Hawaii í stuttu máli
21.10.2009 | 05:07
Ég hef alls ekki staðið mig nógu vel í því að blogga undanfarið og hef sama og ekkert sagt ykkur frá Hawaii ferðinni - ekki frá fyrsta kvöldi.
Það myndi enginn nenna að lesa nákvæma lýsingu á því sem fram fór á degi hverjum svo ég ætla bara að gefa ykkur snögg yfirlit yfir það sem ég tók mér fyrir hendur:
- Synti daglega í sjónum og sólaði mig.
- Flaut á vindsæng og dottaði - flaut næstum út á haf.
- Náði mér í sólbrúnku en hún mun væntanlega hverfa fljótt í rigningunum í Vancouver sem nú eru hafnar.
- Snorklaði í Hanauma bay (veit ekki hvað snorkel kallast á íslensku - kafa með snorkpípu?)
- Syndi með skrautlegum fiskum
- Fór tvisvar á sjó á tvíbytnu - sama daginn.
- Kannaði bandaríska heilsugæsluhverfið með því að sitja eina nótt á stól á bráðadeild við hliðina á vinkonu minn sem lá með næringu í æð eftir að hafa ofþornað.
- Gekk innan í eldgíg og síðan upp á hæstu standandi brún.
- Varð vitni að heiftarlegu rifrildi þriggja vinkvenna - fyrrverandi vinkvenna.
- Drakk hreinan ananassafa blandaðan saman við kókossafa - mmmmmm...varla til betri drykkur.
- Borðaði heilmikið af macademiahnetum og macademiahnetusúkkulaði.
- Verslaði ekki of mikið.
- Keypti mér ódýra skartgripi skreytt plumeriublómum, á alþjóðamarkaðnum.
- Fór á týpískt luau og reyndi að dansa hula. Ekki góð í að sveifla mjöðmnum.
- Borðaði góðan mat
- Gerði úttekt á bandarískum hermönnum.
- Vaknaði snemma á morgnana og fór tiltölulega snemma að sofa.
- Leigði bíl og keyrði á norðurströndina þar sem fjörur eru hreinar og fallegar og öldurnar stærri.
- Horfði á brimbrettakappa allt niður í tíu ára gamla.
- Lærði 'mahalo', 'honu' og 'ohana' og jók því hawaiiska orðaforðann minn um þrjúhundruð prósent.
- Skemmti mér stórkostlega
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vinnur Teitur sinn annan titil á rúmu ári?
17.10.2009 | 19:15
Á þessari stundu fer fram fótboltaleikur milli Vancouver Whitecaps og Montreal Impact í Montreal. Þetta er síðari leikurinn í úrslitakeppni USL deildarinnar sem er nokkurs konar fyrsta deild í Norður Ameríku. Þetta er í fyrsta sinn sem tvö kanadísk lið leika um titilinn.
Eins og þið vitið kannski er Teitur Þórðarson þjálfari Vancouver Whitecaps og liðið vann deildarbikarinn í fyrra í fyrstu tíð Teits. Liðið varð fyrir mörgum skakkaföllum í vor og í sumar og leika þeir nú án sex leikmanna sem spiluðu með sigurliðinu í fyrra. Fjórir hættu í vor, einn var rekinn eftir að hafa slegist tvisvar við samherja (í annað skiptið á leikvellinum í miðjum leik) og sá sjötti fékk rautt spjald í fyrri leiknum gegn Montreal um síðustu helgi.
Fyrri leikurinn, sem leikinn var í Vancouver, fór 3-2 fyrir Montreal og mér skilst á vini mínum sem var á vellinum að Vancouverliðið hafi verið heppið með að tapa ekki stærra. Þeir verða því að gera betur í dag og vinna annað hvort með tveggja marka mun eða vinna með eins marks mun og skora alla vega fjögur mörk.
Átján mínútur eru nú liðnar af leiknum og staðan er enn 0-0. Ekki hefur verið mikið um færi.
O o. Eftir að Whitecaps sóttu stíft hafa leikar nú snúist því Montreal fékk vítaskot rétt í þessu og til að gera hlutina enn verri þá fékk einn leikmaður Whitecaps rautt spjald. Þeir eiga þá eftir að spila manni færri annan leikinn í röð.
Þeir skora. 1-0 fyrir Montreal. Róðurinn á eftir að vera erfiður. Ég held að titillinn sé farinn til Montreal.
Ég læt ykkur vita hvernig þetta fer.
---
Montreal var að skora sitt annað mark. Staðan í leiknum er því 2-0 fyrir Montreal og í samanlögð staða úr leikjunum tveim er því 5-2. Það er nær útilokað að tíu Vancouvermenn geti skorað þrem mörkum meir en ellefu Montrealmenn.
---
3-0.
---
3-1. Vancouver skorar á fertugustu og fjórðu mínútu.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrsta kvöld í Hawaii
9.10.2009 | 08:36
Ég verð að hryggja Rut með því að ég tók tölvuna með mér til Hawaii. Verð að vera í sambandi við umheiminn.
Dagurinn í dag var ferðadagur. Fór að heiman um hálf ellefu leytið og flaug til San Fransisco klukkan eitt. Eftir klukkutímabið í San Fran steig ég um borð í vélina til Hawaii og í sex klukkutíma flugum við yfir sjó. Það var svolítið skrítið. Þegar við flugum inn að Honolulu var sólin að setjast og útsýnið var dásamlegt. En það dimmdi fljótt og komið var myrkur þegar vélin koma að hliðinu. Enginn lagði blómasveig um hálsinn á okkur. Kannski er það bara gert í bíómyndum. En hitamolla tók á móti mér þótt komið sé fram í október.
Ég kom á hótelið um átta leytið í kvöld, fór í sturtu og svo út að ganga. Akemi og hinar stelpurnar komu allar með seinna flugi svo ég vissi að það yrði nokkurra klukkutíma bið þar til þær kæmu. Alþjóðlegi markaðurinn er hinum megin við götuna og ég ráfaði þangað óvart. Skoðaði draslið sem verið er að selja, ákvað að kaupa ukulele áður en ég fer heim, borðaði fremur vondan filipískan mat (hélt ég yrði kannski veik) og labbaði svo niður á strönd.
Ég fór í kjörbúð og keypti nóg af vatni og ávaxtasafi svo við höfum eitthvað í ísskápnum. Fór svo heim á hótel þar sem ég sit nú og skrifa. Var að fá sms frá Akemi um að þær stelpur séu lentar svo væntanlega verður hún hér eftir sirka klukkutíma. Hinar fjórar eru á öðru hótel hér rétt við hliðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrst frábær hokkíleikur - og síðan farið til Hawaii!!!
8.10.2009 | 17:10
Í gær fór ég á minn fyrsta hokkíleik á þessu tímabili. Canucks spiluðu á móti Montreal Canadiens, liði sem ég hef svolítið veikar taugar til. Ég fór með Akemi vinkonu minni og Denis sem vinnur með mér. Denis er frá Quebec og eiturharður Canadiens aðdáandi. Við vorum búin að stríða hvort öðru í vinnunni allan daginn og það stigmagnaðist því nær sem dró hokkíhöllinni.
En fljótlega þagnaði Denis. Canucks sem höfðu ekki spilað sérlega vel í fyrstu þrem leikjum tímabilsins komu út á fullu og þegar upp var staðið var staðan 7-1 fyrir okkur. Denis trúði því ekki að hann hefði borgað mikla peninga til að sjá þessa slátrun á liði sínu. En við Akemi skemmtum okkur konunglega.
Núna eftir nokkrar mínútur held ég út á flugvöll, flýg til San Fransisco og þaðan til Hawaii!!!! Yaaaaayyyyy! Aldrei komið til Hawaii áður. Þetta ætti að vera skemmtilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nafnabreyting
6.10.2009 | 17:09
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spennandi fréttir - OL í fyrsta sinn í S-Ameríku
2.10.2009 | 17:48
Frábærar fréttir fyrri S-Ameríku en þar hafa aldrei verið haldnir Ólympíuleikar áður. Það var því tími til kominn. Rio á reyndar eftir að laga ýmislegt frá því þeir héldu PanAm leikana árið 2007 en þeir hafa væntanlega lært af reynslunni.
Ég hafði verið alveg viss um að annað hvort Rio eða Chicago myndu fá leikana og taldi möguleika Chicago hafa styrkst heilmikið við stuðnin Opruh (sem hefur ótrúleg áhrif hvort sem okkur líkar betur eða verr) og komu Obama til Kaupmannahafnar. En á móti þeim var líklega slæm fjárhagsstaða Bandaríkjanna, minnkandi stuðningur Chicagobúa við leikana og kannski líka sú staðreynd að leikar voru haldnir í Salt Lake City 2002. Hélt þó að þeir myndu komast alla vega í lokaumferð.
Madrid átti aldrei raunverulega möguleika vegna þess að Sumarleikarnir 2012 verða í London og Vetrarleikarnir 2016 verða í Rússlandi. IOC myndi aldrei senda leikana til Evrópu þrjú skipti í röð. 'Eg held að Madrid hafi hvort eð er verið að undirbúa sig undir að vinna leikana 2020. Það er oft talið gott að senda inn tilboð oftar en einu sinni.
Tokyo var á hraðri niðurleið síðustu mánuði. Þeir byrjuðu vel en það var ljóst í sumar að þeir ættu ekki möguleika.
Þannig að um leið og ljóst var að Chicago var fallið úr keppni gat enginn unnið nema Rio.
Hey, ef ég held mig við Ólympíuleika þá á ég kannski eftir að búa í Brasilíu. Það gæti verið spennandi.
![]() |
Ríó fær að halda ólympíuleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hokkí hefst á ný
1.10.2009 | 20:46
Í kvöld hefst fyrsta umferð í NHL deildinni í íshokkí. Mínir ástkæru Vancouver Canucks spila á móti erkiféndunum í Calgary Flames. Ég er hrikalega spennt. Við höfum gott lið í ár og ættum að ná langt. Aaaaah. Hokkívertíðin hafin.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á skemmtiferðaskipi
30.9.2009 | 03:36
Ég er búin að vera of upptekin til að skrifa undanfarið en reyni að bæta aðeins úr því í kvöld.
Ég fór í siglingu um daginn. Þegar þið heyrið það hugsið þið líklega um Karabískahafið, eða Miðjarðarhafið, eða jafnvel upp til Alaska. En nei, þetta var ekki slík sigling. Reyndar þannig skip. En ég fór nú reyndar bara frá Seattle til Vancouver sem er ekki nema um hálfs dags sigling.
Á þessum tíma eru skemmtiferðaskipin að breyta um áætlun og því eru nokkrir dagar þar sem þeir færa skipin til. Þá er hægt að fá hundódýra miða til að ferðast með skipunum þessa stuttu vegalengd. Ég borgaði rúmlega tíu þúsund krónur fyrir ferðina og þar var innifalið káeta, öll skemmtiatriði í boði og allur matur. Bara maturinn sem við borðuðum var örugglega virði miðans.
Ég tók rútu niður til Seattle og beið á landamærunum í FIMM OG HÁLFAN TÍMA. Já, ég er ekki að ljúga. Hef aldrei þurft að bíða eins lengi eftir að komast inn í þessa bölvuðu Ameríku (ég er stundum fúl út í Ameríkana af því að þeir halda að allir glæpamenn komist inn í landið í gegnum Kanada, og þess vegna eru þeir stífir á landamærum). Ekki var hægt að kaupa neitt að borða nema súkkulaði í fríhöfninni. Ég hafði borðað klukkan sex um morguninn áður l sen ég fór í rútuna og ég fékk ekki almennilegan mat þar til sex um kvöldið. Sem betur fer náði ég að kaupa þurrkað kjöt (beef jerky) og það hélt mér gangandi, og ég var með góða bók með mér. Svo þetta var ekki svo slæmt. Sérlega þegar við fréttum frá fólki sem var komið um borð í skipið, að skipið myndi bíða eftir okkur, enda 200 farþegar fastir á landamærunum.
Við komum til Seattle á milli fimm og sex um kvöldið og vorum send beint á brunaæfingu. Við vorum nokkur sem skrópuðum á æfingu og fórum í stað í matarleit en það gekk ekkert því ekki var leyfilegt að bera fram mat á meðan á æfingu stóð. Svo garnirnar gauluðu. Við fengum loks smá pizzubita og fljótlega þar á eftir fundum við samferðafélagana. Við vorum alls 20 sem fórum þetta saman. Ég þekkti reyndar bara um sex en aðrir voru vinir Lizu og þeirra vinir.
Svaka stuð var um borð strax frá byrjun. Starfsmenn stóðu fyrir því. Dönsuðu Makarena uppi á dekki á meðan við sigldum burt frá Seattle. Hópurinn ákvað að tvístrast um stund og hittast aftur um átta leytið í leikhúsinu þar sem fram átti að fara nokkurs konar kabarett með söngvum úr bíómyndum. Einn í hópnum okkar hafði unnið í fimm ár sem dansari á þessum skipum og þekkti allt liðið.
Ég notaði tækifærið og fór í heitapottinn (einn af fjölmörgum). Skipti svo um föt og hitti hina í leikhúsinu. Við skemmtum okkur vel yfir sýningunni og fengum svolítið af sérmeðferð vegna dansarans í hópnum. Að sýningu lokinni fórum við á veitingastað og úðuðum í okkur réttunum sem við gátum valið að vild án þess að borga krónu. Ég fékk melónuforrétt, vorrúllu, nautasteik og síðan afmælistertu enda ferðin innan við viku eftir afmælið mitt.
Eftir mat fóru allir á diskóið. Ég fór með entist ekki lengi. Hef aldrei verið mjög gefin fyrir það að dansa. Nokkrir dansar og mér fer að leiðast. Svo ég fór í gönguferð um skipið. Skoðaði aðra staði, hlustaði aðeins á tónlistina í hinum danssölunum. Endaði inni í káetu og horfði á teiknimynd áður en ég sofnaði. Svaf líklega í eina þrjá tíma áður en Kathy, herbergisfélagi minn, vakti mig til þess að fara út og horfa á skipið sigla inn í Vancouver. Það var dásamlegt. Það var enn svarta myrkur þegar við sigldum fram hjá UBC og hverfinu mínu, og enn mjög dimmt þegar við sigldum undir Lions Gate brúna. En svo fór að birta og þegar við komum að bryggju var sólin rétt skriðin yfir sjóndeildarhring.
Ég var komin heim um níu leytið, skreið strax upp í rúm og svaf framyfir hádegið. Góð ferð. Myndi gjarnan fara í aðeins lengri ferð á skipi.
P.S. Daginn sem við sigldum var Alþjóðadagur þess að tala eins og sjóræningi. Það útskýrir sjóræningjann í hópnum.
- Að lokum set ég inn tvær myndir hlið við hlið - sólarlag í Seattle og sólarupprás í Vancouver.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vertu sæl Doreen
21.9.2009 | 23:07
Hér í Bresku Kólumbíu eru töluð yfir tvö hundruð indjánamál og flest eru þau í útrýmingarhættu. Þessi mál falla í nokkrar mismunandi ættgreinar tungumála svo sem Wakashan, Tsimshian, Athabaskan, Tlingit, Kutenaian, Haidan og Salish.
Málvísindadeild UBC er fyrst og fremst þekkt fyrir vinnu nemenda og prófessora með þessi indjánatungumál. Á hverju ári er kenndur áfangi sem kallast 'field methods', nokkurs konar vettvangsáfengi í því hvernig á að vinna með tungumál sem maður talar ekki sjálfur.
Ég tók þennan áfanga fyrir fimm árum og tungumálið sem valið var þá var Gitxsan tunga af Tsimshian ættgrein. Málið er talað í norður hluta Bresku Kólumbíu, beint austur af eyjum Karlottu drottningar (Queen Charlotte Islands). Mest er málið talað í indjánaþorpinu Kispiox svo og bænum Hazelton og meðal sumra í Smithers og Terrace.
Við fengum til liðs við okkur eldri konu, svo kallaða 'elders' sem er virðingarorð notað um eldri og virðingameiri indjána. Doreen Jensen hét hún, Gitxsan listamaður sem hafði gifst manni af norskum og sænskum ættum.
'Eg var alveg skíthrædd í fyrstu því ég hef ekki gott eyra fyrir smáatriðum í orðum, þótt ég eigi að heita málfræðingur. Þar að auki notar Gitxsan alls konar málfyrirbæri sem ekki þekkjast í íslensku, og af því að háskólagráður mínar frá Íslandi voru í íslensku og íslenskri málfræði, en ekki í málvísindum, þá þótt mér þetta erfitt. En Doreen var svo dásamleg og gerði þetta svo miklu auðveldara fyrir mig að ég fór að hafa gaman af.
Á endanum fór ég tvisvar til Kispiox til að safna frekari heimildum og eftir að Doreen varð of upptekin í listalífinu vann ég með systur hennar Barböru. Skrifaði nokkrar greinar um það hvernig tími er táknaður í Gitxsan.
Í gær hringdi Barbara í mig og sagði mér að Doreen hefði látist deginum áður. Ég hafði heyrt að hún væri veik en vissi ekki að hú væri deyjandi. Með henni hverfur enn einn einstaklingurinn í Kanada sem talar deyjandi tungu. Doreen var yndisleg kona, full af ásrtíðu fyrir listum og sögu þjóðar sinnar. Hún ætlaði að kenna mér að búa til trommu, og síðan að kenna mér að spila á hana. Hún reyndi líka að kenna mér Gitxsan lag, en af því að lögin þeirra eru byggð upp svo ólíkt vestrænni tónlist, átti ég erfitt með að ná almennilegum tökum á laginu. Mér fannst ég enn hafa tíma.
Vertu sæl Doreen. Ég mun aldrei gleyma þér.
Bloggar | Breytt 22.9.2009 kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vel heppnaður afmælisdagur
15.9.2009 | 07:41
Afmælisdagurinn hófst vel. Ég skreið fram úr rúmi og kíkti á tölvupóstinn. Hann var fullur af kveðjum frá vinum og vandamönnum á Íslandi, aðallega í gegnum Facebook. Fésbókinn hefur virkilega fært mann nær fólkinu sínu.
Haukur bróðir hringdi svo um sjö leytið sem var ákaflega skemmtilegt því við höfum ekki talað saman síðan um jól. Maður hringir ekki mikið á milli Íslands og Kanada nema í gengum Skype.
Í kvöld var svo partý á pöbb hér í bæ. Ég valdi bara stað og bauð svo öllum sem mér datt í hug að bjóða. Ég hugsa að það hafi sirka tuttugu og fimmt manns mætt á svæðið, flestir félagar úr vinnunni en einnig nokkrir aðrir. Ég set inn nokkrar myndanna hér að neðan svona til að sýna úr veislunni.
En sem sagt, frábær afmælisdagur. Ég hefði ekki þurft að kvíða svona. Ég er hvorki gráhærðari né hrukkóttari en ég var í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)