Ekki tiltökumál

Ég er viss um að þeir haga þessu þannig að fólk þurfi ekki að bíða of lengi. Vanalega held ég að sena sé mynduð, svo sé fólki hleypt fram hjá, svo er senan tekin upp aftur, svo er fólki hleypt fram hjá, o.s.frv. 

Ég er orðin vön því að þurfa að bíða á meðan er verið að kvikmynda því hér í Vancouver er verið að mynda fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta á hverjum degi. Fyrir fjórum árum eða svo var ég einmitt að labba eftir einni stórgötunni þegar ég gekk fram á kvikmyndatöku. Ég varð að bíða eins og aðrir á meðan atriði var myndað og svo var okkur hleypt fram hjá. Ég sá aldrei hvað var verið að taka upp en ég heyrði að bæði væri verið að kvikmynda inni í viðkomandi verslun (sem er grískt delí) og fyrir utan hana. Um daginn var ég að horfa á kvikmyndina Connie og Carla, með Toni Collette, Nia Vardalos og David Duchonvny í aðalhlutverkum. Myndin fékk fremur slæma dóma á sínum tíma svo ég hafði ekki séð hana í kvikmyndahúsum.  Hún var hins vegar í sjónvarpin nýlega og af því að ég hafði ekkert betra að gera og af því að Toni og Nia eru báðar frábærar leikkonur, þá horfði ég á myndina. Mikið brá mér þegar kom að atriði þar sem David Duchovny og Michael Spinella eru að verwla í þessari sömu grísku búð. Myndin kom út 2004 svo það passar að hún hafi verið tekin upp 2003 eða fyrra hlutann af 2004. Ég er viss um að þetta var myndin sem verið var að taka upp þennan dag. Sem þýðir að ég var örfáa metra frá David Duchovny án þess að vita það. Hefði ég bara verið fremst í biðröðinni en ekki aftast!!! Annars er ég svo sem enginn aðdáandi þótt ég hafi alltaf horft á X-files á sínum tíma.

Annars var fyndnast þegar verið var að taka upp atriði á háskólasvæðinu nokkrum mánuðum áður en ég flutti til Vancouver. Þrír vina minna voru að ganga frá strætóstöðinni að málvísindabyggingunni en komu að svæði þar sem verið var að kvikmynda. Þar var búið að afmarka svæðið með borðum og verðir stóðu við. Þá kom í ljós að sumu fólki var hleypt í gegn ef það vildi og þá yrði það hluti af kvikmyndinni, en öðru fólki var sagt að fara í kringum svæðið. Jeff, Clare og Diana voru öll send í kring og var ekki boðið að labba í gegn. Þau voru sannfærð um að þau þættu of ljót eða of asnalega klædd til að fá að vera með í kvikmyndinni og voru hundfúl. Sérstaklega þegar þau sáu fallegt fólk í tískufötum fá að fara í gegn! Margir verða voðalega pirraðir þegar þeir þurfa að bíða eða að taka á sig krók vegna kvikmyndatöku, en mér finnst nú svo gaman af bíómyndum að mér finnst allt í lagi að bíða af og til vegna þessa.


mbl.is Tafir gætu orðið vegna kvikmyndatöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnaleikir

Stærðfræðingar virðast skemmta sér mikið við það að setja saman litla reikningsleiki sem fá mann til að taka andköf. Fyrst þegar ég fór að fá slík dæmi send á netinu var ég alveg gapandi hissa á sumum þeirra en þegar ég hugsa betur um það er auðvitað ljóst að þetta er bara spurning um að setja dæmið rétt upp. Mér leiðast hins vegar tölur þannig að ég hef ekki einu sinni reynt að kafa ofan í þessi dæmi en ég er viss um að það reynist mörgum auðvelt. 

Þetta fékk ég sent í dag og ég tek fram að reikningsandinn mikli hafði rétt fyrir sér með báðar tölur.

 

ALDUR ÞINN MEÐ VEITINGAHÚSAAÐFERÐINNI

Ekki segja mér aldur þinn; þú myndir hvort eð er ekki segja satt – En þjónninn á veitingahúsinu gæti vitað það!

1.  Byrjaðu á því að velja þér tölu, þ.e. hversu oft í viku þú viljir fara út að borða.  Talan verður að vera hærri en 1 og lægri en 10.

2.  Margfaldaðu þessa tölu með 2 (svona bara til að gera þetta áhugavert)

3.  Bættu við 5

4.  Margfaldaðu útkomuna með 50.

5.  Ef þú hefur þegar átt afmæli á árinu, bættu við 1757 ....
Ef ekki, bættu við 1756.

6.  Dragðu nú fæðingarárið þitt frá, fjögurra stafa tala.

Nú ætti þú að eiga eftir þriggja stafa tölu.

Fyrsta talan er upprunalega talan þín, þ.e. hversu oft í viku þú vilt fara út að borða.
Næstu tvær tölurnar eru

ALDUR ÞINN ! -------- (Ó, JÁ !!!!)

ÞETTA VIRKAR AÐEINS Á ÞESSU ÁRI (2007) ÞANNIG AÐ DREIFÐU ÞESSU MEÐAN HÆGT ER
 


Ha????

í Asíubikarnum? Liverpool? Eitthvað er nú landafræðin farin að skolast til hjá mér en ég er viss um að þegar ég heimsótti Liverpool hér um árið var ég á Englandi!!!

mbl.is Sigur hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsafnað rusl og hundaskítur

Bæjarstarfsmenn eru komnir í verkfall og bráðum fer rusl að hlaðast upp hjá manni. Ruslakarlarnir áttu að koma á morgun svo ég er nú þegar komin með vikugamalt rusl. Vanalega fer ég ekki út með ruslið fyrr en kvöldið áður en þeir koma að sækja það því greifingjum finnst gott að borða úr ruslatunnunum og þá velta þeir þeim vanalega á hliðina og rífa svo í sundur pokana þannig að rusl liggur út um allt. Af því að það eru þrjár íbúðir í húsinu og aðeins ein tunna þá er tunnan vanalega full á hverjum rusladegi. Fólk hefur verið hvatt til þess að loka pokunum vel og geyma inni hjá sér þar til verkfall leysist en við sem búum í litum íbúðum höfum nú ekki beinlínis pláss til að hlaða upp rusli. Síðast þegar bæjarstarfsmenn fóru í verkfall stóð það í þrjá mánuði! Þannig að nú þarf ég að leggjast á bæn og biðja um að verkfallið leysist sem fyrst.

Þess má líka geta að þeir sem eiga bíl geta keyrt ruslið á ákveðna hauga, en við hin sem engan slíkan grip eigum erum bara illa sett. Annars gæti ég kannski farið með ruslið í strætó. Ég myndi ekkert lykta verr en margir þeir heimilislausu sem stundum nota vagnana. 

Ég hugsa stundum um það sældarlíf sem hundar og kettir á góðum heimilum eiga. Liggja og sofa, borða mat, skreppa út og leika sér, láta klappa sér... En stundum er ég ákaflega fegin að ég er ekki hundur. Í dag þegar ég var að fara út í þvottahús (sem er í kjallaranum en ég þarf að ganga inn í það bakvið hús) var hundur að skíta á grasinu við gangstéttina. Eigendur hans voru sem betur fer löghlýðið fólk og konan tók upp skítinn og setti í poka. Þegar ég var að koma til baka úr þvottahúsinu var annar hundur á sama stað og þessi var að þefa af grasinu þar sem hinn hafði skitið. Það var þá sem ég var ánægð með að vera ekki hundur. 


Hvort þeirra vinnur?

Ég fæ ekki að kjósa í amerísku kosningunum, fremur en aðrir Íslendingar, en það stoppar mann ekki frá því að kynna sér málin og mynda sér skoðun. Að þessu sinni er það hins vegar óvenju erfitt. Hillary hefur sýnt það að hún er mikill kvenskörungur og hefur hjartað á réttum stað, og ef hún tæki við forsætaembættinu er næsta öruggt að meiri peningum yrði veitt til heilsugæslu og menntunarmála. Hins vegar hef ég mjög hrifist af Barak þegar ég hef séð viðtöl við hann og mér finnst hann mjög traustvekjandi. Og hann hefur einnig sýnt stuðning við þessi "mýkri" mál. Hann hefur mun minni reynslu í pólitík en Hillary en hefur samt sem áður staðið sig geysivel það sem af er þingsetu hans. Í raun held ég að bæði gætu orðið geysilega góðir forsetar. Og ef demókratar vinna með annað þeirra í fararbroddi (og vonandi hitt sem dyggan aðstoðarmann) þá mun landið loksins fá fyrstu konuna eða fyrsta blökkumanninn í forsetastólinn.

Í rauninni óttast ég ekki mikið hvað demókratar munu gera því ég held það sé orðið ljóst að annað hvort Hillary eða Obama verður næsti forsetaframbjóðandi þeirra. Spurningin er hvað sveiflukjósendurnir munu gera - þeir sem eru hvorki dyggir stuðningsmenn repúblikana né demókrata heldur sveiflast á milli þeirra. Er það fólk tilbúið til að kjósa blökkumann? Er það fólk tilbúið til að kjósa konu?

Ég held að margir suðurríkjamennirnir muni fyrr kjósa konu sem forseta en blökkumann, og að því leyti ættu demókratar að senda Hillary í slaginn. Hitt er annað mál að mér finnst almennt að það eigi að velja fólk eftir hæfileikum en ekki eftir kyni eða húðlit. Þannig að ég á svolítið erfitt með að hugsa þetta þannig.

Ég held við verðum að treysta því að þeir sem eru búnir að fá nóg af Bush (sem eru ansi margir) muni sveiflast yfir til demókrata. Alla vega má leggjast á bæn og biðja um það.

Eiginlega ætti öll veröldin að fá að kjósa í bandarísku forsetakosningunum því það skiptir okkur öll máli hver situr við völdin þar. Þetta er án efa valdamesta ríki heims og utanríkisákvarðanir þeirra snerta okkur öll. Það er því ekki furða þótt maður fylgist spenntur með og voni það besta. 


mbl.is Fyrstu netkappræður forsetaframbjóðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af fallegustu stöðum landsins

Það er eitthvað ákaflega töfrandi við Jökulsárlón. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst ég sjaldan hafa séð neitt jafn fallegt.

Reyndar var ég óvenju viðkvæm í þetta eina skipti sem ég hef komið þangað. Ég var að keyra hringveginn og á söndunum keyrði ég fram á dauðaslys. Frakkar á ferð um landið höfðu sveigt jeppanum til hliðar til að forðast að keyra á kind, með þeim afleiðingum að jeppinn valt og eiginkonan lést. Þegar ég kom þarna að var jeppinn á hvolfi og eigur þeirra hjóna lá tvístraðar á sandinum. Mikil röð hafði myndast og eftir um hálftíma bið tóku einhverjir að sér að beina umferðinni út af veginum og framhjá slysstaðnum. sandurinn var nógu þéttur þarna til þess að fólk á venjulegum bílum gæti keyrt það án þess að festa sig. Þegar ég sá jeppann og dótið út um allt, vitandi það að kona var dáin, gat ég ekki annað en farið að gráta. Ég grét alla leiðina að Jökulsárlóni og þá grét ég yfir fegurð lónsins. Ég þarf að koma þarna aftur á gleðilegri stund og helst á sólardegi.


mbl.is Aðsókn að Jökulsárlóni alltaf að aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búin með Potter

Ég las inn í nóttina og laust fyrir klukkan þrjú náði ég að klára sjöundu bókina í Harry Potter seríunni. Fjögur hundruð blaðsíður voru lagðar af velli í dag, sem var tvöfalt meira en ég las í gær. Það er langt síðan ég hef lesið eins margar blaðsíður á eins stuttum tíma.

Núna veit ég öll leyndarmálin! 


Þoli ekki þetta orðalag

Einn ósiður íslenskra fréttamanna er að vísa til þess að hitt og þetta vestanhafs hafi gerst "í nótt". Þegar ég var yngri var ég vön að velta því fyrir mér hvers vegna svona margt færi fram á næturnar í Bandaríkjunum. Það er auðvitað rétt að ýmsir atburðir, knattleikir, verðlaunaafhendingar ofl., fara fram um miðja nótt að íslenskum tíma en þeir eru að kvöldi til þar sem þeir fara fram. Af hverju var ekki sagt í þessari frétt að "Chelsea sigraði bandaríska liðið Los Angeles Galaxy, 1:0, í æfingaleik sem háður var á Depot Center, heimavelli LA Galaxy í gærkvöldi"? Þar sem leikurinn fór fram var ekki komin nótt. Arrgh, þetta fer hrikalega í taugarnar á mér.
mbl.is Chelsea marði LA Galaxy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur eiginlega gerst á Akureyri?

Eitt sinn áttu Akureyringar tvö stórkostleg fótboltalið. Þórsarar hafa reyndar aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn, né bikarkeppni, en á mínum unglingsárum voru þeir býsna góðir og voru oft að hanga þetta í kringum þriðja til fimmta sæti meistaradeildar (sem þá hét nú bara fyrsta deild). KA-menn unnu báða titlana (alla vega Íslandsmeistaratitilinn) og voru stórkostlegir í kringum 1990, þótt ég sem Þórsari hafi aldrei beinlínis haldið  með þeim. En svo fór að láta undan síga. Þórsarar duttu niður um deild og hafa síðan barist í bökkunum. KA menn héldu áfram að vera þokkalegir lengst af en svo fór að halla undir fæti hjá þeim líka. Nú eiga Akureyringar tvö meðalgóð fyrstu-deildarlið. Hvernig stendur á þessu? Er það af því að bærinn hefur tvö lið en ekki bara eitt? Ætti að sameina liðin? Það gekk hjá Vestmannaeyjum. Hins vegar gekk það ekki svo vel í handboltanum í vetur á Akureyri. Kannski þarf aðlögunartíma. Ég á engin svör enda starfa ég ekki með þessum liðum og veit voða lítið um það hvar vandinn liggur. En ég vildi gjarnan sjá Akureyri rísa upp sem stórveldi í knattspyrnu. Og ef það þarf að sameina liðin til þess að ná þeim árangri þá verða menn bara að grafa hinar gömlu axir og ná sættum.


mbl.is Stórsigur Víkinga á KA-mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðhræddur hundur

podborka_107_175Ein vinkona mín sendir mér alltaf ógrynnin öll af bröndurum, hugleiðingum o.s.frv. í tölvupósti og helmingurinn af þessu (að minnsta kosti) er væminn og leiðinlegur. Svo ég tali nú ekki um öll keðjubréfin sem ég hendi alltaf strax. En inn á milli koma skemmtilegar myndir og góðir brandarar. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá þessa mynd. Hún er alveg dásamleg. Hundurinn nær tilfinningunni alveg.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband