Færsluflokkur: Bloggar
Nú er ég alveg í rusli
4.4.2008 | 06:16
Í kvöld er ég nærri gráti. Mitt elskulega ástkæra hokkílið sem hefur veitt mér svo mikla skemmtun í vetur missti í kvöld af úrslitasæti og því er það svo að leikurinn gegn Calgary á laugardaginn er síðasti leikur vetrarins. Ég mun því ekki njóta sömu skemmtunar í apríl í ár og ég gerði í fyrra. Ekkert meira hokkí fyrir mig. Ég horfi kannski á einn og einn leik með Ottawa eða Montreal en það verður ekki það sama. Þetta þýðir líka engin fleiri viðtöl við Vigneault þjálfara. Fæ ekki að sjá hann aftur fyrr en í september. Það er allt of langur tími.
Mér finnst að þið ættuð öll að vorkenna mér núna því hokkíið hefur bætt upp allt það sem hefur vantað í líf mitt. Nú þegar það er horfið á veit ég ekki hvað ég á að gera af mér.
Við töpuðum í kvöld fyrir Edmonton Oilers, liðinu hans Bjarna Gauta. Þeir voru þegar úr leik og mér fannst þeir gætu nú sýnt smá þjóðrækni og hleypt okkur áfram!!!!! En þar sem tekið er tillit til þess að sigur okkar á þeim um daginn henti þeim út úr úrslitasæti má svo sem segja að það hafi verið sanngjarnt að þeir drógu okkur niður með sér núna. En Bjarni minn, eins og mér hefur nú verið vel við Oilers (sérstaklega Jaret Stoll sem er fallegasti maður í NHL deildinni) þá verð ég að viðurkenna að ég hata þá pínulítið núna. Það mun sjálfsagt lagast fljótt. Við getum að mestu sjálfum okkur um kennt. Við áttum yfir fjörutíu skot að marki en Garon sá við öllum nema einu.
Reyndar spiluðu dómararnir í hvítum búningum í þriðja leikhluta því frammistaða þeirra var skammarleg. Það kom t.d. tvisvar fyrir að Garon markvörður fór of hátt með kylfuna, í annað skipti rak hann hana næstum því í augun á Naslund, en ekkert var dæmt á það. Tvisvar sinnum í viðbót síðustu tíu mínúturnar var illa brotið á okkar mönnum án þess að nokkuð væri dæmt en svo þegar um tvær mínútur voru eftir var dæmt hooking á okkur. Þar með gert út um okkar vonir. Ég held reyndar að það hafi verið sanngjarn dómur miðað við það sem á að dæmaþarna var um hooking að ræðaen eftir að dómararnir slepptu fjórum brotum gegn Oilers þá hélt maður að þeir ætluðu bara að láta leikinn ganga síðustu mínúturnar. Mennirnir verða að vera samkvæmir sjálfum sér.
En það skiptir sjálfsagt ekki öllu máli. Við hefðum átt að vera búin að spila nógu vel undanfarna mánuði að tap hefði ekki skipt máli. Við höfum gott lið sem hefði átt að komast áfram en endalaus meiðsli í allan vetur hafa sett strik í reikninginn. Á tímabili voru fimm af sex varnarmönnum meiddir. Það munar um minna. En aðalvandamál Vancouver er samt sem áður það að okkur vantar menn sem geta sett pökkinn í netið. Sedin bræðurnir eru góðir en þeir ættu í raun að spila á annarri línu en ekki fyrstu. Okkur vantar sterkan skorarasterkan mann á fyrstu línuna. Það verður væntanlega verk Dave Nonis í sumar, að finna þann mann.
Á meðan spila leikmenn og þjálfarar golf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hin bleika borg
3.4.2008 | 05:32
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Eilífðarstúdentinn Stína
2.4.2008 | 17:54
Már Högnason var í stuði um daginn og lofaði að semja vísu um alla þá sem þyrðu að koma með athugasemd á síðunni hans. Ég vildi að sjálfsögðu vísu og fékk þessa frábæru hérna:
Í fræðin er fröken að rýna
því frumlagi náði að týna
en andlagið fann
því ýmislegt kann
eilífðarstúdentinn Stína
Takk Már!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um kerlingaálftir og tryggingamál
1.4.2008 | 20:43
Ég hef verið að hugsa svolítið um að kaupa bíl. Það verður ákaflega langt í vinnuna mína þegar hún hefst í júní og þar að auki þarf ég alltaf á fótboltaleiki í hinum hluta bæjarins. Ég mun því eyða ótrúlegum tíma í strætó og lestum og enn meiri tíma í að bíða eftir strætó og lestum.
En ég ætla ekki að fara mér óðslega. Ég þarf helst að reikna út allan kostnað, sjá hvort ég hef efni á þessu, reikna líka út tímatap. Og svo kemur líka til greina að flytja frekar í austurbæinn en að kaupa bíl. Það væri ódýrara en á móti kæmi að ég yrði að yfirgefa mitt dásamlega hverfi, missa útsýnið, garðinn, ströndina...það væri erfitt.
En einn liður í að kanna málið var að finna út úr því hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar. Í hverfinu mínu eru tveir tryggingaaðilar, sem segir reyndar ekki margt því Autopac hefur einokun á bílatryggingum. Ég fór inn á fyrsta staðinn og spurði hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar.
-Það fer eftir því hvaða bíl þú ætlar að kaupa. Hvaða árgerð, hvað gerð...
-Ég veit ekki hvað ég mun kaupa, ég er að reyna að reikna út hvort ég hafi efni á að kaupa bíl.
-Ég get ekkert sagt þér nema ég viti hvaða bíl þú ætlar að kaupa.
-Það er ekki mjög gagnlegt, er það?
-Ég get ekkert gert að því.
-En skilurðu ekki að ég get ekki ákveðið hvaða bíl ég ætla að kaupa fyrr en ég veit hversu dýran bíl ég hef efni á að kaupa, og þar spila tryggingarnar inn í.
-En tryggingarnar fara eftir því hvaða bíl þú kaupir.
-Ekki mjög hjálplegt er það?
-Aðrir eiga ekki í vandræðum með þetta.
Eftir svolítið meira þjark yppti ég öxlum og gekk út. Þakkaði ekki einu sinni fyrir mig enda ekki fyrir neitt að þakka. Þar að auki var manneskjan fúl og leiðinleg og bauð ekki einu sinni góðan daginn þegar ég kom inn. Hvorug okkar kvaddi.
Ég fór hinum megin við götuna. Undirbjó spurninguna aðeins og betur og sagðist hafa flókna spurningu. Svo væri nefnilega mál með vexti að ég þyrfti að reikna út hvort ég hefði efni á að kaupa bíl og því þyrfti ég að vita hversu miklu sirka ég þyrfti að eyða í tryggingar, og að ég ætlaði ekki að eyða tíma mínum í að finna út nákvæmlega hvaða bíl ég gæti keypt fyrr en ég vissi hvort ég hefði efni á tryggingunum.
Þessi manneskja var miklu hjálplegri. Hún gaf mér áætlaða upphæð fyrir grunnlínuna, benti svo á hvað gæti hækkað gjöldin og hvað gæti lækkað. Ef ég keypti t.d. gamlan notaðan bíl þyrfti ég bara að borga gruninn, mínus afsláttinn sem ég fengi (fæ næstum því fullan af því að ég er búin að vera með kanadískt bílpróf í næstum átta ár). Ef ég keypti nýrri bíl vildi ég væntanlega hafa hann í kaskó.
Ég kom út af þessari tryggingastofnun með mun betri hugmynd um hvað það kostar að koma bíl á götuna. Ef af þessu verður veit ég við hvern ég mun eiga og þá sérstaklega hvar ég kem ekki aftur inn fyrir dyr.
Annars langaði mig pínulítið að fara aftur á fyrri staðinn, heimta að fá að tala við yfirmann og kvarta undan kerlingarálftinni. Það væri gott á hana. Svona fólk á ekki að vinna í þjónustustörfum. En kannski átti hún erfiðan dag ræfilinn. Verður maður ekki að reikna með því að hún hafi ekki fengið neitt í nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég hljóp fyrsta apríl svo illa að ég er draghölt
1.4.2008 | 19:09
Ég er svo trúgjörn að það er ógeðslegt. Algjörlega bláeyg! Það þarf ekki einu sinni að vera hrikalega trúlegt til þess að ég falli fyrir blekkingunni.
Í dag kom tölvupóstur á fótboltaliðið mitt frá þjálfaranum. Hann segir þar að þótt hann sé búinn að njóta tímans hjá Presto þá sé nú kominn tími til þess að færa sig um set og gera eitthvað nýtt. Það sé búið að bjóða honum þjálfarastöðu hjá North Shore Saints (sem við hötum framar öðrum liðum) og hann ætli að taka henni, og með honum fari Benita og Lucy (báðar ákaflega mikilvægar fyrir liðið).
Ég var niðurbrotin. Ekki væri það bara erfitt að missa Dave heldur Lucy og þá sérstaklega Benitu. Og við þrjár eigum það sameiginlegt að vera meðal þeirra fjögurra síðustu sem eftir eru af upphaflega liðinu fyrir fimm árum. Og við vorum á æfingu í gær. Dave sagði ekkert! Ekkert benti til þess að hann væri óánægður (nema með síðasta leikinn). Óskiljanlegt. Og það sem meira er, ég spila innanhússknattspyrnu með Dave, Lucy og Benitu og yrði því að halda áfram að sjá þau í hverri viku!
Fyrst ætlaði ég ekki að segja neitt en sendi svo póst um að ég ætti ekki til orð. Fékk skilaboð frá Akimi um að hringja í Dave. Hélt hún meinti að hann gæti útskýrt þetta fyrir mér. Dave hins vegar hló og spurði mig hvaða dagur væri í dag. Ég sagði þriðjudagur. En hvaða mánaðardagur? Fyrsti ap.... Ó!
En þetta var ágætt. Ég viðurkenndi að ég væri alltof trúgjörn og að þetta hefði verið fínt gabb. En ótrúlega illgjarnt!!! Dave hló aftur og sagði: Heldurðu virkilega að ég færi að þjálfa Norrh Shore Saints? Af öllum liðum? Nei, mér fannst það undarlegt en eins og ég segi. Það er ekki svo erfitt að ljúga mig fulla. Spyrjið bara Rut!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tveggja ára afmælið
1.4.2008 | 17:24
Vil óska blog.is til hamingju með daginn og þar með öllum moggabloggurum, hvort sem þeir hafa bloggað hér allan tímann eða ekki. Hér er gott að vera hvað svo sem hver segir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frekari fréttir af Dziekanski málinu
1.4.2008 | 06:59
Munið þið ennþá eftir Robert Dziekanski málinu, pólska manninum sem lést á flugvellinum í Vancouver? Eitt af því sem maður skildi aldrei var hvernig stóð á því að hann var á flugvellinum í marga klukkutíma áður en hann lést. Nú hafa yfirvöld birt myndbönd úr eftirlitsvélum flugvallarins og þar má fylla svolítið inn í myndina þótt aldrei verði hægt að skýra til fulls hvað fór fram í huga mannsins þennan síðasta dags hans. Svo virðist sem hann hafi aldrei skilið almennilega hvað hann átti að gera. Hann kom inn í flugvallarbygginguna með öðrum en var sendur í innflytjendaeftirlitið þar sem hann var að flytja til landsins. Líklega hefur hann aldrei almennilega skilið það því hann fór í áttina að innflytjendaeftirlitinu (hefur líklega verið bent þangað) en fer aldrei inn. Þannig líða margir klukkutímar þar sem hann heldur sig í nágrenninu en fer aldrei inn. Að lokum reynir hann að fara út í gegnum tollinn en er þar bent á að hann eigi eftir að fara í gegnum innflytjendaeftirlitið. Starfsmaður labbar með honum þangað. Það tekur um tvo klukkutíma að ganga frá pappírum og honum er leyft að fara. Hann fer í gegnum tollinn og út í almenninginn, en snýr svo til baka og fer aftur inn á öryggissvæðið. Það er þar sem hann gengur af göflunum með hinum velþekktu endalokum.
Vancouver Sun hefur gert skýringarmyndband þar sem atburðarrásin er rakin. Ég reyndi að setja myndbandið inn hér en annað hvort er eitthvað vesen með hlekkinn hjá þeim eða moggabloggið vill ekki önnur myndbönd en þau sem koma frá Youtube. Hver svo sem ástæðan er þá gekk þetta ekki. Þið getið hins vegar farið hingað til að sjá þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bara svona venjulegur dagur
1.4.2008 | 06:41
Það var eitthvað voðalega lítið um að vera í gær en Arnar skammar mig ef ég blogga ekki reglulega þannig að það er best að ég láti aðeins vita af mér.
Ég var voðalega þreytt í morgun enda var ég svo tjúnuð eftir leikinn í gær að ég ætlaði aldrei að komast í rúmið. Var meira að segja að spjalla við Rut á Skype um tvö leytið. Það var reyndar ágæt, með tímamismuninn á Ítalíu og Kanada er það ekki oft að við rekumst inn á sama tíma.
Fór í skólann, fór svo á fund með umsjónakennara, þaðan til læknis. Fékk að vita að ég þarf í ristilspeglun. Er strax farin að hlakka ógurlega til. Sérstaklega laxeringunni og svo því að fá heila myndarvél upp um afturendann. Já, ekkert smá spennandi tímar framundan! Reyndar er heilsugæslan þannig að ég fæ ekki að njóta þessa fyrr en í júní. Eftir tímann hjá lækninum fór ég heim, borðaði svolítið og fór svo á fótboltaæfingu. Við æfðum þótt vetrarvertíðin væri búin en það var aðallega vegna þess að við vildum spjalla aðeins um veturinn og plana fyrir sumarið. Fyrsti leikur sumarvertíðar verður í byrjun maí. Þangað til mun ég halda mér í þjálfun með því að spila innanhúsboltann en þar verður keppt klukkan þrjú á sunnudaginn. Fyrsti alvöru leikurinn. Og fyrsta skipti sem ég spila í þriðju deild. Hef spilað í fjórðu deild með stelpunum og spilaði einn leik með Þór í þáverandi fyrstu deild (kallast víst meistaradeild núna - eða hvað?).
Mig langar að segja eitthvað skemmtilegt eða athyglisvert en það kemur ekkert upp í hugann. Nema hvað ég öfunda ógurlega Carly og Gaylu sem spila fótbolta með mér. Gayla vinnur sem klippari fyrir Canucks hokkí og var nýlega að klippa til heimildarmynd um elskuna mína hann Vigneault. Mikið hefði ég viljað hafa það verkefni!!! Og Carly fékk VIP passa fyrir leikinn í gær og hitti alla sem til einhvers teljast. Ég á eftir að draga upp úr henni smáatriðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Klifurmyndir
29.3.2008 | 04:18
Ég hef stundum minnst á klifrið í bloggpistlinum mínum. Ég klifra aðallega innanhúss. Helsta ástæðan fyrir því er sú að það er ekki hægt að klifra mikið utanhúss á veturna því klettarnir eru of blautir, þar að auki á ég ekki bíl og kemst því ekki auðveldlega á klifurstaði og í þriðja lagi þá ég ekki útbúnaðinn sem er nauðsynlegur til þess að klifra úti. Þ.e. ég á ekki reipi, ekki karabínur, ekki bouldering mottu...
Innanhúss er aðallega um þrjár klifuraðferðir að ræða. Tvær þessar aðferðir hafa með reipi að gera og 14 metra háa veggi. Maður er með belti um mittið sem fer utan um mittið en einnig utan um lærin. Reipið er fest við beltið, liggur síðan upp veginn, er fest í miðjunni í lykkju efst uppi, og hinn endinn er svo í höndum þess sem maður klifrar með. Sá kallast tryggir eða tryggjari (held ég - belayer á ensku). Hann dregur inn reipið þannig að það sé alltaf nokkuð sterkt og ef maður dettur þá sér tryggirinn um að grípa mann. Og já, útbúnaðurinn er þannig að það er ekkert mál. Það er hægt að halda 90 kílóa manneskju auðveldlega með annarri hendinni. Ja, það er hægt að halda þyngri manneskju en ég hef aldrei klifrað með neinum þyngri. Þessi aðferð kallast á ensku toproaping.
Einnig er klifrað leiðarklifur (??? - lead climbing). Þá er reipið ekki fest að ofan heldur klifrar maður upp með reipið og festir það á sirka metra fresti í lykkjur á veggnum. Ég hef aldrei klifrað svona en hef oft hugsað mér það.
Utanhúss er líka um að ræða hefðbundið klifur þar sem engar lykkjur eru til staðar, en að hef ég aldrei prófað heldur.
Þriðja aðferðin finnst mér skemmtilegust. Það er svokölluð grjótglíma (bouldering). Þá klifrar maður miklu lægri vegg sem yfirleitt slútir meira fram og myndar hálfgerðan helli þannig að maður klifrar eftir loftinu. Maður er ekki festur í reipi og ef maður dettur þá lendir maður bara á mjúkri dýnu fyrir neðan. (Já ég veit, algjör ofnotkun á orðinu maður.)
Við Marion erum algjörir grjótglímufíklar og klifrum þannig miklu oftar en í reipinu. Þetta er einfaldlega skemmtilegra. Set hér inn nokkrar myndir frá því í dag. Myndir af mér og Marion en einnig Zeke sem oft klifrar á sama tíma og við. Hann er frábær klifrari og hefur kennt okkur ýmislegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Andsk. íþróttirnar
27.3.2008 | 06:25
Síðustu tveir dagar hafa ekki verið góðir fyrir íþróttirnar mínar. Ég var eitthvað ógurlega veikluleg í dag og klifraði ekki vel. Canucks töpuðu fyrir Calgary í gær og Colorado í dag og eru í síðasta úrslitasætinu eins og er þegar fimm leikir eru eftir. Nashville andar á bakið á þeim og á eftir að leika við miklu lélegri lið. Og til að toppa þetta af þá töpuðum við stelpurnar í Presto í gær fyrir liði sem við áttum að vinna, og erum þar með úr leik í fótboltanum. Sigur hefði komið okkur í úrslitaleikinn.
Ég kenni dómaranum um. Stelpurnar í hinu liðinu voru algjörar tíkur sem brutu á okkur allan leikinn en dómarinn kallaði akkúrat ekki neitt. Þær voru að ýta í bakið á okkur, þær lömdu, þær spörkuðu (í okkur, ekki bara í boltann)...ekkert dæmt. Ég var tvisvar sinnum laminn í handlegginn og einu sinni fékk ég hné í magann. Asninn hann Roy hefur oft verið slæmur en aldrei eins og í gær. Ég veit ekki á hverju hann er. Ég vildi óska að þeir notuðu almennilega dómara í kvennadeildinni. Þegar ég spila með blandaða liðinu innanhús þá fáum við mörgum sinnum betri dómgæslu.
Ég spilaði reyndar ekki síðustu tuttugu mínúturnar. Ég var að berjast um boltann innan vítateigs Coasters þegar ég lenti á hnakkanum og við höggið beit ég í tunguna og ég held ég hafi hreinlega bitið svolítinn bita af. Það var ekki þægilegt. Endaði á því að sofa með grisju í munninum. Og þið vitið hvernig það er þegar eitthvað er að í munninum á manni. Þá lætur tungan staðinn ekki í friði. Eins er það þegar eitthvað er að tungunni...hún er stanslaust að nuddast eitthvað utan í tennurnar. Ég hef enga stjórn á kvikindinu.
Engar íþróttir á morgun. Kannski verður það þá betri dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)