Óvænt gjöf

Þegar ég mætti í vinnu í morgun beið mín nokkuð óvænt á skrifborðinu - gömul hljómplata með Þursaflokknum.

Ég var orðlaus. Hvaðan kom þessi plata? Hver í ósköpunum í Vanoc á íslenska hljómplötu?

Gátan var óleyst í um það bil hálftíma - þangað til Francois úr Protocol kom að borðinu mínu og spurði hvort mér hafi líkað gjöfin. Í ljós kom að hann hafði keypt þessa plötu þegar hann bjó í Þýskalandi á áttunda áratugnum og af því að hann á ekki lengur plötuspilara, og hafði brennt plötuna yfir á disk, þá ákvað hann að gefa mér hana.

Þannig að nú skreytir gömul plata með Þursunum borðið mitt. 


Góður leikur

É var á báðum áttum með það í dag hvort ég ætti að spila leikinn í kvöld. Ég var orðin betri af kvefinu en alls ekki góð. Þar sem vinnuvikan framundan á eftir að verða erfið þá hefði sjálfsagt verið best að sitja heima og hvíla sig en mér finnst bara svo gaman í fótbolta að ég hreinlega varð að spila.

Við spiluðum illa í fyrri hálfleik og staðan var 4-1 þegar flautað var til hlés. Við vorum einfaldlega ekki fyrst á boltann og horfðum á hina spila. Svo einfalt var það. Og Joe markmaður var ekki upp á sitt besta. Við byrjuðum síðari hálfleik með marki en svo hrundi allt aftur og fljótt var staðan orðin 7-3 fyrir hinu liðinu. Þá loks hrukkum við í gang eftir mark frá mér beint úr aukaspyrnu. Benita sem hafði skorað fyrsta markið okkar hló og sagði: "Þú gast ekki leyft mér að hafa forustuna!!!" (Fyrir þennan leik vorum við báðar búnar að skora 3 mörk fyrir þetta lið.) Svo ég kallaði til hennar: "Skoraðu annað og það mun tryggja okkur tvö" (því þá myndi ég jafna hana aftur). Það fyndna við þetta er að þetta gekk eftir. Benita skoraði sitt annað mark og ég síðan mitt annað örstuttu síðar. Þegar rúm mínúta var eftir jafnaði svo Will leikinn sem endaði 7-7. Við vorum hæst ánægð með góðan endasprett eftir þessa lélegu byrjun.

Við sitjum enn á toppi þriðju deildar og ég er ekkert veikari en ég var áður en ég spilaði. Sem sagt, gott mál.

 


Þegar þrjóska og dugnaður verða til þess að draumarnir rætast

Ég ætla að segja ykkur sögu sem sýnir hvernig fólki getur tekist það sem það ætlar sér ef viljinn og þrjóskan eru fyrir hendi.

Á fimmtudaginn hlustaði ég á sögu Mark Hatton sem keppti á tveim Ólympíuleikum fyrir Bretland í luge (sleðakeppni). Tíu ára gamall byrjaði hann að æfa stangarstökk og setti takmarkið strax á að komast á Ólympíuleika. Tvítugur varð hann hins vegar að sætta sig við það að hann væri einfaldlega ekki nógu góður. Hann dreymdi þó enn um Ólympíuleika og hugsað vel um það hvað hann hann gæti nú tekið sér fyrir hendur. Hann hafði séð myndband um luge og ákvað að prófa. Svo hann hafði samband við Breska Ólympíusambandið en þeir urðu nú að leita sér að upplýsingum um það hvort Bretland hefði luge samband. í ljós kom að svo var og Hatton hafði samband við þá. Þegar hann sagðist vera tvítugur var honum sagt að hann væri sextán árum of seint á ferðinni. Flestir byrjuðu að æfa í kringum fjögurra ára. Hann bað um að fá að vera biðlista eftir æfingarbúðum og þeir samþykktu það.

Það fór svo að hann fékk boð um að koma til Austurríkis á æfingu og þar skelltu sér allir á barinn og svo var honum sagt að hann togaði handfangið vinstra megin ef hann vildi beygja til hægri og handfangið hægra megin ef hann vildi beygja til vinstri. Daginn eftir mundi hann ekkert hvað hann átti að gera en var hreinlega sendur af stað niður brautina (að skíta á sig af hræðslu) og allt gekk að óskum. Neistinn var kviknaður. Nema Bretarnir sögðu að hann væri samt allt of gamall og neituðu að þjálfa hann frekar. Eftir að hafa samband við nokkra staði fékk hann loks að koma og æfa með Bandaríkjamönnum og var þar settur í hóp með fimm ára og yngri. Já, í alvöru, fimm ára og yngri. Og þessir litlu voru allt að fjórum sekúndum fljótari niður brautina, sem er mikill munur þegar tekið er tillit til þess að tími í luge er mældur í hundruðum úr sekúndu. 

Eftir mikla vinnu náði hann að verða bestur meðal fimm ára barna og fékk að halda áfram. Eftir þetta samþykktu Bretarnir að hann fengi að æfa með þeim og nokkrum árum síðar keppti hann loks fyrir Bretland á Ólympíuleikunum í Salt Lake City og fjórum árum síðar í Torino. í Salt Lake City kom hann fyrstur í mark af þeim keppendum sem komu frá löndum sem hafa enga luge braut. Draumurinn rættist af því að hann gafst ekki upp og af því að hann lét ekkert stoppa sig. 


Greyið ég

Ég var orðin svo vön því að sofa átta til níu tíma á hverri nóttu, vakna þegar ég var útsofin, borða morgunverð í rólegheitunum, fara í heitt bað og vinna heima hjá mér, að þegar þetta breyttist fór ónæmiskerfið í köku. Allt í einu fór ég að vakna við vekjaraklukkuna eftir of stuttan svefn, fara út með rakt hárið, eyða tveimur tímum á dag í strætó innan um alls kyns bakteríur... Afleiðingin: Kvef.

Fékk vott af hálsbólgu á fimmtudaginn, var skárri af henni í gær en fór að hósta um miðjan dag og nefið að stíflast. Í dag er ég búin að vera í rúminu og hef ýmist sofið eða lesið. Lítil orka, því miður. Ég á að spila fótbolta annað kvöld svo ég vona að ég skáni ef en ég verð svona máttlaus þá verð ég að sleppa því.

Annars er vissara að taka morgundeginum rólega því í næstu viku verður brjálað að gera og stanslausir fundir allan daginn. Ætli sé því ekki best að safna kröftum!

Ef ég er í stuði þá skrifa ég kannski meira á morgun um fyrstu vinnuvikuna. 


Ég og lukkutröllin

Eins og þið vitið hef ég áður lýst yfir hrifningu minni á lukkutröllum Vancouver ólympíuleikanna (æi, ekki lukkutröll, hvað kallar maður 'mascot'?) - eða þannig. Því varð ég hreinlega að nota tækifærið og fá mynd af mér með þeim þegar þau komu á svæðið í gær.

Talið frá vinstri: Quatchi, Boris sem vinnur með mér, Miga (já míga eins og hún er nú kölluð í minni deild), Rina, sem er ritari yfirmanns míns, ég og Sumi. Kannski verð ég búin að venjast þeim þegar Ólympíuleikarnir hefjast eftir tæp tvö ár.  

 


Detroit eru Stanley meistarar

Detroit Red Wings voru núna rétt í þessu að tryggja sér Stanley bikarinn í hokkí eftir 3-2 sigur á Pittsburgh. Staðan var 3-1 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en mörgæsirnr náðu að skora þegar þeir léku einum fleiri og þeir komu nálægt því að jafna leikinn á síðustu mínútu. En það dugði gekk ekki eftir og Niklas Lidstrom fær að hampa bikarnum - fyrstur allra Evrópubúa til þess að leiða lið sitt til sigurs í þessari keppni.

OL 2016 - hvar verda leikarnir haldnir?

Borgirnar fjorar sem munu berjast um Sumarolympiuleikana 2016 eru eftirfarandi:

Chicago, Tokyo, Rio og Madrid.

Stina Johanns, fyrst med frettirnar

 

P.S. Ekki buin ad setja upp PC skrattann fyrir islenskt lyklabord. Veit einhver hvernig a ad gera thad?


Góð byrjun

Jæja, ég lofaði að segja ykkur aðeins frá fyrstu tveim dögunum í vinnunni.

Dagurinn í gær var býsna þéttur. Við vorum 28 sem hófum vinnu annan júní, stærsti hópur frá því í janúar og við vorum látin fylla út alls kyns skjöl áður en við vorum send í þriggja klukkutíma fyrirlestur um fyrirtækið. Í hádeginu borðuðum við með nánustu samstarfsmönnum og svo vorum við send á tölvufyrirlestur þar sem okkur voru kynntar helstu siðareglur fyrirtækisins (t.d. má ekki blogga of náið um það sem fram fer í vinnunni - og aldrei má segja fréttir af atburðum sem ekki er búið að tilkynna opinberlega), okkur kennt á intranetið (innra kerfi fyrirtækisins), og svo vorum við send til baka, hvert með sína fartölvuna. Þeir nota mest fartölvur enda geta starfsmenn þá tekið vinnuna heim ef svo ber undir, o.s.frv. Klukkan þrjú var ég loksins búin að hlusta á alla fyrirlestra dagsins og þá fór ég að skrifborðinu mínu og vann við það að koma tölvunni í gagnið. Helv. pési. Þá á eftir að taka mig nokkurn tíma að venjast henni. Í allan dag ýtti ég t.d. á 'home' takkann í stað 'backspace' og var sífellt send fremst í línuna. Arg.

Í dag sat ég fyrirlestra frá níu til eitt með smá göngutúr um fyrirtækið svona um ellefu leytið. Klukkan eitt var ég laus þaðan og hélt þá áfram við að koma öllu í gagnið. T.d. þurfti ég að setja upp símann og einnig opinberu undirskriftina sem birtist neðst í öllum bréfum sem koma frá mér. Þetta þarf allt að fylgja ákveðnum standard. Ég fékk líka að sjá dagskrá næstu viku sem er alveg geðveik. Þá verður mér algjörlega hent út í sundlaugina -  spurningin er hvort ég fæ að vera með kút.

Samstarfsfólk mitt er alveg magnað. Ég vinn mest með Kiara og Boris. Við þrjú myndum ákveðna heild undir yfirstjórn Maureen sem vinnur að mestu frá Salt Lake City. Við fjögur erum síðan hluti af deild sem kallast International Client Service og sameiginlega munum við sjá um þjónustu við hina erlendu íþróttamenn, blaðamenn og þjóðhöfðingja. Mér skilst að við séum fimmtán sem vinnum saman þar.

Við þrjú, ég, Kiara og Boris höfum mikil samskipti við Liza og Rina og þær eru báðar frábærar. Allt er þetta fólk á milli 30 og 40 og því góður hópur fyrir mig. Liza og Kiara eru að auki báðar einhleypar þannig að það er aldrei að vita nema það verði nokkur stelpnakvöld haldin. Við fimm ætlum annars saman á kaffihús í hádeginu á morgun í tilefni af fyrstu vikunni minni. Kiara sendi út opinbert boð í gegnum tölvupóstinn og um leið og maður samþykkir boðið færist tíminn inn í dagatalið mitt. Frábært kerfi. Þannig er allt gert þarna. Ég var í allan dag að fá alls kyns tilkynningar um fundi sem ég þarf að sitja og um leið og ég samþykkti þá hurfu bréfin úr tölvupóstinum og lentu í staðinn í dagatalinu. Þar er síðan bjalla sem mun láta mig vita með 15 mínútna fyrirvara. Í fyrramálið mun ég t.d. eiga fund með konunni sem sér um eftirlaun og hún mun setja upp allt kerfið sem ég þarf þar.

Allt er eitthvað svo skipulagt. Í gær, t.d. þegar ég kom úr tölvukennslunni að borðinu mínu var kominn sími á borðið, pennar og heftari við hliðina, nafnið mitt á básinn og búið að setja upp heimasíðu fyrir mig þar sem búið var að setja mynd af mér. Sniðugt maður.

Starfsmenn dreifast á tvö hús.  Húsið sem ég er í er á sjö hæðum og er að mestu úr gleri. Því er bjart og notalegt og þótt næstum allir séu með bása en ekki skrifstofur þá er þetta ekki svona eitt völundarhús af básum. Lægra húsið, sem er á tveim hæðum, er meira þannig. Og þar er miklu dimmra. Ég er ánægð með að vera í háhýsinu. En þarna er næstum ekkert næði og maður getur ekki lagað á sér brækurnar án þess að einhver sjái. Ég held að John Furlong, forstjóri, og hans fimm undirmenn séu þeir einu sem hafa skrifstofur. Hvorki yfirmaður minn né yfirmaður hennar fá slíkan munað.

Ég setti reyndar eina konu í vanda í dag - strax á öðrum degi. Ég spurði hvort þeir hefðu ekkert gert til þess að kanna hvort nöfnin sem lukkudýrunum voru gefin hefðu slæma merkingu í öðrum málum. Benti á að sætasta skepnan heitir Miga. Mig langaði að kaupa svoleiðis handa bræðrabörnum mínum en ég er ekki viss um að þau myndu vilja eiga loðdýr með nafn sem tengdist hlandi. Hún reyndi að stynja einhverju upp um það að þetta væri aðallega fyrir n-amerískan markað sem er auðvitað bull. Samstarfsmenn mínir hlógu svo mikið þegar ég sagði þeim frá þessu að það sem eftir var dags kölluðu þau mig vandræðagemling og sögðu að ég væri komin á svartan lista hjá hönnunardeildinni. Síðan var ákveðið að í hvert sinn sem við færum á klóið þá ættum við að segja: I'm going to miga. Húmorinn í alþjóðadeildinni!!!!

En sem sagt, virkilega góð byrjun í nýju vinnunni.  


Góður fyrsti vinnudagurinn

Þetta verður að vera stutt færsla í kvöld því ég kom ekki heim fyrr en um ellefu leytið og ég hreinlega þarf að fara að sofa. Ástæða þess að ég kom svona seint heim er ekki sú að ég hafi verið sett í yfirvinnu á fyrsta degi heldur sú að eftir vinnu fór ég niður í bæ og í kvöldverð með Norræna félaginu. Við borðuðum þetta dásamlega hreindýrakjöt. Mjög skemmtilegt kvöld.

Fyrsti vinnudagurinn var mjög góður og mér lýst geysilega vel á fólkið sem ég á eftir að vinna með. En ég ætla að skrifa miklu meira um þetta á morgun. 


Annar í ráðstefnu

Dagur númer tvö á ráðstefnunum tveim gekk bara fínt. Ég sat fyrirlestra hjá norræna félaginu í gærmorgun og fór með því gengi í hádegisverð. Lengst sátum við Per-Anders og Chris. Það var bara fínt - hitti þá alltaf á þessum ráðstefnum. Fór síðan yfir í málvísindi þar sem ég var með veggspjald. Málvísindin eru í auknum mæli að færast yfir í veggspjald á þessum samkomum. Seinni partinn fór ég svo að sjá Mávahlátur sem ég hafði séð áður en myndin er góð í annarri umferð líka. Ágúst sat fyrir svörum eftir myndina og það var þrælskemmtilegt.

Fékk nokkur sms og símhringingar um kvöldið með velgengnisóskum frá félögum mínum en talaði svo fram á nótt við Akimi sem var svolítið áhyggjufull yfir ákveðnu máli. Hefði átt að vera farin að sofa en þegar vinir þurfa á manni að halda þá er það mikilvægara en smá svefn. Aðalatriðið var að ég náði að róa hana og hún hefur ábyggilega sofið betur fyrir vikið. Sjálf svaf ég eins og steinn. En nú er ég komin á fætur, þarf í sturtu, fæ mér morgunverð og svo er það bara að hoppa upp í strætó og fara í VINNUNA!!!!!!!

Þið fáið sjálfsagt að heyra fljótt af fyrsta degi vinnu! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband