Um kringlur, glæpi, tölvur og sæta stráka
11.8.2007 | 00:00
Um kringlur. Þegar ég heimsótti Siggu vinkonu mína í Munchen fyrir einum tíu árum kynntist ég þrenns konar mat sem ég hafði aldrei fengið áður og sem þá fengust ekki á Íslandi. í fyrsta lagi var um að ræða nokkurs konar hráskinku sem ég þekki hér úti sem Procuttio en sem Sigga kallaði eitthvað allt annað. Slíkt, eða alla vega svipað, fæst nú á Íslandi og líka hér í Vancouver. Í öðru lagi var um að ræða ferskan mozarella, eða boccio, sem einnig fæst núna bæði á Íslandi og í Vancouver. Það þriðja, hins vegar, hefur verið mun erfiðara að fá, en það er þýska kringlan, pretzel. Hér vestanhafs er reyndar seld kringla sem kallast soft pretzel og sem er svipuð útlits en allt öðru vísi á bragðið. Það eru ágætar kringlur en samt ekki eins góðar og þessar þýsku. Marion vinkona mín er algjörlega á sama máli enda mamma hennar þýsk. Hún fann stað í Lilloet sem selur svona kringlur og kaupir svoleiðis þegar hún fer til Lilloet að vinna með indjánakonunum sínum þar, og hefur tvisvar sinnum komið með svoleiðis til baka handa mér en það gengur ekki að þurfa að fara til Lilloet til að kaupa kringlur.
Ástæða þess að ég minnist á þetta nú er sú að fyrir nokkrum vikum opnaði tehús hér í nágrenninu. Ég sagði Marion að við yrðum að kíkja þangað því þeir virtust hafa gott bakarí, en sjálf hafði ég ekki farið. Nema hvað, í gær sendi Marion mér tölvupóst og sagði mér frá því að hún hefði farið þangað inn og ÞEIR VÆRU MEÐ ÞÝSKU KRINGLURNAR!!!!! Við ekkert smá ánægðar. Ég skellt mér því niður á tíundu en þá voru kringlurnar uppseldar. Mér var sagt að koma á morgnana ef ég vildi tryggja mér kringlu. Greinilega finnst fleirum en okkur þetta gott. Svo að ég fór aftur í morgun, fékk mína kringlu og naut hennar í botn. Ég var ótrúlega nálægt því að kaupa mér aðra en mér fannst ástæðulaust að ganga of langt. Má ekki borða of mikið af brauði á dag. En ég á eftir að lalla þarna yfir mjög reglulega.
Um þjófa. Það hefur verið algjör innbrotsfaraldur í skólanum að undanförnu. Þjófarnir eru farnir að færa sig upp á skaftið og núna um helgina notuðu þeir slökkvitæki til að brjóta glerhurð í Buchanan byggingunni (þar sem heimspekideildin er...þar á meðal málvísindin) og komust þannig inn. Búið er að vara fólk við að vera mikið á ferli þarna um helgar því enginn veit hvað myndi gerast ef einhver kæmi að þessum mönnum. Hvað er að fólki. Það er verið að stela tölvum frá prófessorum. Það er ekki eins og þeir fái svona hrikalega vel borgað.
Um morð. Í gærmorgun komu vopnaðir menn inná kínverskan veitingastað hér í bæ, ekki langt frá Gunnari og Suzanne, og skaut átta manns sem þar sátu að snæðingi. Tveir létust en sex særðust. Talið er að þetta tengist glæpastarfssemi. Það hefur verið töluvert um það síðustu ár að skotið sé að fólki á veitingastöðum og í öllum tilfellum nema einu hefur verið um að ræða kínverskt veitingahús. Og í flestum tilfellum hefur þetta gerst eftir miðnætti. Ég hef lært eitt af þessu. Ég mun ekki þvælast á kínverskum veitingahúsum eftir miðnætti.
Um tölvuna mína. Ég hringdi í dag í Applebúðina sem fékk að kíkja á tölvuna mína. Það eru orðnar þrjár vikur síðan ég fór með hana og ég hafði ekkert heyrt. Á fimmtudaginn fyrir viku lofuðu þeir mér að segja mér hvað væri að daginn eftir. Síðan leið vika. Ég hringdi í dag og kvartaði yfir þessum seinagangi og þeir sögðu: ó, var ég ekki búin að hringja í þig? Asnar. Ég hefði átt að fara með tölvuna á sama stað og ég hef vanalega skipt við en þessi staður hentaði betur núna því ég fékk far þangað. Mér var sagt að stykkið sem væri bilað kostaði rúmlega níuhundruð dollara og að með vinnu væri þetta alla vega 1400 dollarar. Ég get keypt betri tölvu fyrir það.
Um sæta klifrara. Ég vildi að þessir strákar í klifrinu væru ekki svona ungir. Sumir þeirra eru alveg gullfallegir. Það er sérstaklega einn sem er eins og grískur guð. Ótrúlega myndarlegur með einn þann flottasta skrokk sem ég hef séð. Hann virðist pínulítið feiminn og talar ekki mikið við fólk sem hann þekkir ekki þegar margir eru nálægt en ég hef aðeins kynnst honum í gegnum aðra stráka sem ég þekki þarna. Hann var að klifra í dag og smátt og smátt fóru allir svo við vorum bara tvö eftir. Við enduðum á því að sitja og kjafta í lengri tíma. Hann virðist fínasti náungi en kannski aðeins of fallegur. Og líklega allt of ungur. Á leiðinni út rakst ég svo á Dave og Karsten sem ég spjalla alltaf mikið við. Dave er í doktorsnámi í tölfræði og Karsten í stærðfræði. Því miður var Scott hinn krúttlegi ekki með þeim. Æi, maður getur nú ekki fengið allt. Ég fór loks og fann Marion í ísbúð. Hún var að skipuleggja partý fyrir vinkonu sína sem er að fara að eignast barn. Hér eru alltaf haldin svona babyshower (barnasturtur!!!!).
Um kanadískan fótbolta. Í kvöld mætast BC Lions og Winnipeg Blue Bombers í kanadíska fótboltanum. í eina skiptið sem ég hef farið á leik mættust einmitt þessi tvö lið. Þá sigraði Winnipeg enda var það árið sem þeir léku um bikarinn. Ljónin hafa verið ótrúlega sterk í sumar og sitja á toppi vesturdeildarinnar en Winnipeg er í öðru sæti austurdeildarinnar. Einu stigi á eftir Montreal. Þetta ætti því að verða toppleikur. Ég er hins vegar ekki viss um með hvoru liðinu ég myndi halda. Ég ætti náttúrulega að halda með BC en Winnipeg situr alltaf svolítið í mér. Mér leið svo vel í Manitoba.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tilviljanir og Íslendingar í Vancouver
9.8.2007 | 23:01
Tilviljanir geta verið alveg ótrúlegar. Ég hef ekki farið á okkar annars ágæta háskólabókasafn í marga mánuði enda les ég helst greinar og þær eru orðið fremur auðvelt að hlaða niður af netinu. Ég var hins vegar uppi í skóla í dag að sinna ýmsu (m.a. að sækja Godsmack miðann minn) og ákvað að skreppa inn á bókasafn og sækja bók um dvalarhorf í spænsku, sem ég þarf að kíkja í. Ég rölti upp á fimmtu hæð þar sem málvísindabækurnar voru alltaf en það var búið að gerbreyta öllu og ég fann ekki númerið sem ég var að leita að. Svo ég hendist niður stigann aftur en á fjórðu hæð heyri ég kallað: "Kristín". Undarlegur andskoti, haldiði ekki að þar hafi staðið Halldóra Kristinsdóttir, nýr íslenskur nemandi hér í málvísindum. Hún mætti á svæðið fyrir tveimur dögum og var á háskólasvæðinu í fyrsta sinn. Ákvað að kíkja inn á bókasafn og rakst á mig. Akkúrat í þetta eina skipti sem ég hef farið þangað í allt sumar. Tilviljunin.
Þetta var fínt, við spjölluðum svolítið saman og ákváðum svo að koma upp neti Íslendinga í Vancouver enda hefur okkur fjölgað hér að undanförnu og yfirleitt engin leið að finna neinn nema af tilviljun. Ég bjó því til síðu á Facebook fyrir Íslendinga í Vancouver. Kannski rekst einhver þar inn og vill taka þátt. Síðan er hér: http://www.facebook.com/group.php?gid=4158744330&ref=mf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Á leið til Oregon
9.8.2007 | 04:01
Í dag keypti ég miða til Portland, Oregon. Ég mun fara niðreftir á sjötugsafmæli móður minnar, 17. ágúst. Fyrst fer ég með rútu niður til Seattle og skipti svo yfir í lest til Portland. Þetta er rúmlega átta tíma ferð með almenningssamgöngum, sem er um tveimur tímum meira en að keyra þetta á bíl.
Það fer lest á milli Vancouver og Seattle tvisvar á dag. Lestin fer á morgnana til Vancouver og á kvöldin til Seattle. Það þýðir að kanarnir geta komið hingað í dagsferð en Kanadamenn þurfa að gista í Bandaríkjunum. Þetta þýðir líka að ég get engan veginn tekið lest alla leið til Portland því ég hefði þurft að ná lest til Seattle um morguninn og til Vancouver um kvöldið. Asnalegt.
Þetta mun kosta tæpa áttatíu US dollara, sem er hvað, um tæpar fimm þúsund krónur. Það er svo sem ekki slæmt. Það hefði kostað mun meira að fljúga. Rútuparturinn verður reyndar leiðinlegur en ég hlakka til lestarferðarinnar. Ég elska lestir.
Ég get sem sagt ekki verið í afmæli mömmu en ég get alla vega borðað kvöldmat hjá ættingjum í Oregon.
Vildi að ég þekkti klifrara þarna niðurfrá. Það eru frábærir klifurstaðir í Oregon fylki, þar á meðal Smith Rock sem ég hef komið til áður. Kannski ég finni bara sal og skreppi þangað í staðinn.
Klifrið hefur reyndar gengið ágætlega að undanförnum. Ég hef lítið klifrað með reipi en þeim mun meira boulderað. Mér finnst það skemmtilegra. Þegar ég hef farið undanfarið hef ég mikið rekist á sömu strákana sem hafa hjálpað mér alveg helling og kennt mér ýmislegt. Það er líka gott að hafa góðan félagsskap þegar ég klifra. Verst er að þessir strákar eru flestir á þrítugsaldri og ég er ekki viss um að ég sé nógu mikill cougar til að notfæra mér það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Í guðana bænum ekki lækka meira
7.8.2007 | 20:43
Nú sem aldrei fyrr sit ég og bið um að krónan styrkist. Ég fæ nefnilega laun frá Íslandi en bý í Kanada og því þarf krónan að standa sterk gagnvart kanadíska dollarnum. Í dag stendur dollarinn í 59 krónum en var 57 fyrir nokkrum dögum. Þegar ég flutti til Kanada var dollarinn 50 krónur og nú býð ég eftir að svo verði aftur. Alla vega á meðan launin mín eru greidd í íslenskum krónum.
Og ég sem vil helst aldrei hugsa um bankakerfið og peningamál því hausinn á mér skilur ekki tölur!
![]() |
Krónan veiktist í lok dags |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þeir sem dreifa veirunum
7.8.2007 | 18:59
Þetta minnir mig á þegar hestafaraldurinn kom upp á suðurlandinu í kringum 1998. Þá voru hesthús sett í sóttkví eins og menn muna og fólk beðið um að þvæla ekki á milli hesthúsa. Á þessum tíma var ég að vinna á Fréttastofu Sjónvarps og kvikmyndatökumennirnir voru að hlæja að fréttamönnum sem þeir sögðu spígspora á milli hesthúsa, ávallt í sömu skónum, og spyrja: "Jæja, einhver veikur hjá ykkur?" Hver veit hversu mikið af vírusnum var dreift á milli hesthúsa á skóm fréttamanna!
En það kemur ekkert á óvart þótt veira hafi komist út úr rannsóknastofu og þangað sem síst skyldi. Slys geta alltaf hent. En það er gremjulegt fyrir bændur sem þurfa að losa sig við allar skepnur og bíða í einhver ár (er það ekki?) þar til þeir geta fengið sér nýjar.
![]() |
Gin- og klaufaveiki líklega frá rannsóknarstofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ótrúlegt...
7.8.2007 | 18:51
...að þeim skyldi líka við íslenska matinn. Ég hélt alltaf að þetta væri svona matur sem maður yrði að borða frá blautu barnsbeini til þess að geta látið ofan í sig. Mér finnst reyndar margt alveg dásamlegt í íslenskri matargerðarlist. Það er t.d. fátt eins gott eins og soðin lifrapylsa með svolitlum syktri og kartöflustöppu. Íslensk kjötsúpa er frábær og saltkjöt náttúrulega magnað. Mér þykir meira að segja hákarl algjör sælgæti, hefur alltaf fundist það. En það er líka margt hræðilega bragðvont eins og flestur þorramatur (allur súrmatur) og svo bölvuð skatan.
Annars sverja mamma og pabbi og sárt við leggja að þeim þyki skata í alvörunni vera góð. Ég held því fram að þau séu að ljúga að mér. Sjálf snerti ég ekki á henni. Vil helst ekki vera í húsinu þegar hún er borðuð. Fyrir nokkrum árum fór þáverandi kærasti minn, kanadískur, með mér til Íslands um jólin og ég var mikið búin að lýsa fyrir honum þessum fiski sem köttur hefur pissað á. Hann var alveg harðákveðinn í að prófa en kveið nú samt svolítið fyrir. Mamma hefur alltaf skötuna daginn fyrir Þorláksmessu og svindlar svolítið þannig. Það er til þess að vera laus við lyktina úr húsinu fyrir jólin (mig hryllir við tilhugsunina). Soðinn var hellingur af fiski enda komu bræður mínir og fjölskyldur þeirra í mat. Pantaðar voru pizzur fyrir þá sem ekki vildu skötuna og pizzuliðið borðaði inni í stofu með kyrfilega lokað inn í eldhús þar sem skatan réð ríkjum. Það var margbúið að segja Tim að hann þyrfti ekki að borða skötuna en hann þráaðist við. Fannst hann gæti ekki verið á Íslandi um jól og ekki borðað skötu.
Eftir nokkurn tíma kom mamma inn í pizzustofuna og tilkynnti að Tim væri búinn að fá sér aftur á diskinn. Mér létti mikið enda benti til þess að honum þætti maturinn góður og að þetta væri sem sagt engin pína fyrir hann. Að mat loknum spurði ég hann því hvort honum hafi þótt þetta svona gott. "Nei", sagði hann. "Þetta var það ógeðslegasta sem ég hef nokkurn tímann borðað." "En af hverju fékkstu þér þá aftur á diskinn?" spurði ég. "Nú, allir hinir fengu sér tvisvar og ég gat nú ekki verið minni maður." Svo mörg voru þau orð.
![]() |
Undarlegur matur á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Söngflugan og Simpson
7.8.2007 | 03:57
Ég las einhvers staðar um daginn að það yrði líklega enginn X-factor þáttur á Íslandi í vetur. Hér kemur þá hugmyndin að þættinum sem þið getið verið með í staðinn. Í bandaríska sjónvarpinu er núna verið að sýna þætti sem heita The Singing Bee (nafnið fengið lánað úr The Spelling Bee) þar sem keppendur þurfa að kunna texta þekktra dægurlaga. Keppnin fer þannig fram að söngvari syngur brot úr frægu lagi frá ýmsum tímum og þegar hann/hún hættir að syngja þá verður keppandinn að halda áfram og hvert einasta orð verður að vera rétt. Þannig er haldið áfram þar til aðeins einn er eftir. Þetta er hin ágætasta skemmtun. Stjórnandi er enginn annar en fyrrum NSync gæinn Joey Fatone, sem ruddist aftur fram á sjónarsviðið í vetur í þáttunum Dancing with the stars.
Ég finn reyndar ótrúlega fyrir því hversu léleg ég er í textum, sérstaklega enskum textum. Megnið af þessum lögum söng ég áður en ég var orðin nógu góð í ensku til að skilja hvað verið var að segja þannig að ég hef alltaf sungið einhvers konar bull sem er svona í líkingu við það sem sagt er á enskunni en alls ekki réttur texti. Ég kann líklega eitthvað meira af íslenskum textum en einhverra hluta vegna hef ég alltaf hlustað meira á laglínuna en textann. Ég er hins vegar ágæt í íslenskum þjóðlögum því þar var ég vön að hafa texta fyrir framan mig þegar sungið var.
Í dag fór ég að sjá Simpson myndina. Hún er býsna fyndin og ég hló upphátt á mörgum stöðum. Samt fannst mér myndin kannski ekki alveg heppnast eins vel og hún hefði getað. En einhverra hluta vegna hafði ég heldur ekki búist við því. En auðvitað er myndin algjört möst fyrir alla Simpson aðdáendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Svolítið um Sturlu Gunnarsson
6.8.2007 | 04:15
Eitt af einkennum sumarsins er að næstum því engir nýir sjónvarpsþættir eru sýndir. Maður hefur því þrjá kosti. Í fyrsta lagi, maður getur sleppt því að horfa á sjónvarp, sem öllu jöfnu er góður kostur, en stundum langar mann einfaldlega að setjast í hægindastólinn og horfa inn í veröld aðra en manns eigin. Annar kostur er því að horfa aftur á sömu þættina og maður sá í vetur, eða síðastliðinn vetur. Þriðji möguleikinn er sá að uppgötva eitthvað nýtt. Ég hef svolítið gert af því að horfa á sjónavarpsþætti sem ég hef aldrei séð áður, og sumir lofa mjög góðu, jafnvel þótt hætt sé að framleiða þá. Einn af þessum þáttum er Zoe Busick: Wild Card. Þættirnir fjalla um konu á fertugsaldri, Zoe, sem allt í einu sér líf sitt umhverfast þegar systir hennar deyr. Zoe þarf að snúa baki við spennandi lífi í Las Vegas og flytja til Chicago þar sem hún tekur við uppeldi þriggja systrabarna sinna. Hún fær vinnu í tryggingafyrirtæki og fer að leysa alls kyns tryggingasvik og skyld mál. Í aðalhlutverki er Joely Fisher sem er alveg frábær leikkona. Hún lék á sínum tíma í þáttunum um Ellen, síðar í Till Death.
Ástæða þess að ég minnist á þessa þætti er sú að þegar ég fór að horfa á þáttinn í kvöld tók ég eftir því að leikstjórinn var enginn annar en okkar eigin Sturla Gunnarsson. Hann hefur leikstýrt einstökum þáttum í mörgum seríum, meðal annars þáttunum Da Vinci's Inquest og Da Vinci's City Hall, Intelligence og The Best Years. Annars er alltaf uppáhaldsmyndin mín eftir Sturlu Rare Birds sem ég mæli með að allir sjái.
Sturla ólst upp í Vancouver og mamma hans, Ástríður, býr hér ennþá. Ég gisti einmitt hjá henni þegar ég kom hingað veturinn 2003 og hélt fyrirlestur. Hún er alveg frábær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ávaxtaflugur
6.8.2007 | 02:18
Ég væri nú ekki samkvæm sjálfri mér ef ég skrifaði ekki um ávaxtaflugurnar sem fylla eldhúsið þessa dagana. Þetta eru pínulitlar leiðindaflugur sem sækja helst í þroskaða ávexti og annan mat. Ég man ekki eftir þeim frá Winnipeg en hér í Vancouver eru þær fastagestir á mínu heimili síðsumars. Fyrir tveimur árum voru þær algjör plága en í fyrra voru þær ekki svo slæmar. Nú virðist allt stefna í aðra plágu og kannski hefur það eitthvað með ruslaverkfallið að gera. Verkfallið hefur nú staðið yfir í rúmar tvær vikur og ruslatunnur fyrir löngu orðnar fullar.
Ég fann grein um ávaxtaflugur á netinu og þar var gefið gott ráð til þess að veiða flugurnar. Maður setur svolítið af eplaediki í krukku og býr svo til trekkt úr venjulegu blaði og setur í krukkuna. Flugurnar sækja svo í edikið og fljúga niður í krukkuna en eru of vitlausar til að komast aftur út. Ég er þegar búin að fara út með tvær krukkur og losa þær og það er töluverður slatti nú þegar kominn í þriðju krukkuna.
Ég held að þessar flugur séu ekki hættulegar en þær eru auðvitað hvimleiðar enda eru þær í hundruðatali og setjast á mat ef eitthvað er skilið eftir á borðinu. Maður þarf helst að hafa allt í ísskápnum og loka öllu vel.
Já, það er víst nóg af kvikindum í útlandinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gengið á ljónin
5.8.2007 | 20:17
Í gær var mikill göngudagur þar sem ég gekk á ljónin svokölluðu (The lions) sem tilheyra Cypress bowl þjóðgarðinum hér í Bresku Kólumbíu. Forsagan var sú að Kathy sem spilar ultimate með mér spurði í leiknum á fimmtudaginn hvort einhver hefði áhuga á að ganga ljónin. Hún ætlaði að gera það ásamt Liesl vinkonu sinni frá Vancouver eyju sem var í heimsókn. Ég sagðist umsvifalaust hafa áhuga og sagðist ætla að tala líka við Línu Héðins, sem er nýflutt hingað út ásamt kærasta sínum, og er algjör útivistarfrík. Lína sagði já, enda Alex uppi á jökli einhvers staðar, svo við vorum fjórar sem lögðum af stað frá Vancouver klukkan átta í gærmorgun.
Við lögðum af stað frá Lions Bay þorpinu þar sem eingöngu búa ríkisbubbar (miðað við húsin), á mínútunni níu. Við þurftum fyrst að labba sirka kílómetra eftir gömlum malarvegi en svo tók skógarstígurinn við með tilheyrandi brölti yfir fallin tré, grjót, lækjarsprænur og þvíumlíkt. Það voru engar mýrar að fara eins og á Súlum, þetta varð bratt frá upphafi. En mikið rosalega var leiðin fallegt. Þarna var nóg að taka myndir af, hvort sem voru tré, blóm, grjót, ber, fjöll, sjór, ský...
Eftir þriggja tíma príl uppá við og sára fætur vorum við komin upp á svolitla hillu sem við töldum vera hnakkinn svokallaða (the saddle). Planið var frá upphafi að ganga ekki á tindinn enda hann brattur og hættulegur og ekki fyrir lofthrædda. Við settumst því niður ásamt nokkrum öðrum sem voru þarna líka á göngu, borðuðum svolítið og reyndum um leið að veifa frá okkur flugunum sem voru alls staðar. Þetta voru bæði moskítur, svartflugur og eitthvað annað sem ég ekki kann skil á. Ég tók myndir af ljónunum sjálfum sem loks voru sýnileg (þótt ég hafi reyndar komist að því síðar að það var bara vesturljónið sem við sjáum þarna. Austurljónið var hulið þar á bakvið), af útsýninu, af Kathy og Liesl að reyna að borða um leið og þær veifa flugunum á burtu, af Línu með ljónið í baksýn (Lína og ljónið - mér finnst það hljóma eins og titill á barnabók). Kathy og
Liesl fóru að tala við aðra göngugarpa og komust að því að við vorum alls ekki komin upp á hnakkinn. Það var alla vega um 30 mínútna ganga eftir.
Fæturnir kvörtuðu mikið yfir því að halda áfram göngunni enda var búið að segja þeim að við værum komin eins langt og við færum. En hálftímagangur er ekki svo mikið. Nema hvað það var alls ekki rétt. Það tók okkur alla vega klukkutíma að komast upp á hinn eiginlega hnakk. Og þessi efsti hluti var ekki auðveldur. VIð þurftum að ganga yfir snjóbreiður, upp lækjarsprænu (já við gengum meira og minna í læknum því það var engin önnur leið auðveld), yfir kletta... erfitt en skemmtilegt.
Við komumst loks upp og var launað með útsýni niður til Vancouver og yfir austurljónið. Við borðuðum aðeins meira og hvíldum lúin bein því niðurferð er aldrei góð þegar læravöðvarnir eru þreyttir. Lína og ég höfum báðar slæm hné og það er því alltaf erfiðara að ganga niður fjöll en upp þau. Við fórum okkur hægt enda var það nauðsynlegt. Sérstaklega efsta hlutann þar sem þurfti að ganga niður snjóbreiður, kletta og læki. Ég var sú eina í almennilegum gönguskóm fyrir þennan hlutann. Gönguskór Línu gripu ekki alltaf nóg í og hinar stelpurnar voru á strigaskóm.
Ég fór því fyrst, sérstaklega yfir snjóinn, og reyndi að búa til almennileg fótsport til þess að auðvelda gönguna fyrir þær hinar. Þetta gekk allt saman og við fórum okkur hægt og stoppuðum þegar við þurftum. Hnén héldu lengst af og þegar við komumst yfir mesta prílið hélt ég að ég væri sloppin. En neðsti hlutinn var erfiðari en ég hafði búist við. Bæði var hann nú brattari en eins var það að ég var orðin þreytt og vöðvarnir héldu því ekki eins vel í og fyrr. Mig fór því að verkja meir og meir í hnén, ekki bara það hægra sem er verra, heldur einnig vinstra hnéð. Tærnar voru líka alveg í kremju enda búnar að soðna bókstaflega í gönguskónum allan daginn. Þar að auki var
ég bæði sólbrunnin og bitin af moskítum og svartflugum (black fly). Ég fékk reyndar bara eitt svartflugnabit (sem bíta í alvöru, stinga ekki eins og moskítan), en Lína fékk nokkur. Það voru blóðtaumar niður ökklana á henni. Moskíturnar létu hana hins vegar í friði. Liesl var ekkert bitin en át alla vega fjórar flugur. Þær voru eins og mývargar þarna uppi, í augunum á manni, nefinu og munninum. Algjör plága. Kathy slapp með eitt svartflugnabit.
Mikið var gott að koma í bílinn. Við keyrðum reyndar beint á lítinn sölustað og fengum okkur kælingu, skruppum á klósettið og slöppuðum af fyrir keyrsluna heim. Við vorum auðvitaðar klístraðar af svita og ekki mjög kræsilegar. Það sýnir hvað mikið við svitnuðum að ég, sem alltaf þarf á klósettið á tveggja tíma fresti, fór á klósettið klukkan hálf átta um morguninn og ekki aftur fyrr en klukkan sex um kvöldið. Ég hef aldrei áður lifað af svona lengi án þess að pissa. Vökvinn fór greinilega allur út um svitaholurnar. Og nú er
ég búin að segja of mikið.
Í dag er ég útbitin og þreytt og mig verkjar í lærisvöðvana. En sem betur fer báru hnén engan varanlegan skaða og eru þokkaleg í dag. Stundum bólgna þau upp eftir svona fjallgöngur og þá get ég varla gengið á eftir, en kannski er ég að styrkjast. Ég er ánægð með ferðina.
Ég tók alveg helling af myndum og þið getið séð þær hérna: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)