Gangan langa
15.7.2007 | 05:21
Ég eyddi megninu af deginum á göngu. Reyndar tók ég morgninum rólega, las blaðið, færði skjöl úr biluðu tölvunni í fartölvuna, borðaði brauð með mysingi (frá Íslandi, Rosemary kom með hann handa mér) og svolítið af brokkolísalati. Ákvað svo að skella mér út í góða veðri. Hitinn var ekki eins mikill og undanfarna daga sem var gott fyrir göngu. Ég labbaði fyrst niður á strönd. Af því ég tók Trimble en ekki Sasamat kom ég niður á Locarno ströndina. Ég velti því aðeins fyrir mér að labba vestur eftir Spanish banks en ákvað að ég vildi lengri göngu en það og því væri betra að halda í austurátt. Ég labbaði því yfir á Jericho þar sem nú fer fram Vancouver Folk Festival. Ég bjóst ekki við að það væri svona mikið stuð þar fyrir utan hátíðasvæðið en sölumenn voru búnir að reisa tjöld sín eftir öllum göngustígnum sem tengir Lacarno og Jericho. Flestir voru að selja skartgripi, hippaföt, slæður, o.s.frv. en einnig var boðið upp á nudd, tarot lesningu, henna tattoo ofl. Í raun var varningurinn alveg í stíl við tónlistarstefnuna. Ég stoppaði í raun ekkert enda hafði ég ekki planað að kaupa neitt. Tók samt nokkrar myndir og ég hélt svo áfram göngunni. Ég labbaði fram hjá Brock Hall þar sem einhvers konar markaður var í gangi, en ég stoppaði ekki heldur þar heldur hélt áfram eftir Point Gray veginum, sem er ein flottasta gatan í Vancouver. Þar búa hinir ríku, svo sem Trevor Linden, hokkíleikara með Canucks. Á einu horninu voru þrjár stelpur að selja límonaði svo ég keypti eitt glas, settist svo á bekk og las í bók sem ég þarf að skrifa ritdóm um. Eftir um hálftíma hélt ég áfram göngunni og gekk niður að Kitsilano ströndinni, þar sem unga fólkið fer helst. Þar er mikill kjötmarkaður og mátti sjá að margir voru að tékka á hinu kyninu (og sumir á eigin kyni). Ég stoppaði stutt í Kits, labbaði fram hjá Granville island og niður í False Creek þar sem ég tók töluvert af myndum. Þar er flott útsýni yfir Burrard og Granville brýrnar, glerhús miðbæjarins, skúturnar á vatninu, fólk á kajökum, fugla.... Ég labbaði að lokum yfir Cambie brúna yfir í miðbæinn og að Tinseltown kvikmyndahúsinu. Þar horfði ég á Evan Almighty sem var ekki eins góð og Bruce Almighty, alls ekki eins fyndin, en að mörgu leyti mjög hugljúf. Þetta var langur göngutúr. Ég veit ekki hversu margir kílómetrar en ansi margir voru þeir. Nú er ég ótrúlega þreytt. Ég geri mér grein fyrir að ekkert af þessu segir neinum neitt. En ég get lofaði ykkur því að maður fær ekki mikið fallegri gönguleið innan borgar í Norður Ameríku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um asnaskap og áhættu
14.7.2007 | 16:48
Þeir sem klifra án öryggisbúnaðar hafa alltaf pirrað mig. Kannski er það vegna þess að ef eitthvað kemur fyrir þá eru það aðrir sem þurfa að eiga við það. Fyrir tveimur árum var ég að klifra annað hvort í Check eða Calchek og sé þá eldri mann sem er eitthvað að skoða klettinn við hliðina á okkur. Hann var í klifurskóm og með krítarpoka en ekkert belti. Allt í einu rýkur hann bara af stað upp klettinn, aleinn og án nokkurs öryggisbúnaðar. Við Doug fussuðum bæði og bölvuðum karlinum því ef hann hefði dottið þá hefðum við þurft að hlaupa til og huga að honum, kalla eftir sjúkrabíl og almennt eiga við þetta. Sumum finnst ég kannski hljóma sjálfselsk hér en mér fannst hann fremur sjálfselskur. Ef hann vill klifra án öryggisbúnaðar ætti hann samt sem áður að hafa einhvern kunningja með sér sem getur gert viðkomandi ráðstafanir ef á þarf að halda. Þetta er áhættusamt og maður getur dottið út af alls konar ástæðum. Það þarf til dæmis ekki nema einn lausan stein til þess að maður geti dottið á auðveldri leið, ef maður hefur t.d. treyst á gripið. Eða þá að fugl flýgur allt í einu út úr gjótu (það kom fyrir Anne-Marie þegar við vorum að klifra í Smith Rock - henni dauðbrá).
Einn kunningi minn sagði mér frá því eitt sinn að hann hefði verið að klifra á svæði sem var nokkuð þekkt klifursvæði þegar hann heyrir kallað einhvers staðar í nágrenninu. Hann og félagi hans runnu á hljóðið og finna loks tvo náunga fasta uppi í miðjum kletti á stað sem var algjörlega óklifrandi. Allt of mikið um laust berg til þess að nokkur heilvita maður geti klifrað þetta. Þeir voru greinilega búnir að klifra upp eina reipislengd eða svo fyrst þeir voru báðir þarna uppi. Þarna sátu þeir sem sagt og gátu hvorki farið upp né niður. Tek það fram að þessir voru með öryggisútbúnað, þeir voru ekki að klifra solo. Kunningi minn og félagi hans sáu að það myndi taka allt of langan tíma til að kalla út hjálparsveit svo þeir klifruðu upp þarna til hliðar þar sem bergið var öruggara (en þó ekki svo gott að þeir hefðu nokkurn tímann klifrað þarna ef þeir hefðu ekki þurft þess), settu upp almennilegt öryggiskerfi og náðum ösnunum niður. Þeir spurðu strákana hvernig þeim hefði dottið í hug að klifra þarna upp og svarið var: "Það hefði verið fyrsta klifur. Það hefur enginn farið þarna upp." Dah! Það er ástæða fyrir því að enginn hefur farið þarna upp. Kunningi minn var álíka reiður yfir þessu og við Doug vorum yfir asnanum sem klifraði án öryggisbúnaðar nálægt okkur. Sumt fólk á bara ekki að stunda íþróttir.
![]() |
Heimsfrægur klifrari týndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Elskulegheit makkanotenda
14.7.2007 | 16:25
Í gærkvöldi var ég að dunda mér fyrir framan tölvuna þegar skjárinn varð allt í einu svartur. Ég athugaði að allar snúrur væru vel tengdar en þegar það breytti engu endurræsti ég tölvuna. Allt var við það sama. Eitthvað slæmt var í gangi. Mín fyrsta hugsun var um peninginn sem það myndi kosta að láta gera við þetta og hugsun númer tvö var um alla vinnuna sem myndi tapast ef ég næði ekki í efnið sem ég hef verið að vinna við undanfarna daga. Það er ekki langt síðan ég bakkaði upp öll skjöl en ég geri það ekki á hverjum degi. Ætti kannski að gera það en hef aldrei komist upp á lagið. Ég mundi hins vegar að ég gæti tengt saman borðtölvuna og fartölvuna og fært efni á milli en ég mundi líka að ég þurfti að starta annarri hvorri tölvunni upp á einhvern sérstakan hátt og spurningin var hvort ég þurfti að gera eitthvað á skjánum.
Svo ég gerði það sem allir gáfaðir makka eigendur gera þegar þeir eru í vanda, ég skrifaði inn á umræðusíðu apple.is. Það hefur aldrei klikkað að ég fái góð og skjót svör frá fólki á þeim bæ. Ég veit ekki alltaf hvort þetta eru starfsmenn fyrirtækisins að skrifa eða bara aðrir makkanotendur sem vita meira en ég, en ég hef grun um að hvort tveggja eigi við. Sumir eru starfsmenn, aðrir eru óbreyttir notendur með mikla þekkingu og gott hugarfar. Þrátt fyrir að nú sé laugardagur var ég búin að fá svör frá tveimur, Þór Sigurðssyni og Hans Róbert. Takk kærlega strákar. Ég get alltaf treyst á að makkanotendur séu hjálpsamir.
Þeir sögðu mér báðir að ég yrði að fara með tölvuna í viðgerð því það væri ómögulegt að segja um hvað gæti verið að. Þeir gáfu mér líka upplýsingar um það hvernig ég á að tengja tölvurnar saman. Sem betur fer þurfti ég ekki á skjánum að halda. Ég þurfti bara að ræsa þá biluðu á meðan ég hélt inni t-takkanum og svo birtist diskurinn hennar á skjáborði fartölvunnar og þar fékk ég aðgang að öllu því sem á tölvunni var. Þannig gat ég fært yfir öll þau skjöl sem ég taldi mig þurfa á að halda. Ég færði meira að segja yfir nokkur lög sem ég vil helst geta hlustað á á meðan tölvan er í viðgerð.
Ég held eiginlega að það sé nauðsynlegt fyrir námsmenn á ritgerðarstigi að hafa svona aðgang að tveimur tölvum. Það þýðir að maður getur haldið áfram að vinna þótt ein tölva bili. Fyrr í vetur bilaði tölvan hjá Marion og var í viðgerð í einar sex vikur. Hún gat ótrúlega lítið unnið á meðan. Vann eitthvað uppi í skóla en hafði engan aðgang að ýmsu sem hún þurfti úr tölvunni, svo sem efnið sem hún hafði verið að vinna með áður en tölvan bilaði. Þar komum við auðvitað aftur að því að maður á að bakka upp á hverjum degi. Ég verð að gera eitthvað í því. En það er eins erfitt að muna að bakka upp á kvöldin og það er að taka vítamín á morgnana. Hvort tveggja er mjög mikilvægt en samt meira en að segja það.
Og núna þegar ég er komin með allt mikilvægt yfir í fartölvuna get ég aftur farið að hugsa um hvað þetta mun nú kosta. Æ æ æ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Godsmack að koma!!!
14.7.2007 | 06:28
Í ágúst á ég þess kost að sjá Godsmack á tónleikum. Ég hef reynt að spara pening að undanförnu með því að sleppa flestum þeim tónleikum sem mig hefur langað á en ég er ekki viss um að ég geti sleppt þessum. Godsmack eru einfaldlega of góðir. Ó, og áður en einhver rýkur til og reynir að kaupa miða þá er rétt að taka það fram að þeir eru að koma til Vancouver, ekki til Íslands (svo ég viti). Vona að ég hafi ekki gert einhvern hrikalega hamingjusaman í nokkrar mínútur til þess eins að drepa gleðina.
Það er reyndar von á mörgum öðrum spennandi á næstunni. Nickelback eru væntanlegir, og svo koma líka Scorpions (sem ég vildi gjarnan sjá bara til þess að heyra Still loving you), The Cure, Ryan Adams og The Fray. Og þetta eru bara þeir sem ég vildi sjá. Það eru alveg ótrúlega margir tónleikar hér á hverjum degi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað gerist í síðustu bókinni?
13.7.2007 | 20:25
Síðasta bókin um Harry Potter kemur út eftir átta daga og hefur bókin nú þegar selst í hærra upplagi en nokkur önnur bók hefur gert í forsölu. Út um allt hafa verið skipulagðar sérstakar Harry Potter hátíðir þar sem fólk getur keypt sitt eintak um miðnætti aðfararnótt 21. júlí. Marion vinkona mín er búin að kaupa bókina og fékk miða sem hún mun fara með í bókabúð í nágrenninu og svo getur hún lesið bókina um nóttina og því vitað endinn áður en nokkur leið er að frétta hvað gerist frá öðrum. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég geri en ég hugsa að ég kaupi hana nú á fyrsta degi.
Fram að því er hægt að leiða getum að því sem mun gerast.
Í fyrsta lagi, Snape er ekki illur. Þótt hann hafi drepið Dumbledore þá held ég að það hafi verið plott á milli Dumbledores og Snapes. Þeir vita hvað þeir eru að gera og ég hef aldrei trúað því að Snape sé ennþá deatheater (veit ekki hvað það kallast á íslensku - hef aldrei lesið íslensku útgáfuna).
Í öðru lagi, Harry er ekki drengurinn sem véfréttin talaði um. Það er Neville sem á eftir að bjarga heiminum. Neville er fæddur í lok júlí, rétt eins og Harry, og foreldrar hans voru einnig drepnir. Þegar ég sá nýju myndina pirraði það mig þegar Dumbledore sagði við Harry að hann hefði haldið sig fjarri honum (Harry) allan veturinn til þess að draga athyglina frá Harry. Hann hélt að Voldemort myndi síður fara á eftir Harry ef hann væri látinn í friði. Þetta pirraði mig líka þegar ég las bókina. Nú sé ég þetta hins vegar í öðru ljósi. Þetta er algjör lykilsetning því hún segir okkur miklu meira en ég hafði áður talið. Þetta segir okkur að það er Neville, ekki Harry, sem er drengurinn í spádómnum. Dumbledore hefur einmitt látið Neville algjörlega í friði og öll athyglin hefur beinst að Harry. Þannig hefur hann fengið Voldemort til þess að trúa því að Harry sé drengurinn umræddi. Voldemort mun því ekki vita hvað gerðist þegar Neville kemur fram á sjónarsviðið. Þetta segir okkur líka að Harry muni ekki deyja. Spurningin er hvort Neville deyr.
Margir hafa velt því fyrir sér hvort Hogwarts muni opna aftur. Svarið við því er einfaldlega já. Af hverju ekki? Þegar búið er að ráða niðurlögum Voldemorts og dauðaétaranna er ekkert því til fyrirstöðu að opna skólann. Þegar Neville, Harry, Hermione, Ron og öll hin taka virkan þátt í bardaganum er sýnt fram á hversu góður skólinn er og hve mikið nemendur læra og þroskast þarna.
Er Dumbledore virkilega látinn? Ég á erfitt með að vita það en ég held ekki. Ég held að hann sé sterkari galdrakarl en Voldemort og fyrst Voldemort lést ekki á sínum tíma er engin ástæða til að Dumbledore sé dáinn. Þar að auki var hann "drepinn" af Snape sem hluta af plotti þeirra tveggja þannig að ég held að hann muni koma aftur, en líklega ekki fyrr en í lok bókarinnar.
Ron og Hermione eiga eftir að verða hjón og líklega Harry og Ginny líka.
Hverjir deyja? Voldemort deyr, það er pottþétt. Hinn aðilinn gæti verið Neville. En ég hef í raun engar haldbærar getgátur um það hver annar deyr. Það er reyndar mögulegt að Harry sé síðasti horcrux-inn (annað orð sem ég veit ekki hvernig var þýtt yfir á íslensku). Horcrux er hlutur eða manneskja þar sem galdramaður eða norn hefur falið hluta úr sál sinni. Viðkomandi getur ekki dáið ef einhver horcrux er enn á lífi. Það er vegna þessa sem Voldemort dó ekki á sínum tíma. Ef Harry er horcrux, sem er ekki ólíklegt miðað við að það virðast vera tengsl á milli hans sálar og sálar Voldemorts, þá verður Harry að deyja svo Voldemort geti dáið. Spurningin er hvort Voldemort hafði tíma til að gera Harry að horcrux. Þið munið að hann ætlaði að drepa hann! Ég tel þetta því ekki líklegt og finnst því líklegra að Harry muni lifa.
Þetta er það sem ég held að muni gerast. Skiljið endilega eftir athugasemdir og segið mér hvað ykkur finnst líklegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Léttmeti á föstudeginum þrettánda
13.7.2007 | 18:34
Af því að nú nálgast hádegisverður hjá mér og kvöldverður hjá ykkur ákvað ég að setja inn smá léttmeti svo enginn borði yfir sig. Og munið, Jason er dauður!!!
Now that food has replaced sex in my life, I can't even get into my own pants.
Marriage changes passion.
Suddenly you're in bed with a relative.
How come we choose from just two people to run for president and over fifty for Miss America? |
Og það besta:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stína og dularfullu moskíturnar
13.7.2007 | 18:04
Ég kom heim frá því að spila ultimate um tíu leytið í gær. Ég horfði á hálftíma þátt af After bite á bitin var kláðinn farinn að minnka og ég fór aftur að sofa. Ég var rétt að ná að festa svefn þegar ég heyrði kunnuglegt suð í kringum höfuðið á mér. Ég rauk á fætur, kveikti á lampanum og hóf leit að kvikindinu. Það var sem sagt moskíta í herberginu. Eftir um hálftíma fann ég hana og drap. Hún kramdist á veggnum en eftir var bara skilinn flattur flugnabúkurinn en ekkert blóð. Þetta var áhyggjuefni því það þýddi að þetta var ekki flugan sem var búin að vera að bíta mig. Vanalega þegar flugurnar hafa komist í mannablóð eru þær fullar af blóði og skilja því eftir sig blóðklessur þegar maður fletur þær. Þetta þýddi sem sagt að það voru fleiri flugur á ferli. Ekki þýddi að halda áfram að leita því ég var búin að fara yfir allt svo það eina sem ég gat gert var að fara að sofa. Í þetta sinn tók ég samt fram það sængurver mitt sem ekki var utan um sængina, og notaði það sem sæng. Það var aðeins of heitt en samt betra en að fá fleiri bit. Ástæðan fyrir því að flugurnar náðu mér fjórum sinnum áður en ég varð vör við þær var sú að fyrst ég svaf ekki með sæng þá náðu þær að bíta mig í neðri helminginn. Þegar maður er undir sænginni verða þeir að koma að höfðinu til að stinga og þá heyri ég í þeim. Sniðugar flugur en ég er sniðugri. ég fer sem sagt aftur að sofa, með sængurverið ofan á mér, flugnaspaðann við höndina (á tímabili svaf ég með flugnaspaðann í annarri hendinni og
Spurningin er hins vegar: Hvaðan komu þessar fjandans flugur? Einu gluggarnir sem voru opnir voru stofuglugginn og eldhúsglugginn og þeir hafa báðir flugnanet. Aðrir gluggar voru lokaðir. Hurðin stóð aldrei opin nema rétt á meðan ég fór inn í íbúðina enda ólíklegt að þær hefðu komið inn með mér því þær hefðu þurft að komast inn á ganginn og svo skjótast aftur inn með mér þegar ég opnaði hurðina inn í íbúðina. ég hef ekki heyrt til þess að moskítur felist í fötum og bíði svo til myrkurs með atlögu. Hvaðan komu þær?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miklar tekjur
13.7.2007 | 05:42
Ég mætti í bíó um korteri yfir sex í gær, til þess að sjá myndina klukkan sjö. Þegar við komum inn í bíóið sáum við gríðarlega langa röð og vorum nú viss um að við myndum þurfa að sitja á fremsta bekk af því við værum svo aftarlega í röðinni. En nei, þetta var þá ekki röðin fyrir okkar sýningu, heldur fyrir sýninguna klukkan hálfátta. Búið var að hleypa inn í okkar sal. Sem betur fer þurftum við samt ekki að sitja á fremsta bekk, en líklega var það fjórði eða fimmti bekkur. Mér finnst reyndar ágætt að sitja framarlega. Þá þarf ég ekki að setja upp gleraugun. Bíóin hljóta reyndar að fá alveg ótrúlegar auglýsingatekjur frá svona vinsælum myndum því byrjað var að sýna auglýsingar klukkan hálfsjö og þær héldu svo áfram þar til tuttugu mínútum yfir sjö þegar myndin byrjaði. Hér eru auglýsingar vanalega um tuttugu mínútur inn í sýningartímann þannig að það kom ekkert á óvart.
Ég er þegar búin að skrifa minn dóm um myndina (ekki mjög faglegan dóm samt sem áður) og mun ekki endurtaka hann hér. Ef einhver vill lesa hann þá finnið þið hann hér.
Verð að koma öðru máli að. Mikið rosalega hefur Starbucks staðið sig vel í að kynna nýju plötuna með Paul McCartney. Áður en myndin byrjaði, og áður en flestar auglýsingarnar byrjuðu, var sýnt nýja myndbandið við Dance tonight, sem er reyndar alveg ferlega fyndið myndband. Ég hef, hins vegar, hvorki fyrr né síðar séð heilt myndband við lag á undan bíómynd. Reyndar kem ég vanalega mjög seint í bíó þannig að kannski er þetta algengara en ég held, en samt...
![]() |
Mikil aðsókn að Harry Potter og Fönixreglunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Játningar miðaldra málfræðings
12.7.2007 | 16:48
Doddi klukkaði mig í gær og af því að ég get ekki skorast undan játningunum ætla ég hér að setja fram 8 sannar fullyrðingar, en ég verð samt að hryggja fólk með því að ég ætla ekki að klukka neinn áfram af því að ég þoli ekki keðjubréf og þvíumlíkt og sendi þau aldrei áfram (nema helst ef þau lofa ást innan fjögurra daga).
1. Ég er með ofnæmi fyrir fiski ("What! an Icelander allergic to fish" er algengasta setningin sem ég heyri í Kanada).
2. Ég æfði skíði í tíu ár og þótt ég hefði unnið fjöldamörg mót á þeim tíma (varð bikarmeistari þegar ég var sextán ára og Akureyrarmeistari í nokkur ár) náði ég aldrei að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Varð alltaf stressuð og datt eða skíðaði illa á Íslandsmeistaramótum og unglingameistaramótum.
3. Íþróttir eru áhugamál númer eitt tvö og þrjú. Fyrir utan að hafa æft skíði, fimleika, frjálsar íþróttir, og fótbolta hef ég einhvern tímann á lífsleiðinni keppt á gönguskíðum, í handbolta, golfi, víðavangshlaupum, blaki og ultimate, og mér til gamans stundað hokkí og klettaklifur.
4. Ég hef verið með fleiri Kanadamönnum en Íslendingum (vona að mamma sé ekki að lesa þessa færslu).
5. Ég hef tvisvar sinnum verið rænd (í Danmörku og á Íslandi) og einu sinni hefur verið ráðist á mig úti á götu (á Spáni).
6. Ég stunda klettaklifur og samt er ég ógurlega lofthrædd.
7. Ég bjó í fjögur ár með heimspekiprófessor og vann engar rökræður (né rifrildi) á þeim tíma - ekki einu sinni þegar ég hafði rétt fyrir mér.
8. Ég á þrjá eldri bræður, níu bræðrabörn og yndislega foreldra. Mér finnst ég ákaflega heppin með fjölskyldu þótt ég hefði viljað gefa mikið fyrir að eiga systur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Með ólíkindum
12.7.2007 | 15:27
Ég er komin með kenningu um sumarleyfisstarfsmann Moggans (þennan sem er ábyrgur fyrir öllum stafsetninga- og málvillunum, lélegu þýðingunum og heimskulegu fréttunum). Hann gengur með rithöfundinn í maganum. Lesið aftur þennan texta:
"Tilfinningaþrungið lag frá Fergie og félögum í Black Eyed Peas ryðst í fyrsta sæti íslenska lagalistans. Poppdívan baunar útúr sér hjartnæmum yfirlýsingum um ástarsorg og óseðjandi þrár, en hlustandinn fær það á tilfinninguna að þessar ólgandi kenndir geti ekki annað en ruðst fram á varir söngkonunnar er barki hennar þenst í óhjákvæmilegum og hádramatískum söng."
Ég átti hálfpartinn von á að næsta lína lýsti því hernig Fergi reif af sér fötin og kastaði sér á gítarleikara hljómsveitarinnar sem þráði að lækna hjartasár hennar með....(ritskoðað). En það er nú ekki rétt. Þú getur bara lesið upphaflega textann. Ég verð hins vegar að segja að þessi stíll á fréttinni er með ólíkindum og á ekkert skylt við fréttatexta.
Mikið rosalega er ég annars neikvæð þessa dagana. Í gær röflaði ég yfir frétt frá Noregi (fréttinni sjálfri, ekki því hvernig hún var sett fram) og nú er ég að skammast yfir fréttaflutningi. Ég held ég fari og fái mér morgunverð (aldrei að blogga á fastandi maga) og fari svo út í sólina.
![]() |
Svarteygðar matbaunir vinsælastar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)