Færsluflokkur: Bloggar
Þegar tölvupósturinn bregst (um fótboltaraunir)
19.2.2008 | 07:05
Ég er farin að treysta allt of mikið á tölvupóst og of stór hluti samskipta minna fer fram í gegnum netið. Þetta getur komið manni í vandræði því tölvupóstur er ekki eins áreiðanlegur og símtækið. Akimi, sem ég fæ vanalega far með á fótboltaleiki gat ekki leikið um helgina og ég þurfti því að finna mér annað far. Ég sendi spurn á póstkerfi liðsins míns og fékk far hjá Jen sem sagðist geta gripið mig með ef ég yrði á horninu á Granville og Broadway klukkan 8.55 á sunnudag. Ég sendi póst til baka og sagðist verða þar.
Ég var mætt á svæðið 8.45 enda strætóferðir ekki eins margar á sunnudagsmorgnum. Þarna húkti ég í kuldanum og beið og beið...og beið. Komið var fram yfir níu og ég var ekki með símann minn. Ég gat því ekki hringt í neinn. Og ég hafði ekki skrifað niður á hvaða velli við lékum þar sem ég var ekki að keyra. Tuttugu mínútur yfir níu hljóp ég því til baka í strætó og planið var að fara heim, finna heimilisfangið á vellinum (það eru hundruðir fótboltavalla í borginni) og sjá hvort ég gæti komist þangað með strætó. Ég var rétt komin inn úr dyrum þegar Leah hringdi. Hún sagðist vera á vellinum og þar væri Jen en ekki ég. Hún sagðist hafa spurt Jen af hverju ég væri ekki með henni og Jen sagist aldrei hafa fengið svar frá mér. Ég hef grun um að bréfið mitt hafi lent í spamvörninni hennar. Dave þjálfari sagði að þau þyrftu á mér að halda svo mér var sagt að hoppa upp í leigubíl og þau myndu deila með mér kostnaði. Svo ég hringdi á bíl og hálftíma síðar var ég komin á völlinn.
Staðan var 0-0 þegar ég mætti á svæðið en stuttu síðar skoruðum við mark. Ja, eiginlega skoruðu þær mark. Melissa sendi boltann inn frá hægri kanti, rétt fyrir aftan mig, en Benita og varnarmanneskja Mudslide sóttu að boltanum. Varnarmaðurinn náði boltanum en sendi hann beint í eigið mark. staðan 1-0 fyrir okkur. Við vorum stanslaust með boltann og hinar komust varla fram yfir miðju. En það gekk ekki nógu vel að skora. Markmaðurinn hjá þeim var risastór og feit og gargaði á liðið allan tímann. Við vorum skíthræddar við hana. Hún gargaði líka á dómarann sem aldrei þessu vant var alveg stórgóður. Enda kom í ljós að hann dæmir vanalega ekki fjórðu deild. Dave var skíthræddur við þennan eins marks mun. Ein mistök og þær gætu jafnað. Og við vildum alls ekki í vítaspyrnukeppni en leikir í úrslitakeppninni geta aldrei endað með jafntefli. En þetta voru óþarfa áhyggjur. Eftir stanslausa sókn skaut Jodi að markinu en varnarmaður náði að hreinsa. Markmaðurinn var beint fyrir aftan varnarmanninn en var seinni til. Boltinn fór hins vegar beint til Melissu sem skaut aftur að markinu, markmaðurinn reyndi að skipta um stefnu en hneig niður - sagðist síðar vera með krampa. Boltinn stefndi í markið en ég vissi ekki hvort einhver varnarmaður væri í nálægð og negldi boltanum því inn. Þetta var í raun Melissu mark. Ég held að boltinn hefði farið inn þótt ég hefði ekki sparkað í hann. Ég skoraði hins vegar þriðja markið eftir frábæra sendingu frá Benitu. Hún hljóp upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og sendi boltann fyrir markið. Ég, með varnarmann á mér, kom hlaupandi inn, náði að teygja mig í boltann og setja hann í hægra hornið. Markmaðurinn, sem hafði náð sér af krampanum lagðist í grasið og grét. Ég veit ekki hvort krampinn kom aftur eða hvort hún var bara svona fúl yfir markinu. Dómarinn leit á okkur og sagði: En það var enginn nálægt henni - hvorki boltinn né manneskja! Hann hafði ekki mikla samúð með henni enda hafði hún skammast í honum allan leikinn.
En sem sagt, 3-0 og við erum komin með þrjú stig í úrslitakeppninni. Við þurfum að vera í fyrsta eða öðru sæti í riðlinum til að komast áfram.
VIð stóðum okkur annars vel í vetur - urðum í fyrsta sæti í okkar riðli í deildarkeppninni. Það hefur aldrei gerst áður. Við erum reyndar með jafnmörg stig og tvö önnur lið en fengum ekki tækifæri til að leika alla leikina. Sco mörgum leikjum var frestað vegna veðurs og ekki gafst tími til að bæta fyrir það af því að úrslitakeppnin þarf að hefjast á réttum tíma hvað sem tautar og raular.
Næstu helgi leikum við gegn liði sem aðeins tapaði einum leik í deildarkeppninni. Við höfum aldrei leikið gegn þeim áður en það er ljóst að við verðum að leika eins vel og við getum ef við eigum að eiga séns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er að reyna að reikna þetta út...
17.2.2008 | 22:55
Ég var á málabraut í menntó og er því kannski enginn sérfræðingur í stærðfræði en mér finnst reiknisdæmið í þessari frétt um Marley ekki alveg ganga upp:
Scorsese verður ekki á flæðiskeri staddur með efni í myndina, því auk þess að senda frá sér hið gríðarlega vinsæla lag No Woman No Cry og gefa út yfir tuttugu plötur, þá lifði Marley af morðtilraun árið 1976 og feðraði yfir þrettán börn. Þrjú með eiginkonu sinni Ritu, tvö ættleidd og átta börn sem hann átti með mismunandi konum. Samkvæmt Ziggi Marley mun myndin endurspegla líf föður hans á áhrifamikinn hátt.
Reiknisdæmið er svona:
Börn með eiginkonu = 3
Ættleidd börn = 2
Börn með öðrum konum = 8
Dæmið er sem sagt 3+2+8= 13
Rétt?
Samkvæmt þessu átti Marley 13 börn. Hvernig stendur þá á því að í fréttinni segir að hann hafi átt yfir 13 börn?
![]() |
Heimildarmynd um Bob Marley |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Loksins fótbolti
17.2.2008 | 08:02
Það lítur út fyrir að ég fái loksins að spila fótbolta á morgun. Við höfum ekki leikið nema einn leik á nýja árin því ýmist hefur verið allt á kafi í snjó, allt rennandi blautt af rigningu eða svo frosin jörð að ekki má leika. Nú hefur hins vegar verið sól og blíða og stefnir í að það haldi áfram á morgun.
Það er líka kominn tími til. Leikurinn á morgun er okkar fyrsti leikur í úrslitakeppninni þar sem við munum leika þrjá leiki í von um að komast áfram. Það er því mikilvægt að vinna. Ég er náttúrulega nýskriðin upp úr bólinu og lungun ekki alveg upp á það besta eftir kvefsóttina, en ég verð bara að passa mig. Ég veit að ég mun geta tekið góða spretti en þarf svo að blása úr nös inn á milli.
Það eina slæma við þetta er það að ég missi af skíðaferð í staðinn. Lína hringdi í dag og bauð mér með til Whistler en ég varð að afþakka út af fótboltanum. Óheppni að svona illa hitti á. En það koma dagar eftir þessa daga og ég verð komin á skíði áður en ég veit af. Kannski meira að segja í vikunni því það er miðsvetrarfrí hjá okkur í næstu viku og því engin kennsla. Ég fæ því frí frá krökkunum og get einbeitt mér að ritgerðinni, en það þýðir líka að ég get farið á skíði ef tækifæri gefst.
Og nú er ég farin í háttinn því ég þarf að vakna snemma og koma mér austur í bæ fyrir níu.
P.S. Vona að liðið mitt standi sig eins vel og Canucks gerðu í kvöld þar sem þeir sigruðu Edmonton 4-2 í hörkuleik. Með sigrinum komust þeir aftur upp í úrslitasæti. En ekkert má út af bregða í þeim leikjum sem eftir eru því keppnin á toppnum er hörð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vinir
16.2.2008 | 08:07
Ég hef oft hugsað um það hvernig maður eignast vini og hvaða vinir það eru sem eru til lífstíðar. Ég hef stundum sagt að maður eignist einn góðan vin á hverju æviskeiði aðrir svona komi og fari. Og ég held það sé nokkuð til í þessu því þótt maður eigi yfirleitt nokkuð marga vini á hverju tímabili þá eru það mjög fáir sem koma með manni inn í hið næsta.
Yfirleitt er það þannig að vinirnir breytast í kunningja þannig að maður fylgist kannski með þeim úr fjarlægð, skrifar tölvupóst af og til, hittir fólk þegar báðir eru á landinu eða í bænum... og þótt í raun kalli maður þetta fólk vini mans, þá er staðan öðruvísi en hún var þegar vináttan var náin.

Hér í Vancouver myndi ég segja að Marion, Rosemary og Julianna væru mínir nánustu vinir en margir aðrir hafa komið og sumir farið. Leszek og Jeremy sem voru mínir bestu vinir hér fyrstu tvö árin kláruð sitt mastersnám og fluttu í burtu, Kim sem ég klifraði með á tímabili flutti í burtu, og nú er Marion að fara að flytja í burtu.
En svona er lífið einfaldlega og ég held að það kryddi bara tilveruna þegar leiðir manns liggja saman við leiðir annarra í ákveðinn tíma. Og í raun er svo ákaflega auðvelt að kynnast nýju fólki svo framarlega sem maður er opinn fyrir slíku. Og mér hefur fundist ég eiga auðveldara með það undanfarið. Ég fer t.d. reglulega á kaffihús með Akimi sem ég kynntist í gegnum fótboltann, við Mark skrifumst á mörgum sinnum í viku þótt við hittumst ekki oft, ég hef átt margar góðar stundir með nýju Íslendingunum á svæðinu, nýlega endurnýjaði ég kynnin við Stefan sem ég hafði ekki rekist oft á síðastliðna tvo vetur og í gegnum hann kynntist ég Robert sem er ákaflega geðugur náungi. Þar að auki á ég fjölmarga kunningja sem ég hitti þegar ég fer og klifra, svo sem Dave, Colin, Scott, Zeke... Þetta fólk gerir líf mitt ánægjulegra og þótt ég taki aðeins einn náinn vin með mér inn í næsta tímabil þá er það allt í lagi, því þar mun ég eingast nýja vini.
Og nú á ég líka fjöldann allan af bloggvinum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrrverandi nemendur
15.2.2008 | 00:45
Vorið 1994 var mér boðið að koma til Akureyrar og kenna íslensku við MA í einn vetur í fjarveru míns gamla kennara Erlings Sigurðarsonar sem hafði tekið sér frí til þess að skrifa leikrit um Davíð Stefánsson. Ég var þú búin með alla kúrsa í mastersnáminu og var rétt byrjuð að skrifa mastersritgerðina. Þetta var of gott boð til þess að taka því ekki svo ég setti ritgerðarskrif á hilluna í eitt ár og fór norður og kenndi íslensku og tjáningu þennan vetur.
Ég kenndi aðallega fyrsta og öðrum bekk svo nemendur mínir voru þetta sextán og sautján ára. Í dag (14. febrúar) á einn nemenda minna úr þáverandi 1B þrítugsafmæli. Ég trúi því ekki að þessir sextán ára krakkar sem ég kenndi þennan vetur séu nú á þrítugasta aldursári og annars-bekkingarnir mínir urðu allir þrítugir í fyrra. Ef manni finnst maður ekki gamall við svona fréttir þá veit ég ekki hvað.
Vil þó taka það fram að ég var ekki mikið eldri en nemendur mínir (24 ára) og man ég sérstaklega eftir því þegar ég fór með 2X niður í Brynju að kaupa ís. Það var venja að umsjónarkennari færi með bekkinn sinn í Brynju einu sinni að vori og ég hafði þegar farið með 1B. En umsjónarkennari 2X varð veikur um páskana og hætti svo krakkarnir báðu mig um að koma með sér í staðinn. 2X, sem var eðlisfræðibekkur, var samansettur af sautján ára gömlum strákum og þremur fremur hávöxnum stúlkum. Ég var langminnst og leit ekki út fyrir að vera degi eldri en þau hin. Það var venjan að kennarinn fengi ókeypis ís frá Brynju, svona í þakklætisskyni fyrir að koma með heilan hóp af viðskiptavinum inn í búðina, en þegar ég mætti á svæðið með krökkunum mínum kom fát á afgreiðslukonuna. Að lokum klappaði einn strákanna á kollinn á mér og sagði: Þetta hérna er kennarinn. Það er hún sem á að fá ókeypis ís!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Að gefa til baka
14.2.2008 | 07:29
Það er alltaf gott þegar vel stætt fólk ákveður að leggja sitt af mörkum til að hjálpa öðrum. Ég hef áður nefnt hvernig hokkíleikmenn í Vancouver safna peningum til krabbameinsrannsókna, en þeir gera einnig mjög margt til stuðnings veikum og fátækum börnum. Sumt gera þeir af sjálfsdáðum og með eigin peningum (Cook foundation for kids er styrktarsjóður Matt Cook og eiginkonu hans, Markus Naslund borgar fyrir svítu á vellinum og fyllir hana af fátækum börnum á hverjum leik), annað gera þeir sem lið, svo sem að heimsækja börn á spítölum, safna peningum fyrir langveik börn, o.s.frv. og annað er hluti af Canucks Place sem er heimili fyrir foreldra veikra barna sem þurfa að koma langt að. Þar getur fjölskyldan dvalið ókeypis á meðan barnið er á spítala. Húsið er í eigu Canucks Sports and Entertainment sem aftur er í eigu Francesco Aquilini og bræðra hans. Eigendur, þjálfarar og leikmenn liðsins eyða í raun ótrúlegum tíma í góð málefni.
Í gær var haldin svokölluð Ice and dice hátíð þar sem leikmenn reka spilavíti og rennur allur ágóði til veikra barna. Fólk kemur ekki þarna til að vinna peninga heldur til þess að fá tækifæri til þess að hitta leikmenn og þjálfara dressaða upp. Ég hefði alveg getað hugsað mér að fara en ég á enga peninga til að spila með og ég á ekki einu sinni föt sem hæfa tilefninu. Læt mér í staðinn nægja myndir. Og mér finnst þeir eitthvað svo krúttlegir að ég verð að setja inn mynd. Dúllan hann Vigneault minn er annar frá vinstri í röð þjálfaranna (fremst).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mæli með Spamalot
13.2.2008 | 23:18
Ég var svo heppin að sjá Spamalot með samasem upphaflegum leikurum í New York fyrir tveim árum. David Hyde Pierce og Hank Azaria voru þá báðir í sínum hlutverkum og ég er ákaflega ánægð með að hafa fengið að sjá þá tvo.
Pierce var alltaf svo yndislegur í hlutverki Niles í Fraser og Azaria þekkja flestir úr Friends sem David, kærasta Phoebe sem fór til Minsk. Rödd hans má svo auðvitað heyra frá ýmsum karakterum í Simpson. Eiginlega fór ég á Spamalot út af þessum tveim. Ég hafði ekki ætlað mér á Broadway sýnginu en ég var að labba um leikhúsahverfið í New York þegar ég sá auglýsinguna um Spamalot og þessi tvö nöfn upplýst á skiltinu. Ég fór beint og keypti mér miða.
Sem betur fer vissi ég ekki fyrr en eftir á að Tim Curry hafði upphaflega leikið hlutverk Arthurs konungs en eins og fyrir alla aðdáendur Rocky Horror Picture Show og Clue hefði það auðvitað fullkomnað sýninguna að fá að sjá Curry á sviði.
Spamalot er hreint út sagt frábær sýning. Lögin eru skemmtileg, línurnar drepfyndnar fengnar úr upphaflegu myndinni og útsetning atriða sniðug (t.d. fyndið að sjá hvernig þeir fara með svarta riddarann sem er brytjaður niður heldur auðveldara að eiga við í bíómynd en á sviði.)
Það hlýtur að koma að því að einhver setji þetta upp á Íslandi.
![]() |
Monty Python gerir ekki grín að Spears |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrirlestur
13.2.2008 | 18:13
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nágrannaerjur - Annar hluti
13.2.2008 | 04:24
Stríðið milli Alison og Ritu heldur áfram og það verður erfiðara að leiða þetta hjá sér enda beinast nýjustu aðgerðir að mér jafn mikið og að Alison. Svo er mál með vexti að íbúðirnar þrjár eru mjög misstórar og ég held að Rita hafi 1200 ferfet og Alison 400. Hef ekki hugmynd um hvað ég hef - aðeins meira en Alison en mikið minna en Rita. Vegna þessa hefur rafmagns og gasreikningunum alltaf verið skipt miðað við stærð íbúða þannig að Rita borgar um helminginn og við Alison hinn helminginn. Þannig hefur þetta verið í húsinu í áraraðir. Þetta er ekki skráð í leigusamningana en bæði mér og Alison var tilkynnt þetta þegar við fluttum inn.
Rafmagnsreikningurinn kom í dag og Rita skrifaði á miða töluna sem ég á að greiða og setti undir hurðina hjá mér. Ég rétt svona leit á miðann og setti hann svo í bunkann með öðrum reikningum án þess að hugsa frekar um það. Í kvöld hringdi svo Alison í mig. Rita hafði skilið eftir skilaboð á símsvaranum hennar um það að framvegis yrði reikningum skipt jafnt í þrjá hluta enda notaði hún ekki mikið rafmagn þar sem hún væri ekki með netið (eins og það eyði svona miklu) og hún notaði heldur ekki mikið vatn (samkvæmt Alison er hún 20 mínútur í sturtu á morgnana - ég veit ekkert um það, heyri aldrei vatnið renna fyrir neðan mig).
Alison er alveg vaðvitlaus og ætlar að hringja í eigendurna sem ekki hafa enn svarað kvörtun hennar frá því í síðustu viku. Málið er að ég get ekki látið Alison sjá um þetta eina því nú er Rita farin að heimta að ég borgi líka meira í reikningunum. Það er kannski hægt að verja þetta með rafmagnið en hvað hitann snertir kemur ekki til greina að borga eins mikið og Rita. Hennar íbúð er helmingi stærri en okkar. Það tekur miklu meira að hita hana en okkar íbúðir. Og þar að auki virðist alltaf heitara hjá henni. Þvílíkt bull.
Það er best að sjá hvort Alison nær á Goldman genginu á morgun og hvað þau segja. Mikið leiðist mér svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
To PhD or not to PhD
12.2.2008 | 04:38
Ég gæti ekki lýst lífi mínu betur en hér er gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)