Færsluflokkur: Bloggar

Kosningaréttur

Eitt af því versta sem ég get hugsað mér er að geta engin áhrif haft á það sem gerist í kringum mig. Af því að ég er íslenskur ríkisborgari, en ekki kanadískur, hef ég engan rétt til kosninga hér í Kanada. Þess vegna get ég ekkert gert til að koma í veg fyrir að hálfvitar séu kosnir í allar stöður. Núna eru nokkurs konar sjálfstæðismenn þjóðarstjórnina og nokkurs konar hægrisinnaður Framsóknarflokkur við stjórn Bresku Kólumbíu. Hvort tveggja er slæmur kostur og vinstrimenn, NDP, komast lítið áfram. Þó eru þeir við völd í bæði Manitoba og Saskatchewan og gengur vel þar, en í öðrum fylkjum gengur ekki svo vel. Nú er ég ekki að segja að mitt eina mögulega atkvæði hefði breytt neinu, þar sem í engum þessa kosninga hefur nokkur unnið með einu atkvæði, en mér fyndist ég samt hafa einhver áhrif ef ég gæti kosið.

Það sem hefur huggað mig er að ég hef alla vega haldið kosningarétti mínum á Íslandi. Til dæmis kaus ég í síðustu ríkisstjórnarkosningum, og í síðustu forsetakosningum, en nú var ég að komast að því nýlega að ég hef ekki kosningarétt í sveitastjórnarkosningum. Ég hélt að það sama ætti við og um Alþingiskosningarnar, að ég ætti kosningarrétt þar sem ég átti síðast lögheimili. En nei, það er ekki svo. Maður missir kosningarrétt sinn við það að flytja burt. Nú þykir sumum það kannski eðlilegt, benda á að fyrst maður býr ekki í viðkomandi sveitafélagi ætti maður ekki að hafa nein áhrif á það sem þar fer fram. En fyrir okkur sem erum í þessarri stöðu lítur málið öðruvísi við. Ég hef engan kosningarétt í Kanada, og nú eru Íslendingar farnir að plokka af mér kosningaréttinn líka. Ég hef sem sagt ekki nein áhrif á það hvernig neinni borg er stjórnað. Mér líður svolítið eins og Stefáni G. þegar hann sagði: Ég á einhvern veginn orðið ekkert föðurland. 


Fótboltavertíðin hefst.

_mg_4703.jpg

Í kvöld spiluðumvið (Vancouver Presto) fyrsta fótboltaleik sumarsins. Við spiluðum á móti Vancouver Geckos en þær lentu í þriðja eða fjórða sæti í deildinni í vetur (og við vorum nokkkuð lægri!!!). Því miður töpuðum við leiknum. Við komumst ekki almennilega í gang fyrr en í seinni hálfleik en á meðan við spiluðum illa náðu þær að skora þrjú mörk á móti aðeins einu frá okkur. Við bættum við í seinni hálfleik en leikurinn endaði samt 3-2. Ég skoraði bæði mörkin okkar og er þokkalega ánægð með það. Það hefði verið gott að bæta við einu svo við gætum jafnað en það fór ekki þannig. Í fyrra sumar töpuðum við aðeins tveimur leikjum eða svo þannig að kannski er þetta bara dæmi um að fall er fararheill. 

 Fjórar nýjar stelpur spiluðu með okkur. Ein þeirra, Lisa, er frá Englandi og hefur aldrei spilað áður en er mikill fótboltaaðdáandi (Arsenal) og hefur andað að sér fótboltaloftinu frá fæðingu. í sínum fyrsta leik var hún þegar orðin betri en sumar stelpurnar okkar sem eru búnar að spila í þrjú ár. Hún sýndi mikli betri skilning á leiknum og var hörku dugleg líka. Sú á eftir að verða góð. Ég spái því að ef hún spilar með okkur næsta vetur þá verði hún orðin svaka góð næsta vor. Okkur veitir ekki af fleiri góðum.


Röð og regla

Í nótt mun merkileg stund gerast í lífi okkar allra. Nokkuð sem gerist aðeins einu sinni á öld. Tölurnar í dagsetningu og tíma raðast þannig saman:

01:02:03 04/05/06

Þetta er auðvitað athyglisvert fyrir alla sem hafa áhuga á röð og reglu. Þannig að ég legg til að þið vakið fram eftir í nótt - alla vega þar til tvær mínútur yfir eitt.

Ég mun ábyggilega ekki gera það, jafnvel þótt ég sé meyja og ætti því að hafa gífurlegan áhuga á röð og reglu. Nei, fyrst og fremst vegna þess að ég er enn dauðþreytt. Í gær hjólaði ég í Cliffhanger (klifursalinn) í fyrsta sinn síðan í fyrra sumar (sirka 50 mínútur að hjóla aðra leið), klifraði svo í eina þrjá tíma og hjólaði svo heim. Og þar sem ekkert ykkar hefur heimsótt mig þá vitið þið ekki að ég bý upp á stórri hæð og það er býsna erfitt að enda svona hjóltúr á því að hjóla upp brekkuna. Stundum ef ég er þreytt leiði ég hjólið upp erfiðasta hjallinn en í gær hjólaði ég með Matt (einum af klifurfélögum mínum) og fannst því of aumingjalegt að gefast upp. Í dag lætur líkaminn mig vita af þessu.   

 

 

 


Er vorið komið?

img_5848.jpg

Ég var eitthvað að væla um það að það væri alltaf rigning hérna í Vancouver. Það er næstum því alveg satt. Í vetur settum við næstum því met (fyrir borgina). Það rigndi eina 30 daga í röð. Svo rigndi ekki í einn dag og eftir það fór að rigna aftur í aðra 30 daga eða svo. Í fyrra kom vorið einhvern tímann í febrúar. Nú er 1. maí og það er spurning hvort vorið sé komið. 

Reyndar er grasið algrænt en það er ekkert skrítið. Hér er grasið grænt allan veturinn. Öll þessi rigning auðvitað. Og blómin eru á fullu. Túlipananarnir eru  meira að segja farnir að skrælna eins og sést á annarri myndinni. Kirsuberjatrén eru farin að fella krónuna og allt er bleikt í kringum mig. Þannig að það lítur út eins og vor. En maður fer út og það er kalt og hvasst. Og þar til í dag var skýjað, dimmt og af og til blautt.

En þetta átti ekki að vera vælublogg. Mig langaði bara að sýna ykkur þessar myndir. Önnur er af húsinu mínu og blómunum fyrir utan og hin er af gangstéttinni fyrir framan húsið. Í gær var kirsuberjatréð svo fallegt en í dag er það að verða bert út af vindinum. Annars er Vancouver ekki vindasöm borg. Mig er bara farið að langa að ganga um í stuttbuxum.

 


Fleiri myndir

1. maí

Fyrsti maí var að renna í garð hér vestra og ég gleymdi að syngja Maístjörnuna. Það er kannski allt í lagi af því að allir halda að hún sé um 1. maí hvort eð er. En þeir sem hafa lesið Heimsljós vita auðvitað að ljóðið er um 30. apríl. Þess vegna segir hann: Og í kvöld lýkur vetri sérhvers vinnandi manns og á morgun skín maísól, það er maísólin hans. Annars er ekkert haldið upp á fyrsta maí hér í Kanada. Verkalýðsdagurinn er í september. Þannig að ég mun ein steyta hnefann og syngja nallann.

Þegar ég var barn var fyrsti maí nokkurn veginn í sama klassa og sjómannadagurinn og sautjándi júní. Maður var dressaður upp og fór í bæinn. Það sem er mér þó minnistæðast af öllu er að fyrsta maí fór afi í fínustu jakkafötin sín, setti á sig hatt (kannski gerði hann það bara einu sinni en þannig man ég þetta) og var með rauða merkið í barminum. Það er synd að viðurkenna að ég man ekki lengur hvernig verkalýðsmerkið er. Þegar ég reyni að hugsa um það kemur bara í ljós rauða blómið sem Kanadamenn hengja á sig til að minnast fallinna hermanna. En sem sagt. Afi fór í fínu fötin sín og svo var farið niður í bæ og í kröfugöngu. Því miður nýtur þessi dagur ekki sömu virðingar og áður. Fer nokkur í kröfugöngu lengur? Reyndar man ég eftir því að hafa skellt mér í eina þegar ég var í háskólanum heima. Við fórum nokkur úr íslenskunni og staðsettum okkur í göngunni á milli herstöðvarandstæðinga og femínista. Áður en við vissum af vorum við komin með fána og hljóðfæri og örkuðum niður Laugarveginn með látum. Ég sakna þess. Rétt eins og ég sakna þess að sjá gömlu mennina í sínu fínasta pússi reyna að berjast fyrir betra lífi fyrir sig og börnin sín.

Ég vona að allir fylki í bæinn og berjist fyrir hærri launum og betri aðstæðum. Mér sýnist ekki veita af. Ég verð reið í hvert sinn sem ég les fréttirnar að heiman. Vitiði að þeir eru í alvöru að tala um að einkavæða háskólana. Vita þessir asnar ekki að það er ekkert sem gerir Íslandi að eins farsælu landi eins og vel menntaðir þegnar þess. Og þetta á að taka frá okkur!!! Ok, ég ætla ekki að byrja á þessu. Ég þarf að fara að sofa og vil ekki fá martraðir um íslensku ríkisstjórnina.


Að vera Íslendingur

Alveg hreint er það makalaust með okkur Íslendinga að við þurfum allir að vera eins. Allir þurfa að eiga allt það sama, gera það sama...og þótt maður flytji burt af landinu þá virðist það ekkert breytast. Ég þráaðist lengi við  með að kaupa farsíma. Fannst engin þörf á að eiga slíkan grip því það hringir hvort eð er enginn í mig. En eftir að ég flutti til Vancouver lenti ég nokkrum sinnum í því að vera ein stödd að kvöldi til á horni Hastings og Main, aðal morðhorni Kanada, og ákvað þá loks að kaupa svona tæki. í staðinn fyrir piparsprey. Og núna, bara búin að opna bloggsíðu. Ég verð reyndar að játa að ástæðan er ekki svo ég geti verið eins og allir hinir. Ég fór að hugsa um það í dag að ég skrifa næstum því aldrei neitt á íslensku. Stundum sendi ég bréf heim, en vanalega hef ég ekki tíma til að skrifa hverjum og einum og sendi því af og til löng og ítarleg bréf um allt milli himins og jarðar, og af því að ég sendi þau líka á enskumælandi vini skrifa ég þessi bréf vanalega á ensku. Þannig að þessi síða er mín tilraun til þess að halda við mínu ástkæra ylhýra. Ef ég fer að drita niður stafsetningarvillum eða málvillum er það bending til mín um að lesa meira á íslensku.

Annars ætti ég að vera farin að sofa. Fyrir um hálftíma (um 10 leytið á laugardagskvöldi) lauk ég við að skrifa abstract sem ég ætla að senda á ráðstefnu í Nejmagen. Ég er ekkert sérlega vongóð um að komast inn en ef ég sendi ekki neitt kemst ég pottþétt ekki inn. Í morgun kláraði ég annan abstract sem ég sendi til Barcelona. Ég virkilega vonast til að komast þangað en það er eins með þá ráðstefnu. Ekki auðvelt að komast inn. Þar að auki væri það dýrt og ég yrði að hósta upp einhverjum peningum! Á morgun ætla ég að fagna því að klára þessa tvo abstracta, og í gær kláraði ég að fara yfir öll prófin í merkingarfæði þannig að vorið er loksins komið. Reyndar virðast veðurguðirnir ekki vita það. Það rignir stanslaust. Ég hef ekki vitað annan eins rigningarvetur. Vonandi fer hann nú að hætta því ég vil fara að njóta vorsins. Sérstaklega af því að sumarfótboltinn byrjar á fimmtudaginn.

En sem sagt. Þetta er fyrsta færsla og ég vona að þið lítið við aftur. Ég lofa að reyna að skrifa eitthvað áhugavert af og til. Svona inn á milli bullsins. Bíðið bara þangað til ég fer að tala um pólitík. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband