Er það eðlilegt að tónlistarsmekkurinn harðni með árunum?

Á barna- og unglingsárunum var ég yfirleitt poppari fremur en rokkari. Ég vildi fremur hlusta á ELO en Kiss, valdi Wham yfir Duran Duran (ókei, báðir popparar, en mismunandi sykursætir). Je minn, ég var Paul Young aðdándi þegar ég var fjórtán ára. Ég fór aldrei í gegnum heavy metal tímabil og skil enn ekki af hverju fólki finnst Led Zeppelin svona góðir. Ég skældi næstum því yfir því að þurfa að hlusta á Iron Maiden og pönkið var yfirleitt eitthvað sem fór algjörlega fyrir ofan höfuðið á mér (eða neðan við fæturna).

En eftir að ég náði þrítugu var eins og smekkurinn færi að harðna og mér fór að leiðast mikið af poppinu. Hef hallast meir og meir að harðari tónlist. Helst harðri alternative tónlist og grunge undir heavy metal áhrifum. Það gerðist hægt. Fyrst fékk ég áhuga á Creed, svo Stone Temple Pilots og Rammstein, en síðan fór ég að hlusta á Godsmack, System of a down og Alice in Chains (trúi því ekki að ég skuli ekki hafa hlustað á þá fyrr). Ég hreinlega skil ekki hvernig heiðvirð kona á fertugsaldri getur verið að hlusta á svona tónlist. En það er eitthvað hrátt og seiðandi við tónlistina. 

En ég hef alls ekki yfirgefið mýkri tónlist. Ég hef til dæmis verið að hlusta töluvert á Death Cab for Cutie,  Hinder, Feist, Broken Social Scene, Ampop, Train, The Fray og Muse, og svo algjörlega ólíka tónlist eins og Eric Lindell, Regina Spektor, Gotan Project, Ry Cooder og Taylor Hicks. 

En þetta með hörðu tónlistina kom mér bara svo á óvart.  


Um dásemdir moggabloggsins

Af því að ég veit að ýmsir hafa allt á hornum sér gegn moggablogginu finnst mér tímabært að segja mína skoðun á þessu kerfi: Mér finnst það frábært. Það er ekki bara vegna þess að það er mjög auðvelt að eiga við þetta kerfi og kostirnir eru margir, heldur vegna þess samfélags sem hefur skapast. Ég er búin að eignast marga bloggvini sem eru alveg yndislegt fólk; þessir vinir koma reglulega á síðuna hjá mér og lesa og skrifa athugasemdir, og uppörva mig þegar á þarf að  halda, og í staðinn fer ég og les það sem þeir skrifa og fylgist með lífi þeirra (nefni Dodda og Gurríu alveg sérstaklega því þau hafa verið alveg einsaklega frábær, en ég heyri líka alltaf reglulega í Má, Bjarna og Þrymi). Þar að auki hef ég komist í samband við gamla kunningja frá því í gamla daga í gegnum bloggið, og ég hef einnig heyrt af öðrum sem lesa bloggið reglulega. Meðal bloggvina er fólk sem ég þekkti einu sinni en hafði misst tengslin við, svo sem Pétur Björgvin sem bjó við hliðina á mér á æskuárum okkar, Valdimar vinur minn úr MA sem ég hélt lengi vel sambandi við en missti svo, Berglind skólasystur mína úr háskólanum, Gísli þýðandi sem vann með mér á sjónvarpinu, Gunnar Kristinn frændi minn. Í gegnum gestabókina eða athugasemdakerfið hef ég heyrt í Huldu bekkjarsystur minni úr MA sem ég hef ekki talað við í mörg ár, Guðnýju Hansen sem var með mér á skíðum í gamla daga, Elvu vinkonu, Björg sem var með mér í MA, Rannveigu sem var með mér í BA náminu, og fleiri og fleiri. Fyrirgefið ef ég gleymi einhverjum. Fyrir utan Elvu sem ég hitti fyrir tveimur árum, og Rannveigu sem ég rakst á fyrir um fjórum árum, hef ég ekki hitt þessar stelpur í líklega ein tíu ár eða meira. Svo heyrði ég í gegnum mömmu að Lína sem var með mér í Glerárskóla kíkti stundum við (hæ Lína!) og ég hef heyrt af öðrum sem koma hér af og til. Mér þykir ákaflega notalegt að vita til þess að þessir gömlu félagar komi stundum á síðuna mína og sjái hvað ég er að gera. Ég myndi gjarnan vilja vita hvað þið eruð að gera líka.

Moggabloggið gerir það líka ákaflega auðvelt að rápa á milli blogga svo maður er að kynnast nýju fólki reglulega, svo sem bloggvinum bloggvina, o.s.frv. Ég vildi reyndar að umræðuboxið á aðalsíðunni væri aðeins fjölbreyttara. Þetta er svo mikið sama fólkið sem er þar, og ég veit orðið af þeim (og suma les ég og aðra ekki). Ég vildi sjá fleiri koma þar inn svo ég uppgötvi fleira fólk sem gaman væri að fylgjast með. Einhver sagði mér að vinsælustu bloggin kæmu bara þarna í boxinu, en það er ekki alveg rétt því ég hef lent þar nokkrum sinnum, án þess að hafa vinsælt blogg. En það gerði það reyndar að verkum að þegar bloggið lenti þar, þá jókst lesturinn ógurlega þann daginn (en ekki fram yfir það - ekki nógu spennandi). Þess vegna væri svo gaman að sjá fleira fólk koma þarna inn svo að umheimur geti uppgötvað fleiri ólesna penna.

Nú gæti vel verið að önnur bloggkerfi bjóði upp á það sama. Um það veit ég ekkert enda er ég ekki að skrifa um önnur bloggkerfi, er bara að segja hvað  mér líkar við þetta. Ég hef hér fínan vettvang til þess að skrifa niður það sem mér liggur á hjarta og í leiðinni hef ég eignast nýja vini, og endurnýjað kynnin við gamla. Ég get ekki beðið um meira.


Sumarið er komið

Íbúðin mín er einn hitapottur -  ja, eiginlega ætti ég að segja gufubað því sem betur fer er ekki allt á floti, nema helst sé ég (í svita). Klukkan er hálfníu að kvöldi og hitinn í íbúðinni er um 27 stig (úti um 23). Þetta er vegna þess að ég opnaði ekki alla glugga áður en ég fór út í dag. Það eru bara flugnanet fyrir tveimur gluggum svo mér er ekki við að opna of mikið fyrr en ég er búin að setja net í fleiri. En nú varð ég að opna allt upp á gátt því ég er að leka niður. Verð samt að loka þeim fyrir rökkur svo allt fyllist ekki af moskítum.

Sumarið er loksins komið til okkar. Hitinn fór upp í 25 stig í dag (sem betur fer er ekki eins heitt hér og á sléttunum) og sól og blíða allan daginn. Ég vann inni megnið af deginum en um fjögur leytið fór ég  út í garð með fartölvuna, fann mér stað undir tré, í skugganum, og vann svo þar í sirka klukkutíma. Þá var Marion búin að sjá um allar útréttingarnar sem hún þurfti að sjá um svo við fórum niður á strönd. Löbbuðum fyrst eftir Lacarno og Spanish Banks ströndunum, og skelltum okkur svo í sjóinn. Hann var nú frekar kaldur en ekki of. Eftir að við vorum búnar að bleyta okkur þokkalega hringdi Marion í Ryan, manninn sinn, og hann labbaði niður eftir til okkar og svo sátum við þrjú aðeins lengur. Hungrið rak okkur heim. Mikið er ég ánægð að eiga afganga svo ég þurfi ekki að elda. Fer í það núna að hita þá upp svo ég enda þetta blogg. En ég get sagt ykkur að ég er hrikalega ánægð með það að sumarið skuli loksins komið. Það hefur heldur betur látið bíða eftir sér.


Auglýst eftir lukku og hamingju

Ég er að verða fremur afbrýðisöm út í vini mína (ekki þó öfundsjúk) því það er eins og eitthvað nýtt og spennandi sé að gerast í lífi allra nema mín. Sjáið bara:

Rut eignaðist barn
Helena eignaðist barn
Þyrí eignaðist barn
Tim keypti sér íbúð
Marion keypti sér hús
Júlíanna keypti sér hús OG gifti sig
Helga Fanney er farin til Íslands þar sem hún ætlar að gifta sig.
Rosemary er í rosaferð til Íslands og Englands sem hún er búin að vera að hlakka til í mörg ár að fara í.

Og þetta allt síðan síðustu dagana í desember.  Og hvað hef ég verið að gera? Sitja heima og reyna að skrifa ritgerð en ganga illa við það. Upphafleg áætlun var að útskrifast í haust en það mun ekki gerast. Ég verð heppin ef ég næ að klára næsta vor. Og ekki nóg með að ekkert nýtt gerist heldur er verið að taka frá mér í þokkabót. Samband mitt við Martin virðist vera endanlega búið og húsakaup Marion þýða t.d. að hún er að flytja til Victoria, sem þýðir að eini vinurinn sem ég umgengst reglulega er að flytja í burtu. Áður fluttu í burtu Leszek og Jeremy sem voru þeir vinir sem ég umgekkst mest áður, og Julianna flutti til White Rock sem þýðir að ég sé hana á kannski fjögurra til sex vikna fresti . Já, ég veit hvað þið eruð að hugsa—ég virðist hreinlega hrekja fólk burt úr bænum. 

Hvernig væri nú að smá lukka komi til mín. Sendið alla orku og lukku sem þið þurfið ekki á að halda til mín. Mér veitir ekkert af.


???

Og bíddu....í hverju eiga þeir að keppa? Hvers lags frétt er þetta sem segir manni eiginlega ekki neitt? Eiga þeir að keppa í einhverjum íþróttum? Frjálsum? Fótbolta? Eða einhverju sem er oftar tengt "nördum", eins og stærðfræði og eðlisfræði? Ég verð nú bara pirruð þegar ég les hálfar fréttir.
mbl.is Sænskir og íslenskir nördar keppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru svo vanir þessu

Ég fór einmitt til London einungis tveimur dögum eftir sprengjuárásirnar þar fyrir tveimur árum og þótt aðeins tveir dagar væru liðnir var það einungis tvennt sem benti til þess að eitthvað hefði gerst: Annars vegar voru fleiri lögreglumenn með byssur á lofti á Heathrow, og hins vegar lá pínulítill hluti neðanjarðarlestarkerfisins niðri. Ég tók Piccadilly línuna frá Heathrow og ætlaði að taka lestina alveg að Piccadilly Circus, en varð í staðinn að fara út við Green Park. Það var bara einni stoppistöð á undan. Reyndar var ég svolítið rugluð þegar ég kom út því ég hef aldrei farið út þar áður og þurfti aðeins að átta mig á hvar ég var. En það tók svo sem ekki langan tíma. Hafði komið til London þrisvar sinnum áður.

Vicky vinkona mín, sem er ensk, var óttalega róleg þessa daga eins og allir aðrir Bretar. Hún sagði að þau hefðu flest alist upp við ógnina af IRA og það að hafa sprengjur yfirvofandi væri því ekkert til að hafa of miklar áhyggjur af. Þar að auki sagði hún að þau væru svo viðbúin öllu. Til dæmis ætti London sjúkrahús á hjólum. Það er hreinlega bíll sem búinn er allri nýjustu tækni sjúkrahúsa (ja, ekki allri nýjust tækni, en öllu sem skiptir máli í svona) og því væri hreinlega hægt að rúlla vagninum þangað sem hans væri þörf. Þar að auki væru alls konar plön til um hvað ætti að gera ef til alvarlegra árása kæmi. Þeir eru því betur búnir undir hvað sem er en Bandaríkjamenn voru á sínum tíma. Ég er mjög ánægð með Bretana. Þeir láta ekki það sem gæti gerst hafa of mikil áhrif á sig. Þeir undirbúa sig vel og svo njóta þeir lífsins og hafa ekki áhyggjur fyrr en það er nauðsynlegt. Yfirleitt er það Dönum sem er þannig lýst, er það ekki?

Bæti við smá vídeó í lokin frá því ég var síðast í London,  sumarið 2005. Hér er svo sem ekkert spennandi á ferð, bara smá mynd af þessari fallegu borg. Það er Vicky vinkona sem sést þarna á nokkrum stöðum.

 


mbl.is Ekkert virðist raska ró Lundúnabúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott instrumental lög

Um helgina bloggaði Gurrí um Rick Wakeman og epic-lögin hans um Arthúr konung, og Leiðina að miðju jarðar. Ég hafði aldrei heyrt þessi lög enda var ég væntanlega að hlusta á Hönnu Valdísi eða Mínipops á þessum tíma. Hlustaði hins vegar núna og tvennt kom í hugann:

1) Atriðið með Stonehange í This is Spinal Tap er nú algjörlega útskýrt (ekki að ég hafi ekki hlegið að því áður).

2) Gat ekki annað en hugsað um aðra frábæra tónlist:

       A) War of the Worlds, með Jeff Wayne
           (öll platan er flott en sérstaklega fyrsta lagið)

       B) Journey of the Sorcerer, með Eagles. 
           (Eitt af flottustu lögunum með Eagles) 

       C) The Loner, með Gary Moore.
           (Stundum þegar ég er sorgmædd set ég þetta lag á fóninn, leggst á gólfið og loka augunum. Þá leyfi ég  mér að vera sorgmædd til að byrja með, en þegar tónninn breytist í laginu, þá er ekki annað hægt en að líða betur.)

Þótt þessir tenglar séu yfir á YouTube þá er í raun ekkert að sjá. Í fyrsta laginu er engin mynd og í öðru laginu er einhver heimskulegur tölvuleikur. Það er bara Gary Moore lagið sem hefur almennilegt vídeó. Það sem skiptir máli er að  hlusta á lögin.  


Sicko

Í dag fór ég að sjá Sicko, nýju myndina hans Michaels Moore. Þetta er býsna góð mynd en hafði þó ekki sömu áhrif á mig og Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11. Ég held það sé vegna þess að færra kom á óvart í þessari mynd en hinum tveimur. Ég vissi fyrirfram heilmikið um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum og hvernig ótryggðu fólki er snúið í burtu frá spítölunum, og ég vissi líka að heilbrigðiskerfið var mun betra í hinum löndunum sem leitað var til. Það sem kom kannski mest á óvart var hversu hræðileg tryggingafélögin eru og hvernig þau ná að koma sér undan greiðslum. 

Dæmi 1: Kona með heilbrigðistryggingu verður veik og fer á spítala. Hún heldur að tryggingafélagið muni borga en þeir grafa þá upp gamlar skýrslur frá lækni þar sem segir að konan hafi einhvern tímann löngu áður fengið sveppasýkingu sem hún sagði ekki frá þegar hún sótti um trygginguna. Þeir segja því upp tryggingunni og hún fær engar bætur. Sveppasýking!!!!!!!!

Dæmi 2: Lítið barn veikist alvarlega og er í hasti flutt á nálægasta spítala. Spítalinn hefur samband við tryggingafélag konunnar en þar er þeim sagt að tryggingafélagið muni ekki greiða fyrir læknishjálpina nema á sínum eigin spítala. Það þarf því að flytja deyjandi barnið á annan spítala og ekkert má gera fyrir það á þeim fyrri. Á síðari spítalanum er reynt að bjarga barninu en það er orðið of seint.

Dæmi 3: Rúmlega tvítug kona fær legkrabbamein. Tryggingafélagið segir að hún sé of ung til að fá slíkt krabbamein og neitar að borga.

Dæmi 4: Karlmaður með krabba er deyjandi og læknarnir segja að hægt sé að bjarga lífi hans með því að gefa honum beinmerg úr bróður hans. Tryggingafélagið segir að þetta sé tilraunakennd meðferð, ekki sé búið að sanna að þetta hjálpi, neitar að borga og maðurinn deyr skömmu síðar.

Hugsið ykkur. Þetta er þjóðin sem telur sig betri en aðrar. Hugsið ykkur. Þetta fær maður með einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Atriðið þar sem Moore fer með sjálfboðaliða frá 9/11 til Kúbu er ótrúlegt. Þessi þjóð sem hefur verið ásótt af Bandaríkjamönnum í tugi ára, opnar faðminn og veitir fólkinu ókeypis læknisþjónustu. Þjónustu sem þessum bandarísku hetjum var meinað um heima hjá sér.  

Það veitir ekkert af að hafa með sér vasaklút þegar maður fer á þessa mynd því það má sjá mörg átakanleg atriði. Þessi mynd er hins vegar fyrst og fremst fyrir Bandaríkjamenn því það eru þeir sem þurfa að skilja að þeir hafa eitt versta heilbrigðskerfi í vestrænum heimi. Það er vonandi að demókrati setjist næst í stól forseta þarna syðra, og að sá eða sú snúi þessu við og taki upp það nýtt og mannúðlegra heilsugæslukerfi.


Þjóðhátíðardagur Kanada

Í dag er fyrsti júlí, þjóðhátíðardagur Kanadamanna. Ég er búin að skella mér í kjól og ætla að kíkja niður í bæ. Ég hef verið á þjóðhátíðardegi Kanadamanna í Winnipeg, Vancouver og í Ottawa og ég verð að segja að Ottawa stóð alveg uppúr. Það er auðvitað höfuðborgin og því langmest um að vera þar. Ottawa er líka nógu lítil til þess að maður gat labbað á milli mismunandi staða á innan við tuttugu mínútum og því var hægt að velja úr svo mörgu. Hér er viðburðum dreift út um allt þannig að maður verður í raun að velja einn stað og vera svo þar. Ég ætla niður í miðbæ og labba sennilega yfir að Canada Place þar sem aðalhátíðahöld borgarinnar eiga að vera. En svo er víst eitthvað um að vera í Richmond, og í Burnaby, og í Coquitlam, etc. etc. 

Gef skýrslu þegar ég kem heim. Þangað til getið þið notið þessarar myndar frá Ottawa í fyrra. 

1. júlí í Kanada


Nýr strákur (og eldri börn)

Helena vinkona mín var að eignast sinn fyrsta son á laugardaginn var (23. júní). Hann var 14 merkur og 52 sentímetrar. Það þurfti að nota sogklukku en að öðru leyti gekk allt vel. Helena var alveg eldsnögg að þessu. Var hins vegar blóðlítil á eftir og þurfti nokkra daga að jafna sig en er nú  komin heim og ákaflega ánægð með lífið. Hann litli Yngvason er ógurlegt krútt með nefið mömmu sinnar (eins og Siglfirðingurinn Helena myndi segja) og augu pabba síns. Hér getið þið séð myndir af þeim litla: http://www.skuti.is/

Til hamingju Helena og Yngvi. Ég hlakka til að sjá gripinn með eigin augum. Þangað til verð ég að láta myndir á netinu nægja.

Það er sem sagt alltaf að fjölga börnunum í vinahópnum. Adam og Emily, vinir mínir frá Manitoba eignuðust son fyrir rúmum  mánuði, Elija Downing Muller, og um síðustu áramót (eða rétt fyrir þau) fæddist svo litli Oscar Polselli hennar Rutar. Þetta eru allt saman strákar. Nei bíddu, Þyrí eignaðist stelpu fyrr á árinu. Ein stelpa innan um strákagerið.

Annars hefur börnum vina minna verið dreift á býsna mörg ár. Hún Ásdís hennar Elvu er orðin nítján ára eða svo, fæddist þegar við vorum allar á öðru ári í MA, elsti strákur Þyríar er ári yngri (eða tveimur). Sara hennar Dóru er sirka sextán eða sautján ára. Og Hörður hennar Jóhönnu Barðdal er líklega sextán ára. Þessar fjórar voru í fyrsta holli.

Í öðru holli voru svo Sigga vinkona (Johanna Brynja er orðin níu ára) og Jóhanna Snorra en Þórgnýr er sennilega orðinn tíu eða ellefu ára.

En svo kom sem sagt þessi langa bið þar til hollið núna. Ég vona að ég fái að vera í næsta holli en þarf fyrst að finna eins og einn barnsföður. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband