Skrifa nú fréttina almennilega

Stundum væri betra fyrir þýðendur frétta að annað hvort sleppa ákveðnum atriðum eða útskýra þau betur. Hér segir Jessica að henni sé illa við orðið 'mataræði'. Fyrir þá sem litla ensku kunna hlýtur þetta að hljóma mjög undarlega. Af hverju ætti nokkrum manni að vera illa við orðið 'mataræði'? Jú, ég er sannfærð um að orðið sem hún notar í viðtalinu er 'diet' sem upphaflega hefur merkinguna 'mataræði' en þýðir líka 'megrun' eða 'megrunarfæði'. Jessica er því að segja að hún hafi verið á ákveðnu 'mataræði' en gerir sér jafnframt grein fyrir að það má skilja hana sem svo að hún hafi farið í megrun. Ég hef sjálf lent í nákvæmlega sömu stöðu vegna þessarar tvímerkingar orðsins 'diet'. Ég hef sagst passa mig á mataræðinu sem á ensku myndi hljóma eitthvað eins og 'I'm very careful with my diet'. Það getur líka þýtt 'Ég er mjög passasöm með megrunarkúrinn'.

En alla vega, þýtt yfir á íslensku getur þetta innskot Jessica varla skilist eðlilega svo ég hefði annað hvort sleppt því eða útskýrt hvað hún meinar. Það má ekki ætlast til þess að allir skilji orðið ensku. Eldri kynslóðin fékk ekki þann munað í grunnskóla. 


mbl.is Dauðkveið fyrir að láta þukla á brjóstunum á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótu hálfvitarnir í menntó

Ég hef bara heyrt pínulítið með Ljótu hálfvitunum en það sem ég hef heyrt er auðvitað frábært. Enda ekkert skrítið, ég er búin að þekkja suma þessa hálfvita síðan í menntaskóla og þeir voru þá þegar orðnir hrikalega fyndnir. Sævar var með mér í bekk í þrjú ár og Toggi var hálfgerður heiðursfélagi í bekknum enda kunni ekkert okkar á gítar og Togga var því alltaf boðið í partýin. Okkur fannst ákaflega gaman að syngja.

Ég man eitt sinn í skálaferð að ég, Sævar og Sirra Ólafs, sem þá var ein af betri leikkonum skólans, vorum valin í skemmtinefnd ferðarinnar svo við lokuðum okkur uppi á svefnlofti til þess að semja og æfa. Við vorum þarna í einhverja klukkutíma því bullið rann svoleiðis upp úr Sævari að við Sirra lágum í krampakasti og emjuðum af hlátri. Það tókst að lokum að setja saman einhvern fjandann en ég er viss um að hið opinbera skemmtiatriði stóð langt að baki skemmtiatriðum Sævars uppi á loftinu. Já, þetta voru skemmtilegir tímar.


mbl.is Hálfvitar heita á Völsungsstúlkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðin í Boeing verksmiðjurnar

Ferðin til Bandaríkjanna í gær breyttist pínulítið vegna rigningar og í stað þess að fara í Olympic þjóðgarðinn var ákveðið að fara fremur í Boeing verksmiðjuna í Everett, þrjátíu kílómetrum norðan við Seattle. Lína, Alex og Einar sóttu mig rétt upp úr níu og við lögðum sem leið lá niður að Bandaríkjunum. Það tekur um klukkutíma að keyra að landamærunum en þegar þangað kom runnu á mig tvær grímur. Röðin var lengri en ég hafði nokkurn tímann séð hana. Við sáum ekki einu sinni í kanadísku landamærastöðina sem er þó nokkuð norðar en sú Bandaríska. En það var ekkert hægt að gera nema að koma sér í röð og öfunda liðið með Nexus passann sem gat skellt sér í gegn án sérstakrar biðar. Ég hafði verið búin að segja þeim hinum að við mættum vel búast við klukkutíma bið á landamærunum, þótt ég hefði reyndar yfirleitt verið heppin og yfirleitt ekki þurft að bíða nema í um fjörutíu mínútur eða skemur. Þetta leit hins vegar ekki vel út. Líka vegna þess að það var ljóst að við yrðum aftur að bíða inni þar sem við þurfum alltaf að fylla út tímabundin vísa og borga okkar sex dollara. Til að gera langa sögu stutta þá vorum við komin aftur af stað tveimur klukkutímum og fimmtíu mínútum eftir að við komum í röðina. Það eina góða við þetta allt var að krúttlegi landamæravörðurinn sem ég talaði við síðast þegar ég fór til Bandaríkjanna var að vinna, en því miður fengum við hann ekki. Æi, maður getur nú ekki alltaf verið heppinn.

Við vorum orðin glorsoltin og stoppuðum á eðalveitingastað Bandaríkjanna, MacDonalds, enda ekki til í að fara neitt þar sem maður þyrfti að bíða eftir matnum. Hvað er líka meira við hæfi en að raða í sig kaloríum þegar maður kemur til lands hinna frjálsu.

Þaðan ókum við beint í Boeing verksmiðjurnar, komum þar fimm mínútum rodí þrjú og skelltum okkur beint í næst síðustu ferð dagsins klukkan þrjú (ég hafði grínast aðeins með það að við kæmum of seint og það yrði búið að loka - það var ekkert langt frá því—fjörutíu mínútum seinna og við hefðum verið of sein. Reyndar var túrinn ekkert sérlega merkilegur. Farið var með okkur niður í verksmiðjuna og við fengum að standa á einhverjum palli og horfa niður á gólfið þar sem ekkert var að gerast því það var sunnudagur. Við fengum ekki að fara niður á gólfið eða skoða neitt nánar. Við fengum hins vegar að sjá hina nýju Boeing 787 sem verið er að klára og sem er ein fallegasta flugvél sem ég hef séð. Vængirnir vísa svolítið upp á við eins og hjá sumum fuglum. Ekkert smá rennileg vél (sjá mynd hér á síðunni). Frétti að Icelandair væri búið að panta tvær slíkar. Það verður flott að fljúga í þeim. Eftir túrinn skruppum við í verslunina og síðan í galleríið þar sem má lesa meira um vélarnar og skoða ýmsa hluta. Við fórum á flipp með myndavélina hans Einars og ýmsar merkilegar myndir teknar. Yfirleitt sviðsettar myndir af okkur öskrandi af hræðslu því vélin var að farast. Ég mun kannski setja eina eða tvær slíkar inn ef ég fæ eintök af þeim.

lunaticVið ákváðum að fara beint til baka enda klukkan orðin hálf sex þegar við komum út úr verksmiðjunni. Við vissum að biðin yrði styttri inn í Kanada en vissum ekki hversu stutt. Svo við keyrðum beint í norður án þess að stoppa nokkuð þar til við komumst ekki lengra. Það voru kyrrstæðir bílar fyrir framan okkur. Við vildum ekki alveg trúa þessu en urðum þó, þetta var röðin inn í Kanada. Þessi bið varð þó betri því sólin var að setjast og sólarlagið var dásamlegt. Við tókum því töluvert af myndum, bæði fallegum sólarlagsmyndum og svo öðrum sem kannski voru fremur til skemmtunar. Lína er býsna góð fyrirsæta eins og þið getið sjálf séð hér á síðunni.

Það tók einn og hálfan tíma að komast inn í Kanada og vörðurinn hafði bara áhuga á Einari. Hann leit ekki einu sinni á náms- og atvinnuleyfi okkar hinna. Og ég sem hélt þeir myndu skamma mig fyrir það að leyfið mitt er að renna út í lok mánaðarins og ég er ekki búin að fá nýtt. En hann vildi bara vita hvenær hann losnaði við

Einar úr landi svo ég dreg þá ályktun að hann þyki mun krimmalegri en ég. Og samt höfðum við komist að þeirri niðurstöðu að Alex væri langhættulegastur í útliti með svart hár og skegg og gæti gengið sem Al-Kaida.  

Við fengum kvöldverð klukkan hálftíu og hlógum yfir því að við ferðuðumst í næstum níu tíma til þess eins að stoppa í Bandaríkjunum í þrjá. 

 


 


Hnignun danskrar tungu

Öll (eða hérumbil öll) lærðum við dönsku í skóla og flest höfum við líklega bölvað henni á tímum. Sjálf hef ég alltaf verið ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið að læra dönsku því hún hefur opnað manni margar dyr og gert ýmislegt auðveldara, en þó hef ég oft óskað þess að það hefði verið norskan eða sænskan sem við lærðum því mér hefur alltaf gengið mun betur að skilja þau mál. Danski framburðurinn er ekki sá auðveldasti. Lína sendi mér tengil á eftirfarandi vídeó og þetta er alltof fyndið til að vera grafið í athugasemdakerfinu. Þið hin verðið líka að fá að hlæja.

 


Önnur Bandaríkjaferð

Ég ætla að skreppa aftur yfir landamærin á morgun. Að þessu sinni bara til Washington fylkis, að Olympic þjóðgarðinum. Lína, Alex og Einar ætla að fara og buðu mér með. Það var bara fínt því ég hafði ekkert á dagskránni hvort eð var, nema þá helst að læra og ég get ekki séð að ég hefði gert of mikið af því. 

Skaust í klifrið í dag en stoppaði stutt við. Lamdi hægri hendinni svo illa í vegginn að ég hélt ég hefði brotið eitthvað. En það var nú ekki. Í staðin er ég svolítið bólgin og pínulítið marin. En ekkert alvarlegt. Lagast áður en ég gifti mig eins og mamma sagði alltaf. 


KEAlíkispylsur og kartöflumús

Miðað við það hversu mikil kartöflumanneskja ég er (elska kartöflurnar nýteknar upp úr jörðinni, soðnar og síðan smjör, salt og pipar blandað saman við) er það alveg undarlegt hvað ég er hrifin af kartöflumús úr pakka. Passa mig á því að eiga alltaf svoleiðis í hillunni ef ske kynni að ég yrði heltekin löngun. Nú á ég líka evrópskar pylsur sem eru svipaðar gömlu góðu KEA pylsunum (sorrí sunnlendingar en mér hefur aldrei þótt SS pylsurnar góðar) svo ég skelli þeim á pönnuna, set smá ost út á og svo tómatsósu og þá er ég horfin aftur til fortíðar. Ég ætti reyndar að taka fram að það eru pylsur með osti sem bera mig til fortíðar, ekki kartöflumúsin, því  mamma hafði auðvitað aldrei kartöflumús úr pakka. Við borðuðum bara kartöflur úr garðinum á Einarsstöðum.

Svo var það fyrir átta árum / að ég kvaddi þig með tárum

Í dag eru akkúrat átta ár síðan ég fluttist til Kanada. Að sumu leyti virðist svo langt síðan en að sumu leyti er eins og það hafi gerst í gær.

Ég hafði ætlað að nota sumarfríið mitt 1999 í að ferðast um Vestfirðina en í byrjun ágúst var mér sagt að ég hefði fengið kennslustöðu við Manitóbaháskóla og varð að byrja fyrsta september. Sumarfríið fór því í að pakka eigum mínum niður í kassa, finna leigjendur að íbúðinni minni, ganga frá öllum nauðsynlegum plöggum, o.s.frv. Það var þó nokkur hasar. Ég flaug svo með Icelandair til Minneapolis og þaðan til Winnipeg þar sem tók á móti mér David Arnason, yfirmaður minn, sem ég hafði einu sinni hitt á Hótel Sögu þegar hann tók viðtal við mig fyrir starfið. Við fórum heim til hans þar sem ég gisti fyrstu viku mína í ókunnu landi. Þar kynntist ég konu hans Carol sem er alveg yndisleg kona og sem ég hef haldið sambandi við þótt hún og David hefðu skilið einum þremur árum síðar. Nú er ég í raun oftar í sambandi við hana en hann.

Það var erfitt að flytja til nýs lands og fyrstu dagana var ég ótrúlega þreytt. Bæði vegna flugþreytunnar og vegna þess að ég þurfti að tala ensku daginn út og daginn inn. Ég hafði notað ensku á ferðalögum áður en aldrei búið neins staðar annars staðar en heima á Íslandi svo ég hafði aldrei áður þurft að tala erlend tungumál frá morgni til kvölds. Sem betur fer fóru fyrstu dagarnir í afslöppun og það að kynnast fólkinu. Fyrsta helgin í September er alltaf löng helgi því þeirra verkalýðsdagur er fyrsta mánudaginn í mánuðinum og ég fór því með David og Carol og Maureen, systur Davids, yfir á Víðirnes (Willow Island) þar sem fyrstu Íslendingarnir stigu á land á Nýja Íslandi. Þarna á fjölskyldan nokkur sumarhús og þarna dvöldum við þessa fyrstu helgi. Reyndar rigndi ógurlega á okkur en þetta var samt alveg frábær ferð.

David er rithöfundur og meira að segja býsna góður. Ég hef alltaf gaman af bókunum hans. Margir vina hans eru líka rithöfundar og þessa helgi hittast þeir allir í sumarbústað Davids. Þessi helgi var engin undantekning og ég fékk að hitta alla, svo sem Robert Kroetsch, sem er með stærri nöfnum rithöfunda í Manitoba. Merkilegast var þó að við fengum heimsókn frá einum og stærstu rithöfundunum í Kanada, Thomas King. Hann er ekki eins frægur og Michael Ondatje, Margaret Atwood og jafnvel Carol Shields, en bókin hans Green Grass Running Water er alveg stórkostleg. Og ég er líka hrifin af Truth and Bright Water og mæli eindregið  með þessum bókum. Ég vissi auðvitað ekkert hver Tom King var þegar ég  tók þátt í þessu partýi fyrir átta árum, en hinir héldu ekki vatni yfir honum. Ég hafði reyndar keyrt niður til Gimli (af því að ég var sú eina ódrukkna á svæðinu) og lóðsaði hann til baka til Willow Island, þannig að ég get núna montað mig á því að hafa vísað Tom King veginn. En ykkur þykir það auðvitað ekkert merkilegt því enginn þekkir hann á Íslandi.

Einn þessa daga fór ég með Maureen inn í Gimli því hún fór að heimsækja deyjandi vinkonu sína á spítalann. Á meðan fór ég yfir að elliheimilinu í leit að Vestur Íslendingum. Var viss um að ef ég fyndi einhvern sem gæti talað málið þá væri það á elliheimilinu. Fyrir utan heimilið var gamall maður í hjólastól að reykja. Ég tók hann tali og var þar kominn Ragnar Holm og talaði hann þessa fínu íslensku. Ég settist niður hjá honum og við spjölluðum heillengi. Eftir það heimsótti ég alltaf Ragnar á elliheimilið í hvert sinn sem ég kom til Gimli og þar til hann dó einum þremur árum síðar.

Nú eru liðin átta ár. Vá hvað tíminn flýgur stundum hratt. 


Bíddu bíddu...

...var ekki frétt í Mogganum í gær eða fyrradag um það að Arsenal ætlaði ekki að ráða fleiri leikmenn áður en lokað yrði á félagaskiptin?

Annars er fínt að fá þennan strák í Arsenal ef hann er góður. Þótt liðið virðist gott þá má alltaf gera betur.


mbl.is Diarra frá Chelsea til Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávextirnir í garðinum

Kvöldsnakkið mitt í kvöld voru brómber úr garðinum. Runnarnir eru háir og erfitt að ná berjunum - sérstaklega af því að við eigum engan almennilegan frístandandi stiga - svo ég klifraði upp á bílskúrinn og náði slatta af berjunum næst skúrnum. Svona tæplega lítra. Það var reyndar sorglegt að horfa yfir runnann og sjá hann svartan af berjum að ofan en ná ekki til þeirra. Verð að finna leið til þess að komast að þessu góðgæti.

Eplatréð er líka hlaðið eplum en sem betur fer er ekki eins mikið af þeim og undanfarin ár. Við höfum þurft að henda alveg stöflum því eplin eru mörgum sinnum fleiri en við getum borðað. Við bjóðum stundum fólki að koma og tína en það dugar ekki til. Verst er líka að maður getur aldrei borðað nema hluta af eplunum því þau eru aldrei spreyjuð og við fáum því orma í þau. Í fyrra bakaði ég eplaköku (reyndar eplakobbler) og varð að skera fjölda orma frá áður en hægt vær að fá nóg af eplum í kökuna. En það var alveg þess virði.  

Ég fann eina peru á perutrénu og hún var útétin. Ég bjóst ekki við neinum perum hvort eð var því tréð var hoggið til hálfs í fyrra og yfirleitt koma engir ávextir á trén fyrst eftir slíkt sjokk. Þannig að þessi útétna pera var meira en búist var við. 


Nýi Canucks búningurinn



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband