Á ráðstefnum

Fyrsti dagur í ráðstefnu er að kvöldi kominn. Eftir fjögurra og hálftíma svefn í nótt (já, ég fór ekki í rúmið fyrr en um þrjú) vaknaði ég eldhress, eða svo sem, og mætti á fyrsta fyrirlestur á málvísindaráðstefnunni klukkan níu í morgun. Hlustaði á þrjá fyrirlestra en fór svo yfir í málvísindadeild og hjálpaði við matarundirbúning fyrir móttöku síðar um daginn. Fór þaðan og prentaði úthenduna mína fyrir morgundaginn og fór svo beint á stjórnarfund hjá AASSC, félagi norrænna fræða í Kanada. Þaðan fórum við beint í móttöku þar sem ég hitti fullt af fólki sem ég þekki. Ég er búin að vera í AASSC síðan annað árið mitt í Kanada þannig að ég þekki orðið stóran hluta þeirra sem mæta á þessar ráðstefnur. Rakst líka á Fred kunningja minn frá Victoria sem sagði mér raunasögu sína frá Íslandi. Ég ætla ekki að endurtaka hana hér enda veit maður aldrei hver les þetta blogg.

Í kvöld spilaði ég svo innanhúsboltann og við unnum 7-5 og sitjum enn á toppi þriðju deildar. Nema nú sitjum við þar ein. Erum með tólf stig eftir sjö leiki. Höfum sem sagt unnið sex og tapað einum. Erum býsna stolt af okkur.  Næsta lið á eftir hefur tíu stig.

Á morgun mun ég skipta deginum á milli málvísindafélagsins og norræna félagsins og seinni partinn ætla ég svo í bíó þar sem sýnd verður Mávahlátur Ágústs Guðmundssonar en hann er einmitt gestafyrirlesari ráðstefnunnar. Hitti hann og maka hans einmitt í dag.

Öhpdeit túmorrow! 

Vil annars nota tækifærið og óska bræðrasonum mínum, Sverri Má, Jóhanni Inga og Árna Heiðari til hamingju með prófin sín. Árni, sonur Geira bróður, útskrifaðist með stúdentspróf frá MR í gær og Sverrir og Jói, strákarnir hans Gunna bróður, útskrifuðust frá VMA í haust. Ég var bara svo rænulaus þá að ég fattaði ekki að setja neitt um það á bloggið. Til hamingju strákar. Við erum öll stolt af ykkur.

 


Er sigur nauðsynlegur?

Ókei, ef við vinnum Svía þá tryggjum við okkur sæti á Ólympíuleikunum, rétt? En ef við töpum eða náum aðeins jafntefli? Höfum við þá helst úr lestinni eða getum við tryggt okkur réttinn á einhvern annan hátt?
mbl.is Pólverjar voru númeri of stórir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður gestur frá Ottawa

Ég stenst ekki mátið að blogga svolítið þótt klukkan sé að nálgast þrjú og ég þurfi að vakna snemma í fyrramálið til þess að fara á ráðstefnu.

Auður vinkona mín frá Ottawa (reyndar frá Íslandi - býr í Ottawa) hefur verið hér vestra í tæpa viku. Hún var á ráðstefnu sem lauk í gær svo við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Við hittumst á kampus um hálf ellefu eftir að ég var búin í krabbameinsskoðun og almennri læknisskoðun, og fórum niður í bæ. Kíktum aðeins í nýju H&M búðina (Auður í annað skipti á nokkrum dögum - fín búð) og löbbuðum Robson sem er ein aðal verslunargatan hér í borg.

Um eitt leytið hittum við Marion og við þrjár skelltum okkur í klifur. Auður hafði ekki klifrað í sjö ár en stóð sig vel. Við Marion vorum líka ákaflega ánægðar með að komast aftur í klifrið en það hefur verið lítið um það undanfarið.  

Við fórum beint heim til mín þaðan, skiptum um föt og fínpússuðum okkur aðeins og Rosemary kom svo og sótti okkur og við keyrðum saman yfir í Íslandshús í New Westminster þar sem haldin var móttaka fyrir Markús Örn Antonsson. Móttakan var á milli 5 og 7 en við vorum nokkur sem sátum þarna á spjalli til tæplega níu. Við skemmtum okkur vel og hlógum að Norm sem var orðinn pínulítið drukkinn og svolítið kvensamur. 

Við fengum aftur far með Rosemary niður í Vancouver en hoppuðum út á Granville -  ég, Auður og Mark sem hafði slegist í hópinn. Við byrjuðum á því að fara á Doolin's pub en þar var svo mikill hávaði að við færðum okkur yfir á Malone's sem er meira veitingastaður en pöbb og þar var meira næði til að spjalla. Þar var líka meira tilboð á góðgæti og við fengum okkur nokkra smárétti og síðan súkkulaðiköku í eftirrétt.

Einhvern veginn leið tíminn án þess að við tækjum eftir og klukkan var orðin rúmlega eitt þegar við héldum heim á leið. Gallinn var að bölvuð lestin var hætt að ganga sem var ekki gott fyrir Mark. Með lestinni væri hann sennilega um 15 mínútur heim en með strætó myndi það taka langan tíma auk þess sem hann þyrfti að skipta um vagn og síðan labba spotta. Þannig að hann tók leigubíl í staðinn. Við Auður löbbuðum hins vegar yfir að strætóstöðinni. Það er alltaf gott að búa nálægt UBC. Alltaf nóg af vögnum að keyra heim drukkna háskólanemendur.

Þetta alveg yndislegur dagur og Auður fullyrti að hún hefði skemmt sér vel. Nú er bara að bíða eftir myndunum sem Auður tók yfir daginn. 


Sorgarfréttir - ungur maður fellur frá

Núna rétt áðan fékk ég sorglegar fréttir sem þó snerta mig ekki persónulega. Luc Bourdon, einn efnilegasta varnarmaður hokkíliðsins míns, Vancouver Canucks, lést í mótorhjólaslysi í New Brunswick í dag, aðeins tuttugu og eins árs gamall.

Luc var valinn af Canucks árið 2005 í fyrstu umferð, tíundi leikmaður í heild og lék fyrst með Val-dOr, Moncton, Cape Breton og svo Manitoba Moose. Ætlunin var að hann spilaði með Moose síðastliðinn vetur áður en hann kæmi upp í NHL deildina, en vegna meiðsla varnarmanna liðsins var Luc kallaður til og spilaði hann 27 leiki með aðalliðinu. 

Búist var við að hann yrði einn helsti varnarmaður liðsins í framtíðinni. 

Hér eru allir í sjokki. Ekki bara af því að hann hafði allt til að bera til þess að verða frábær leikmaður, heldur vegna þess að hann var aðeins 21 árs gamall og það er alltaf hræðilegt þegar ungt fólk fellur frá. Ég veit að mamma og hans og pabbi munu ekki koma á síðuna mína, né myndu þau skilja það sem ég skrifa hér þótt þau gerðu það, en ég vil samt nota tækifærið hér og votta samúð mína. 

 

 


Ekki líkur á sykursýki

Ég skrapp í Safeway í dag (okkar Hagkaup) að kaupa egg og mjólk og þar var þá hjúkrunarkona sem bauð upp á blóðsykursmælingum. Ég nota mér alltaf svona tækifæri til að tékka á heilsunni svo ég settist niður og rabbaði við hana. Hún sagði mér að blóðsykurinn mætti helst ekki vera lægri en 4 og alls ekki hærri en 7. Ég reyndist vera með blóðsykur 4,3 og fékk hrós frá hjúkrunarkonunni. Hún sagði að það væri greinilegt að ég hreyfði mig reglulega og borðaði hollan mat. Ég spígsporaði rígmontin í burtu, ánægð með sjálfa mig, og reyndi að hugsa ekki um það að ég er nú hálfgerður sykurgrís og borðaði síðast í gær stóran kanelsnúð með frosting. Kannski leyfir fótboltinn það að ég fái mér af og til sætindi.

 


Unnusta eða kærasta?

Ég er nokkuð viss um að hún er eingöngu unnusta hans ef þau eru trúlofuð. Þannig hef ég alla vega alltaf skilið orðið. Þangað til er hún kærasta hans.

Annars líst mér vel á að karlinn sé kominn með nýja dömu og það ríka. Hann ætti því ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún sé á eftir peningunum hans - sem nú eru öllu minni en áður en hann hitt Heatherkvendið.  Og hún er 47 sem er örlítið nær Paul í aldri. 

Hvað varð annars um Roseanne Arquette? Allt búið? 


mbl.is Mætti með nýju unnustuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kíkið endilega á þetta

Þegar ég var með Martin fyrir tveim árum eyddi hann stórum hluta frítíma síns í það að pródúsera og hljóðblanda plötu sem Bruno vinur hans var að búa vinna að. Ég kom nokkrum sinnum í hljóðverið og fylgdist með því sem hann var að gera. Ég hafði aldrei áður fylgst með vinnslu á plötu svo þetta var mjög áhugavert. Við Martin ásamt Neal vini hans ræddum mikið um sönginn hjá Bruno sem okkur fannst ekki nógu góður. Strákurinn hefur tónlistarhæfileika, það er ekki spurning, sérstaklega sem lagasmiður, en öll lögin voru eiginlega sungin eins og hann sæti á klósettinu með harðlífi. Martin hafði reynt að fara fínt í þetta og fá hann til að breyta og Neal hafði sungið nokkur lögin fyrir hann til að sýna honum hvað hann gæti prófað, en Bruno var greinilega ánægður með harðlífissönginn og hvorki Martin né Neal gátu sannfært hann um annað.

Ég man líka að Bruno var alveg ákveðinn í því að hann ætlaði að spila á öll hljóðfærin sjálfur en takturinn hjá honum var ekki alltaf upp á það besta. Það var sérlega í einu lagi sem trommuleikurinn hjá honum var aldrei í lagi. Martin var búinn að spila þetta fyrir hann upp aftur og aftur en Bruno náði þessu aldrei. Martin bauðst til að sjá um trommurnar á plötunni en það vildi hann ekki - þá spilaði hann ekki sjálfur á öll hljóðfærin.

Ástæða þess að ég minnist á þetta núna er sú að í kvöld sá ég vídeó við eitt laga Brunos. Söngurinn er enn sá sami og hann var fyrir tveim árum en það sem er merkilegast er að hann hefur leyft Martin að spila á trommurnar fyrir sig og gerir hann það býsna vel að mínu mati. Martin gerði líka myndbandið og mér finnst teikningar hans æðislegar. Hér getur maður sér hvernig minimalisminn getur stundum virkað flott.  

 



Ég bæti við öðru myndbandi sem Martin gerði fyrir nokkrum árum. Það er tekið við Belleveau Cove í Nova Scotia sem er við Bay of Fundy. Fundy flóinn er, eins og margir vita, þekktur fyrir ótrúlegan mun á flóði og fjöru. Það sem Martin gerði var að setja myndavél í gluggann á veitingahúsi við bryggjuna og lét myndavélina taka mynd á sirka þriggja mínútna fresti í 24 klukkutíma. Síðan skeytti hann þessu saman og setti tónlist við (eftir Mark DuCap). Útgáfan hér er stysta útgáfan sem hann gerði, spiluð hraðar og nær ekki alla 24 tímana heldur endar um nóttina. En það ætti að duga til þess að sjá hversu ótrúlega fjarar þarna. Bátarnir liggja bara í sandinum. Vona að þið njótið þessa. 


Þetta er auðvitað hundfúlt

Það sem mér finnst mest skítt við þetta er að Flugleiðir munu halda áfram að fljúga í vetur á alla staðina á austurströndinni (New York, Boston, Orlando, Halifax) en hætta einu flugunum sem fara öllu lengra (Minneapolis, Toronto). Sumir munu líklega benda á að það sé vegna þess að flugin á austurströndina séu styttri og að fleiri nýti sér þessar leiðir. Það er auðvitað rétt.

Fyrir okkur hér í vestanveðri Könöndu er þessi breyting hræðileg því hún gerir það að verkum að það er ekki mögulegt að fljúga heim á einum degi. Íslensku vélarnar lenda vanalega um fimm leytið og síðustu vélar dagsins fljúga yfirleitt á vesturströndina á svipuðum tíma. Því er ekki séns að ná tengiflugi. Stundum er hægt að ná flugi til Seattle en þá eru síðustu rúturnar til Vancouver löngu farnar og ef maður á ekki bíl þá er ekki hægt að keyra heim að loknu flugi. Þetta þýðir t.d. fyrir mig að ég þarf alltaf að kaupa mér hótelherbergi og gista yfir nótt, hvort sem væri í Seattle eða Boston/New York.

Flug í gegnum Toronto hefði breytt öllu því þeir fljúga miklu seinna til Vancouver, og Minnepolis virkar oft vel, sérstaklega t.d. fyrir þá sem búa í Winnipeg. 

Ég er að vonast til þess að komast heim um jólin. Það gæti orðið ódýrast fyrir mig að fljúga með Air Canada yfir nóttina til London (beint flug héðan) og skipta svo yfir í vél til Íslands. Ef ég flýg með Iceland Express þá hefur Icelandair þar með alveg misst viðskiptin við mig og svo held ég að sé um marga þá sem fljúga heim héðan. 

Skil ekki af hverju þeir þurfa að fljúga bæði til Boston og New York. Það er innan við klukkutímaflug þar á milli og ég get ekki ímyndað mér að Boston bjóði upp á tengiflug sem New York hefur ekki. Þeir hefðu frekar átt að halda Minneapolis leiðinni eða jafnvel Toronto. Báðir þessir staðir hafa gott tengiflug og oft á staði sem erfiðara er að ná til frá New York. 

Ókei, ókei. Ég er aðallega bara fúl hérna af því að þetta er óþægilegt fyrir mig og aðra Íslendinga í Kanada og ég er ekkert að hugsa um fjárhag Flugleiða. Þeir geta auðvitað gert það sem þeim sýnist og sem þeim hentar og það þýðir ekkert fyrir mig að væla. Ég tek því til baka allt um það að þeir ættu að gera eitthvað annað og læt bara standa að ég hefði gjarnan viljað að þeir gerðu þetta öðru vísi. 

Annars skil ég ekki af hverju þetta er tilkynnt svona seint. Þeir hljóta að vera löngu búnir að ákveða þetta því ég fékk tilkynningu um það fyrir alla vega viku, ef ekki er lengra síðan. 


mbl.is Icelandair dregur úr ferðaframboði í vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan í lestinni

Ég fór í matarboð í gærkvöldi til Jönu. Óðinn var í burtu svo við héldum smá kvennakvöld - bara Jana, Maggý, Julianna og ég. Það var voðalega notalegt.

Jana býr í Surrey svo það er löng leið heim. Maggý keyrði mig á lestarstöðina (og hafði sótt mig þangað fyrr um daginn) og eftir það tók við um hálftíma lestarferð og svo um hálftíma strætóferð (stundum tekur hún lengri tíma ef umferð er mikil).

Ástæða þess að ég ákvað að minnast á þessa ferð er sú að strax á fyrstu stöð komu inn lestarstarfsmenna að athuga hvort allir væru búnir að borga. Lestarkerfið hér byggist að sumu leyti á heiðarleika. Þ.e. maður þarf að borga í lestina en ekki er nauðsynlegt að ganga í gegnum hlið eða sýna lestarmiðann að öðru leyti. Í staðinn koma starfsmenn af og til í lestina til að athuga hvort maður er búinn að borga. Því er í rauninni hægt að taka sénsinn því ekki er oft tékkað, en á móti kemur að ef maður er tekinn í lestinni án löglegs fargjalds þá er sektin há.

Í gær komu sem sagt menn inn til að tékka og var ég auðvitað róleg yfir því enda með strætókort sem háskólanemendur við UBC og SFU fá sjálfkrafa (allir fá kort hvort sem þeir vilja eða ekki og við borgum í staðinn rúma $20 á mánuði, sem er ekki nema um fjórðungur af því sem kortið kostar á almennum markaði). Maðurinn kemur að mér og horfir lengi á kortið mitt. Kannski af því að myndin á því var tekin þegar ég byrjaði í UBC og þar er ég með drengjakoll og alls ekkert lík mér í dag. En hann gerði nú enga athugasemd, lét mig fá kortið til baka og hélt áfram til annarra í vagninum.

Þegar búið var að sjá til þess að allir hefðu borgað (ég hef ekki enn orðið vitni að því að einhver hafi verið ólöglega í lestinni) komu báðir mennirnir til baka og stóðu beint fyrir framan mig á meðan þeir biðu eftir því að lestin stoppaði á næstu stöð. Ég virti þá fyrir mér og var sérlega starsýnt á teiserbyssurnar sem báðir höfðu í beltunum og mér varð hugsað til allra teiser-atvikanna sem hafa komið upp á undanförnu ári. En það tók mig smá tíma að átta mig á því hvað var skrítið hér. Bíddu, venjulegir lestarstarfsmenn hafa ekki teiserbyssur. Þetta var lögreglan!!! Síðan hvenær er lestarlögreglan í því að athuga hvort maður borgar í lestina? Vanalega er það gert af venjulegum lestarstarfsmönnum.

Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvað annað var í gangi þarna. Þetta var á þriðjudagskvöldi og því ólíklegt að þeir hafi átt von á miklum drykkjulátum eða öðrum vandræðum. Voru þeir að leita að einhverju? Er eitthvað í gangi? Og í því ljósi, af hverju starði maðurinn svona lengi á kortið mitt áður en hann lét mig fá það aftur?  

En mikið rosalega var eitthvað langt í fattarann hjá mér þarna. Eins og það hafi ekki verið augljóst á fötunum og áletruninni 'police' að þetta voru lögreglumenn. Svona er það annars. Af því að þeir voru að sinna störfum almennra lestarstarfsmanna þá hugsaði ég ekki einu sinni út í það að þetta væru lögregulemenn, fyrr en ég sá bölvaðar byssurnar.

Við þetta má bæta að á síðasta ári hafa komið upp alla vega þrjú tilfelli þar sem lestarlögreglan notaði teiserbyssur á farþega sem voru með læti. Í a.m.k. einu tilfelli virtist það réttlætanlegt en í hinum tveim hefði mátt leysa málin á annan hátt. Það er það sorglega við byssurnar. Þótt af og til komi upp tilfelli þar sem notkun þeirra virðist nauðsynleg þá virðast hin tilfellin enn fleiri. 


Styttist í nýju vinnuna

Nú er bara vika þangað til ég byrja í nýju vinnunni og í dag fékk ég bréf frá þeim með helstu upplýsingum um fyrstu dagana. Ég þarf að mæta með ýmis skjöl, svo sem passann minn, ökuskírteini, sjúkrasamlagsskírteini, o.s.frv. Ég mun þurfa að skrifa undir alls konar skjöl, tala við lögreglumann til að tryggja að ég sé enginn glæpamaður, o.s.frv. Svo verð ég send á tveggja daga námskeið þar sem mér verður kennt allt um fyrirtækið og leikana, ég verð send í kynnisferð um bygginguna, þjálfuð í þeirri tækni sem ég mun þurfa að nota, o.s.frv.

Ég þarf að vera mætt á mánudagsmorguninn klukkan átta. Æ æ æ æ æ. Vanalega vakna ég ekki fyrr en klukkan átta í fyrsta lagi. Og hér er ég ekki að tala um að skella mér á hjólið eða fimm mínútna strætóferð. Nei, það tekur mig að minnsta kosti klukkutíma að komast þetta með strætó og ég þarf að gefa mér rúman tíma þennan fyrsta morgun til að vera viss um að ég mæti á svæðið tímanlega. Æ æ, ég mun þurfa að vakna klukkan sex!!!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband