Færsluflokkur: Bloggar

Ótrúlegt...

...að þeim skyldi líka við íslenska matinn. Ég hélt alltaf að þetta væri svona matur sem maður yrði að borða frá blautu barnsbeini til þess að geta látið ofan í sig. Mér finnst reyndar margt alveg dásamlegt í íslenskri matargerðarlist. Það er t.d. fátt eins gott eins og soðin lifrapylsa með svolitlum syktri og kartöflustöppu. Íslensk kjötsúpa er frábær og saltkjöt náttúrulega magnað. Mér þykir meira að segja hákarl algjör sælgæti, hefur alltaf fundist það. En það er líka margt hræðilega bragðvont eins og flestur þorramatur (allur súrmatur) og svo bölvuð skatan.

Annars sverja mamma og pabbi og sárt við leggja að þeim þyki skata í alvörunni vera góð. Ég held því fram að þau séu að ljúga að mér. Sjálf snerti ég ekki á henni. Vil helst ekki vera í húsinu  þegar hún er borðuð. Fyrir nokkrum árum fór þáverandi kærasti minn, kanadískur, með mér til Íslands um jólin og ég var mikið búin að lýsa fyrir honum þessum fiski sem köttur hefur pissað á. Hann var alveg harðákveðinn í að prófa en kveið nú samt svolítið fyrir. Mamma hefur alltaf skötuna daginn fyrir Þorláksmessu og svindlar svolítið þannig. Það er til þess að vera laus við lyktina úr húsinu fyrir jólin (mig hryllir við tilhugsunina). Soðinn var hellingur af fiski enda komu bræður mínir og fjölskyldur þeirra í mat. Pantaðar voru pizzur fyrir þá sem ekki vildu skötuna og pizzuliðið borðaði inni í stofu með kyrfilega lokað inn í eldhús þar sem skatan réð ríkjum. Það var margbúið að segja Tim að hann þyrfti ekki að borða skötuna en hann þráaðist við. Fannst hann gæti ekki verið á Íslandi um jól og ekki borðað skötu.

Eftir nokkurn tíma kom mamma inn í pizzustofuna og tilkynnti að Tim væri búinn að fá sér aftur á diskinn. Mér létti mikið enda benti til þess að honum þætti  maturinn góður og að þetta væri sem sagt engin pína fyrir hann. Að mat loknum spurði ég hann því hvort honum hafi þótt þetta svona gott. "Nei", sagði hann. "Þetta var það ógeðslegasta sem ég hef nokkurn tímann borðað." "En af hverju fékkstu þér þá aftur á diskinn?" spurði ég. "Nú, allir hinir fengu sér tvisvar og ég gat nú ekki verið minni maður." Svo mörg voru þau orð.  

 


mbl.is Undarlegur matur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngflugan og Simpson

Ég las einhvers staðar um daginn að það yrði líklega enginn X-factor þáttur á Íslandi í vetur. Hér kemur þá hugmyndin að þættinum sem þið getið verið með í staðinn. Í bandaríska sjónvarpinu er núna verið að sýna þætti sem heita The Singing Bee (nafnið fengið lánað úr The Spelling Bee) þar sem keppendur þurfa að kunna texta þekktra dægurlaga. Keppnin fer þannig fram að söngvari syngur brot úr frægu lagi frá ýmsum tímum og þegar hann/hún hættir að syngja þá verður keppandinn að halda áfram og hvert einasta orð verður að vera rétt. Þannig er haldið áfram þar til aðeins einn er eftir. Þetta er hin ágætasta skemmtun. Stjórnandi er enginn annar en fyrrum NSync gæinn Joey Fatone, sem ruddist aftur fram á sjónarsviðið í vetur í þáttunum Dancing with the stars.

Ég finn reyndar ótrúlega fyrir því hversu léleg ég er í textum, sérstaklega enskum textum. Megnið af þessum lögum söng ég áður en ég var orðin nógu góð í ensku til að skilja hvað verið var að segja þannig að ég hef alltaf sungið einhvers konar bull sem er svona í líkingu við það sem sagt er á enskunni en alls ekki réttur texti. Ég kann líklega eitthvað meira af íslenskum textum en einhverra hluta vegna hef ég alltaf hlustað meira á laglínuna en textann. Ég er hins vegar ágæt í íslenskum þjóðlögum því þar var ég vön að hafa texta fyrir framan mig þegar sungið var.

Í dag fór ég að sjá Simpson myndina. Hún er býsna fyndin og ég hló upphátt á mörgum stöðum. Samt fannst mér myndin kannski ekki alveg heppnast eins vel og hún hefði getað. En einhverra hluta vegna hafði ég heldur ekki búist við því. En auðvitað er myndin algjört möst fyrir alla Simpson aðdáendur.


Svolítið um Sturlu Gunnarsson

Eitt af einkennum sumarsins er að næstum því engir nýir sjónvarpsþættir eru sýndir. Maður hefur því þrjá kosti. Í fyrsta lagi, maður getur sleppt því að horfa á sjónvarp, sem öllu jöfnu er góður kostur, en stundum langar mann einfaldlega að setjast í hægindastólinn og horfa inn í veröld aðra en manns eigin. Annar kostur er því að horfa aftur á sömu þættina og maður sá í vetur, eða síðastliðinn vetur. Þriðji möguleikinn er sá að uppgötva eitthvað nýtt. Ég hef svolítið gert af því að horfa á sjónavarpsþætti sem ég hef aldrei séð áður, og sumir lofa mjög góðu, jafnvel þótt hætt sé að framleiða þá. Einn af þessum þáttum er Zoe Busick: Wild Card. Þættirnir fjalla um konu á fertugsaldri, Zoe, sem allt í einu sér líf sitt umhverfast þegar systir hennar deyr. Zoe þarf að snúa baki við spennandi lífi í Las Vegas og flytja til Chicago þar sem hún tekur við uppeldi þriggja systrabarna sinna. Hún fær vinnu í tryggingafyrirtæki og fer að leysa alls kyns tryggingasvik og skyld mál. Í aðalhlutverki er Joely Fisher sem er alveg frábær leikkona. Hún lék á sínum tíma í þáttunum um Ellen, síðar í Till Death.

Ástæða þess að ég minnist á þessa þætti er sú að þegar ég fór að horfa á þáttinn í kvöld tók ég eftir því að leikstjórinn var enginn annar en okkar eigin Sturla Gunnarsson. Hann hefur leikstýrt einstökum þáttum í mörgum seríum, meðal annars þáttunum Da Vinci's Inquest og Da Vinci's City Hall, Intelligence og The Best Years. Annars er alltaf uppáhaldsmyndin mín eftir Sturlu Rare Birds sem ég mæli með að allir sjái.

Sturla ólst upp í Vancouver og mamma hans, Ástríður, býr hér ennþá. Ég gisti einmitt hjá henni þegar ég kom hingað veturinn 2003 og hélt fyrirlestur. Hún er alveg frábær. 


Ávaxtaflugur

Ég væri nú ekki samkvæm sjálfri mér ef ég skrifaði ekki um ávaxtaflugurnar sem fylla eldhúsið þessa dagana. Þetta eru pínulitlar leiðindaflugur sem sækja helst í þroskaða ávexti og annan mat. Ég man ekki fruitflieseftir þeim frá Winnipeg en hér í Vancouver eru þær fastagestir á mínu heimili síðsumars. Fyrir tveimur árum voru  þær algjör plága en í fyrra voru þær ekki svo slæmar. Nú virðist allt stefna í aðra plágu og kannski hefur það eitthvað með ruslaverkfallið að gera. Verkfallið hefur nú staðið yfir í rúmar tvær vikur og ruslatunnur fyrir löngu orðnar fullar.

Ég fann grein um ávaxtaflugur á netinu og þar var gefið gott ráð til þess að veiða flugurnar. Maður setur svolítið af eplaediki í krukku og býr svo til trekkt úr venjulegu blaði og setur í krukkuna. Flugurnar sækja svo í edikið og fljúga niður í krukkuna en eru of vitlausar til að komast aftur út. Ég er þegar búin að fara út með tvær krukkur og losa þær og það er töluverður slatti nú þegar kominn í þriðju krukkuna.

Ég held að þessar flugur séu ekki hættulegar en þær eru auðvitað hvimleiðar enda eru þær í hundruðatali og setjast á mat ef eitthvað er skilið eftir á borðinu. Maður þarf helst að hafa allt í ísskápnum og loka öllu vel.

Já, það er víst nóg af kvikindum í útlandinu. 


Gengið á ljónin

Í gær var mikill göngudagur þar sem ég gekk á ljónin svokölluðu (The lions) sem tilheyra Cypress bowl þjóðgarðinum hér í Bresku Kólumbíu. Forsagan var sú að Kathy sem spilar ultimate með mér spurði í leiknum á fimmtudaginn hvort einhver hefði áhuga á að ganga ljónin. Hún ætlaði að gera það ásamt Liesl vinkonu sinni frá Vancouver eyju sem var í heimsókn. Ég sagðist umsvifalaust hafa áhuga og sagðist ætla að tala líka við Línu Héðins, sem er nýflutt hingað út ásamt kærasta sínum, og er algjör útivistarfrík. Lína sagði já, enda Alex uppi á jökli einhvers staðar, svo við vorum fjórar sem lögðum af stað frá Vancouver klukkan átta í gærmorgun.

Við lögðum af stað frá Lions Bay þorpinu þar sem eingöngu búa ríkisbubbar (miðað við húsin), á  mínútunni níu. Við þurftum fyrst að labba sirka kílómetra eftir gömlum malarvegi en svo tók skógarstígurinn við með tilheyrandi brölti yfir fallin tré, grjót, lækjarsprænur og þvíumlíkt. Það voru engar mýrar að fara eins og á Súlum, þetta varð bratt frá upphafi. En mikið rosalega var leiðin fallegt. Þarna var nóg að taka myndir af, hvort sem voru tré, blóm, grjót, ber, fjöll, sjór, ský...

Eftir þriggja tíma príl uppá við og sára fætur vorum við komin upp á svolitla hillu sem við töldum vera hnakkinn svokallaða (the saddle). Planið var frá upphafi að ganga ekki á tindinn enda hann brattur og hættulegur og ekki fyrir lofthrædda. Við settumst því niður ásamt nokkrum öðrum sem voru þarna líka á göngu, borðuðum svolítið og reyndum um leið að veifa frá okkur flugunum sem voru alls staðar. Þetta voru bæði moskítur, svartflugur og eitthvað annað sem ég ekki kann skil á. Ég tók myndir af ljónunum sjálfum sem loks voru sýnileg (þótt ég hafi reyndar komist að því síðar að það var bara vesturljónið sem við sjáum þarna. Austurljónið var hulið þar á bakvið), af útsýninu, af Kathy og Liesl að reyna að borða um leið og þær veifa flugunum á burtu, af Línu með ljónið í baksýn (Lína og ljónið - mér finnst það hljóma eins og titill á barnabók). Kathy og Liesl fóru að tala við aðra göngugarpa og komust að því að við vorum alls ekki komin upp á hnakkinn. Það var alla vega um 30 mínútna ganga eftir.

Fæturnir kvörtuðu mikið yfir því að halda áfram göngunni enda var búið að segja þeim að við værum komin eins langt og við færum. En hálftímagangur er ekki svo mikið. Nema hvað það var alls ekki rétt. Það tók okkur alla vega klukkutíma að komast upp á hinn eiginlega hnakk. Og þessi efsti hluti var ekki auðveldur. VIð þurftum að ganga yfir snjóbreiður, upp lækjarsprænu (já við gengum meira og minna í læknum því það var engin önnur leið auðveld), yfir kletta... erfitt en skemmtilegt.

Við komumst loks upp og var launað með útsýni niður til Vancouver og yfir austurljónið. Við borðuðum aðeins meira og hvíldum lúin bein því niðurferð er aldrei góð þegar læravöðvarnir eru þreyttir. Lína og ég höfum báðar slæm hné og það er því alltaf erfiðara að ganga niður fjöll en upp þau. Við fórum okkur hægt enda var það nauðsynlegt. Sérstaklega efsta hlutann þar sem þurfti að ganga niður snjóbreiður, kletta og læki. Ég var sú eina í almennilegum gönguskóm fyrir þennan hlutann. Gönguskór Línu gripu ekki alltaf nóg í og hinar stelpurnar voru á strigaskóm. Ég fór því fyrst, sérstaklega yfir snjóinn, og reyndi að búa til almennileg fótsport til þess að auðvelda gönguna fyrir þær hinar. Þetta gekk allt saman og við fórum okkur hægt og stoppuðum þegar við þurftum. Hnén héldu lengst af og þegar við komumst yfir mesta prílið hélt ég að ég væri sloppin. En neðsti hlutinn var erfiðari en ég hafði búist við. Bæði var hann nú brattari en eins var það að ég var orðin þreytt og vöðvarnir héldu því ekki eins vel í og fyrr. Mig fór því að verkja meir og meir í hnén, ekki bara það hægra sem er verra, heldur einnig vinstra hnéð. Tærnar voru líka alveg í kremju enda búnar að soðna bókstaflega í gönguskónum allan daginn. Þar að auki var ég bæði sólbrunnin og bitin af moskítum og svartflugum (black fly). Ég fékk reyndar bara eitt svartflugnabit (sem bíta í alvöru, stinga ekki eins og moskítan), en Lína fékk nokkur. Það voru blóðtaumar niður ökklana á henni. Moskíturnar létu hana hins vegar í friði. Liesl var ekkert bitin en át alla vega fjórar flugur. Þær voru eins og mývargar þarna uppi, í augunum á manni, nefinu og munninum. Algjör plága. Kathy slapp með eitt svartflugnabit. 

Mikið var gott að koma í bílinn. Við keyrðum reyndar beint á lítinn sölustað og fengum okkur kælingu, skruppum á klósettið og slöppuðum af fyrir keyrsluna heim. Við vorum auðvitaðar klístraðar af svita og ekki mjög kræsilegar. Það sýnir hvað mikið við svitnuðum að ég, sem alltaf þarf á klósettið á tveggja tíma fresti, fór á klósettið klukkan hálf átta um morguninn og ekki aftur fyrr en klukkan sex um kvöldið. Ég hef aldrei áður lifað af svona lengi án þess að pissa. Vökvinn fór greinilega allur út um svitaholurnar. Og nú er ég búin að segja of mikið.

Í dag er ég útbitin og þreytt og mig verkjar í lærisvöðvana. En sem betur fer báru hnén engan varanlegan skaða og eru þokkaleg í dag. Stundum bólgna þau upp eftir svona fjallgöngur og þá get ég varla gengið á eftir, en kannski er ég að styrkjast. Ég er ánægð með ferðina. 

Ég tók alveg helling af myndum og þið getið séð þær hérna: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/ 


En hvað létust margir Írakar?

Hvað létust margir Írakar? Af hverju er alltaf verið að segja okkur frá því hvað margir Bandaríkjamenn látast í Írak en aldrei minnst á hversu marka saklausa (og seka) Íraka Bandaríkjamenn drepa? Þótt Saddam Hussein hafi gert margt slæmt á sinni æfi þá má ekki setja alla Íraka undir sama hatt og mér þykir líf saklausra borgara alveg jafnmikilvægt (og mikilvægara) en bandarískra hermanna sem flestir eru í þessu stríði af fúsum og frjálsum vilja. Það er jú ekki herskylda lengur í Bandaríkjunum. Íslensk blöð ættu að sjá sóma sinn í því að draga ekki taum annars aðilans.
mbl.is Fjórir bandarískir hermenn látnir í Írak um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um upphitunarhljómsveitir

Upphitunarhljómsveitir eru í þeirri stöðu að fá tækifæri til að spila fyrir framan fjöldann allan af fólki sem annars myndi aldrei heyra í þeim, en á sama tíma er hljómsveitin ekkert endilega velkomin því allir eru að bíða eftir aðalnúmeri kvöldsins, og margir vilja því helst losna við upphitunarhljómsveitina af sviðinu sem fyrst.

Ég athuga vanalega hver á að hita upp þegar ég fer á tónleika og ef mér líst ekkert á hljómsveitina mæti ég ekki fyrr en um það leytið sem aðalhljómsveitin á að byrja að spila. Mér skilst að ástæðan fyrir upphitunarhljómsveitinni sé sú að hún á að koma manni í stuð áður en aðalnúmerið byrjar, en vanalega líður svo langur tími frá því að upphitunarhljómsveitin lýkur sínu prógrammi og þar til aðalnúmerið byrjar að maður er löngu búinn að missa stuðið, ef maður komst í það á annað borð. Mér hefur því aldrei almennilega fundist þetta atriði virka og vildi því fremur borga örlítið minna fyrir miðann minn og fá bara eitt atriði á kvöldi. Í þessi tvö skipti sem ég hef séð McCartney á tónleikum hefur hann, t.d., ekki haft neitt upphitunarband en var þó með undarlegt sirkusatriði í fyrra skiptið og kvikmyndasýningu í það síðari. En af því að engu þurfti að breyta á sviðinu á milli atriða þýddi það líka að Paul byrjaði að spila um leið og upphitunaratriðunum lauk.

Það hefur þó komið fyrir að ég ég hef séð frábær bönd eða söngvara hita upp fyrir tónleika. Ég sá t.d. Joe Cocker hita upp fyrir The Guess Who, og Bonnie Raitt hitaði upp fyrir Rolling Stones. Þá sá ég líka Theory of a Dead Man hita upp fyrir Default nokkrum vikum eftir að ToaDM komust á topp kanadíska vinsældarlistans í fyrsta sinn. Það var eiginlega jafn skemmtilegt að sjá ToaDM eins og Default.

En Default kynntu líka fyrir mér annað magnað band, Greenwheel. Í það skiptið fór ég á tónleika með Default í Fargo, Norður Dakota, sem er í um fjögurra klukkutíma keyrslu frá Winnipeg. Við Tim keyrðum þangað niðureftir seinni part dags og keyrðum aftur heim eftir tónleikana. Það var reyndar mjög erfitt því við vorum ekki komin heim fyrr en um þrjú eða fjögur um morguninn. Alla vega, þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Default á tónleikum og í raun þekkti ég bara eitt lag með þeim, Wasting my time, sem þá var geysilega mikið spilað í kanadísku útvarpi. Ég efast um að það lagi hafi náð til Íslands en það er eiginlega synd því Default er glettilega góð hljómsveit.

Tónleikarnir hófust og ungir strákar komu fram á sviðið og byrjuðu umsvifalaust að spila rock alternative af bestu sort. Ég stóð í þvögunni fyrir framan sviðið og hreyfði mig í takt við tónlistina. Þetta var svolítið í stíl við Creed og Nickelback en það var allt í lagi, frábærar hljómsveitir báðar tvær. Ég hafði aldrei heyrt neitt þessa laga en þau gripu mig gjörsamlega og ég var alveg í skýjunum yfir þessum tónleikum, en þeir spiluðu samt ekki Wasting my time. Svo kom að því að þeir þökkuðu fyrir sig og það var þá sem ég varð svolítið ringluð. Þeir þökkuðu nefnilega áheyrendum fyrir að taka svona vel á móti bandi sem þeir hefðu aldrei heyrt minnst á áður! Það var þá sem ég fattaði að þetta var alls ekki Default (enda var klukkan ekki orðin mjög margt). Í staðinn var þetta hljómsveitin Greenwheel, ungir strákar frá Missouri, USA. Í ljós kom að þeir voru nýbúnir að fá samning við Island records og von var á fyrstu breiðskífu þeirra hjá Island nokkrum vikum síðar. Þeir höfðu hins vegar lítinn fjögurra laga disk til sölu sem ég keypti hjá þeim. Ég spjallaði líka aðeins við tvo þeirra (söngvarann Ryan sem er í miðjunni á myndinni hér til vinstri, og bassaleikarann Brandon sem er annar frá hægri) eftir að þeir voru búnir að spila og fékk áritað plakat hjá þeim. Stuttu seinna þegar ég fór inn á veitingahúsið sem var samliggjandi við tónleikasalinn (Tim sat þar og las, hafði ekki nennt á tónleikana með mér) sá ég hljómsveitarstrákana á næsta bás við Tim og þeir brostu til mín og veifuðu. Þegar diskurinn þeirra kom svo út keypti ég hann umsvifalaust og spilaði mikið. Ég var sannfærð um að þeir ættu eftir að verða frægir. Það var bara eitthvað við tónlistina sem mér fannst svo magnað. Ég hafði reyndar ekki rétt fyrir mér. Þeir eru enn starfandi en hafa ekki náð að rísa upp sem stjörnur. En nýlega dró ég diskinn fram aftur og hef spilað hann stanslaust í nokkra daga. Mér finnst þetta einfaldlega mögnuð plata.

Við þetta má bæta að eftir að leiðindargaur sem var upphitunarband númer tvö hafði lokið sínu prógrammi stigu strákarnir í Default loks á svið og voru alveg frábærir. Og þeir spiluðu Wasting my time sem gerði mig ákaflega ánægða. Ég hef síðan þá keypt alla vega tvær plötur þeirra og myndi því í framtíðinni geta greint á milli Default og Greenwheel

P.S. Ég setti lagið Breathe með Greenwheel í spilarann hér til hægri. Þetta lag hefur verið endurútgefið af Melissu Etheridge og mér skilst að tónleikagestir komi stundum að strákunum í Greenwheel og spyrji af hverju þeir séu að spila lag með Etheridge. Ég reyndi líka að setja inn lögin Shelter og Strong en það er alveg sama hvað ég reyni, þau hlaðast ekki inn á spilarann. Þessi spilari er virkilega viðkvæmur. 


Um hættuleg villidýr

Það er margt gott hér í Kanada og sumt jafnvel betra en heima á Íslandi, en það er líka ýmislegt sem Íslendingar geta verið þakklátir fyrir að vera lausir við. Eitt af því er auðvitað skordýrafánan sem ég hef bloggað um reglulega, en við það  má líka bæta stærri kvikindum úr dýraríkinu. Stóru dýrin eru yfirleitt falleg og það er ofsalega spennandi að sjá björn eða úlf í sínu náttúrulega umhverfi en því má aldrei gleyma að þetta eru rándýr og þótt árásir á menn séu ekki algengar þá gerist það samt sem áður allt of oft.

Í dag var grein í blaðinu um mann sem bjargaði 12 ára dreng úr kjafti fjallaljóns, rétt hjá Clinton, BC. Drengurinn hafði verið á leið á kamarinn þegar ljónið stökk á hann aftanfrá og henti honum til og frá. Þegar maðurinn kom að hafði ljónið bitið í höfuð drengsins og hafði báðar framloppurnar á kinnum hans. Maðurinn réðst á ljónið, greip það hálstaki og náði að losa um grip þess á drengnum. Þeir veltust svo um og þegar báðir voru komnir á fætur þá urraði  maðurinn og gargaði að ljóninu sem taldi það vissara að aðhafast ekkert frekar. Stuttu seinna var ljónið skotið til dauða.

Þetta gerist aðeins nokkrum dögum eftir að úlfur réðst á mann uppi í Bella Bella, ekkert ógurlega langt frá þorpinu þar sem ég hef dvalið við rannsóknir tvö síðustu ár. Það er enn sjaldgæfara að úlfar ráðist á menn og hér eru víst sjö ár síðan það gerðist síðast. Það hefur reyndar eitthvað verið um að úlfar bíti menn en ekki hefur verið um alvarlegar árásir að ræða. Í þessu tilfelli fyrir nokkrum dögum var um að ræða 31 árs gamlan kajakræðara sem var sem betur fer sterkur og í góðu líkamlegu ástandi þannig að hann náði að yfirbuga úlfinn með því að draga hann með sér að kajak sínum þar sem hann gat gripið hníf og drepið úlfinn. Úlfar eru með fallegustu skepnum sem ég hef nokkurn tímann séð og mér hefur alltaf verið sagt að  maður þyrfti ekki að óttast þá því þeir réðust yfirleitt ekki á menn. Ég veit ekki hvað var að hjá þessum úlfi en við krufningu kom í ljós að hann hafði ekki borðað mikið í langan tíma. Hann var líklega svona hrikalega svangur.

Birnir eru önnur falleg dýr og ég hef alltaf orðið mjög spennt í hvert sinn sem ég hef séð björn í sínu náttúrulega umhverfi. En ég hef alltaf verið annað hvort í öruggri fjarlægð eða inni í bíl. Ég hef aldrei staðið augliti til auglits við björn, sem betur fer. Á hverju ári koma upp nokkur tilfelli um árásar bjarna á menn í Kanada og stundum valda þær dauða.

Ég hef í raun aldrei verið í hættu því ég hef aldrei verið ein á ferð á þeim slóðum sem þessi dýr halda sig. Ég fer aldrei í fjallgöngur ein, ekki í útilegu og er almennt ekkert ein á ferðinni nema í öryggi borgarinnar. En hversu öruggur getur  maður verið. Í tilfelli litla tólf ára gamla drengsins var hann með fólki en brá sér frá þeim til þess að fara á klósettið. Maður hefur nú gert annað eins. 


Vantar hjálp frá bókmenntaáhugamönnum

Mörg ykkar kannast eflaust við þetta fallega ljóð Hallgíms Péturssonar Nú vil ég enn í nafni þínu. The Vancouver Chamber Choir er að fara að syngja þetta á tónleikum og bað mig um að hjálpa sér við textann og eins að kíkja á hvort lausleg þýðingin væri rétt. Gallinn er hins vegar að ég er ekki alveg viss um hvað síðasta erindið þýðir. Er einhver góður í þessu sem getur hjálpað  mér?

Nú vil ég enn í nafni þínu
náðugi Guð sem léttir pínu           <- á þetta ekki örugglega að vera pínu?
mér að minni hvílu hallað                 Það var þínu í textanum sem ég fékk
og heiðra þig fyrir gæsku alla.           en í ensku þýðingunni virðast þeir
                                                       halda mínu.

Þáða&#39; af þér á þessum degi,
því er skylt ég gleymi eigi;
en ég má það aumur játa,
angri vafinn sýta&#39; og gráta.

Móðgað hef ég margfaldlega
mildi þína guðdómlega.
útslétt mínar syndir svartar,
sundur kramið lækna hjarta.

 

Hin lauslega þýðing sem einhver gerði hljómar svona (hún á ekki að hljóma sem ljóð, bara svo söngvararnir viti hvað  þetta þýðir):

Now I want in your name
dearest God who lightens mine        < ég held að &#39;eases pain&#39; væri betra út af &#39;pínu&#39;
to lay me down to rest again
I honor you for all your kindness.

I accepted you on this day
and promise never to  forget you
but dear me, I must confess I am
surrounded by worries, sadness and crying.

Many times I have offended
your divine mercy.
My sins are black
and my  heart is black.

Mér finnst síðasti hlutinn á þýðingunni lengst frá merkingunni en hvað segir í ljóðinu? Eina merkingin yfir útslétta sem ég þekki er sú að jafna. Getur varla verið sú merkingin hér. Og er merkingin í síðustu línunni að lækna sundurkramið hjarta? Er það þá Guð sem gerir það?

Það er ekki furða þótt ég hafi valið málfræðina yfir bókmenntirnar á sínum tíma. Hef ekkert gaman af því að rýna í svona torf. 

Þigg hjálp.


Frábært hjá Jóni

Til hamingju Jón. Flott hjá þér!

Jón hefur verið að gera mjög skemmtilega hluti og gaman að sjá hann fá viðurkenningu fyrir verk sín. 

Ég mæli annars með því að Íslendingar kíki á mynd Jóns The Importance of Being Icelandic. Þetta er heimildarmynd um þrjá Vestur Íslendinga sem fara í nám við háskóla Íslands til þess að kynnast landi og þjóð og um leið sjálfum sér. Tveir þessa nemenda urðu síðar ritstjórar Lögbergs Heimskringlu í Winnipeg, Lilliane, sem lést fyrir tveimur árum, og David, sem er núverandi ritstjóri. Bæði alveg frábærar manneskjur og góðir pennar. Þriðji nemandinn Kristine Good var svo í tímum hjá mér í íslensku fyrir elrenda stúdenta þegar ég kenndi stundakennslu við HÍ.

Þessi mynd vakti mikla reiði meðal Vestur Íslendinga. Þeir töldu að Jón væri að gera grín að sér og sumir urðu svo fullir heiftar að þeir voru farnir að tala um landráð. Ég var orðin mjög spennt að sjá þessa mynd eftir að hafa heyrt svo mikið um hana, og eftir að hafa heyrt hversu reiðir sumir urðu, en þegar ég svo loks sá hana skildi ég aldrei af hverju fólk hafði reiðst svona. Mér fannst þetta mjög áhugaverð heimildamynd og ég gat ekki séð neitt sem ætti að pirra fólk, hvað þá að reita það til reiði. Það er reyndar eitt atriði í myndinni þar sem Davíð Þór (held ég) er með uppistand og gerir grín að vestur-íslensku, en það var það eina. Öðrum Íslendingum sem sáu myndina fannst hún jafnsaklaus og mér. Kannski er það sem pirrar fólk mest að í lokin komast öll þrjú að þeirri niðurstöðu að þau séu ekki Íslendingar heldur Kanadamenn með íslenskar rætur.  

En Jón hefur gert mjög spennandi hluti í Kanada og er meðal annars einn aðalmaðurinn í Gimli kvikmyndahátíðinni sem haldin er um Íslendingadagshelgina á hverju ári. Þar eru sýndar íslenskar og vestur-íslenskar bíómyndir auk nokkurra fleiri.

Hef ekki séð Jón í nokkur ár núna. Við hittumst alltaf reglulega í Winnipeg, sérstaklega þegar Svavar og Guðrún voru sendiherrahjón því þá tóku þau okkur krakkana (við bæði í kringum þrítugt) að sér og buðu okkur reglulega í mat. Eftir að Jón flutti til Toronto hef ég aðeins séð hann einu sinni á Íslendingadeginum. Jón, skreppa til Vancouver!!!!  


mbl.is Jón Gústafsson hlýtur verðlaun í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband