Færsluflokkur: Bloggar
Sitt lítið af hverju
30.9.2007 | 21:40
Lasin
Ég er svolítið lasin í dag. Fékk einhverja lurðu og hef verið nokkuð slöpp undanfarna daga en ekki beinlínis veik. Er að reyna að sofa þetta af mér. Svaf í eina fjórtán tíma í nótt og held það hafi verið gott fyrir mig. Miklu betri í dag.
Enginn fótbolti
Fótboltanum var frestað í dag enda búið að rigna stanslaust síðan um miðjan dag í gær. Það þýðir að stórir pollar höfðu safnast saman á vellinum og þá má ekki spila. Kannski eins gott fyrir mig, þá get ég látið mér batna í staðinn. En samt leiðinlegt að ekkert skuli hafa orðið úr fótboltanum því við vorum komnar á skrið.
Aðeins meira af hokkíinu
Í gær fór ég í mat til Rosemary og Dougs og við horfðum saman á Canucks-Edmonton leikinn í sjónvarpinu. Hann endaði 5-4 fyrir Canucks. Þetta var síðasti æfingaleikurinn í haust en á föstudaginn hefst NHL deildin fyrir alvöru. Það sem helst skyggði á þennan leik var að Rick Rypien, leikmaður Canucks, skellti Mathieu Roy hjá Edmonton illilega í fjalirnar og sá síðarnefndi var borinn af velli. Rypien fékk fimm mínútnur í boxinu fyrir vikið sem bendir til þess að brotið hafi þótt alvarlegra en venjuleg brot en ekki of alvarlegt. Það sem gerir þetta brott ólíkt broti Downie's aðeins degi áður (en hann fékk tuttugu leikja bann) var fyrst og fremst það að fætur Rypiens voru enn á jörðinni en Downie stökk upp til að höggið yrði sem mest. Þar að auki sá Roy Rypien koma en því var ekki þannig farið í leil Senators og Flyers. Vigneault, þjálfari Canucks, segir að Rypien hafi ekki gert neitt rangt og að það hafi verið rétt hjá dómurunum að reka hann ekki útaf það sem eftir lifði leiks. Þetta er hluti af leiknum. Ég segi enn og aftur, mér þykir þetta ljótur hluti af leiknum en ég er víst í minni hluta.
Úr málvísindadeild
Fréttirnar úr deildinni minni eru fremur dapurlegar. Í dag heyrði ég af skólasystur minni sem missti fóstur og aðeins nokkrum mínútum síðar heyrði ég af einum skólabróður mínum sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hún hafði ekki fengið vinnu hér í Vancouver og þau höfðu reynt að halda úti fjarsambandi en það gekk greinilega ekki. Slík eru býsna erfið. En þau eru bæði ung og falleg og verða ábyggilega komin með nýja maka áður en ég skipti um sokka.
Spaugstofan
Ég horfði á Spaugstofuna áðan og fannst þátturinn aðeins betri en sá í síðustu viku. Þar munaði um Ladda sem er alltaf fyndinn. Jafnvel þótt atriðið með Eyjólfi og Magnúsi hafi í sjálfu sér ekki verið svo sniðugt þá get ég ekki annað en hlegið af Ladda sem Magnús. Hann er bara svo hrikalega fyndinn í því hlutverki. Mér fannst líka sniðugt atriðið með konunni sem var í Hagkaup að reyna að versla í Jamie Oliver rétt.
Bloggar | Breytt 1.10.2007 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Breytingar hjá Law & Order
29.9.2007 | 07:24
Og af því að ég var farin að tala um sjónvarpsþætti get ég allt eins haldið áfram um sinn - enda ekki orðin syfjuð þótt komið sé fram yfir miðnætti.
Uppáhaldsþátturinn minn í sjónvarpi hefur lengi verið Law & Order - sá upphaflegi, þótt ég horfi líka alltaf á SVU og stundum á CI. En nú eru framundan heilmiklar breytingar. Vegna þess að Fred Thompson hefur skellt sér í forsetaslaginn mun Arthur Branch láta af störfum saksóknara og aðstoðarsaksóknari, Jack McCoy, leikinn af Sam Waterston, tekur við af honum. Þetta er slæmt mál fyrir okkur aðdáendur Sam Waterstons því við munum sjá mun minna af Jack McCoy í komandi þáttum, enda saksóknarastaðan aldrei verið meira en aukahlutverk í þáttunum. Þó er betra að sjá hann halda áfram í smáhlutverki en að hann hætti í þáttunum, en Sam hefur áður sagt að hann sé orðinn nokkuð þreyttur á McCoy enda búinn að leika hann í ein ellefu ár.
Leikarinn Linus Roache mun koma inn í þættina sem nýr aðstoðarsaksóknari og Jeremy Sisto mun taka við sem félagi Jesse L. Martin. Mér hefur alltaf leiðst Sisto en ég verð að sætta mig við hann ef ég á að geta horft á þættina. Verst er að það er aðeins búið að skrifa upp á samning við Martin um 13 þætti þannig að það má allt eins vera að hann hverfi á braut um miðjan vetur. Með Waterston í smáhlutverki og Jesse Martin farinn er hægt að segja bless við L&O, þættirnir munu aldrei lifa það af.
Það er líka stórundarlegt að það á ekki að hefja nýju þáttaröðina fyrr en í janúar, á meðan flestar aðrar raðir koma til baka í september eða október. Og það má ekki einu sinni horfa á gamla þætti á meðan (nema þá eldgömlu þættina) vegna þess að forsetaframboð Fred Thompson gerir það að verkum að ekki má sýna neitt sjónvarpsefni með honum sem ekki viðkemur beinlínis forsetakosningunum. Fuss og svei.
Við þetta má bæta að leikarinn Adam Beach er genginn til liðs við L&O:SVU og í einni grein sem ég las var hann kallaður Native American. Síðast þegar ég vissi var hann kanadískur (meira að segja frá Manitoba - af Salteaux indjánum) og þótt Kanada sé í Norður Ameríku þá á hugtakið native american eingöngu við um indjána í Bandaríkjunum, ekki þá norðan landamæranna. Alltaf skulu þessir Kanar reyna að ræna hæfileikaríkum Kanadamönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ný sjónvarpstíð hafin
29.9.2007 | 06:40
Síðari hluti september er vanalega sá tími þegar sjónvarpsstöðvarnar koma með nýtt sjónvarpsefni, hvort sem er nýir þættir í gömlum seríum eða glænýjar seríur. Þetta hefur glatt mig ákaflega og í þessari viku hef ég séð nýja þætti frá Law & Order:SVU, Shark, Without a trace, Ghost Whisperer og Ugly Betty. Ég veit að Supernatural kemur til baka í næstu viku, svo og Desparate housewifes, en hins vegar eru þættirnir um Veronicu Mars búnir að vera. Það er mikil synd því þeir þættir voru með því besta í sjónvarpinu.
Í kvöld sá ég líka nýjan þátt, Moonlight, og satt að segja er ég ekki viss um að ég muni horfa á fleiri þætti í þeirri röð - nema ef vera skyldi vegna þess að það má alveg horfa á aðalleikarann. Þetta er þáttur um einkaspæjara sem er...og haldið ykkur nú...vampíra! Jebb, ég er ekki að ljúga þessu. Minnir þetta eitthvað á Angel og Buffy? Í fyrsta þættinum er kona drepin og tvö tannför finnast á háls hennar. Vampírur borgarinnar óttast þetta mjög því þær vilja að sjálfsögðu ekki að fólk fari að trúa á vampírur og setja þannig líf tegundarinnar í hættu. Mín spá er sú að þetta verði ekki langlífir þættir.
Fyrr í vikunni sá ég annan nýjan þátt sem var mun skemmtilegri. Sá heitir Reaper og er dökkur grínþáttur. Hann fjallar um ungan mann sem kemst á því á tuttugu og eins árs afmælinu sínu að áður en fæddist seldi foreldrar hans djöflinum sál frumburðar síns. Nú á hann sem sagt að vinna fyrir djöfulinn við það að finna sálir sem sloppið hafa úr helvíti, og senda þær aftur niðurávið. Þetta var þrælfyndinn þáttur og lofar ágætu.
Já, það verður athyglisvert að sjá hvað sjónvarpsstöðvarnar koma með í þetta skiptið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Rauða kindapeysan mín
28.9.2007 | 22:09
![]() |
Fólk hvatt til að mæta í rauðum bolum á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Íþróttir og fjármálaheimurinn
28.9.2007 | 18:02
Tvö mál úr réttarsölum Bresku Kólumbíu hafa fyllt síður blaðanna í allt sumar. Annars vegar er það málið yfir svínabóndanum og fjöldamorðingjanum Robert Picton og hins vegar málið um eignaréttinn yfir fyrirtækinu Orca Bay, sem á hokkíliðið Vancouver Canucks og GM Place höllina.
Fyrra málið er óhugnanlegt og ég er löngu hætt að lesa um smáatriðin þar enda ekki erfitt að kúgast við þann lestur. Síðara málið hef ég hins vegar drukkið með morgunverðinum. Málahættir eru þessir:
Árið 2003 tóku þrír auðjöfrar í Vancouver, Tom Gagliardi, Ryan Beedie og Francesco Aquilini, sig saman og buðu í félagið Orca Bay, þá í eigu bandaríska auðjöfursins Sam McCaw. Lítið gekk í samningsmálum og nokkrum mánuðum síðar dró Aquilini sig út úr samstarfinu. Gagliardi og Beedie héldu áfram viðræðum við Stan MacAmmon, aðalsamningamann McCaws en ekkert gekk. Ár var liðið og aðilar höfðu ekki náð saman. Gagliardi og Beedie trúðu því að McCaw vildi ólmur selja og myndi því sætta sig við lægra verð og þeir héldu því áfram að reyna að ná verðinu niður. Einhvern tímann um sumarið 2004 reyndi Aquilini að koma aftur inn í samstarfið en var hafnað. Það var svo í nóvember 2004 að Aquilini gerði McCaw boð í 50% eignahluta í Orca Bay og á innan við tveim vikum höfðu þeir náð samkomulagi. Síðar keypti Aquilini afganginn af félaginu og er því eini eigandi liðsins og bygginganna.
Í vor kærðu svo Gagliardi og Beedie þá Aquilini og McCaw og ásökuðu þá um óheiðarlega viðskiptahætti. Vilja þeir m.a. meina að af því að Aquilini var um tíma hluti af boði þeirra þá hafi hann vitað of mikið um smáatriði í tilboðum þeirra og hafi því ekki átt rétt á að bjóða á móti þeim. Þeir vilja líka halda því fram að viðræður milli Aquilini og McCaw hafi hafist áður en McCaw sagði þeim Gagliardi og Beedie að hann væri hættur viðræðum við þá. Þessu hafa Aquilini og McCaw alltaf neitað en margt bendir til þess að þeir séu að fela sannleikann. Hvorugur þeirra síðarnefndu kom mjög vel út úr vitnaleiðslum. Hitt er annað mál að í upphafi sökuðu þeir Gagliardi og Beedie Aquilini um ýmislegt sem þeir hafa síðar dregið til baka, þannig að það virðist ljóst að hér er leikið af hörku og ekki hikað við að skjóta aðra í bakið.
Þetta mál hefur verið fyrir rétt síðan einhvern tímann síðasta vor og nú virðist loks vera að styttast í málalok. Ég get ekki séð að neinn hér sé góði gæinn en að mörgu leyti vona ég að þeir Gagliardi og Beedie tapi málinu. Í fyrsta lagi vegna þess að ég held að það sé ekki gott fyrir liðið ef allt í einu skiptir um eigendur núna. Í öðru lagi sýnist mér að þeir séu ekkert betri gæjar en Aquilini og yrðu ekkert betri fyrir félagið. Og í þriðja lagi virðist Aquilini hafa gert ýmislegt gott með félagið. Alla vega stóðu kanúkarnir sig betur í fyrra en þeir hafa gert í mörg ár. Ég held reyndar að þar hafi gert gæfumuninn þjálfarinn Vigneault og frábærir samningar framkvæmdastjórans Nonis. En þessir menn eru auðvitað báðir starfsmenn Aquilinis og hann hefur alla vega haft vit á að hafa hæfileikamenn í mikilvægustu stöðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jafnréttið á fyrri tímum
26.9.2007 | 23:01
Það er skemmtilegt að sjá hvernig jafnréttið var í raun á sjötta áratugnum. Hér má sjá tvær myndir. Sú efri er af kassa utan af orustuleik og sú neðri er stækkuð mynd af sama kassa þar sem fókusinn er á efra horn til hægri. Sjáið hvað mamma og Sigga eru að gera á meðan pabbi og Palli leika sér!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Reynsla mín af Stamford Bridge
26.9.2007 | 20:08
Sumarið 1998 fór ég til Englands og var þar í nokkra daga. Mig langaði mikið á leik með Arsenal en á þessari viku sem ég var þarna spiluðu þeir engan heimaleik, aðeins einn leik á útivelli gegn Chelsea. Oft fá aðkomuliðin aðeins um 2000 miða á hvern leik og þessir miðar fara yfirleitt alltaf til þeirra sem eiga ársmiða á leiki félagsins. Það var því ekki nokkur leið að fá sæti í gegnum Arsenal. Ég hringdi því í íslenska ferðaskrifstofu sem mér var sagt að seldi miða á leiki í ensku úrvalsdeildinni. Ég fékk næstum því hjartaáfall þegar mér var sagt hvað miðarnir myndu kosta því það var vel yfir tíuþúsund kall. Ég fékk hóstakast og náði að stynja upp úr mér einhverri spurningu um hvers vegna verð væri svona svívirðilega hátt og fékk að vita að ferðaskrifstofan fengi miðana frá söluaðila sem keypti þá af klúbbnum. Það hvarflaði ekki að mér að kaupa miða á þessu verði svo ég ákvað að prófa annað ráð. Ég skrifaði beint til Chelsea og bað um miða á leikinn, ásamt því að gefa þeim upp upplýsingar um vísakortið mitt. Um viku seinna fékk ég miða á ódýrasta stað fyrir skít á priki (um 2000 krónur).
Eini gallinn við þetta var auðvitað að ég sat innan um 40.000 Chelsea aðdáendur með hjartað í buxunum yfir því að ef Arsenal skoraði myndi ég kannski gleyma mér og stökkva upp af fögnuði. Það reyndist ónauðsynlegur ótti því leikurinn fór 0-0. Kannski eins gott fyrir mig. Þar að auki hefði ég aldrei séð mark ef það hefði verið skorað því í hvert sinn sem boltinn nálgaðist annað hvort markið stóðu allir upp og ég sá ekki baun.
En það var auðvitað magnað að fara á leik og ég prófaði meira að segja að borða pylsurnar þeirra sem eru beinlínis pylsa í brauði með sirka fjórum hráum laukum, vaðandi í olíu. Athyglisvert.
![]() |
Chelsea lækkar miðaverðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki annar þjófanna
26.9.2007 | 16:42
Og enn gerir mogginn ráð fyrir að þetta sé annarra þjófanna:
"Svo virðist því sem annar þjófurinn hafi útvegaði lögreglu betri myndir af sér með þessum sérstaka hætti."
Skoðið myndirnar af þjófunum: http://billmacewen.com/blog/2007/09/24/more-images/
og berið svo saman við myndina af manninum á flickr: http://www.flickr.com/photos/workspace/1431892021
Þessi maður er hvorugur þjófanna. Alveg eins og ég sagði í gær hér þá hefur þessi maður keypt tölvuna af þjófunum. Það að hann er góðkunningi lögreglunnar kemur ekkert á óvart enda segja menn að þetta tattú á honum sé fangelsistattú, og þar að auki hefur hann ábyggilega vitað þegar hann keypti tölvuna að hún var illa fengin, en í guðanna bænum hættið að klifa á því að þetta sé annar þjófanna.
![]() |
Meintur þjófur, sem birti mynd af sér á netinu, gaf sig fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki nógu nákvæm frétt
25.9.2007 | 19:30
Fréttin á mogganum um kanadíska þjófinn sem hlóð mynd af sér á netið er mjög ónákvæm og væri kannski betra fyrir moggann að taka hana frá kanadískum blöðum en úr dönskum blöðum.
Ég er búin að reyna að blogga um fréttina en tengingin datt út. Ég veit ekki hvort ég gerði eitthvað vitlaust eða hvort lokað var á það. Ég prófaði nokkrum sinnum og varð alltaf að henda út færslunum því það kom aldrei tenging á milli. En hér er umrædd frétt ef þið hafið ekki séð hana: http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1293278v
Í fyrsta lagi, það veit enginn hvort þetta er þjófurinn eða ekki. Þetta gæti t.d. verið einhver sem keypti stolnu tölvuna af þjófnum. Sex tölvur voru teknar við innbrotið og ég efast um að þjófarnir haldi öllum tölvunum til einkanota. Þar að auki náðust myndir af þjófunum tveim á öryggismyndavél fyrirtækisins og þessi náungi virðist hvorugur þeirra. Hér er myndin af þjófunum: http://billmacewen.com/blog/2007/09/24/more-images/
Í öðru lagi hlóð maðurinn myndinni ekki inn á netið sjálfur. Tölvan var útbúin einhvers konar búnaði sem var þannig að um leið og ákveðið forrit var notað til að taka myndir þá sendi forritið myndina beint inn á flickr. Þetta var ekki sett upp sem öryggisatriði heldur var vélinni stillt upp í fyrirtækinu þaðan sem henni var stolið, og gerðu starfsmenn þetta sér til gamans að þegar fólk tók myndir af sér með PhotoBooth þá var myndin strax send á flickr. Ef þið farið á síðuna sem vísað var á í fréttinni (http://www.flickr.com/photos/workspace/) sjáið þið einmitt alls konar fólk á staðnum. Þetta þýðir að þegar maðurinn umræddi notaði forritið til að taka af sér mynd þá var myndin umsvifalaust á flickr síðu fyrirtækisins (Workspace). Hann var því kannski ekki gáfaður en ekki nærri eins heimskur og halda má miðað við fréttaflutninginn hér. Enda er alveg ljóst að ef hann hefði sent myndina sjálfur inn á eigin flickr síðu hefði enginn vitað af því að um þessa tölvu var að ræða. Lögreglan liggur ekki á netinu og skoðar númerið á öllum tölvum sem tengjast netinu. Það var af því að myndin fór inn á þessa ákveðnu síðu sem þetta komst upp.
Það gæti vel verið að þessi maður hafi átt þátt í þjófnaðnum en það er líka alveg mögulegt að hann hafi bara keypt tölvuna af þjófunum. Þetta er svona kanadískt lúkasarmál.Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um dásemdir baðferða
25.9.2007 | 18:39
Ég held svei mér þá að baðkör komist á topp tíu listann yfir bestu uppfinningarnar. Það er hreint ótrúlega gott að liggja í heitu baði og slaka á. Ég segi nú bara sturta schmurta (eða sturta hvað?). Tek baðkarið fram yfir anyday. Þegar mér líður illa eða er í vondu skapi læt ég oft renna í bað og það er fátt sem hjálpar betur í slíkum tilfellum. Enda var það orðið þannig þegar ég bjó með Tim að ef honum fannst ég ekki nógu kát þá lét hann renna í bað fyrir mig. Sérstaklega þegar ég var eitthvað að gribbast (sem var nú oftast ef ég var orðin of svöng - og þá var stundum betra að borða bara eitthvað).
Í ultimate á sunnudaginn gerði Ryan einhvern fjandann við annan kálfvöðvann á sér. Hann var alla vega draghaltur og gat ekki haldið áfram að spila. Hann dauðskammaðist sín vegna þess að hann sagði að það hefði í raun ekkert gerst. Hann var bara að hlaupa og fékk allt í einu þennan hroðalega verk í vöðvann. Hann keyrði mig heim á eftir og ég sendi hann heim með þau skilagoð að fara í heitt bað til að slaka á. Stundum gerist það að vöðvarnir kreppast saman til að verja eitthvað sem þeir halda að séu meiðsli. Þá er aðalatriðið að teygja á vöðvunum og fá þá svo til að slaka á og verkurinn sama sem hverfur. Þetta hefur komið fyrir mig í fótboltanum og sjúkraþjálfi sem þá var með einni stelpunni í liðinu sýndi mér hvað ætti að gera. Alla vega, í gær þegar við Marion fórum að klifra spurði ég hana að því hvernig Ryan hefði það og hún sagði að hann hlyti að hafa verið hrikalega sár því hann hefði farið í bað þegar hann kom heim og verið þar í þrjá klukkutíma. Við þetta bætti hún: "Ég er alltaf að reyna að draga hann í bað en hann vill ekki sjá það. En þarna fór hann sjálfviljugur." Þegar ég sagði henni að ég hefði skipað honum að fara í bað varð hún hálf móðguð og sagðist ekki skilja af hverju hann fer í bað þegar ég segi það en ekki þegar hún segir það. Kannski hann hafi meiri trú á mínum ráðum við íþróttameiðslum en Marion sem harðneitar að stunda neitt sem inniheldur hlaup.
En það sem ég vildi segja: Baðferðir eru dásamlegar.
Mæli samt með því að fólk hafi vakandi auga yfir baðinu á meðan látið er renna í það. Hef einu sinni látið flæða úr baði yfir öll gólf (parket) heima hjá mömmu og pabba. Það var ekki vinsælt. En í staðinn fékk mamma alveg nýtt gólf og drifið var í breytingum sem hún hafði hvort eð er alltaf viljað láta gera! Þannig að kannski var það lán í óláni að ég gleymdi mér yfir Mogganum frammi í eldhúsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)