Færsluflokkur: Bloggar
Morgunsvefninn rofinn
1.6.2007 | 15:32
Ég er vitlausari en ég lít út fyrir að vera. Ég sver það. Ég hélt í einfeldni minni að af því að svefnherbergið mitt er í austari hluta hússins, og grunnurinn sem er verið að grafa er vestan við mig, þá myndi ég ekki vakna þegar byrjað yrði að vinna í morgun. Doh! Hálfátta komu vélarhljóð og einhver undarleg högg, sem reyndust vera þegar grafan rakst á stórgrýti, í gegnum drauma mína og það var ekki hægt að hunsa þetta lengi. Ég reyndi auðvitað að gera þessi hljóð hluta af draumunum en það gengur ekki endalaust. Ég varð að játa mig sigraða og fara á fætur.
Þið vorkennið mér sjálfsagt ekkert að þurfa að skríða á lappir um hálfátta leytið, enda þið sjálfsagt farin að vinna á þeim tíma, en ég vinn heima og þarf því ekki að fara neitt. Svo mér þykir ákaflega notalegt að sofa til átta. Lesa svo blaðið í rólegheitum til níu og fara þá að vinna. Í dag fór þetta allt í köku því í stað þess að borða morgunverð og lesa blöðin fór ég að lesa bloggsíður og svo að skrifa þessa færslu. Sko, svefninum er rótað og þá hrynur allt.
En nú ætla ég að fara og fá mér kaffi, hálfa beyglu og fulla skál af ávaxtasalati (melónur, ananas, vínber - jamm).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sumarið er komið
1.6.2007 | 06:09
Í dag fór ég í sund. Ég hef ekki farið í sund í langan tíma - ekki síðan ég var á Íslandi um jólin. Það er bara ekki það sama að fara í sund hérna. Annars var laugin fín í dag. Ekki eins köld og hún var í Manitoba þar sem ég þurfti að synda fjórar ferðir áður en ég hætti að skjálfa. Í sag var svolítið kalt að fara ofan í en að öðru lagi fínt. Ég synti í innisundlauginni. Þar voru miklu færri en úti og mér leiðis að synda með mörgum. Þótt skipt sé í hægsund, meðalsund og hraðsund þá virkar það aldrei. Ef ég syndi í hægferð þarf ég alltaf að vera að taka fram úr, en ef ég fer yfir í meðalhraðann þá er alltaf verið að fara fram úr mér. Ég er ekki góð í sundi. Eina íþróttagreinin sem ég var alltaf léleg í í skóla. Fékk alltaf tíu í leikfimi og svona fimm eða sjö í sundi. Nema í níunda bekk, þá fékk ég níu. Skil ekki enn hvernig það gerðist.
Eftir sundið fór ég inní stúdentamiðstöðina, fékk mér avokadórúllu og Edamame og lærði rökfræði á meðan ég borðaði. Sat þarna í um tvo klukkutíma og las um afleiðslur. Labbaði svo heim í gegnum skóginn. Þar var alveg yndislegt. Sól hátt á lofti og hiti. Heldur kaldara í skóginum sem var gott.
Í kvöld fórum við Marion svo og horfðum á ultimate liðið hans Ryans. Þeir töpuðu en það var gaman að horfa á. Einn strákurinn í liðinu, Jason, vinnur við kvikmyndagerð og hefur komið að mörgum stórmyndum. Hann er núna að vinna að mynd með Penelope Cruz og Ben Kingsley. Í frítíma sínum er hann svo að vinna að handriti að kvikmynda ásamt félaga sínum, leikstýrir tónlistarmyndböndum, ofl. Það var býsna athyglisvert að tala við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flugnanet, moldarryk og rökfræði
31.5.2007 | 23:31
Í gær negldi ég flugnanet fyrir eldhúsgluggann eftir að stærsti geitungur sem ég hef nokkurn tímann séð flaug inn til mín. Ég greip skordýrasprey og lét vaða á kvikyndið sem hrundi niður og flaug ámáttlega yfir að eldavélinni og hálfdatt ofan í helluna (þessi hringaða af gamla taginu). Það kvarflaði að mér að kveikja undir en ég vildi ekki eldaðan geitung svo ég lét það ógert. Greip í staðinn handfylli af tissjú og þegar ég náði góðu lagi (þ.e. þegar flugan var ekki lengur á hellunni) marði ég hana með tissjúnni og skellti svo öllu í ruslið. Þetta var hins vegar flugnanetið sem ég hef vanalega í svefnherberginu á sumrin svo nú verð ég að fara út í búð og kaupa net fyrir svefnherbergisgluggann því þess verður varla langt að bíða að ég þurfi að fara að sofa með gluggann galopinn.
Nú er búið að hreinsa spýtnabrakið við hliðina á mér og farið að grafa grunn að nýja húsinu. Það hafa sem sagt verið hávaði og læti hér í allan dag og stundum svo að húsið mitt skelfur. Ég sem hafði hugsað mér að grilla kannski í kvöld. Af því verður ekki því hér er moldarryk og drulla. Það er ekki einu sinni hægt að sitja úti í garði fyrr en þessu lýkur sem vonandi verður fljótlega. Ég var reyndar í skólanum í morgun þannig að þetta angraði mig ekki þá, og ég hefði líklega átt að grípa bók og fara niður á strönd þegar ég kom heim úr skólanum. ég er hins vegar að hugsa um að fara með Marion á eftir að horfa á manninn hennar spila ultimate leik. Hann hefur verið að reyna að fá mig til þess að ganga í liðið. Ég hef aldrei spilað ultimate en þá vantar svo sárlega stelpur að þeim er alveg sama þótt ég hafi enga reynslu. Það er hugsanlegt að ég spili með þeim þegar fótboltinn er búinn í lok júní því þá þarf ég að finna mér eitthvað að dunda mér við.
Á þriðjudaginn fer ég í þriðja prófið í rökfræðinni. Mér hefur gengið vel hingað til; fékk 38 af 40 mögulegum úr fyrsta prófinu og 40 af 40 mögulegum úr því næsta. Prófið á þriðjudaginn verður hins vegar mun erfiðara því við þurfum að gera afleiðslur og ég hef aldrei séð þær áður. Þetta er svona eins og munurinn á venjulegum stærðfræðidæmum annars vegar og sönnunum hins vegar. Við þurfum í raun að sanna afleiðslurnar okkar. Þetta er mjög stærðfræðilegt, nema skemmtilegra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrekvirki Bítlanna
31.5.2007 | 15:44
Engin hljómsveit jafnast á við Bítlana og ég stórefa að nokkur hljómsveit muni nokkurn tímann ná með tærnar þar sem þeir hafa hælana. Hljómurinn, textarnir (á seinni plötunum), laglínan... allt var þetta eitthvað svo frumlegt og nýtt. Ekki var aðeins að þeir breyttu tónlist þess tíma - þeir eru enn þeir tónlistarmenn sem hafa mest áhrif á aðra tónlistarmenn.
Sgt. Peppers platan var auðvitað stórvirki út af fyrir sig. Lögin höfðu þennan tengda hljóm (þótt platan hafi kannski ekki náð að vera eins mikið 'concept' og Paul hafði viljað) og þarna eru lög eins og t.d. A day in the life, sem er algjör gullmoli. Plötuumslagið var svo bylting út af fyrir sig. Ekki bara myndin, sem sýnir fjöldann allan af frægu fólki; ekki bara 'Paul is dead' vísbendingarnar sem eru svo margar; heldur kannski fyrst og fremst fyrir það að textarnir eru prentaðir á baki plötunnar - í fyrsta sinn sem það var gert á nokkurri plötu. Þar að auki er umslagið tvöfalt.
Ég elska þessa plötu - ekki bara lögin heldur líka umslagið. Þetta er eitt af þeim dæmum um hvernig gamla platan var fremri geisladisknum. Það er bara ekki alveg það sama að halda á hulstrinu af Sgt. Peppers geisladisknum og það var að halda á plötuumslaginu sjálfu.
Reyndar verð ég að segja að ég hef alveg jafngaman af að hlusta á Abbey Road, Revolver, Let it be og Rubber Soul. En það þýðir bara að Sgt. Peppers var ekki eina frábæra platan með Bítlunum.
![]() |
40 ár frá útkomu Sgt. Pepper's |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Niðurrif
30.5.2007 | 22:42
Þegar ég kom heim úr klifurhúsinu í dag blasti við mér spýtnabrak þar sem áður var hús. Nánar tiltekið húsið við hliðina á mér. Þetta þýðir væntanlega að ég þarf að fá mér gardínur fyrir baðherbergisgluggann. Áður var veggurinn á húsinu við hliðina það eina sem sást út um gluggann (og þar af leiðandi sást ekkert inn). Nú verður þarna væntanlega fjöldi karlmanna að vinna...og í þessum hita, fjöldi hálfnaktra karlmanna...bíddu, ég fer ekki að fá mér gardínur. Maður þarf augljóslega ótakmarkað útsýni!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Baráttan við kóngulærnar
30.5.2007 | 17:27
Áðan sá ég stóra svarta kónguló í loftinu hjá mér. Ég greip flugnaspaðann sem nú er alltaf við höndina, steig upp á stól og reyndi að drepa kvikindið en náði ekki alveg svo kóngulóin datt niður á gólf og hvarf. Ég leitaði nokkra stund en varð að játa mig sigraða. Um fimmtán mínútum síðar var kóngulóin komin upp í loftið á ný, nema hvað hún var neðar núna (ég bý í risíbúð og hún var neðarlega á hallanum). Nú klikkaði ég ekki og endaði á að skrapa dauða kónguló af spaðanum ofan í ruslið. Þýðir þetta að nú muni fara að rigna aftur?
Ég fylgist betur með kóngulónum núna eftir að ég heyrði að við hefðum svörtu ekkjuna hér í BC. Ég hélt að hún fyndist bara í suðurhluta Alberta en það var víst ekki rétt. Hún finnst hér líka. Þannig að nú tek ég enga sénsa og hlífi engum kóngulóm. Nú skal barist upp á líf og dauða (kóngulónna).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Berklar á kreik á ný
30.5.2007 | 04:46
Ég heyrði í fréttum að maður í Bandaríkjunum hefði greinst með alvarlegt afbrigð af berklum og að hann hafi verið settur í sóttkví. Maðurinn flaug frá Prag til Montreal, í gegnum Frakkland, og keyrði síðan áfram yfir til Bandaríkjanna. Hætta er á að allt að 200 manns sem hann komst í návígi við gætu hafa smitast.
Við skulum vona að ekki sé annað HABL dæmi í uppsiglingu. Ég bjó í Winnipeg þegar sú sótt geisaði og ég man eftir því að hafa hlustað á morgunfréttirnar á hverjum morgni og fylgjast með nýju tilfellunum sem komu upp. Mjög snemma var sagt frá því að tilfelli hefðu greinst víða í Kanada, þar á meðal í Vancouver, og þar sem ég var um það bil að flytja til Vancouver var ég að sjálfsögðu býsna áhyggjufull yfir þessu. Hér er líka einn mesti fjöldi fólks frá Asíu í öllu Kanada, og þaðan kom sjúkdómurinn. Það var ekki rétt að hann hefði borist til landsins með aðeins einni manneskju. Tilfellin í Toronto mátti rekja til einnar manneskju en annars staðar á landinu kom sjúkdómurinn með öðru fólki. Þegar tilfellum fór að fjölga í Toronto var eins og önnur tilfelli hefðu gleymst og við heyrðum aldrei neitt frekar um hvernig staðan væri á öðrum stöðum þar sem tilfelli höfðu greinst. Að sjálfsögðu mátti draga þá ályktun að það þýddi að náð hafi verið að stöðva sjúkdóminn annars staðar en í Toronto, en ég man hversu pirruð ég var yfir því að heyra ekkert. Ég beið alltaf eftir því að heyra eitthvað jákvætt, eins og tilkynningu um að nú væri búið að koma í veg fyrir sjúkdóminn í Vancouver, í Alberta...(man ekki hvar annars staðar hann kom upp). Ég held að allt hafi verið reynt til að láta eins lítið fara fyrir þessu og hægt var til þess að koma í veg fyrir að túristar hættu við að ferðast norður yfir landamærin. En það var ekki hægt að láta sem ekkert væri. Landsmenn voru virkilega skelkaðir enda trúðu margir því að við værum að fá yfir okkur faraldur á við þann sem sem kom með bólusóttinni. Og svo þegar þetta var búið, og sjúklingarnir annað hvort dánir eða orðnir frískir, þá trúðum við því varla að ógninni skyldi hafa verið afstýrt.
Eitt berkladæmi mun að sjálfsögðu ekki skapa miklar áhyggjur, en ef fleiri tilfelli greinast á næstu dögum þá gæti farið svo að maður sæti aftur límdur fyrir framan útvarpið og biði frétta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moskíturnar komnar á stjá
30.5.2007 | 03:42
Jæja, þá er moskítótímabilið byrjað. Í kvöld labbaði ég niður á Alma til að skila vídeóspólu og náði mér í eitt moskítóbit á upphandlegginn. Og núna sá ég eina inn í stofu. Á meðan ég fór að sækja flugnaspaðann hvarf hún mér sjónum en ég mun hafa augun opin. Vona að ég finni hana áður en ég fer að sofa því annars veit ég hvernig nóttin verður: Ég reyni að sofa, þegar ég er um það bil að sofna heyri ég suð við eyrun. Ég kveiki ljósin og fer að leita að moskítunni. Finn hana ekki. Fer aftur að reyna að sofa...og svo hefst leikurinn á ný. Í fyrra eyddi ég einu sinni bróðurpartinum af nóttunni í að drepa moskítóflugur. Veit ekki hversu mörg morð voru framin þá nótt en dugði ekki til fyrr en um fjögur leytið um morguninn.
Ég verð að fara að tjasla saman heimatilbúna flugnanetinu og festa það á gluggana með teiknibólum (hér í Vancouver eru nær aldrei flugnanet fyrir gluggum, ólíkt Winnipeg). Gallinn er að það er ekki auðvelt að opna og loka gluggum þegar búið er að koma slíku verki upp. Og það er enn of kalt á morgnana til að hafa gluggana opna allan sólarhringinn. Vona að hlýni fljótt svo ég geti leyst moskítuvanda minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Glaðningur frá skattinum
29.5.2007 | 20:14
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Carlota Smith látin
28.5.2007 | 18:24
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)