Færsluflokkur: Bloggar

Klettaklifur

Ég fór að klifra í gær í fyrsta skiptið í tvo mánuði. Það sást alveg, mér fannst jafnvel auðveldustu leiðirnar ekkert auðveldar. Reyndar klifraði ég 5.10c hreint (án þess að detta og án þess að taka pásu) sem er þokkalega gott því það erfiðasta sem ég hef klifrað hreint er 5.11a, sem er aðeins tveimur stigum fyrir ofan 5.10c (aðeins 5.10d á milli). En krafturinn var lítill og ég held ég hafi ekki klifrað nema um sex eða sjö leiðir sem er auðvitað fremur lélegt. Marion hafði heldur ekki klifrað neitt svo við vorum alveg í stíl. 

Klettaklifur er ofsalega skemmtileg íþrótt. Ég byrjaði á þessu fyrir um tveimur árum og til að byrja með klifraði ég mjög mikið - að minnsta kosti þrisvar í viku og stundum fjórum sinnum í viku. Enda rauk ég áfram og á fjórum mánuðum var ég farin að klifra meira og minna það sem ég get klifrað núna. En svo fór ég til Íslands og Noregs í sex vikur, og svo til Kispiox, og svo tók við erfiður vetur með mikilli vinnu, og síðan sex vikna dvöl í Ottawa, aftur til Kispiox...Þetta þýddi allt að það komu margar vikur þar sem ég klifraði ekkert og svo langur tími þar sem ég klifraði einu sinni til tvisvar í vikur. Í haust klifruðum við þannig að við klifruðum leiðir einu sinni í viku og stunduðum svo grjótglímu einu sinni. En það er bara ekki nóg til að bæta sig almennilega þannig að ég hef mikið til staðið í stað síðan fyrsta vorið í klifrinu. Reyndar er tæknin orðin miklu betri og ég geri þetta yfirleitt fyrirhafnalausara (nema þegar ég er nýkomin úr langri pásu) en ég hef ekki beinlínis náð að komast upp um stig. Ja, ekki alveg satt því ég hef síðan þá klifrað 5.10d og 5.11a hreint en áður náði ég aðeins að gera það með stoppum á leiðinni.

Ég held samt að mitt stig núna sé 5.10c. Ég næ oftast að klára þá leið en á hins vegar oft erfitt með stigið fyrir ofan.

Ef ég hefði verið orðin enn öruggari á c-inu hefði ég getað unnið við uppsetningu á sviðinu hjá Rolling Stones. Þeir auglýstu eftir fólki sem gæti "comfortably climb 5.10c". Annars hefði ég kannski sótt um það ef ekki hefði verið sú staðreynd að hæðirnar sem þetta klifur færi fram í var kannski efsta hæð ellefu hæða blokkar. Mín er lofthrædd. Hefur ekki farið hærra en sirka 13 metra.

En nú þarf ég að byrja aftur að krafti á klifrinu, og fara að hlaupa, og vonandi spila meiri fótbolta (sem hefur verið bannað í tvo mánuði vegna kanadískra veðurguða - alltaf rennblautir vellirnir). 


Heim í heiðardalinn

Ég er komin heim eftir fimm vikna útlegu. Var fyrst í mánuð á Íslandi og síðan viku í Ottawa. Fólkið hér trúir því að ég hafi komið með góða veðrið með mér því það er víst búið að vera alveg ömurlegt hér síðan ég fór - þrír snjóstormar með rafmagnstruflunum og þvíumlíku. Núna er hins vegar átta stiga hiti og sól.

Ég er búin að taka upp úr töskunum, búin að versla í matinn, en ekki farin að þvo þvotta. Allt glerdótið sem mamma bjó til komst óskaddað alla þessa leið sem er ótrúlega vel af sér vikið. Þessu var svo vel pakkað inn. Myndirnar í pappa og plasti og kertastjakinn í kaðlapeysu sem amma prjónaði á mömmu fyrir mörgum árum. Hún hefur ekki notað hana lengi þannig að ég tók hana með. Annars er hún með rúllukraga (peysan, þ.e., ekki mamma) og ég þoli aldrei neitt upp í hálsinn. Verð að reyna að teygja aðeins á kraganum.

En þótt það sé notalegt að vera komin heim og allt það, er það líka erfitt. Ég sakna mömmu og pabba og fólksins heima á Íslandi, og ég sakna Martins. Vona að hann fái frí úr vinnunni fljótlega svo hann geti komið hingað til Vancouver í vetur. 


Í Ottawa

Ottawa áin að vetri

Það er skrítið að sjá Ottawa ána þessa dagna - svona einhvern vegin hálfa í klakaböndum. Eins og veðrið hefur verið óvenjuslæmt í Vancouver hefur það verið óvenjugott í Ottawa. Reyndar hefur frostið farið niður fyrir tuttugu gráður yfir nóttina núna undanfarið, en svo hefur bara verið þokkalega hlýtt á daginn. Alla vega ekki nóg til að frysta ár og síki svo vel sé. Ísinn á Rideau síkinu er ekki nema um 15 sentimetrar en þarf að vera alla vega 40 sm svo hægt sé að skauta. Og ég sem ætlaði að rifja upp gamla takta.  Í staðinn fór ég í göngutúr eftir Ottawa ánni, Gatineau megin, og tók nokkrar myndir. Kíkti svo á Rideau fossana sem voru flottir.

Hef annars ekki hreyft mig mikið undanfarna daga. Smakkaði Rapure sem er Acadian réttur og er samansettur úr kartöflum og kjöti. Býsna gott. Sérlega gott þegar maður setur helling af molasses ofan á. Hlustaði á Bruno plötuna sem Martin er að vinna að. Strákurinn er góður lagasmiður og getur spilað á öll hljóðfæri en varla sungið. Alltaf eins og hann sé með harðlífi. Á morgun snæði ég hádegisverð með Auði og Vigdísi - Íslendingagenginu í Ottawa. 


Ísland yfirgefið

Ég er búin að segja bless við Ísland í bili og þótt mér þykir margt orðið rotið á fróni þá sakna ég þess alltaf ógurlega að fara þaðan. Fyrst og fremst sakna ég fjölskyldu og vina og ég fer alltaf að gráta þegar ég kveð mömmu og pabba. Greinilega allt of mikil mömmu- og pabbastelpa.

Ég var nokkra daga í Reykjavík áður en ég hélt vestur um haf. Fór þangað fyrir viku og byrjaði á því að halda fyrirlestur í Nýja Garði. Þar var alveg fullt út úr dyrum og ég var bara býsna ánægð að sjá það. Skemmtilegast var að sjá allt fólkið sem ég kynntist á námsárum mínum þar. Suma hafði ég ekki séð lengi.  Fyrirlesturinn gekk held ég bara ágætlega. Ég var reyndar svolítið stirð enda hef ég aldrei talað um þessi mál á íslensku en það sköpuðust líflegar umræður og ég frétti utan að mér að fyrirlesturinn hefði mælst vel fyrir.

Ég fór í kvöldverðarboð á hverju kvöldi. Borðaði megnið af íslenskum húsdýrum:Fékk lambakjöt hjá Siggu, folaldakjöt hjá Guðrúnu Helgu og Friðriki, nautakjöt hjá Eiríki og Gunnu og svínakjöt hjá Borghildi. Geiri og Erna ætluðu að bjóða mér í mat en urðu hreinlega of sein - öll kvöld upp bókuð. Svo ég fór í hádegisbrunch hjá þeim á sunnudaginn. Inn á milli þessa alls borðaði ég íslenskar pylsur með öllu enda sakna ég svoleiðis gæðamatar.

Ég náðir reyndar að borða flest allt sem mig langaði í á Íslandi: slátur, saltkjöt og baunir, saltkjötsstöppu, íslenska kjötsúpu, kjötbúðing, skyr, súrmjólk (með púðusykri og cheerios), ananasborgara, djúpsteikta pylsu með osti og kryddi (að hætti Akureyringa), venjulega pylsu með öllu, úrval af íslensku nammi... Ég hljóp í spik. Þarf að fara á fullt við að ná þessu af mér aftur.

Frá Keflavík flaug ég til Boston og gisti þar eina nótt þar sem mér fannst of tæpt á áframhaldandi flugi til Kanada. Innan við tveir tímar á milli sem þýðir að seinkun hjá Icelandair hefði sett mig í klípu. Þar að auki fékk ég ódýrara flug daginn eftir sem var jafnvel ódýrara þótt við verðið væri bætt einni nótt á hóteli.

Flaug sem sakt í gær hingað til Ottawa þar sem ég er nú. Ætla að vera hér í nokkra daga áður en ég fer heim og byrja að skrifa á fullu. Hef reyndar lítið gert í gær (eftir að ég kom) og í morgun. Hef verið að lesa Tíma Nornarinnar eftir Árna Þórarinsson sem ég hef mjög gaman af (kannski af því að bókin gerist á Akureyri) og svo hef ég prjónað aðeins. Þarf núna að fara að skrifa útdrátt fyrir fyrirlesetur sem ég ætla að halda í Saskatoon í vor ef ég kemst inn.

Mun reyna að blogga oftar en ég hef gert síðustu daga. 


Gleiðilegt nýtt ár

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu.

Pabbi er sjötugur í dag. Hann er sá eini í fjölskyldunni sem fær alltaf flugeldasýningu á afmælisdaginn og veislu að auki. Alltaf. Mamma ætlaði reyndar ekki að hafa neina veislu að þessu sinni. Hún verður nefnilega sjötug í sumar og planið er að hafa stóra sameiginlega veislu þá. En getiði ímyndað ykkur að mamma hafi enga veislu. Auðvitað hefur hún staðið í bakstri að undanförnu og búist er við að fólk fari að koma svona seinni part dags. Engum var svo sem boðið en fólk veit að hér verður kaffi á könnunni. 

Við krakkarnir og mamma ætlum að gefa honum skíði. Hann er núna á gömlum skíðum frá Hauki bróður og veitir ekkert af að fá ný. Svo við keyptum fínar græjur handa þeim gamla. Ég gaf reyndar mömmu og pabba líka sameiginlega bók sem ég hafði sett saman með myndum úr fjölskyldunni. Bjó hana til á iPhoto og lét svo Apple prenta út fyrir mig á fínan pappír og binda inn. Það er rosalega sniðugt og ég mæli eindregið með þessu. Alltaf er nú makkinn jafn sniðugur.


Það sem allir tala um....

Skaupið var lélegt. 


Bloggari fæddur

Fyrir tveimur dögum, 29. desember, fæddist á Ítalíu Óskar Polselli, fyrrverandi XY-sergioson sem hefur bloggað mikið úr móðurkviði. Krílið er ekki farið að blogga eftir að það kom úr móðurkviði en þess verður vart langt að bíða. Enda ætti það að vera þægilegra fyrir hann nú þegar hann er fæddur. Kíkið hér á bloggsíðu krílisins: http://xy-sergioson.blogspot.com/

Rut og Sergio, innilega til hamingju með soninn. Ég óska líka öfum og ömmum, íslenskum sem ítölskum til hamingju. Við skulum vona að einhver hafi líka samband við Íslensk-Ítalska (er það ekki annars til?). Alltaf gott að hafa kríli til að halda góðum samskiptum þjóða. 


Harry Potter

Þótt ég telji að það væru að mörgu leyti góð endalok bókaraðarinnar um
Harry Potter að láta þá báða deyja, hann og Voldemort, þá get ég ekki
ímyndað mér að Rowling þori að leggja það á unga aðdáendur bókanna sem
fæstir hver kunna að vinna úr málefnum eins og dauðanum. Bretar eru
reyndar öllu líklegri til þess að drepa aðalhetjur sínar en t.d.
Bandaríkjamenn en þegar tekið er tillit til hversu ungir lesendur
bókanna eru (þótt við hin eldri laumumst til að lesa þærlíka) verð ég
að telja það mjög ólíklegt að Harry láti lífið. Hins vegar tel ég að ef
hann lifi þetta af hljóti hann að fá ógurlega krafta því eðlilegt væri
að hann fengi alla krafta Voldemorts til sín ef Voldemort deyr og hann
lifir. Og spurningin er hvort það er nú gott fyrir hann. En það verður
gaman að lesa síðustu bókina.
mbl.is Veðjað um andlát Harry Potter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorláksmessa á Akureyri

Það er svartamyrkur enda klukkan rúmlega hálf sex á Þorláksmessu. Draumur minn um fallandi snjóflyksur á Þorláksmessu virðist ekki ætla að rætast sem er auðvitað mikið synd en mitt fullkomna Þorláksmessukvöld er að fara niður í miðbæ Akureyrar, labba um, kaupa síðustu jólagjafirnar og setjast svo inn á BLáu könnuna og horfa á snjóinn falla hæglega til jarðar fyrir utan. Þetta verður ekki slíkt kvöld því að í fyrsta lagi er ekki snjókoma og í öðru lagi mun ég örugglega ekki fara niður í bæ því að ég er full af kvefi og vil helst húka inni og undir sæng. 

Ég náði mér í einhverja pest á leiðinni til Íslands. Það var nú reyndar meira ævintýrið. Ég flaug frá Vancouver til Boston á sunnudaginn og ákvað að gista eina nótt í Boston. Þá gæti ég 1) skoðað Boston, sem ég hef ekki farið til í 12 ár, 2) skipt ferðinni í tvö hluta og 3) ekki átt á hættu að missa af tengiflugi þótt til seinkunnar kæmi á fyrsta hluta leiðarinnar. Sem sagt, öryggisráðstafanir. Ég kom til Boston seint á sunnudagskvöldi, lenti fyrst á vitlausu hóteli (fleiri en eitt með sama nafni) og fór ekki að sofa fyrr en um tvö leytið um nóttina. Eyddi deginum á eftir í það að labba um miðbæinn, niður á höfn og svoleiðis. Þegar ég var þarna 1994 vorum við aðallega í Harvard á ráðstefnu og síðan á einhverju ráðstefnuhóteli þar sem LSA ráðstefnan var.  'Eg hafði því í raun aldrei séð miðbæinn almennilega. Ég skildi farangurinn minn eftir á hótelinu og fór svo og sótti hann síðdegis og kom mér á flugvöllinn.

Ég tékkaði mig inn um sex leytið fyrir flug sem áætlað var klukkan hálfníu. Nema hvað, konan fyrir aftan mig í röðinni segir mér að það sé búið að fresta fluginu. Nýr tími var tíu mínútur í tólf. Ja, hver fjandinn. Ég tékkaði mig, fór og fékk mér kvöldverð og labbaði svo um flugstöðina þar til ég fékk nóg af því (lítil og leiðinleg). Settist niður og beið eftir brottför. Samkvæmt tölvuskjám voru tvær vélar áætlaðar til Íslands þetta kvöld. Hin fyrri átti að fara einum og hálfum tíma á undan okkur. Allt í einu var búið að fresta henni líka og svo var henni frestað þannig að hún átti að fara á eftir okkur. Líður og bíður og fer að nálgast miðnætti. Ekki enn búið að kalla út í vél. Loks kemur tilkynning og þar var sagt að flug 634 (hin vélin) ætti að fara þarna rétt eftir miðnætti en flugi 630 (okkar vél) væri frestað um 24 klukkutíma!!!!!!! Je minn góður. Síðan sögðu þeir eitthvað um að við ættum að sækja töskurnar okkar á belti númer 1 hjá Northwest og fá miða á hótel. Það var allt of sumt. Ekkert meira sagt. Fólk hópaðist að til að reyna að fá fleiri upplýsingar og við fengum loks að vita að önnur vélin væri biluð og hefði verið biluð frá því deginum áður. Þeir hefðu reynt að gera við hana en ekki tekist í fyrstu tilraun og nú mætti ekki prufa lengur það kvöldið. VIð urðum sem sagt að fara og sækja farangurinn okkar og fara á hótel. Ég var auðvitað með þeim síðustu að fá töskurnar mínar til baka og var í síðasta hópnum að komast á hótel. Við stóðum þarna úti í kuldanum klukkan tvö að nóttu og biðum eftir að verða sótt. Ég fann hvernig ég var að veikjast. Og auðvitað vaknaði ég um miðja nótt við það að ég var komin með hálsbólgu. Um morguninn fór ég í morgunverð en skreið svo upp í rúm aftur og svaf fram að hádegisverði. Svaf svo aftur þar til við urðum að tékka út af hótelinu klukkan fjögur. Fór þá beint á flugvöllinn og beið þar þangað til við komumst loks af stað klukkan átta.

Vorum komin til Íslands um klukkan hálfsjö að morgni, nema hvað, númerinu á fluginu okkar var breytt þannig að við vorum nú 634 en ekki 630. Vélin sem fór um tveimur tímum á eftir okkur var nú 630, sem þýddi að þegar mamma og pabbi athuguðu hvenær ég ætti að lenda var þeim tilkynnt um seinkun á fluginu. Þau voru því ekki á vellinum þegar ég kom heldur varð ég að hringja í þau og biðja þau að koma strax vestureftir. Á meðan ég beið sat ég og borðaði skyr, ópal og drakk íslenskt vatn. Góður morgunverður!!!

Við stoppuðum aðeins um tvo tíma í Reykjavík, og keyrðum svo norður enda var spáð vondu veðri. Það var gott að við fórum ekki degi seinna því þá var orðið erfitt að komast á milli.

Síðan ég kom norður hef ég svo sem ekki gert margt. Hitt bræður mínar og fjölskyldur, farið aðeins í bæinn og sofið og borðað. Hálsbólgan breyttist í hnerra og svo í kvef og með kvefinu kom ógurleg þreyta þannig að ég hef verið hálf vofuleg. En ég vona að þetta fari nú að skána. 


Ferðin hálfnuð - er í Boston núna

Ég veit ekki hvað það er með mig og ferðalög en það er eins og það fari alltaf eitthvað úrskeiðis þegar ég ferðast. Stundum er það mér að kenna en stundum er ég alsaklaust. Ég er núna hálfnuð með leiðina til Íslands. Er á hóteli í Boston og horfi á sjónvarp (nú er auglýsingahlé) þótt klukkan sé að verða tvö að staðartíma. En ég er enn á Vancouver tíma og þess vegna ekki orðin nógu syfjuð.

 Fyrsti hluti ferðarinnar gekk vel. Marion keyrði mig á flugvöllinn, vélin var á réttum tíma, þokkalega gekk að skipta um vél í Montreal og svo lenti ég í Boston. Í fyrsta lagi, á leiðinni uppgötvaði ég að ég var ekki með útprentun á e-miðanum til Íslands heldur bara með staðfestingu á pöntunninni. Ég varð geysilega stressuð en vonaðist eftir að geta leyst vandann þegar ég kæmi á hótelið. Hins vegar gekk það ekki svo vel. Á flugvellinum voru tveir símar merktir Courtyard Mariott, annar sagði 'Courtyard Marriot airport' og hinn sagði 'Courtyard Marriot Boston'. Svo ég tók upp símann á hið síðarnefnda, var stótt af hótelrútunni og komst loks á staðinn. Nema hvað, þar var engin pöntun undir mínu nafni. Ég var á vitlaustu hóteli. Það er sem sagt annað hótel í Boston með sama nafni. Og hvað þurfti ég að gera? Taka hótelrútuna aftur á flugvöllinn og hringja í hitt hótelið. Svo beið ég í rúman hálftíma í kuldanum eftir réttu hótelrútunni. Allt þetta tók um tvo tíma. Þegar ég loks komst á rétt hótel fór ég inn á netið og fanns em betur fer rétta skjalioð, prentaði út og gat loksins slappað af.

Á morgun ætla ég bar að dunda mér; sofa frameftir, fá mér góðan morgunverð, synda kannski... Svo er hugsanlegt að ég fari niður í bæ áður en ég þarf að mæta á flugvöllinn seinni part dags. Á þriðjudagsmorgunn ætti ég að vera í Keflavík. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband