Á Gambier eyju
1.8.2007 | 02:02
Ég ætla að skrifa aðeins um ferð mína til Gambier og sýna ykkur myndir.
Þetta var almennt ein afslöppunarhelgi því við gerðum lítið af því sem ég hef gert í fyrri ferðum. Vanalega höfum við synt í sjónum og farið í sólbað niðri á bryggju, og stundum hef ég farið í fjallgöngu, siglt á litlum seglbát eða stokkið af klettunum niður í sjóinn. En að þessu sinni var veðrið ekkert sérlega spennandi. Það var ekki kalt eða leiðinlegt en aðeins of kalt til þess að svamla í sjónum eða liggja fáklæddur á bryggjunni. Ég fór heldur ekki í gönguferð í skóginum, ekki einu sinni að uppáhaldsstaðnum mínum á eynni, vegna þess að nýlega sást fjallaljón á eynni og ég vil alls ekki vera ein á ferð í skóginum ef fjallaljón er einhvers staðar á ferð. Ég er hræddari við fjallaljón en nokkuð annað og hjartað slær hraðar bara við tilhugsunina.
En maður þarf ekki alltaf að vera að gera eitthvað. Við borðuðum góðan mat (Doug grillaði báða daga). Töluðum ótrúlega mikið (Doug og Rosemary urðu svolítið drukkin og kýttu svolítið allan tímann. Það var hrikalega fyndið af því það var allt í góðu). Skruppum í heimsókn til fjölskyldu Dougs (mamma hans, bróðir, systir og mágur voru í kofa þarna nálægt). Þegar Doug fór með ættmenni sín heim (þau eiga bátinn saman þannig að það þarf alltaf að vera að skutla fólki fram og til baka - tekur um 30 mínútur hvora leið) lagði Rosemary sig. Ég ætlaði að lesa málfræði en var með höfuðverk af hreina loftinu (já, það gerir mann stundum þreyttan) svo ég skreið í kojs (í orðsins fyllstu merkingu - barnaherbergið hefur kojur) og steinsvaf. Veitti greinilega ekkert af því.
Bústaðurinn er mjög skemmtilegur og maður getur ekki treyst á öll nútíma þægindi eins og maður er orðinn vanur. Reyndar er rafmagn í bústaðnum en það gengur fyrir sólarorku þannig að maður þarf að spara það það sama má segja um vatnið. Engar vatnsleiðslur liggja í eyjuna þannig að það er fyrst og fremst regnvatn sem er notað. Því er sturtað niður í klósettinu eins lítið og hægt er og í staðinn er útikomar notaður yfir daginn. Þegar mamma og pabbi komu með í heimsókn á Gambier fyrir þremur árum sáum við Rosemary og pabbi slöngu einn daginn. Við ákváðum að segja mömmu ekki frá því fyrr en við værum komin heim, þá loksins fékk hún að vita af því því að það væru slöngur á Gambier. Hún þakkaði sínum sæla að hafa ekki vitað af þessu fyrr því hún sagðist aldrei hefðu þorað á kamarinn ef hún hefði vitað af slöngunum. Við vissum greinilega hvað við vorum að gera.
Hápunkturinn var þegar Rosemary dró fram Nizza með rúsínum sem hún hafði keypt á Íslandi. Og af því að það er uppáhaldið mitt fékk ég að borða það alveg ein. Jamm jamm.
Þegar við vorum í heimsókn hjá mömmu og systkinum Dougs kom dádýr niður að bústaðnum. Bruce og Michael höfðu verið að hreinsa tré og söguðu nokkrar greinar af því. Þeir hentu því svo á jörðina og dádýrið kom að borða. Því virtist alveg sama þótt ég væri að taka myndir af því og ég gat farið alveg ótrúlega nálægt. Líklega er það vegna þess að enginn virðist trufla það á eynni, svo það hræðist ekki fólk. Reyndar höfðu engin dádýr sést á svæðinu allt sumarið sem er að öllum líkindum vegna þess að ofar á eynni hafa vegaframkvæmdir verið á fullu, og þar að auki hafa nokkrir hundar verið á svæðinu. Dádýrin koma helst ekki nálægt hundunum. En alla vega, það var gaman að fylgjast með því.
Á sunnudagskvöldið var tunglið fullt og skýin sem höfðu hulið sólina allan daginn voru horfin. Það var alveg dásamlegt að sitja úti á palli um kvöldið og horfa á fullt tunglið og skipin sigla fram hjá.
Veðrið var ekki mjög gott á sunnudeginum eins og ég minntist á en á mánudeginum hlýnaði töluvert og sólin fór að skína. Nágrannar komu yfir í kaffi og við sátum úti á palli í sólinni, en tiltölulega köldum vindi. Ég endaði á að fara í flíspeysu. Það breytti því hins vegar ekki að sólin var sterk og af því mér var svolítið kalt hugsaði ég ekki út í það að ég þyrfti sólarvörn. Brann því svolítið í andlitinu þannig að nú er ég svolítið köflótt í framan (brann á nefi, enni og kinnum en er ljósari annars staðar) með sár á nefinu. Hrikalega flott.
Þið getið séð fleiri myndir úr ferðinni hér: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hitti eina af uppáhaldsleikkonunum mínum
31.7.2007 | 06:12
Ég hef stundum sagt frá því ef ég hef séð þekkta leikara á ferð í bænum. Það geri ég ekki til að monta mig heldur er það einfaldlega hluti af því sem ég hef gaman af að tala um. Mér finnst gaman að horfa á bíómyndir og góða sjónvarpsþætti og því er alltaf svolítið spennandi þegar maður sér leikara úr uppáhaldssjónvarpsþætti manns, eða úr bíómynd sem maður er hrifinn af. Áður hef ég séð nokkra þekkta kanadíska leikara en einnig fólk eins og Jeremy Piven úr Entourage og David Eigenberger úr Sex and the City.
Á luagardaginn var ég stödd í Horseshoe Bay sem er ferjustaður rétt norðan við Vestur Vancouver. Þarna fara ferjurnar til Nanaimo og Sunshine Coast og vegna þess að svo margir fara þarna í gegn hefur myndast lítið og skemmtilegt þorp þarna niðri við sjóinn. Við Doug (maðurinn hennar Rosemary vinkonu minnar) fórum með tvær hjólbörur fullar af varningi niður á bryggjuna þar sem Bruce, mágur hans, myndi sækja okkur. Við settum dótið okkar niður og fórum með hjólbörurnar til baka. Mér seinkaði aðeins á leiðinni því ég var að reyna að mynda hegra sem hafði flogið undir einn bryggjustólpann, en því miður var of dimmt þar til þess að ég næði almennilegri mynd. Ég keyrði hjólbörurnar upp brattasta hluta bryggjunnar og var næstum því komin að hliðinu sem skilur að fastabryggjuna og flotbryggjuna þegar maður nokkur ávarpaði mig. Hann hafði verið að horfa á lítinn blómagarð sem svo undarlega vill til að er á litlum flotpalli fyrir framan það sem virðist vera fljótandi húsprammi. Þetta sést vel á meðfylgjandi mynd. Hann spurði mig hvort ég vissi hver ætti heima þarna. Ég vissi það auðvitað ekki svo ég afsakaði mig og hélt áfram þangað sem hjólbörurnar eru geymdar. Með manninum var kona sem var kunnugleg en ég var samt ekki alveg viss um að hún væri sú sem ég hélt hún gæti verið. En þegar ég kom að Doug þar sem hann var að læsa sínum hjólbörum við grindverkið spurði ég hann hvort hann vissi hver byggi þarna. Það virtist einhvern veginn rökrétt að spyrja að því fyrst ég hafði ekki vitað svarið. Doug vissi þetta auðvitað enda búinn að vera með bát þarna síðan hann var smákrakki (eða foreldrar hans). Við löbbuðum til baka að flotbryggjunni og þegar þangað var komið var fólkið þarna ennþá. Svo ég sneri að manninum, benti á Doug og sagði: Hann veit hver býr þarna. Doug fór síðan að segja þeim frá viðkomandi manni og við fjögur enduðum á því að spjalla um þennan mann, um það hversu fallegur garðurinn var og hversu sniðugt það væri að búa svona. Um leið og konan opnaði munninn vissi ég að ágiskun mín hafði verið rétt. Þetta var Janet Wright, fræg kanadísk leikkona sem ég þekki fyrst og fremst úr uppáhaldsþáttunum mínum, Corner Gas.
Ég hef að minnsta kosti tvisvar sinnum skrifað um þá þætti enda finnst mér þeir frábærir og þess vegna fannst mér alveg magnað fá að tala við Janet. Hún leikur Emmu, mömmu Brents, og er alveg ótrúlega skemmtileg. Ég hef séð hana í nokkrum öðrum hlutverkum og hún er alltaf góð. Ég efast um að þið kannist við hana en hún hefur þó leikið í yfir fimmtíu sjónvarpsþáttum og bíómyndum, þar á meðal he Perfect Storm með George Clooney, og sjónvarpsþáttum eins og Due South, Dark Angel og Monk.
Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að segja eitthvað um það að ég væri mikill aðdáandi Corner Gas en ákvað svo að gera það ekki. Mér fannst það ástæðulaust. Ég veit ekkert um það hvort hún kærir sig um að hitta aðdáendur þegar hún er í fríi og ég var alveg nógu ánægð með að hafa fengið að spjalla við hana. En sjálfsagt hefði hún bara verið ánægð með að heyra að mér þætti hún og þættirnir hennar skemmtilegir.
Þegar við höfðum kvatt spurði ég Doug hvort hann vissi hver þetta hefði verið og hann kom af fjöllum, enda aldrei horft á Corner Gas. En það var allt í lagi. Ég var nógu ánægð fyrir okkur bæði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Helgi á Gambier
28.7.2007 | 21:27
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þetta líkar mér
28.7.2007 | 18:15
Ég bjó einu sinni við hliðina á sjómanni í blokkaríbúð og hann fór á fyllerí í hvert sinn sem hann kom í land. Það skipti engu máli hvaða dagur var. Allt var rólegt þar til hann kom heim svona um þrjú leytið og þá setti hann allt í botn í græjunum sínum svo enginn gat sofið í allri byggingunni. Nágrannarnir skiptust á um að hringja í lögguna en það breytti aldrei neinu. Löggan kom, hann ýmist reif kjaft við hana eða lofaði öllu góðu. Slökkti á græjunum - í svona fimm mínútur þar til löggan var farin (hann gat séð úr glugganum hvenær þeir keyrðu í burtu). Og þá var allt sett í botn aftur. Stundum kom löggan tvisvar að nóttu en það stoppaði hann ekki. Einu sinni setti hann lag með Spoon á "loup" og það spilaði alla nóttina. Mér hafði fundist þetta lag frábært en eftir að hafa heyrt það í heila nótt þegar ég var að reyna að sofa fékk ég ógeð á því. Það kom fyrir að fólk í húsinu fór á hótel um miðja nótt vegna þess að það varð að fá svefn. Þetta var orðið þannig að þegar maður vissi að hann var í landi gat maður ekki sofnað vegna þess að maður var farinn að kvíða svo nóttinni framundan.
Við fórum að lokum með þetta til lögfræðings og sem betur fer hefur fólk ekki algjöran rétt yfir íbúð sinni þótt það eigi hana. Sjómanninum var sagt að ef þetta breyttist ekki þá yrði hann borinn út þar sem hann væri að brjóta lög. Hann hætti að spila tónlist á næturnar. Ég flutti reyndar út ekki löngu eftir þetta svo ég veit ekki hvort það entist, en mikið var ég þó ánægð með að sjá að réttarkerfið kemur oft til hjálpar þegar á þarf að halda.
Þarna var ekki nauðsynlegt að setja manninn í fangelsi en ég vil trúa því að ef hann hefði ekki hlýtt þá hefði verið hægt að taka málið lengra.
![]() |
Hávaðasamur nágranni dæmdur í fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Menntun er máttur
28.7.2007 | 05:37
Ég vona svo sannarlega að þetta sé rétt og helst að meiri menntun skili betri vinnu og hærri launum því eftir ár verð ég að finna mér vinnu. Þannig að ef einhvern vantar góðan starfskraft og heldur að hann gæti notað doktor í málvísindum þá ætti sá sami endilega að láta mig vita.
![]() |
Öll menntun skilar sér á vinnumarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sumri hallar
28.7.2007 | 02:06
Ó nei, ég var að sjá fyrstu Back-to-school auglýsingu sumarsins. Þótt mér hafi alltaf fundist gaman að fara aftur í skólann, og að fátt hafi verið skemmtilegra í gamla daga en að fara og kaupa nýja penna, blýanta, bækur o.s.frv., þá finnst mér líka svolítið niðurdrepandi þegar þessar auglýsingar byrja af því að það segir mér að sumarið sé meira en hálfnað og áður en maður veit af er kominn september og laufin fara að falla af trjánum, svo fer að kólna, og svo...
Annars hlæ ég alltaf jafnmikið þegar ég sé auglýsinguna þar sem kona sér hlynslauf falla til jarðar og byrjar að öskra. Okkur líður öllum svolítið eins og henni þegar fer að hausta. En sem betur fer er alla vega mánuður eftir af sumri.
Og þá er bara um að gera að njóta ágústmánaðar til fullnustu. Á morgun ætla ég til Gambier eyju þar sem Rosemary vinkona mín á sumarhús og svo er ég að spá í að fara niður til Portland, Oregon í næstu viku. Þarf samt að hringja fyrst í Ellen frænku mína svo það sé öruggt að einhver verði heima. Ég hef ekki farið út úr borginni síðan í janúar þannig að það er svo kominn tími til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ritstjórnarvandræði
27.7.2007 | 22:55
Ég er búin að vera ógurlega stressuð upp á síðkastið vegna útgáfu bókarinnar sem við Martin Oberg erum að ritstýra. Það hefur ýmislegt gangið á afturfótunum, aðallega vegna þess að svo margt fólk tekur ekki tillit til annarra. T.d. þurftum við að bíða í þrjár vikur eftir breytingum frá einum höfunda. Sumum sendum við beiðni um breytingar allt að þrisvar sinnum og í hvert sinn sem við fengum greinina til baka voru sumar villur enn á sínum stað. Allt þetta tekur tíma, sem var of stuttur frá upphafi, og við komum þessu ekki til prentara fyrr en á mánudaginn. Í gærkvöldi var prufueintakið tilbúið en því miður fundum við villur með fontana sem ekki höfðu valdið vandræðum þegar við prentuðum greinarnar út á venjulegum geislaprentara. Post Script prentararnir eru betri en viðkvæmari. Í morgun var allt tilbúið sem þurfti að gera (við ákváðum að leyfa sumum villum að standa) og nú er spurningin hvort næst að prenta og binda í dag. Þeir ætla að reyna það. Ef það gefst fáum við eintökin á hendur á morgun og þá getur Martin tekið bækurnar með sér til Kelowna þar sem ráðstefnan verður. Ef, aftur á móti, þetta gengur ekki í dag þá fáum við bækurnar ekki fyrr en á mánudaginn og þá verð ég að sækja þær og fara með þær niður á umferðamiðstöð og senda til Kelowna. Þangað kæmu þær því vonandi á þriðjudaginn eða miðvikudaginn í síðasta lagi. Ef það gerist munu margir verða pirraðir en það er ekkert sem við getum gert lengur.
Ég held ég sé ákveðin í því að verða ekki ritstjóri. Ég vil ekki þurfa að treysta um of á annað fólk. Það er best að hafa vinnu þar sem allt er undir manni sjálfum komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Íþróttameiðsl eru ekki almennileg nema það blæði
27.7.2007 | 07:02
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er alltaf að ljúga að fólki
26.7.2007 | 17:13
Og ég sem er búin að vera að segja öllum að á Akureyri búi fimmtán þúsund manns. Ég greinilega missti af sextánþúsund og öllum tölum fram að sautján þúsund. Annars er það svo sem ekki skrítið. Ég sagði í mörg ár að á Íslandi byggju 270.00 manns, þar til allt í einu 300.000asti Íslendingurinn fæddist!
Og lengi margfaldaði ég kanadíska dollarinn með 50 til að fá út íslensku krónuna, af því að þannig var gengið þegar ég flutti út. Það var ekki fyrr en gengið varð fór að nálgast 60 að ég breytti til.
![]() |
Akureyringar orðnir ríflega 17.000 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Enn um moskítur - hvernig ég hef náð að bæta stöðuna
25.7.2007 | 19:37
Ég er alltaf að verða betri og betri í baráttunni við moskíturnar. Af því að ég vil ekki spreyja mig með einhverju ógeði á kvöldin, og af því að öll krem eru gagnslaus þegar kemur að því að minnka kláða eftir moskítóbit, þá er eina ráðið að drepa flugurnar áður en þær ná að bíta mig (þó er ég farin að bryðja B vítamín sem ætti að fara að virka eftir rúma viku). Ég veit ekki enn hvernig þær koma inn en það getur varla verið auðvelt fyrir þær því eingöngu tvær til þrjár ná að komast inn hverja nótt. Hér kemur taktíkin sem ég hef komið mér upp:
1. Sofa með sæng eða lak yfir mér þannig að aðeins hausinn standi undan. Það þýðir að ef moskíturnar vilja bíta mig þá verða þær að koma að höfðinu á mér. Þá heyri ég hins vegar í þeim, vakna, og veifa út öllum öngum svo þær ná ekki að nærast. (Þegar ég er úti bíta moskítur í gegnum föt, en einhverra hluta hafa þær ekki bitið í gegnum lak - og þegar ég er undir sæng þýðir það auðvitað ekki.)
2. Þegar ég vakna við suðið í helvítunum kveiki ég ljósið, gríp flugnaspaðann og ef ég sé kvikindið fylgi ég því eftir með augunum þar til það sest og þá ræðst ég á þær. Ef ég sé þær ekki loka ég augunum og reyni að sofna aftur en með ljósið kveikt, liggjandi á bakinu með flugnaspaðann í hendinni. Og svo er bara að endurtaka leikinn.
3. Stundum fer ég í leit að flugunum þar sem ég grannskoða loft og veggi í von um að sjá kvikindi. Þetta gengur ekki oft en það kemur þó fyrir. Best er að liggja kyrr og bíða eftir árás frá þeim.
í gærkvöldi náði ég að drepa þær þrjár flugur sem komist höfðu inn. Engin þeirra náði að stinga mig.
Eini gallinn er að það tekur að meðaltali um 20 mínútur að ná hverri flugu sem þýðir að þegar þrjár koma inn, eins og í gær, þá missi ég sirka klukkutíma svefn á nóttu. Og vanalega á milli 1 og 4 um nóttina.
Því miður eru moskítur næturdýr að eðlisfari og það er því þá sem þær leggja í matarleiðangur. Hins vegar nærast þær aðeins einu sinni á sólarhring og því er maður ekki stöðugt í vandræðum.
Ég las einhvers staðar á vefnum grein frá náunga sem sagðist bara leyfa þeim að bíta sig því eftir máltíðina færu þær og settust að meltu og væru því ekki lengur að hringsuða um höfuðið á manni. Hann hefur hins vegar líklega alist upp meðal moskíta og hefur því komið sér upp ágætis ofnæmisvörn. Ég fæ hins vegar heiftarleg ofnæmisviðbrögð og því myndi þetta aldrei duga fyrir mig.
En hei, hvað er smá skortur á svefni ef maður sleppur við að vera útataður í moskítóbitum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)