Frábært
22.1.2009 | 17:32
Mikið er gott að heyra þessar fréttir. Ég held að Obama eigi virkilega eftir að breyta stöðu Bandaríkjanna í heiminum og laga að einhverju leyti almenningsálitið.
Ég hafði reyndar pínulitlar áhyggjur þegar hann sagði í innsetningarræðu sinni að þeir myndu sigra andstæðinga sína (eina sem ég man þaðan því ég var lasin og hálfsofandi) en hef samt trú á að stríðsrekstri verði öðruvísi hagað en í tíð fyrirrennara hans.
![]() |
Lætur loka Guantanamo-búðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bölvuð ælupest
21.1.2009 | 23:31
Haldiði að ég hafi ekki náð mér í ælupest í gær. Vaknaði upp um fjögur leytið með hræðilegan magaverk og byrjaði svo að æla um sex leytið. Ég ældi reyndar hvorki oft né lengi og var búin með þann kvóta um hálftíu um morguninn en varð að liggja í rúminu þar sem eftir var dags með hita. Hafði ekki orku til neins. Gat hvorki lesið né horft á sjónvarp. Svaf mestan hluta dagsins. Var sem betur fer orðin nógu hress um átta leytið til að horfa á hokkí í sjónvarpinu. Vaknaði svo fín í morgun. Svolítið slöpp en að mestu leyti heilbrigð.
Ég sagði mömmu að ég hefði ekki fengið magaveiki síðan í Lake Louise 2001 þegar ég átti að vera þrjá daga á skíðum en eyddi þeim síðasta í rúminu. En það er ekki rétt. Mundi eftir því í dag að ég missti af þorrablótinu í fyrra með magaveiki. Verst við þessa veiki var það að ég missti að mestu leyti af innsetningarathöfn Obama. Mig langaði svo að sjá hana en gat ekki haldið mér vakandi. Heyrði því ræðuna að mestu leyti en man ekki orð því ég var ekki alveg með rænu. Rosalega er ég samt ánægð með að Kanarnir skuli komnir með alvöru forseta. Blóm í haga og betri tíð, ekki satt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Breytingar í vinnunni
16.1.2009 | 05:23
Ég er orðin ákaflega löt við það að blogga. Það er líklega vegna þess að ég sit allan daginn við tölvu þannig að þegar ég kem heim langar mig ekkert sérstaklega að setjast við tölvuna og blogga. En það er nú rétt að láta alla vega heyra í sér af og til þannig að þetta er svona skyldublogg.
Það eru frekari breytingar í vinnunni hjá mér. Sabrina sem vann með okkur hefur verið færð inn á annað svið þar sem ákveðið var að það sem hún gerði ætti betur heima undir annarri deild en okkar. En það sem verra er að Liza er búin að fá aðra vinnu og mun því yfirgefa okkur eftir þrjár vikur. Liza er besta vinkona mín í vinnunni og ég á því eftir að sakna hennar mikið. Hún verður reyndar áfram í borginni þannig að við munum halda áfram að hittast en það er samt öðruvísi en að vinna saman. Við förum nefnilega oft út að ganga eða skreppum í kaffi og förum saman í hádegismat. Það góða við fréttina er það að hún mun fara að vinna hjá David Atkins Enterprise sem munu sjá um opnunar- og lokaathafnirnar fyrir Ólympíuleikana. Þeir sáu líka um athafnirnar á Sydneyjarleikunum sem voru frábærir eins og margir muna kannski. Þetta er betri framtíðarvinna fyrir Lizu því hún vill vinna innan skemmtanabransans og þetta fyrirtæki passar því betur fyrir hana. Þar að auki er fyrirtækið frá Ástralíu og hún hefur áhuga á að flytja þangað. Sem sagt, frábært fyrir Lizu, ekki svo gott fyrir okkur hin.
Og ofan á þetta þá er Bryn líka að fara í lok mánaðarins. Hann er enskur og atvinnuleyfið hans er að renna út. Hann fær ekki framlengingu og hann er ekki í nógu hárri stöðu til þess að fyrirtækið fá framlengingu á leyfinu. Ég er að vona að hann komi aftur sem fyrst en hann er búin að sækja um ótímabundið atvinnuleyfi en það mun taka einhverja mánuði að fá það í gegn.
Ég þarf greinilega að drífa mig í að kynnast fleira fólki í vinnunni til þess að fylla upp í skörðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heima er best
12.1.2009 | 04:56
'Heima er best' skrifaði Ólöf og svaraði þar með óafvitandi spurningunni sem hafði verið að væflast fyrir mér: Hvað notum við Íslendingar aftur í staðinn fyrir 'Home sweet home'? Já, heima er best. Ég á hins vegar tvö 'heimu' því ég fer heim til Akureyrar og síðan aftur heim til Vancouver. Og báðir staðir eru bestir því báðir eru heimili mitt.
Ég hef reyndar ekki búið í Þverholtinu í bráðum tuttugu ár en það er samt sem áður heimili mitt og mun alltaf verða enda staðurinn þar sem ég eyddi helmingi ævi minnar (þótt það eigi ekki lengur við þegar september rennur í garð) og staðurinn þar sem ég sleit barnsskónum.
En sjöunda gata í Vancouver er líka heimili mitt því þar eru sængin mín og koddinn. Og það er alltaf gott eftir hvert ferðalag að koma heim og skríða undir sæng.
Ég verð þó að segja að það er alltaf erfiðara að kveðja Ísland, enda veit ég aldrei hversu langur tími líður þar til ég kem þangað næst. Og þrátt fyrir að ég eigi góða vini hér í Kanada þá er fjölskylda mín á Íslandi og það vegur þungt. En líklega á ég eftir að eiga erfitt þegar ég kveð svo Kanada endalega, hvenær sem það svo sem verður. En ég hef ekki trú á að hér sé framtíðarheimili mitt. Annars veit maður hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég fór upphaflega til Kanada til að vera í eitt ár - í haust verða þau tíu. Það er lengri tími en ég bjó í Reykjavík.
En nú styttist í húsmæðurnar í sjónvarpinu og ég þarf að fara og sjá af hverju ég missti á meðan ég var á Íslandi.
Á morgun tekur svo vinnan við. Ég hlakka nú eiginlega til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Að njóta lífsins í New York
9.1.2009 | 19:59
Ég sit á Hard Rock í New York, nýbúin með djúsí borgara sem þó var ekki eins góður og mér þótt borgararnir á Hard Rock í Reykjavík hér í gamla daga. Kartöflurnar voru líka bara þessar venjulegu en ekki eins og ég man þær. Það fór sem sagt þannig fyrir nostalgíunni.
Þetta er síðasti dagurinn minn í New York, búin að vera hér síðan á þriðjudagskvöldið. Og hvað hef ég svo gert? Ég fór í Ameríska náttúrugripasafnið. Það var mjög skemmtilegt og skemmtilegast var að sjá beinagrindurnar af risaeðlunum - þótt ég sé ekki eins og litlu strákarnir sem vita hvað þær allar heita. Ég þekki bara Tyrannosaurus Rex og búið. En þvílík stærð á safni! Ég eyddi þarna þremur eða fjórum klukkustundum, hljóp um svæðið í stað þess að lesa allt (ókei, smá ýkjur en samt...) og samt sá ég ekki nema brot af öllu safninu. Enginn leikmuna tók sig af stað en það gerist víst bara hjá Ben Stiller.
Ég fór líka á hokkíleik á milli New York Rangers og Montreal Canadiens sem Montreal vann 6-3, mér til mikillar ánægju en ekki flestra í kringum mig. Annars voru býsna margir frá Montreal á leiknum. Það var gaman að koma í Madison Square Garden en ég er nú hrifnari af GM Place (heimavelli Vancouver Canucks). Líklega er það vegna tryggðar minnar við liðið.
Ég fór líka út að borða á mexíkönskum veitingastað með Hönnu frænku hennar Guðrúnar Helgu. Við grínuðumst með það að við værum frænkur frænku (cousins of a cousin). Það var gaman að hitta Hönnu aftur. Heimsótti hana fyrir þrem árum. Við höfðum um margt að tala en tíminn ekki nándar nærri mikill.
Í gær labbaði ég heil ósköp - frá 96. stræti þar sem ég bjó og nærri því niður að áttunda stræti. Sem sagt, 88 götur sem eru væntanlega um níu kílómetrar. Ég stoppaði auðvitað nokkrum sinnum á leiðinni, skaust inní búðir eða settist og fékk mér kaffi. Á einum stað var verið við kvikmyndatöku og stjarna myndarinnar gekk fram hjá mér, án þess að ég sæi framan í hana (loðin hetta á úlpunni), en ég geri ráð fyrir því að þetta hafi verið stórstjarna vegna ljósmyndaranna sem sátu um hana í leyni. Sá m.a. einn sem var með risastóra aðdráttarlinsu og faldi sig inni í bíl.
Mætti reyndar öðrum frægum leikara úti á götu. Latínó. Kem ekki nafninu fyrir mig. Hélt fyrst að ég hefði séð hann í Ugly Betty en það var ekki rétt. Verð að brjóta heilann.
Lét plata mig aðeins í sambandi við iPod. Leiðrétti mistökin en ekki til fullnustu. Segi ykkur frá því í sérfærslu.
Ætlaði á söngleik en þegar ég kom niður á Times Square þar sem hægt er að fá miða á hálfvirði var þegar komin löng röð og enn klukkutími í að miðasala opnaði. Ákvað að ég nennti ekki að eyða tíma mínum í New York í röð. Var líka alveg sama um hvort ég færi á söngleik eða ekki. Enginn sérstakur sem mig langaði ógurlega að sjá. Fór í bíó í staðinn á Marley and me en fannst hún ekkert sérstök. Og poppið var ekkert sérstakt.
Jæja, best að fara að borga reikninginn minn og halda áfram á labbinu. Blogga næst frá Vancouver.
--------
Bæti hér við færslu sem ég skrifaði fyrsta kvöldið mitt í New York en gat ekki hlaðið inn á vefinn.
Jæja, ég sit nú á hótelherbergi í New York, tiltölulega þreytt, en ekki alveg tilbúin til að fara að sofa. Svo í staðinn horfi ég á Starsky og Hutch með öðru auga og hef hitt á tölvuskjánum.
Flugvélin lenti í NY um sex leytið en það tók langan tíma að komast út af flugvellinum. Áður en ég fór hafði frændi minn nefnt það að þegar hann flaug síðast til NY þá hafi miklu fleiri landamæraverðir séð um að koma Bandaríkjamönnum í gegnum vegabréfaeftirlitið en útlendingum. Það hafði verið eins þegar ég flaug hérna í gegn um daginn. Í kvöld tók þó steininn út. Þeir hleyptu nefnilega engum útlendingum í gegn fyrr en þeir voru búnir að skrá inn ALLA Bandaríkjamenn. Sem sagt, allir landamæraverðirnir sinntu Bandaríkjamönnum áður en þeir hleyptu öðrum í gegn. Þvílík mismunun. Bandaríkjamenn fóru sem sagt í gegn á tíu mínútum en ég var ekki komin út fyrr en 45 mínútum síðar.
Ferðin inn í Manhattan tók líka langan tíma. Ég tók loftlestina að neðanjarðarlestarstöðinni og síðan (bláu) línu E inn í miðborgina. Þar varð ég að skipta yfir í rauðu línuna en það var hægara sagt en gert. Ég varð nefnilega að fara að lestarstöð 50 á bláu línunni, fara svo út og yfir götuna og aftur inn á lestarstöðina hinum megin (og borga mig aftur inn) og bláu línuna síðan eina stöð til baka (hún skiptist nefnilega) og þaðan gat ég tekið lestina eina stöð og skipt þar yfir í rauðu línuna. Og aðeins einu sinni var rúllustigi. Alls staðar annars staðar varð ég að rogast upp og niður stiga með þungar töskurnar. Sem betur fer var eftirleikurinn auðveldur því hótelið var innan við hundrað metra frá lestarstöðinni.
Ég tékkaði mig inn, kom mér lauslega fyrir en skaust svo út og fékk mér hamborgara (orðin sársvöng eftir langt ferðalag).
Á morgun ætla ég að borða hádegisverð með Hönnu frænku hennar Guðrúnar Helgu (sem er frænka mín) og um kvöldið er það svo Madison Square Garden og hokkíleikurinn: New York Rangers fær Montreal Canadiens í heimsókn. Hlakka mikið til.
En sem sagt, komin heil á höldnu upp á hótel þannig að mamma, þú getur andað léttar.
Annað í þessari ferð er algjörlega óskipulagt og ég mun bara svona láta það ráðast hvað ég tek mér fyrir hendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Týndi kötturinn
1.1.2009 | 19:34
Kolbrún bróðurdóttir mín fékk nýjan kettling í dag. Þegar þau komu niður í holtin í afmæliskaffi pabba var kettlingurinn skilinn eftir heima og fannst hann hvergi þegar gengið kom aftur heim. Leitað var um allt og öllu snúið við. Eftir tveggja tíma leit var hringt eftir hjálp og við pabbi fórum til að hjálpa við leitina. Who you wanna call? Catbusters!
Kolbrún lýsti fyrir mér kettlingnum - svartur og hvítur. Já, það var nú vissara svo ég færi ekki að koma með einhvern annan kettling úr felum.
Við snérum öllum aftur við en ekkert gekk. Ég fór enn einu sinni inn í svefnherbergi bróður míns og mágkonu og fékk allt í einu þá tilfinningu að kötturinn væri þarna. Svo ég ákvað að opna skúffur þótt mér þætti svolítið skrítið að vaða ofan í svefnherbergisskúffur hjóna. Maður veit aldrei hvað maður getur fundið þar.
Og þarna, ofan í hér um bil tómri skúffunni, var kettlingsræfillinn, skíthræddur, og hvæsti á mig. Ég tók þennan vesaling upp og fór með hann inn í stofu þar sem uppi varð fótur og fit. Kolbrún margþakkaði mér fyrir að finna dýrið og vildi leika við hann. Greyið Keli - það er ekki alltaf sældarlíf að búa með sex ára dömu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gleðilegt nýtt ár - Happy new year!
1.1.2009 | 02:00
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með von um betri tíð.
I wish you all a happy new year and I hope it's going to be wonderful. Just over a year to Olympics!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í jólafríi
30.12.2008 | 18:25
Ég hef notið þess að slappa af heima, fara í sund, borða góðan mat (og nammi) og almennt gera sem minnst.
Dagurinn í gær var hins vegar töluvert fullur af skemmtilegum atburðum. Fór í sund stuttu eftir að ég vaknaði (eftir morgunverð) og synti kílómetra. Hef annars bara verið að synda 750 metra - finnst það yfirleitt ágætt).
Eftir hádegið rölti ég niður á Glerártorg með foreldrunum. Við þurftum að gera ýmislegt og ákváðum að slá útréttingunum saman við smá líkamsrækt.
Um þrjú leytið dró ég Gunna bróður, Dísu mágkonu og Guðrúnu dóttur þeirra á skauta og það var rosalega gaman. Vorum þar í sirka einn og hálfan tíma en þá voru líka allir að drepast í fótunum.
Síðan fór ég til Hauks bróður og Írisar í kvöldmat í þennan líka fína kjúklingarétt. Fór ekki heim fyrr en um hálftíu og lallaði þá niður í holtahverfi. Haukur bauðst til að keyra mig heim en mér hefur alltaf þótt notalegt að labba á Akureyri. Og þetta eru ekki nema um 20 mínútur frá þeim til mömmu og pabba.
Þegar ég kom heim var farið beint í heita pottinn hjá Gunna bróður og þar sátum við í vel yfir klukkutíma. Klukkan var orðin hálf tólf þegar Dísa kom og sagði Guðrúnu að fara í rúmið - enda sú stutta bara níu ára og auðvitað kominn svefntími á hana. Það var svolítið fyndið þegar við löbbuðum uppeftir til mömmu og pabba á handklæðunum einum saman um hávetur (nei nei, sundfötin auðvitað innan undir). En þetta var nú ekki langt - Gunni býr í næsta húsi. Hann vildi ekki vera of langt frá mömmu sinni
Dagurinn í dag var rólegri. Sundferð, Bónusferð, lærdómur, lestur völvunnar, hönnun afmæliskorts, vandræði með vildarpunkta á Icelandair (það er ekkert hægt að fá fyrir þetta lengur og punktar að fyrnast).
En nú ætla ég að fara og athuga hvort kjötbollurnar eru ekki tilbúnar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Christmas eve in Iceland
26.12.2008 | 21:19
I slept till noon, or thereabout, on the 24th of December, aðfangadagur, as it is called in Iceland. After lunch I went to my youngest brother's place and played a bit of a board game with my niece and nephew before mom called and told me they were going to the graveyard. It's a tradition in Iceland that everyone goes to the graveyard on Christmas eve and lights candles for dead loved ones. Five people in my family lie there - both sets of grand parents and my uncle who died before I was born. We light candles and say prayers and it's always a rather sad moment because they are not with us anymore. My maternal grandparents always used to spend Christmas with us.
After the trip to the graveyard I took it easy for a while, before taking a bath, shining up and heading to my oldest brother's place. We had pork for dinner, which I always love. After the ice cream and when the table had been cleared my nices got to open their presents. They were so excited the younger started vomiting. Then there was paper wrappings all over the place and the floor covered with clothes and toys. In between were a few presents for my brother and his wife and one for each of us, me, mom and dad. We only opened the presents we got from their family. The others we opened at home.
I got some very nice things; a couple of CDs, a book, mittens, a shawl, pyjamas, a necklace, socks, candle and a beautiful clock my father carved. He's big into carving now that he's retired. My mother makes things out of class and clay. Really cool things and she gave me one of her pictures too.
Around nine my youngest brother and family came for coffee even though no one was really hungry yet after all the eating. But it's kind of a tradition.
I went to bed around midnight with a good Icelandic book and enjoyed a successful Christmas eve.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðileg jól
24.12.2008 | 15:10
Ég vil óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég þakka ykkur öll innilega fyrir samskiptin á árinu sem er að líða og vona að þau megi halda áfram á næsta ári.
Ég er búin að fara upp í kirkjugarð og kveikja á kerti fyrir afa mína og ömmur og nú á eftir ætla ég að kveikja á kerti fyrir hana Heddu, fyrrverandi skólasystur mína sem dó í fyrra. Við erum mörg úr bekknum sem ætlum að gera það.
Svo er bara að drífa sig í bað og fara í jólafötin og skella sér í mat til Hauks bróður. Vona að ykkar aðfangadagur verði sem bestur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)