Færsluflokkur: Bloggar

Um slöngur og snáka

Ég hef alltaf verið óttalega hrædd við slöngur, sem á Íslandi var fremur furðulegt þar sem við höfum engar slíkar þar. Mér var svo illa við þessi kvikindi að ég var jafnvel hrædd við flest sem líktist slöngu, svo sem ýmsa vatnaorma og þvíumlíkt. Fékk einu sinni næstum hjartaáfall í gæludýrabúð á Laugarveginum því þar var eitthvert kvikindi í vatni sem leit út eins og snákur. Ég gat ekki einu sinni horft á snáka eða slöngur í sjónvarpinu.

Eftir að ég flutti vestur um haf hef ég af og til séð snáka í grasinu eða að skjótast yfir götuna og smám saman hef ég vanist þeim. Hjartað slær því ekki hraðar lengur við tilhugsunina um snák. Það er kannski aðallega vegna þess að snákar hér í Kanada eru vanalega hættulausir, nema skröltormurinn sem finnst í suður Alberta og í Okanagan dalnum hér í BC. En yfirleitt sér maður bara litla gula og græna garðsnáka.

Núna í kvöld er ég að athuga hversu vel ég er búin að venjast snákunum. Ég er að horfa á myndina Anaconda. Ef ég get gert það án þess að fá martröð er ég búin að stíga mörg skref fram á við. 


Tek ekki áskorun

Je minn góður. Ég held að sá sem skrifaði stjörnuspána fyrir meyjuna í dag þekki mig. Alla vega á þetta hrikalega vel við - nema auðvitað ég hef fulla ástæðu til þess að væla Wink

MeyjaMeyja: Þú hefur yfir engu að kvarta. Þú gætir svo sem grafið eitthvað upp ef þú vilt, en hver hefur tíma fyrir neikvæðni? Reyndu að setja met. Gáðu hversu lengi þú getur þolað við án þess að væla.

 


Undarleg auglýsing

Það er undarleg auglýsingin frá JPV útgáfunni um íslenska stafsetningarorðabók sem sést á forsíðu netmoggans. Þar segir:

Ef kjarnorkusprengja spryngi yfir Reykjavík dæju allir bæjarbúar.

Athyglisvert dæmi, ekki satt? Létt og skemmtilegt!!! Þar að auki verð ég að segja að íbúar Reykjavíkur ættu varla að kallast bæjarbúar heldur borgarbúar. Ef þetta dæmi er svo gamalt að það hafi verið samið á þeim tíma er Reykjavík taldist bær en ekki borg þá þykir mér nú tími til kominn að uppfæra. 


Strandfótbolti

Míní-útgáfa af fótboltaliðinu mínu, Vancouver Presto, tekur þátt í strandfótboltamóti núna um helgina. Í dag lékum við tvö leiki. Hver leikur er 2x14 mínútur og leikið er á völlum sem eru sirka 1/3 af venjulegum fótboltavelli og mörkin eru handboltastærð.

Það var svolítið erfitt að vakna klukkan sjö á laugardagsmorgni, sérstaklega af því að ég vakna vanalega ekki fyrr en um átta leytið en vekjaraklukkan mín virkar alveg ágætlega. Ég var mætt niður á strönd klukkan átta og þar sem leikurinn okkar var fyrsti leikur morgunsins (ásamt sjö öðrum leikjum). Við spiluðum nokkuð vel og unnum örugglega, 4-1. Katee skoraði tvö mörk, Julie eitt og ég eitt. Það kom mér reyndar á óvart að við skyldum vinna því við spilum í opnu deildinni þar sem betri liðin spila vanalega. Við hefðum í raun átt að spila í lægri deildinni því þar eigum við betur heima.

Eftir leikinn horfðum við á nokkra strákaleiki og fórum svo og fengum okkur hádegisverð í siglingaklúbbnum sem er þarna nálægt. Að hádegisverði loknum fórum við fjórar, ég Kathy, Christine og Jodi aftur til baka á ströndina og horfðum á fótbolta það sem eftir var dagsins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið meiri harka í strákaboltanum. Og meiri alvara. Þetta mót er til skemmtunar en það komu upp þó nokkur tilfelli þar sem annað hvort var slegist eða rifist svo svakalega að varð að aðskilja fólk. Ég veit ekki hversu  margir fengu rautt spjald. Í eitt skiptið var svo mkið  uppistand að alla vega sex dómarar skárust í leikinn. Bæði dómarar sem voru í pásu og dómarar sem voru að dæma aðra leiki. Í eitt skiptið urðu fjöldaslagsmál svo það skapaðist hrúga í sandinum. Fyndnast var þegar ein stelpan (ein deildin var bland kvenna og karla) henti sér á hrúguna. Yfirleitt eru konur aðeins dannaðri en svo. 

Fyrir utan slagsmálin og rifrildin, og fyrir utan nokkuð góðan bolta hjá sumum, var skemmtilegast þegar heitast var því þá spiluðu sum liðin skyrtulaus (strákaliðin, stelpurnar lögðu ekki í það). Hey, kommon, eins og þið hefðuð ekki gaman af því líka!!! (Ókei, kannski ekki karlmennirnir).

Tíu mínútur yfir fimm spiluðum við síðari leikinn okkar. Ég held að hitt liðið hafi náð einum tíu skotum á markið fyrstu fimm mínúturnar. Ja, það var kannski ekki svo slæmt en þær voru töluvert mikið betri en við. Þær voru einmitt eins góðar og ég bjóst við af liðunum í þessari deild. Í hálfleik var staðan reyndar 1-1 en það sagði lítið um gang leiksins. Í seinni hálfleik spýttu þær í og skoruðu þrjú mörk, þar á meðal eitt á síðustu sekúndunni. Við töpuðum sem sagt með sama markamun og við unnum með í fyrri leiknum.

Þriðji leikurinn okkar verður leikinn á morgun klukkan fjögur og þá kemur í ljós hvort við komumst í undanúrslit eða ekki. Mín spá: Ekki. 


Þvílík vonbrigði

Rétt sem snöggvast hélt ég að farið væri að selja íslenska sælgætið í vesturátt og slefaði ógurlega við tilhugsunina um að geta keypt íslenskan lakkrís og aðrar slíkar dásemdir hér úti í búð. En nei, það er bara verið að selja þetta til Danmerkur. Hefur ekki alltaf verið hægt að kaupa eitthvað af íslensku nammi í Skandinavíu? Ég var alla vega í Svíþjóð fyrir nokkuð mörgum árum og þar var hægt að kaupa ópal og tópas og íslenskt súkkulaði í lítilli hornbúð. Jæja, ég verð víst að halda áfram að njóta þess þegar einhver sendir mér íslenskt nammi. Jafnvel þótt það þýði vanalega sælgætisfyllerí þar sem ég klára allt á nokkrum dögum.
mbl.is Íslenska nammi-útrásin hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um kringlur, glæpi, tölvur og sæta stráka

Um kringlur. Þegar ég heimsótti Siggu vinkonu mína í Munchen fyrir einum tíu árum kynntist ég þrenns konar mat sem ég hafði aldrei fengið áður og sem þá fengust ekki á Íslandi. í fyrsta lagi var um að ræða nokkurs konar hráskinku sem ég þekki hér úti sem Procuttio en sem Sigga kallaði eitthvað allt annað. Slíkt, eða alla vega svipað, fæst nú á Íslandi og líka hér í Vancouver. Í öðru lagi var um að ræða ferskan mozarella, eða boccio, sem einnig fæst núna bæði á Íslandi og í Vancouver. Það þriðja, hins vegar, hefur verið mun erfiðara að fá, en það er þýska kringlan, pretzel. Hér vestanhafs er reyndar seld kringla sem kallast soft pretzel og sem er svipuð útlits en allt öðru vísi á bragðið. Það eru ágætar kringlur en samt ekki eins góðar og þessar þýsku. Marion vinkona mín er algjörlega á sama máli enda mamma hennar þýsk. Hún fann stað í Lilloet sem selur svona kringlur og kaupir svoleiðis þegar hún fer til Lilloet að vinna með indjánakonunum sínum þar, og hefur tvisvar sinnum komið með svoleiðis til baka handa mér en það gengur ekki að þurfa að fara til Lilloet til að kaupa kringlur.

Ástæða þess að ég minnist á þetta nú er sú að fyrir nokkrum vikum opnaði tehús hér í nágrenninu. Ég sagði Marion að við yrðum að kíkja þangað því þeir virtust hafa gott bakarí, en sjálf hafði ég ekki farið. Nema hvað, í gær sendi Marion mér tölvupóst og sagði mér frá því að hún hefði farið þangað inn og ÞEIR VÆRU MEÐ ÞÝSKU KRINGLURNAR!!!!! Við ekkert smá ánægðar. Ég skellt mér því niður á tíundu en þá voru kringlurnar uppseldar. Mér var sagt að koma á morgnana ef ég vildi tryggja mér kringlu. Greinilega finnst fleirum en okkur þetta gott. Svo að ég fór aftur í morgun, fékk mína kringlu og naut hennar í botn. Ég var ótrúlega nálægt því að kaupa mér aðra en mér fannst ástæðulaust að ganga of langt. Má ekki borða of mikið af brauði á dag. En ég á eftir að lalla þarna yfir mjög reglulega. 

Um þjófa. Það hefur verið algjör innbrotsfaraldur í skólanum að undanförnu. Þjófarnir eru farnir að færa sig upp á skaftið og núna um helgina notuðu þeir slökkvitæki til að brjóta glerhurð í Buchanan byggingunni (þar sem heimspekideildin er...þar á meðal málvísindin) og komust þannig inn. Búið er að vara fólk við að vera mikið á ferli þarna um helgar því enginn veit hvað myndi gerast ef einhver kæmi að þessum mönnum. Hvað er að fólki. Það er verið að stela tölvum frá prófessorum. Það er ekki eins og þeir fái svona hrikalega vel borgað. 

Um morð. Í gærmorgun komu vopnaðir menn inná kínverskan veitingastað hér í bæ, ekki langt frá Gunnari og Suzanne, og skaut átta manns sem þar sátu að snæðingi. Tveir létust en sex særðust. Talið er að þetta tengist glæpastarfssemi. Það hefur verið töluvert um það síðustu ár að skotið sé að fólki á veitingastöðum og í öllum tilfellum nema einu hefur verið um að ræða kínverskt veitingahús. Og í flestum tilfellum hefur þetta gerst eftir miðnætti. Ég hef lært eitt af þessu. Ég mun ekki þvælast á kínverskum veitingahúsum eftir miðnætti.

Um tölvuna mína. Ég hringdi í dag í Applebúðina sem fékk að kíkja á tölvuna mína. Það eru orðnar þrjár vikur síðan ég fór með hana og ég hafði ekkert heyrt. Á fimmtudaginn fyrir viku lofuðu þeir mér að segja mér hvað væri að daginn eftir. Síðan leið vika. Ég hringdi í dag og kvartaði yfir þessum seinagangi og þeir sögðu: ó, var ég ekki búin að hringja í þig? Asnar. Ég hefði átt að fara með tölvuna á sama stað og ég hef vanalega skipt við en þessi staður hentaði betur núna því ég fékk far þangað. Mér var sagt að stykkið sem væri bilað kostaði rúmlega níuhundruð dollara og að  með vinnu væri þetta alla vega 1400 dollarar. Ég get keypt betri tölvu fyrir það.

Um sæta klifrara. Ég vildi að þessir strákar í klifrinu væru ekki svona ungir. Sumir þeirra eru alveg gullfallegir. Það er sérstaklega einn sem er eins og grískur guð. Ótrúlega myndarlegur með einn þann flottasta skrokk sem ég hef séð. Hann virðist pínulítið feiminn og talar ekki mikið við fólk sem hann þekkir ekki þegar margir eru nálægt en ég hef aðeins kynnst honum í gegnum aðra stráka sem ég þekki þarna. Hann var að klifra í dag og smátt og smátt fóru allir svo við vorum bara tvö eftir. Við enduðum á því að sitja og kjafta í lengri tíma. Hann virðist fínasti náungi en kannski aðeins of fallegur. Og líklega allt of ungur. Á leiðinni út rakst ég svo á Dave og Karsten sem ég spjalla alltaf mikið við. Dave er í doktorsnámi í tölfræði og Karsten í stærðfræði. Því miður var Scott hinn krúttlegi ekki með þeim. Æi, maður getur nú ekki fengið allt. Ég fór loks og fann Marion í ísbúð. Hún var að skipuleggja partý fyrir vinkonu sína sem er að fara að eignast barn. Hér eru alltaf haldin svona babyshower (barnasturtur!!!!).

Um kanadískan fótbolta. Í kvöld mætast BC Lions og Winnipeg Blue Bombers í kanadíska fótboltanum. í eina skiptið sem ég hef farið á leik mættust einmitt þessi tvö lið. Þá sigraði Winnipeg enda var það árið sem þeir léku um bikarinn. Ljónin hafa verið ótrúlega sterk í sumar og sitja á toppi vesturdeildarinnar en Winnipeg er í öðru sæti austurdeildarinnar. Einu stigi á eftir Montreal. Þetta ætti því að verða toppleikur. Ég er hins vegar ekki viss um með hvoru liðinu ég myndi halda. Ég ætti náttúrulega að halda með BC en Winnipeg situr alltaf svolítið í mér. Mér leið svo vel í Manitoba. 

 


Tilviljanir og Íslendingar í Vancouver

Tilviljanir geta verið alveg ótrúlegar. Ég hef ekki farið á okkar annars ágæta háskólabókasafn í marga mánuði enda les ég helst greinar og þær eru orðið fremur auðvelt að hlaða niður af netinu. Ég var hins vegar uppi í skóla í dag að sinna ýmsu (m.a. að sækja Godsmack miðann minn) og ákvað að skreppa inn á bókasafn og sækja bók um dvalarhorf í spænsku, sem ég þarf að kíkja í. Ég rölti upp á fimmtu hæð þar sem málvísindabækurnar voru alltaf en það var búið að gerbreyta öllu og ég fann ekki númerið sem ég var að leita að. Svo ég hendist niður stigann aftur en á fjórðu hæð heyri ég kallað: "Kristín". Undarlegur andskoti, haldiði ekki að þar hafi staðið Halldóra Kristinsdóttir, nýr íslenskur nemandi hér í málvísindum. Hún mætti á svæðið fyrir tveimur dögum og var á háskólasvæðinu í fyrsta sinn. Ákvað að kíkja inn á bókasafn og rakst á mig. Akkúrat í þetta eina skipti sem ég hef farið þangað í allt sumar. Tilviljunin.

Þetta var fínt, við spjölluðum svolítið saman og ákváðum svo að koma upp neti Íslendinga í Vancouver enda hefur okkur fjölgað hér að undanförnu og yfirleitt engin leið að finna neinn nema af tilviljun. Ég bjó því til síðu á Facebook fyrir Íslendinga í Vancouver. Kannski rekst einhver þar inn og vill taka þátt. Síðan er hér: http://www.facebook.com/group.php?gid=4158744330&ref=mf 


Á leið til Oregon

Í dag keypti ég miða til Portland, Oregon. Ég mun fara niðreftir á sjötugsafmæli móður minnar, 17. ágúst. Fyrst fer ég með rútu niður til Seattle og skipti svo yfir í lest til Portland. Þetta er rúmlega átta tíma ferð með almenningssamgöngum, sem er um tveimur tímum meira en að keyra þetta á bíl.

Það fer lest á milli Vancouver og Seattle tvisvar á dag. Lestin fer á morgnana til Vancouver og á kvöldin til Seattle. Það þýðir að kanarnir geta komið hingað í dagsferð en Kanadamenn þurfa að gista í Bandaríkjunum. Þetta þýðir líka að ég get engan veginn tekið lest alla leið til Portland því ég hefði þurft að ná lest til Seattle um morguninn og til Vancouver um kvöldið. Asnalegt.

Þetta mun kosta tæpa áttatíu US dollara, sem er hvað, um tæpar fimm þúsund krónur. Það er svo sem ekki slæmt. Það hefði kostað mun meira að fljúga. Rútuparturinn verður reyndar leiðinlegur en ég hlakka til lestarferðarinnar. Ég elska lestir.

Ég get sem sagt ekki verið í afmæli mömmu en ég get alla vega borðað kvöldmat hjá ættingjum í Oregon.

Vildi að ég þekkti klifrara þarna niðurfrá. Það eru frábærir klifurstaðir í Oregon fylki, þar á meðal Smith Rock sem ég hef komið til áður. Kannski ég finni bara sal og skreppi þangað í staðinn.

Klifrið hefur reyndar gengið ágætlega að undanförnum. Ég hef lítið klifrað með reipi en þeim mun meira boulderað. Mér finnst það skemmtilegra. Þegar ég hef farið undanfarið hef ég mikið rekist á sömu strákana sem hafa hjálpað mér alveg helling og kennt mér ýmislegt. Það er líka gott að hafa góðan félagsskap þegar ég klifra. Verst er að þessir strákar eru flestir á þrítugsaldri og ég er ekki viss um að ég sé nógu mikill cougar til að notfæra mér það Devil


Í guðana bænum ekki lækka meira

Nú sem aldrei fyrr sit ég og bið um að krónan styrkist. Ég fæ nefnilega laun frá Íslandi en bý í Kanada og því þarf krónan að standa sterk gagnvart kanadíska dollarnum. Í dag stendur dollarinn í 59 krónum en var 57 fyrir nokkrum dögum. Þegar ég flutti til Kanada var dollarinn 50 krónur og nú býð ég eftir að svo verði aftur. Alla vega á meðan launin mín eru greidd í íslenskum krónum. 

Og ég sem vil helst aldrei hugsa um bankakerfið og peningamál því hausinn á mér skilur ekki tölur! 


mbl.is Krónan veiktist í lok dags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem dreifa veirunum

Þetta minnir mig á þegar hestafaraldurinn kom upp á suðurlandinu í kringum 1998. Þá voru hesthús sett í sóttkví eins og menn muna og fólk beðið um að þvæla ekki á milli hesthúsa. Á þessum tíma var ég að vinna á Fréttastofu Sjónvarps og kvikmyndatökumennirnir voru að hlæja að fréttamönnum sem þeir sögðu spígspora á milli hesthúsa, ávallt í sömu skónum, og spyrja: "Jæja, einhver veikur hjá ykkur?" Hver veit hversu mikið af vírusnum var dreift á milli hesthúsa á skóm fréttamanna!

En það kemur ekkert á óvart þótt veira hafi komist út úr rannsóknastofu og þangað sem síst skyldi. Slys geta alltaf hent. En það er gremjulegt fyrir bændur sem þurfa að losa sig við allar skepnur og bíða í einhver ár (er það ekki?) þar til þeir geta fengið sér nýjar. 


mbl.is Gin- og klaufaveiki líklega frá rannsóknarstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband