Færsluflokkur: Bloggar

Hvenær er hægt að segja að mynd sé byggð á bók?

Ég fór í bíó í dag sem svo sem er ekki í frásögur færandi, nema hvað ég fór að sjá Hina Boleyn stelpuna (The other Boleyn girl) eftir að hafa lesið bókina. Je minn góður. Á hverju voru handritshöfundar? Ég veit að vanalega er kvikmyndahandrit ekki alltaf mjög trútt upphaflegu bókinni (þegar kvikmynd er byggð á bók) en það var ekkert ógurlega margt þarna sem fylgdi bókinni. Skil ekki af hverju þeir sögðust ekki bara vera að gera mynd byggða á lífi Önnu og Maríu Boleyn (sem hefði líka verið nokkuð frjálslegt því staðreyndum er stanslaust breytt. Hér koma nokkur dæmi:

Í upphafi bíómyndarinnar búa Boleyn systkinin hamingjusamlega í Rochford heima hjá foreldrum sínum. Í bókinni eru börnin öll send í burtu í nám mjög ung, Mary fjögurra ára gömul og hin væntanlega á svipuðum aldri. Stelpurnar eru báðar aldrar upp meira og minna í frönsku hirðinni og síðar í ensku hirðinni, en ekki úti í sveit eins og í myndinni.

Í myndinni ákveður fjölskyldan að Anna verði ástkonan Henrys áttunda, jafnvel áður en hann hefur hitt hana, en hann velur síðan Maríu. Í bókinni er það svo að þegar Henry fer að sýna Maríu áhuga þá gerir fjölskyldan allt til þess að ýta undir það en það er ekki þeirra verk að Henry fær áhuga á henni. Önnu er aldrei ýtt fram fyrr en eftir að María er ófrísk og konungur fer að leita að nýrri ástkonu á meðan María liggur í rúminu.

Í myndinni eignast María son í fyrstu tilraun en konungur lítur ekki einu sinni á son sinn því hann hefur lofað Önnu því að tala aldrei aftur við Maríu. Í bókinni eignast María fyrst dóttur, Catherine og síðan son. Anna lætur konung aldrei lofa því að tala ekki við Maríu framar. Hún veit að hún hefur sigrað systur sína án þess.

Í myndinni lætur Anna reka Maríu í burtu eftir fæðingu sonar hennar, en í bókinni vill Anna hafa hana hjá sér og sendir börnin hennar í staðinn í burtu, og notar svo börnin sem tálbeitu í hvert sinn sem María vill ekki gera eins og henni er sagt.

Í myndinni nauðgar konungur Önnu þegar hann er þreyttur á að bíða eftir henni en í bókinni velur Anna sjálf stað og stund fyrir fyrstu samfarir hennar og konungs.

Í bæði bók og bíómynd giftist María William Carey áður en hún verður ástkona konungs. Í bókinni deyr hann í plágunni en í myndinni er eins og hann hverfi bara. María virðist allt í einu vera einstæð móðir án þess að nokkuð sé frekar minnst á eiginmanninn.

Í myndinni er William Stafford, síðari eiginmaður Maríu þjónn fyrir fjölskylduna sem hefur þekkt Maríu frá barnæsku og þjónar henni. Þau eru einu sinni eða tvisvar sýnd tala saman og svo allt í einu upp úr þurru segir hann henni að hann ætli að kaupa bóndabæ og hún geti komið með sér og orðið konan sín. Í bókinni eru ástir Maríu og Williams besti kaflinn í bókinni og dásamlegt hvernig hann vinnur hana með því að vera einfaldlega dásamlegur maður. Það er ekkert í myndinni sem útskýrir af hverju hún ætti að vilja hafa nokkuð með hann að gera.

Í myndinni er Anna látin missa fóstur sem enginn fær að sjá (sem passar við fyrstu tvö fósturlát hennar). Í bókinni var það hins vegar þriðja fósturlátið sem fór með hana, þegar hún ól barn sem lýst var sem skrímsli. Konungur hafði sent sína eigin ljósmóður á staðinn og sama hvað Anna reyndi að múta henni, ekkert gekk. Konungur fékk að vita að Anna hefði eignast skrímsli sem benti til þess að hún hefði lagst með djöflinum.

Í bókinni er Anna látinn biðja bróður sinn um að barna sig, og kona bróðurins verður vitni að þessu og segir frá. Þegar konungur lætur hálshöggva Önnu þá er hann því að fara eftir því sem honum hefur verið sagt. Í bókinni, og í samræmi við það sem sagnfræðingar telja, þá voru þetta upplognar ásakanir vegna þess að konungur vildi losna við Önnu. Hún gat ekki gefið honum son og hann vildi nýja konu.

Í lokin kemur fram að þótt konungur hafi ekki eignast son þá hafi hann eignast erfingja því rauðhærð dóttir Önnu, Elísabet, ríkti sem drottning yfir Englandi í 45 ár. Þetta er auðvitað bull því Henry eignaðist son, Edward, ásamt Jane Seymour sem hann giftist á eftir Önnu, og Edward þessi varð konungur á eftir föður sínum. Þegar hann dó þá tók við María drottning, dóttir Henry's og Kathrine drottningar, og Elísabet tók svo við eftir lát hennar, þriðja í röð frá föður sínum.

Ég skil ekki svona bull. Ég veit að ekki er allt í bókinni í samræmi við það sem sagnfræðingar trúa núna, en ef maður byggir mynd á bók, þá mætti fara eftir bókinni í fleiri atriðum en allra stærstu dráttum. Þessir tveir tímar í bíói voru ekki sérlega skemmtilegir.

Það gæti vel verið að myndin sé áhugaverð fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina, en þið hin sem hafið lesið bókina, ekki eyða pening í bíómiða. Ekki þess virði. 


Maður þarf víst að setja fyrirsögn

Rut vill endilega að ég segi ykkur frá því að ég skemmti mér ógurlega vel yfir hokkíáhorfi í gær (og nei Auður, ég er ekki ánægð með að Ottawa er dottið úr keppni). Wink

Fyndin auglýsing

Hér kemur ein af mínum uppáhaldsauglýsingum.

 

 

Kia Sedona: There's no safer minivan!


Um óskipulagt fólk

Hópvinna getur verið ógurlega erfið vegna þess að maður þarf að treysta svo mikið á annað fólk, og þegar einhver gerir ekki það sem ætlast er af þeim lenda allir í vanda.

Í vetur hef ég verið aðstoðarkennari í grunnáfanga í málvísindum, einn fimm aðstoðarkennara. Við fimm höfum unnið nokkuð vel saman en prófessorinn hefur verið vandamál. Hún gerir allt á síðustu stundu sem bæði þýðir að við hin þurfum að gera okkar hluta undir pressu, og hvenær sem henni hentar, og það þýðir líka að við vorum stundum í stresskasti yfir því hvort náist að klára hlutina eða ekki.

Á hverjum mánudagsmorgni hafa nemendur  þurft að taka próf og uppkast af prófinu lá vanalega fyrir eftir tíu á sunnudagskvöldum. Endanlegt próf þurfti að vera tilbúið ekki síðar en klukkan níu á mánudagsmorgnum, helst fyrr því þá þurfti að ljósrita það í 150 eintökum. Það sýnir að við hin höfðum ekki mikinn tíma til að lesa prófið yfir og koma með athugasemdir. Stundum náði ekkert okkar að lesa yfir og stundum fóru því villur í gegn. Ég segi alla vega fyrir mig að ég les ekki mikið póstinn minn eftir klukkan tíu á sunnudagskvöldum. Og vanalega byrja ég ekki að vinna fyrr en klukkan níu á morgnana. Þetta var því ekki sérlega gott kerfi.

Við aðstoðarkennararnir sáum svo um kennslu á föstudögum. Oft þurftum við þá að fara yfir fyrirfram ákveðið efni en stundum lá ekki fyrir hvert það efni var fyrr en á fimmtudagskvöldum. Ekki var því mikill tími til þess að undirbúa það sem maður átti að kenna. Ég segi alla vega fyrir mína parta að ég vil helst vita fyrr en á fimmtudagskvöldi hvað ég á að kenna á föstudagsmorgni. Þetta var einmitt verst fyrir mig því ég var eini aðstoðarkennarinn sem hafði ekki kennt þennan áfanga áður.

Og af hverju er ég að tala um þetta núna? Af því að í dag er síðasti kennsludagur og það sem ég þarf að gera í tímanum er að afhenda einkunnir fyrir síðasta prófið og fyrir veggspjaldaráðstefnuna fyrir viku. Við settumst öll niður strax eftir ráðstefnuna og gáfum nemendum einkunnir fyrir veggspjaldið sitt og prófessorinn skráði einkunnirnar í tölvu. Hún lofaði að senda okkur síðan einkunnirnar því við þurfum að láta nemendur fá þær. Nú er rétt rúmur klukkutími þar til kennslutími byrjar, ég þarf að fara út úr húsi eftir hálftíma, og engar einkunnir komnar. Við minntum kennarann á þetta í vikunni, sendum annað bréf í gær og ég sendi svo ítrekunarbréf í morgun - en ekkert komið. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja nemendum sem koma í tímann til að fá einkunnirnar sínar.

Aaargggghhhhhhh. Svona fólk á ekki að hafa rétt til þess að vinna með öðrum! 


Spurning hvort maður ætti að leggja gildrur

Þetta var svona hálfgerður strákadagur hjá mér. Fór fyrst að klifra með Dave og heimsótti svo Mark í nýju íbúðina hans, át pizzu og ís og horfði á San Jose vinna Calgary. Tveir lausir og liðugir karlmenn. Ætti kannski að gera eitthvað í málunum!!!!!

Bara svona venjulegur dagur

Vetrarönnin er næstum búin í skólanum. Á föstudaginn er síðasti kennsludagur og þar með síðasti dagurinn sem ég kenni. Kannski er þetta síðasti kennslutími minn við UBC. Og það sem meira er, við erum ekki með neitt lokapróf í þessum áfanga heldur höfum við haft lítil próf í hverri viku og í dag fórum við yfir það síðasta. Einkunnir eru því tilbúnar fyrir áfangann og ég þarf ekki að eyða neinum tíma í að fara yfir lokapróf. Jibbí!!!!!

Sat símafund í morgun með verðandi yfirmönnum mínum hjá Vanoc. Við vorum að ræða um hvernig UBC getur komið að Ólympíuleiknum, t.d. með því að útvega aðstöðu við tungumálamat. Ég sendi síðan póst á yfirmann tungumálavers heimspekideildar og við munum hittast til að ræða málin í næstu viku. Að sumi leyti er ég því farin að vinna nú þegar en verð samt að halda því í lágmarki því ég á að vera að skrifa ritgerðina mína. Mun þó fara í hádegisverð með yfirmönnunum tveimur í lok mánaðarins. Önnur þeirra býr í Salt Lake City og kemur hingað bara af og til. Við ætlum því að nota tækifærið og hittast allar þrjár næst þegar hún er í bænum. 

Fyrstu leikirnir í Stanley bikarnum voru leiknir í dag. New York vann New Jersey eins og ég bjóst við og Pittsburgh vann Ottawa, eins og ég bjóst líka við. Leikirnir hér vestra eru enn í gangi en staðan nú þegar annar leikhluti er næstum búinn er sú að Colorado er tveimur mörkum yfir Minnesota og Calgary er marki yfir gegn San Jose. Bæði gegnt spá minni. Hins vegar er spá mín ekki um einstaka leik heldur hver vinnur seríuna þannig að ég hef engar áhyggjur.

Ég var að hugsa um að fara á skíði á morgun þar sem ég á eftir einn dag á Whistler kortinu mínu. En ég er búin að fara svo seint að sofa undanfarið og er svo þreytt eitthvað að mig langar alls ekki að vakna klukkan sex og sitja svo í rútu í rúma þrjá tíma. Í staðinn ætla ég að fara og klifra. Marion er flutt úr bænum svo ég get ekki klifrað með henni lengur en ég get klifrað af og til með Dave sem er kunningi minn úr UBC. Hann er í doktorsnámi í tölfræði. Þekki örfáa í viðbót sem ég gæti klifrað með ef þannig liggur á mér.

Hlakka til að spila fótbolta á laugardaginn. Það var svo skemmtilegt síðast. Er samt að vona að ég verði ekki skotin niður að þessu sinni.

Hef ekkert gáfulegt að segja ykkur enda geri ég ekkert að gagni þessa dagana. Alla vega ekkert sem er nógu spennandi til þess að segja frá því. Verð að gera eitthvað í málunum. Einhverjar uppástungur??? 


Ég er Nöldurstrumpur

Strumpaprófið er frábært. Lýsir mér algjörlega.

Grouchy Smurf

Lauslega þýtt á íslensku segir hér:  

Þú ert vanaföst og líkar ekki við breytingar. Þú ert mjög opinská með hugsanir þínar og ert ekki hrædd við að segja hlutina eins og þeir eru. Margir myndu segja að þú værir neikvæð manneskja en innst inni eru virkilega ástúðleg og umhyggjusöm. Það þarf bara rétta manneskju til þess að draga þig út úr skelinni. Þessir fáu sem þú leyfir að koma nálægt þér eru betri fyrir það.  

Má finna það hér: http://bluebuddies.com/smurf_fun/smurf_personality_test/ 

Við þetta má bæta að strumpa nafnið mitt er Cuddly Smurf eða Kelistrumpur. 


Skotin niður

Ég hef aldrei áður verið skotin niður í orðsins fyllstu merkingu en það gerðist í dag.

Liðið mitt var að spila fyrsta alvöru leikinn í innanhúsboltanum og ég var með skotmark á mér allan tímann. Undir lok fyrri hálfleiks barðist ég um boltann við stóran og sterkan karlmann í hinu liðinu og lenti einhvern veginn undir og á úlnliðnum. Ekkert brotnaði en ég er svolítið sár. Fór útaf, setti ís á úlnliðinn og plástur á hnéð og fór aftur inná.

Þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum stóð ég í vítateignum og William, Hollendingurinn í okkar liði, skaut boltanum fast að marki - nema hvað í stað þess að hitta markið þá hitti hann mig fyrir framan markið, beint í vangann og ég flaug afturábak eins og í teiknimynd. Ég var viss um að þetta hlyti að hafa verið svolítið fyndið að sjá en mér skilst að hljóðið sem kom frá hinum hafi ekki verið hlátur heldur djúp andköf. Þetta leit víst ekki vel út. En ekkert alvarlegt gerðist og Dave, þjálfarinn minn í Presto, og fyrirliði innanhúsliðsins grínaðist með það að þeir hefðu bara viljað vita hvort ég gæti staðið í marki ef á þyrfti að halda. Ég hefði staðist prófið. Annar strákanna (hef ekki hugmynd um hver þeirra, var svolítið utanvið mig) vildi fá að sjá á mér vangann (sem ég hélt um með hendinni) og þegar hann hafði litið á andlitið kvað hann upp dóminn: No worries, still beautiful. 

Mér dauðsveið í vangann lengi á eftir en þegar hitinn fór úr því tók ég eftir að hálsinn hafði orðið verr úti. Ég gat ekki snúið höfðinu til vinstri. En það er að lagast líka. Sef þetta úr mér.

Best var að við unnum leikinn 8-6 og byrjum því vel í vormótinu.  


Kókosbolla og Lindubuff

Allt í einu langar mig ógurlega í kókosbollu...og Lindubuff—eins og það var þegar það var framleitt á Akureyri í gamla daga, ekki eins og það er núna (veit ekki af hverju þeir þurftu að breyta uppskriftinni). Og ég gæti vel hugsað mér að borða svolítið af Paprikustjörnum með þessu og einnig kartöfluflögur með osti og lauk frá Maarud. Og það er bara sunnudagsmorgunn! Og ekkert af þessu fæst úti í búð hjá mér. Vona að eitthvert ykkar sendi mér hugskeyti næst þegar þið njótið einhvers þessa og sendið það þannig að ég fái ekki bara að vita að þið eruð að borða þetta heldur fái ég líka unaðinn sem því fylgir!!!!!

Skíðaferð

Ég fór til Whistler á skíði á fimmtudaginn. Ákvað á miðvikudagskvöldið að ég yrði að skella mér. Fór bara ein. Ég var að vona að ég gæti reglulega fengið far með fólki hérna á svæðinu en það hefur ekki gengið upp mjög oft þannig að ég varð bara að láta mig hafa það að fara með rútunni. Gallinn við það er að ég bý hvergi nálægt rútustoppistöð sem þýðir að ég þarf fyrst að fara með strætó til að ná rútunni og það tekur sinn tíma líka. Á fimmtudaginn lagði ég af stað heiman frá mér klukkan sjö um morguninn til að ná rútunni klukkan átta, við vorum komin til Whistler klukkan hálfellefu og ég var komin upp í fjallið klukkan ellefu. Sem sagt, fjórum tímum eftir að ég lagði af stað að heiman. Fjallinu er svo lokað klukkan fjögur (aðeins fimm tímum síðar), rútan lagði af stað klukkan hálf fimm og ég var komin heim til mín klukkan átta. Þannig að ég eyddi sjö klukkutímum í rútu og strætó til að geta verið á skíðum í innan við fimm klukkutíma. Þetta er gallinn við rútuna (fyrir utan að það er um það bil þrisvar sinnum dýrara fyrir mig að taka rútuna en að fá far með einhverjum og taka þátt í bensínskostnaði).

En þetta var vel þess virði. Snjórinn var frábær, veðrið var æðislegt og ég skemmti mér konunglega. Þótt það sé að mörgu leyti skemmtilegra að skíða með öðrum þá eru ákveðnir kostir við það að vera einn:

1. Maður skíðar þá leið sem mann langar til hverju sinni.
2. Maður þarf aldrei að vera hræddur um að týna þeim sem maður er með (sem gerist all oft annars)
3. Maður fær sér að borða þegar maður er svangur en ekki á fyrirfram ákveðnum tíma (sem er nauðsynlegt ef maður er með mörgum) eða þegar einhver annar er svangur)
4. Maður er líklegri til að spjalla við ókunnuga í stólalyftunum.
5. Maður bíður styttra í röð því einstaklingsröðin er vanalega styttri en hin.
6. Manni leiðist ekki félagsskapurinn!

Ég set inn nokkrar myndir sem ég tók. Hér getið þið séð hversu fallegt er hjá okkur hér á vesturströndinni. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband