Glæpaborgin Vancouver

Í dag var framið sjöunda morðið á StórVancouversvæðinu á einni viku. Tólfta skotárásin á sextán dögum. Allar þessar árásir virðast vera tengdar glæpaklíkum. Talið er að UN glæpaklíkan (nei, held það séu ekki Sameinuðu Þjóðirnar) sé að reyna að útrýma félögum í Rauðu sporðdrekunum. Í gær horfði fjögurra ára drengur upp á móður sína skotna við hliðina á sér í fjölskyldubílnum. Sú hafði verið tekin fyrir eiturlyfjasölu og var einmitt félagi í Rauðu sporðdrekunum.

Hingað til hafa saklausir samborgarar sloppið en það hlýtur bara að vera spurning um tíma hvenær einhver er svo óheppinn að vera rangur maður á röngum stað. Sérstaklega þar sem sumar þessa skotárása hafa átt sér stað um miðjan dag og jafnvel á bílastæðum verslanamiðstöðva. 

Margir eru víst orðnir hræddir um sjálfa sig og börnin sín og það virðist sérstaklega eiga um norðurhluta Surreyborgar þar sem ástandið virðist einna verst. Sjálf hef ég ekki miklar áhyggjur enda örugglega meiri líkur á því að drepast í umferðaslysi en að lenda í skotárás, en það er ljóst að lögreglan verður að fara að gera eitthvað í málinu.

Winnipeg var áður fyrr talin glæpaborg landsins þegar miðað er við höfðatölu en það virðist sem Vancouver hafi nú tekið við þeim vafasama titli. Hmmm...alltaf virðist ég vera í glæpaborgunum!!!


Kosningarétturinn í raun tekinn af Íslendingum erlendis

Kosningareglur Íslands kveða á um það að þeir sem hafa verið búsettir erlendis lengur en átta ár verða að kæra sig inn á kjörskrá og verða að gera það fyrir 1. desember fyrir kosningar. Vegna þess að ekki var boðað til kosninga fyrir þann tíma að þessu sinni þýðir þetta að þeir Íslendingar sem búið hafa erlendis lengur en fjögur ár og kærði sig ekki inn á kjörskrá í haust upp á von og óvon um að við losnuðum við bölvaða stjórnina, fá ekki að kjósa í næstu Alþingiskosningum. Til þess að breyta þessu þarf að breyta lögum.

Ég legg til að þessum lögum verði breytt asap svo að við sem búum erlendis fáum að taka þátt í kosningunum eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar. 

Á Fésbók hefur verið búinn til hópur um þetta málefni og má finna síðuna hér: http://www.facebook.com/home.php#/group.php?gid=65012319016&ref=mf

Þar má lesa þessa yfirlýsingu:

 
Nýlega var boðað til Alþingiskosninga með óvenjulega skömmum fyrirvara og fara þær fram þann 25. apríl 2009.

Venjulega hafa Íslendingar búsettir erlendis vitað af kosningum með dágóðum fyrirvara og haft nægan tíma til að tryggja það að þeir séu á kjörskrá fyrir tilsettan tíma, sem er 1. desember ár hvert. Það er ljóst að í þetta skiptið er ekki mögulegt að virða þau tímamörk, ekki var ljóst í nóvember að boðað yrði til kosninga í ár.

Þessar kosningar eru mjög mikilvægar því óumdeilanlega eru miklir umbrotatímar á Íslandi einmitt núna. Það eru því mikil vonbrigði þeim sem komast að því að þeir verði að sitja hjá í þetta skiptið.

Við undirrituð óskum því eftir því að samþykkt verði bráðabirgðalög sem geri íslenskum ríkisborgurum kleift að komast á kjörskrá fyrir þennan óvænta kjörfund í apríl.
http://www.petitiononline.com/hqnv3bb/petition.html

Ég hvet alla til þess að skrifa undir þessa áskorun og ef einhver Alþingismaður les þetta þá hvet ég þá til þess að taka þetta mál upp á Alþingi sem fyrst. Manni finnst sem réttur manns sem Íslendings hafi verið tekinn frá manni þegar kosningarétturinn hefur verið tekinn í burtu. Og þessar kosningar eru líklega þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið síðan ég fékk kosningarétt fyrir .... nokkrum árum!

Er þetta einu sinni enska?

Það sem mér finnst mun fyndnara en myndbandið er athugasemdin frá hat39 sem segir:

"I can't understand what she is saying. Is that even English she's talking?"
Haha, týpískt fyrir þessa enskumælandi - sjá (eða heyra) aldrei út fyrir sjóndeildarhringinn. Einhver svarar einfaldlega með því að segja að hún sé að tala kínversku og sleppir því að gera grín að viðkomandi. Ég hefði átt erfitt með að skjóta ekki á asnann. Geri það því bara hér þótt hann/hún skilji ekki hvað ég skrifa enda heldur ekki enska.

mbl.is Missti af vélinni og „kúlið“ um leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins frjáls

Eftir fimm ára dvöl í Vancouver án þess að hafa farartæki á fjórum hjólum lét ég mig loks hafa það að kaupa bíl. Ég var orðin þreytt á því að vera alltaf háð öðrum í hvert skipti sem ég vildi fara út úr borginni, á skíði eða í fjallgöngur. Það tók mig tvo klukkutíma að fara í heimsókn til Juliönnu með strætó, einn og hálfan tíma að fara í Íslendingahús og klukkutíma og korter að fara í 8Rinks þar sem ég spila innanhússbolta.

Nýjasti meðlimur heimilishaldsins er Pontiac Grand Am árgerð 2001. Þetta er stærri bíll en ég ætlaði mér að kaupa og ég hafði alls ekki ætlað að kaupa sportbíl, en það var bara svo þægilegt að keyra hann að ég lét til leiðast. 

Og ég skellti mér strax upp í Cypress á snjóbretti. Nú verður svo margt þægilegra.

Set inn mynd sem tekin var kvöldið sem ég keyrði bílinn heim.

img_1690.jpg

 

 


Eitt ár í næstu Ólympíuleika

Í dag er akkúrat ár þar til vetrarólympíuleikarnir í Vancouver 2010 verða settir við mikla athöfn. Af því tilefni var Ólympíukyndillinn afhjúpaður eins og ég nefndi í síðasta bloggi. Við í vinnunni vorum ekki viðstödd þá athöfn en fengum smá skemmtun samt sem áður þegar skautahlauparinn Cindy Klassen frá Winnipeg kom í heimsókn og við fengum líka að taka myndir af okkur með Ólympíukyndlinum og lukkutröllunum. Ég fékk loks mynd af okkur Quatchi tveim saman. Hef alltaf þurft að burðast með hin tröllin tvö.

One year countdown 009 One year countdown 005


Ólympíukyndillinn afhjúpaður

Í dag voru mikil hátíðarhöld í Whistler, Bresku Kólumbíu, þar sem Ólympíukyndillinn fyrir Vetrarólympíuleikana 2010 var afhjúpaður. Þetta er glæsilegur kyndill sem minnir á ís og kulda sem hæfir Kanada einkar vel þótt kannski sé það ekki það sem manni dettur fyrst í hug í sambandi við Vancouver. Fötin sem kyndilberarnir munu klæðast eru reyndar ekki flott við fyrstu sín, hvítur íþróttagalli, en kannski venjast þau eins og annað.

Hér má sjá skemmtilegt kort af leiðinni sem hlaupin verður.

2010 Olympic Torch with flame.

 


Kyrrðin uppi á Seymour fjalli

 Það eru þrjú skíðasvæði í fjöllunum fyrir ofan Vancouver. Flestir eru sammála um að Cypress sé best, síðan Grouse og að lokum Seymour. Ég hafði því aldrei nennt til Seymour - sá ekki tilganginn. Í vetur komst ég hins vegar að því að mánudagskvöld eru frí fyrir konur (þeir vilja líklega fá fleiri stelpur í fjallið) svo ég ákvað að notfæra mér þetta. Við Emma skelltum okkur því á snjóbretti strax eftir vinnu. Veðrið var dásamlegt, næstum því fullt tungl, og útsýnið yfir borgina magnað. Ekki eins flott og ofan af Grouse en flott samt. Set inn nokkrar myndir hér að neðan.

 

  

   

   


Fyrsta Whistlerferð ársins

Ég fór til Whistler um helgina. Þetta var ein þessa ferða sem vatt uppá sig. Það byrjaði þannig að ég var að öfundast Whistler 1út í kunningja minn sem var þarna uppfrá við vinnu. Mér fannst hann hrikalega heppinn að fá að vera í Whistler á launum, þótt reyndar hafi hann haft svo mikið að gera að hann hafði ekki einu sinni komist á skíði. Honum fannst þetta nú ekki mikið mál og sagði mér að koma bara uppeftir. Nóg væri nú plássið. Og með ókeypis gistingu gat ég ekki sagt nei. Svo ég ákvað að eyða helginni á skíðum og kanna næturlífið í Whisler á laugardagskvöldinu.

Þegar Emma og Liza fréttu að ég ætlaði uppeftir vildu þær koma með líka og síðar bættust Elli og Cathy í hópinn. Svo við leigðum bara bíl og Whistler2stelpurnar leigðu sér hótelherbergi og við skelltum okkur í helgarferð.

Veðrið var þokkalegt þótt reyndar hefði verið kalt og skiptust á snjókoma, sól og þoka. En ég renndi mér allan daginn og kom ekki niður aftur fyrr en lyfturnar lokuðu. Þá voru stelpurnar löngu búnar að gefast upp.

Vanalega fer maður beint inn í bíl og situr þar svo sveittur og þreyttur í þrjá klukkutíma eftir skíðaferð. Vanalega þarf maður að bíða í 20 mínútur á Ljónabrúnni til að komast inn í Vancouver. Það var því notalegt að skríða í staðinn inn á hótelherbergi, fara í heita sturtu og svo upp í rúm að blunda. Toppa svo með góðum kvöldverði í Whstler3góðum félagsskap. Stelpurnar fóru reyndar í heitan pott með vín en ég sleppti því.

Morguninn eftir var kafhríð og sást ekki út úr augum. Ég vildi gjarnan fara á skíði en stelpurnar voru ekki spenntar fyrir því, svo við tókum bara morgninum rólega og keyrðum svo heim um tvö leytið.

Frábær ferð.


Rakinn lagar hóstann

Í kringum þriðja janúar fékk ég kvef. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að nú er liðinn næstum mánuður og ég er enn hóstandi. Ég gafst upp í gær og fór til læknis til að láta hlusta mig. Mér fannst ég nefnilega ekkert veik lengur - það var bara þessi hósti.

Læknirinn hlustaði mig og kíkti í kokið og sagði mér svo að það væri ekkert í lungum eða hálsi. Það sem væri að mér var það að eftir slæma vírusa þá er hálsinn oft svolítið bólginn og pirraður og þess vegna hósta ég. Hann sagði að hóstasöft virkuðu ekkert á þetta. Það sem væri langbest væri raki. Rakatæki gerðu ótrúlegt gagn og ef ég ætti ekkert slíkt skyldi ég setja heitt vatn í fat og anda svo yfir því með handklæði yfir höfðinu. Ég þoli ekki að anda að mér heitu vatni úr bala svo í staðinn fór ég og keypti rakatæki. Það er líka bara gott fyrir mig að hafa svoleiðis vegna þess að ég þarf alltaf að nota lítinn rafmagnshitara til að hita upp íbúðina (því nágranninn þráast enn við að hita húsið almennilega) og rafmagnshitarar þurrka upp loftið.

En til að gera langa sögu pínulítið styttri, nóttin í nótt var svo fyrsta í næstum heilan mánuð þar sem ég vaknaði ekki fyrr en klukkan hringdi. Alveg dásamlegt. Engin hóstaköst.

Þetta er líka eins gott því eldsnemma í fyrramálið fer ég til Whistler á skíði og kem ekki fyrr en á sunnudagskvöld. Við verðum þó nokkuð mörg sem förum. Það byrjaði reyndar smátt því kunningi minn bauð mér gistingu á meðan hann væri þarna uppfrá. Ég ákvað að nýta mér tækifærið og sagði Lizu og Emmu frá. Svo þær ákváðu að koma bara með og fara á hótel. Síðan heyrðu Kathy og Patricia af þessu ákváðu að koma með og að lokum bættist Elli í hópinn. Það ætti sem sagt að vera heilmikið stuð í Whistler um helgina. Jibbí!!!


Skrítið veður

Af því að það er þjóðaríþrótt Íslendinga að tala um veðrið þá ætla ég aðeins að segja ykkur frá því hversu undarlegt það hefur verið hér í Vancouver undanfarinn mánuð eða svo.

Það byrjaði að snjóa 13. desember og snjóaði meira og minna stanslaust fram yfir jól. Var mest rúmur metri jafnfallinn snjór. Það er enn snjór í görðum. Þetta er borg þar sem vanalega snjóar tvisvar eða þrisvar á ári og snjóinn tekur upp á fyrstu klukkutímunum.

Munið, þetta er borg þar sem enginn er á vetrardekkjum því hér er aldrei snjór. Og borgin er hæðótt. Enda lokaðist allt og sumir komust ekki út fyrir hússins dyr í marga daga.

Stuttu fyrir jól lokaðist allt flug og aumingjarnir hjá Air Canada borguðu ekki hótel fyrir nokkurn mann og létu fólk meira að segja borga fyrir það að breyta fluginu sínu þegar þeirra flug var fellt niður. Já, þjónustunni í fluggeiranum hefur all hrakað eftir níunda september. Alla vegar tók ég fyrst eftir því þá hvað farið var að skera allt niður.

Nú er farið að síga á seinni hluta janúar og það er enn snjór í görðum og á sumum gangstéttum. Veðrið er líka kaldara en vanalega og fer iðulega niður fyrir frostmark á næturnar og gerir það að verkum að allir þurfa að skafa rúðurnar á bílunum. Er viss um að sumir áttu ekki einu sinni sköfu fyrr en í desember.

Og til að bæta gráu ofan á svart hefur legið þétt þoka yfir borginni meira og minna í tvær vikur. Um daginn fórum við nokkrar stelpur í partý suður af borginni, á þrem bílum, og allir villtust. Við gátum ekki lesið á götuskiltin. Einn hópurinn lenti á flugvellinum, okkar bíll fór fram hjá afleggjaranum og var komin langt austur fyrir staðinn og þriðji bíllinn var einhvers staðar annars staðar að villast.

Myndin að neðan sýnir turnana á miðbænum standa upp úr þokunni. Það virðist ekki á hreinu hver tók þessa mynd en mér skilst að það hafi verið margir ljósmyndarar hlið við hlið, allir að taka eins myndir. En rosalega er hún nú flott.

Ídag skín sólin og allt í einu verður allt svo miklu betra.

vancouver in the fog by buzz.bishop.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband