Dagur er að kvöldi kominn
16.8.2007 | 06:01
Stundum kvarta ég yfir því að ég hafi lítið skemmtilegt að gera en ég get ekki sagt það um daginn í dag. Ég vaknaði um átta leytið og eftir svolítinn morgunverð og blaðalestur fór ég að vinna við ritdóm sem ég þurfti að klára. Það tókst og ég kom honum af mér. Stuttu síðar kom Lína að sækja mig en hún á bíl og hafði lofað að skutlast með mig til að sækja tölvuna mína. Ég þurfti að borga rúma fjörutíu dollara (2400 krónur) fyrir að fá að vita að ekkert væri hægt að gera fyrir skjáinn, nema að kaupa nýtt stykki upp á 900 dollara. Mér fannst það mikill peningur fyrir ekkert en auðvitað þurftu þeir að kíkja á tölvuna til að geta staðfest þetta, þannig að það var svo sem sanngjarnt að borga. Bara svolítið skítt.
Klukkan ellefu hitti ég Marion og Jeremy á Sunshine diner þar sem við fengum okkur almennilegan brunch. Ég fékk mér eggs benedicts sem er alveg dásamlegur morgunmatur. Þessi útgáfa innihélt sveppi, beikon og tómat auk hins reglulega (poached egg, ensk múffa, hollandaise sósa). Við höfðum um margt að spjalla en sumt var endurtekning því við Jeremy fórum í fjallgöngu um daginn og þar fékk ég að heyra flestar sögurnar. Marion og Jeremy höfðu hins vegar ekki hist í sumar svo hún þurfti að heyra allt um Thailandsferðina og væntanlegt nám í Rutgers.
Besta kjaftasagan sem kom frá Jeremy var reyndar ekki úr hans lífi heldur hokkítengd (Jeremy er mesti hokkíaðdáandi sem ég þekki). Fyrir einum tveimur árum fékk hokkíliðið Edmonton Oilers til sín hinn frábæra varnarmann Chris Pronger sem fékk fimm ára samning. Hokkíaðdáendur í Edmonton voru í skýjunum enda Pronger frábær leikmaður og liðið komst alla leið í úrslitaleikinn um Stanley bikarinn þar sem þeir töpuðu gegn Carolina Hurricanes. En þótt það hafi verið vonbrigði fyrir Edmonton að komast ekki alla leið þá hafði liðið spilað betur en nokkur bjóst við og menn voru sáttir. En í júní 2006 fór Pronger á fund eigenda Edmonton liðsins og bað um skipti til annars liðs. Ástæðurnar sem hann gaf voru persónulegar en sú saga gekk fjöllum hærra að það hafi í raun verið eiginkona Prongers sem vildi ekki búa í Edmonton. Sumir sögðu að það væri vegna þess að hún kynni ekki við borgina og allan sjóinn. Chris Pronger varð hataðasti maðurinn í borginni og margir munu eflaust aldrei fyrirgefa honum. Sérstaklega ekki þar sem hann fór frá Edmonton til Anaheim þar sem hann spilaði með Anaheim öndunum til sigurs nú í vor. Jeremy hefur góð sambönd í hokkíheiminum og heyrir margt sem fáir heyra. Eitt af því er alvöru ástæðan fyrir því að Pronger bað um flutning. Það var rétt að það var vegna kröfu konu hans, en ekki vegna þess að hún þyldi ekki borgina heldur vegna þess að Pronger var farinn að halda framhjá konu sinni með blaðakonu í Edmonton. Frúin setti honum því stólinn fyrir dyrnar og sagði að annað hvort færi hún frá honum eða þau flyttu eitthvert annað. Já, það er margt merkilegt í íþróttaheiminum.
Um eitt leytið fór ég að klifra. Ég var svolítið þreytt og klifraði ekki sérlega vel en fékk samt ágæta æfingu og komst lengra með eina leiðina en ég hef áður komist. Strákarnir mínir voru líka margir þarna. Reyndar ekki Dave, Scott og Zeke sem mér finnst gaman að klifra með, en Dean var þarna og Wes og svo sæti strákurinn sem ég veit ekki hvað heitir. Ég kynntist líka öðrum náunga, Patrick, sem ég hef séð þarna nokkrum sinnum en aldrei áður talað við. Hann var fínn eins og hinir. Almennt eru þessir strákar vænstu skinn og mjög hjálplegir. Ég hef lært heilmikið af þeim.
Uppúr þrjú var ég mætt niður á Jericho strönd þar sem Leora og Ross ætluðu að játast hvort öðru. Þau höfðu um viku til þess að undirbúa giftinguna og flýttu henni meira að segja um einn dag. Sumir nota heilt ár í þetta. Þetta var bara annað brúðkaupið sem ég er við hér í Vancouver og það var voðalega notalegt. Þarna voru nokkrir vinir þeirra og fjölskyldur, varla nema um 20 manns, og enginn var neitt sérlega klæddur uppá, ekki einu sinni brúðhjónin. Eftir á borðuðum við svolítið af samosum og þessa líka fínu tertu. Ekki eins góð og íslensk terta en það er nú heldur ekki hægt að ætlast til þess.
Úr brúðkaupinu henti ég mér niður í bæ að hlusta á kammerkórinn flytja verk eftir Jón Leifs og fleiri. Þeir fluttu meðal annars verk eftir Grieg og Sibelius og nokkur nýleg kanadísk verk. Þegar kom að íslensku lögunum tveimur sagði kórstjórinn að þeir hefðu líklega skemmt sér best yfir íslensku lögunum (út af framburðinum - ekki að þetta hafi verið svo létt lög). Hann bað síðan alla Íslendinga um að rétta upp hönd. Ég var sú eina sem það gerði svo kórstjórinn sagði: "Nú, bara þjálfarinn okkar. Þá ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framburðinum." Það var reyndar rétt því þau gerðu þetta meistaralega og lögin voru bara býsna falleg. Ég var hrifnust af finnsku lögunum tveimur og einsöngvararnir í þeim lögum voru dásamlegir. Ég var mjög sátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Pakkaður dagur
15.8.2007 | 15:54
Dagurinn í dag er býsna pakkaður. Ég verð að reyna að klára ritdóm fyrir klukkan tíu því þá ætlar Lína að keyra mig til þess að sækja tölvuna mína úr svokallaðri viðgerð (ekki borgar sig að gera við skjáinn á henni - ég ætla að reyna að tengja hana við annan skjá og sjá hvort það virkar) og svo þarf ég að hitta Marion og Jeremy klukkan ellefu. Við þrjú höfum ekki hist öll saman síðan áður en Jeremy fór til Thailands fyrir næstum tveimur árum. Og nú er hann að fara til New Jersey í doktorsnám.
Ég er að vonast eftir að hafa tíma til að skjótast í klifurhúsið eftir það og ná kannski um klukkutíma á veggnum en klukkan þrjú ætlar Leora, sem útskrifaðist héðan úr deildinni fyrir tveimur árum, að gifta sig á ströndinni. Þetta var tilkynnt í gær og verður bara örstutt athöfn og síðan hugsanlega kaka. Þau drifu í þessu vegna þess að Leora er búin að fá varanlega vinnu í Montana og það er auðveldara fyrir Ross að fara með henni þangað ef þau eru gift. Þau ætla svo að halda almennilega veislu næsta sumar.
Klukkan hálf sex er ég svo að fara á tónleika með kammerkór Vancouver í kirkju niðri í bæ. Þau munu syngja skandinavísk lög, þar á meðal eitt eftir Jón Leifs og eitt eftir Hafliða Hallgrímsson. Ég fór á æfingu með þeim á mánudaginn og hjálpaði þeim með framburðinn. Í staðinn fékk ég tvo aðgöngumiða að tónleikunum. Ég heyrði svolítið af finnska laginu (Sibelius) sem var dásamlegt, en ég var ekki eins hrifin af norska laginu. Ég verð nú líka að viðurkenna í góðra vina hópi að ég var ekkert sérlega hrifin af þessum íslensku. Ekki var við kórinn að sakast. Rosalega voru þau annars fljót að ná framburðinum. Hefði ekkert á móti því að hafa þann hóp sem nemendur. Þau gerðu ótrúlega fáar vitleysur og það var helst að þau notuðu uppgómmælt
Ekkert er á dagskrá í kvöld svo ég hugsa bara að ég hafi það notalegt heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meira um strandboltann
14.8.2007 | 22:34
Ég skrifaði ekkert um fótboltamótið á sunnudeginum enda fór ég beint á Godsmack tónleikana eftir að mótinu lauk og þegar ég kom heim þaðan fór ég beint að sofa.
Sumir hafa kannski haldið að ég hafi ekki skrifað neitt um fótboltann af því að við vorum svo lélegar. Það var nú öðru nær. Við gerðum jafntefli í fyrri leiknum okkar sem var sérlega frábært í ljósi þess að stelpurnar sem við spiluðum á móti voru allar í meistaraflokki kvenna og meðalaldurinn var 21 ár. Við spilum hins vegar í fjórðu deild og vorum því bara býsna stoltar yfir því að halda jöfnu.
Þessi þriðji leikur mótsins var síðasti leikur riðlakeppninnar. Fjögur lið komust í undanúrslitin og þá kom í ljós að einungis liðið sem vann okkur á laugardeginum hafði unnið alla leikina. Þrjú lið voru svo jöfn að stigum með eitt tap, einn sigur og eitt jafntefli. Því var farið eftir markahlutfalli og við vorum með þrjú mörk skoruð og þrjú mörk á okkur svo staðan hjá okkur var 0 í mörkum. Hin liðin tvö voru með +1 og +2 eða eitthvað svoleiðis. Þannig að þau fengu að leika innbyrðist og þurftu vítaspyrnukeppni til að fá úrslit. Við, aftur á móti, dæmdumst neðst og urðum því að leika við bölvað liðið sem vanna alla aðra. Við töpuðum þeim leik 4-0. Það lið var líka meistaradeildarlið og þegar þær fréttu að við lékum í fjórðu deild fannst þeim lítið til sigursins komið. En við vorum sáttar og það var kannski eins gott að við komumst ekki í úrslitin því ég hafði rétt tíma til að fara í sturtu og svo varð ég að skella mér á tónleikan.
Verst var að stóra táin á hægri fæti er bólgin svo ég á svolítið erfitt með að vera í skóm. Verð að vera í sandölum þar sem ekkert þrengir að tánni. Þar að auki er mér illt í náranum, en það gæti verið eftir klifrið í gær.
Talandi um klifur, í gær klifraði ég V3 leið alveg hreina. Soooooooo happy!!!
Í stað þess að setja mynd af mér í fótbolta til að skreyta síðuna set ég mynd af Guðrúnu bróðurdóttur minni sem var að spila með Þór á pæjumóti á Siglufirði um helgina.
Bloggar | Breytt 15.8.2007 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um slöngur og snáka
14.8.2007 | 04:50
Ég hef alltaf verið óttalega hrædd við slöngur, sem á Íslandi var fremur furðulegt þar sem við höfum engar slíkar þar. Mér var svo illa við þessi kvikindi að ég var jafnvel hrædd við flest sem líktist slöngu, svo sem ýmsa vatnaorma og þvíumlíkt. Fékk einu sinni næstum hjartaáfall í gæludýrabúð á Laugarveginum því þar var eitthvert kvikindi í vatni sem leit út eins og snákur. Ég gat ekki einu sinni horft á snáka eða slöngur í sjónvarpinu.
Eftir að ég flutti vestur um haf hef ég af og til séð snáka í grasinu eða að skjótast yfir götuna og smám saman hef ég vanist þeim. Hjartað slær því ekki hraðar lengur við tilhugsunina um snák. Það er kannski aðallega vegna þess að snákar hér í Kanada eru vanalega hættulausir, nema skröltormurinn sem finnst í suður Alberta og í Okanagan dalnum hér í BC. En yfirleitt sér maður bara litla gula og græna garðsnáka.
Núna í kvöld er ég að athuga hversu vel ég er búin að venjast snákunum. Ég er að horfa á myndina Anaconda. Ef ég get gert það án þess að fá martröð er ég búin að stíga mörg skref fram á við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tek ekki áskorun
14.8.2007 | 03:54
Je minn góður. Ég held að sá sem skrifaði stjörnuspána fyrir meyjuna í dag þekki mig. Alla vega á þetta hrikalega vel við - nema auðvitað ég hef fulla ástæðu til þess að væla

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Godsmack voru alveg magnaðir
14.8.2007 | 00:33
Tónleikarnir voru hreint út sagt frábærir.
Það var reyndar svolítið vesen að komast þangað. Ég var búin að reikna út vandlega hvenær ég yrði að leggja af stað til að komast á svæðið á þokkalegum tíma og ferðamátinn innihélt strætó, lest og annan strætó. Fyrsti strætó var á réttum tíma og ég náði lestinni sem ég þurfti að ná (gat meira að segja gripið mat á hlaupum þar sem ég hafði ekki haft tíma til að borða kvöldmat eftir fótboltann). Ég var því mætt á síðustu strætóstöðina hálftíma áður en Godsmack átti að stíga á svið. Það tekur ekki nema um tíu mínútur að keyra niður götuna þannig að þetta átti að vera fínt. Nema hvað strætó kom ekki. Eitthvað hefur gerst og þessi tiltekna ferð verið felld niður því ég talaði við unglingsstráka sem einnig voru á leið á tónleikana og þeir voru mættir á stöðina tíu mínútum áður en von var á strætó þannig að vagninn gat ekki verið á undan áætlun. Næsti vagn þar á eftir var líka seinn þannig að í stað þess að ná strætó fimm mínútur yfir hálf átta kom hann ekki fyrr en á slaginu átta. Þá áttu Godsmack að byrja að spila.
Ég spjallaði við þessa ungu stráka í vagninum og þeir sögðu mér að PNE forum, þar sem tónleikarnir voru, væri besti tónleikastaður borgarinnar. Hljómgæðin væru hreinlega frábær og ef maður stæði á gólfinu þá titruðu í manni hljóðhimnurnar. Þeir voru sirka sextán og þeim fannst þetta mikilvægt. Ég er hins vegar orðin svo gömul að tilhugsunin um að hljóðhimnurnar titruðu var ekki svo spennandi. Við komumst loks á svæðið um fimmtán mínútum yfir átta en sem betur fer var hljómsveitin ekki komin á sviðið ennþá þannig að ég gat komið mér aftast í hrúguna. Það var svolítið skrítið að líta í kringum sig því ég var greinilega af allt öðru tagi en megnið af tónleikagestum. Ég var í fyrsta lagi ekki svartklædd. Ég var ekki með svartar neglur eða svartan eyeliner, og ég var aðeins með göt í eyrunum, ekki í nefi, tungu, nafla, geirvörum, vörm, augabrúnum eða öðrum undarlegum stöðum. Flestir virtust vera á þrítugsaldri og karlmenn voru í augljósum meirihluta. Þó voru nokkuð margir karlmenn þarna augljóslega yfir þrítugu og sumir yfir fertugu. Ekki sá ég þó neinn mikið eldri og þarna voru engin börn eins og á svo mörgum tónleikum. Það var heldur ekki mikið um unglinga.
Rétt upp úr hálfníu slöknuðu ljósin í salnum og tónlist kom úr hátölurunum. Um leið var nokkurs konar bíó sett í gang þar sem sýndar voru myndir frá tónleikum Godsmack, bæði áhorfendum og hljómsveitinni á sviði, og einnig voru sýndar myndir úr búningsherberginu. Um leið og myndinni lauk hóf Shannon Larkin að berja húðirnar og bandið skellti sér í The Enemy. Krafturinn var ógurlegur og strákarnir höfðu ekki verið að grínast. Hljóðhimnurnar titruðu og það sem meira var, ég held að barkakýlið hafi hoppað upp og niður. Það var ekki bara að maður heyrði tónlistina, maður fann hana með öllum skrokknum. Eftir The Enemy skelltu þeir sér beint í Livin in Sin, annað stórkostleg lag af nýju plötunni. Ég þekkti ekki þriðja lagið enda hef ég ekki heyrt allar plöturnar með Godsmack en ég notaði tækifærið til að hlaupa á klósettið enda hafði ég ekki nennt að bíða í biðröð áður en þeir komu á sviðið. Ég ákvað svo að sætta mig við það að ég væri orðin gömul og löt og tölti upp á pallana við hliðina og settist niður. Reyndar varð ég svo þreytt þá, enda nýbúin að spila tvo fótboltaleiki í sandi, að ég varð að drekka flatt kók (ekki boðið upp á annað) til þess að vekja mig upp. Og nei, það þýðir ekki að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, þvert á móti, ég var bara svona hrikalega þreytt.
Godsmack hélt áfram á fullu og tók sér enga pásu, þótt reyndar hafi þrír meðlimir getað slappað af aðeins á meðan við fengum langt gítarsóló frá Tony Rambola sem er geggjaður gítaristi. Það var almennt alveg rosalega skemmtilegt að fylgjast með Larkin á trommunum. Hann var stundum eins og í transi og ég hef sjaldan séð trommara eins flottan. Ég veit ekkert hvort hann er góður enda veit ég lítið um tónlist þótt ég hafi gaman af að hlusta á hana, en það er víst ábyggilegt að það er skemmtilegt að fylgjast með honum. Hann henti trommukjuðunum til og frá og greip þá aftur án þess að missa slag.
Flottasta atriði tónleikanna tengdist líka trommum og er víst hluti af hverjum Godsmack tónleikum. Það var alveg magnað. Larkin sat og trommaði á settinu sínu sem allt í einu flaut fram sviðið. Rétt á eftir opnaðist veggur á bak við hann og út kom söngvarinn Sully Erna á öðru setti. Um stund spiluðu þeir þannig að Larkin barði trommurnar en Erna (ekki Erna mágkona) spilaði á bongó trommur. En síðan var báðum trommusettum snúið þannig að trommararnir tveir sneru hvor á móti öðrum og trommuðu. Þetta er nokkurs konar trommueinvígi sem kallast Batalla de los Tambores. Ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af löngum instrumental lögum eða sólóum en þetta var einfaldlega allt of flott. Það var ekki hægt annað að hrífast með, þótt þetta trommuspil hafi tekið heila eilífð. Þeir voru bara svo magnaðir. Um miðjan hluta einvígisins komu stórir stafir á skjáinn að baki þeim þar sem stóð: "Nú er komið að þeim hluta tónleikanna þar sem við syngjum." Við átti greinilega við okkur áhorfendur því þar á eftir kom texti á skjáinn eins og í karaoki og salurinn fór að syngja. Þetta var hreint magnað.
Ég er ekki alveg viss hvort ég myndi segja að þarna hafi hápunktinum verið náð en helsti keppinautur um þann titil er án efa lagið Voodoo. Það er einfaldlega magnað lag og þeir fluttu það svo flott á tónleikunum. Það jók líka á áhrifin að svarhvítar myndir voru sýndar á bakvið. Ef okkur hefði verið sagt að við ættum öll að taka Wicca trú hefðum við líklega gert það. Ætli það sé ekki þannig sem tónlist getur náð tökum á fólki. Ég veit ekki hvað það er við Goth tónlist en hún hefur hreinlega öðruvísi áhrif á mann en önnur tónlist.
Eina sem mér leiddist á tónleikunum var þegar Erna skammaðist yfir þeim sem sátu. Hann var líka fremur orðljótur og notaði f-orðið mikið. Ég hugsaði með mér að hann væri æðislegur þegar hann syngi en hann ætti helst ekki að tala of mikið. Yfirleitt var Erna býsna góður þó og hann talaði mikið við áhorfendur. Hann gerði einnig töluvert af því að láta fólk syngja með, svo sem í lögum eins og Speak og Keep away.
Uppklapp lögin voru tvö en ég þekkti þau ekki. Held ég hafi hugsanlega heyrt annað þeirra en er ekki alveg viss. Ég held að alla vega annað þeirra hafi verið Serenity af Faceless plötunni en það er eina platan með þeim sem ég hef ekki heyrt.
Ég hélt ánægð heim á leið þó það væri nokkuð kalt úti miðað við hitann inni í salnum. Mig langaði reyndar í laukhringi enda hafði ég ekki borðað almennilega síðan um miðjan dag en það var búið að loka A&W þegar ég skipti úr lestinni yfir í strætó svo ég varð að fara svöng heim.
Ég setti tvö Godsmack lög í spilarinn hér á síðunni, annars vegar Voodoo, enda þurfa allir að heyra það lag, og hins vegar The Enemy.
Ef einhver sem les þetta á þess kost að sjá Godsmack á tónleikum skulið þið endilega fara. Þetta trommu einvígi eitt og sér gerir það þess virði, hvort sem maður er Godsmack aðdáandi eða ekki.
Eftir nokkrar vikur koma hingað Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chain. Ég held ég myndi sjá eftir því ef ég færi ekki. Ég verð bara að láta mér nægja ódýrustu miðana í verstu sætunum. En það er yfirleitt allt í lagi. Aðalatriðið er að vera á staðnum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Styttist í Godsmack
12.8.2007 | 19:37
Nú get ég talið á fingrunum klukkutímana þangað til að ég sé Godsmack og hef reyndar getað það í eina tvo tíma. Nú er eins gott að fótboltaliðið mitt fari ekki að spila of vel í dag því ef kraftaverk gerist og við komumst í úrslitaleikinn þá mun ég missa af upphafi tónleikanna. Upphitunarhljómsveitin stígur á sviðið klukkan sjö og Godsmack klukkan átta. Úrslitaleikurinn hefst hins vegar ekki fyrr en tíu mínútur yfir sex og lýkur því tuttugu mínútum í sjö. Það tekur mig um klukkutíma með strætó að komast yfir að PNE þar sem tónleikarnir eru haldnir sem þýðir að ég gæti ekki farið heim og þvegið af mér sandinn. Vil helst ekki mæta á tónleika í skítugum fótboltagallanum! Hitt er annað mál að líkurnar á því að við komumst í úrslitaleikinn eru stjarnfræðilegar þannig að þetta verður allt í lagi. Við náum kannski að spila til undanúrslita en lengra mun það varla ná.
Í kvöld eða á morgun mun ég svo skrifa um tónleikana.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Undarleg auglýsing
12.8.2007 | 18:12
Það er undarleg auglýsingin frá JPV útgáfunni um íslenska stafsetningarorðabók sem sést á forsíðu netmoggans. Þar segir:
Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar.
Athyglisvert dæmi, ekki satt? Létt og skemmtilegt!!! Þar að auki verð ég að segja að íbúar Reykjavíkur ættu varla að kallast bæjarbúar heldur borgarbúar. Ef þetta dæmi er svo gamalt að það hafi verið samið á þeim tíma er Reykjavík taldist bær en ekki borg þá þykir mér nú tími til kominn að uppfæra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Strandfótbolti
12.8.2007 | 04:33
Míní-útgáfa af fótboltaliðinu mínu, Vancouver Presto, tekur þátt í strandfótboltamóti núna um helgina. Í dag lékum við tvö leiki. Hver leikur er 2x14 mínútur og leikið er á völlum sem eru sirka 1/3 af venjulegum fótboltavelli og mörkin eru handboltastærð.
Það var svolítið erfitt að vakna klukkan sjö á laugardagsmorgni, sérstaklega af því að ég vakna vanalega ekki fyrr en um átta leytið en vekjaraklukkan mín virkar alveg ágætlega. Ég var mætt niður á strönd klukkan átta og þar sem leikurinn okkar var fyrsti leikur morgunsins (ásamt sjö öðrum leikjum). Við spiluðum nokkuð vel og unnum örugglega, 4-1. Katee skoraði tvö mörk, Julie eitt og ég eitt. Það kom mér reyndar á óvart að við skyldum vinna því við spilum í opnu deildinni þar sem betri liðin spila vanalega. Við hefðum í raun átt að spila í lægri deildinni því þar eigum við betur heima.
Eftir leikinn horfðum við á nokkra strákaleiki og fórum svo og fengum okkur hádegisverð í siglingaklúbbnum sem er þarna nálægt. Að hádegisverði loknum fórum við fjórar, ég Kathy, Christine og Jodi aftur til baka á ströndina og horfðum á fótbolta það sem eftir var dagsins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið meiri harka í strákaboltanum. Og meiri alvara. Þetta mót er til skemmtunar en það komu upp þó nokkur tilfelli þar sem annað hvort var slegist eða rifist svo svakalega að varð að aðskilja fólk. Ég veit ekki hversu margir fengu rautt spjald. Í eitt skiptið var svo mkið uppistand að alla vega sex dómarar skárust í leikinn. Bæði dómarar sem voru í pásu og dómarar sem voru að dæma aðra leiki. Í eitt skiptið urðu fjöldaslagsmál svo það skapaðist hrúga í sandinum. Fyndnast var þegar ein stelpan (ein deildin var bland kvenna og karla) henti sér á hrúguna. Yfirleitt eru konur aðeins dannaðri en svo.
Fyrir utan slagsmálin og rifrildin, og fyrir utan nokkuð góðan bolta hjá sumum, var skemmtilegast þegar heitast var því þá spiluðu sum liðin skyrtulaus (strákaliðin, stelpurnar lögðu ekki í það). Hey, kommon, eins og þið hefðuð ekki gaman af því líka!!! (Ókei, kannski ekki karlmennirnir).
Tíu mínútur yfir fimm spiluðum við síðari leikinn okkar. Ég held að hitt liðið hafi náð einum tíu skotum á markið fyrstu fimm mínúturnar. Ja, það var kannski ekki svo slæmt en þær voru töluvert mikið betri en við. Þær voru einmitt eins góðar og ég bjóst við af liðunum í þessari deild. Í hálfleik var staðan reyndar 1-1 en það sagði lítið um gang leiksins. Í seinni hálfleik spýttu þær í og skoruðu þrjú mörk, þar á meðal eitt á síðustu sekúndunni. Við töpuðum sem sagt með sama markamun og við unnum með í fyrri leiknum.
Þriðji leikurinn okkar verður leikinn á morgun klukkan fjögur og þá kemur í ljós hvort við komumst í undanúrslit eða ekki. Mín spá: Ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þvílík vonbrigði
11.8.2007 | 14:29
![]() |
Íslenska nammi-útrásin hafin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)