafði vikið frá á meðan málið var í dómstólum.
Hér er fólk öskuillt yfir þessu öllu saman. Hversu miklar líkur eru á að Heed hafi ekki vitað af því sem kosningastjóri hans gerði? Og jafnvel hafi hann ekki vitað um þetta, hvers vegna fær hann að halda sæti sínu í ríkisstjórn og á þingi, eftir að komið hefur fram að þessi kosningaáróður kom frá hans eigin framboði? Maður hreinlega skilur ekki svona spillingu.
Og til að kóróna allt saman...sérlega ráðinn ríkissaksóknari sem ráðinn var eingöngu til að líta á þetta mál, og sá hinn sami og sýknaði Heed, hefur nú vikið úr starfi og gaf þá ástæðu að hann hafi séð eftir á að hann væri ekki óhlutbundinn þar sem lögstofan sem hann vinnur fyrir gaf mikla peninga í framboð frjálslyndaflokksins. En hann vék þó ekki fyrr en eftir að hann var búinn að sýkna ráðherrann.
Það rétta í stöðinni núna er augljóslega að boða til aukakosninga í Vancouver-Fraserview og gefa fólki kost á að fella sína eigin dóma. NDP og Gabriel Yiu eiga rétt á sanngjörnum kosningum.
Á síðunni hér má sjá mynd af bæklingi sem sendur var til kínverskra kjósenda. Ég held að þetta sé ekki bæklingurinn umræddi þar sem þessi er vel merktur Frjálslyndaflokknum, en hann sýnir annað sem Heed var einnig sakaður um, og það var það að Heed er í lögreglubúningi á myndinni. Kanadískum lögreglumönnum er ekki leyft að nota búninginn til eigin frama.
---
Ég las í dag um mann sem var að skemmta sér fullur í Whistler þegar hann datt niður stiga og slaðast þegar fjöldi drukkinna Whistlerbúa var að troða sér út við lokun. Hann mun lílega vera í hjólastól það sem eftir er ævinnar. Hann hefur nú kært veitingastaðinn þar sem hann var að skemmta sér og sagt að alkahól hafi verið afgreitt til of fullra viðskiptavina. Hann segir að veitingastaðurinn hefði átt að sjá til þess að fólk væri ekki svona drukkið. Er fólk hætt að taka ábyrgð á eigin gerðum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tvífarar
29.4.2010 | 16:34
Muniði eftir ævintýra myndinni Princess Bride og leikaranum Cary Elwes sem lék aðalhlutverkið þar, sveitadrenginn Westley. Nýlega hef ég verið að sjá leikara poppa upp í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem er alveg eins og Cary Elwes nema stærri og þreknari. Þetta ruglaði mig í fyrstu...hafði Cary Elwes verið í sterum. En í ljós kom að þetta er allt annar maður, sirka tíu árum yngri. Hann heitir Gabriel Hogan og er kanadískur. En sjáið sjálf hversu líkir þeir eru. Meira að segja sami sveigur á hárinu. Elwes er til vinstri og Hogan til hægri:


Hvatning
20.4.2010 | 19:05
Þessa dagana reyni ég að sitja við og vinna við ritgerðina mína en það er oft erfitt að einbeita sér þegar veðrið er gott og margt annað skemmtilegra hægt að gera en að skrifa. Svo ég reyni að finna mér ástæður til þess að halda áfram. Ein er sú að hugsa um þá stund þegar ég fæ að stíga upp á svið Chan Centre (þar sem Sigurrós spilaði í fyrra), í ljótum og fornaldarlegum búningi, og taka við prófskírteini úr hönd rektors. Þess vegna hef ég hengt þessa mynd uppá vegg hjá mér sem nokkurs konar hvatningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Smá landafræðikennsla
20.4.2010 | 05:59
Í frétt um að flugfélögin fari fram á bætur vegna gosins segir:
Askan úr gosinu hélt áfram að dreifa úr sér og meira í vesturátt yfir Norður-Atlantshafið til Kanada, Nýfundnalands og Grænlands.
Mig langar að benda fréttaritara á að Nýfundnaland hefur verið hluti af Kanada síðan 1949, þannig að það er ekki mjög gáfulegt að segja að askan hafi dreifst til Kanada OG Nýfundalands. Um leið askan kemur til Nýfundnalands er hún komin til Kanada.
![]() |
Flugfélögin fara fram á bætur vegna eldgossins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þoli ekki þegar dómarar gera út um leiki
20.4.2010 | 02:37
Það er óþolandi þegar slök dómgæsla gerir út um leik í íþróttum. Þetta er auðvitað alltaf að gerast en er verst þegar það virðist ekki vera tilviljun hvar slæma dómgæslan lendir. Undanfarna daga hafa til dæmis verið háværar raddir um það í Kanada að það hafi ekki verið einleikið hvernig öll kanadísku liðin lentu í því í annarri umferð úrslitakeppninnar í hokkí að slök dómgæsla kostaði þau leikinn. Öll höfðu liðin unnið sinn fyrsta leik og annar sigur hefði þýtt tvö-núll stöðu gegn amerískum liðum.
Verst fór þetta í leik Vancouver og Los Angeles á laugardaginn. Eftir góða 2-0 byrjun náði Vancouver að glopra leiknum í jafntefli og framlengingu. Í framlengingunni gerði dómarinn út af við leikinn. Kevin Bieksa, leikmaður Vancouver, lenti í samstuði við einn leikmanna LA og skarst illa. Hann missti fjölda leikja í vetur þegar skauti skar í gegnum hásinina hjá honum og flýtti sér því að velli þegar hann var skorinn. Reglan er sú að við skiptingu má maður koma inná völlinn áður en hinn er kominn út af, en sá sem kom inná má ekki snerta pökkinn fyrr en hinn er kominn útaf. Þegar Bieksa nálgast bekkinn stekkur Christian Ehroff inn á völlinn, varnarmaður LA reynir að senda pökkinn upp eftir fjölunum og hittir pökkurinn Bieksa á leiðinni útaf. Ehroff kemur ekki við pökkinn, það er leikmaðurinn á leið útaf, sem er meiddur í þokkabót. Og hvað gerir dómarafjandinn? Hann dæmir á Vancouver fyrir of marga menn á vellinum, og það þýddi tveggja mínútna brottvísun. LA skoraði manni fleiri og jafnaði leikinn. Algjörlega fáránlegur dómur og dómarinn vann þennan leik fyrir LA. Svona má maður ekki gera í bráðabana. Vanalega passa dómarar sig betur í þannig stöðu.
Og hvers vegna hafa menn þessar samsæriskenningar um að NHL deildin reyni að koma í veg fyrir að of mörg kanadísk lið komist áfram? Af því að hokkí er svo vinsælt í Kanada að þeir munu horfa á keppnina hver sem er að spila. Bandaríkjamenn, aftur á móti, vilja eingöngu horfa á sín eigin lið, og það þýðir að þeim mun fleiri bandarísk lið eru í keppninni þeim mun meira áhorf á hokkí í Bandaríkjunum og þar af leiðandi meiri peningar frá auglýsingum. Það er allt gert til að auka áhorfið sunnan við landamærin og ef það þýðir að dómarar þurfa að hjálpa amerísku liðunum aðeins þá gera þeir það.
Annars ætti ekki að þurfa að hjálpa þeim. Montreal og Ottawa hafa ekkert sérlega gott lið í ár og munu detta út án hjálpar dómara, og Vancouver, þrátt fyrir að vera með besta kanadíska liðið í ár, er að öllum líkindum ekki með nógu gott lið til að komast alla leið að þessu sinni. Þannig að dómararnir geta bara haldið sig við að dæma þokkalega.
Annars er Vancouver að spila þriðja leikinn gegn LA í kvöld. Staðan er 1-0 fyrir okkur. Leikið er í LA að þessu sinni. Vonandi vinnum við í kvöld, og helst á miðvikudaginn líka svo við þurfum ekki að spila of marga leiki og koma þreytt í aðra umferð sem væntanlega verður gegn Chicago. Þeir slógu okkur út í annarri umferð í fyrra svo við eigum mikils að hefna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á Whistlermóti unglinga
16.4.2010 | 04:42
Eins og ég nefndi hér á blogginu fyrir nokkrum dögum þá fór fram alþjóðlegt skíðamót unglinga hér í Whistler. Tveir fjórtán ára gamli Íslendingar kepptu á mótinu; þau Jakob Helgi Bjarnason og Helga Vilhjálmsdóttir.
Pabbi Jakobs er Bjarni Bjarnason sem æfði skíði með mér á Akureyri fyrir, ja, örfáum árum. Svo mér var boðið að koma uppeftir og eyða helginni með Íslendingunum. Þarna voru líka Vilhjálmur pabbi Helgu og Óli Harðar sem einnig æfði skíði á Akureyri þarna um árið. Þeir Bjarni og Óli eru reyndar aðeins eldri en ég þannig að við æfðum aldrei saman en þeir voru í fullorðinsflokki þegar ég var í unglingaflokki þannig að maður vissi auðvitað hverjir þeir voru enda skíðaklúbburinn ekki svo stór.
Ég keyrði uppeftir á föstudagskvöldinu og var fram á sunnudagskvöld. Fékk herbergi útaf fyrir mig í íbúð Villa og Helgu og það var ekki bara séð um að redda mér húsnæði heldur fæði líka. Og ég þurfti ótrúlega lítið að gera til að vinna fyrir þessu öllu saman. Stóð við marklínu og lét vita tímana sem aðrir keppendur komu niður á.
Krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel. Jakob varð í fyrsta sæti í svigi og öðru sæti í stórsviginu, og Helga, sem er byrjandi í þessum alþjóðamótum varð í kringum tuttugasta sæti í sínum greinum. Ótrúlega frábært hjá þeim báðum þegar miðað við að það voru í kringum hundrað keppendur í hvorum flokki.
Það er alveg ljóst að ef góður árangur á að nást á erlendum stórmótum þá verða krakkarnir að byrja að æfa og keppa erlendis. Snjórinn kemur allt of seint á Íslandi og brekkurnar eru yfirleitt ekki nógu langar. Þegar þau koma svo upp í fullorðins flokk og fara að keppa á alþjóðlegum mótum þá er undirbúningurinn ekki nógu góður. Þess vegna tel ég að þessir krakkar sem eru að fara erlendis nú eigi meiri möguleika á góðum árangri í framtíðinni en nokkur Íslendingur hefur náð áður. Hingað til er Kristinn Björnsson líklega sá besti sem við höfum átt. Ég held að Jakob eigi eftir að ná lengra en hann. Og þá verður virkilega gaman að fylgjast með Ólympíuleikum.
Það var annars alveg geysilega skemmtilegt fyrir mig að eyða þessari helgi með Íslendingunum og að komast aftur í snertingu við skíðaíþróttina. Ég hef ekkert haft með hana að gera síðan ég hætti sjálf að æfa, nema þá aðeins að fara á skíði af og til. Það voru því margar góðar minningar sem komu fram þegar ég tók þátt í þessu með þeim núna. En ég sakna þess ekki að bræða undir skíðin og skafa. Sá þáttur var aldrei mjög skemmtilegur.
Nú verð ég bara að eignast mína eigin gríslinga svo ég geti orðið skíðamamma.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)