Færsluflokkur: Bloggar
Komin til Toronto
27.5.2006 | 00:12
Þetta hefur verið langur dagur. Vaknaði klukkan fimm í morgun (eftir að hafa verið að pakka og að ganga frá vinnu þar til klukkan tvö) og dreif mig á flugvöllinn. Flugið til Toronto frá Vancouver er um fjórir og hálfur tími og að viðbættri bið eftir fólki sem var seint, og bið eftir töskunni minn var þetta heillangur tími. Síðan var ekkert smá mál að komast til York háskóla sem er í norðurhluta stór-Toronto-svæðisins. Við komum ekki á kampus fyrr en um fimm að Toronto tíma (tvö að Vancouver tíma) sem þýðir að það tók okkur um það bil tvo tíma í strætó að komast frá flugvellinum að háskólasvæðinu. En ég er búin að tékka mig inn (gisti á Garði), búin að skrá mig á ráðstefnuna, borða, athuga tölvupóstinn og get núna dólað mér þar til tími er kominn til að fara að sofa. Ráðstefnan byrjar klukkan níu í fyrramálið, sem er sex að mínum tíma, þannig að það er best að hefja aðlögun strax. Annars er hnéð á mér að drepa mig. Það var of mikið álag á því að spila fótbolta fjóra daga í röð og að sitja svo í flugvél í svona langan tíma með hnéð bogið var einfaldlega og mikið. Ég haltra núna um eins og aumingi.
Skrifa meira á morgun og segi ykkur hvernig fyrr fyrirlestur minn fór.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Júúúúúúúúúúúúúúúúúúhú! Go Taylor!!!!!!!!!!
25.5.2006 | 06:27
Óskin rættist í kvöld. Taylor Hicks er American Idol. Löngu orðinn ástin mín en það er ágætt að hinir annars vitlausu Ameríkanar völdu rétt. Ég reyndi að kjósa en ætli þeir leyfi nokkuð kanadískum símum að ná í gegn. Við Taylor ætlum að giftast um leið og hann er búinn að ferðast um landið með hinum ædolunum. Ég er reyndar ekki búin að segja honum það ennþá - hann hefur nóg á sinni könnu núna - en ég get ekki séð að það verði neitt vandamál með það. Vonin er að hann eignist nógu mikið af peningum til þess að ég geti byggt klifurvegg í kjallaranum okkar!!!!! Ég held ég hafi ekki orðið svona ástfangin síðan ég kynntist Paul McCartney, 10 ára gömul. Alltaf jafn hallærisleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fótboltamót á Saltspring eyju
25.5.2006 | 06:20
Um helgina fór Presto liðið til Saltspring eyju að spila á fótoboltamóti. Leikirnir okkar fóru á eftirfarandi hátt:
4-1
1-1
4-0
5-4
2-1
Við komumst því í útslitaleikinn þar sem við lékum gegn liðinu sem við gerðum jafntefli við. Þar töpuðum við því miður 2-1 og urðum því í öðru sæti. Við fengum hins vegar um 25.000 krónur fyrir það og ætlum núna að kaupa rauðan fótbolta og upphitunarjakka. Við verðum heldur betur flottar þar.
Ég verð hins vegar að viðurkenna að þessi góði árangur er fyrst og fremst fimm stelpum úr annarri deild að þakka. Þær spiluðu með okkur á mótinu því við vorum ekki með fullt lið og þær voru hreinlega frábærar. Það var líka eins gott því mörg liðin sem við spiluðum á móti voru þriðju deilarlið eða annarrar deildar og við hefðum nú ekki staðið okkur vel á móti þeim án þessarra auka stelpna. En við lærðum líka mikið af því að spila með þeim. Því miður dugði það okkur ekki í leiknum í gær sem við töpuðum 3-2, jafnvel þótt við spiluðum mun betur en hitt liðið. Ætli við höfum ekki bara verið þreyttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fótbolti og meira ædol
19.5.2006 | 06:56
Við spiluðum okkar þriðja leik í kvöld og unnum loksins, 3-2. Ég skoraði þriðja markið okkar og ég verð að segja að það var bara nokkuð laglegt mark. . Ég lék á vörnina og skaut ekki fyrr en ég var nokkuð viss um að hafa gott skot. Í síðasta leik komst ég ein inn fyrir en markmaðurinn náði að þrengja svo að mér að ég náði ekki að setja boltann inn. Vildi ekki sömu mistök núna.
En þótt við hefðum unnið leikinn var það ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hitt liðið spilaði færri, 8 til 9 leikmenn (ein meiddist og varð að fara út af). Við hefðum átt að hakka þær, þar sem við höfðum fleiri leikmenn, en þær voru einfaldlega mjög góðar og voru alltaf á undan að boltanum. Þar að auki voru þær nokkuð hrottalegar - sérstaklega ein - og hún hljóp mig tvisvar niður. Í fyrra skiptið komst hún upp með það og ekkert var dæmt en í seinna skiptið fengum við aukspyrnu. Það varð ekkert úr henni.
Eldsnemma á morgun fer ég yfir til Saltspring eyju þar sem við munum taka þátt í fótboltamóti yfir alla helgina - endar á mánudaginn. Því miður kemst ekki markmaðurinn okkar með og við þurfum því að skiptast á að vera í marki. Það er alveg ömurlegt og við eigum ábyggilega eftir að fá á okkur fullt af ódýrum mörkum. En aðalatriðið er að hafa gaman af þessu.
Í sjónvarpinu er helst í fréttum að Taylor er kominn í úrslitin í American Idol. Það er eins gott að hann vinni hina leiðinlegu Katharyn McPhee. Eliott aðdáendur eru allir reiðir yfir því að þegar tilkynnt var að hann hafi fengið fæst atkvæði þá fagnaði Katharyn og foreldrar hennar (sem eru forrík og búa í Beverly Hills), á meðan Taylor og hans foreldrar voru sorgmædd yfir því að sjá Elliot fara. Og þau leyfðu sér ekki að fagna fyrr en eftir á. Þetta gæti eftir að hafa mikil áhrif því margir aðdáendur Elliots munu núna kjósa Taylor. Þeir munu ekki fyrirgefa Katharyn þetta. Þar að auki er ljóst hvað Elliot vill. Þegar talað var við hann eftir keppnina sagði hann að Taylor væri frábær náungi og mjög hæfileikaríkur en um Katharyn sagði hann að hún væri falleg stelpa. Ég held að Elliot muni kjósa Taylor. Svei mér þá, það er meira að segja möguleiki að ég hringi inn og kjósi Taylor. Það er, ef síminn leyfir kanadískum númerum að ná í gegn. Hef aldrei einu sinni prufað. Mér hefur alltaf verið nákvæmlega sama áður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um amerískt sjónvarp
17.5.2006 | 07:24
Núna er svokallaður 'sweepstake' mánuður í Bandaríkjunum. Það þýðir að sjónvarpsstöðvarnar eru að keppast við að fá sem mest áhorf - meira nú en vanalega. í maí er talið nákvæmlega hversu margir horfa á hvern þátt og svo nota sjónvarpsstöðvarnar þetta til að ákveða hvaða þætti á að höggva o.s.frv. Í kvöld var meira að segja vísað í þetta í Boston Legal. Denny Crain segir við Shirley: "Shirley, it's sweepstake month". Og Shirley svarar: "Denny, I'm not gonna kiss you". Og svo gerir hún það samt. Mér fannst ferlega fyndið að þeir skyldu vísa svona beint í samkeppnina.
Vanalega er sjónvarpið gott í maí. Þá eru allir þættir að fara í sumarfrí og út af 'sweepstake' þá reyna þeir að gera eitthvað sérstakt. Eitthvað spennandi svo maður horfi. Law and Order náði í síðustu viku að komast aftur upp í annað sætið á miðvikudagskvöldi klukkan 10. Er þó enn á eftir CSI, sem mér þykir nú orðið nokkuð þreytt. Annars eru L&O aðdáendur í hnút af spenningi. Það er búið að segja að stórfelld breyting verði á þættinum og að einhver muni hætta (þ.e. annar er Anna Parisse sem ákvað að hætta nú nýlega). Sumir óttast að það sé Sam karlinn sjálfur sem sé búinn að fá nóg, enda búinn að vera Jack McCoy í...hvað...ellefu ár? Ég vona að það sé ekki hann því L&O mun missa mikið þegar hann hættir. Sömuleiðis vona ég að það sé ekki Jessi Martin sem þó gæti verið að hætta því hann er nú farinn að fá aðalhlutverk í bíómyndum. er núna að kvikmynda Sexual Healing sem er um Marvin Gay. Jessi leikur Marvin og syngur sjálfur öll lögin. Síðasti þáttur vetrarins verður á morgun og er búið að lofa mikilli skemmtun.
Aðalskemmtunin mín í kvöld var þó American Idol. Aðeins þrír keppendur eru eftir, Taylor Hicks, Elliot Yamin og Katharin McPhee. Mér finnst Kat frekar leiðinleg og vil að hún hætti en mér sýnist það verði Elliot sem fer heim á morgun. Taylor var stórkostlegur að venju og ætti að vera öruggur. En við fáum að sjá það á morgun. Ég set aftur mynd af Taylor hér því hann er uppáhaldið mitt. Soul Patrol Taylor. Sould Patrol!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stöðumat
16.5.2006 | 06:43
Nýlega fékk ég stöðumat frá Háskólanum. Þetta er svona yfirlit yfir það hvernig ég hef staðið mig og hvar ég er stödd í náminu. Skýrslunni er skipt í tvo hluta. Fyrst koma upplýsingar um árangur hingað til (þ.e. hvernig ég hef staðið mig) og síðan kemur mat frá umsjónarkennara (umsjónarkennurum í mínu tilfelli því ég hef tvo). Lauslega snarað á íslensku segir þetta.
1. hluti: Námsskilyrði
Þú hefur lokið öllum skilyrðum nema lokaritgerðinni og hefur færst á kandidatsstig. Þar sem þú hófst nám í september 2003 verðurðu að ljúka öllum skilyrðum fyrir ágúst 2009.
Til hamingju með að fá UGF næsta ár.
2. hluti: Mat frá umsjónarkennurum
Deildin er ákaflega ánægð með árangur þinn. Þú hefur varið báðar GP ritgerðirnar og skilað þeim inn, auk þess að skrifa verkefnislýsingu fyrir doktorsritgerðina. Þú hefur einnig verið mjög dugleg við að halda fyrirlestra og fá verk þín birt og þú hefur auk þess byrjað vel á doktorsritgerðinni. Gott hjá þér!
Ég var auðvitað mjög ánægð með þessa umsögn. Það er gott að heyra að það er metið sem maður gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mæðradagur
14.5.2006 | 06:43
Ég vil byrja á því að óska öllum mæðrum til hamingju með daginn. Reyndar er ennþá 13. maí hjá mér en það er bara tæpur klukkutími í þann fjórtánda. Annars er ég orðin svo rugluð að ég veit ekki hvort mæðradagurinn er alls staðar 14. maí eða hvort það er bara hér í Kanada. Einhvers staðar sá ég á gamalli bloggsíðu þar sem fólk vísaði í mæðradaginn sem 12. maí. Mig vantar sárlega íslenskt dagatal svo ég geti séð hvenær merkilegir dagar eru heima. Vanalega sendir mamma mér dagatal en það gleymdist í ár. Ég er einna hrifnust af þessum litlu þríhyrndu dagatölum sem maður fær t.d. hjá Landsbankanum. En sem sagt, 14. maí er mæðradagur í Kanada.
14. maí er líka afmælisdagurinn hennar ömmu Gunnu. Hún var fædd 1915 og hefði því orðið 91 árs hefði hún lifað. Einn afmælisdaginn hennar eignaðist einhver læðan okkar kettlinga. Ég held það hafi kannski verið Skotta. Við ræddum um að setja bara borða á kettlingana og gefa svo ömmu þá í afmælisgjöf. Sú held ég að hafi orðið snarbrjáluð. Ekki það að henni hafi verið illa við ketti. En hún hefði líklega ekki viljað fá eina fimm, eða hversu margir sem þeir voru nú í gotinu.
En sem sagt, í tilefni þess að amma hefði orðið níutíu og eins árs í dag (kominn 14. maí á Íslandi) verð ég að syngja fyrir hana. Guðrún Helga, ef þú sérð þetta, taktu undir:
You are my sunshine
My only sunshine
You make me happy
when skies are gray
You never know dear
How much I love you
Oh please don't take my sunshine away.
Og það þarf ekki að taka það fram að þetta á að syngja mjög illa. Þá sagði amma alltaf mæðulega: Æi stelpur mínar. Getiði ekki hætt þessu.
Amma var svo sannarlega ekki hin týpíska amma. Maður gat ekki átt von á því að hún laumaði að manni gotteríi eða smápening. Almennt séð held ég að hún hafi ekkert verið sérlega mikið fyrir krakka. Þegar við vorum börn sóttum við miklu meira til afa. En þegar við eltumst breyttist þetta. Ömmu fannst ákaflega gaman að spjalla við okkur Guðrúnu Helgu þegar við vorum komnar í menntaskóla. Þá vorum við orðnar nógu þroskaðar til að hægt væri að eiga við okkur almennilegar samræður. Þegar hún var að lesa stórvirkið um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og hann Daða endursagði hún söguna í smáatriðum. Það skipti engu þótt við reyndum að segja henni að við hefðum engan áhuga á Ragnheiði og Daða. Henni var alveg sama, henni fannst svo gaman að segja okkur frá þessu. Þetta virðist ganga í ættum. Kristbjörg langamma var víst svo minnug á sögur að ef fólk missti af útvarpssögunni fór það bara til langömmu og hún endursagði síðasta lestur. Amma sagði okkur frá Ragnheiði og mamma gerir allt sem hún getur svo hún fái að segja mér frá því sem gerist í Glæstum vonum. Ég reyni að segja henni að ég hafi engan áhuga en hún hefur erft frásagnargleði mömmu sinnar og ömmu og það er rétt svo ég sleppi með aðalatriðin. Og þið sjáið að ég hef erft þetta líka. Ég ætlaði bara að óska mömmu til hamingju með mæðradaginn og ömmu heitinni til hamingju með afmælið, og í staðinn byrja ég að tala um Ragnheiði og Daða. Ömmu þótti það ógurlega leiðinlegt þegar við Guðrún vitnuðum í Megas og sungum: Rangheiður biskupsdóttir brókar- var með -sótt. En hún erfði það ekki við okkur og í staðinn kenndi hún okkur klámvísur. "Ljósum sokkum kemur á, klæðadokkin hýr á brá..." Nei, þetta er ábyggilega ritskoðað. ég get ekki farið með klámvísu á vefnum. Þið verðið bara að trúa því að amma mín skuli hafa kennt mér klámvísur. Já, hún var ekki eins og flestar ömmur og það var alveg frábært að mörgu leyti. Ég átti eina svona fullkomna ömmu sem bakaði kökur, prjónaði, gaf mér nammi og brauð og eldaði handa mér uppáhaldsgrautinn minn þegar ég bað hana um það. Það var amma Stína. Amma Gunna gerði ekkert af þessu en hún gerði svo margt annað. Hún var fyndin og skemmtileg og gerði svo margt sem kom á óvart. Þegar ég hugsa um hana koma svo mörg fyndin atriði í hugann. Eins og þegar mamma var að taka myndir af okkur Guðrúnu í íslenska þjóðbúningnum og amma stóð fyrir aftan hana og kom okkur til að hlæja með því að reka út úr sér tennurnar og setja upp alls konar grettur. Á myndunum erum við skellihlæjandi og ég held að það sé engin þeirra alvarleg.
Hún sagði okkur líka margar sögur frá því hún var ung. Sumar þær sögur hafa orðið frægar í fjölskyldunni og flestir geta farið með þær orðréttar: "Á böllunum í gamla daga vorum við Snjóa systir alltaf fyrstar fram á gólfið að dansa. En svo urðu Snjóa og afi þinn svo full að við Árni urðum að fara með þau heim."
Þegar hún hitti Offa, fyrrverandi kærastann hennar Guðrúnar Helgu, í fyrsta sinn, leit hún á hann, mældi hann svo út og sagði: "Þú ert feitur!" "Ég veit það" sagði Offi greyið. Hvað annað gat hann sagt. Amma var líklega búin að gleyma því að hún hafði farið í garnastyttingu. Eftir á spurði hún mig: "Heldurðu að hann sé farinn að fara uppá hana?" Amma þó, hvað heldurðu að ég hafi vitað um það.
Já, þetta var hún amma mín.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
American Idol
10.5.2006 | 07:15
Hvernig er það, horfa Íslendingar á American Idol eða er það bara íslenska 'ædolið' sem er sýnt heima? Ef þið sjáið ekki það ameríska vitið þið ábyggilega ekkert um hvað ég er að tala núna á eftir en ég ætla nú samt að láta móðinn mása.
Ég horfi almennt ekki á veruleikaþætti. Finnst þeir leiðinlegir, enda einbeita þeir sér að því að sýna fólk að rífast, svikult fólk með undirlægjuhátt o.s.frv. Þetta á ekki við um American Idol. Þar er söngurinn í aðalhlutverki og við fáum aldrei að sjá á bak við tjöldin. Sem er akkúrat eins og ég vil hafa það. Eiginlega er American Idol ekki veruleikaþáttur. Hann er meira eins og spurningakeppni eða eitthvað svoleiðis.
Ég hef af og til horft á þáttinn undanfarin fjögur ár. Ég horfði ekki fyrsta árið nema á úrslitaþáttinn sem ég sá einhvern hluta af. Vanalega er ég reyndar ekki heima þegar þátturinn er sýndur en ef ég er heima kveiki ég vanalega á sjónvarpinu og svo dunda ég mér við að skrifa á meðan lögin eru flutt en hlusta sérstaklega á gagnrýnina. Ég er búin að komast að því að ég hef ekkert vit á tónlist. Alla vega er ég oft gjörsamlega úti að aka þegar ég ber mig saman við Simon og hans lið. Vanalega er mér líka alveg sama um hver vinnur og hver heldur áfram o.s.frv. Það var helst að ég fylkti mér í lið í annarri keppninni, þar sem Clay Aikon og Rubens kepptu. Ég hélt með Ruben sem er stór svartur bangsi með yndislega rödd. Ég hef reyndar ekki keypt plötuna hans enda syngur hann lög sem mér finnst ekkert sérlega skemmtileg.
En að þessarri keppni. Þetta er í fyrsta sinn sem ég horfi á keppnina af áhuga og ég held að það sé vegna þess að svo margir góðir eru þarna núna, og enginn þeirra er að syngja þessi hræðileg danslög sem hafa verið svo vinsæl í þessarri keppni. Þau sem kepptu í kvöld Chris, Elliot, Katharyn og Taylor eru öll stórgóðir söngvarar og öll gætu unnið og öll eiga eftir að búa til áhugaverðar plötur.
En ég á erfitt með að gera upp hug minn. Ég verð þó að segja að eftir frammistöðuna í kvöld held ég að Katharyn eigi skilið að fara heim. Og hún er líka sú sem mér er mest sama um. Hún hefur stundum staðið sig frábærlega en svo inn á milli er hún hreinlega leiðinleg. Og hún var pottþétt verst í kvöld. Hins vegar er hún eina konan sem er eftir og hún má ábyggilega fá fullt af atkvæðum út á það. Þar að auki á hún víst stóran aðdáendahóp.
Mér finnst Elliot yndislegur. Hann hefur fallega rödd og mér líkar við hann. Simon líkar ekki við hann og hann er ófríðastur þeirra fjögurra og á eftir að tapa á því. Í alvöru, fullt af fólki fer eftir svoleiðis hlutum. Margir hafa sagt að hann sé hreinlega ekki efni í stjörnu þótt hann hafi augljóslega hæfileikann. En í kvöld stóð hann sig frábærlega, og á virkilega skilið að komast áfram.
Chris er maður að mínu skapi. Hans tónlist er greinilega rokk alternative sem er einmitt sú tónlistastefna sem ég hlusta mest á þessa dagana og mér finnst alltaf gaman að hlusta á hann syngja. Ég veit að ég á eftir að kaupa plötu frá honum. Hann er líka rokkstjarna í sér. Ég get séð hann sem framvörð vinsællar hljómsveitar. Margir halda að hann eigi eftir að vinna og ég held að hann myndi ekki valda vonbrigðum.
Já, Chris og Elliot eru báðir frábærir, en ég verð að viðurkenna að hjartað er nú í eigu Taylors. Það var persónuleiki hans sem heillaði mig áður en ég fór virkilega að hlusta á hann syngja. Hann er alltaf ánægður og það er enginn sem lifir sig eins inn í tónlistina og hann. Hann á líka bestu setninguna: "It's music, man. If music is in your heart, you feel it, you play it, you sing it, you perform it, you bust your buns doing it. Thats what its all about!" En málið er að Taylor er einfaldlega frábær söngvari. ég hlóð niður af neitnu nokkur af lögunum hans frá því fyrir keppnina og þau eru virkilega góð. Hann hefur þessa yndislegu soul-rödd og það er svo mikill innileiki í því sem hann gerir. Þegar platan hans Taylors kemur út þá mun ég kaupa hana, og ef hann fer í tónleikaferð (aðra en þá með öllu idolgenginu) þá mun ég fara og sjá hann. Það skiptir ekki máli hvort hann vinnur eða ekki. Taylor er þegar orðinn stjarna.
í næstu viku vil ég sem sagt sjá Taylor, Chris og Elliott og það skiptir eiginlega ekki máli hver vinnur keppnina. Þeir eiga allir eftir að ná langt. Kannski er best að Elliot vinni því hann á lengst í land og þarf hjálp frekar en hinir tveir. Taylor og Chris eru einfeldlega báðir orðnir stjörnur nú þegar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Palli og Heather
10.5.2006 | 06:55
Var að sjá á Visi að vandamál eru í hjónabandi hans Palla míns og konu hans. Eiga þau að vera flutt í sundur. Ég myndi ekki segja að þetta kæmi algjörlega á óvart en þykir þetta þó sorglegt. Karlgreyið, en hvað var hann líka að hugsa að fara að giftast konu sem er á aldur við krakkana hans. En það er alltaf slæmt þegar hjónabönd ganga ekki upp.
Nú haldið þið víst að ég sé himinlifandi af því að hann sé kannski að komast aftur á laust og að ég geti þá mætt á staðinn og gripið. En ég verð að benda á þá óyggjandi staðreynd að hann er orðinn alveg hundgamall. Eftir um tvo mánuði getur hann sungið When I'm 64 og það verður ekki lengur í framtíðinni. Jú, þegar ég var svona 10-14 ára dreymdi mig um að giftast Paul (þegar mig var ekki að dreyma um að giftast Paul Young eða George Michael - hvað vissi ég að hann væri hommi - George, það er að segja) en ég vildi gifast ungum Paul. Þeim sem varð frægur og var ennþá ungur og fallegur. Því miður er Paul búinn að vera gamall og hrukkóttur í nokkuð langan tíma núna og þótt ég elski hann enn, og þótt það hafi verið ógurlega gaman að sjá hann á tónleikum, þá myndi ég nú ekki vilja sjá hann naktann. Sorry.
En þetta er verst fyrir barnið. Beatrice er bara tveggja ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Námsstyrkur
6.5.2006 | 06:27
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)