Ertu á leið til Manitoba?
30.6.2007 | 19:58
Íslenskar ferðaskrifstofur hafa boðið upp á ýmsar ferðir til Kanada í sumar og margir mun væntanlega fara á Íslendingaslóðir í Manitoba. Hápunkturinn þar ætti að vera Íslendingadagurinn í Gimli, fyrstu helgina í ágúst. Það er því mánuður til stefnu.
Ég bjó í Winnipeg í fjögur ár og hef því ýmis ráð að gefa fólki. Þau snúast fyrst og fremst um skordýr, en inn á eftir slæðast upplýsingar um hvað er skemmtilegt að gera.
Skordýrafræðsla númer 1: Það eru moskítóflugur í Manitoba - og það mikið af þeim!!! Íslendingar hafa ekki hafa alist upp við moskítur og sýna því oft sterk viðbrögð við stungunum. Ég átti það til dæmis til að fá risastórar skellur í kringum hvert bit og stundum var líkaminn þakinn í þessu. Ráð: Spreyið ykkur vel með einhverju sem inniheldur Deet. Alls staðar í Manitoba er auðvelt að fá það sem kallast Deep Wood Off. Það lyktar illa en virkar. Það er líka hægt að nota Citronella sem lyktar betur en er ekki eins áhrifamikið. Aðrir hafa ráðlagt betur lyktandi krem en þau hafa ekki virkað eins vel fyrir mig. En fólk er misjafnt og þarf mismunandi vörn. Og þótt þið bregðist ekki of illa við moskítóbitum er samt gott að verjast gegn þeim því West Nile vírusinn er kominn á slétturnar.
Skordýrafræðsla númer 2: Eitt ógeðslegasta skordýrið er tick. Áttfætla sem skyld er kóngulóm. Rauðbrún á lit, sýgur blóð úr fólki þar til búkurinn er orðinn margaldur á stærð. Best er að ná þeim af með flísatöng en þá verður höfuðið eftir inni og verður stundum að fara til læknis til að láta taka hann út. Kosturinn er hins vegar að þið fáið ekki sýkingu á þennan hátt. Oft er fólki ráðlagt að brenna tickinn af, eða setja olíu yfir hann svo hann sleppi takinu. Gallinn við þetta er hins vegar að þá er ticknum ógnað og það sem hann gerir er að losa öll eiturefni líkamans inn í bitið og þar með fáið þið allt sem hann hefur. Og tickurin ber með sér sjúkdóm sem kallast Lyme disease. Alls ekki allir tickir gera það en hvernig veit maður hver gerir það og hver ekki. Ráð: Það sem dugar á moskítur dugar á tickinn. Sérstaklega Deep Wood Off. Spreyið vel á ökkla og leggi, sérstaklega ef þið gangið í gegnum hátt gras. Svæðið í kringum Gimli hefur helling af tick og ég hef fengið nokkra á mig á Víðirnesi, þar sem fyrstu Íslendingarnir lögðu af. Það góða er að fyrstu helgina í ágúst er minna af þeim en á þessum tíma ársins.
Skordýrafræðsla númer 3: Tvisvar á ári fyllist Winnipegvatn af svokölluðum fiskiflugum (ekki eins og okkar fiskiflugur). Þetta eru stórar flugur sem drepast eftir aðeins þriggja daga líf og þá verður lagið af dauðum flugum á vatninu nokkrir sentímetrar á hæð. Þetta er ógeðslegt en skaðlaust. Ég held hins vegar að þær verði búnar að fara í gegnum sín tvö lög fyrir ágúst. Ef einhver er hins vegar á leið til Gimli núna gætuð þið lenti í þessu.
Skordýrafræðsla númer 4: Önnur skordýr eru í raun ekki vandamál á svæðinu. Black flies eru ekki vandamál svona sunnarlega en ef þið farið eitthvað norður eftir þá gætuð þið lent í þeim og þær bíta stykki úr manni. Ógurlega sárt. Sama má segja með Deer flies. Þær eru norðar og einnig austar. Ef einhver er á eigin vegum og fer til Whiteshell svæðisins gætu þeir lent í þessum flugum.
Túristaráð 1: Það er ótrúlega gaman að leigja kajak í Gimli og ferðast um vatnið. Það er líka svo grunnt að þið náið niður í botn á flestum stöðum. Þannig að þótt þið hafið aldrei prófað kajak áður er þetta ekkert mál. Munið bara að ef það er hvasst skulið þið ekki fara of langt í burtu. Það er erfitt að róa á móti vindi.
Túristaráð 2: Í Winnipeg er algjörlega nauðsynlegt að fara niður að Forks þar sem Rauðá og Assiniboine áin mætast. Þar er lítill markaður sem hægt er að skoða (mæli með að þið smakkið fudge, sérstaklega ekta kanadískt maple fudge), barnasafn og barnaleikhús, og svo er gaman að ganga upp með Assiniboine ánni upp að Osborne brúnni. Þá fáið þið líka skemmtilegt sjónarhorn af þinghúsinu.
Túristaráð 3: Í Winnipeg er líka skemmtilegt að ganga um hið svokallaða Exchange district. Þetta er hverfi fullt af gömlum vöruhúsum og skemmtilegum byggingum frá því Winnipeg var Chicago norðursins. Þarna eru oft kvikmyndaðar myndir sem eiga að gerast í Chicago bannáranna því Winnipeg er líkari Chicago á þeim tíma en Chicago er. Þarna eru líka lítil kaffihús, skemmtilegar búðir og fleira. Eitt kaffihúsið er líka bókabúð með róttækt efni, ég held hún heiti The Mandrigan. En ég er ekki lengur viss. Staðurinn er algjörlega vegan og maturinn er ótrúlega góður þrátt fyrir engar dýraafurðir.
Túristaráð 4: Þegar þið keyrið frá Winnipeg til Gimli skulið þið horfa vel í kringum ykkur á merkingar bæja. Yfirleitt eru bæir ekki merktir í Kanada (bóndabæir, þ.e.) en þegar þið farið að sjá lítil blá skilti með hvítum stöfum vitið þið að þið eruð komin á Íslendingaslóðir. Og þá er oft skemmtilegt að lesa nöfnin á bæjunum. Stundum eru þau í vitlausu falli sem er svolítið fyndið.
Túristaráð 5: Í Gimli verðið þið að fara inn í Tergesen búðina. Ein elsta búð í Kanada og þarna má kaupa allt frá bókum til fatnaðar. Ef ykkur langar í bækur eftir Vestur Íslendinga þá er þetta staðurinn. Þarna eru líka seldar íslenskar bækur í enskri þýðingu. Ekki það að Íslendinga vanti slíkar bækur. Kaupið endilega bækur eftir David Arnason, sem er ótrúlega fyndinn. Smásagnasöfnin hans eru alveg mögnuð. Barnabækur Bills Valgarðssonar eru margar hverjar mjög skemmtilegar líka. Margir aðrir höfundar eru góðir. Flettið endilega í gegnum bækurnar í Tergesen.
Túristaráð 6: Kanadamenn eru alveg ótrúlega kurteisir og hjálpsamir þannig að þið skulið ekki hika við að biðja um hjálp ef á þarf að halda. Annars eru reyndar líkur á því að þið þurfið ekki að spyrja, ef þið lítið út fyrir að vera ráðvillt mun einhver koma og bjóða fram hjálp sína.
Túristaráð 7: Ég verð að tala um matinn. Þetta þurfið þið að prófa:
-Slurpee (fáið í 7-11 búðunum, Winnipeg er slurpee capital of Canada),
-Bison burger (vísundaborgari, mjög góður),
-Hvað sem er með hlynsírópi,
-Sushi (ekki kanadískt augljóslega en Winnipeg hefur ótrúlega góða sushi staði. Minn uppáhalds staðar er Meji á horni Osborn og River í Osborne Village),
-Tartar kökur (man ekki nafnið á þeim en þið fáið þær víða í Winnipeg. Þetta eru litlar tartarkökur með sírópsfyllingu og rúsínum. Ekta kanadískt),
-Pútín (þjóðarréttur Quebec, franskar kartöflur með sósu og osti yfir. Ferlega skrítin samsetning en eitt af því sem maður verður að prófa þegar maður er í Kanada).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kemur ekki á óvart
30.6.2007 | 15:45
Þetta eru engar nýjar fréttir fyrir mér. Annað árið sem ég bjó í Kanada var skoskur náungi í bekknum mínum og hann var einmitt að taka þetta próf. Einn daginn kom hann með prófið sitt í tíma og las yfir bekkinn og í ljós kom að Kanadamennirnir vissu aðeins svörin við um helmingi spurninganna. Almennt þekkja Kanadamenn sögu og landafræði mjög illa. Á sléttunum var yfirleitt sagt að þekking Torontobúa á vesturhluta landsins væri Vancouver. Þeir vissu ekkert hvað væri þar á milli. Og ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig stendur á því að svo margir vita ekki um stórviðburði í sögu landsins eins og til dæmis sprenginguna í Halifax, FLQ krísuna, Louis Riel, o.s.frv. Svo maður tali nú ekki um heimsviðburði. Einn fyrrum nemandi minn vissi ekki hvaða stórveldi annað en Bandaríkin var aðalleikmaður í kalda stríðinu. Annars er ekkert að marka að svo margir innflytjendur standist prófið því þeir kaupa bók með svörunum í og þurfa bara að læra þau utanað. Það eina sem ekki er í bókinni og þeir þurfa að athuga annars staðar eru breytanlegar staðreyndir eins og til dæmis hver er sitjandi borgarstjóri í borginni þeirra o.s.frv.
Mér sýnist að á myndinni sé þetta CN turninn í Toronto.
![]() |
Helmingur Kanadamanna of fáfróður til að mega vera Kanadamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hið stóra svið Rollinganna
29.6.2007 | 15:20
Rollingarnir spiluðu hér í haust og á staðnum þar sem ég klifra var auglýst eftir starfsmönnum til þess að setja upp sviðið og taka það niður. Tekið var fram að viðkomandi þyrfti að geta klifrað 5.10c nokkuð þokkalega. Ég get klifrað 5.10c en mér leist ekki á hæðina á sviðinu því ég er óvenju lofthrædd af klifrara að vera. Svo ég sótti ekki um þótt mér hefði ekki veitt af peningnum. Vanalega er mikið öryggi við það að klifra því maður er vel bundinn inn og reipið kyrfilega fest á vegginn/klettinn, en í svona dæmi, þegar verið að er taka niður sviðið, er auðvitað ekkert öruggt. Þarna virðast mennirnir hafa verið bundnir í bita sem féll, og þá þýðir lítið að vera með belti og ólar. Óttalega sorglegt. Ætli þetta hafi verið fastastarfmenn eða klifrarar sem þeir réðu þarna í Madríd?
![]() |
Sviðsmenn Rolling Stones létust af slysförum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ultimate frisbee
29.6.2007 | 06:07
Í kvöld prófaði ég nýtt sport, ultimate frisbee (nýtt fyrir mér - ekki nýtt af nálinni). Ég man eftir að hafa kastað frisbee diski þegar ég var tíu eða ellefu ára en annars hef ég alltaf litið á þetta sem hálfgert hundasport. Hér er þetta hins vegar mjög vinsæl íþróttagrein svona á meðal almennings. Reglurnar eru samsafn úr körfubolta, fótbolta og fleiri greinum. Liðið hans Ryans (mannsins hennar Marion) vantaði fleiri stelpur og nú þegar fótboltinn er kominn í frí ákvað ég að skella mér. Það var reyndar skrítið að spila alvöru leik í fyrsta sinn sem maður prófar, en það gekk bara ágætlega. Ég skil reyndar enn ekki almennilega reglurnar og kerfin, og svoleiðis, en ég náði svona því helsta. Ég komst að því að ég er ágætis varnarmaður í þessu því ég náði að komast inn í býsna margar sendingar og kom meira að segja í veg fyrir þó nokkur mörk skoruð. Ég skoraði meira að segja eitt stig sjálf með því að blokkera sendingu og hlaupa svo inn í marksvæðið og grípa diskinn þar. Almennt er ég hins vegar ekki góð í sókn því þótt ég sé góð að grípa og að hlaupa þá kasta ég diskinum mjög illa. Ég þarf að læra köstin betur. Reyndar er alveg hellingur sem ég þarf að læra betur. Þetta er býsna flókinn leikur þegar maður hefur aldrei spilað hann áður.
Við töpuðum fyrri leiknum 11-7 (leikið er til 11) en síðari leikurinn var varla leikinn nema í tíu mínútur eða svo því svo varð slys. Einn strákurinn úr okkar liði féll illa á öxlina sem fór úr lið, og jafnvel eitthvað verra. Við urðum að hringja á sjúkrabíl og enginn þorði að hreyfa hann því hann var að drepast úr sársauka, og þar að auki fann hann ekki lengur fyrir handleggnum á sér. Það tók sjúkrabílinn óra tíma að koma þannig að leiknum var að lokum frestað. Þarna lá greyið í grasinu, í mígandi rigningu, sárkvalinn, og ekkert hægt að gera. Við hrúguðum yfirhöfnum yfir hann, settum föt undir höfuðið, ein stelpan hélt í höndina á honum til að halda handleggnum á sínum stað og annar studdi við. Svo þurfti að skipuleggja hvað ætti að gera við bílinn hans, hver færi með honum á spítalann o.s.frv. Sjúkrabíllinn kom að lokum og handleggurinn var skoðaður vel, og síðan var stráknum gefið hláturgas svo hann fyndi ekki eins mikið til þegar þeir færðu hann. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið of alvarlegt, en það er alltaf slæmt að fara úr axlarlið. Stundum er víst eins og öxlin fari stanslaust úr lið eftir að það gerist í fyrsta sinn. Vona að hann sleppi betur en svo. Það var gott að fara í heitt bað þegar ég kom heim enda búin að vera úti í mígandi rigningunni þá í um fjóra tíma og allt gegnblautt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Morgunverðurinn - mikilvægasta máltíð dagsins
28.6.2007 | 18:26
Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá þykir mér ákaflega gaman að skrifa um mat og hugsa um mat. Það er að hluta til vegna þess að ég hugsa mikið um hvað getur verið bæði hollt (og grennandi) og gott á sama tíma.
Morgunmatur er líklega sú máltíð sem mér hefur alltaf fundist ein svo allra vandasamasta. Ég ólst upp við það að borða oft hafragraut á morgnana og ein af erfiðustu æskuminningunum er þessi:
Ég vakna upp í svarta myrkri við ódauninn af hafragrautnum og hljóðið frá morgunleikfimi útvarpsins. Úff, ég skelf við tilhugsunina.
Ég hef stundum borðað hafragraut eftir að ég varð fullorðin og það er helst að ég geti komið honum ofan í mig með því að setja mikið af púðursykri útá. Einu sinni sagði mamma mér frá því að afi hefði verið hrifin af því að setja sykur á hafragrautinn sinn. Henni fannst það ógeðsleg tilhugsun enda borðuðum við alltaf saltaðan graut. Ég hugsa um það núna hversu vitlaus ég var að fara ekki þá strax og prófa aðferðina hans afa. Það hefði gert lífið mun auðveldara.
En það var ekki alltaf hafragrautur í morgunverð. Stundum fengum við smurt brauð, eða morgunkorn vanalega Cherioos eða Corn flakes (seríus og korn flex) en stundum um helgar Cocoa puffs eða Trix, þegar það fékkst ennþá.
(Útúrdúr: Þegar ég fór til Bandaríkjanna í fyrsta skiptið, árið 1994, hlakkaði ég mest af öllu til þess að fara út í búð og kaupa pakka af Trix, sem ég og samviskusamlega gerði. Það var alveg jafngott og ég mundi, þótt ég væri komin yfir tvítugt, en nú kaupi ég samt aldrei Trix. Kannski kom að því að ég fullorðnaðist.)
Núna samanstendur morgunverðurinn vanalega af hálfri beyglu með smjöri eða smurosti, kaffi, fullri skál af ávöxtum og ef ég nenni, soðnu eggi (það er til að fá smá prótín með). Saman með dagblaði dagsins skapar þetta ákaflega þægilega morgunstund. Þetta sælgæti má sjá á meðfylgjandi mynd. Annars þykir mér líka ákaflega gott að fara eitthvert út á laugardags eða sunnudagsmorgni og fá mér
Hvað finnst ykkur best að borða á morgnana.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Shel Silverstein var snillingur
27.6.2007 | 05:32
Einn skemmtilegasti barnabókarhöfundur Bandaríkjamanna var án efa Shel Silverstein sem var alveg jafngóður og Dr. Seuss og jafnvel betri. Hann skrifaði aðallega ljóð fyrir börn og þótt ég sé orðin aðeins eldri en börn þykir mér ákaflega gaman að lesa ljóðin hans (og skoða teikningarnar sem með fylgja). Ég valdi þetta ljóð sérstaklega fyrir Dodda og þau hin á Amtinu á Akureyri.
OVERDUES
What do I do?
What do I do?
This library book is 42
Years overdue.
I admit that it's mine
But I can't pay the fine
Should I turn it in
Or hide it again?
What do I do?
What do I do?
Seinna ætla ég að segja ykkur frá bókinni hans: Uncle Shelby's ABZ book.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Dásemdarmatur á borðstólum
26.6.2007 | 20:38
Við Marion komum við á Granville island í gær eftir klettaklifrið. Granville island er risastór markaður þar sem má kaupa ferska ávexti og grænmeti, nýjan fisk, kjöt, brauð og allt sem mann dettur í hug, eða sama sem. Sá ég þá ekki mér til mikillar gleði að fíkjur eru orðnar þroskaðar og komnar í sölu. Mmmmmm....fíkjur! Á Íslandi fékk ég aldrei svoleiðis gúmmulaði (bara þurrkaðar) og í Manitoba var hægt að kaupa þær í sirka þrjár vikur í kringum mánaðamótin júlí-ágúst. Hér koma þær fyrr og fást lengur. Ég keypti dollu af fíkjum, bungt af grænum baunum og poka af mandarínumjá, það er hægt að fá mandarínur núna þótt engin séu jólin, og það góðar mandarínur. Ótrúlegt. Í dag fór ég svo út í ítalska delíið hér á tíunda stræti og keypti alvöru ítalskt procuttio (svipað og hráskinka), rosemary/hvítlauksbrauð og svolítið af ólífu-tapanade. Stoppaði svo í súkkulaðibúð á leiðinni heim og keypti pínulítið af súkkulaðihúðuðum appelsínuberki og einn mola með banönum og hvítu súkkulaði ganache. Mmmm, þetta ætti að vera góður síðbúinn hádegisverður. Ég vef svo procuttioinu utan um fíkjurnar (líka gott með hunangsmelónu), ólífurnar fara ofan á brauðið og ásamt súkkulaðinu fer þetta allt saman í munninn á mér.
Nú, ég varð að gera eitthvað. Á þessari stundu eru vinir mínir Rosemary og Doug í mat hjá mömmu og pabba og ég giska á að þau séu annað hvort að borða nýtt lambalæri eða hangikjöt. Ég þarf að forðast heimþrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggperri?
26.6.2007 | 19:56
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Midsommarfest
26.6.2007 | 17:16
Á sunnudaginn fór ég á Midsommarfest í Burnaby. ég hefði reyndar átt að fara á laugardeginum þar sem meira var um að vera. Þá var maístöngin reist og dansað í kringum hana og þvíumlíkt, en ég ætlaði að hitta þar Juliönnu, manninn hennar og mömmu, sem var í heimsókn hjá þeim þessa helgi. Við höfðum talað um að hittast þar um eitt leytið.
Það voru hins vegar hátíðir út um allan bæ, þar á meðal grísk hátíð í gríska hverfinu sem lokaði strætóleiðinni og útúrdúrinn og öll umferðateppan á veginum seinkaði strætó um tuttugu mínútur. Það þýddi að ég þurfti að taka mun seinni lest en ætlað var og missti því auðvitað af strætó í Burnby og varð að taka mun seinni vagn. Ég hringdi því í Juliönnu um eitt leytið svo hún vissi að ég sæti og biði eftir strætó. En hvar náði ég henni? Heima hjá sér.....í Suður fokkíng Surrey. Það er alla vega fjörutíu mínútna ferð fyrir hana til Burnaby. Hún sagðist hafa gleymt því að maðurinn sinn væri með nemanda í aukatíma. Það var ekki mikið verið að hringja í mig og láta mig vita að þau yrðu svona sein. Ég mætti því ein á svæðið og þekkti næstum engan. Hitti reyndar Irene í Íslandsbásnum og svo Óla Leifs sem var að fara heim. Ég vafraði því um ein, settist svo niður með roast beef snittu...ein. Löngu seinna kom ég aftur að Íslandsbásnum og þar var Julianna. Ég skammaði hana fyrir að hafa ekki hringt í mig þegar hún kom á svæðið - svona af því að við ætluðum nú að hittast þarna. Hún sagðist vera nýkomin - væri varla búin að vera þarna nema í um hálftíma. HÁLFTÍMA. Ég var þá búin að vera þarna ein í næstum tvo tíma. Ég þarf ekki að taka það fram að ég fór í fýlu. Lágmark að láta mann vita þegar plön fara út um þúfur - sérstaklega þegar allir hafa síma.
Um hálffjögur var farið að taka saman og ég hjálpaði við að pakka dóti niður í kassa og bera það út í bílinn hans Joe, sem er sonur Ninu Jobin. Hann er alveg ótrúlega líkur Bjarna móðurbróður sínum (Tryggvasyni - geimfara). Ég nefndi það við Juliönnu eftir á (þegar mér var runnin reiðin að mestu) og hún var alveg sammála. Sömu andlitsdrættirnir, sama brúna hárið. Algjörar dúllur báðir tveir. Trúi því ekki að Bjarni sé kominn um sextugt.
Það minnir mig reyndar á alveg ótrúlega skemmtilegan útvarpsþátt sem ég hlustaði á fyrir nokkrum árum. Þar var viðtal við Svavar heitinn Tryggvason, pabba Bjarna og Ninu, og hélt hann þrumandi ræður yfir útvarpsmanni. Sérstaklega var hann stórorður um Vestur Íslendinga og sjávarútveg. Ég kynntist Svavar eftir að ég flutti hingað til Vancouver og við áttum oft langt tal saman á samkomum í Íslandshúsi. Hann fylgdist greinilega vel með því sem gerðist á föðurlandinu og skammaðist mikið yfir stjórnvöldum. Var alveg sannfærður um að Davíð og hans gengi væru að ganga algjörlega frá landinu. Stundum var honum svo mikið um að maturinn skyrptist út úr honum og þá var betra að sitja ekki of nærri. Það var alltaf gaman að tala við Svavar og hans er sárt saknað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gamla myndin (úr Nolli)
23.6.2007 | 20:51
Gamla myndin að þessu sinni er líklega ein af elstu myndunum sem til eru hjá mömmu og pabba og er að öllum líkindum tekin snemma á árinu 1906. Á myndinni má sjá Björn langafa minn og Önnu langömmu mína með elstu dætur sínar tvær. Ég veit ekki hver stúlkan er sem stendur að baki þeim. Amma Stína, á fyrsta árinu, situr í fangi móður sinnar en Sigga í fangi föður síns.
Fyrir þá sem hafa ættfræðiáhuga mun ég nú gefa aðeins betri upplýsingar.
Langafi minn, Björn Jóhannesson var fæddur á Nolli í Grýtubakkarhreppi, Suður-Þingeyjarsýslu þann 1. febrúar 1877 og kona hans Anna Pálsdóttir fæddist í Hrísey 14. mars 1883. Ef það er rétt hjá mér að þessi mynd sé tekin 1906 þá eru þau hjú sem sagt 29 og 23 ára á myndinni. Sigríður Þóra Björnsdóttir fæddist á Nolli 2. nóvember 1903 og amma, Kristín Björnsdóttir fæddist tæpum tveimur árum síðar, 6, október 1905. Þar á eftir komu svo Jóhannes Kristján, Guðbjörg, Hólmfríður, Snæbjörn og Ingibjörg (eða Jói, Bogga, Fríða, Snæbjörn og Inga eins og amma kallaði þau). Björn og Anna, svo og börn þeirra sjö mynduðu svo Nollarættina svokölluðu.
Amma talaði stundum við mig um móður sína. Hún hafði þetta svarta krullaða hár sem ömmu fannst það fallegasta í heimi. Hún sagðist alltaf hafa öfundað móður sína af hárinu. Og langamma var líka duglegust allra. Hún var alltaf að vinna. Þegar amma vaknaði var matur á borðum og mamma hennar á fullu, og þegar allir voru farnir að sofa þá var langamma enn að. Það er svolítið skemmtilegt að löngu seinna lýsti pabbi móður sinni á nákvæmlega sama hátt. Þannig að þótt amma hafi ekki fengið hárið frá móður sinni þá fékk hún greinilega dugnaðinn þaðan.
Ég vildi óska að ég hefði skrifað niður sögurnar sem afi og ömmur mínar sögðu mér. Það er svo hræðilegt að hugsa til þess að minningar þeirra skuli meira og minna allar glataðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)