Bölvuð magakveisa
27.2.2008 | 06:07
Laugardagurinn átti að vera skemmtilegur. Planið var að hitta Juliönnu vinkonu mína og mömmu hennar í bröns, leika síðan fótboltaleik og fara svo á þorrablót Íslendingafélagsins. En þetta gekk ekki eftir.
Ég vaknaði klukkan fimm á laugardagsmorguninn með stingandi verk í maganum og ógleði. Ég náði að sofna aftur en þegar ég vaknaði á ný voru bæði verkurinn og ógleðin enn til staðar. Klukkan níu hringdi ég í Juliönnu til að afboða mig í brönsinn enda gat ég ekki hugsað mér að borða. Ég hélt enn í einfeldni minni að ég gæti samt leikið fótbolta og farið á þorrablót um kvöldið. Ég skreið upp í rúm og svaf. Vaknaði um hádegi, enn lasin og skjálfandi af kulda. Hringdi í Rosemary vinkonu mína sem er hjúkrunarkona og hún vildi að ég mældi mig. En ég fann hann ekki svo ég fór aftur að sofa. Vaknaði aftur og varð að hringja í bílstjórann minn og afboða mig á leikinn. Enn nokkrir klukkutímar í þorrablót og því enn tími til að láta sér batna. Svaf, vaknaði enn skjálfandi af kulda með magaverk. Eftir nokkra leit fann ég loks hitamælinn og reyndist vera með 38.4 stiga hita. Það er svo sem ekki mikið en ég fæ aldrei hita. Hef varla fengið hita síðan ég var krakki. Þorrablótið var tekið af dagskrá. Rosemary og Doug komu þó við á leiðinni á blótið og færðu mér Tylenol til að lækka hitann, flösku af jarðaberjaengiferöli og grænmetissoð. Ég yrði að nærast á einhverju. Eina bótin í málinu var að ég gat nú horft á Canucks spila á móti Detroit, toppliðinu í deildinni. En ég sá kannski helminginn. Svaf yfir hinum. Náði þó að vera vakandi síðasta hlutann þegar Kesler skoraði tvö dásamleg mörk og við unnum 4-1. Og svo sofnaði ég.
Ég vaknaði af og til alla nóttina, enn með magaverk, en klukkan átta um morguninn var ég orðin frísk. Bara voðalega svöng. Fór á opna æfingu hjá Canucks (sem þeir halda einu sinni á ári) og fékk að horfa á þjálfarann minn (ja þeirra minn (fótbolta)þjálfari er ekki dúlla) í heilan klukkutíma. Fór svo heim og talaði við Tim í tvo tíma. Hann hefur mikla reynslu af atvinnuviðtölum því hann hefur verið í ráðningarnefndum undanfarin sjö eða átta ár, svo hann setti á svið atvinnuviðtal til að þjálfa mig fyrir mánudagsmorguninn. Ég held það hafi bara virkað. Það var kannski þess vegna sem ég var svona afslöppuð í viðtalinu.
Ég hef þegar sagt ykkur frá mánudeginum en ekki því að þegar ég kom heim af kaffihúsinu, eftir að fara yfir öll heimaverkefni nemenda, var ég aftur komin með verk í magann. Ekki eins slæman og á laugardeginum, og enginn hiti að þessu sinni, en slæmur verkur samt. Gat ekki hlaupið á fótboltaæfingunni og spilaði þess vegna í marki...bíddu, var ég kannski búin að segja ykkur frá þessu?
Ég er farin að halda að þetta hafi ekki verið magaflensa heldur hvað það nú er sem hefur angrað mig í maganum síðastliðin tíu ár. Nokkrir læknar hafa kíkt á mig en ekki fundið neitt ennþá. Líklega af því að enginn hefur sent mig í magaspeglun og enginn hefur heldur kíkt á garnirnar. Það gæti komið að því einn daginn að ég þurfi að láta mig hafa það að gleypa myndavél. Það skrítna er samt að ég hef aldrei fengið hita með þessu áður.
En ég get ekki borðað neitt flókið þessa dagana. Fékk mér kjúklingasúpu og banana í kvöldmat. Allt feitt virðist gera mig lasna. Lán í óláni, fitna ekki á meðan!
Og nú er ég farin að sofa. Ætla að reyna að koma mér í rúmið klukkan tíu á kvöldin. Hvort sem það gengur til lengdar eða ekki. Gódnæt tú jú oll (þótt það sé reyndar bara ég sem er að fara að sofa).
P.S. Mæli enn og aftur með að íslenska sjónvarpið kaupi kanadísku sjónvarpsþættina MVP. Horfði í kvöld og stóð á öndinni helminginn af tímanum. Öndin var ekki ánægð með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Langur dagur
26.2.2008 | 07:01
Atvinnuviðtalið í dag gekk mjög vel. Ég dressaði mig upp og mætti á svæðið full af sjálfsöryggi og trú á sjálfri mér, án þess að fara út í mont eða of mikla sjálfshælni. Ég var ekki einu sinni stressuð. Ætli ég hafi ekki trúað því að ef ég væri besta manneskjan fyrir starfið þá fengi ég það, og ef einhver önnur manneskja væri betri þá væri ekkert nú sem ég gæti gert við því.
Valið stendur á milli þriggja kandídata þannig að líkur mínar ættu að vera 33.33333...%
Ég fæ líklega að vita niðurstöðuna innan viku.
Rauk beint niður í skóla úr viðtalinu því tími var byrjaður í LING100 (ég er aðstoðarkennari í þeim áfanga), fundaði svo með hinum aðstoðarkennurunum, fór á fund með öðrum umsjónakennara mínum (sagði honum frá viðtalinu) og settist svo niður á kaffihúsi og fór yfir heimaverkefni þar til bunkinn var búinn. Þurfti að drekka eina kók og einn bolla af kaffi til að halda mér við efnið. Labbaði svo heim í gegnum skóginn enda dásamlegt veður. Hvíldi mig í smá tíma, borðaði og fór svo á fótboltaæfingu. Kom heim klukkan tíu í kvöld, horfði á Medium, bloggaði þetta og ætla nú að fara að sofa.
Á morgun skal ég segja ykkur frá því hvernig minn frábærlega planaði laugardagurinn klúðraðist algjörlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Kettir lengja líf eigenda sinna
22.2.2008 | 07:33
Nýleg rannsókn sýnir að fólk sem aldrei hefur átt kött er 40% líklegra til þess að fá hjartaáfall en kattareigendur. Einnig kom fram að hundseign virðist engin áhrif hafa. Það má eingöngu geta sér til um ástæðurnar fyrir þessu en talið er líklegast að það hafi eitthvað með rólegt eðli kattanna að gera. Þótt hundar séu dásamlegir og að sumu leyti betri félagar en kettir, þá eru þeir svona öllu jöfnu ekki eins rólegir og hafa því síður róandi áhrif á eigendur sína. Og daglegir göngutúrar ná ekki að vinna upp mismuninn.
Ekki spyrja mig um það hver gerði þessa rannsókn því ég náði því ekki. Sá þetta bara í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ef þetta verður í blöðunum á morgun get ég sagt ykkur nánar frá því hver gerði rannsóknina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Slúður um Jennifer
22.2.2008 | 07:20
Jæja, nú er komið að því að ég taki þátt í slúðrinu. Vanalega nenni ég ekki að velta mér uppúr ástarlífi stórstjarnanna en af því að það var frétt í Mogganum um daginn um það að Jennifer Aniston haldi sig innan dyra með kettinum sínum (eða var það hundur?) og geri aldrei neitt, þá verð ég hreinlega að segja að þetta er nú ekki alveg rétt.
Samkvæmt Vancouverblöðunum er Jennifer alls ekki lokuð inni á hótelherbergi. Hún hefur sést út um alla borg, en hún er hér í Vancouver að kvikmynda 'Traveler'. Og það sem meira er, hún virðist ekki heldur vera ein. Starfsfólk sem vinnur við kvikmyndina er sannfært um það að eitthvað sé á milli Aniston og meðleikara hennar Aaron Eckhart en þau tvö virðast býsna náin. Ekki hefur reyndar enn sést til þeirra sleikjast á almannafæri þannig að þetta virðast enn getgátur.
Ég vona bara að þau tvö séu að dúlla sér saman. Þau eru bæði fallegt og hæfileikaríkt fólk og eiga skilið að finna ástina aftur. Því ekki hvort hjá öðru?
Um slóðaskap annarra
21.2.2008 | 18:04
Ég sagði frá því fyrir tveim mánuðum eða svo að ég hefði fengið grein samþykkta í þekktu hljóðfræðitímariti. Þetta er grein sem ég vann í samvinnu við Bryan Gick, hljóðfræðikennara hér við UBC, og tvo aðra nemendur.
Ritið er hluti af JASA (Journal of Acoustic Society of America - eða Tímarit hljóðfræðisambands Bandaríkjanna) og hefur undirskriftina Express Letters, sem þýðir að ferlið er allt miklu skilvirkara. Stundum tekur einhver ár að fá greinar birtar því fyrst sendir maður þær inn, svo fara þær til aflestrar hjá sérfræðingum sem taka sér sumir marga mánuði til þess að lesa greinina og gefa álit. Ef greinin er samþykkt óbreytt þá fer hún beint til ritstjóra en annars er hún send til baka til höfundar. Stundum er henni hafnað algjörlega og þá reynir maður að koma henni eitthvert annað, en stundum fær maður ábendingar um hvað betur má fara og manni er boðið að senda greinina inn aftur (stundum með loforði um að hún verði birt af maður lagar það sem bent er á).
Express letters er fyrst birt á netinu og síðan prentað í tímariti félagsins. Þeir stæla sig af því að eingöngu örfáir mánuðir líði frá því að grein er send inn og þar til hún er birt. En til þess að þetta sé hægt þarf maður að borga fyrir birtinguna.
Ég sendi greinina okkar inn einhvern tímann í haust og það leið og beið án þess að við heyrðum eitthvað. Loksins kom svar þar sem okkur var sagt að þeim líkaði greinin en það væri sitthvað sem við þyrftum að laga til þess að hægt væri að birta hana. Þar var um margt tímafrekt að ræða en samt fengum við ekki nema um fjóra daga til þess að laga þetta og senda greinina inn aftur. Við settum á fullspítt og við Bryan skiptum með okkur verkum og náðum að senda greinina inn aftur. Ástæða þess að þetta var tímafrekt var m.a. sú að þeir vildi frekari útreikninga á ýmsum tölum, öðruvísi tölfræði, breyttar myndir o.s.frv.
Enn liðu margar vikur og við heyrðum ekkert. Loks kom bréf þar sem beðið var um skýrslu yfir það sem við hefðum gert til lagfæringar svo ritstjóri gæti fullvissað sig um að við hefðum tekið allar athugasemdir til greina. Ég hafði skrifað slíka skýrslu og sent hana með greininni. Hafði meira að segja sent hana á tvo staði til að öruggt væri að hún kæmi til skila. Svo ég endursendi þessa skýrslu.
Einhverjum vikum síðar kom bréf þar sem sagt var að greinin væri nú orðin birtingarhæf en það væru enn nokkur atriði sem við þyrftum að laga. Við fengum 48 klukkutíma til að laga þetta. Það var gert og greinin var send aftur inn einhvern tímann í desember.
Síðan heyrðum við ekkert þangað til í gær. Þá kom bréf sem sagði að nú væri greinin tilbúin í lokaformi og við beðin um að lesa hana yfir og sjá til þess að fontar og annað væri í lagi og að engin mistök væru í töflum ofl. Aftur voru okkur gefnir aðeins tveir sólarhringar til þess að sjá um okkar hluta.
Ástæðan fyrir því að þeir ná að gera hlutina fljótar en aðrir er sem sagt sú að höfundar þurfa að sitja og standa eftir því sem þeim hjá tímaritinu hentar. Við þurfum að henda öllu til hliðar og vinna bara að þessu verkefni þegar við heyrum frá þeim. Þess á milli taka þeir sér margar vikur og jafnvel mánuði. Og við þurftum að borga!!! Hvað hefði gerst ef við hefðum t.d. bæði verið stödd einhvers staðar á ráðstefnu þegar lokaútgáfan kom?
En það góða er að greinin ætti að fá birst fljótlega, aðeins um hálfu ári eftir að hún var send inn. Ég mun setja inn tengil á hana þegar hún er komin á netið og þá getið þið lesið allt um Tadoma aðferðina og hvernig hún nýtist venjulegu heyrandi fólki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Góðar fréttir
21.2.2008 | 05:31
Munið þið eftir því fyrir svona sirka mánuði að ég sagðist hafa sótt um draumastarfið mitt sem er að vinna fyrir Vanoc, Ólympíunefnd Vancouverborgar, fyrir Ólympíuleikana 2010? Starfið felst í því að hafa yfirumsjón með öllu því sem snýr að erlendum tungumálum - þ.e. þýðingum, túlkun o.s.frv.
Jæja, það hefur orðið hreyfing á því máli. Umsókn mín var greinilega nógu góð til þess að ég var tekin í símaviðtal fyrir tæpum tveim vikum. Þetta var svona almennt viðtal sem sneri almennt að vinnu fyrir Ólympíunefndina en ekki svo mikið að þessu ákveðna starfi. Það tók um 40 mínútur og ég var spurð alls konar spurninga - meira að segja að því hvenær í lífinu ég hafi verið stoltust af sjálfri mér (spurning sem erfitt er að svara).
Það lítur út fyrir að ég hafi staðið mig vel í þessu viðtali því ég hef nú verið kölluð í annað viðtal. Að þessu sinni mun ég hitta tvær manneskjur augliti til auglits og þetta viðtal mun beinast algjörlega að þessu ákveðna starfi. Þetta lofar góðu því væntanlega er ég nú ein örfárra sem koma til greina.
Í gær fór ég í verslunarleiðangur því ég átti engin föt sem hæfa svona viðtali. Eftir mikla leit fann ég loksins gráteinótta dragt sem passaði mér þokkalega (útilokað að finna eitthvað sem passar fullkomið nema að láta sauma það) og keypti með því gula blússu, enda sagði konan í búðinni mér að gult væri aðalliturinn núna. Mér verður því alla vega ekki hafnað vegna þess að ég sé of drusluleg til fara. Ef ég fengi starfið yrði ég væntanlega að kaupa heilan fataskáp af frambærilegum fötum. Ekki gengur að vera í gallabuxum og bol þegar maður vinnur fyrir Vanoc.
Þegar ég fer í viðtalið á mánudagsmorguninn verð ég bara að muna að vera ekki týpískur lítillátur Íslendingur. Amma mín var frá Nolli í Þingeyjarsýslu og ég verð bara að finna Þingeyinginn í mér og láta hann skína!
En hvort sem ég fæ vinnuna eða ekki er ég ákaflega stolt af sjálfri mér. Ég komst þó alla vega þetta langt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Mín skoðun á Eurovision
20.2.2008 | 19:29
Haldiði ekki að ég hafi farið inn á YouTube og hlustað á slatta af Laugardagslögunum! Ég hef ákaflega lítið fylgst með Eurovision á undanförnum árum en ég sá einn þátt af Laugardagslögunum um daginn og vissi því um hvað var verið að ræða þegar ég sá frétt á Mogganum í dag um að Sylvía Nótt sé orðin að vöðvabunktum.
Ég hef meira að segja myndað mér svolitla skoðun á málinu - en bara svolitla.
Ég verð t.d. að segja að ég heyrði þó nokkur skemmtileg lög sem standa vel undir sínu, hvort sem við teljum þau líkleg til vinsælda í stóru keppninni sjálfri eða ekki.
Mér fannst t.d. lag Ragnheiðar Gröndal alveg frábært og mun hlusta á það aftur. Er kannski ekki viss um að það myndi ná langt í Eurovision en er samt besta lagið í keppninni svona ef maður horfir fram hjá því um hvað er verið að keppa.
Mér fannst líka lag Davíð Þorsteins flott. Svolítið í anda sjöunda áratugarins.
Lagið sem þau fluttu Ína, Seth og Berglind var mjög gott.
Ef við sendum persneska lagið út munum við væntanlega frá 12 stig frá Tyrklandi og Grikklandi en væntanlega ekki svo mikið frá öðrum. Sniðugt lag samt.
Lagið Ho ho ho og eitthvað svoleiðis: Alls ekki vitlaust lag. Nógur kraftur og svolítið show! En je minn, þessi söngkona er verri en ég og er ég þó ekkert sérlega góð. Mér var illt í eyrunum eftir að heyra í henni. Hún hangir í kringum tónana en er ekki endilega á þeim. Ef við ákveðum að senda þetta lag út þá hreinlega verðum við að skipta um söngkonu. Það hlýtur að vera fyrsta skilyrðið að geta sungið.
Og að lokum, lagið sem ég tel líklegast til vinsælda erlendis er lagið með Friðrik og einhverri stelpu sem ég þekki ekki. Það er svona týpískt techno með nóg af fílingi til þess að mann langar að dansa og þau geta bæði sungið þrælvel. Þetta er fínt lag sem við þyrftum ekki að skammast okkur fyrir en ég held að ég muni nú ekki hlusta mikið á það í framtíðinni. Ekki alveg minn smekkur. En hey, Eurovision hefur aldrei beinlínis verið minn smekkur hvort eð er svo þetta er kannski bara fínt.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sami mannsfóturinn?
19.2.2008 | 18:13
Þetta mál er auðvitað stórfurðulegt og var í blöðunum hér í Vancouver fyrir nokkrum dögum þegar þessi þriðji fótur fannst. Eins og segir í frétt moggans er ekki vitað hvort um glæp er að ræða eða ekki. Ekki hefur verið hægt að segja með vissu að fæturnir hafi verið skornir eða höggnir af. Dæmi eru um það að lík sem velkjast í sjó hlustist í sundur en ég held að þessi staðreynd með þrjá hægri fætur í íþróttaskóm númer 42 auki líkurnar á að hér sé ekki um tilviljun að ræða.
En ég vildi nú aðallega kíkja á málfræðina í þessari frétt, og nei, ég er ekki að setja út á skrift blaðamanns, aldrei þessu vant. En þegar ég las fréttina var eitthvað sem sló mig (annað en innihaldið enda var ég búin að lesa um þetta áður).
Lögregluna í Bresku Kólumbíu í Kanada rak í rogastans þegar mannsfótur fannst í fjöru í þriðja sinn á nokkrum mánuðum. Allir voru fæturnir hægri fætur, stærð 42 og klæddir í hlaupaskó. Lögregla hefur ekki getað ákvarðað hvort hún sé að rannsaka glæpi, né heldur hvort fæturnir tengist.
Ég held að það sem fékk mig til að staldra við sé ósamsamræmið í tölunni svo og tvíræðni fréttarinnar. Í fyrsta lagi má skilja þetta svo að sami fótur hafi nú fundist þrisvar sinnum enda segir að mannsfótur hafi fundist í þriðja sinn. Samkvæmt merkingarfræði gæti þetta verið svona sett upp (athugið að bloggkerfið ræður ekki við 'existential quantifier' sem er öfugt E svo ég set venjulegt E í staðinn):
Ex(fótur(x) & (EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(x,e') & (finnst(x,e''))))))
Þetta má lesa þetta svona: Til er X þannig að X er mannsfótur, og til eru þrír atburðir sem eru allir þannig að X fannst.
Merkingin sem blaðamaður hafði í huga er hins vegar væntanlega þessi:
ExEyEz(fótur(x) & (fótur(y) & (fótur(z) ((EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(y,e') & (finnst(z,e''))))))))
Sem sagt: x, y, z eru allt fætur og einn atburður er svo að x fannst, annar atburður er svo að y fannst og einn atburður er svo að z fannst.
Þegar síðari merkingin er höfð í huga þá er fleirtalan á 'allir voru fæturnir' eðlileg en ekki samkvæmt fyrstu merkingunni. Það að mér þótti þetta skrítið þegar ég las fréttina yfir bendir því til þess að ég hafi fyrst sett fyrri merkinguna í setninguna, jafnvel þótt ég hafi vitað að um þrjá mismunandi fætur hafi verið að ræða. Það er athyglisvert og segir ýmislegt um skilninginn á setningunni. Ætla ekki að fara út í það nánar.
![]() |
Þriðja fótinn rekur á land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.2.2008 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þegar tölvupósturinn bregst (um fótboltaraunir)
19.2.2008 | 07:05
Ég er farin að treysta allt of mikið á tölvupóst og of stór hluti samskipta minna fer fram í gegnum netið. Þetta getur komið manni í vandræði því tölvupóstur er ekki eins áreiðanlegur og símtækið. Akimi, sem ég fæ vanalega far með á fótboltaleiki gat ekki leikið um helgina og ég þurfti því að finna mér annað far. Ég sendi spurn á póstkerfi liðsins míns og fékk far hjá Jen sem sagðist geta gripið mig með ef ég yrði á horninu á Granville og Broadway klukkan 8.55 á sunnudag. Ég sendi póst til baka og sagðist verða þar.
Ég var mætt á svæðið 8.45 enda strætóferðir ekki eins margar á sunnudagsmorgnum. Þarna húkti ég í kuldanum og beið og beið...og beið. Komið var fram yfir níu og ég var ekki með símann minn. Ég gat því ekki hringt í neinn. Og ég hafði ekki skrifað niður á hvaða velli við lékum þar sem ég var ekki að keyra. Tuttugu mínútur yfir níu hljóp ég því til baka í strætó og planið var að fara heim, finna heimilisfangið á vellinum (það eru hundruðir fótboltavalla í borginni) og sjá hvort ég gæti komist þangað með strætó. Ég var rétt komin inn úr dyrum þegar Leah hringdi. Hún sagðist vera á vellinum og þar væri Jen en ekki ég. Hún sagðist hafa spurt Jen af hverju ég væri ekki með henni og Jen sagist aldrei hafa fengið svar frá mér. Ég hef grun um að bréfið mitt hafi lent í spamvörninni hennar. Dave þjálfari sagði að þau þyrftu á mér að halda svo mér var sagt að hoppa upp í leigubíl og þau myndu deila með mér kostnaði. Svo ég hringdi á bíl og hálftíma síðar var ég komin á völlinn.
Staðan var 0-0 þegar ég mætti á svæðið en stuttu síðar skoruðum við mark. Ja, eiginlega skoruðu þær mark. Melissa sendi boltann inn frá hægri kanti, rétt fyrir aftan mig, en Benita og varnarmanneskja Mudslide sóttu að boltanum. Varnarmaðurinn náði boltanum en sendi hann beint í eigið mark. staðan 1-0 fyrir okkur. Við vorum stanslaust með boltann og hinar komust varla fram yfir miðju. En það gekk ekki nógu vel að skora. Markmaðurinn hjá þeim var risastór og feit og gargaði á liðið allan tímann. Við vorum skíthræddar við hana. Hún gargaði líka á dómarann sem aldrei þessu vant var alveg stórgóður. Enda kom í ljós að hann dæmir vanalega ekki fjórðu deild. Dave var skíthræddur við þennan eins marks mun. Ein mistök og þær gætu jafnað. Og við vildum alls ekki í vítaspyrnukeppni en leikir í úrslitakeppninni geta aldrei endað með jafntefli. En þetta voru óþarfa áhyggjur. Eftir stanslausa sókn skaut Jodi að markinu en varnarmaður náði að hreinsa. Markmaðurinn var beint fyrir aftan varnarmanninn en var seinni til. Boltinn fór hins vegar beint til Melissu sem skaut aftur að markinu, markmaðurinn reyndi að skipta um stefnu en hneig niður - sagðist síðar vera með krampa. Boltinn stefndi í markið en ég vissi ekki hvort einhver varnarmaður væri í nálægð og negldi boltanum því inn. Þetta var í raun Melissu mark. Ég held að boltinn hefði farið inn þótt ég hefði ekki sparkað í hann. Ég skoraði hins vegar þriðja markið eftir frábæra sendingu frá Benitu. Hún hljóp upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og sendi boltann fyrir markið. Ég, með varnarmann á mér, kom hlaupandi inn, náði að teygja mig í boltann og setja hann í hægra hornið. Markmaðurinn, sem hafði náð sér af krampanum lagðist í grasið og grét. Ég veit ekki hvort krampinn kom aftur eða hvort hún var bara svona fúl yfir markinu. Dómarinn leit á okkur og sagði: En það var enginn nálægt henni - hvorki boltinn né manneskja! Hann hafði ekki mikla samúð með henni enda hafði hún skammast í honum allan leikinn.
En sem sagt, 3-0 og við erum komin með þrjú stig í úrslitakeppninni. Við þurfum að vera í fyrsta eða öðru sæti í riðlinum til að komast áfram.
VIð stóðum okkur annars vel í vetur - urðum í fyrsta sæti í okkar riðli í deildarkeppninni. Það hefur aldrei gerst áður. Við erum reyndar með jafnmörg stig og tvö önnur lið en fengum ekki tækifæri til að leika alla leikina. Sco mörgum leikjum var frestað vegna veðurs og ekki gafst tími til að bæta fyrir það af því að úrslitakeppnin þarf að hefjast á réttum tíma hvað sem tautar og raular.
Næstu helgi leikum við gegn liði sem aðeins tapaði einum leik í deildarkeppninni. Við höfum aldrei leikið gegn þeim áður en það er ljóst að við verðum að leika eins vel og við getum ef við eigum að eiga séns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Takk fyrir
18.2.2008 | 16:07
Ég þakka Morgunblaðinu hér með kærlega fyrir að segja frá þessum úrslitum - hvort sem það er vegna áskorunar minnar í gær eða óháð henni. Ég vona að við fáum áfram að fylgjast með því hvað gerist í þessari frábæru íþrótt á Íslandi. Og ekki væri nú verra að geta fundið stöðuna í deildinni einhvers staðar líka.
Ég horfði annars á leikinn sem RÚV sýndi í gær og þakka hér með RÚV líka fyrir það, þótt ég hafi reyndar aðeins náð að sjá tvo leikhluta, hvort sem það var minni tölvu að kenna eða einhverju hjá RÚV.
Það er auðvitað ekki sanngjarnt fyrir mig að bera leik liðanna saman við leikina sem ég horfi á í hverri viku því auðvitað eru þessir strákar ekki eins góðir og strákarnir í NHL deildinni. En ég verð samt að segja að ég var mjög hrifin af sumum sóknarmönnum SA. Nokkrir í liðinu sýndu ótrúlega tækni og býsna góða útsjónarsemi með pökkinn líka. Ég sá nokkrar hreyfingar sem myndu sóma sér vel í NHL, hvor sem leikmennirnir gætu það eða ekki. Athyglisverðast var samt hversu ótrúlega léleg vörnin var hjá Birninum og einnig markvarslan. Sum þessa marka hefðu aldrei átt að verða að veruleika og var þar ekki um snilli sóknarmanna að ræða heldur lélega vörn og lélega markvörslu. Enda sér maður það á markatölunni.
En þetta var sannarlega skemmtilegt og frábært að fá að horfa á þennan leik.
![]() |
Akureyringar unnu Björninn tvisvar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)