Færsluflokkur: Bloggar

Í nafni trúar

Ég hef verið að horfa á sjónvarpsþættina um Elísabetu fyrstu, með Helen Mirren og Jeremy Irons í aðalhlutverkum (stórleikarar bæði tvö). Nýlokið er atriðinu þar sem María Stuart Skotlandsdrottning er hálshöggvin. Ég get ekki annað en hugsað um hversu margt slæmt í veröldinni er afleiðing af því að fólk getur ekki þolað öðrum að hafa aðrar trúarskoðanir. Hversu margir hafa verið drepnir í nafni Guðs?

Fyrir nokkrum árum hringdi í mig vottur Jehóva og spurði mig: Finnst þér ekki hræðilegt hversu mikið er um stríð í veröldinni? Jú, sagði ég, vissulega. Þá sagði hann: Veistu, að trúin getur hjálpað okkur að binda enda á þessi stríð. Ég gat ekki annað en svarað (og var ekki að reyna að vera fyndin): Mér sýnist trúin hafa skapað flest þessi stríð.

Ég uni öðru fólki þess vel að vera ekki sammála mér um trúmál. Af hverju geta aðrir það ekki? Trú á að vera fólki til huggunar, á að vera af hinu góða. Ekki að skapa dauða og skelfingu.

 

Sýningar og sjávarútvegur

Í dag ætla ég niður í bæ á matarhátíð. Þar eiga allir bestu kokkar Vancouver að vera til að kynna veitingastaði sína (þar á meðal Iron Chef Rob Feenie), vörur verða kynntar, smökkun verður í gangi Happy ofl. ofl.

Það er oft gaman að svona kynningum og fólk ótrúlega sækið í þær. Ég man bara hversu margir komu alltaf á sjávarútvegssýningarnar í Reykjavík, þótt fæstir stæðu í kaupum á trollum eða utanborðsmótorum. Ég fór þangað alla vega tvisvar því ég var að vinna fyrir frænda minn og frænku sem voru þar með bás. Ég man líka hvað ég varð pirruð þegar ég fékk pásu og labbaði um svæðið til að skoða uppá hvað aðrir byðu (og í leit að æti). Af því að ég var ekki miðaldra karl með bindi var ég vanalega hunsuð. Mér finnst það auðvitað ekkert óeðlilegt - það var alveg augljóst að ég ætlaði ekki að kaupa fiskleitartæki. En mér sárnaði nú samt. Ég hefði vel getað verið upprennandi útgerðarmaður. Pabbi átti t.d. einu sinni trillu sem hann seldi ári áður en kvótinn var settur á (fjandans!).

Annars hefur öll fjölskyldan meira og minna verið tengd sjávarútvegsiðnaðnum. Báðir afar mínir, pabbi og elsti bróðir minn voru/eru sjómenn (svo og föðurbróðir minn og móðurbróðir minn og alla vega tveir langafar). Afi, föðurbróðir minn og ég unnum öll við netagerð (ég bara í eitt sumar), Pabbi, mamma, ég og allir bræður mínir, auk elsta bróðursonar míns höfum öll unnið við Slippstöðina á Akureyri og þar náð yfir jafnmargar atvinnugreinar og trésmíði, vélsmíði, plötusmíði, rafvirkjun, lagervinnu, skrifstofustörf, veitingastörf og almenna verkamannavinnu. Mamma vann að auki í frystihúsi, eins og mágkona mín, og afar mínir, ömmur og pabbi unnu öll við síldina á Siglufirði. Við höfum því komið að næstum öllum greinum sjávarútvegs -  nema að eiga kvóta! 


Bloggheimur er algjör gullnáma

Bloggheimar er alveg yndislegur staður fyrir málfræðing eins og mig. Þar fær maður aðgang að því sem í raun er miklu fremur talmál en ritmál, enda ekki miklar áhyggjur hafðar af því að fylgja málfræðireglum til hlítar. Það þýðir líka að ég fæ betri hugmynd um hvernig íslenskan er í raun, þegar fólk er ekki að ritskoða sig of mikið.

Doktorsritgerðin mín fjallar um dvalarhorf í íslensku (Jón er að lesa, Guðrún er að borða, o.s.frv.) og eitt af því sem þar er spennandi er breytt notkun dvalarhorfsins nú á síðustu árum. Annars vegar er að fólk er farið að nota dvalarhorf með ástandssögnum (elska, vita, kunna, o.s.frv.) sem áður var yfirleitt ekki gert, og hins vegar þegar vísað er til endurtekinni atburða eða endurtekins ástands, sem einnig var ekki gert. Bara nú á síðustu dögum hef ég fundið setningar eins og:

  • Í sambandi við ráðherra og hæfileika. Þá er ég ekki heldur að kaupa það að hæfileikaríkari einstaklingar séu í efri sætum framboðslista heldur en í þeim neðri.
  • Þessir dreifbýliskúkar eru ekkert að gera glimrandi hluti á því sviði.
  • Þetta þýðir að Kristján Möller verður samgöngumálaráðherra, fólk er ekki að fatta hvað það er alvarlegt.
  • Loksins er Samkeppniseftirlitið að virka.
  • Frekar óbreytt ástand hjá Sjöllunum og Samfó því miður ekki að standa við stóru orðin.
  • Vá, hvað ég er að skilja þig vel........
En hvað ég er þakklát fyrir þetta

Heimsóknir til annarra landa

Pétur Björgvin var að tala um það á blogginu síðu hvernig alls konar próf tröllríða netinu og hver apar upp eftir öðrum. Mér þykja svona próf svo skemmtileg og dett stundum í þau. Eitt af því sem Pétur benti á, og sem ég hafði ekki séð, var landakortið sem sýnir hvar maður hefur verið. Þetta er í rauninni enn betra til að sýna manni hvar maður hefur ekki verið. Ekki það að ég viti það ekki. En þegar ég sé það svona á kortinu þá átta ég mig á því hvað ég á eftir að sjá mikið. Hér kemur landakortið mitt: 


create your own visited country map or check our Venice travel guide

Eins og þið sjáið þá er það bara Vestur-Evrópa og Norður Ameríka sem ég hef heimsótt. 

Það er hægt að gera sérstök kort fyrir Kanada og Bandaríkin og af því að ég er að safna fylkjum og stjórnsýslueiningum þá gerði ég þau kort líka.

create your personalized map of europe or check out our Barcelona travel guide
create your own personalized map of Canada or check out ourVancouver travel guide

Í Kanada hef ég sem sagt heimsótt suðrið meira og minna allt. Mig vantar ennþá Newfoundland/Labrador af þeim sem kallast province, og svo Nunavut, Yukon og NorthWest Territories af norðrinu. Í Bandaríkjunum er þetta eiginlega öfugt því þar hef ég séð mest af norðurfylkjunum:


create your own personalized map of the USA or check out ourCalifornia travel guide

Að lokum get ég sett inn Evrópukortið svo betur sjáist að ég allan eystri hlutann eftir.


create your personalized map of europe or check out our Barcelona travel guide

Miklu áorkað

Ég hef áorkað heilmiklu í dag.

  • í morgun tók ég próf númer tvö í rökfræði og ég verð hissa ef ég fæ ekki fullt fyrir það, eða nálægt því (fékk 48 af 50 mögulegum fyrir fyrsta prófið).
  • Síðan fór ég að klifra og búið var að endursetja leiðirnar í hellinum, sem var frábært, og ég stóð mig bara ágætlega þar.
  • Þegar ég kom heim kláraði ég loksins endurbæturnar á umsókn minni um breytta stöðu innan Kanada (sótti um fyrir tveimur árum og þeir ætla loksins nú að fara að líta á hana - en heimta þá auðvitað öpdeit á öllu), og ....KOM ÞVÍ Í PÓST! Varð reyndar að senda það með hraðpósti (sem kostar helling), því ég hefði átt að vera búin að þessu fyrr.
  • Setti líka í póst uppgjör mitt við Manitóbaháskóla. Þeir hafa viljað losna við lífeyrinn minn í nokkurn tíma en vilja ekki bara láta mig fá peningana heldur varð ég að opna sérstakan lokaðan reikning sem þeir síðan leggja inn á. Það reyndist all flókið og gekk ekki fyrr en ég fékk útibússtjórann minn í lið með mér. Þetta er sem sagt komið í póst og ætti að vera af dagskrá.

En því miður er margt enn ólokið sem ég þarf að sinna af leiðinlegum verkum.

  • Ég þarf að skrifa lokaskýrslur um Kispiox vinnuna mína og senda til þeirra tveggja sjóða sem styrktu verkið. Það þýðir að ég þarf líka að brenna geisladiska með öllum upptökum og ég þarf að skrifa upp allar setningar sem ég vann með. Ég er búin að skrifa upp flestar setningarnar, en þarf að brenna geisladiskana og skrifa fjárhagsreikninginn og skýrsluna sjálfa. Verð að koma þessu í verk fljótlega.
  • Þarf að hringja í leigusalann og fá leyfi til þess að setja inn stafrænt box fyrir sjónvarpið. Ég er búin að draga þetta í tvær vikur því ég þoli ekki að tala við karlinn (eða kerlinguna hans). Þau eru svona týpískir nískir ríkisbubbar sem eiga allt til alls en tíma samt ekki að láta gera við neitt í húsinu.
  • Skipuleggja blaðabunkana tvo sem sitja á gólfinu í svefnherberginu. Skóla fylgir ótrúlegt magn af pappír.
  • Skrifa doktorsritgerð.
Þegar ég kom heim eftir klifrið í dag var ég glorhungruð og greip tvær síðustu sneiðarnar af Finn Crisp kexi. Þegar ég skoði mylsnuna sem datt á borðið gat ég ekki betur séð en þar væru á ferð þurrkaðir ormar!!!!! Kíkti í tómann pakkann og jújú, ormar. Og þetta sá ég EFTIR AÐ ÉG ÁT KEXIÐ. Er búið að vera með þykkildi í hálsi síðan þá - sennilega klígja.

Vinstra heilahvel

Ég tók heilahvelsprófið sem Gurrí benti á og í ljós kom að það er vinstra heilahvel sem er virkara hjá mér. Hér er það sem sagt var:

Kristin, you are Left-brained

Most left-brained people like you feel at ease in situations requiring verbal ability, attention to detail, and linear, analytical ability. Whether you know it or not, you are a much stronger written communicator than many, able to get your ideas across better than others.

It's also likely that you are methodical and efficient at many things that you do. You could also be good at math, particularly algebra, which is based on very strict rules that make sense to your logical mind.

 

Þetta er ekki svo skrítið. Ég er málfræðingur og innan málfræði hef ég einbeitt mér að merkingarfræði sem er nokkurs konar rökfræði tungumálsins. Þetta bendir alla vega til þess að ég sé á réttri hillu.

Hér getið þið farið til að prófa sjálf: http://web.tickle.com/tests/brain/index_main.jsp 

 


Unaður

Það er fátt betra en að skríða undir sæng þegar maður er nýkominn úr baði og rúmfötin nýþvegin. Þá er ég eitthvað svo hrein og fín. 

Var að enda við að skipta á rúminu og í kvöld mun ég fara í heitt bað eftir fótoltann. Er þegar farin að hlakka til að fara í kojs. 


Mun það þýða styttingu framhaldsskólanna?

Ég er nú ekki vön að krjúpa á kné og biðja, en nú er þörf: Kæra Þorgerður Katrín, EKKI EKKI EKKI stytta framhaldsskólann í þrjú ár. 

Fyrir um þremur mánuðum kom frétt á mogganum um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að stytta framhaldsskólann og þá bloggaði ég um málið og útskýrði af hverju ég held að best sé að hafa framhaldskólann áfram fjögur ár. Fyrir um mánuði heyrði ég svo að þeir væru aftur búnir að bakka með þetta og að enn stæði til að stytta framhaldsskólann. Ég vísa því á fyrri skrif mín um málið, og ég tek fram að ég hef nokkra reynslu því ég hef kennt á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi og á háskólastigi í Kanada.

Ég reyndi að setja hlekk á fyrri skrif um þetta mál en eftir að vera búin að setja hlekkinn inn fimm sinnum og vera alltaf send á sömu síðu (mína eigin admin síðu) þá ákvað ég að gefast upp og setja textann bara inn hér í staðinn.

Hér eru fyrri skrif:

Guði sé lof

Mikið er það huggandi að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að bakka með það að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Ég hef verið á móti því frá því ég heyrði fyrst af þessu en eftir að ég fór að kenna á háskólastigi í Kanada varð ég enn harðari í afstöðu minni. Hér byrja nemendur átján ára í háskóla og eru langt frá því að vera búnir að taka út þroskann. Fyrsta árinu, og hjá mörgum fyrstu tveimur árunum, er eytt í fyllerí og skemmtanahöld sem íslenskir krakkar taka vanalega út í menntaskóla. Það er alfrægt að nemendur í framhaldsnámi geta ekki verið á sömu stúdentagörðum og þeir sem eru á BA/BS stigi, vegna þess að það eru stöðugt drykkjulæti á vistum yngri nemenda, og hinir eldri vilja frið til þess að læra. Ég hef kennt fjórum árgöngum fyrsta árs nema í háskóla í Kanada og það var mjög áberandi hversu illa þeir voru undir það búnir að vera komnir í framhaldsskóla. Þetta voru átján ára grey sem ekki voru búin að ákveða hvað þau vildu læra, sem ekki voru búin að taka út nema brot þroskans og sem hreinlega voru á þeim aldri þar sem krakkar vilja fyrst og fremst skemmt sér. Enda var það ekki oft sem allur hópurinn kom undirbúinn í tíma. Þar að auki má benda á að hér er BA/BS námið vanalega fjögur ár, og fyrsta árið fer í það að taka áfanga úr ýmsum greinum til þess að kynna sér hvað þau vilja nú læra. Þannig að  þegar til kemur eru þau aðeins ári yngri en íslensku ungmennin þegar þau útskrifast úr háskóla og sennilega með verra nám því þau hafa almennt færri einingar í aðalfagi og lærðu hvort eð er minna fyrstu tvö árin. 

Ég er alveg hörð á því að kerfið er betra heima á Íslandi. Þegar íslensk ungmenni byrja í háskólanum tvítug að aldri hafa þau tekið út mun meiri þroska en fyrsta árs nemar vestra (enda þroskast fólk mikið á milli átján og tuttugu ára), taka námið alvarlegra og fá þar af leiðandi miklu meira út úr háskólanáminu. 

Mér finnst allt í lagi að nemendur geti tekið menntaskólann á styttri tíma ef þeir eru tilbúnir til þess að leggja þannig vinnu á sig, enda held ég að þeir sem eru tilbúnir til að leggja harðar að sér til að klára menntó fyrr hafi sennilega þann aga sem þarf til þess að standa sig vel í háskóla, en það ætti ekki að vera gert að neinu keppnikefli fyrir hinn almenna nemanda, né ætti það að verða almenn breyting. Og hvað um það að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eina önn? Það þýðir bara að við menntum börnin okkar betur.

 


mbl.is Þorgerður Katrín: Lagði áherslu á að vera áfram í menntamálaráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar í mömmumat

Allt í einu langar mig ógurlega mikið í lambakótelettur í raspi með kartöflum, Ora baunum og rabbabarasultu. Þetta kallast comfort food á ensku en hefur held ég ekkert nafn á íslensku. Huggunarmatur??? Stundum langar mig bara svo mikið í matinn sem ég fékk sem barn. Kannski er það ómeðvituð þrá eftir æskunni? Hvað segja sálfræðingar við því?

Af því að mér finnst kanadískt lambakjöt vont (og líka nýsjálenskt) og af því að klukkan er ekki orðin fjögur, ætla ég í staðinn að baka pönnukökur. Af því ég á engan rjóma þá mun ég rúlla sumar upp  með sykri og setja nutella á hinar. Það er ótrúlega gott! 


Talað við Bandaríkjamenn

 Ég sá að Bjarni var nýlega að kynna kanadískan húmor fyrir landanum með því að sýna myndband frá Kids in the hall. Eitt það fyndnasta sem ég hef séð í  mörg ár var þegar grínistinn Rick Mercer ferðaðist um Bandaríkin og kannaði vitneskju þeirra um Kanada. Vanalega var það þannig gert að hann sagði þeim einhverja vitleysu um landið og spurði svo álits, eða fékk fólkið til að óska Kanadamönnum til hamingju með að hafa loksins breytt hlutunum þannig að þeir samræmdust Bandaríkjunum. Þarna má m.a. sjá hann segja fólki að Kanada hafi aðeins 20 tíma í sólarhring og spyrja hvort þeir ættu að breyta því. Einnig virðist fólk trúa því að ráðhúsið í Kanada sé gert úr ís, að vídeótæki hafi loksins verið lögleidd, o.s.frv. Fyndnast er auðvitað þegar hann talar við George Bush í kosningabaráttunni og biður um viðbrögð við ummælum forsætisráðherra Kanada, Jean Putin. Það fyndna er auðvitað að Putin var forseti Rússlands. Forsætisráðherra Kanada var Jean Crethien og það fyndist manni nú að verðandi forseti Bandaríkjanna ætti að vita. Í lokin er talað um að stór hluti Kanadamanna geti ekki fundið eigið fylki (state) á landakorti (sem hefur verið sagt um Bandaríkjamenn) og grínið hér er auðvitað að Kanada hefur ekki states. Stjórnsýslueiningarnar þar eru kallaðar Province. Það eru bara Bandaríkin sem hafa states (sbr. United States). 

Myndgæðin eru léleg í myndbandinu hér að neðan, en hljóðið er fullkomið og það er það sem skiptir máli. Tek það fram í lokin að yfirleitt var Mercer ekki að týna til hvaða fólk sem var á götunni. Flestir sem hann talaði við voru annað hvort á háskólasvæðum hinna svo kölluðu Ivy league háskóla (Harvard, Stanford, Princeton o.s.frv.), svo og stjórnmálamenn (í þessu myndbandi, ekki svo mikið í öðrum þáttum).

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband