Færsluflokkur: Bloggar

Á kaffihúsi

Ég held ég hafi verið í menntaskóla þegar ég fór fyrst á kaffihús og það var á Kaffitorgið á Akureyri. Bárður Halldórsson, eigandi staðarins var sögukennarinn minn og í lok einnar annarinnar bauð hann öllum bekknum í kaffi á torginu. Kaffihúsaferðum mínum fjölgaði ekki mjög árin þar á eftir enda drakk ég ekki kaffi og hafði ekki enn uppgötvað hvað það er gaman að sitja á kaffihúsi, drekka eitthvað heitt og gott og lesa að skrifa, nú eða spjalla, ef maður er svo heppinn að vera ekki einn.

Eftir að Bláa kannan opnaði á Akureyri hef ég lagt það í vana minn að koma alltaf þar við þegar ég heimsæki heimabæinn og fá mér ýmist heitt kakó eða góðan bolla af latté. Í Winnipeg fórum við Tim stundum á Second Cup sem var í götunni okkar, eða þá á smákaffihús þar beint á móti, sem rekið var af einum fyrrverandi nemanda Tims. Eftir að ég flutti til Vancouver fjölgaði kaffihúsaferðunum stórum enda komin í skóla á nýjan leik og loksins orðin nógu þroskuð til að uppgötva hversu gott það er að læra á kaffihúsi. Stundum þegar ég á erfitt með einbeita mér skelli ég mér á kaffihús og sit þar og skrifa eða les eins lengi og ég get.

Það eru fyrst og fremst þrjú kaffihús sem ég vel á milli hér í hverfinu mínu. Think (Hugsað) er góður staður, mjög vingjarnlegur við háskólanemendur. Eigandinn opnaði staðinn meðal annars með það í huga að skapa gott unhverfi fyrir háskólafólk sem ekki ætti oft mikinn pening og hefði því ekki efni á að versla mjög mikið. Maður getur því auðveldlega komið hingað, keypt sér einn bolla af kaffi og setið svo það sem eftir er dags og dundað við þennan eina bolla. Veggirnir eru skreyttir bókum, fyrst og fremst heimspeki, sálfræði og bókmenntafræði, og skemmtileg málverk eru á þeim veggjum sem ekki eru fullir af bókum. Baðherbergið er málað eins og krítartafla og maður má skrifa á veggina það sem manni sýnist. Þar að auki er hér frí internetþjónusta þannig að maður getur komið hingað með fartölvuna og lært án þess að missa tengslin við háskólabókasafnið og annað sem maður tegnist í gegnum netið. Eini gallinn er að kaffið er ekki mjög gott. Allt of þunnt. Ég þarf eiginlega að panta latté því venjulegt kaffi er hér ódrekkandi.

Mun betra kaffi er á Starbucks. Margir eru á móti þeima f því að þeir eru risakeðja sem hefur opnað kaffihús út um allan heim en ég verð að segja tvennt þeim til málsbóta. Í fyrsta lagi, megnið af norður Ameríku kunni ekki að drekka gott kaffi fyrr en Starbucks opnaði. Gæði baunanna var lágt og kaffið lafþunnt  (eins og ærmiga í sólskyni, eins og afi Geir hefði sagt). Eftir að Starbucks opnaði hefur orðið auðveldara með hverju árinu að fá almennilegt kaffi því aðrir hafa brugðist við með því að leggja meiri metnað í kaffið. Ég er búin að vera í Kanada í sjö ár og ég sé mikinn mun á þeim tíma, og þó er orðið nokkuð langt síðan Starbucks opnaði. Hitt sem ég segi Starbucks til málsvarnar er að þeir fara vel með starfsfólk sitt, ólíkt öðrum keðjum eins og Walmart sem hegða sér eins og bavíanar. Ég fer sem sagt nokkuð oft á Starbucks enda fæ ég alltaf gott kaffi (og fyrir jólin bjóða þeir upp á alls konar skemmtilega drykki), andrúmsloftið er yfirleitt mjög gott og af því að staðurinn er nokkuð stór truflast maður ekki við það að nágrannarnir tali ofan í hálfsmálið á manni. Mér finnst því gott að sitja þar og læra.

Þriðji staðurinn heitir Bean around the world (búin að fara í kringum hnöttinn/baun í kringum hnöttinn). Þar er hægt að fá gott kaffi og gott bakkelsi, lítið hverfiskaffihús, en fá sæti og ekki nokkur leið að lesa þar því maður heyrir allt sem aðrir eru að tala um. Þetta er því góður staður til að fara á með vini en ekki til að læra.

Nú sit ég inni á Think og skrifa. Ætla að fara að rölta heim og halda áfram að undirbúa heimferðina. 


Verstu fjöldamorð í sögu Kanada

Hér á Vancouver svæðinu er nýbúið að velja í kviðdóm fyrir hið svokallaða Picton réttarhald. Robert Picton er grunaður um að vera versti fjöldamorðingi í sögu Kanada. Hann er nú ákærður fyrir að hafa myrt sex vændiskonur en grunur leikur á að hann hafi drepið margfalt fleiri. Greyið fólkið í kviðdómi. Ekki aðeins þarf það að horfa upp á ógeðslegar myndir af líkunum sem grafin voru upp á svínabæ Pictons heldur getur réttarhaldið tekið allt að ári. Og hvað fær fólkið í laun fyrir að sitja í kviðdómi? Sirka þúsund kall á dag. Margir urðu að biðjast undan setunni á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki efni á því að sitja í kviðdómi. Hver getur lifað af þúsund krónum á dag, nema þeir sem þegar eru á götunni.

Hér heldur veðrið áfram að haga sér eins og andskotinn. Eftir allar rigningarnar, nóvembersnjókomu, og spillt vatnsból höfum við nú síðustu daga þurft að þola mikið hvassviðri. Á mánudaginn var veðrið svo slæmt að rafmagn fór af stórum hluta borgarinnar. Þar á meðal hjá mér. Ég var hins vegar í skólanum megnið af deginum og rafmagnið fór ekki þar að þessu sinni. Þegar ég kom heim var rafmagnið aftur komið á. Þúsundir manna voru ekki svo heppnar. Þið veltið því ábyggilega fyrir ykkur af hverju rafmagnið fer alltaf af ef eitthvað er að veðri hér. Það er vegna þess að rafmagnslínur eru allar ofanjarðar eins og var heima í gamla daga. Línur liggja þvers og kruss og í hvert skipti sem hér kemur almennilegur stormur þá fellur slatti tjráa á línurnar og rafmagn fer af á mismunandi stöðum. Væri nú ekki gott að fara að hætti Íslendinga og grafa þetta í jörð.

Nú styttist í að ég fari til Íslands. Flýg til Boston á Sunnudaginn og svo áfram til Keflavíkur á mánudag. Mun að öllum líkindum halda áfram til Akureyrar seinni part þriðjudags. Þetta verður sem sagt heilmikið ferðalag. Ég hlakka til að fara heim en kvíði fyrir ferðinni. Fæ yfirleitt töluverða þotuþreytu.


Hið pólitíska munstur

Stjórnmálin eru allt í kring um mann þessa dagana. Ekki er hægt að kíkja á moggann án þess að sjá eitthvað um prófkjörin heima, bloggsíður Íslendinga eru fullar af því sama, hér í Kanada voru miðjumenn að kjósa sér nýjan fulltrúa sem á að reyna að ná ríkistjórninni til baka úr höndum íhaldsmanna... 

Ég var eitthvað að þvælast um netið og fann síðu Gests Svavars sem var með mér í íslenskunni á sínum tíma, rétt eins og Svandís systir hans. Svavar og Guðrún voru svo mínar hjálparhellur fyrst þegar ég flutti til Kanada. Alla vega, ég var að lesa bloggið hans Gests (http://gammur.blogspot.com/index.html) og sá þá tengil á þessa síðu:  http://www.politicalcompass.org/index. Maður svarar fjölda spurninga og síðan er manni sagt hvar maður stendur í pólitíska litrófinu. Ég vissi það nú svona nokkurn veginn en ákvað samt að taka prófið. Í ljós kom að ég er vinstrisinnaður sjálfræðissinni og er nokkurn veginn á nákvæmlega sama stað í litrófinu og Dalai Lama. Hins vegar ekki eins langt til Vinstri og Nelson Mandela og Gestur Svavars. 

Það sem mér fannst athyglisverðast var að Steven Harper, forsætisráðherra Kanadamanna fyrir íhaldsflokkinn, er talinn vinstrisinnaðri en Tony Blair. Ég vissi svo sem að Tony Blair er ekki mjög vinstrisinnaður, en að hann skuli vera talinn hægrisinnaðri en hægri menn í Kanada!  


Uppgjör við árið 2006

Á einhverri amerískri blogg síðu fann ég lista af spurningum sem varða árið 2006. Af því að mér finnst alltaf svo gaman að svara svona spurningalistum snaraði ég þessu yfir á íslensku og reyndi svo að vera heiðarleg í svörum. Aðrir bloggarar mega gjarnan "stela" spurningalistanum, sjálfum sér til ánægju og yndisauka, og setja á sínar síður.


1. Hvað gerðirðu árið 2006 sem þú hafðir ekki gert áður? Sigldi seglbát

2. Hélstu áramótaheitið og ætlarðu að strengja heit fyrir næsta ár? Ég strengdi ekki áramótaheit og mun örugglega ekki strengja áramótaheit fyrir 2007.

3. Eignaðist einhverri nærri þér barn á árinu? Bíddu nú við...Hilmar frændi eignaðist son, Unnur hennar Ágústu eignaðist dóttur...Ég man ekki hvort fleiri börn fæddust meðal vina eða ættingja. Hins vegar eru bæði Rut og Þyrí ófrískar þannig að alla vega tvö börn eru á leiðinni. 

4. Dó einhver nærri þér á árinu? Nei, sem betur fer.

5. Til hvaða landa fórstu á árinu? Til Spánar, Englands (bara til að skipta um flugvél), Bandaríkjanna (New York, Chicago, Urbana/Champagne) ...og um jólin fer ég til Íslands. Innan Kanada ferðaðist ég til Ontario, Quebec, New Brunswick og Nova Scotia.

6. Hvað langar þig að fá árið 2007 sem þig vantaði 2006? Bíl, en ég mun ekki hafa efni á því.

7. Hvaða dagsetningar frá árinu 2006 standa upp úr hjá þér? 30. júní. Þá fór ég fyrst í siglingu með Martin og vinátta okkar tók skref fram á við.

8. Hver var mikilvægasti áfanginn (eða árangurinn) sem þú náðir á árinu? Ég varð ABD (all-but-dissertation) sem þýðir að ég lauk öllum kröfum til doktorsprófs nema doktorsritgerðinni sjálfri.

9. Hver voru stærstu mistökin hjá þér? Ég hefði átt að vera lengur í Ottawa.

10. Varstu veik eða slasaðist þú á árinu? Ég var býsna heilbrigð en núna undir lok árs var sparkað í lærið á mér og ég get ekki enn gengið almennilega.

11. Hvað var það skemmtilegasta sem þú keyptir? Ekkert kemur í hug. Ég keypti geisladiska, bíómyndir, föt, skó...ekkert stendur uppúr.

12. Gerðist eitthvað hjá þér eða vinum þínum sem er þess virði að halda upp á það? Ýmsir í deildinni vörðu ritgerðir (MA, GP, QP) sem haldið var uppá. Martin fékk stöðuhækkun. Julianna trúlofaði sig og mun giftast milli jóla og nýárs.

13. Hegðun hverra gerði þig sorgmædda eða reiða? Bush, allra Repúblikana, Reykvíkinga sem kusu Sjálfstæðisflokkinn yfir sig, Kanadamanna sem kusu Íhaldsmenn yfir sig...

14. Í hvað fór megnið af peningunum þínum? Húsaleigu og mat.

15. Yfir hverju varstu spennt? Að fara til New York. Mig hafði langað að fara þangað lengi og Stóra eplið klikkaði ekki.

16. Hvaða lag/plata mun ævinlega minna þig á árið 2006? Sennilega lagið Island Way með John Cruz. Martin keypti þá plötu í Hawaii í vor og spilaði mikið. Ég lærði enska hlutann af því og söng með.

17. Miðað við sama tíma í fyrra ertu:
Hamingjusamari eða óhamingjusamari? Hamingjusamari.
Grennri eða feitari? Nokkuð svipuð.
Ríkari eða fátækari? Sennilega heldur fátækari því ég geng á sjóðinn minn

18. Í hvað hefðirðu viljað eyða meiri tíma? Ég segi það nú ekki upphátt.

19. Í hvað hefðirðu viljað eyða minni tíma? Fara yfir heimaverkefni BA nemenda.

20. Hvernig ætlarðu að eyða jólunum? Í faðmi fjölskyldunnar. Jibbí.

21. Við hvern talaðirðu mest í síma? Martin, ekki spurning.

22. Varðstu ástfangin árið 2006? Já.

23. Hversu mörg einnar nætur gaman? Engin.

24. Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Hmmm. Allar útgáfurnar af Law and Order eru alltaf í jafnmiklu uppáhaldi. Aðrir frábærir þættir: Veronica Mars, Desperate Housewives, Corner Gas.

25. Hatarðu einhvern núna sem þú hataðir ekki í fyrra? Nei.

26. Hvað var besta bókin sem þú last á árinu? Sennilega The curious incidence of the dog in the night time sem hefur svo illa verið þýdd á íslensku sem Undarlegt háttarlag hunds um nótt. (Má ég benda á að hundurinn hegðaði sér ekki undarlega. Hann var drepinn.) Allar Henning Mankell bækurnar eru líka frábærar. Er búin að lesa nærri því alla seríuna í sumar. Þarf líka að nefna bækur Mary Jane Maffini sem gerast í Ottawa. Meiri háttar bækur.

27. Hver var mesta tónlistaruppgötvunin? Eftir langa pásu fór ég aftur að hlusta á System of a Down og þeir eru jafnvel enn betri en mig minnti. Sennilega út af plötunni Mesmorize sem kom út í fyrra. Nýja Bítlaplatan er frábær en sennilega stendur uppúr öll frábæra tónlistin sem ég heyrði á Bluesfest í sumar, svo og Akadían tónlistin sem Martin kynnti fyrir mér.

28. Hvað langaði þig í og fékkst? Kærasta, hi hi hi.

29. Hvað langaði þig í og fékkst ekki? Bíl, börn og buru. Nýja, flotta myndavél.

30. Uppáhaldsbíómyndin á árinu? Ég held ég verði að segja Little Miss Sunshine.

31. Hvað gerðirðu á afmælinu þínu og hversu gömul varðstu? Ég varð 37 ára. Ég fór út að borða með Marion, fór svo í hljóðkerfisfræði tíma og kenndi íslensku. Eyddi morgninum í að bíða eftir símtölum frá vinum og ættingjum á Íslandi en aðeins mamma og pabbi hringdu (en ekki fyrr en eftir að ég var farin í skólann.)

32. Hvað hefði gert árið enn ánægjulegra? Sjá spurningar 18 og 29.

33. Hver var tískan hjá þér á árinu? Í sumar var ég mikið í pilsi. Var líka vanalega í fleiri en einum bol.

34. Hvað hjálpaði þér við að halda geðheilsunni? Sennilega mamma og pabbi og vinir mínir.

35. Hvaða þekktu persónu girndistu mest? Jesse L. Martin, án efa.

36. Hvaða málefni hafði mest áhrif á þig á árinu? Sennilega allt bröltið í Írak sem engan enda virðist ætla að taka. Og kjarnorkutilraunir Norður Kóreu. Ég er ekkert hissa á því að þeir vilji kjarnorkuvopn. Bandaríkjamenn hafa sýnt að þeir hika ekki við að ráðást á þjóðir sem þeir telja sig geta unnið.

37. Hverra saknarðu? Fjölskyldunnar, vina minna á Íslandi, Ítalíu, Englandi, Bandaríkjunum, Martins.

38. Af nýju fólki sem þú kynntist á árinu, hver stendur uppúr? Martin, auðvitað.

39. Hvað lærðurðu á árinu? Mér finnst ég aldrei læra neitt. Kannski helst það að maður fær óttalega lítið af því sem mann langar í. En ég hafði nú svo sem lært það fyrir löngu.


 


Allt í hinu rólega

Ég hef ekki skrifað mikið undanfarið, aðallega vegna þess að það hefur ekki mikið verið um að vera. Eins og ég nefndi (held ég) varð ég fyrir meiðslum á laugardaginn og er enn býsna slæm. Bólgan hefur reyndað hjaðnað en vinstri lærvöðvi er enn mjög aumur og gefur stundum eftir þannig að ég hálfhrapa þótt ég sé bara að ganga um gólfið heima hjá mér. Og svo er verkur í hné. Útaf þessu hef ég verið heima undanfarna daga; skrifað svolítið, lesið, horft á sjónvarpið, sofið. Býsna rólegt líf. Ég þurfti reyndar að fara yfir helling af heimaverkefnum um helgina en á mánudagskvöldið kláraði ég það þannig að síðan hef ég ekki þurft að vinna eins mikið og hef getað leyft mér að einbeita mér að því að verða betri. Kláraði reyndar grein sem ég var að skrifa og vann svolítið í annarri. Þar að auki hef ég verið að brenna diska fyrir Juliönnu sem hún ætlar að gefa gestum í brúðkaupinu hennar. 

Það byrjaði aftur að snjóa í dag þannig að færðin á vegum hefur ekki skánað. Hins vegar á að hlýna í nótt á morgun og jafnvel fara að rigna aftur þannig að líklega fer snjórinn bráðum. Mér finnst synd að missa af þessu. Í dag haltraði ég út með ruslið því á morgun er rusladagur, og það var æðislegt að vera úti í köldu loftinu. Vildi að ég hefði getað notið þess betur áður en við förum aftur í rigninguna. 


Ástand í Vancouver

Þvílíka ástandið í borginni.

-Vatnið er enn ódrekkandi, aðra vikuna í röð.

- Í gær og í dag hefur snjóað svo mikið að fólk út um allt hefur verið að lenda í árekstrum (eitt dauðaslys í dag).

- Í nótt á hitastig að hrapa niður í níu gráðu frost (vissi ekki að að það færi svo lágt í Vancouver) svo búist er við fjölda slysa í fyrramálið þegar fólk keyrir í vinnu á sumardekkjunum sínum í hálkunni.

-Rafmagn er farið af hluta borgarinnar (þar á meðal hjá fólkinu hinum megin við götuna mína - við erum greinilega á mismunandi línum þar sem við höfum enn rafmagn hérna megin).

- Út af rafmagnsleysinu er kapallinn úti (sennilega rafmagnslaust hjá þeim) svo að það er hætta á að ég sjái ekki Desperate housewifes í kvöld. Annars virðist ég enn þá opnu stöðvunum þannig að það er hugsanlegt að þetta muni ganga. Hey, hér er ég að óttast um að missa af sjónvarpsþætti þar sem aðrir hafa hvorki hita né rafmagn! Ég ætti að skammast mín. 


Stórhríð og Rolling Stones í Vancouver

Það er farið að snjóa. Eftir alla rigninguna undanfarið hefur hitastig hrapað nóg til þess að rigningin falli nú í öllu fastara formi. Þetta gerist kannski tvisvar á ári. Gallinn er að þegar snjóar fer allt í köku. Strætó hættir stundum að ganga því þeir eru ekki með nagladekk eða vetrardekk og borgin er hæðótt. Og þeir sem voga sér út kunna ekki að keyra í hálku og lenda í árekstri. Og hvað geri ég ef Strætó hættir að ganga í kvöld? Ég þarf að fara niður í bæ því í kvöld fer ég á tónleika með ROLLING STONES!!!!!!!! Ég segi ykkur frá þeim annað hvort í nótt þegar ég kem heim eða á morgun ef ég er of þreytt þegar ég kem heim!

Þið verðið að sjá þetta

Hafið þið heyrt um McGurk áhrifin? Alveg ótrúleg sjónblekking. Sýnir með óyggjandi hætti hversu mikið við notum sjónina við að hlusta á aðra; þ.e. við notum varalestur.

Ég ákvað að búa til mína eigin McGurk mynd. Hér er það sem þið þurfið að gera. Horfið á mig tala og myndið ykkur skoðun á því sem ég segi. Þegar þið eruð viss um hvað það er sem ég er að segja, lokið þá augunum og hlustið á mig án þess að horfa á mig. Segi ég enn það sama?


 

Ég vona að mér hafi tekist að klippa þetta nógu vel saman til að þið getið séð áhrifin. Hvað er í gangi? Jú, ég tók upp á vídeó sjálfa mig segjandi annars vegar 'map' og hins vegar 'tap'. Síðan setti ég hljóðið frá 'map' yfir myndina af 'tap'. Útkoman verður því samblanda af báðu. Þið heyrið 'map' en sjáið mig segja 'tap'. Það sem gerist í heila ykkar er að þið treystið hljóðinu í því að þið heyrið nefhljóð en þið treystið sjóninni með það hvar hljóðið er myndað. Og af því að þegar ég segi 't' þá er tungan og kjálkinn í sömu stöðu og þegar ég segi 'n' og þess vegna haldið þið að ég sé að segja 'n' en ekki 'm'. 'm' er jú myndað með því að loka vörunum. Þetta þýðir að ef þið hélduð að ég væri að segja 'nap' en ekki 'map' þá voruð þið að lesa af vörum mínum. Það fyndna við þetta er að þetta breytist ekkert þótt þið vitið hvað ég er að segja. Þegar ég horfi á þetta sjálf finnst mér ég vera að segja 'nap' jafnvel þótt ég hafi sjálf tekið þetta upp og þótt ég viti að ég sagði aldrei 'nap'. Eingöngu 'map' og 'tap'. Skemmilegt? Svona getur hljóðfræði verið athyglisverð.

 


Bítlaaðdáendur kætast

Þrátt fyrir að það séu 36 ár síðan Bítlarnir hættu er enn að koma út nýtt efni með þessari bestu hljómsveit allra tíma. Mér skilst reyndar að ekki séu allir jafn sáttir við að farið hafi verið

að krukka í gömlu lögin en ég er búin að hlusta aðeins á nýja diskinn og sýnist mér að George gamli Martin (og sonur hans) hafi gert ótrúlega hluti hér. Þvílík hljómgæði. Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að hreinsa gömlu upptökurnar svona til. Og samblandan á lögunum er flott.

En þið skulið ekkert vera að lesa það sem ég er að skrifa. Farið heldur og hlustið sjálf á plötuna. Það er hægt að gera hér: http://www.thebeatles.com/hearlove/

Þarna er líka hægt að senda kort. Ég er búin að vera að senda út og suður til allra Bítlaaðdáenda sem ég þekki. 

Og komið svo endilega aftur hingað og segið mér hvað ykkur finnst. 

 

 


Rigning

Íslendingum finnst alltaf gaman að tala um veðrið. Það breytist ekkert þótt maður flytji í burtu. Hér kemur t.d. mynd af veðrinu eins og það er í Vancouver í dag:

Cloudy with showers Og hér kemur veðurspáin.

Laugardagur:  Cloudy with showers

Sunnudagur:  Cloudy with showers

Mánudagur:Cloudy with showers

Þriðjudagur:  Cloudy with showers

Miðvikudagur:  Rain

Fimmtudagur:  Rain

Föstudagur:  Rain

Á slíkum tímum saknar maður hins breytilega veðurs á Íslandi. Miklu betra en endalaus rigning.

Og þetta hefur líka sín aukaáhrif. Á miðvikudaginn fengum við hrikalegan storm með allri rigningunni og vatnsból borgarinnar urðu fyrir áföllum sem þýðir að nú er fólki ráðlagt að drekka ekki vatnið úr krönunum. Við þurfum því að sjóða allt vatn sem drukkið er. Lítið þýðir að fara og kaupa vatn því það kláraðist víst allt í morgun. Kaffihús voru meira og minna auð því vatn kláraðist og fæstir kaffistaðir hafa aðstöðu til að sjóða mikið magn af kaffi. Þannig að ekkert hreint vatn var til reiðu til kaffigerðar. Ég er viss um að það voru fleiri árekstrar í umferðinni út af skapvondu kaffifólki sem fékk ekki skammtinn sinn. Ég vona að Íslendingar fari vel með vatnsbólin. Vatnið okkar er eitt það mikilvægasta sem við eigum og ég held að við hugsum ekki nógu miið um það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband