Harry Potter
12.7.2007 | 06:39
Í kvöld fór ég að sjá Harry Potter. Ég myndi segja að þessi mynd sé betri en sú síðasta en lélegri en fyrstu þrjár myndirnar. Það er hreinlega úr of miklu að moða og handritahöfundum tókst ekki að búa til eina heild úr myndinni. Reyndar sagði Ryan, maður Marion, að honum hafi fundist myndin býsna góð og heildstæð, og af því að hann var sá eini í hópnum sem ekki var búinn að lesa bókina þá verður maður að taka mark á honum. En það var einhvern veginn ekkert nýtt og spennandi þarna. Það er eins og maður sé búinn að sjá þetta allt. Verð reyndar að segja að það var mikið hlegið í bíó. Eitt af því fyndnasta var þegar mátti heyra blýant detta.
Hitt er annað mál að það er sjaldgæft að maður sjái eins marga frábæra leikara á sama stað. Lítið á þennan lista: Ralph Fiennes, Gary Oldman, Alan Rickman, Emma Thompson, Imelda Staunton, Michael Gambon, David Thewlis, Maggie Smith, Julie Walters, Jason Isaacs, Helena Bonham Carter og Robbie Coltrane. Þetta er eins og who's who in British cinema. Ég verð nú líka að segja að mynd sem hefur Ralph Fiennes, Gary Oldman, Alan Rickman og James Isaacs þarf ekki að vera neitt sérstaklega góð. Maður horfir bara á þá.
Mér finnst reyndar að í næstu mynd verði þeir að láta nef á Ralph Fiennes. Hann er svo fallegur með nef.
P.S. Hér var 29 stiga hiti í dag og nú er hitinn í íbúðinni minni yfir 30 gráður. Við getum gert ráð fyrir því að ég sofi ekki með sæng í nótt.
Heyrðu nú
11.7.2007 | 15:50
Mér var nú hálf misboðið að lesa síðustu línuna:
"Verðlaunaféð geti líka leitt til meira jafnvægis á vinnumarkaði og konur sem eignist börn undir þrítugu sleppi við vandamálin sem skapast þegar þær sem eru yfir þrítugu og komnar langt á sínum starfsferli, eignast börn og kosti samfélagið þá mun meira."
Ef ég eignast sem sagt barn þá mun það verða vandamál sem kostar samfélagið mikið. Djöfulsins dónaskapur er þetta. Alltaf er sama dýrkunin á þessum ungu.
Ég sé líka eitt stórt vandamál hérna. Þetta verður fín leið fyrir unga eiturlyfjaneitendur og áfengissjúklinga til þess að kosta fíkn sína; bara að verða ófrísk, fá pening fyrir, henda barninu í mömmu. Bíddu, það þarf ekki einu sinni slíka fíkn til. Ég held að mörg börn eigi eftir að fæðast inn í þennan heim sem enginn greiði er gerður með því.
Börn eiga að fæðast af því að foreldrar þeirra vilja þau og elska þau og munu hugsa um þau. Ef staðan er sú að sumar ungar konur láta eyða fóstri af því að þær hafi ekki efni á að eiga börnin, útvegið þá aukna hjálp við mæðurnar; ókeypis dagvistun og annað slíkt. Ekki beinharða peninga. Ég held ég verði að fara og ræða við þessa Norðmenn.
![]() |
Ungar konur í Noregi verði verðlaunaðar fyrir að eignast barn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Með því be
11.7.2007 | 15:38
Það er fátt eins gott og glænýjar kartöflur. Það er meira að segja hægt að borða þær sem aðalrétt, þær eru svo góðar. Ég hef oft soðið nýjar kartöflur, sett svolítið smjör út á og svo salt og pipar og borðað það sem kvöldmat. Hver þarf kjöt eða fisk þegar kartöflurnar eru ferskar upp úr jörðinni? Maður þarf ekki einu sinni að flysja þær.
Ég prófaði einu sinni að borða kartöflu hráa. Reif upp kartöflugras í garðinum heima, þreif af mestu moldina og át kartöfluna. Hún var ekki slæm en þó betri soðin. Mér fannst þetta samt mjög skrítið því yfirleitt er allt grænmeti mun betra hrátt en soðið. Kartöflur falla ekki í þann flokk.
Frændi minn var með stórt kúabú á Einarsstöðum í Eyjafirði og þar var hann líka alltaf með kartöflugarða. Fyrir utan eigin kartöflurækt leigði hann (eða lánaði - ég hef aldrei vitað hvort fólk borgaði honum) vinum og ættingjum sérstaka reiti þar sem viðkomandi gat séð um sínar kartöflur. Mamma og pabbi eru með slíkan reit og tvisvar á ári, eins lengi og ég man eftir mér, hefur því allt liðið verið sent í kartöflur. Fyrst að setja niður á vorin og svo að taka upp á haustin. Ég var því pínulítið kríli þegar ég var farin að fara í kartöflur. Og maður var ótrúlega nýtilegur ef maður bara nennti að hjálpa til. Á tímabili þegar ég var of mikill óviti til að finna allar kartöflurnar undir grösunum var ég sett í það að ganga á undan einhverjum öðrum og rífa upp grösin. En fljótlega var maður farinn að gera það sama og hinir eldri, rífa upp grös, finna allar kartöflurnar, henda móðurinni (illa farið með mæður þar). Ég var samt yfirleitt seinvirkari en aðrir og pirraði það mig ógurlega. Alltaf sama keppnismanneskjan. Eitthvert haustið þegar ég var um 12 ára samdi ég við pabba um að hann tæki mig í kartöfluvinnu. Vanalega fékk ég aldrei neitt borgað fyrir að hjálpa til, og ekki heldur neinn vasapening, í staðinn sáu foreldrar mínir um að kaupa það sem ég þurfti og svo fékk ég pening svona þegar ég þurfti á því að halda. Ef mig langaði í bíó, t.d. Annars gerði ég aldrei neitt sem krafðist peninga (keypti t.d. aldrei nammi) þannig að peningar voru eitthvað sem skipti mig engu máli. Og því var það þannig að við krakkarnir hjálpuðum til af því að til þess var ætlast, og af því að það var hluti af því að vera í þessari fjölskyldu. Maður þurfti ekki alltaf að fá eitthvað fyrir sinn snúð. En þetta sumar samdi ég sem sagt um einhver laun og svo keyrði mamma mig út í garð og ég dundaði þar við upptöku. Hafði bara með mér kassettutæki, nóg af mat og svo þegar ég var orðin þreytt labbaði ég niður á Einarsstaði, hringdi heim og bað um að láta sækja mig. Þetta gerði ég í nokkra daga. Það voru fínir dagar.
![]() |
Kartöflurnar í aðalhlutverki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góð strandferð
10.7.2007 | 23:50
Ég er komin heim af ströndinni. Lét tæpa fjóra tíma vera nóg, sem var líklega gáfulegt því sólaráburðurinn sprautaðist eitthvað ójafnt á mig þannig að ég er með rauða bletti svona hér og þar, þar sem ekki nógur áburður lenti á skinninu. Og ég sem á að passa mig á að brenna ekkisegir læknirinn. Eftir að bróðir minn fékk sortuæxli fékk ég hörð tilmæli frá heimilislækninum að passa mig. Reyndar las ég í morgun að þótt búið væri að sýna fram á tengsl sólarbruna við flestar tegundir húðkrabbameins þá væri ekki búið að sýna fram á óyggjandi tengsl sólbruna og sortuæxlis. Sterkari tengsl hafa verið sýnd á milli sortuæxlis og fæðingarbletta.
Aðalástæðurnar fyrir því að ég var ekki lengur á ströndinni voru hins vegar aðrar. Annars vegar var býsna hvasst og maður fékk sandgusurnar yfir sig, og þetta virtist vera að versna. Hins vegar var fólki farið að fjölga og friðurinn úti. Þegar ég kom niður á strönd um hádegi var ekkert mál að finna góðan stað þar sem maður var einn með eina þrjátíu fermetra, alveg útaf fyrir sig. Þótt maður heyrði í fólki tala saman og börnum að leika sér þá voru þessar raddir veikar og bara hluti af náttúrunni. Þetta hentaði mér mjög vel af því að ég var í raun að vinna. Ég var að lesa yfir greinar sem þurfa að fara í prentun helst í lok vikunnar. Þegar ég var komin með fimm unglingsstráka við hliðina á mér var erfiðara að einbeita sér. Og nei, ekki af því að þeir hafi verið svo miklir kroppar. Þeir hafa varla verið nema sextán sautján ára sem þýðir að þeir eru bara börn og ekki einni sinni nógu gamlir til þess að maður hafi gaman af að kíkja á vöðvana. Það eru nú takmörk fyrir því hvað kallast karlmaður. Það var einfaldlega erfitt að einbeita sér vegna þess að þeir töluðu með einhverjum undarlegum framburði sem ég átti erfitt með að átta mig á. Og af því að ég er málfræðingur gat ég ekki annað en hlustað á þá og reynt að greina sérhljóðin. Helst minnti framburðurinn mig á Ástrala en það var líka einhver breskur hreimur þarna. Held þeir hafi ekki verið Nýsjálendingar. Alla vega, mér gekk ekkert með síðustu greinina eftir að þeir settust beinlínis tveimur metrum frá mér, svo ég ákvað að fara heim. Ég þarf hvort eð er að fara bráðum og hitta eina stelpuna úr fótboltaliðinu mínu og borga henni þátttökugjald fyrir mót sem við ætlum að taka þátt í. Það er strandfótbolti þar sem leikið er berfættur í sandinum. Ætti að vera skemmtilegt.
Set inn mynd sem ég tók niðri á Lacarno á sunnudaginn. Í dag var ég um tvöhundruð metrum vestar á mörkum Lacarno og Spanish Banks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Strandferð
10.7.2007 | 17:19
Ég ætla á ströndina í dag. Er að reyna að skipuleggja pokaskjátuna til að taka með. Er nú þegar búin að setja eftirfarandi í:
-teppi til að liggja á
-handklæði
-sólarvörn
-flipflops
-þrjár greinar sem ég þarf að lesa fyrir málfræðitímaritið sem ég er að ritstýra
-bók (þegar ég þarf pásu frá greinunum)
-vatn
-flugnasprey
-power bar
-peninga (ef ég skyldi þurfa eitthvað aðeins meira í gogginn)
Annað sem er nauðsynlegt eru sundföt og sólgleraugu.
Hitinn á að fara upp í 27 gráður hér niðri við sjóinn en inni í landi vel yfir þrjátíu stig. Varað er við miklum hitum á morgun og fimmtudag en það er fyrst og fremst upp í Okanagan dalnum þar sem er sannarleg eyðimörk. Hér er hitinn bara þægilegur sérstaklega ef maður getur sinnt sinni vinnu niðri við sjávarmálið.
Mikið er notalegt að búa þar sem hægt er að labba niður á strönd á tíu mínútum. Þá þarf maður ekki til Spánar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ætlar einhver út í þorp?
10.7.2007 | 07:28
Þegar ég las pistilinn hennar Berglindar um strætó sem ekki kom datt mér í hug svolítið skemmtileg saga frá Akureyri. Þegar Michael Jón Clark tónlistarmaður á Akureyri flutti fyrst til landsins leigði hann herbergi hjá afa og ömmu í Þverholtinu (í Glerárþorpi). Átti hann ekki bíl og tók því strætó töluvert. Hins vegar kom það iðulega fyrir að vagninn kom ekki á tilsettum tíma. Og ekki það að hann væri bara seinn á ferð, heldur kom hann bara alls ekki. Mike varð ýmist að bíða eftir næsta strætó eða labba þangað sem hann ætlaði. Hann vissi aldrei hverju þetta sætti en ræddi þetta einhvern tímann við móður mína, sem mörgum mörgum árum seinna sagði mér frá þessu.
Mörgum árum eftir það var ég að spjalla við þáverandi kennara minn í háskólanum, Guðvarð Má, en hann gekk í menntaskólann á Akureyri, og var einmitt þar um það leyti sem Mike beið eftir strætó úti í þorpi. Ég man ekki hvernig talið barst að strætisvögnum Akureyrar en ég sagði Varða frá því hvernig Mike greyið hafði trekk í trekk þurft að bíða eftir strætó sem aldrei kom. Varði sagði hins vegar að þetta kæmi honum nú ekki á óvart. Hann sagðist iðulega hafa upplifað það að sitja í strætó á Glerárgötunni þegar bílstjórinn kallaði: "Er einhver á leið norður í þorp?" Ef enginn var á leið í þorpið þá sleppti vagnstjórinn því bara að fara þangað. Það skipti sem sagt ekki miklu máli þótt þar biði fólk sem treysti á vagninn.
Þannig var það því að um tuttugu árum eftir að Mike upplifði leyndardóma horfnu strætisvagnanna fékk ég skýringuna á því hvernig á þessu stóð.
Ég notaði aldrei mikið strætisvagn á Akureyri. Fyrstu sextán árin gekk ég allt og það var ekki fyrr en ég fór í menntaskóla að ég þurfti á strætó að halda. Þá var staðan reyndar orðin þannig að strætó var kominn með aðalstöðvar sínar út í Glerárþorp, hið svokallaða 'nýja hverfi' og skólaferðin á morgnana byrjaði því hófst á því að keyrt var niður í gamla þorp (holtin) og hyltingarnir sóttir. Síðan lá leiðin aftur út í nýja hverfi, þaðan yfir á brekku og svo loks niður að MA. Ef veður var vont og færð slæm þá þótti það hins vegar ekki taka sig að skutlast niður í gamla þorp eftir okkur krökkunum þar, enda aldrei mörg, svo það kom þó nokkrum sinnum fyrir að við lentum í því sama og Mike hér um árið. Við biðum og biðum og loks varð einhver að hlaupa heim og sækja heimavinnandi foreldri sem gæti hrúgað krökkunum inn í bíl og keyrt okkur í skólann. Í þessi skipti komum við alltaf of seint í skólann og fengum enga samúð frá kennurum þótt við værum svoddan annars flokks nemendur að strætó nennti ekki að sækja okkur.
Ég vona að strætókerfið á Akureyri sé orðið betra og að ekki lengur sé komið ekki eins illa fram við holtakrakkana og þá var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
900 stöðvar á sjónvarpinu
10.7.2007 | 05:47
Núna í vor skipti ég úr kapli yfir í stafrænt sjónvarp og fyrstu þrjá mánuðina hef ég aðgang að öllum sjónvarpsrásum fyrirtækisins. Það eru sirka 300 sjónvarpsrásir og annað eins af útvarpi. Stundum er ekki horfandi á neitt á þessum 300 rásum. Þegar þessir þrír mánuðir eru úti get ég sett saman pakka sem hentar mér. Þá mun ég greiða fyrir grunnrásirnar 30, eða hvað þær eru nú margar og svo get ég annað hvort bætt við mismunandi pökkum (bíórásir eru einn pakki, lífsstíll er annar, afþreying sá þriðji, menning og menntun er einn pakki, o.s.frv.) eða greitt fyrir einstaka auka rás (en takmarkaðra val þar). Þetta er ólíkt betra en kapallinn var. Ég borgaði bara fyrir grunnkapal því ef maður vildi bæta við þá varð maður fyrst að kaupa aukapakka 1, svo aukapakka 2 og að lokum aukapakka 3. Ef maður vildi einhverja rás sem var í aukapakka 3 þá varð maður að kaupa alla hina. Og alltaf var það svo að mest spennandi rásirnar voru ofarlega og kannski bara tvær þrjár í hinum pökkunum sem maður vildi. Ég saknaði þess mikið eftir að ég flutti hingað á sjöundu og þurfti að fara að borga fyrir sjónvarpið (á 12. götu fékk ég aðgang að sjónvarpi þeirra fyrir ofan og þar af leiðandi allan pakkann ókeypis) að hafa ekki lengur Bravo þar sem hægt var að horfa á Law & Order alla daga og ýmislegt annað gott.
Ég er farin að hugsa um það hvort ég ætla mér að láta grunninn nægja þegar þessu þriggja mánaða tilboði lýkur eða hvort ég vil bæta einhverju við. Hver aukapakki kostar 6 dollara á mánuði (um 360 krónur) og hver aukastöð kostar 2. Ég hugsa að ég bæti við 'popular choices' þar sem ég fengi A&E, Bravo, Showcase, TLC, CourtTV og women's network. En það væri líka gagnlegt að hafa pakkann sem kallast 'time choice'. Þá sér maður sömu rásir og eru í grunnpakkanum en ég sé þessar rásir frá mismunandi tímabeltum. Oft á veturna, t.d. finnst mér of seint að fara að horfa á sjónvarp klukkan tíu. En í staðinn gæti ég bara horft á sjónvarpið frá Halifax og séð þáttinn klukkan sex í staðinn. Þetta getur líka verið gagnlegt á bestu sjónvarpskvöldunum, eins og t.d. þriðjudögum, þegar allar sjónvarpsstöðvarnar keppast við að setja vinsælustu þættina klukkan níu (í vetur voru þrír þættir klukkan níu á þriðjudegi sem ég vildi horfa á). Með mismunandi tímabeltum gæti ég hreinlega horft á þættina á mismuandi tímum (það er ekki hægt að taka upp eina rás og horfa á aðra á þessum stafrænu stöðvum). Gallinn er að þetta eykur sjónvapsáhorf óþarflega mikið.
Svo væri gaman að bæta við Fox Sports og BBC Canada, en ég sé til með það. Ég hef ekki horft eins mikið á þessar stöðvar undanfarið eins og ég hefði búist við. Ég hef orðið fyrir pínulitlum vonbrigðum með BBC og ég horfi líklega minna á Fox Sport af því það er sumar og sumaríþróttirnar eru ekki eins spennandi og vetraríþróttirnar. Mér finnst reyndar gaman að fara á hafnarboltaleiki en það er ekki skemmtilegt að horfa á þá í sjónvarpi. Þær íþróttir sem ég horfi mest á í sjónvarpi eru líklega enski fótboltinn og hokkí og hvort tveggja er í sumarfríi. Það er hægt að kaupa NHL stöðina aukaleg þar sem allir hokkíleikir eru sýndir, en vanalega sýnir CBC Vancouver alla Canucks leikina beint og ég er ekki svo mikill aðdáandi að ég þurfi að fylgjast mikið með öðrum liðum, svo ég hugsa að ég spari mér þann pening. En ég hef enn tíma til að raða þessu öllu saman.
Eitt af því sem er frábært við útvarpsstöðvarnar er að utan við þessar venjulegu stöðvar er hægt að velja þá tónlist sem maður vill hlusta á. Ég hluta lítið á tónlist í í útvarpi því það er alltaf verið að spila dansmúsík og leiðindi sem ég nenni ekki að hlusta á. Þarna getur maður valið næstum hvaða tónlistartegund sem er og hlustað á það. Í kvöld hef ég t.d. haft 'rock alternative' á sjónvarpinu og það hefur ekki enn komið leiðinlegt lag. Súper. Ég veit það er til fjöldinn allur af útvarpsstöðvum sem einbeitir sér að ákveðinni tegund tónlistar en maður þarf að muna hver er hvar. Þarna á sjónvarpinu þarf ég ekkert að muna hvaða stöð er hvar. Ég fer bara inn, finn tegundina af tónlist sem ég vil hlusta á og stilli á það. Og á meðan hvert lag er spilað má fá upplýsingar um heiti lagsins, flytjendur, plötu, útgáfuár, o.s.frv. Kannski ég fari að hlusta meira á útvarp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ekki hræra við fullkomnun
9.7.2007 | 18:13
Haldið bara áfram að reka fé á fjöll og lambakjötið verður áfram fullkomið. Þá þarf ekkert að bragðbæta.
Ég trúi því ekki að farið sé að framleiða heimaalið lambakjöt á Íslandi. Það á aldrei að breyta fullkomnun, það getur aldrei farið vel. Einhver sagði mér að þegar maður keypti lambakjöt á Íslandi í dag væri ekki endilega hægt að vita hvort það væri af fjallgengnu lambi eða heimaöldu. Er þetta virkilega satt? Ja, ljótt er ef satt er.
![]() |
Tilraun til að bragðbæta lambakjöt með hvönn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í sjó eða sundlaug
9.7.2007 | 17:13
Mér þykir alltaf jafn fyndið að labba fram hjá Kitsilano sundlauginni þar sem hún liggur við sjávarbakkann og fólk borgar sig inn til að synda í lauginni sem er jafnköld og ókeypis sjórinn við hliðina.
Aldeilis er þetta nú samt falleg borg. Baðstrendur inni í miðjum íbúðahverfum, garðar út um allt, og háhýsin í miðbænum (í fjarska) innihalda íbúðir en ekki endalausar skrifstofubyggingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hver skrifaði þetta?
9.7.2007 | 16:25
Ókei moggi, er þetta nú ekki að fara yfir strikið? Þið eruð ekki að reyna að selja nein blöð á netinu og þurfið því ekki að setja fyrirsögn sem dregur að slorlesendurnar. Þetta er eins og hjá Star og Enquire og þessum ritum sem setja slímugar fyrirsagnir á forsíður, sem síðar reynast svo ansi beygðar. Að kalla Lavigne hugsanlega þjófótta fyrir það að hafa hugsanlega (líklega?) hnuplað lagi er hreinlega fáránlegt. Í fyrsta lagi verðurðu ekki þjófóttur fyrir það að stela einu sinni. Þú verður kannski þjófur en ekki þjófóttur. Í öðru lagi, vitiði hversu margir tónlistarmenn hafa verið sakaðir um að stela lagi? Ekki það að ég geti nefnt tölu en ég man ekki betur en að Jóhann Helgason hafi verið að tala um það fyrr í vor að eitthvert lag með Josh Grobin væri ótrúlega líkt Söknuð, og svo í framhaldi af því var farið að tala um að Söknuður væri líkur Danny Boy. George Harrison varð að borga the Chiffons hellings pening því talið var að My sweet lord væri of líkt He's so fine. Michael Bolton var líka aðili að einhverju slíku máli. Þetta er kallað cryptomnesia og lýsir sér þannig að manneskja telur sig hafa búið til eitthvað sem hann/hún hefur í rauninni séð eða heyrt annars staðar. Því er ekki endilega um ásetning að ræða. Það að kalla Avril Lavigne þjófótta út af þessu máli er því svolítið langt gengið finnst mér, og þó hef ég enga ástæðu til að verja hana sérstaklega.
Hitt er annað mál að það gæti vel verið að hún sé þjófótt, ég er ekkert að segja að það sé útilokað. Og það er meira að segja vel hugsanlegt því eftir að Chantal Kreviatzuk, sem vann með Lavigne um tíma, var spurð álits á þessu Rubinoos máli þá gaf Kreviatzuk það sterklega í skyn að Lavigne hefði stolið lagi frá sér. Alla vega hafði Kreviatzuk sent Lavigne lag til hlustunar og á næstu plötu Lavigne var lag mjög svipað með sama nafni en enga Kreviatzuk sem höfund.
En mér finnst fyrirsögnin bara ekki við hæfi miðað við innihald fréttarinnar.
![]() |
Er Avril Lavigne þjófótt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)