Fyrsti ferðadagur
16.8.2009 | 05:09
Það var svolítið eins og ég ætti ekki að fara í þessa ferð.
- Í gær startaði bíllinn minn ekki og ég varð að fara með hann á verkstæði. Sem betur fer var það bara batteríið - ég fékk nýtt batterí og bíllinn tilbúinn í langferð.
- Ég fann ekki ferðastólinn minn, hleðslutækið fyrir bílinn og eldunarhelluna. Fann að lokum hin fyrstnefndu en ekki helluna. Fékk lánaða hjá Leif frænda mínum.
- Var orðin lasin þegar ég vaknaði. Kvef, ekki svínaflensa (held ég). Ákvað að láta mig hafa það því þetta er eina tækifærið til að komast í burtu næstu vikurnar. Og ég þarf á fríi að halda.
- Hafði gleymt að kaupa sjúkratryggingu fyrir Bandaríkin. Stoppaði á tryggingastofu á leið út úr bænum.
- Gleymdi að taka út bandaríkjadali. Verð alltaf að borga fyrir græna pappírinn á leið inn í Bandaríkin. Kom við í banka og reddaði þessu.
- Þurfti að bíða klukkutíma í bílaröð til að komast að landamærunum. Beið svo annan klukkutíma í röð inni í landamærahúsinu eftir því að fylla út pappírana og borga.
Bandaríkjamegin tók við endalaus keyrsla. Ég var orðin svo sein á ferð vegna allra reddinganna og biðarinnar á landamærunum að ég lenti í umferðateppu í Seattle.
Ég hef aldrei skilið hvers vegna umferðin verður svona þung inn í borgina í eftirmiðdaginn. Vanalega er umferðarrennslið þannig að þunginn er inn í miðborgir á morgnana og út úr þeim í eftirmiðdaginn. Þannig var Winnipeg, þannig er Vancouver. En í Seattle var þunginn meiri inn í borgina klukkan fimm að deginum en út úr borginni. Hreinlega skil þetta ekki.
Þjóðvegir eru dásamleg uppgötvun. Í Bandaríkjunum er hámarkshraði vanalega 70 mílur á þjóðveginum, eða tæplega 120 kílómetrar á klukkustund. Maður keyrir á 80 og er nokkuð öruggur.
Mér finnst líka frábært hvernig afreinarnar eru merktar. Þær eru ekki í venjulegri röð eins og 1, 2, 3 o.s.frv. heldur merkja þær lengdargráðuna. Afrein 75 er þannig 74 mílur frá syðri ríkjamörkum. Þannig getur maður líka talið auðveldlega hversu margar mílur eru þangað til maður þarf að beygja.
Ég stoppaði á hvíldarstað, rest stop, sem er önnur frábær uppgötvun. Af og til má finna útskot af þjóðveginum, þar sem eru klósett og oft boðið upp á kaffi. Maður getur stoppað, tappað af blöðrunni og teygt úr sér. Ég fann bækling með auglýsinum frá mótelum. Ég hafði ákvað að sofa ekki í tjaldi fyrstu nóttina heldur fara á mótel, ef það dygði til að losna við kvefið. Ég hafði upphaflega ætlað að fara niður til Portland eða Vancouver, Washington og gista þar, en ákvað að stoppa frekar í Kelso/Longview og keyra svo niður að strönd Washington megin en ekki í Oregon.
Mótel er önnur uppfinning sem ég fagna mjög. Maður þarf næstum aldrei að panta fyrirfram og þau eru tiltölulega ódýr. Og þótt lítið sé um þjónustu þá fær maður vanalega allt sem maður þarf. Rúm, baðherbergi, sjónvarp og jafnvel internettengingu.
Ég var kominn inn á hótelherbergi um sjöleytið. Kom mér fyrir og ákvað svo að fá mér göngu og kvöldmat. Þar sem ég gekk niður eftir einni af aðalgötunni stoppaði maður á trukk við hliðina á mér og bauð mér far. Ég veit ekki hvert þetta var almenn smábæjarkurteisi eða hvort maðurinn hafði eitthvað óhreint í huga. Ég þakkaði bara fyrir mig en hélt áfram göngunni. Að sjálfsögðu myndi ég aldrei fara upp í bíl hjá ókunnugum manni. En maður reynir alltaf að trúa á hið góða í fólki og líklega var þessi maður bara kureis.
En sem sagt, lítið markvertgerðist á fyrsta degi Oregon ferðarinnar og engar spennandi myndir voru teknar. En það ætti að breytast á morgun þegar ég keyri niður á strönd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kanadískur íkorni fer sigurför um heiminn
13.8.2009 | 22:13
Þegar þau Melissa og Jackson Brandts, tveir Ameríkanar á ferðalagi um Kanada, ákváðu að taka mynd af sjálfum sér með hjálp tímasetningar, urðu þau fyrir óvenjulegri innrás. Íkorni nokkur, einn íbúa Banff þjóðgarðsins, ákvað að skella sér inn á myndina eins og athyglissjúkt smástirni. Hann stal líka fókusnum svo íkorninn er í fókus en þau Melissa og Jackson ekki. Þeim fannst þetta hins vegar bráðfyndið og sendu myndina í myndakeppni National Geography. Þaðan hefur hún farið sigurför um heiminn og þetta litla dýr er nú ein aðalstjarna nagdýra.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6 mánuðir í næstu Ólympíuleika
12.8.2009 | 21:28
Í dag eru akkúrat sex mánuðir í opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Vancouver, en þeir verða settir rétt fyrir níu að staðartíma, 12. febrúar 2010 (athöfnin hefst um sex leytið).
En áður en leikarnir hefjast þarf að hlaupa með eldinn. Hann verður tendraður hér í Bresku Kólumbíu 30. október og verður hlaupið með hann út um allt Kanada, þar á meðal á nyrsta odda Ellesmere eyju.
Vídeóið sem ég sýni hér er gefið út í tilefni af þessu hlaupi og glöggir geta hugsanlega tekið eftir að sú sem trúir því ekki að hún sé þarna er Alanais Morissette. Víð sýnum þetta vídeó öllum okkar sjálfboðaliðum og það falla vanalega mörg tár á meðan.
Fyrirtækið ætlar að draga út nöfn þrjátíu starfsmanna sem hljóta þann heiður að hlaupa með kyndilinn - ég held um litla putta og vona að ég fái þetta tækifæri en líkurnar eru ekki miklar þar sem aðeins þrjátíu af 1400 starfsmönnum verða valdir. En það er aldrei að vita, um að gera að vera vongóð.
Lagið er auðvitað hið stórgóða 'Fix you' með Coldplay.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Myndir og myndband hér
11.8.2009 | 00:58
Ég skrifaði tvær færslur um körfuboltakeppnina um daginn. Ef einhver hefur áhuga á að skoða þá eru tenglar á færslurnar hér.
Hér má sjá mynd úr undanúrslitunum ásamt myndbandi: http://stinajohanns.blog.is/blog/stinajohanns/entry/925094/
Ég tók reyndar eftir því þegar ég horfði á þessi myndbrot eftir á að þau sýna næstum því öll Baldur. Vil taka það fram að þótt hann hafi staðið sig frábærlega þá var hann ekki einn um að skora körfurnar. Þeir stóðu sig allir vel strákarnir. Myndavélin mín varð bara batteríslaus svo ég náði bara örfáum skotum og þau hafa greinilega verið þegar Baldur var í essinu sínu.
Og hér er mynd af liðinu með silfurpeninginn.
http://stinajohanns.blog.is/blog/stinajohanns/entry/925627/
Ég tók reyndar nokkrar myndir líka þegar Íslendingar í Kanada buðu strákunum í móttöku í Íslands húsi og það er aldrei að vita nema ég setji þær inn síðar.
![]() |
Íslendingar stóðu sig vel í Kanada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Missti af Raul Malo (ansans)
10.8.2009 | 19:09
Á Sunnudaginn ar haldin roots & blues tónleikahátíð að Deer Lake Park í Burnaby, þar sem Björk hélt tónleika í fyrra. Aðalnúmer hátiðarinnar var Smokey Robinson. Utan við hann þekkti ég aðeins eitt nafn, en það var nóg til þess að mig langaði á hátíðina. Hinn sem ég þekkti til var nefnilega Raul Malo, sem áður fyrr var söngvari hljómsveitarinnar The Mavericks.
The Mavericks hófu sinn feril sem kántríhljómsveit og varð nokkuð þekkt sem slík í Bandaríkjunum. Þar spiluðu þeir lög eins og 'What a Crying Shame', 'All you ever do is bring me down' og 'There goes my heart'.
Það var þó ekki fyrr en 1998 með plötunni Tramboline sem þeir náðu almennri hylli og lagið 'Dance the night away' komst m.a. á lista fjölda landa, þar á meðal í tíunda sæti á UK listanum. Ég man að það var mikið spilað á VH1 sem ég horfði heilmikið á þetta árið, og þannig náði lagið líka til Íslands.
(Ekki er hægt að setja lagið inn hér því ekki er boðið upp á það með þessu lagi á YouTube, en hér er hlekkurinn: http://www.youtube.com/watch?v=9w3ku2QArT0
Það undarlega var hins vegar að með frama erlendis hrundu vinsældir hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum og þeir gáfu aðeins út eina plötu eftir þetta. Hluti ástæðunnar var sá að útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum sneru við þeim baki. Hljómsveitin hafði breytt töluvert um stefnu og tónlistin var ekki lengur hrein kántrí heldur blandin latneskum tónum, eins og heyra má m.a. í 'Dance the night away'. Kántrístöðvarnar spiluðu því ekki lögin þeirra því þeim fannst þeir hafa svikið kántríið, og aðrar stöðvar töldu þá of mikið kántrí.
Hljómsveitin lagði upp laupana og Raul Malo hóf sólóferil.
Mig langaði ógurlega að sjá hann spila en taldi það ekki ganga upp. Hann átti að byrja tuttugu mínútur yfir fjögur en ég var að spila á strandmóti í fótbolta. Ég spilaði með tveim liðum, kvennaliði og blönduðu liði, og ef við kæmumst í úrslit þá myndi ég vera að spila þar til um fjögur leytið. Ég myndi aldrei ná til Burnaby á þeim tíma. Þar að auki átti ég að spila annan leik það kvöldið þannig að þótt ég næði tónleikunum þá þyrfti ég að rjúka til baka og myndi því missa af öllu öðru, þar á meðal Smokey Robinson. Svo ég afskrifaði tónleikana.
Það sem gerðist var hins vegar að hvorugt liðið komst í úrslit og ég var komin heim um hádegið á sunnudeginum. Þar að auki meiddi ég mig á lærvöðva og gat því ekki spilað um kvöldið.
En ég var búin að steingleyma Raul Malo. Af því að ég hafði talið að kæmist ekki þá var þetta horfið úr huga mér.
Það var ekki fyrr en í morgun þegar ég las dóminn um tónleikana, og hversu stórkostlegur Raul Malo var, að ég fattaði að ég hefði getað farið. AAAAAArrrrrrrrggggghhhhhh. Ég trúi ekki að ég hafi klúðrað þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Til hamingju stelpur
7.8.2009 | 22:21
Frábært að sjá Akureyrarstelpur standa sig svona vel í fótboltanum. Þær sitja nú í fjórða sæti deildarinnar og ég held að það geti ekki hafa gerst oft.
Einhverra hluta vegna hefur Akureyskum stelpum jafnan gengið illa í fótbolta. Fyrst var því kennt um að bærinn væri of lítill fyrir tvö lið og að Þór og KA ættu að spila saman. En fyrst eftir sameininguna gekk ekkert mikið betur.
En nú virðist öldin önnur. Ég sé ekki oft fréttir frá stelpunum en þegar ég heyri eitthvað þá er það yfirleitt um velgengni liðsins.
Ég gerðist eitt sinn svo merkilega að spila meistaraflokksleik með Þór. Þá var ég átján ára og hafði sama sem engan skipulagðan fótbolta spilað ef frá er talinn hluti af sumri þegar ég var tólf ára. Þá spilaði ég svolítið með fimmta eða sjötta flokki stráka. Þá voru engar stelpur að spila fótbolta.
Þegar Þór loksins kom með kvennabolta var ég á kafi í frjálsum íþróttum auk skíðaíþróttarinnar svo ég lét boltann eiga sig þangað til þetta þarna sumar. Ég fór á æfingar og voru þá fyrir þarna stelpur sem voru búnar að æfa í nokkur ár og voru auðvitað miklu betri tæknilega. En ég hljóp hratt og var í góðu formi eftir skíðin og frjálsarnar svo ég fékk tækifæri til að spila í fyrsta leik sumarsins - aðeins nokkrum vikum eftir að ég byrjaði að æfa. Ég kom inná sem varamaður og spilaði sjálfsagt einar fimmtán eða tuttugu mínútur. 'Eg spilaði ekki vel. Ég var sett í vörn sem hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. Staðsetningin var aldrei góð. En ég gerði svo sem engin stór mistök og bar ekki ábyrgð á marki.
Þetta reyndist minn eini leikur í meistaradeild kvenna á Íslandi því á næstu æfingu þar á eftir lenti ég í samstuði við samherja, ökklinn í köku og fótboltaferillinn búinn, næstum áður en hann hófst.
Síðan liðu fimmtán ár áður en ég reimaði aftur á mig skóna og gekk í lið í Vancouver sem gamlingi. Búin að spila í sex ár og hef alltaf jafn gaman af því.
En þetta átti að vera færsla um Þór/KA. Enn og aftur, gaman að sjá hvað stelpunum gengur vel. Áfram Akureyri.
P.S. Fyndið að sjá að myndin sem fylgir fréttinni sýnir Valsstelpur fagna sínu eina marki. Hefði ekki verið við hæfi að sýna frekar sigurvegarana?
![]() |
Ótrúlegur sigur Þórs/KA á Val |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ísland fékk silfrið
4.8.2009 | 23:16
Íslendingar töpuðu orrustunni um gullið með tveggja stiga mun, á Heimsleikum lögreglu og slökkviliðsmanna. Þeir höfðu boltann þegar örfáar sekúndur voru eftir og hefðu með þriggja stiga körfu tryggt sér sigur, en boltinn fór því miður ekki ofan í. En silfrið var stórkostlegur árangur og hópur stuðningsmanna (sem skrópaði í vinnu til að komast á leikinn) faganaði sínum mönnum vel að leik loknum.
Til hamingju strákar. Við erum stolt af ykkur.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Íslendingar komnir í úrslit í körfunni
4.8.2009 | 07:22
Íslensku lögreglu- og slökkviliðsstrákarnir eru komnir í úrslit í þriggja manna körfuboltanum á Heimsleikum lögreglu og slökkvliðsmanna. Þeir léku gegn einu kanadísku liðanna í undanúrslitunum og unnu með sirka tíu stiga mun. Leikurinn var reyndar hnífjafn framan af en svo tók íslenska liðið að síga fram úr og ég held að sigurinn hafi aldrei verið í hættu.
Ég tók smá vídeó á litlu Canon myndavélina mína og setti á YouTube. Gæðin eru ágæt á tölvunni minni en á YouTube eru þau ekki mjög. En þið getið samt séð brot úr leiknum og að mikið var stuð á þeim Íslendingum sem komu að horfa. Ætli hafi ekki verið skipt jafnt á milli þeirra Íslendinga sem búa í Vancouver og íslenskra lögreglu- og slökkviliðsmanna sem voru ekki sjálfir að keppa á sama tíma.
Leikið er til úrslita á morgun klukkan tvö að staðartíma. Ég veit ekki gegn hverjum. Sumir sögðu að þeir myndu leika á móti bandarísku liði en aðrir sögðu á móti kanadísku liði. En hvort sem er, við skulum bara vona að íslensku strákarnir vinni.
Íþróttir | Breytt 9.8.2009 kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tvennir tónleikar
3.8.2009 | 05:41
Ég fór tvisvar sinnum á tónleika síðasta mánuðinn en hef ekki gefið mér tíma til að skrifa um þá.
Green Day - fjórða júlí, General Motors Place, Vancouver, Canada
Upphitunarhljómsveitin var The Bravery. Mér fannst þeir algjörlega hundleiðinlegir og ég gat ekki beðið eftir að þeir hættu að spila og að Green Day kæmu á sviðið. Biðin var löng en að lokum stigu Billie Joe og félagar á svið með Song of the Century og svo beint yfir í 21st Century Breakdown enda var þetta 21st Century Breakdown heimstúrinn. Byrjunin var frábær. Á eftir 21st century breakdown tóku þeir Kown your enemy, siðast East Jesus Nowhere og þar á eftir Holiday - meiriháttar lag.
En svo kom kafli sem var ekki eins skemmtilegur. Ágætis lög en ekki á sama mælikvarða og fyrstu fimm lögin. Þetta voru lög eins og The Statis Age, Before the Lobotomy, St. Jimmy, Geek Stink Breath og fleiri.
En þeir náðu aftur flugi með Basket Case og fengu meðal annars strák upp á sviðið neðan af gólfi til að syngja lagið með sér. Heppinn strákur. Hann var reyndar ekki sá eini.Ég hef aldrei séð neina hljómsveit áður sem hefur eins mikil samskipti við aðdáendur eins og á þessum tónleikum. Fyrir utan þann sem söng Basket Case drógu þeir lítinn gutta upp á svið og hann dansaði með þeim við eitt lagið; stelpa fékk að koma upp á svið og faðmaði hún Billie Joe í sífellu og síðar fengu þeir strák upp á svið og fékk hann að spila á gítar í Jesus of Suburbia.
Það var alveg greinilegt að hljómsveitin skemmti sér vel. Í miðri American Eulogy tóku þeir lög eins og Shout sem Isley Brothers sungu upphaflega (held ég?) og Stand by me. Á meðan þeir fluttu þessi lög lágu þeir á gólfinu og spiluðu og sungu.
Eftir uppklappið tók við frábær hrina. Fyrst kom Billie Joe einn fram á sviðið með gítarinn og spilaði Good Riddance, eða Time of your Life eins og það er svo oft kallað. Eftir lagið komu hinir aftur út og þeir spiluðu í einni hrinu American Idiot, Jesus of Suburbia, Boulevard of Broken Dreams og Minoriy. Ég man ekki nákvæmlega röðin en ég er nokkuð viss um að þeir enduðu á Minority. Og undir lok lagsins helltust litaðir pappírsmiðar úr loftinu svo það var eins og snjóaði litum á hljómsveitin.
Þvílíkur endasprettur. Þvílík hljómsveit.
Ég hef séð býsna margar hljómsveitir á sviði en sjaldan hef ég séð neinn skapa þvílíkt show og Billie Joe Armstrong gerði þarna. Hann er snillingur.
Death Cab for Cutie, 16, júlí, Pacific Coliseum, Vancouver, Canada
Upphitunarhljómsveitirnar voru tvær. Fyrst kom á sviðið Ra Ra Riot og var ég ekki sérlega hrifin. Þeir voru ekki slæmir en það var bara ekkert nýtt eða sérstakt við tónlistina. Ég hafði miklu meira gaman af Vancouver hljómsveitinni The New Pornographers. Þar er samankominn stór hópur tónlistarmanna frá Vancouversvæðinu og tónlistin er hrá, fersk og spennandi. Ég get vel hugsað mér að hlusta meira á þessa hljómsveit. Það er reyndar fyndið að ég hitti fólk sem ég þekki á tónleikunum og þau voru hrifin af Ra Ra Riot en fannst The New Pornographers leiðinlegt band. Sitt þykir hverjum...
Mér fannst byrjunin ekki nógu góð hjá Death Cab. Þeir opnuðu tónleikana með The Employment Page sem er alls ekki nógu gott lag til að grípa mann. Skil ekki þessa ákvörðun. No Sunlight sem kom þar á eftir var betra en ekki alveg nógu gott heldur. Það var ekki fyrr en með þriðja lagi, Your heart is an empty room að maður vaknaði almennilega. Síðan tóku þeir Why you'd want to leave me, og þar á eftir kom röð af flottum lögum: The new year, Photobooth og síðan hið frábæra Grapevine fires. Horfið endilega á vídeóið við það lag sem ég setti hér að neðan. Önnur mögnuð lög voru t.d. Crooked Teeth, Title and Registration og Marching Bands of Manhattan sem er eitt af þeirra betri lögum.
Eftir uppklappið kom Ben einn á svið og söng I'll follow you into the dark - uppáhaldslagið mitt með þeim, og svo tóku þeir Soul Meets Body og enduðu á Transatlanticism.
Death Cab for Cutie er algjör andstæða við Green Day. Tónlistin er allt önnur auðvitað en sviðsframkoman er einnig ólík. Death Cab eru miklu rólegri og tónleikarnir ganga algjörlega út á tónlistina. Ekki er mikið gert úr ljósasjói eða samskiptum við áheyrendur. Ég var reyndar hissa á því hversu margir komu og hversu margir kunnu lögin. Hljómsveitin hefur verið að vinna sér áhangendur á undanförnum árum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að þeir væru orðnir þetta stórir. En ég skemmti mér alla vega vel.
Ég myndi líklega gefa Green Day fleiri stjörnur en það myndi varla muna nema einni. Ætli Green Day fengi ekki fjórar af fimm en Death Cab þrjár eða þrjár og hálfa.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frábær handboltamynd
2.8.2009 | 21:51
Ég fór á kínverska markaðinn í Richmond í gærkvöldi og kom m.a. við á bás sem sendi kínverskar, japanskar og kóreskar bíómyndir. Rak augun í hulstur sem sýndi tvær handboltakonur. Allt letur var á kóresku svo ég spurði afgreiðslumanninn um myndina og hann sagði mér að myndin væri byggð á sannsögulegum atburðum og fjallaði um kóreska kvennalandsliðið í handbolta sem fór á Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Ég keypti myndina enda væntanlega eina bíómyndin sem til er um handboltalið, eða ég veit ekki betur.
Myndin er alveg dásamleg. Hún fjallar m.a. um togstreituna á milli yngri og eldri leikmanna. Þær eldri sem flestar tóku þátt í leikunum 1992 (gull) og 1996 (silfur) þóttu orðið of gamlar og bæði yngri leikmenn og þjálfarinn vildu losna við þær. Þar að auki voru þær orðnar giftar konur með börn og ýmis vandamál. En þær voru einfaldlega bestar og ein þeirra, Mi-Sook, með bestu handboltaleikmönnum heims.
Mér þótti mikið til þess koma hversu raunverulegur handboltinn var og hversu lítið var gert af því að klippa á milli nærskota og fjarskota eins og svo oft er gert í íþróttamyndum. Vanalega getur maður séð að viðkomandi leikari eða leikkona er aðeins notaður í nærskotunum. Það var ekki áberandi í þessari mynd og leikurinn var býsna sannfærandi.
Leikurinn um gullið, sem leikinn var gegn miklu stærri dönskum stelpum, var líka æsispennandi enda fór hann í tvær framlengingar og vítakeppni. Það er ekki oft sem maður heldur með asísku liði á móti skandinavísku en það gerði ég á meðan ég horfði á myndina.
Mæli eindregið með henni. Enski titillinn er Forever the moment, sem mér finnst reyndar ekki mjög góður titill. Á kóresku heitir myndin 우리 생애 최고의 순간 sem þýðir víst Bestu stundirnar í lífi okkar.
Það er reyndar athyglisvert að í lok myndarinnar eru sýndar alvöru myndir frá lokaleiknum og kóresku stelpurnar þar eru óneitanlega massaðri en litlu sætu stelpurnar sem leika í myndinni. En það kemur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þetta er showbusiness.
Hér eru tvær mismunandi auglýsingar um myndina. Sú fyrri einbeitir sér að gullleiknum:
En hin síðari sýnir meira frá myndinni sjálfri:
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)