Færsluflokkur: Bloggar

Hvíti knötturinn

Það er fátt sem fer eins mikið í taugarnar á mér eins og þegar annað fólk fer illa með tímann minn. Liðið mitt, Presto, átti að spila undanúrslitaleik í fótboltanum í dag og við vorum allar mættar á svæðið á réttum tíma og tilbúnar að spila. Nema hvað enginn var dómarinn. Við biðum í hálftíma og enginn kom. Við reyndum að hringja í deildina en fengum bara símsvara. Það er óþolandi þegar maður skipuleggur helgina í kringum eitthvað sem síðan verður ekki að veruleika vegna heimsku eða tillitsleysis annarra. Við vitum svo sem ekkert hvað gerðist. Kannski fékk dómarinn hjartaáfall og var fluttur á spítala, kannski klikkaði deildin á því að útvega dómara... hver svo sem ástæðan var þá var þetta ekki skemmtilegt fyrir okkur. Nú þarf að setja þennan leik á annan tíma hvenær sem það svo sem verður. Við spurðum stelpurnar í hinu liðinu hvort þær vildu spila gamni leik í staðinn fyrst við vorum allar mættar þarna hvort sem var, en þær nenntu því ekki. Svo í staðinn skipum við okkar liði í tvennt og héldum æfingu í staðinn.

Um kvöldið spilaði ég svo leik með innanhússliðinu mínu. Við áttum í svolitlum vandræðum með suma strákana í liðinu. Nokkrir eru svo æstir í að skora að þeir einleika boltanum og þeir kunna heldur ekki að slappa af. Þegar staðan var 3-0 fyrir okkur bað Dave alla um að slappa af því við mættum ekki vinna leikinn með of miklum mun. Það er vegna þess að þrír leikir eru fyrst leiknir til að ákveða í hvaða deild við eigum að leika. Við viljum ekki leika í annarri deild og viljum því ekki standa okkur of vel. En það er ekki hægt að stoppa suma og þegar staðan var orðin 7-0 fyrir okkur var Dave orðinn svo pirraður að vörnin var farin að gefa hinu liðinu boltann. Gallinn var að markvörðurinn er ekki ánægður með að fá á sig mörk svo hann lék eins og engill og stoppaði næstum allt sem kom nálægt honum. En það tókst að lokum að leyfa þrjú mörk svo lokastaðan varð 7-3. Það var svolítið fyndið þegar ein stelpan í þeirra liði skoraði þriðja markið. Hún fagnaði svo rosalega að hún fór í handahlaup. Vissi greinilega ekki að vörnin hafði beinlínis spilað boltanum til hennar svo hún gæti skorað. Dave vildi alls ekki að við héldum markinu hreinu. Spurningin er hvernig næsti leikur fer og hvort við þurfum að róa okkur þar líka. En eftir tvær vikur hefst keppnin fyrir alvöru og þá verður nú gaman.

Dómarinn í kvöld var mjög góður. Hann er eldri maður sem leyfði leiknum að ganga og stoppaði boltann bara þegar brotin voru óþarflega gróf. Hann var meira að segja pínulítið fyndinn einu sinni. Það var eftir að hitt liðið skoraði sitt fyrsta mark og staðan var 7-1. Þá kallaði einhver í okkar liði: "Útaf með markmanninn" (markmaðurinn Joe er með cerebral palsy en stendur sig alveg frábærlega þótt fatlaður sé. Strákarnir stríða honum mikið og hann kann að taka því - hefur held ég bara gaman af. Þeir eru allir frændur þessir strákar í liðinu - portúgalskir). Dómarinn kallaði þá á móti:" Hvað meinarðu eiginlega? Markmaðurinn er algjörlega búinn að halda ykkur inni í þessum leik." Hann er samt ekki eins skemmtilegur og Angelo sem er aðaldómarinn í deildinni og sá besti. Hann dæmdi leikinn á eftir okkar leik svo hann var mættur á svæðið þegar við komum af vellinum. Hann kom beint yfir til mín og tók í höndina á mér. Hann hefur alltaf gaman af að spjalla. Hann sagði mér að planið væri að halda fótboltamót á milli deilda hjá Vanoc. Þeir héldu víst svoleiðis mót í kringum jólin og ætlunin er að halda annað slíkt í vor. Hann dæmir fyrir þá. Hann sagði mér að ég skyldi endilega njósna um hvenær þetta yrði svo ég gæti spilað með. Vona að ég fái það þótt ég byrji ekki að vinna þar fyrr en í júní.


Óvænt gjöf að heiman

Ég á bestu foreldra í heimi. Þau hafa alltaf stutt mig í hverju því sem ég hef tekið fyrir hendur og þegar ég var yngri og var að keppa í íþróttum, hvort sem það voru skíðin, frjálsarnar eða fimleikarnir, þá voru þau alltaf á staðnum að hvetja mig. Þau eru alltaf að gera eitthvað fyrir mig og ég vildi að ég fengi tækifæri til þess að hitta þau oftar, svo og bræður mína og fjölskyldur þeirra.

Og í dag fékk ég pakka með páskaeggi. Það var reyndar frá Bónusi (mamma og pabbi eru ekki alveg búin að ná því að súkkulaði á að koma frá Nóa Siríusi) en Bónusegg er miklu betra en ekkert egg. Og þau þögðu algjörlega yfir þessu þannig að það var eintóm gleði þegar pakkinn kom. Fékk líka þessa fínu sokka og litla fána og slúðurblöð. Mér finnst alltaf gaman að sjá íslenska slúðrið þótt ég sitji og fussi og svei yfir vitleysunni.

Dagurinn í dag reyndist betri en ég bjóst við. Ég sat frá níu til fimm og fór yfir miðsvetrarpróf. Ég hélt að þetta yrði ömurlegt en í staðinn reyndist þetta hin mesta skemmtun. Sum svörin voru svo ótrúlega vitlaus að við veltumst um af hlátri yfir þeim. Ég veit að það er ljótt að segja þetta því maður á ekki að hlæja að fyrsta árs nemum, en í alvöru, sumt sem þeim dettur í hug er bara svo bráðskemmtilegt. Eftir að við kláruðum að fara yfir prófin fórum við öll (við erum fimm aðstoðarkennararnir og svo prófessorinn) á Mahony's bar á kampus og þar var verið að sýna Canucks-leikinn. Við unnum Dallas 4-3 og þetta var mjög mikilvægur sigur. 

En nú er ég farin að sofa. Þarf að spila tvo fótboltaleiki á morgun. 


Þessir krakkar geta verið svo þreytandi

Ég hef aldrei skilið af hverju fólk geymir alltaf allt þangað til á síðustu stundu og þá sérstaklega þegar maður er í skóla. Nemendur mínir eiga að skrifa útdrátt úr fræðigrein og skila á miðvikudaginn. Þetta er hópverkefni og það er alltaf erfiðara að vinna slík verkefni því eitt af  aðalvandamálunum er að finna tíma þar sem allir í hópnum geta komið saman.

Síðasta föstudag fengu hóparnir að velja sér grein (engir tveir hópar hafa sömu grein). Ég sagði þeim þá að byrja strax á verkefninu því þau hefðu aðeins eina og hálfa viku til þess og þau mættu ekki geyma þetta fram á síðustu stundu. Ég lagði líka áherslu á að þetta væru níðþungar greinar þar sem um væri að ræða alvöru fræðigreinar en ekki kafla í skólabókum eins og þau eru vön. Og efnið er líka flókið því það er um málskilning og greinarnar koma því úr læknisfræði, sálfræði og hljóðfræði. Fyrir utan að lesa greinina þurfa þau að útskýra um hvað hún fjallar og koma með gagnrýni. Þetta er EKKI auðvelt verkefni.

Í dag var liðin vika frá því þau fengu verkið og nú eru bara fimm dagar þar til þau þurfa að skila því. Enginn hópanna var búinn að lesa sína grein og flestir áttu eftir að finna hana á bókasafninu. Í kvöld fékk ég póst frá einum hópanna þar sem þau spurðu mig hvar þau gætu fundið hana. Tímaritið sem inniheldur greinina sem þau völdu er til á bókasafninu, það eina sem þau þurftu að gera var að skrá nafnið á því í leitarvélina og þau hefðu fengið nákvæmar upplýsingar um hvar hana væri að finna. En það var greinilega auðveldara að spyrja mig. 

Ég velti því stundum fyrir mér hvort þessir krakkar legðu meira á sig sig ef þeir væru á íslenskum námslánum sem væru tekin af þeim ef þeir féllu. En í staðinn borga mamma og pabbi brúsann og lífið er leikur! 


Skatturinn

Undanfarin ár hefur íslenska skattskýrslan mín meira og minna gengið út á það að skrá hversu mikið ég skulda lánasjóðnum og hversu lítið ég á í banka. Þannig að pabbi hefur gert þetta fyrir mig. Að þessu sinni er skýrslan aðeins flóknari því ég hef fengið styrk frá Rannís undanfarin ár og þarf því að fylla inn tekur og frádráttarliði. Svo pabba fannst ég gæti nú gert þetta sjálf sem er alveg hárétt þar sem hægt er að gera þetta á netinu.

Ég verð að segja þetta: Mikið hrikalega eru Íslendingar nú heppnir með  það hversu auðvelt er að gera skattskýrsluna. Þetta var þokkalega auðvelt þegar ég bjó heima enda var ég bara unglingur þegar ég fór að gera skýrsluna sjálf (og lét svo pabba lesa yfir hana) en nú er þetta ennþá auðveldara.

Skýrslan hér í Kanada er algjör horbjóður. Maður þarf að borga bæði fylkisskatt og landsskatt og þarf að reikna út hvorn tveggja. Þá eru mismunandi skattþrep þannig að maður þarf að reikna út prósentuhlutfallið, svo þarf að reikna út eina tölu hér, færa hana inn í reit á öðru blaði, bæta svo við tölum frá enn öðru blaði sem maður þarf að reikna út...maður er stanslaust að fara fram og til baka á milli síðna því á bak við hverja tölu eru flókinn útreikningur. Skýrslan mín er fremur einföld því ég er bara með tekjur frá háskólanum og gjöldin eru skattar, lífeyrissjóður og skólagjöld. Ég á engar eignir sem teljast til tekna, hvorki hús né bíl, almennt séð ætti þessi skýrsla að vera auðveld. En það tekur mig alltaf einhverja klukkutíma að gera hana og ég geri ALLTAF mistök. Og það er ekki það að ég sé svona hrikalega slæm í reikningi, það er bara svo margt að fylla inn að það er auðvelt að gleyma einhverju. 

En ég vildi bara hrósa skattstjóra fyrir það hversu vel þeim hefur tekist að halda íslensku skýrslunni tiltölulega auðveldri. Ef stjórnvöld myndu nú sjá sóma sinn í því að hafa lægri skattþrep fyrir tekjuminna fólk þá væri ég hæstánægð með kerfið. 


Um sendiherra og konsúla

Það er ótrúlega mikill munur á utanríkisþjónustu Íslands og Kanada. Þessu hef ég svolítið kynnst á þessum átta árum sem ég hef búið hér erlendis. Mestu munar um það að ég vann um tíma fyrir Foreign Language Institute of Ottawa sem er undirverktaki kanadísku utanríkisþjónustunnar og sér um að kenna sendiherrum og starfsmönnum þeirra tungumál þeirra landa sem þeir eru sendir til.

Þar eru starfsmenn virkilega vel undirbúnir undir störf sín. Sumir eru sendir í tungumálaskóla í heilt ár áður en þeir eru sendir til starfa. Það hefur jafnvel komið fyrir að starfsmenn sendiráða eru sendir í þriggja ára tungumálanám áður en þeir fá að fara til landsins. Það á t.d. við um marga þá sem fara til Arabaríkja. Reyndar sagði mér einhver að það væru aðallega njósnararnir sem færu í svo langt nám enda þurfi þeir að læra málið ítarlega. En það breytir því ekki að þetta fólk er undirbúið virkilega vel áður en það er sent á svæðið. Ég veit þetta af eigin raun því ég var sjálf í því að kenna núverandi sendiherra Kanada á Íslandi svolítið í íslensku. Hún fékk reyndar bara sex vikna undirbúning því það tók þá langan tíma að finna einhvern til að kenna og eins kom staða hennar upp fremur snögglega. En þar sem ég vann þarna í Ottawa hitti ég fjöldann allan af sendiherrum og starfsmönnum sendiráða sem settust niður frá átta til fjögur og lærðu um tungumál og menningu landsins sem þeir átti að flytja til.

Hvað ætli Íslendingar undirbúi sitt starfsfólk vel? Ég man eftir því þegar ég fór einu sinni á skrifstofu Eiðs Guðnasonar, þáverandi konsúls í Winnipeg, og hann sat og hlustaði á tungumálaspólur á kínversku enda um það bil að taka við sem sendiherra í Kína. Ég er viss um að hann keypti þessar spólur sjálfur og að íslenska utanríkisþjónustan gerði lítið eða ekkert til þess að undirbúa hann undir starfið.

Það er líka mikill munur á því hverjir fá stöður innan utanríkisþjónustu þessara tveggja landa. Fyrsta árið mitt í Kanada var samleigjandi minn að reyna að fá starf í kanadísku utanríkisþjónustunni. Hún var eiturklár, með masterspróf frá Manitobaháskóla, algjörlega tvítyngd á ensku og frönsku, með góða starfsreynslu. Hún tók nokkur próf, komst í viðtöl, en þótti að  lokum ekki nógu góð til þess að starfa innan utanríkisþjónustunnar. Hún fór í staðinn í eins árs nám í fjölmiðlafræði og fékk starf um leið hjá ríkissjónvarpinu CBC.

Sendiherrar Kanada eru vanalega starfsmenn sem hafa unnið innan utanríkisþjónustunnar í mörg ár. Þegar ég var að kenna í Ottawa benti Anna (núverandi sendiherra á Íslandi) mér á mann sem var nýskipaður sendiherra í Róm. Hann var í sömu byggingu og við að læra ítölsku. Hún hvíslaði því að mér að hann hefði fengið pólitíska ráðningu. Þetta þótti skandall í kanadísku utanríkisþjónustunni. Sjálf hafði Anna unnið fyrir ríkið allan sinn feril og fékk að lokum sendiherrastöðu að launum enda hafði hún sannað sig.

Hafandi sagt allt þetta vil ég samt sem áður segja að stjórnmálamenn eru að mörgu leyti vel undirbúnir fyrir sendiherrastöður og ég hef eingöngu haft góða reynslu af sendiherrum úr hópi stjórnmálamanna. Þegar ég flutti til Kanada var Svavar Gestsson ræðismaður í Winnipeg og hann var alveg magnaður í því starfi. Hann og Guðrún bæði enda eru þau sendiherrahjón sem vinna mjög vel saman. Þau reyndust mér ákaflega vel í alla staði og Svavar var gífurlega vinsæll í Winnipeg. Það var algjör synd að hann skyldi ekki hafa fengið að taka við sendiherrastöðunni í Ottawa þegar hún varð loks að veruleika.

Eiður Guðnason tók við af honum og byrjaði rólegar en Svavar hafði. Held að hann sé svolítið feiminn. En innan skamms var hann búinn að ávinna sér traust og virðingu fólksins og ég myndi segja að hann hafi verið ákaflega góður konsúll. Við söknuðum hans líka þegar hann fór. Markúsi Erni kynntist ég ekki eins vel enda var ég aðeins sex vikur í Ottawa og hitti hann aðeins tvisvar á þeim tíma. Mér skilst að hann hafi verið býsna vinsæll þar.

En stjórnmálamennirnir eru ekki endilega betri en þeir sem hafa aðra reynslu. Núverandi ræðismaður í Winnipeg er ákaflega geðugur og vinsæll maður, Atli Ásmundsson. Hann tók við eftir að ég flutti til Vancouver en ég hitti hann nokkrum sinnum áður, á meðan hann starfaði fyrir utanríkisráðherra, og ég hef hitt hann nokkrum sinnum eftir að hann varð konsúll, og ég verð að segja að hann hefur staðið sig alveg geysilega vel í þessu starfi. Frábært dæmi um fólk sem hefur unnið í mörg ár í utanríkisþjónustunni og fær að lokum að fara erlendis og þjóna landi sínu þaðan.

Ég hef líka kynnst konsúlum og sendiherrum sem mér hefur ekki líkað og sem ég tel að hafi ekki staðið sig í starfi, og það er athyglisvert að það hafa ekki verið stjórnmálamennirnir. Þannig að kannski er það alls ekki slæmt að við höfum notað sendiherrastólana sem laun fyrir stjórnmálamenn sem vilja hætta í pólitík.

 


mbl.is Segir sendiherra of marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið 2008

Ég fullyrti það hér á blogginu um áramótin að þetta ætti eftir að verða gott ár í alla staði og gjörsamlega rúlla upp hinu leiðinlega og sorglega ári 2007. Nú eru liðnir rúmlega tveir mánuðir af árinu og það hefur gjörsamlega staðið undir væntingum—hingað til—bæði hvað varðar mig sjálfa og marga nánustu vini.

Sem dæmi. Rut, Helga Fanney og Marion voru allar að leita sér að húsnæði síðari hluta ársins 2007 og ekkert gekk. Allar fundu þær rétta húsið/íbúðina í byrjun árs 2008.

Akimi vinkona mín hefur verið að leita sér að vinnu undanfarið og á sama tíma verið að leita að húsnæði því íbúðin sem hún leigði var seld ofan af henni. Í febrúar fékk hún draumavinnuna og fann íbúð á frábærum  stað í Kits. Hún fékk vinnuna degi eftir að ég fékk mína.

Mark vinur minn var óánægður í starfi, óánægður í sambandi og búinn að fá nóg af sínum húsnæðismálum.  Í febrúar fékk hann tilfærslu í vinnunni í miklu betra starf, fann sér góða íbúð nálægt vinnunni, og hætti með kærustunni.

Julianna og Rut eru báðar ófrískar og eiga báðar von á sér í lok ágúst byrjun september (Rut í lok ágúst Julianna í byrjun september—ef ég man rétt—en hvort tveggja gæti lent hvorum megin við mánaðamótin). Ókei, ég veit að þetta þýðir að börnin voru búin til 2007 en þau munu bæði fæðast 2008.

Sjálf hef ég verið ákaflega ánægð með lífið þessa fyrstu tvo mánuðina. Þar munar mestu um að fá starfið hjá Vanoc en ég hef almennt verið ánægðari með flest.  Ég hef t.d. styrkt vinarbönd og það skiptir miklu máli. Við Akimi erum alltaf að verða betri og betri vinkonur og við Mark höfum líka orðið nánari upp á síðkastið. Vinir mínir sem ég átti fyrir eru allir enn til staðar. Ég spila stundum skvass við hálfíslenska stelpu hér á svæðinu, ég á orðið góða kunningja í klifrinu og er alltaf að kynnast fleirum, ég hef notið þriggja skíðadaga í Whistler, Canucks hafa verið að spila vel upp á síðkastið...

Eins og er get ég ekki kvartað. Ég á yndislega fjölskyldu, góða og nána vini, mér gengur vel í leik og starfi...það eina sem mig vantar er draumaprinsinn á hvíta hestinum!


Skíðaferð til Whistler

Whistler er framtíðarskíðasvæði Ólympíuleikanna 2010. Ég ákvað að kanna málið aðeins og skrapp á skíði.

Lagt var af stað frá Vancouver klukkan sjö á laugardagsmorgni (sem þýddi að ég þurfti að vakna klukkan hálfsex og taka strætó miðsvæðis þangað sem ég var sótt) og við vorum komin á skíðin um tíu leytið. Ég var í bíl og skíðaði síðan með tveim þýskum stærðfræðingum og það var  ágætt en svolítið leiðinlegt til lengdar. Kannski aðallega vegna þess að ég þurfti alltaf að bíða eftir þeim við lyfturnar því ég var svo miklu fljótari niður, en líka vegna þess að þau voru bæði svolítið eins og svona týpískir Þjóðverjar, hvort á sinn hátt. Það þreytti aðeins í mér Íslendinginn.

Við skíðuðum Blakcomb fyrri daginn sem reyndist hinn yndislegasti dagur. Veðurspáin var slæm en þeir hér kunna ekkert að spá og það var meira að segja glaðasól hluta af deginum. Þegar við fórum yfir í nýju jökulbrekkuna var veðrið til dæmis alveg dásamlegt sem var mjög heppilegt því það svæði er eitt hið alfallegasta þarna.

Við fórum niður um fjögur leytið þegar lyftum var lokað (engin flóðljós og því aldrei opið eftir myrkur) og vorum komin í skála UBC rúmlega hálf fimm. Ég var í hóp með post doc fólki úr UBC. Þar var farið í heitan pott sem var ekki svo heitur en hafði þeim mun meiri klór í staðinn. Mann verkjaði í augun án þess að fara með hausinn ofaní. Síðan var sest að spjalli og pízzur pantaðar en klukkan var varla tíu þegar allir voru  komnir í háttinn. Ótrúlegt. En maður var bara svo þreyttur eftir daginn.  

Vaknað var eldsnemma morguninn eftir, um sjö leytið, farið niður í þorp í morgunverð og svo í brekkurnar. Færið var æðislegt, sérstaklega þarna fyrst um morguninn þegar fáir voru búnir að skíða brautirnar. Ég naut þess að taka stórar beygjur og fara hratt, nokkuð sem ekki er hægt að gera þegar brekkurnar fyllast af fólki. Spáð hafði verið yndislegu veðrið með sólskini hluta dags. Það veður var líklega daginn áður því það fór fljótt að snjóa og manni var alveg ískalt á kinnunum. Ég sá eftir að hafa ekki tekið skíðagrímuna sem Rut gaf mér en þegar spáð er hita og sólskyni þá tekur maður ekki með sér skíðagrímu. Ég verð bara að fara að hafa hana í úlpuvasanum.

Ég renndi mér niður nýju brunbrekkuna fyrir Ólympíuleikana. Ég myndi segja að hún sé ekki eins skemmtileg og brunbrekka kvenna í Lake Louise þar sem keppt var á Calgary leikunum 1988, en býsna skemmtileg þó. Ég þarf síðar að prófa kvennabrekkuna. Ég vildi ekki fara niður báðar sama daginn því maður fer alla leiðina niður að Whistler Creek og þarf að taka gondóla til baka. Það er mjög tímafrekt.

Ég fór upp með síðustu lyftum klukkan fjögur og renndi mér niður. Lærvöðvarnir voru um það bil að gefa eftir. Mikið rosalega er erfitt að fara niður allt fjallið í lok dags.

Ég var komin í bæinn um sjö leytið, fór í heitt bað til að slaka á vöðvunum, skellti mér svo í fótboltagallann og kom mér yfir í Burnaby þar sem ég þurfti að spila klukkan tíu að kvöldi. En það þarfnast annarrar færslu. 


Skíðahelgi

Klukkan er tæplega sex á laugardagsmorgni og ég er komin á fætur. Hvers vegna? Af því að ég ætla að skella mér til Whistler og skíða alla helgina. UBC á skála þarna uppfrá og ég ákvað að skella mér í hópferð með postdoc genginu. Ég þekki bara einn þar og hann mun ekki koma uppeftir fyrr en í kvöld. Þannig að ég verð bara að vona að þetta ókunna fólk bíti ekki.

Ég kem heim annað  kvöld en þarf þá að spila fótboltaleik í Burnaby. Það er því ekki líklegt að þið heyrið um helgina fyrr en á mánudaginn. 


Vorið

Úti í garðinum standa krókusar í blóma. Það eru komnir knúbbar á runnana í hverfinu. Í dag sá ég hóp Kanadagæsa fljúgandi norður í vaffi. Ég er ekki frá því að vor sé í lofti.

Fréttir frá Kanada

Hótanirnar í UBC

Í fréttum í gær var sagt frá því að lögreglan í Vancouver væri búin að handtaka nemandann sem stóð að baki hótununum gegn líffræðibyggingunni í UBC fyrir nokkrum vikum. Nemandinn er nítján ára gamall strákur, Hwi Lee. Lítið er vitað um hann en strákur með sama nafni hefur meðal annars keppt á Kanadaleikunum í eðlisfræði. Lögreglan vill ennþá ekkert segja um það hvað fólst í hótununum en þó er viðurkennt að þær hafi beinst gegn einum ritara líffræðideildarinnar svo og nemendum. Jæja, það er gott ð málið er úr sögunni. Þegar maður hefur í huga allar þær skotárásir sem gerðar hafa verið í háskólum undanfarin ár þá er ekki laust við að maður verði pínulítið hræddur þegar svona gerist.

Nágrannaerjur á sjöundu götu

Ég sagði ykkur aldrei frá því hvernig nágrannaerjurnar enduðu hér í húsinu. Þegar frá horfði hafði Rita heimtað að við borguðum allar jafnan hluta í rafmagnsreikningunum og að hún væri ekki skipt eins og alltaf hefur verið, eftir stærð íbúðar. Alison og ég ræddum málin en áður en við höfðum tekið ákvörðun um hvað gera skyldi kom gasreikningurinn. Rita skildi eftir skilaboð á síma Alison um að hún væri sátt við að skipta þeim reikning upp á gamla mátann. Alison hringdi í mig og ég stakk upp á að við myndum bara borga báða reikningana upp á gamla mátann. Við myndum bara láta Ritu fá ávísun fyrir báðum reikningum og svo myndum við bara sjá hvað gerðist. Það varð úr, við borguðum báðar reikninginn samkvæmt gömlu skiptingunni og biðum svo. Ekkert gerðist. Rita sagði ekki orð og mér sýnist málið vera úr sögunni. Líklega hefur sú gamla bara verið í vondu skapi þegar hún frekjaðist þetta og sá svo að sér þegar hún róaðist. Annað hvort það eða þá hún tók ekkert eftir því að við borguðum lægri upphæð en hún bað um!

Sarah Polley er rísandi stjarna

Munið þið eftir henni litlu Söruh Polley sem lék Söru Stanley í þáttunum Leiðin til Avonlea? Sarah er löngu orðin stór og hefur undanfarin ár aðallega leikið í sjálfstæðum myndum utan Hollywood. Hún lék m.a. í þessari undarlegu hálfíslensku mynd No such thing og einnig var hún í Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar. Blaðamenn myndu því segja að hún væri Íslandsvinur. Nýlega skrifaði hún handrit að myndinni Away from her og leikstýrði einnig. Þessi mynd hefur fengið þvílíka lofdóma og í gær vann Sara margfalt fyrir þessa mynd á Juno verðlaununum, hinum kanadíska óskar. Hún vann m.a. fyrir bestu leikstjórn og bestu mynd. Það er því ljóst að Sara litla Stanley frá Avonlea er fullvaxin og er að gera góða hluti í kvikmyndaheiminum. Þið skulið fylgjast með henni í framtíðinni því hún á bara eftir að verða betri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband