Skíðahelgi

Klukkan er tæplega sex á laugardagsmorgni og ég er komin á fætur. Hvers vegna? Af því að ég ætla að skella mér til Whistler og skíða alla helgina. UBC á skála þarna uppfrá og ég ákvað að skella mér í hópferð með postdoc genginu. Ég þekki bara einn þar og hann mun ekki koma uppeftir fyrr en í kvöld. Þannig að ég verð bara að vona að þetta ókunna fólk bíti ekki.

Ég kem heim annað  kvöld en þarf þá að spila fótboltaleik í Burnaby. Það er því ekki líklegt að þið heyrið um helgina fyrr en á mánudaginn. 


Æðislegur leikur

Ég fór á leik í gær og þvílíkur leikur. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í langan tíma. Hann byrjaði með látum. Aðeins hálfa mínútu inn í leikinn fékk einn minna manna tveggja mínútna brottvísun. Ó nei, ætlar þetta að verða svoleiðis leikur þar sem við eyðum helmingnum af tímanum í skammarboxinu. En eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð höfðu mínir menn annað planað. Fimmtán sekúndum síðar nær Alexandre Burrows pökknum við varnarlínuna, skautar með hraða upp völlinn og skorar. Fjórir gegn fimm og það vorum við sem skoruðum en ekki Nashville. En þetta var bara byrjunin. Þegar fyrsti leikhluti var búinn var staðan 4-2 okkur í vil. Eftir það róaðist leikurinn aðeins en við skiptum ekki yfir í einhæfan varnarleik heldur bætum tveim mörkum við, einu í hvorum síðari leikhluta. Lokatölur 6-2 fyrir Canucks og við sitjum aftur í úrslitasæti.

Rosemary vinkona mín kom með mér, fyrsta sinn í mörg ár sem hún sér leik. Við fengum reyndar ekki sæti saman því við keyptum miða á hálfvirði en þar selja þau bara einstök sæti. En það skiptir engu máli, þegar ég fer á leiki er ég bara að horfa á það sem fram fer en ekki að sósíalísera. Við hittumst bara í hléum í staðinn. Rosemary var heppin. Ef maður sér aðeins einn leik í vetur þá var þetta einmitt leikurinn. Mark vinur minn var búinn að spá því að þessi yrði góður. Kannski vegna þess að síðast þegar þessi lið léku hér í GM höllinni töpuðum við 3-0 (ég sá þann leik líka) og tveir varnarmanna okkar meiddust. Annar, Kevin Bieksa lenti í því að kálfvöðvi hans var skorinn í sundur af leikmanni Nashville. Meiðslin héldu áfram í gærkvöldi. Kesler fékk pökk í kálfann og Aaron Miller var hent í vegginn af Jordan Tootoo og meiddist á öxl. Það er hugsanlegt að hann verði ekki meira með í vetur.

Þessi leikur þaggaði aðeins niður í hinum svokölluðu fylgismönnum sem hafa verið að kalla á hálshöggvun undanfarið. Þangað til næsti leikur tapast. En vonandi var þetta það sem liðið þarf til að komast af stað aftur. 


Vorið

Úti í garðinum standa krókusar í blóma. Það eru komnir knúbbar á runnana í hverfinu. Í dag sá ég hóp Kanadagæsa fljúgandi norður í vaffi. Ég er ekki frá því að vor sé í lofti.

Þegar gott lið á sér ömurlega fylgismenn

Það er fátt sem ég þoli eins illa eins og fylgjendur hópíþrótta. Það er eins og að minnsta kosti helmingurinn séu asnar með enga þolinmæði. Þegar liðinu gengur illa þá öskra þessir hálfvitar og heimta að hinn og þessi verði reknir, en ef vel gengur þá eru allir æðislegir.

Ég var að lesa aðeins skrifin inni á heimasíðu Canucks hokkíliðsins en okkur hefur ekki gengið alveg sem skyldi síðustu fjóra leikina. Og nú hópast inn á síðuna liðið sem heimtar að þjálfarinn verði rekinn og/eða framkvæmdastjórinn. Framkvæmdastjórinn er sakaður um að hafa ekkert gert til að fá sterkan sóknarmann áður en skiptitímanum lauk og þjálfarinn er sakaður um að láta leikmenn spila leiðinlegan varnarbolta. Hann er þar að auki ásakaður um að blanda línum of mikið, láta ekki réttu mennina spila, o.s.frv. Ég verð reyndar að segja: Það má greinilega reka báða því borgin er full af fólki sem greinilega veit betur hvernig á að stjórna hokkíliði. Undarlegt að þessir aftursætisbílstjórar skuli ekki hafa verið ráðnir fyrir löngu.

Sumir ganga meira að segja svo langt að heimta til baka þjálfara og framkvæmdastjóra sem voru hér áður, en...surprise surprise...gekk enn verr en nú gengur.

Ef liðið nær að hrista sig saman og vinna nokkra næstu leiki og komast í úrslitakeppnina þá munu þessar raddir þagna og í staðinn fara allir að segja að þeir vissu nú að liðið ætti þetta í sér.

Bölvaðir aular. Ég þoli ekki svona pakk sem siglir bara eftir vindi. Ég hef trú á því að maður eigi að standa með sínu liði í gegnum þykkt og þunnt, og jafnvel þótt það sé þunnt lengst af. Enda er ég og verð alltaf Þórsari!!! Og ég sný ekki baki við Canucks þótt þeir hafi tapað fjórum leikjum. Það eru um 18  leikir eftir og við erum bara tveimur stigum út úr úrslitakeppnissæti eins og er. Einn sigur fram yfir liðið á undan okkur og við erum inni. Ekki ætla ég að örvænta strax. Ég er bara skapvond út í þetta pakk sem kallar sig aðdáendur.

Verst var þetta í haust þegar ég sá liðið leika á móti Nashville. Okkar annars frábæri markvörður átti slakan leik og missti inn tvö aulaleg mörk. Þessi maður sem er elskaður framar öðrum í þessari borg mátti þola það að baulað var á hann. Ég horfði í kringum mig og átti ekki til orð. Mér fannst ég vera í leikhúsi í Frakklandi fyrr á öldum þegar tómötum var kastað á lélega leikara. Og þetta var í byrjun vetrar. Einn lélegur leikur frá Luongo og það var baulað á hann. 

Strákarnir mínir eiga þetta ekki skilið. Og hananú.


Fréttir frá Kanada

Hótanirnar í UBC

Í fréttum í gær var sagt frá því að lögreglan í Vancouver væri búin að handtaka nemandann sem stóð að baki hótununum gegn líffræðibyggingunni í UBC fyrir nokkrum vikum. Nemandinn er nítján ára gamall strákur, Hwi Lee. Lítið er vitað um hann en strákur með sama nafni hefur meðal annars keppt á Kanadaleikunum í eðlisfræði. Lögreglan vill ennþá ekkert segja um það hvað fólst í hótununum en þó er viðurkennt að þær hafi beinst gegn einum ritara líffræðideildarinnar svo og nemendum. Jæja, það er gott ð málið er úr sögunni. Þegar maður hefur í huga allar þær skotárásir sem gerðar hafa verið í háskólum undanfarin ár þá er ekki laust við að maður verði pínulítið hræddur þegar svona gerist.

Nágrannaerjur á sjöundu götu

Ég sagði ykkur aldrei frá því hvernig nágrannaerjurnar enduðu hér í húsinu. Þegar frá horfði hafði Rita heimtað að við borguðum allar jafnan hluta í rafmagnsreikningunum og að hún væri ekki skipt eins og alltaf hefur verið, eftir stærð íbúðar. Alison og ég ræddum málin en áður en við höfðum tekið ákvörðun um hvað gera skyldi kom gasreikningurinn. Rita skildi eftir skilaboð á síma Alison um að hún væri sátt við að skipta þeim reikning upp á gamla mátann. Alison hringdi í mig og ég stakk upp á að við myndum bara borga báða reikningana upp á gamla mátann. Við myndum bara láta Ritu fá ávísun fyrir báðum reikningum og svo myndum við bara sjá hvað gerðist. Það varð úr, við borguðum báðar reikninginn samkvæmt gömlu skiptingunni og biðum svo. Ekkert gerðist. Rita sagði ekki orð og mér sýnist málið vera úr sögunni. Líklega hefur sú gamla bara verið í vondu skapi þegar hún frekjaðist þetta og sá svo að sér þegar hún róaðist. Annað hvort það eða þá hún tók ekkert eftir því að við borguðum lægri upphæð en hún bað um!

Sarah Polley er rísandi stjarna

Munið þið eftir henni litlu Söruh Polley sem lék Söru Stanley í þáttunum Leiðin til Avonlea? Sarah er löngu orðin stór og hefur undanfarin ár aðallega leikið í sjálfstæðum myndum utan Hollywood. Hún lék m.a. í þessari undarlegu hálfíslensku mynd No such thing og einnig var hún í Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar. Blaðamenn myndu því segja að hún væri Íslandsvinur. Nýlega skrifaði hún handrit að myndinni Away from her og leikstýrði einnig. Þessi mynd hefur fengið þvílíka lofdóma og í gær vann Sara margfalt fyrir þessa mynd á Juno verðlaununum, hinum kanadíska óskar. Hún vann m.a. fyrir bestu leikstjórn og bestu mynd. Það er því ljóst að Sara litla Stanley frá Avonlea er fullvaxin og er að gera góða hluti í kvikmyndaheiminum. Þið skulið fylgjast með henni í framtíðinni því hún á bara eftir að verða betri.


Frekari fréttir af Vanoc og töp helgarinnar

Í fótboltanum með mér er kona að nafni Carly. Síðastliðinn mánudag byrjaði hún að vinna fyrir Vanoc sem nokkurs konar almannatengslamanneskja. Hún mun sjá um tengslin milli Vanoc og stuðningsaðilja. Hún sagði mér að þetta væri alveg frábær vinnustaður og ég ætti eftir að finnast dásamlegt að vinna þarna. Hún sagði að hraðinn væri reyndar mikill en allir væru svo áhugasamir og duglegir að andrúmsloftið vær æðislegt. En maður yrði að vera tilbúinn til að vinna mikið. Hún væri búin að vinna í tvær vikur og væri þegar búin að vera þarna tvisvar sinnum til tíu að kvöldi.

Það er gott fyrir mig að þekkja nú þegar einhvern á vinnustaðnum. Við höfum þegar talað um að reyna að nýta okkur íþróttaaðstöðuna á svæðinu vel og jafnvel hreyfa okkur eitthvað í hádegishléum. Það gæti orðið mitt hlutverk að draga Carly niður í leikfimissalinn (já, það er fullbúinn leikfimissalur í húsinu með öllu tilheyrandi).

Ég hlakka til.

Annars er það helst í fréttum að við stelpurnar töpuðum í vítakeppni í gær gegn liði sem við hefðum átt að vinna auðveldlega. Ég veit ekki hversu mörg skot við áttum að marki. Þær höfðu góðan markmann og þótt vörnin hafi ekki verið sérlega góð þá náðist hún að þvælast nógu mikið fyrir til þess að við lentum í vandræðum. Þar með fór von okkar um að komast í úrslitakeppnina. Það ættu þó að vera nokkrir leikir eftir því við eigum enn eftir eina tvo deildarleiki og þar að auki er oftast sett á fót svona aukaúrslitakeppni fyrir þá sem komast ekki í alvörukeppnina. Við höfum einu sinni leikið til úrslita þar.

Hokkíliðið mitt tapaði líka og að þessu sinni vegna þess að þeir léku ömurlega, ekki af því að þeir voru óheppnir. Þetta var leikur sem þeir áttu að vinna. Bæði vegna þess að leikurinn var gegn Chicago sem er neðarlega í deildinni og við vinnum þá alltaf, en líka vegna þess að Chicago liðið var hrjáð af meiðslum og þeir spiluðu því með hálfgert aukalið. Við, sem höfum átt í meiðslum líka, vorum komin með næstum því alla okkar leikmenn til baka. Ömurlegt. Við verðum að fara að standa okkur betur ef við ætlum að komast í úrslitin. 


Brjálaður körfuboltaþjálfari

Ég hef áður talað um viðbrögð þjálfara eftir leiki og hef pirrað mig á því þegar fótboltaþjálfarar kvarta og kveina. Tel að þeir eigi að taka sér hokkíþjálfara til fyrirmyndar. Nú get ég bætt við viðbrögðum körfuboltaþjálfara...ja, reyndar bara eins körfuboltaþjálfara. Sá sem um ræðir er Kevin Borseth, þjálfari körfuboltaliðs kvenna við Háskólann í Michigan. Hann var ekki alveg sáttur við tap sinna kvenna og lét það...ja...býsna greinilega í ljós. Horfið á:

 


 


Í sól og sumaryl...

Ég vil byrja á því að þakka öllum sem hafa sent mér góðar kveðjur. Ég er svona að komast niður á jörðina aftur eftir að hafa svifið um á bleiku skýi í tvo daga.

Dagurinn í dag var ofsalega fallegur. Sannkallaður vordagur. Krókusarnir í garðinum eru komnir upp og þess verður ábyggilega ekki langt að bíða að kirsuberjatrén fari að blómstra. Ég veit að það er svolítið ósanngjarnt að núa þessu um nasir Íslendinga sem sitja í sínum snjó, en dagurinn var bara svo fallegur að ég varð að segja frá því.

Ég fékk mér göngutúr um eitt leytið. Labbaði niður á Arbutus með tölvuna mína í bakpokanum. Planið var að kaupa mér kaffi og köku í sænska bakaríinu og reyna að vinna. En þegar þangað kom...haldiði ekki að þeir séu búnir að breyta hjá sér...taka öll sætin í burtu. Nú er þetta bara eins og venjulegt bakarí þar sem maður getur keypt brauð og farið með það heim. Svo ég keypti sænskt flatbrauð og eitt kardimommubrauð (mmmmm) og fór í leit að öðru kaffihúsi. Fann eitt neðar á Arbutus, fékk mér chai latté og skrifaði og skrifaði. Borðið var hins vegar hátt miðað við stólinn svo ég fékk í axlirnar. Þá var bara að ráði að fara út í  göngutúr í góða veðrinu og smám saman labbaði ég vestureftir. Á Alma settist ég niður á annað kaffihús, Coppa Joe's, fékk mér kaffi, borðaði kardimommubrauð í leyni og hélt áfram að skrifa. Gekk vel og skrifaði eins og vitleysingur. Enda verð ég að gera eins mikið í ritgerðinni og hægt er næstu mánuðina, áður en vinnan byrjar hjá Vanoc. Klukkan sex labbaði ég á vídeóleigu og fékk mér evrópskar myndir (eina norska, eina eftir Kusturica), keypti kjúklinga-shawarma hinum megin við götuna og hoppaði svo upp í strætó. Það var bara hálftíma gangur eftir heim en komið var myrkur og það hafði kólnað. Þar að auki vildi ég borða shawarmað heitt. 

Ég myndi segja að þetta hafi bara verið hinn fínasti dagur. Á morgun spila ég fótbolta. Við þurfum að vinna með nokkurra marka mun til þess að komast áfram í úrslitakeppnina. Ef það gengur ekki fáum við að fara í uppbótarkeppni neðri liðanna - þar er keppt um að verða sigurvegari aumingjannaLoL


Frábærar fréttir

ÉG FÉKK STARFIÐ!!!!!!!!!!!!!!

Frá og með öðrum júní verð ég opinberlega yfirmaður tungumálaþjónustu Ólympíuleikanna í Vancouver 2010.

Meira síðar. 


Undarlegur kvenmaður þetta

Mér hefur alltaf leiðst Anglina Jolie og nú sé ég að hún er líka pínulítið heimsk. Hvernig ætlar hún að heiðra móður sína með því að eignast barnið í Frakklandi? Þetta er eins og að Vestur Íslendingur ákveði að heiðra foreldra sína með því að eignast barn í  Noregi. Frönsk-kanadísk móðir þýðir að móðir hennar er kanadísk og hefur frönsku að móðurmáli. Forfeður hennar komu væntanlega frá Frakklandi fyrir 300 árum eða fyrr. 

Frakkar fóru að venja komur sínar til Kanada í kringum 1500 og fóru að setjast að þar eitthvað að ráði 1620. Vanalega er orðið French-Canadian notað um þá sem búa í Quebec fylki og orðið Francophone notað um þá sem eru frönskumælandi, hvar sem þeir búa. Það er t.d. fjöldi frönskumælandi Kanadamanna í Nova Scotia og New Bruinswick—flestir svokallaðir Acadian—og frönskumælandi svæði má einnig finna í Manitoba og Alberta. Tungumálið sem talað er hefur þróast mjög mikið í burt frá frönskunni sem töluð er í Frakklandi og franskan innan Kanada greinist í alla vega tvær mállýskur/tungumál; Quebeqois frönsku og Acadian frönsku. Þeir eiga stundum erfitt með að skilja hvor annan. Fyrrverandi kærasti minn er Acadian en hefur búið í Gatineau í Quebec í næstum tuttugu ár. Hann kvartar yfir því að Quebeqois fólkið eigi erfitt með að skilja frönskuna sína.

Móðir Jolie, Marcheline Bertrand, var reyndar ekki kanadísk heldur bandarísk en faðir hennar var af fransk-kanadískum ættum. Hann á víst ættir sínar að rekja til Zacharie Cloutier sem fæddist í Saint-Jean-Baptiste de Mortagne í Frakklandi en fluttist til Kanada 1634. Það er kannski fyndnast hér að Angelina Jolie hefur víst margoft tekið fram í viðtölum að móðir sín hafi ekki verið frönsk, sem er víst algengur misskilningur. Þannig að það er svolítið íronískt að nú skuli hún ætla að heiðra minningu móður sinnar með því að eignast barnið í Frakklandi. Af hverju ekki í Kanada? 

 


mbl.is Jolie vill fæða í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband