Færsluflokkur: Bloggar
Nágrannaerjur
10.2.2008 | 21:14
Það ríkir stríð í húsinu mínu en sem betur fer hefur mér tekist að vera Sviss og halda mig fyrir utan það. Það eru þrjár íbúðir hér. Ég er í risinu, Rita á miðhæðinni og Alison í kjallaranum. Rita hefur stjórn mála því hitastiginu er stjórnað í hennar íbúð og við Alison getum ekkert gert. Það er dýrt að kynda og Rita er annað hvort fátæk eða nísk (en býr þó í langstærstu íbúðinni) þannig að hún heldur hitanum niðri. Verst er að hún lækkar hitann yfir daginn þegar hún er lítið heima þannig að það er ískalt í húsinu sem er verst fyrir mig því ég vinn heima og stundum eru fingurnir loppnir af kulda. Ég keypti mér lítinn rafmagnshitara og suma daga gengur hann allan daginn. Sagt er að hitinn rísi og samkvæmt því ætti að vera hlýjast hjá mér en ég held að gluggarnir og þakið séu ekki mjög þétt því það er alls ekki hlýtt hérna. Stundum fer hitinn niður í fimmtán stig inni í íbúðinni en oft hangir hann í kringum sautján átján. Ég vil hafa tuttugu stig inni hjá mér, að minnsta kosti. Kannski er það Winnipegreynsla mín. Fólk í Winnipeg hefur alltaf hlýtt inni hjá sér því það er svo kalt úti og maður vill geta komið inn úr kuldanum, rifið sig úr köldu fötunum og samt verið hlýtt samstundis.
Þegar ég fæ nóg fer ég niður til Ritu og bið hana að hækka hitann sem hún gerir en þó með smá röfli. Stundum er hún ekki heima og þá verð ég bara að vefja mig í teppi þar til ég næ á henni. En þetta er ekki oft vandamál því þessi litli hitari nær að gera sitt gagn.
Málið er verra hjá Alison. Í fyrsta lagi er hún í kjallaranum og þar verður að sjálfsögðu kaldara yfir höfuð. í öðru lagi hefur hún bara tvö blásaragöt eins og ég. Rita hefur eitt í hverju herbergi. Hitinn hér er í stokkum þannig að honum er blásið út um göt á gólfinu (hjá mér og Ritu) eða á veggnum (hjá Alison). Hjá Ritu hitast því öll herbergi jafnt en hjá okkur Alison þarf hitinn að dreifast frá þessum tveim ristum og út um afganginn af íbúðinni. Alison er verr sett en við af því að hennar ristar eru í veggnum upp undir lofti og þaðan stígur hitinn upp. Það sem gerir svo málið enn erfiðara er að það er ekki gott á milli hennar og Ritu (veit ekki af hverju) þannig að Rita hundsar vanalega Alison þegar hún biður hana um að hækka hitann. Um síðustu helgi var virkilega kalt úti og Rita hækkaði ekki hitann á húsinu (hann var settur í kringum 18 stig). Hjá Alison var því sirka fimmtán stigi hiti inni svo hún hringdi upp til Ritu og sagði henni að það væri virkilega kalt í íbúðinni. Rita svaraði einfaldlega: Too bad, og skellti á. Að lokum varð Alison að fara upp til Ritu (það er innangengt á milli íbúða þeirra) og hækka hitann sjálf. Rita varð auðvitað fokill og sagði að Alison yrði þá að borga hærri hitareikning. Alison endaði á því að skrifa bréf til húseigendanna (eftir að hafa reynt að hringja) til að kvarta yfir þessu.
Hún hefur ekki heyrt frá eigendunum en Rita talar ekki við Alison (hvort sem það er vegna síðasta rifrildis eða vegna þess að eigendurnir töluðu við hana) og hefnir sín á Alison með því að sturta niður í klósettinu í hvert sinn sem Alison fer í sturtu. Það þýðir að allt kalda vatnið fer beint í klósettið og Alison fær bara heitt vatn úr sturtunni. Þetta er auðvitað stórhættulegt. Fyrsta árið mitt í Kanada bjó ég einmitt í húsi þar sem þetta kom iðulega fyrir.
Ég hef sem betur fer náð að halda mér fyrir utan þetta enda þarf Rita á mér að halda. Ég skipti um perur fyrir hana og opna fyrir hana dósir og þvíumlíkt. Henni er því vissara að vera ekki með leiðindi við mig. Hún reyndi reyndar að vaða yfir mig fyrst þegar ég flutti inn en ég lét hana vita frá upphafi að ég léti ekki ráðskast með mig þannig að við höfum átt ágætt samband. Ég vona að það haldi áfram því ég nenni ekki að standa í neinum deilum. Ég vona hins vegar að þær hinar nái að sætta ágreininginn því það er ekki gott þegar nágrannar eiga í deilum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Lasin
10.2.2008 | 08:15
Ég er með kvef. Höfuðið er fullt af grænni drullu sem lekur út úr nösunum, fyllir ennisholurnar og veldur höfuðverk og þreytu. Ég er ekki sérlega ánægð með þetta en það er ekki eins og mér hafi komið þetta á óvart. Ég var búin að vera að berjast við veikindi í rúma viku og hélt að ég hefði unnið baráttuna en á miðvikudagskvöldið fékk ég hálsbólgu og hún versnaði á fimmtudag og föstudag. Hún er núna búin að ég lendi alltaf í sama farinu. Fyrst hálsbólga, svo kvef með hnerra sem síðan breytist í hósta. Er búin að hnerra af og til í allan dag þannig að ég verð líklega farin að hósta á morgun.
Sleppti innflutningspartýi hjá Sonju í gær út af þessu og kaffiboði hjá Rosemary í dag. Á morgun á ég svo að spila fótboltaleik en veit ekki hvort ég verð orðin nógu góð til að spila. Annars eru engar líkur á að leikurinn verði spilaður. Það er búið að rigna í allan dag og á að rigna í alla nótt og allan morgundaginn. Það má ekki leika á völlunum þegar svoleiðis stendur á því það eyðileggur grasið.
Ætti hins vegar að vera orðin nógu góð annað kvöld til að fara og hitta Mark vin minn. Hann er frá Winnipeg og er mikill Canucks aðdáandi. Við ætlum því að fara eitthvert á bar og horfa á leikinn með öðrum æstum aðdáendum. Liðið verður hreinlega að vinna á morgun því þeir töpuðu í kvöld og eru að síga aftur úr í baráttunni. Við verðum að ná að vera á meðal átta efstu í vor þegar úrslitakeppnin hefst því annars verður hokkívertíðin stutt í ár. Gallinn er að liðið hefur átt í svo miklum meiðslum að stríða, að þeir hafa aldrei leikið í vetur með alla sex varnarmennina sína. Á tímabili í kvöld voru allir fimm strákarnir á vellinum (fyrir utan markmanninn) strákar úr Manitoba Moose - sem sagt algjört varalið. Þeir eru góðir en skortir alla reynslu og það sást í kvöld. En ég vona að gangi betur gegn Chicago á morgun svo við Mark höfum um eitthvað skemmtilegt að tala.
Ég verð líka að vera nógu frísk á morgun til að geta unnið vel. Ég þarf að halda fyrirlestur í deildinni á miðvikudaginn og ég verð líka að klára abstract fyrir ráðstefnu fyrir lok vikunnar. Vann aðeins við það í dag en var of máttlaus til að sitja lengi við tölvuna. Núna í kvöld er ég orðin miklu hressari og get setið lengur við og ætti því að vera að vinna núna í stað þess að blogga. En ég þoli ekki að vinna of seint á kvöldin. Á morgun verð ég frískari og þá sest ég við skriftir. Lofa sjálfri mér því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Talarðu ensku?
9.2.2008 | 05:17
Ég fann þetta hérna á You Tube. Margt sniðugt þar.
Þetta minnir mig á brandara sem ég heyrði þegar ég var í menntó. Tveir gamlir menn sátu á bekk þegar ungur bakpokaferðalangur stoppaði hjá þeim. Hann spurði: Excuse me, but do you speak English? Þeir gömlu litu hvor á annan og síðan aftur á unga manninn og hristu höfuðið. Hann sagði þá: Taler du dansk? Aftur hristu þeir gömlu höfuðið. Sá ungi var ekki af baki dottinn og spurði: Sprachen sie Deutsch? En ekki skildu gömlurnar það. Parlez vous francaise? Nei, ekki gerðu þeir það heldur. Að lokum gafst ungi maðurinn upp og gekk í burtu. Þá leit annar gamli á hinn og sagði: Heldurðu að við hefðum kannski átt að læra eitthvert erlent tungumál? Hinn hristi höfuðið og sagði: Til hvers? Þessi maður kunni fjögur tungumál og ekki hjálpaði það honum!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þjónninn sem eitraði fyrir mér
8.2.2008 | 03:31
Þjónn á alþýðuhúsi (pöbb) fór illa með mig á þriðjudagskvöldið. Julianna var í bænum og við ákváðum að fá okkur kvöldverð saman áður en hún héldi suðreftir til White Rock. Við fórum á pöbb sem kallast Nevermind því það var leikur í gangi og við vildum fylgjast með honum.
Ég ákvað að forðast þetta týpíska pöbbfæði hamborgara, kjúklingavængi, o.s.frv. og prófa eitthvað nýtt. Þeir voru þarna með einhvern asískan rétt, eitthvað dæmi grillað á teini og seszhuan baunir í meðlæti. Ég er alltaf hrifin af seszhuan baunum svo ég ákvað að skella mér á þetta. En ég varð samt að hafa allan vara á því ég er með ofnæmi fyrir fiski. Ég verð ekki hættulega veik en mér verður óglatt og stundum verð ég náhvít í andliti ef ég læt þennan þjóðarmat Íslendinga ofan í mig. Svo ég spurði þjóninn hvort þetta væri ekki örugglega kjötréttur. Jújú, hann jánkaði því, svo ég pantaði.
Maturinn kemur og virðist þetta óþekkta kjöt vera kjúklingur. Vel grillaður á teini á kafi í einhverri sterkri sósu. Bráðnaði í munni. Ég hafði meira að segja orð á því við Juliönnu að ég hefði aldrei áður fengið kjúkling sem væri svona mjúkur undir tönn. Ég var ekki búin að borða mikið af matnum þegar mér fór að líða illa. Svona eins og mér líður þegar ég borða fisk. Ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri fiskisósa í réttinum. Það er alltaf sett fiskisósa í Thailenska rétti en yfirleitt ekki í kínverska. En maturinn var góður þótt hann væri vel kryddaður og ég hélt áfram. En mér leið ekki vel. Og þetta lagaðist ekki. Tveimur tímum eftir kvöldmat var mér enn óglatt og ég skyldi það ekki. Vanalega hef ég reyndar hætt að borða mat þegar ég fatta að það eru fiskiafurðir í honum og kannski leið mér óvenju illa þarna af því að ég borðaði allan matinn. En þetta var samt óvenjulegt. Ég lagaðist þó að lokum og gleymdi þessu.
En í dag var ég að spjalla við Marion og sagði henni þá frá því að ég hefði fengið þennan undarlega mat á Nevermind og ég héldi að það hlyti að hafa verið fiskisósa í þessu. Hún spurði mig hvað ég hefði borðað og ég sagði að það hefði verið kjúklingur í einhverri kryddsósu, maó maó eða eitthvað svoleiðis. "Piri piri?" spurði Marion. "Nei", sagði ég, "pottþétt mai mai eða eitthvað". "Uh, mahi mahi?" spurði hún. "Já, einmitt. Það var það sem það kallast." Marí horfði á mig og sagði: "Það er fiskur. Hawaískur fiskur." Helvítis þjónninn. Ekki furða þótt ég hefði orðið lasin. Hann plataði mig til að borða fisk. Eins gott að ég er ekki með hættulegt ofnæmi. Þá hefðu nú getað orðið vandræði. En þetta bragðaðist ekki eins og fiskur og leit ekki út eins og fiskur og þegar mér var sagt að þetta væri ekki fiskur....þá borðaði ég fjandann. Og þjáðist svo fyrir. Ég er hrædd um að ég muni passa mig á mahi mahi í framtíðinni.
P.S. Ég athugaði með mahi mahi á Wikipedia og þar stóð þetta m.a.: Mahi-mahi have a chicken-like taste and texture...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á ferð um Hellisheiði og Þrengsli í vondu veðri - raunasaga
7.2.2008 | 17:01
Þegar ég var á fyrsta ári á háskólanum bjó ég með bróður mínum sem þá var sjómaður á einu skipanna frá Þorlákshöfn. Hann var vanur að lána mér bílinn sinn á meðan hann var á sjó og í staðinn keyrði ég hann stundum til Þorlákshafnar eða sótti hann þangað. Eitt þessa skipta var veður óvenju slæmt. Það var búið að snjóa nokkuð mikið og heilmikil blinda. Við höfðum ekki áttað okkur á því hversu slæmt veðrið var í raun fyrr en við vorum komin á Hellisheiðina. Bróðir minn bað mig að keyra ekki til baka þetta kvöld heldur gista í Þorlákshöfn. Sagði að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá móður eins skipsfélaga hans. Tilhugsunin um að fara og gista hjá ókunnugu fólki höfðaði ekki til mín og ég sagði að það yrði ekkert mál fyrir mig að keyra heim. Þetta væri ekki svo slæmt.
Ég skilaði Hauk niður á bryggju og lagði í brekkuna upp Þrenglsin. Ég var á lítilli Toyota Corolla á góðum dekkjum. Aflmikill bíll. Uppáhaldsbíllinn minn af öllum þeim sem ég hef keyrt um ævina. Neðarlega í brekkunni sat bíll fastur en Toyotan hélt áfram upp brekkuna, hægt og silandi. Brekkan var allt of löng til að ætla að taka hana á blússinu. Áfram hélt ég og keyrði framhjá fleiri bílum sem sátu fastir. Það var ekki alltaf auðvelt enda sátu þeir oft fastir á miðri götu, en ég náði að komast fram hjá. Ég fann hvernig dekkin gripu í svellið og varð gripið æ verra sem ofar dró. Ég var orðin skíthrædd um að komast ekki upp, sérstaklega þegar ofar í brekkunni sat enn einn bíllinn fastur. Toyotan var farin að missa kraft og bíllinn rétt mjakaðist áfram - en áfram héldum við - fram hjá fasta bílnum - og allt í einu var ég komin alla leið upp brekkuna. Ég andaði léttar og tók eftir því hvernig axlirnar á mér höfðu verið fastar í sömu stellingu alla leið upp. Ég hélt áfram yfir að Hellisheiðarveginum og reyndi að slaka á. Það versta var búið.
Það snjóaði stöðugt og snjórinn varð þykkari á veginum. Það sást lítið út um gluggann en ég pírði augun og hallaði mér fram til að sjá til þess að ég væri enn á veginum. Ekkert væri verra en að fara útaf núna. Ég var komin vel fram hjá Bláfjallaveginum þegar bíllinn sat fastur. Það var sama hvað ég reyndi, hann færðist ekki fet. Ég beitti öllum akureyskum ráðum en ekkert dugði. Ég hafði ekki tekið eftir því að ég færi út af veginum en ég var viss um að ég hlyti að hafa gert það. Ég gæti ekki verið svona föst á miðjum vegi. Það reyndist þó vera staðan. Snjórinn var hreinlega svo mikill þarna að lítil dekk Toyotunnar náðu ekki upp úr. Eftir stutta stund var bankað á gluggann hjá mér og maður spurði hvort ég væri með skóflu. Nei. Væri ég með kaðal? Nei. Ég fékk skammir fyrir að leggja í heiðina án skóflu og kaðals og tók skömmunum þokkalega vel. Enda hafði maðurinn rétt fyrir sér. Hvað hafði ég verið að hugsa. Sem betur fer hafði hann skóflu og kaðal og eftir stutta stund var búið að moka frá dekkjunum og bílinn dreginn úr versta skaflinum. Landslag þarna hlýtur að hafa verið tilfallið fyrir skaflamyndun því um leið og ég var laus varð vegurinn næstum því auður það sem eftir var leiðarinnar og ég komst átakalaust heim.
Ég minni því alla á að leggja hvorki í Hellisheiðina né Þrengslin án þess að vera á vel útbúnum bíl með skóflu og kaðal og hlý föt að auki. Best er að vera alls ekki á ferðinni þegar veður er slæmt.
![]() |
Ætla yfir þrátt fyrir lokun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Enn setur snjórinn strik í reikninginn
7.2.2008 | 07:43
Athyglisverð staða í háskólunum hér í Vancouver. Sama dag og lögreglan sveimaði um UBC í leit að einhverju sem við þessi óbreyttu vitum ekki hvað er (og vitum ekki enn) varð SFU fyrir árás af annars konar völdum. Að ofan.
SFU (Simon Fraser University) er staðsett uppi á fjalli í Burnaby og það er heilmikil brekka þangað uppeftir. Í dag fór að snjóa og hefur líklega snjóað stanslaust síðustu sjö eða átta tímana. Af því að enginn er með nagladekk og strætisvagnar hér eru ekki útbúnir keðjum þá hættu allir vagnar að ganga fyrir nokkrum klukkutímum (klukkan er hálf tólf að kvöldi þegar ég skrifa þetta). Vegurinn uppeftir er opinn en mönnum ráðlagt að vera ekki á ferðinni og nú þegar hafa orðið margir árekstrar þarna. En hvað gerist í háskóla þegar strætó hættir að ganga og aðeins örfáir eru á bílum? Jú, liðið verður annað hvort að gista í skólanum eða koma sér heim á annan hátt. Sumir lögðu í að ganga niður brekkuna (sem er býsna löng - tekur tíu eða fimmtán mínútur í strætó) þótt fæstir væru útbúnir til þess, aðrir fengu gistingu hjá vinum á heimavist eða leigðu sér herbergi þarna uppfrá, enn aðrir söfnuðust saman í íþróttahúsinu og munu sofa á dýnum á gólfinu. Einhvern veginn grunar mig að liðið hafi nú bara gaman af því. Já, okkur Íslendingum finnst athyglisvert hvernig allt lamast hér þegar snjóar en það er einfaldlega svo að hér er enginn búinn undir þetta hvíta. Vanalega snjóar hér aðeins einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta hefur verið óvenjulegt nú í vetur.
Hræðilegar fréttir annars frá Bandaríkjunum. Ég horfði á fréttirnar áðan og sá hvernig nýjasti hvirfilbylurinn lék Tennessee. 50 látnir og alla vega 100 alvarlega slasaðir. Mikið er ég fegin að við erum ekki á svæði sem fær þessa rosalegu vinda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Önnur hótun á UBC, meira hokkí, ákæruóðir Norður Ameríkanar
6.2.2008 | 17:27
Önnur hótun á UBC
Aftur hefur verið send inn hótun um hryðjuverk á kampus UBC. Það er einmitt liðin vika síðan líffræðibyggingunni var lokað vegna hótunar og um 1000 manns voru lokuð inni í sirka klukkutíma. Í gær eða nótt var send inn ný hótun nema að þessu sinni var hvorki tiltekinn staður né tími. Líffræðibyggingunni var því lokað aftur af öryggisráðstöfunum en aðrar byggingar eru opnar. Lögreglan er víst á staðnum en enginn veit í raun hvort alvara er að baki þessa hótana og ef svo, hvar hættan er. Ég þarf upp í skóla. Ég funda með Gunnari klukkan tíu og fer svo í tíma klukkan ellefu - í efnafræðibyggingunni beint á móti líffræðinni. Þaðan þarf ég svo austar á kampus í rannsóknabyggingu málvísindanna. Verð því þokkalega á ferðinni og finnst það pínulítið óhugnanlegt. Við vitum ekki ennþá hverju þessi manneskja hefur hótað - lögregla og skólayfirvöld vilja ekkert segja. Eftir síðustu hótun var sagt að ekki væri um sprengju að ræða en það var allt sem þeir sögðu. Maður veit því ekkert. Er einhver á ferð með haglabyssu? Eða eitthvað þaðanaf verra? Er fólk í hættu við að vera plammað niður hvar og hvenær sem er? Mér finnst þessi þögn ekkert sniðug.
Meiddir hokkíleikmenn
Af mínu elskulega hokkíliði er það að frétta að meiðsli halda áfram að plaga liðið. Í leiknum gegn Florida meiddist Aron Miller, eini varnarmaðurinn sem ekki hafði misst leik. Ofan á það bættist að Matthias Ohlund varð að fljúga heim til Vancouver út af persónulegum ástæðum. Sami Salo sem hafði verið meiddur kom aftur inn í hópinn og var því eini reglulegi varnarmaðurinn sem spilaði. Hinir fjórir voru ungir strákar sem vanlega spila með Manitoba í lægri deild. Þetta þýddi auðvitað alls konar mistök í vörninni sem leiddu til tveggja marka Dallas. Nýjasti meðlimurinn var ekki einu sinni í eigin skautum því hann hafði verið staddur í Milwaukee með Maniotba Moose þegar hann fékk boð um að koma til Dallas að spila og varð því að keyra til Chicago og fljúga þaðan til Dallas. Skautarnir hans og annar útbúnaður voru ennþá í flugvélinni í Milwaukee. Þrátt fyrir þetta náði Vancouver jafntefli en tapað svo í vítakeppni. Þeir fengu hins vegar eitt stig úr viðureigninni sem var mjög mikilvægt þegar teflt er fram hálfgerðu varaliði. Við þetta má samt bæta að Alex Edler getur varla talist Manitoba leikmaður lengur því hann er búinn að spila með Vancouver síðan snemma í haust því það er alltaf einhver varnarmaður meiddur.
Ákæruóðir Norður Ameríkanar
Þið hafið heyrt um það hversu brjálaðir Norður Ameríkanar eru þegar kemur að því að fara í mál út af alls kyns hlutum. Kanadamenn eru ekki eins slæmir og Bandaríkjamenn en heldur ekki mikið skárri. Fyrir nokkrum mánuðum keyrði gamall maður á pikköpp jeppa inn í þvögu af brúðkaupsgestum sem voru á gangi á fáförnum sveitavegi í Abbotsford. Sex létust. Aldrei hefur verið fundið út hvort ökumaður hafði drukkið eða hvort hann var hálfsofandi eða bara utanviðsig. Nú er búið að kæra ökumanninn (fyrir skort á aðgát), eiganda bílsins (fyrir að hafa bílinn ekki í nógu góðu ástandi og fyrir að leyfa ökumanni að keyra) og yfirvöldum í Abbotsford fyrir að hafa ekki gagnstétt meðfram veginum og fyrir að hafa veginn ekki nógu upplýstan.
Þetta er geðveiki. Það er eitt að kæra ökumanninn en að kæra eiganda bílsins og þá sérstaklega að kæra yfirvöld. Ég meina - þetta er sveitavegur! Hvenær eru þeir upplýstir? Hvenær hafa þeir gangstéttir? Enda hafa yfirvöld bent á að fólkið ætti að taka einhverja ábyrgð sjálft þar sem það var augljóst að vegurinn var ekki upplýstur og að það var ekki pláss fyrir um tuttugu manns að labba saman í hnapp þarna í myrkrinu. Þar að auki var enginn með endurskinsmerki eða neitt sem gerði fólkið sýnilegra. Ætlunin hafði verið að hafa bíl með blikkandi ljós með í ferð en einhverra hluta var hann ekki kominn á svæðið. Af hverju ekki kæra hann? Fólk er klikkað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vantaði þessi orð
4.2.2008 | 07:24
Leikstjórnandi og snertimark. Mig vantaði einmitt þessi orð þegar ég skrifaði um leikinn fyrr í dag. Ég hef í raun aldrei heyrt talað um bandarískan fótbolta á íslensku og hef því ekki hugmynd um hvernig á að tala um þennan leik á okkar ástkæra. En er ruðningur ekki rugby?
Hér má annars sjá það sem ég skrifaði um leikinn strax eftir að honum lauk. Þið getið leikið ykkur að því að fylla inn ensku orðin með þessum íslensku.
![]() |
New York Giants unnu Superbowl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Evrópuenska
4.2.2008 | 06:02
Ég er málvísindamanneskja og hef því alltaf gaman af málfræðibröndurum. Því miður er ekki mikið af þeim og því miður eru þeir ekki oft góðir. Og næstum aldrei nógu góðir til þess að aðrir en málvísindamenn hafi gaman af þeim. Mér finnst þessi hérna hins vegar svolítið fyndinn og set því inn hér svo aðrir megi njóta.
The European Commission has just announced an agreement whereby
English will be the official language of the European Union rather
than German, which was the other possibility.
As part of the negotiations, the British Government conceded that
English spelling had some room for improvement and has accepted a 5-
year phase-in plan that would become known as "Euro-English".
In the first year, "s" will replace the soft "c". Sertainly, this will
make the sivil servants jump with joy. The hard "c" will be dropped in
favour of "k". This should klear up konfusion, and keyboards kan have
one less letter. There will be growing publik enthusiasm in the sekond
year when the troublesome "ph" will be replaced with "f" This will
make words like fotograf 20% shorter.
In the 3rd year, publik akseptanse of the new spelling kan be expekted
to reach the stage where! more komplikated changes are possible.
Governments will enkourage the removal of double letters which have
always ben a deterent to akurate speling.
Also, al wil agre that the horibl mes of the silent "e" in the languag
is disgrasful and it should go away.
By the 4th yer people wil be reseptiv to steps such as replasing "th"
with "z" and "w" with "v".
During ze fifz yer, ze unesesary "o" kan be dropd from vords
kontaining "ou" and after ziz fifz yer, ve vil hav a reil sensi bl
riten styl.
Zer vil be no mor trubl or difikultis and evrivun vil find it ezi tu
understand ech oza. Ze drem of a united urop vil finali kum tru.
Und efter ze fifz yer, ve vil al be speking German like zey vunted in
ze forst plas.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ekki við mig að sakast
31.1.2008 | 03:52
Fyrir tveim árum var ég aðeins að dúlla mér með flugmanni hjá Air Canada sem þá flaug einmitt á milli Toronto og Evrópu. En síðast þegar ég frétti var hann farinn að fljúga frá Vancouver til Asíu þannig að þetta hefur varla verið hann. Enda hef ég enga ástæðu til þess að ætla að hann hafi fengið taugaáfall. Alla vega á ég ekki sök á því ef svo var.
Ég flýg annars nær alltaf með Air Canada þegar ég flýg þannig að ég ætla að vona að þeir láti líta á hausinn á þessum áður en hann fær að fljúga aftur. Vildi helst ekki þurfa að hafa áhyggjur af flugmanninum þegar vélin lætur illa og maður hefur nóg annað að hafa áhyggjur að. Ég man reyndar einu sinni þegar ég var að fljúga heim frá London að flugmaður Air Canada var að húkka far heim og sat í fullum skrúða við hliðina á mér. Einhverjum fannst þetta nógu fyndið til að spyrja hver væri eiginlega að fljúga vélinni fyrst hann sæti þarna afturí. Hann var greinilega búinn að heyra þennan áður.
![]() |
Flugmaður fékk taugaáfall í flugi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)