Af hverju er brúðkaup yngri systurinnar brúðkaup ársins?
13.4.2010 | 19:38
Ég veit svo sem ekki mikið um sænsku konungsfjölskylduna, og hafði meira að segja gleymt því að þessi yngri systir væri til, en það sem ég erfitt með að skilja hér, og kannski getur einhver útskýrt það fyrir mér: Ef krónprinsessan sjálf er að fara að gifta sig í júní í sumar, hvernig stendur á því að sænska prinsessan lýsti fyrirhuguðu brúðkaupi yngri systurinnar sem brúðkaupi ársins? Hvers vegna er það brúðkaup talið merkilegra en brúðkaup verðandi drottningar landsins?
Talandi annars um skandínavískt kóngafólk. Noregsprinsessa kom tvisvar sinnum til okkar í UBC á meðan Ólympíuleikum fatlaðra stóð. Með henni var hópur fólks og þar á meðal aðstoðarmenningarmálaráðherra landsins. Lítið fór fyrir prinsessunni en fólkið sem var með henni var það frekasta og leiðinlegasta sem við þurftum að eiga við. Þau voru að reyna að smygla sér inn á svæði þar sem þau máttu ekki vera og þrátt fyrir að margoft væri búið að banna þeim að fara þarna þá mátti maður ekki snúa við þeim baki, þá voru þau búin að stelast inn á svæðið. Og ráðherrann var með þeim verstu. Kerlingarálft. Það var miklu auðveldara að eiga við Hollandsprinsessu og yngsta Bretaprins sem einnig heimsóttu okkur.
![]() |
Aflýsir brúðkaupi ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábært hjá strákunum, og takk Moggamenn
13.4.2010 | 16:54
Frábært að heyra hversu vel íslenska liðinu gengur á mótinu. Þegar tekið er tillit til þess að aðeins þrjú lið eru í landinu þá finnst mér þeir standa sig ótrúlega vel.
Annars er ástæða þess að ég skrifa hér fyrst og fremst sú að sýna þakklæti. Af því ég hef svo oft skammast í Moggamönnum þegar mér finnst þeir ekki segja nógu vel frá þá er nú ástæða til að þakka hversu vel þeir hafa greint frá hokkímótinu þessa daga, svo og Íslandsmótinu undir lok vetrar. Í fyrra átti ég í stökustu vandræðum með að finna nokkurs staðar á netinu upplýsingar um leikina íslensku, og nú er þetta allt annað líf. Takk fyrir það.
Vil líka þakka fyrir það hversu vel Moggamenn bregðast yfirleit við þegar maður skammar þá aðeins fyrir seinaganginn með ýmsar fréttir. Á sunnudagskvöldið skrifaði ég til dæmis um það að ekkert hefði verið birt um árangur Jakobs Helga Bjarnasonar á skíðamóti hér í Whistler og þegar ég vaknaði morguninn eftir var komin frétt um það. Það gæti svo sem hafa verið tilviljun og ekkert haft með mig að gera, en fréttin kom og það skiptir.
Okkur er of tamt að skammast yfir því þegar betur má fara en ekki alltaf nógu dugleg við að hrósa þegar við á. Ég sé ástæðu til að hrósa Moggamönnum fyrir það að þeir virðast virkilega taka tillit til þess sem lesendur segja og bloggarar skrifa.
![]() |
Risaveldið lá í valnum í Eistlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jakob með gull og silfur á alþjóðamóti unglinga á skíðum
12.4.2010 | 06:19
Ég leitaði og leitaði í íþróttafréttum Morgunblaðsins að frásögn af frábærum árangri Jakobs Helga Bjarnasonar á Whistler móti unglinga nú um helgina en fann ekkert. Fann hins vegar frétt um að Íslendingur hefði skorað mark í annarri deildinni þýsku. Jakob sigraði svigið og varð annar í stórsviginu og þar sem þetta var mjög vel metið alþjóðlegt FIS mót þá er ég nokkuð viss um að þetta marki besta árangur sem nokkur Íslendingur hefur unnið á erlendri grun í skíðaíþróttinni. Ef það er ekki nógu gott til að skrifa um þá veit ég ekki hvað er.
Ef Mogginn skrifaði um árangur Jakobs og ég var soddan klaufi að finna það ekki þá bið ég hér með afsökunar. Ef hins vegar hefur ekki verið skrifað neitt um þennan frábæra árangur stráksins þá mæli ég með að úr því verði bætt hið fljótasta.
Lofa að blogga um mótið um helgina við fyrsta tækifæri en nú er ég farin í háttinn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Líf atvinnulausra (eða þannig)
9.4.2010 | 04:33
Eftir að hafa sofið allt of lengi frameftir skreið ég loks á fætur og hitti Deb og Elli í morgunkaffi. Við skiptumst á fréttum og slúðri og fórum svo í langa göngu niður á strönd. Enduðum loks á mexíkönskum (mexíkóskum samkvæmt Árna Bö en ég neita að viðurkenna það) veitingastað. Hlógum svo mikið yfir því að þetta væri nú lífið. Allar atvinnulausar. Maður svæfi út, borðaði flott og færi í göngu í sólinni. Já, einmitt það sem atvinnulausir gera á hverjum degi. Sérstaklega þetta með að borða úti af því að atvinnuleysisbæturnar eru svo háar. En að öllu gamni slepptu. Ég er farin að vinna aftur að ritgerðinni minni og hef staðið mig vel sumar daga en aðra daga verr. Deb og Elli eru báðar að sækja um vinnu út og suður og ætti ekki að vera vandræði fyrir þær að fá eitthvað. En það er ágætt að eyða smá tíma í vini af og til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Guli kafbáturinn í 3D
5.4.2010 | 06:15
Samkvæmt Internet Movie Database er verið að endurgera Gula kafbátinn í 3D. Cary Elwes, frægastur fyrir The Princess Bride, talar fyrir George Harrison. Það er ImageMovers Digital, fyrirtæki í eigu Disney studio, sem framleiðir myndina. Vá, býsna spennandi.
Um tónlist, hokkí og lærdóm
4.4.2010 | 18:00
Í síðustu viku héldu Muse tónleika í Coliseum skautahöllinni hér í Vancouver. Ódýrustu miðar voru rúmlega 60 dollarar sem eru tæplega áttaþúsund krónur. Ég fór ekki að þessu sinni þótt mig hafi langað en þar sem ég er aftur orðin nemandi með enga peninga verð ég að passa aurana. Ástæða þess að ég minnist á þetta er aðallega sú að þessir tónleikar sýndu svo vel hvernig tímarnir hafa breyst. Muse hafa tvisvar áður komið til Vancouver síðan ég flutti hingað. Í bæði skiptin léku þeir á stað sem líkist meira stærri útgáfu af Sjallanum. Miðaverð var að minnsta kosti helmingi lægra en það var nú og maður gat staðið alveg upp við sviðið án þess að nokkrir verðir pössuðu upp á að fólk reyndi að komast að tónlistarmönnunum. Þá voru þeir orðnir geysilega frægir í Evrópu og spiluðu á fótboltavöllum, en hér í N-Ameríku voru þeir enn tiltölulega óþekktir. Ég naut góðs af því. En nú hafa N-Ameríkanar loksins skilið hversu miklir snillingar eru þarna á ferð og þeir geta loksins spilað í höllum.
Eagles munu spila hérna í vor og ég er að velta því fyrir mér að athuga hvort ég geti nælt mér í miða. En eins og ég sagði áður, verð aðeins að horfa í aurinn þannig að það er hugsanlegt að ég láti þetta tækifæri mér úr greipum ganga. Það er alltaf hægt að fara á tónleika hér og ef ég færi á alla þá tónleika sem mig langar á þá væri ég gjaldþrota, jafnvel þótt ég hefði vinnu.
---
Að öðru. Liðið mitt í hokkí tryggði sér í fyrradag rétt til þess að spila í úrslitakeppninni og við erum aðeins einu stigi frá því að tryggja okkur Norðvestur titilinn. Það tryggir heimaréttinn sem er mjög mikilvægur ef leika þarf sjö leiki til að fá úrslit. Reyndar lítur út eins og er að við munum spila í fyrstu umferð gegn Detroit Redwings, sem eftir hæga byrjun hafa verið á siglingu undanfarið, þótt reyndar hafi þeir tapað gegn Nashville í gær. En það eru fjórar umferðir eftir svo margt getur breyst og annað lið gæti endað í sjötta sætinu, sætinu sem við munum að öllum líkindum leika gegn. Ég ætla að vona að við komumst alla vega í aðra umferð og helst alla leið. Gallinn við Vancouver er að svo margir hafa verið meiddir, þar á meðal okkar besti varnarmaður, að enginn veit hvaða lið mun mæta á svæðið þegar pökkurinn fellur. Á góðum degi getum við unnið besta lið, en stundum er eins og allt hrynji og við töpum fyrir verstu liðum deildarinnar.
Fótboltinn fer líka að byrja hjá liði Teits Þórðarsonar, Vancouver Whitecaps. Einn vinur minn fékk nýlega vinnu sem blaðamannafulltrúi liðsins svo það er hugsanlegt að ég fari á fleiri leiki en ég hef á undanförnum árum, sérstaklega ef ég fæ góðan díl.
---
Ég er líka byrjuð að skrifa. Vann vel á fimmtudag og föstudag en tók svo frí að mestu frá skriftum í gær. Í dag ætla ég að reyna að gera eitthvað en hversu mikið það verður fer svolítið eftir því hver plön mín verða seinni partinn. Það er svolítið óljóst ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ekki rétt með farið
1.4.2010 | 19:46
Ég verð nú aðeins að fá að leiðrétta þessa frétt enda farið með rangfærslu í fréttinni.
Í fyrsta lagi, það er ekkert sem bendir til þess að maðurinn hafi verið taugaveiklaður. Hann var augljóslega taugastrekktur en það er allt annað en taugaveiklaður. En þetta er spurning um merkingu orða.
Um beina rangfærslu er að ræða í þessari setningu:
"Þegar hann kom út og gerði sér ljóst að móðir hans biði ekki eftir honum sturlaðist hann."
Hann kom aldrei út þar sem mamma hans hafði beðið. Eftir að hann tók farangurinn sinn og fór í gegnum vegabréfaskoðun fór hann aldrei út í gegnum tollinn og og þar af leiðandi aldrei út á svæðið þar sem fólk bíður eftir ferðalöngum. Hann vissi ekki hvert hann átti að fara. Og hann sturlaðist ekki við það að koma eitthvert og sjá að móðir hans beið ekki eftir honum. Eftir tíu klukkutíma bið á flugvellinum varð hann æ taugastrekktari og óhamingjusamari uns hann fór að henda húsgögnum. Allan þann tíma var hann á svæðinu þar sem farið er í gegnum toll- og vegabréfaskoðun. Ef hann hefði bara farið út um dyrnar fram í móttöku þá hefði allt farið að óskum, en hann fór aldrei þar í gegn. Hann lést inn á svæðinu þar sem hann hafði beðið allan daginn.
Ég er annars fegin að móðir hans mun fá bætur. Það er ljós á öllum viðtölum við lögregluna að þeir brugðust rangt við og þeir hafa logið út í gegn í vitnaleiðslum.
![]() |
Lögreglan greiðir skaðabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Vika liðin
30.3.2010 | 06:18
Nú er liðin vika frá síðasta vinnudegi mínum. Á þeim tíma hef ég
- sofið fram að hádegi flesta daga
- gert íslensku skattskýrsluna mína (auðvelt) og þá kanadísku (flókið - eins og alltaf)
- sótt um atvinnuleysisbætur
- Lagað til (en ekki enn þrifið almennilega með vatni og sápu)
- farið í lokapartý VANOC (æðislegt)
- spilað fyrsta fótboltaleik sumarvertíðar (já, hefst snemma hér)
- búið til myndabók um Ól fatlaðra
- farið í gegnum vinnutölvuna og skilað henni (tók um það bil 10 klukkutíma að sortera í gegn og vista yfir á disk það sem ég þarf að halda utan um)
- borgað reikninga og sinnt ýmsum bankamálum
- eytt nokkrum dögum á náttfötunum
- spilað óteljandi kapla á tölvunni
Set að lokum inn mynd af okkur Deb með forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper. Eins og sjá má á svip okkar beggja þá vorum við báðar eins og út úr kú þegar við vorum dregnar fyrir framan forsætisráðherra og látnar stilla okkur upp með honum. Hann er sá eini brosandi á myndinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Allt búið
26.3.2010 | 06:49
Ólympíuleikarnir eru að baki og ég er atvinnulaus. Reyndar er það aðeins tæknilega svo því ég hef doktorsritgerð sem ég þarf að klára þannig að í raun er ég aftur nemandi. En þar sem ég mun ekki skrá mig opinberlega í háskólann fyrr en næsta önn byrjar í júní þá ætla ég að þiggja atvinnuleysisbætur í fyrsta sinn á ævinni. Ég veit hreinlega ekki almennilega hvernig það er. Hef aldrei verið í þeirri stöðu áður.
Ég er ekki almennilega búin að ná því ennþá að þetta skuli vera búið og að líf mitt hafi enn og aftur tekið stakkaskiptum. Kannski ekki skrítið. Síðasti vinnudagurinn var á mánudaginn og í gær var svo lokapartý starfsmanna og þar virtust hreinlega allir vera mættir að fagna lokunum (eða syrgja þau?). Þar hitti ég hérum bil alla vinina sem ég hef eignast á síðastliðnum tveim árum. En margir þeirra eru á leið í burtu og suma sé ég örugglega aldrei aftur. Aðrir eru héðan og enn aðrir urðu ástfangnir að Vancouver og ætla að reyna að fá aðra vinnu hér á svæðinu. Þannig að ólíkt fyrstu fimm árunum hér í Vancouver þar sem ég þekkti sama og engan nema fólkið í skólanum, þá á ég nú hóp vina sem ég get hringt í þegar mig langar að gera eitthvað. Og það er mikill munur og á eftir að gera skrifin auðveldari. En það breytir því ekki að sumra á ég eftir að sakna mikið.
Í dag svaf ég fram að hádegi og fékk mér svo lúr um fimm leytið. Á morgun verð ég að borga reikna, þrífa íbúðina, sinna öðru smálegu sem ég hef ekki sinnt í tvo mánuði. Og svo verð ég að endurnærast nægilega til að ég geti tekið til við skriftir. Flestir hinna sem unnu með mér eru á leið á sólarströnd eða til fjarlægra landa. Og ég skrifa doktorsritgerð. Hmmmm...einhvern veginn verð ég að finna ljósa punktinn í því. Ef ég get bara einbeitt mér að húfunni sem ég fæ á hausinn þegar ég útskrifast, og titlinum...
Set að lokum inn nokkrar myndir af mér frá Ólympíuleikum fatlaðra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kanada tapar fyrir Japan a Olympiuleikum fatladra
18.3.2010 | 22:11
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)