Færsluflokkur: Bloggar

Frekari fréttir af Vanoc og töp helgarinnar

Í fótboltanum með mér er kona að nafni Carly. Síðastliðinn mánudag byrjaði hún að vinna fyrir Vanoc sem nokkurs konar almannatengslamanneskja. Hún mun sjá um tengslin milli Vanoc og stuðningsaðilja. Hún sagði mér að þetta væri alveg frábær vinnustaður og ég ætti eftir að finnast dásamlegt að vinna þarna. Hún sagði að hraðinn væri reyndar mikill en allir væru svo áhugasamir og duglegir að andrúmsloftið vær æðislegt. En maður yrði að vera tilbúinn til að vinna mikið. Hún væri búin að vinna í tvær vikur og væri þegar búin að vera þarna tvisvar sinnum til tíu að kvöldi.

Það er gott fyrir mig að þekkja nú þegar einhvern á vinnustaðnum. Við höfum þegar talað um að reyna að nýta okkur íþróttaaðstöðuna á svæðinu vel og jafnvel hreyfa okkur eitthvað í hádegishléum. Það gæti orðið mitt hlutverk að draga Carly niður í leikfimissalinn (já, það er fullbúinn leikfimissalur í húsinu með öllu tilheyrandi).

Ég hlakka til.

Annars er það helst í fréttum að við stelpurnar töpuðum í vítakeppni í gær gegn liði sem við hefðum átt að vinna auðveldlega. Ég veit ekki hversu mörg skot við áttum að marki. Þær höfðu góðan markmann og þótt vörnin hafi ekki verið sérlega góð þá náðist hún að þvælast nógu mikið fyrir til þess að við lentum í vandræðum. Þar með fór von okkar um að komast í úrslitakeppnina. Það ættu þó að vera nokkrir leikir eftir því við eigum enn eftir eina tvo deildarleiki og þar að auki er oftast sett á fót svona aukaúrslitakeppni fyrir þá sem komast ekki í alvörukeppnina. Við höfum einu sinni leikið til úrslita þar.

Hokkíliðið mitt tapaði líka og að þessu sinni vegna þess að þeir léku ömurlega, ekki af því að þeir voru óheppnir. Þetta var leikur sem þeir áttu að vinna. Bæði vegna þess að leikurinn var gegn Chicago sem er neðarlega í deildinni og við vinnum þá alltaf, en líka vegna þess að Chicago liðið var hrjáð af meiðslum og þeir spiluðu því með hálfgert aukalið. Við, sem höfum átt í meiðslum líka, vorum komin með næstum því alla okkar leikmenn til baka. Ömurlegt. Við verðum að fara að standa okkur betur ef við ætlum að komast í úrslitin. 


Í sól og sumaryl...

Ég vil byrja á því að þakka öllum sem hafa sent mér góðar kveðjur. Ég er svona að komast niður á jörðina aftur eftir að hafa svifið um á bleiku skýi í tvo daga.

Dagurinn í dag var ofsalega fallegur. Sannkallaður vordagur. Krókusarnir í garðinum eru komnir upp og þess verður ábyggilega ekki langt að bíða að kirsuberjatrén fari að blómstra. Ég veit að það er svolítið ósanngjarnt að núa þessu um nasir Íslendinga sem sitja í sínum snjó, en dagurinn var bara svo fallegur að ég varð að segja frá því.

Ég fékk mér göngutúr um eitt leytið. Labbaði niður á Arbutus með tölvuna mína í bakpokanum. Planið var að kaupa mér kaffi og köku í sænska bakaríinu og reyna að vinna. En þegar þangað kom...haldiði ekki að þeir séu búnir að breyta hjá sér...taka öll sætin í burtu. Nú er þetta bara eins og venjulegt bakarí þar sem maður getur keypt brauð og farið með það heim. Svo ég keypti sænskt flatbrauð og eitt kardimommubrauð (mmmmm) og fór í leit að öðru kaffihúsi. Fann eitt neðar á Arbutus, fékk mér chai latté og skrifaði og skrifaði. Borðið var hins vegar hátt miðað við stólinn svo ég fékk í axlirnar. Þá var bara að ráði að fara út í  göngutúr í góða veðrinu og smám saman labbaði ég vestureftir. Á Alma settist ég niður á annað kaffihús, Coppa Joe's, fékk mér kaffi, borðaði kardimommubrauð í leyni og hélt áfram að skrifa. Gekk vel og skrifaði eins og vitleysingur. Enda verð ég að gera eins mikið í ritgerðinni og hægt er næstu mánuðina, áður en vinnan byrjar hjá Vanoc. Klukkan sex labbaði ég á vídeóleigu og fékk mér evrópskar myndir (eina norska, eina eftir Kusturica), keypti kjúklinga-shawarma hinum megin við götuna og hoppaði svo upp í strætó. Það var bara hálftíma gangur eftir heim en komið var myrkur og það hafði kólnað. Þar að auki vildi ég borða shawarmað heitt. 

Ég myndi segja að þetta hafi bara verið hinn fínasti dagur. Á morgun spila ég fótbolta. Við þurfum að vinna með nokkurra marka mun til þess að komast áfram í úrslitakeppnina. Ef það gengur ekki fáum við að fara í uppbótarkeppni neðri liðanna - þar er keppt um að verða sigurvegari aumingjannaLoL


Frábærar fréttir

ÉG FÉKK STARFIÐ!!!!!!!!!!!!!!

Frá og með öðrum júní verð ég opinberlega yfirmaður tungumálaþjónustu Ólympíuleikanna í Vancouver 2010.

Meira síðar. 


Undarlegur kvenmaður þetta

Mér hefur alltaf leiðst Anglina Jolie og nú sé ég að hún er líka pínulítið heimsk. Hvernig ætlar hún að heiðra móður sína með því að eignast barnið í Frakklandi? Þetta er eins og að Vestur Íslendingur ákveði að heiðra foreldra sína með því að eignast barn í  Noregi. Frönsk-kanadísk móðir þýðir að móðir hennar er kanadísk og hefur frönsku að móðurmáli. Forfeður hennar komu væntanlega frá Frakklandi fyrir 300 árum eða fyrr. 

Frakkar fóru að venja komur sínar til Kanada í kringum 1500 og fóru að setjast að þar eitthvað að ráði 1620. Vanalega er orðið French-Canadian notað um þá sem búa í Quebec fylki og orðið Francophone notað um þá sem eru frönskumælandi, hvar sem þeir búa. Það er t.d. fjöldi frönskumælandi Kanadamanna í Nova Scotia og New Bruinswick—flestir svokallaðir Acadian—og frönskumælandi svæði má einnig finna í Manitoba og Alberta. Tungumálið sem talað er hefur þróast mjög mikið í burt frá frönskunni sem töluð er í Frakklandi og franskan innan Kanada greinist í alla vega tvær mállýskur/tungumál; Quebeqois frönsku og Acadian frönsku. Þeir eiga stundum erfitt með að skilja hvor annan. Fyrrverandi kærasti minn er Acadian en hefur búið í Gatineau í Quebec í næstum tuttugu ár. Hann kvartar yfir því að Quebeqois fólkið eigi erfitt með að skilja frönskuna sína.

Móðir Jolie, Marcheline Bertrand, var reyndar ekki kanadísk heldur bandarísk en faðir hennar var af fransk-kanadískum ættum. Hann á víst ættir sínar að rekja til Zacharie Cloutier sem fæddist í Saint-Jean-Baptiste de Mortagne í Frakklandi en fluttist til Kanada 1634. Það er kannski fyndnast hér að Angelina Jolie hefur víst margoft tekið fram í viðtölum að móðir sín hafi ekki verið frönsk, sem er víst algengur misskilningur. Þannig að það er svolítið íronískt að nú skuli hún ætla að heiðra minningu móður sinnar með því að eignast barnið í Frakklandi. Af hverju ekki í Kanada? 

 


mbl.is Jolie vill fæða í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bölvuð magakveisa

Laugardagurinn átti að vera skemmtilegur. Planið var að hitta Juliönnu vinkonu mína og mömmu hennar í bröns, leika síðan fótboltaleik og fara svo á þorrablót Íslendingafélagsins. En þetta gekk ekki eftir.

Ég vaknaði klukkan fimm á laugardagsmorguninn með stingandi verk í maganum og ógleði. Ég náði að sofna aftur en þegar ég vaknaði á ný voru bæði verkurinn og ógleðin enn til staðar. Klukkan níu hringdi ég í Juliönnu til að afboða mig í brönsinn enda gat ég ekki hugsað mér að borða. Ég hélt enn í einfeldni minni að ég gæti samt leikið fótbolta og farið á þorrablót um kvöldið. Ég skreið upp í rúm og svaf. Vaknaði um hádegi, enn lasin og skjálfandi af kulda. Hringdi í Rosemary vinkonu mína sem er hjúkrunarkona og hún vildi að ég mældi mig. En ég fann hann ekki svo ég fór aftur að sofa. Vaknaði aftur og varð að hringja í bílstjórann minn og afboða mig á leikinn. Enn nokkrir klukkutímar í þorrablót og því enn tími til að láta sér batna. Svaf, vaknaði enn skjálfandi af kulda með magaverk. Eftir nokkra leit fann ég loks hitamælinn og reyndist vera með 38.4 stiga hita. Það er svo sem ekki mikið en ég fæ aldrei hita. Hef varla fengið hita síðan ég var krakki. Þorrablótið var tekið af dagskrá. Rosemary og Doug komu þó við á leiðinni á blótið og færðu mér Tylenol til að lækka hitann, flösku af jarðaberjaengiferöli og grænmetissoð. Ég yrði að nærast á einhverju. Eina bótin í málinu var að ég gat nú horft á Canucks spila á móti Detroit, toppliðinu í deildinni. En ég sá kannski helminginn. Svaf yfir hinum. Náði þó að vera vakandi síðasta hlutann þegar Kesler skoraði tvö dásamleg mörk og við unnum 4-1. Og svo sofnaði ég. 

Ég vaknaði af og til alla nóttina, enn með magaverk, en klukkan átta um morguninn var ég orðin frísk. Bara voðalega svöng. Fór á opna æfingu hjá Canucks (sem þeir halda einu sinni á ári) og fékk að horfa á þjálfarann minn (ja þeirra – minn (fótbolta)þjálfari er ekki dúlla) í heilan klukkutíma. Fór svo heim og talaði við Tim í tvo tíma. Hann hefur mikla reynslu af atvinnuviðtölum því hann hefur verið í ráðningarnefndum undanfarin sjö eða átta ár, svo hann setti á svið atvinnuviðtal til að þjálfa mig fyrir mánudagsmorguninn. Ég held það hafi bara virkað. Það var kannski þess vegna sem ég var svona afslöppuð í viðtalinu.

Ég hef þegar sagt ykkur frá mánudeginum en ekki því að þegar ég kom heim af kaffihúsinu, eftir að fara yfir öll heimaverkefni nemenda, var ég aftur komin með verk í magann. Ekki eins slæman og á laugardeginum, og enginn hiti að þessu sinni, en slæmur verkur samt. Gat ekki hlaupið á fótboltaæfingunni og spilaði þess vegna í marki...bíddu, var ég kannski búin að segja ykkur frá þessu?

Ég er farin að halda að þetta hafi ekki verið magaflensa heldur hvað það nú er sem hefur angrað mig í maganum síðastliðin tíu ár. Nokkrir læknar hafa kíkt á mig en ekki fundið neitt ennþá. Líklega af því að enginn hefur sent mig í magaspeglun og enginn hefur heldur kíkt á garnirnar. Það gæti komið að því einn daginn að ég þurfi að láta mig hafa það að gleypa myndavél. Það skrítna er samt að ég hef aldrei fengið hita með þessu áður.

En ég get ekki borðað neitt flókið þessa dagana. Fékk mér kjúklingasúpu og banana í kvöldmat. Allt feitt virðist gera mig lasna. Lán í óláni, fitna ekki á meðan!

Og nú er ég farin að sofa. Ætla að reyna að koma mér í rúmið klukkan tíu á kvöldin. Hvort sem það gengur til lengdar eða ekki. Gódnæt tú jú oll (þótt það sé reyndar bara ég sem er að fara að sofa).

P.S. Mæli enn og aftur með að íslenska sjónvarpið kaupi kanadísku sjónvarpsþættina MVP. Horfði í kvöld og stóð á öndinni helminginn af tímanum. Öndin var ekki ánægð með það. 


Langur dagur

Atvinnuviðtalið í dag gekk mjög vel. Ég dressaði mig upp og mætti á svæðið full af sjálfsöryggi og trú á sjálfri mér, án þess að fara út í mont eða of mikla sjálfshælni. Ég var ekki einu sinni stressuð. Ætli ég hafi ekki trúað því að ef ég væri besta manneskjan fyrir starfið þá fengi ég það, og ef einhver önnur manneskja væri betri þá væri ekkert nú sem ég gæti gert við því.

Valið stendur á milli þriggja kandídata þannig að líkur mínar ættu að vera 33.33333...%

Ég fæ líklega að vita niðurstöðuna innan viku.

Rauk beint niður í skóla úr viðtalinu því tími var byrjaður í LING100 (ég er aðstoðarkennari í þeim áfanga), fundaði svo með hinum aðstoðarkennurunum, fór á fund með öðrum umsjónakennara mínum (sagði honum frá viðtalinu) og settist svo niður á kaffihúsi og fór yfir heimaverkefni þar til bunkinn var búinn. Þurfti að drekka eina kók og einn bolla af kaffi til að halda mér við efnið. Labbaði svo heim í gegnum skóginn enda dásamlegt veður. Hvíldi mig í smá tíma, borðaði og fór svo á fótboltaæfingu. Kom heim klukkan tíu í kvöld, horfði á Medium, bloggaði þetta og ætla nú að fara að sofa.

Á morgun skal ég segja ykkur frá því hvernig minn frábærlega planaði laugardagurinn klúðraðist algjörlega.


Kettir lengja líf eigenda sinna

Nýleg rannsókn sýnir að fólk sem aldrei hefur átt kött er 40% líklegra til þess að fá hjartaáfall en kattareigendur. Einnig kom fram að hundseign virðist engin áhrif hafa. Það má eingöngu geta sér til um ástæðurnar fyrir þessu en talið er líklegast að það hafi eitthvað með rólegt eðli kattanna að gera. Þótt hundar séu dásamlegir og að sumu leyti betri félagar en kettir, þá eru þeir svona öllu jöfnu ekki eins rólegir og hafa því síður róandi áhrif á eigendur sína. Og daglegir göngutúrar ná ekki að vinna upp mismuninn.

Ekki spyrja mig um það hver gerði þessa rannsókn því ég náði því ekki. Sá þetta bara í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ef þetta verður í blöðunum á morgun get ég sagt ykkur nánar frá því hver gerði rannsóknina. 


Um slóðaskap annarra

Ég sagði frá því fyrir tveim mánuðum eða svo að ég hefði fengið grein samþykkta í þekktu hljóðfræðitímariti. Þetta er grein sem ég vann í samvinnu við Bryan Gick, hljóðfræðikennara hér við UBC, og tvo aðra nemendur.

Ritið er hluti af JASA (Journal of Acoustic Society of America - eða Tímarit hljóðfræðisambands Bandaríkjanna) og hefur undirskriftina Express Letters, sem þýðir að ferlið er allt miklu skilvirkara. Stundum tekur einhver ár að fá greinar birtar því fyrst sendir maður þær inn, svo fara þær til aflestrar hjá sérfræðingum sem taka sér sumir marga mánuði til þess að lesa greinina og gefa álit. Ef greinin er samþykkt óbreytt þá fer hún beint til ritstjóra en annars er hún send til baka til höfundar. Stundum er henni hafnað algjörlega og þá reynir maður að koma henni eitthvert annað, en stundum fær maður ábendingar um hvað betur má fara og manni er boðið að senda greinina inn aftur (stundum með loforði um að hún verði birt af maður lagar það sem bent er á).

Express letters er fyrst birt á netinu og síðan prentað í tímariti félagsins. Þeir stæla sig af því að eingöngu örfáir mánuðir líði frá því að grein er send inn og þar til hún er birt. En til þess að þetta sé hægt þarf maður að borga fyrir birtinguna. 

Ég sendi greinina okkar inn einhvern tímann í haust og það leið og beið án þess að við heyrðum eitthvað. Loksins kom svar þar sem okkur var sagt að þeim líkaði greinin en það væri sitthvað sem við þyrftum að laga til þess að hægt væri að birta hana. Þar var um margt tímafrekt að ræða en samt fengum við ekki nema um fjóra daga til þess að laga þetta og senda greinina inn aftur. Við settum á fullspítt og við Bryan skiptum með okkur verkum og náðum að senda greinina inn aftur. Ástæða þess að þetta var tímafrekt var m.a. sú að þeir vildi frekari útreikninga á ýmsum tölum, öðruvísi tölfræði, breyttar myndir o.s.frv.

Enn liðu margar vikur og við heyrðum ekkert. Loks kom bréf þar sem beðið var um skýrslu yfir það sem við hefðum gert til lagfæringar svo ritstjóri gæti fullvissað sig um að við hefðum tekið allar athugasemdir til greina. Ég hafði skrifað slíka skýrslu og sent hana með greininni. Hafði meira að segja sent hana á tvo staði til að öruggt væri að hún kæmi til skila. Svo ég endursendi þessa skýrslu.

Einhverjum vikum síðar kom bréf þar sem sagt var að greinin væri nú orðin birtingarhæf en það væru enn nokkur atriði sem við þyrftum að laga. Við fengum 48 klukkutíma til að laga þetta. Það var gert og greinin var send aftur inn einhvern tímann í desember.

Síðan heyrðum við ekkert þangað til í gær. Þá kom bréf sem sagði að nú væri greinin tilbúin í lokaformi og við beðin um að lesa hana yfir og sjá til þess að fontar og annað væri í lagi og að engin mistök væru í töflum ofl. Aftur voru okkur gefnir aðeins tveir sólarhringar til þess að sjá um okkar hluta.

Ástæðan fyrir því að þeir ná að gera hlutina fljótar en aðrir er sem sagt sú að höfundar þurfa að sitja og standa eftir því sem þeim hjá tímaritinu hentar. Við þurfum að henda öllu til hliðar og vinna bara að þessu verkefni þegar við heyrum frá þeim. Þess á milli taka þeir sér margar vikur og jafnvel mánuði. Og við þurftum að borga!!! Hvað hefði gerst ef við hefðum t.d. bæði verið stödd einhvers staðar á ráðstefnu þegar lokaútgáfan kom?

En það góða er að greinin ætti að fá birst fljótlega, aðeins um hálfu ári eftir að hún var send inn. Ég mun setja inn tengil á hana þegar hún er komin á netið og þá getið þið lesið allt um Tadoma aðferðina og hvernig hún nýtist venjulegu heyrandi fólki. 


Góðar fréttir

Munið þið eftir því fyrir svona sirka mánuði að ég sagðist hafa sótt um draumastarfið mitt sem er að vinna fyrir Vanoc,  Ólympíunefnd Vancouverborgar, fyrir Ólympíuleikana 2010? Starfið felst í því að hafa yfirumsjón með öllu því sem snýr að erlendum tungumálum - þ.e. þýðingum, túlkun o.s.frv.

Jæja, það hefur orðið hreyfing á því máli. Umsókn mín var greinilega nógu góð til þess að ég var tekin í símaviðtal fyrir tæpum tveim vikum. Þetta var svona almennt viðtal sem sneri almennt að vinnu fyrir Ólympíunefndina en ekki svo mikið að þessu ákveðna starfi. Það tók um 40 mínútur og ég var spurð alls konar spurninga - meira að segja að því hvenær í lífinu ég hafi verið stoltust af sjálfri mér (spurning sem erfitt er að svara). 

Það lítur út fyrir að ég hafi staðið mig vel í þessu viðtali því ég hef nú verið kölluð í annað viðtal. Að þessu sinni mun ég hitta tvær manneskjur augliti til auglits og þetta viðtal mun beinast algjörlega að þessu ákveðna starfi. Þetta lofar góðu því væntanlega er ég nú ein örfárra sem koma til greina.

Í gær fór ég í verslunarleiðangur því ég átti engin föt sem hæfa svona viðtali. Eftir mikla leit fann ég loksins gráteinótta dragt sem passaði mér þokkalega (útilokað að finna eitthvað sem passar fullkomið nema að láta sauma það) og keypti með því gula blússu, enda sagði konan í búðinni mér að gult væri aðalliturinn núna. Mér verður því alla vega ekki hafnað vegna þess að ég sé of drusluleg til fara. Ef ég fengi starfið yrði ég væntanlega að kaupa heilan fataskáp af frambærilegum fötum. Ekki gengur að vera í gallabuxum og bol þegar maður vinnur fyrir Vanoc. 

Þegar ég fer í viðtalið á mánudagsmorguninn verð ég bara að muna að vera ekki týpískur lítillátur Íslendingur. Amma mín var frá Nolli í Þingeyjarsýslu og ég verð bara að finna Þingeyinginn í mér og láta hann skína!

En hvort sem ég fæ vinnuna eða ekki er ég ákaflega stolt af sjálfri mér. Ég komst þó alla vega þetta langt. 


Sami mannsfóturinn?

Þetta mál er auðvitað stórfurðulegt og var í blöðunum hér í Vancouver fyrir nokkrum dögum þegar þessi þriðji fótur fannst. Eins og segir í frétt moggans er ekki vitað hvort um glæp er að ræða eða ekki. Ekki hefur verið hægt að segja með vissu að fæturnir hafi verið skornir eða höggnir af. Dæmi eru um það að lík sem velkjast í sjó hlustist í sundur en ég held að þessi staðreynd með þrjá hægri fætur í íþróttaskóm númer 42 auki líkurnar á að hér sé ekki um tilviljun að ræða.

En ég vildi nú aðallega kíkja á málfræðina í þessari frétt, og nei, ég er ekki að setja út á skrift blaðamanns, aldrei þessu vant. En þegar ég las fréttina var eitthvað sem sló mig (annað en innihaldið enda var ég búin að lesa um þetta áður).

Lögregluna í Bresku Kólumbíu í Kanada rak í rogastans þegar mannsfótur fannst í fjöru í þriðja sinn á nokkrum mánuðum. Allir voru fæturnir hægri fætur, stærð 42 og klæddir í hlaupaskó. Lögregla hefur ekki getað ákvarðað hvort hún sé að rannsaka glæpi, né heldur hvort fæturnir tengist.

Ég held að það sem fékk mig til að staldra við sé ósamsamræmið í tölunni svo og tvíræðni fréttarinnar. Í fyrsta lagi má skilja þetta svo að sami fótur hafi nú fundist þrisvar sinnum enda segir að mannsfótur hafi fundist í þriðja sinn. Samkvæmt merkingarfræði gæti þetta verið svona sett upp (athugið að bloggkerfið ræður ekki við 'existential quantifier' sem er öfugt E svo ég set venjulegt E í staðinn):

Ex(fótur(x) & (EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(x,e') & (finnst(x,e''))))))

Þetta má lesa þetta svona: Til er X þannig að X er mannsfótur, og til eru þrír atburðir sem eru allir þannig  að X fannst

Merkingin sem blaðamaður hafði í huga er hins vegar væntanlega þessi:

ExEyEz(fótur(x) & (fótur(y) & (fótur(z) ((EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(y,e') & (finnst(z,e''))))))))

Sem sagt: x, y, z eru allt fætur og einn atburður er svo að x fannst, annar atburður er svo að y fannst og einn atburður er svo að z fannst.

Þegar síðari merkingin er höfð í huga þá er fleirtalan á 'allir voru fæturnir' eðlileg en ekki samkvæmt fyrstu merkingunni. Það að mér þótti þetta skrítið þegar ég las fréttina yfir bendir því til þess að ég hafi fyrst sett fyrri merkinguna í setninguna, jafnvel þótt ég hafi vitað að um þrjá mismunandi fætur hafi verið að ræða. Það er athyglisvert og segir ýmislegt um skilninginn á setningunni. Ætla ekki að fara út í það nánar.

 


mbl.is Þriðja fótinn rekur á land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband