Færsluflokkur: Bloggar

Hugsa sér frið

Í morgun fékk ég tölvupóst frá Beatles.com þar sem minnt var á Friðarturninn hennar Yoko í Viðey. Var þar gefin upp slóðin http://www.imaginepeace.com/ og allir hvattir til þess að fara á síðuna og fylgjast með. Þar er meðal annars hægt að senda friðarkveðjur og svo eru allir kvattir til að koma á síðuna þann níunda október, á afmælisdag Johns, þegar súlan verður afhjúpuð. Nú þegar hafa komið yfir 20.000 manns þarna og þar sem tölvupósturinn fór út í dag til allra Bítlaáhugamanna má búast við enn fleiri heimsóknum á næstu dögum. 

Þótt þetta sé átak um frið þá er þetta verkefni allt saman ótrúleg landkynning fyrir Ísland. Yoko talar svo fallega um landið í myndbandi á síðunni; hún talar um hversu hreint landið sé, hversu hreint loftið sé, og um það hvernig maður yngist um tíu ár við það að koma til Íslands. Og að sjálfsögðu er íslenska eitt tuttugu málanna sem valin voru til þess að senda friðarkveðjur á súlunni - þótt ég viti ekki af hverju nafnháttur var valinn (hugsa sér frið) í stað boðháttar (hugsaðu þér frið). Reyndar held ég að ég hefði valið sögnina ímynda í staðinn (ímyndaðu þér friði) sem er öllu nær enskunni (imagine peace). En það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er hugsunin á bakvið verkið, og minningin um John.


Gengur vel með ritgerðina

Núna á tæpri viku hef ég fundað með öllum nefndarmönnum mínum (sem eru hér í Vancouver) og þau hafa öll verið ánægð með það sem ég hef verið að gera undanfarnar vikur. Gunnar sagði að hugmyndir mínar hljómuðu skynsamlega og Hotze taldi að ég væri pottþétt á réttri leið. Það sama sagði Lísa sem ég hitti á föstudaginn var. Það er gott fyrir mig að heyra því ég þarf oft á hvatningu að halda.

Ég er búin að naga gulrætur og rófur að undanförnu. Sem betur fer finnst mér hvorttveggja mjög gott þannig að þetta er engin pína. Hef almennt reynt að borða mjög hollt, þótt ég hafi fengið mér einn súkkulaðimola í gær. En það breytir því ekki að mig langar ógurlega í óhollustu. Helst saltkex. Kannski mig vanti almennt svolítið af salti - ég er svoddan saltstaukur. Þar að auki drekk ég vatn eins og mér sé borgað fyrir það og er eins og jójó á milli stofunnar og baðherbergisins. Vatn fer beint í gegnum mig. En þetta virkar. Á laugardaginn skal ég segja ykkur hversu vel.  


Bara spurning um tíma

Hvort sem það er nú rétt eða ekki að lyfið hafi ekki enn verið notað við nauðganir á Íslandi réttlætir það ekki sölu á þessu lyfi sem allir vita að hefur margoft verið notað við nauðganir erlendis. Bara nú um síðustu helgi kom upp mál hér í Vancouver þar sem ellefu stúlkum var gefið nauðgunarlyf í "frat"partýi í háskólanum mínum. Ein þeirra fór sem betur fer heim um leið og henni fór að líða undarlega og missti því meðvitund heima hjá sér. Morguninn eftir fór hún upp á sjúkrahús og þá fannst töluvert magn af lyfinu. Ég heyrði ekki hvað gerðist með hinar tíu en þetta er orðið slíkt vandamál að hér dynja á okkur konum hvatningar um að skilja aldrei eftir óvöktuð glös á opinberum stöðum. Konur eru meira að segja hvattar til þess að fara með drykkina sína á klósettið þegar þær eiga þangað erindi. Ef þetta hefur ekki enn verið notað á Íslandi er það bara spursmál um tíma. Fyrst lyfið fæst heima og fyrst flestir nauðgarar eru læsir... 
mbl.is Flunitrazepam hefur aldrei fundist í fórnarlömbum nauðgana hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskukennslan að hefjast

Undanfarin fjögur ár hef ég séð um íslenskukennslu í Íslendingahúsi yfir í New Westminster. Þetta eru yfirleitt tveggja mánaða námskeið þar sem farið er yfir helstu atriði málsins svo sem framburð, algengar kveðjur og þvíumlíkt (yfirleitt engin málfræði nema þegar nemendur spyrja sérstaklega um eitthvað sem tengist málfræðinni - það er sjaldgæft). Enginn lærir að tala íslensku á þessum námskeið en fólk fær að kynnast málinu aðeins. Gallinn er að ég þarf alltaf að byrja á byrjuninni því á hverju ári koma nýir nemendur í tíma. Núna hef ég heyrt frá átta sem ætla að koma. Þremur nýjum og fimm sem hafa komið áður. Þrjár af þessum fimm eru að koma núna í fimmta sinn til mín og tvær þeirra hafa sótt þessa tíma í mörg ár. Frá því löngu áður en ég flutti hingað. Þeim er alveg sama þótt þær kunni allt sem farið er yfir. Þeim þykir bara gaman að koma og tala íslensku. 

Fyrsti tíminn er núna í kvöld. Ég er að vona að Rosemary sé orðin nógu frísk til að mæta því þá fæ ég far með henni. Annars þarf ég að nota almenningssamgöngur og það þýðir strætó-lest-strætó og tekur sirka einn og hálfan tíma.

Ég hugsa að ég fari yfir stafrófið og kenni þeim svona nokkrar setningar eins og: Góðan daginn. Ég heiti X. Hvað heitir þú. 

Hvað fyndist ykkur bráðnauðsynlegt að kenna útlendingum? 


Nýju íþróttarásirnar mínar

Í sumar skipti ég um sjónvarpsþjónustuaðila. Í stað þess að vera með kapal frá Shaw ákvað ég að prófa stafrænu rásirnar hjá Telus, aðallega vegna þess að ég var þegar með símann minn og internetið hjá Telus og þeir bjóða upp á góða pakka þegar maður tekur allt þrennt saman. Ég er að borga undir fimmþúsund krónum fyrir allt - sjónvarp (um 30 stöðvar), ADSL internet og heimasímann. Fyrstu þrjá mánuðina eftir að ég skipti fékk ég allar rásirnar frá Telus sem eru um 250 sjónvarpsrásir og svipað af útvarpsrásum. Það stóð auðvitað aldrei til að halda þessu öllu enda margt sem ég horfði aldrei á. Ég reyndi því að nota sumarið í að velja úr hvað ég teldi að ég myndi nota. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að mig vantaði fleiri íþróttastöðvar því engin íþróttarás var á grunnkaplinum. CBC sýnir reyndar reglulega frá íþróttum en bara svipað og RÚV gerir, t.d. Rogers Sportsnet er t.d. alveg bráðnauðsynleg stöð því þeir sýna alltaf reglulega frá enska boltanum og þar að auki sýna þeir næstum því alla hokkíleikina hjá Vancouver. Ég vildi líka gjarnan bæta við mig pakkanum 'popular choices' þar sem fá má stöðvar eins og Bravo, Showcase og A&E sem ég horfði alltaf mikið á þegar ég var með allar stöðvarnar fyrir þremur árum (þá fékk ég þær ókeypis af því að fólkið fyrir ofan mig borgaði fyrir stöðvarnar og það var bara einn kapall þar sem ég bjó þá).

Ætlunin var að vera án þessa stöðva í einn mánuð og bæta svo þessum tveim pökkum við í næstu viku þegar nýtt tímabil hefst. En í gærkvöldi sá ég að Sportsnet sýndi klukkutímalangan þátt um Canucks og var sérstaklega tekið fram að það ætti að fylgjast með þjálfaranum í einn dag. OK, eins og þið vitið sem nennið að lesa bloggið mitt þá er þetta nokkuð sem ég hreinlega get ekki misst af. Klukkutímaþáttur með Vigneault. Það er betra en að sjá bíómynd með Ralph Fiennes. Þáttinn á að endursýna klukkan eitt í dag svo ég fór að hugsa um hver væri með kapal og væri heima um miðjan dag (klukkan var orðin of margt í gær svo ég gæti hringt í einhvern og beðið þá um að stilla vídeóið). Marion er heima á daginn en er ekki með Sportsnet. Ég held að Lína hafi sagt vera með fullt af stöðvum en hún er ekki heima á daginn. Rosemary er möguleiki! Hún hefur Sportsnet og er oft heima á daginn. En áður en ég hringdi í hana ákvað ég að prófa að hringja í Telus og sjá hversu fljótt þeir tengja nýjar stöðvar. Ég ætlaði að fá mér þessa stöð hvort eð var svo kannski gæti ég fengið hana fyrir hádegið. Svo ég hringdi og var sagt að það gæti tekið upp í 24 tíma að ná þessu í gegn. Svo ég sagði konunni að ég þyrfti endilega að sjá þátt klukkan eitt í dag og að ég væri að leita af vinum sem gætu tekið hann upp fyrir mig en það væri enn betra ef ég væri búin að fá stöðin fyrir þann tíma. Hún sagðist ætla að gera það sem hún gæti. Um tíu mínútum seinna var stöðin komin inn!!!! 

Ég er ekki alltaf mjög hrifin af Telus sem fyrirtæki en þarna brugðust þeir mér ekki. Þið vitið hvað ég verð að gera klukkan eitt í dag! 


Hollustan tekin við

Ég hef ákveðið að ég þurfi að léttast aðeins. Hef bætt á mig einhverjum kílóum í sumar og finn það á klifrinu. Hef meira að bera núna. Það er ekki gott. Þar að auki á maginn á mér það til að kvarta ef hann fær ekki nógu hollan mat. Það er óþægilegt en sniðugt að mörgu leyti. Það þýðir að ég get varla orðið mjög feit án þess að vera kvalin innan um mig.

Í gær var fyrsti dagur í heilbrigðu mataræði og í dag fór ég og keypti nóg af ávöxtum og grænmeti. Það má næstum borða endalaust af grænmetinu en ávextirnir eru pínulítið hættulegir. Manni finnst alltaf að maður geti borðað svo mikið af þeim af því þeir eru hollir en það er töluverður sykur í ávöxtum. T.d. er mikill munur á kaloríum í melónum annars vegar og t.d. vínberjum hins vegar. Annars eru eplin hrikalega góð núna.

Ef ekkert meir heyrist frá mér um þessa hollustu á næstu vikum þýðir það að ég hef tapað og ekki lést neitt. Annars mun ég segja frá, svona til að fá klapp á bakið. Það getur hjálpað mikið til.

Þetta þýðir að ég þarf líka að fara að drífa mig aftur út að hlaupa. Hef gert of lítið af því að undanförnu. Vona að ég fái einhverja þurra daga svo ég geti hlaupið í skóginum. 


Ég er víst Bankakaffi

Tók kaffiprófið sem virðist svo vinsælt hér í bloggheimum. Er ekki viss um að ég eigi að flíka niðurstöðunum en læt það samt vaða.

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Bankakaffi!
..sívinsælt og bráðnauðsynlegt.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?

 Hér er nákvæmari lýsing:

Þú ert harðduglegur og vinnusamur einstaklingur sem mætir fyrstur allra á kontórinn og ferð síðastur heim. Vinnufélagar þínir líta upp til þín og hugsa með sér í hljóði hvaðan þú fáir alla þessa orku. Þeir vita ekki sem er. Þú færð nefnilega allan dugnaðinn úr bankakaffinu góða. Bankakaffi er samheiti fyrir gamla góða uppáhellinginn en dregur nafn sitt af ókeypis kaffi í bönkum. VARÚÐ: Ef bankakaffi fær að standa á brúsanum of lengi verður það súrt.


En hver var meðalþyngdin árið 1980?

Það er nú ekki ætlun mín að liggja í fréttablogginu en stundum verður maður nú að kvarta yfir fréttum. Í þessari frétt um brjóstkrappa segir m.a.: "Stofnunin mælir með því að konur drekki minna og að sömu meðalþyngd verði náð og árið 1980". Ég get náttúrulega verið með útúrsnúninga og bent á að árið 1980 hafi ég verið tíu ára og ég meðalþyngd mín þá var líklega sirka 35 kíló. Varla á ég að ná þeirri þyngd aftur. Líklegra þykir mér að átt sé við að meðalþyngd kvenna almennt eigi að vera í líkingu við það sem hún var meðal kvenna almennt árið 1980. En það segir hvergi hver sú meðalþyngd var. Væri ekki ráð að hafa slíkar upplýsingar með fréttinni svo maður viti að hverju skal stefna???
mbl.is Mælt með lífsstílsbreytingum til að minnka tíðni krabbameins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi fyrirsögn

Fyrirsögnin á þessari frétt "Fylgi ríkisstjórnarinnar 70% samkvæmt nýrri könnun" er mjög villandi því ekki virðist hafa verið spurt um afstöðu til ríkisstjórnarinnar, heldur hvaða flokk myndi kjósa ef kosið yrði nú. Enda segir í fréttinni sjálfri að samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna sé 70%. Það er akkúrat málið, samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 70%, ekki fylgi ríkisstjórnarinnar sjálfrar, þótt auðvitað megi segja að ríkisstjórnin hefði þetta fylgi á bakvið sig. En það er auðvitað ekki fráheyrt að fólk sem t.d. styður Samfylkinguna en er illa við Sjálfstæðisflokkinn myndi kjósa Samfylkinguna án þess að vera beinlínis stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar. Og svo auðvitað öfugt. Fyrirsögnin ætti því fremur að vera "Fylgi ríkisstjórnarflokkanna 70% samkvæmt nýrri könnun".

Þetta er kannski tittlingaskítur en staðreyndin er að þarna er munur á. 


mbl.is Fylgi ríkisstjórnarinnar 70% samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var

Munið þið eftir frönsku þáttunum Einu sinni var sem sýndir voru í sjónvarpinu einhvern tímann í kringum 1980 (og svo endursýndir um tíu árum síðar)? Þetta voru teiknimyndaþættir um sögu jarðar og voru sömu karakterarnir notaðir aftur og aftur. Aðalstrákurinn hét Pétur en ég man ekki nöfnin á hinum. Mikið vildi ég horfa aftur á þessa þætti. Það er hægt að fá þá á dvd á frönsku en því miður virðist ensk útgáfa ekki vera til.

Síðar voru gerðir sams konar þættir um framtíðina en þeir voru ekki nálægt því eins skemmtilegir. 

Ástæða þess að mér duttu þessir þættir í hug er sú að sams konar byrjun var í nýjum Simpson þætti í kvöld. 

Hér getið þið séð upphafsstefið úr frönsku þáttunum:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband