Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Kjörgengi
15.2.2007 | 07:36
Er einhver hér sem þekkir vel kosningareglurnar? Eftir að Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi er ég algjörlega rugluð yfir því í hvoru kjördæminu ég fæ að kjósa. Það er vanalega þannig að Íslendingar erlendis eiga kosningarétt í átta ár í því kjördæmi þar sem þeir áttu síðast lögheimili. Um síðustu kosningar sagði mér einhver að Íslendingum erlendis sem búsettir voru síðast í Reykjavík hafi öllum verið hent saman í annað Reykjavíkurkjördæmið (vissi aldrei hvort) en mér þykir það alveg með ólíkindum ef satt er. Hefði talið eðlilegast að maður kysi bara í því kjördæmi sem gamla lögheimilið manns lendir í. Og kannski er það líka þannig.
Ef einhver veit hvernig þessu er farið, segið mér endilega frá því svo ég geti farið að skoða framboðslistana. Nú eru þrír mánuðir í kosningar en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hefst eftir um það bil mánuð. Vil kjósa snemma til þess að tryggja að atkvæði mitt komist til skila. Ég er búin að missa réttinn í sveitastjórnarkosningum, vil ekki missa þennan alveg strax.
Kona eða blökkumaður?
10.2.2007 | 22:12
Þótt enn sé nokkuð í að Demókratar velji kandidat fyrir næstu forsetakosningar eru blöðin farin að fjalla töluvert um hvern þeir muni velja. Hingað til hef ég aðeins heyrt tvo nöfn, Hillary Clinton og Barrack Obama. Ef annað hvort þeirra verður næsti forseti Bandaríkjanna verður brotið blað í sögu þjóðarinnar - fyrsta konan á forsetastóli eða fyrsti blökkumaðurinn.
Ég ætti auðvitað að styðja Hillary svo að kona verði valdamesti einstaklingur í heimi en ég hef ekki enn myndað mér skoðun á því hvort þeirra tveggja yrði betri forseti. Það sem ég hef séð og heyrt af Obama þykir mér gott og mér finnst hann að mörgu leyti betri kandidat. En ég á eftir að lesa stefnu þeirra beggja og hreinlega heyra meira frá þeim áður en hægt er að mynda sér skoðun. Annars skiptir það engu, ég fæ ekkert að kjósa þar.
Spurningin er kannski: Hvort eru Bandaríkjamenn meiri kynþáttahatarar eða karlrembusvín?
Annars er alltaf sá möguleiki í stöðunni að Repúblikanar sendi Condoleezzu Rice í slaginn fyrir sig og að næsti forseti verði þá svört kona. Nei, hvaða vitleysa í mér, það myndu Repúblikanar aldrei gera.
Þetta á eftir að verða spennandi.
Slepp ekki undan Alcan
7.2.2007 | 17:03
Ég las í blaðinu í morgun að Alcan standi nú í viðræðum við fylki Bresku Kólumbíu um framkvæmdir upp á marga milljarða dollara. Reyndar var fréttin fyrst og fremst að segja frá því að Gordon Campbell, fylkisstjóri, ætti hlutabréf í Alcan og að þar stönguðust hagsmunir á. Dómari hefur farið yfir málið og komist að þeirri niðurstöðu að þótt fylkisstjóri hafi ekki gert neitt saknæmt í því að eiga hlutabréf í fyrirtækinu sem hann er að semja við, þá sé það ekki góð hugmynd að þingmenn almennt eigi hluta í fyrirtækjum sem þeir þurfa eiga í viðræðum ivð. Betra sé að setja peningana í svokallaða blinda sjóði - hvað sem þeir kallast nú réttilega á íslensku.
Við það að lesa þessa frétt fór ég að hugsa um tvennt. Annars vegar hvernig Alcan hefur teygt klær sínar alls staðar, og hins vegar þessi viðkvæmu mál þegar kemur að fjárfestingum manna í stjórnarstöðum. Ég veit að svona mál hafa komið upp á Íslandi og eru alltaf fremur viðkvæm. Ég held hins vegar að þetta hafi verið góð skilaboð frá dómaranum. Best er fyrir fulltrúa sveitastjórna og Alþingis að fjárfesta í nafnlausum bréfum til að koma í veg fyrir hugsmunaárekstra. Jafnvel þótt stjórnmálamaðurinn væri svo heiðarlegur að hann léti slíkt ekki hafa áhrif á sig, þá er alveg ástæðulaust að gefa þannig högg á sér.
Gordon Campbell segist í viðtali fagna niðurstöðunni og að hann sé þegar farinn að haga fjármálum sínum í þá vegu sem dómarinn stingur upp á.
Ég sá hins vegar ekki í fréttinni hvað það er nákvæmlega sem Alcan vill. Verð að finna út úr því.
Rauða drullan hræðir mig
6.2.2007 | 17:44
Þegar ég las Draumalandið hans Andra var lýsing hans á vinnslu súráls líklega það sem sjokkeraði mig mest. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hann gefur skapast þrjú tonn af rauðri, eitraðri drullu við hvert tonn af súráli sem vinnst úr báxíti. Þrjú tonn!!! Og hugsið ykkur, slíka verksmiðju vilja menn byggja á Húsavík.
Þótt ég hafi alltaf strítt Guðrúnu Helgu frænku minni á því að Húsavíkurfjall sé lítið og ljótt þá er Húsavík fallegur bær á fallegum stað og það er hræðilegt til þess að hugsa ef nágrennið verður allt sett rauðum drullupyttum. Samkvæmt því sem segir í bókinni myndi fyllast vörubíll af þessarri drullu á þriggja mínútna fresti, allt árið um kring.
Hér áður fyrr var mér eingöngu í mun um að fá EKKI stóriðju í Eyjafjörðinn enda fallegegastur fjarða á landinu. Mér var nokk sama um hvað aðrir vildu fá til sín. En eftir að sjá þessar upplýsingar verð ég að segja að ég má ekki hugsa til þess að frændur mínir Þingeyingar láti glepjast af slíkum óhugnaði.
Hér að neðan má sjá myndir af rauðu drullunni og mengun á Jamaica frá þessarri gagnlegu síðu: http://www.jbeo.com/
Íhaldsmenn horfa á íþróttir og óttast hryðjuverk
4.2.2007 | 19:17
Þetta var niðurstaðan úr könnun sem nýlega var gerð í Kanada á háttum stuðningsmanna íhaldsflokksins. íhaldsmenn skipa núverandi minnihlutastjórn undir forystu Stevens Harpers, forsætisráðherra, en flokkurinn á undir högg að sækja og í nýjustu skoðanakönnun er hann nokkuð neðar Frjálslynda flokknum. Þess vegna var gerð þessi könnun til þess að fá betri vitneskju um hverjir kjósa flokkinn. Í ljós kom að nokkur stór hópur er hylltur undir flokkinn en ekki tilbúinn til þess að kjósa hann nema að ákveðnum áherslum verði breytt. Það er auðvitað hópurinn sem Harper þarf að vinna yfir til sín.
Reyndar var líka gerð könnun á svokölluðum Harpers Kanadamönnum, það er, fólki sem myndi kjósa Steven Harper, sama í hvaða flokki hann var. Þar kom í ljós að þetta eru fyrst og fremst karlmenn, þeir drekka Tim Hortons kaffi, horfa yfirleitt ekki á CBC (ríkissjónvarpið), telja Don Cherry kanadíska táknmynd en ekki þjóðarskömm (trúið mér - hann er algjör trúður (sjá hér til hægri)), horfa aðallega á íþróttir í sjónvarpinu, eru skíthræddir við hryðjuverk, eru heldur ríkari en aðrir, er nokkuð sama um umhverfið, eru á móti byssuskráninu og er illa við að hommar og lesbíur fái að gifta sig.
Var nokkurn tímann gerð könnun á því fólki sem fylgdi Davíð Oddssyni í gegnum þykkt og þunnt? Ég veit að hann átti aðdáendur út fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það hefði verið gaman að sjá hvernig fólk studdi hann og bera það saman við áhangendur Stevens Harpers. Gætum við búist við svipaðri manngerð eða var það allt annað fólk sem studdi Davíð? Eigum við annars nokkurn stjórnmálamann í dag sem hefur eins mikinn stuðning og Davíð hafði? Hvern gæti verið gaman að skoða? Annars væri líka skemmtilegt að gera svona könnun á fylgismönnum Steingríms J. og athuga hvort allt væri nákvæmlega öfugt við það sem einkennir fylgismenn Harpers. Hey, Moggamenn, hvað með svona skemmtilega könnun á fylgismönnum einstakra stjórnmálamanna???
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Læknaþjónusta á Íslandi og framkoma við Íslendinga erlendis
3.1.2007 | 23:43
Í dag fór ég til læknis. Ég er búin að vera með slæmt kvef síðan ég kom heim fyrir tveimur vikum og það virtist ekkert vera að skána. Græn skítadrulla í nefinu sem lekur svo niður í kok. Þetta er búið að koma í veg fyrir hinar daglegu sundferðir sem ég hafði planað. Ég fór reyndar einu sinni, ákvað að láta mig hafa það, en versnaði þá svo ógurlega að ég hef ekki þorað aftur. En sem sagt, í dag heimtaði pabbi að ég færi til læknis svo ég lét mig hafa það. Og hvað þurfti ég að borga? Yfir fjögur þúsund krónur. Bara fyrir að láta hlusta mig og síðan fá ávísun á síklalyf. Einhvern veginn finnst mér það eins og að fá kalda tusku framan í mig að þurfa að borga svona ógurlega fyrir að fara til læknis á Íslandi, bara af því að ég er í námi erlendis. Hérna er staðan:
1. Ég fæ enn að kjósa í alþingiskosningum (enn um sinn) en ekki í sveitastjórnakosninum.
2. Það er búið að taka af mér persónuafsláttinn þannig að ég borga hærri skatta en aðrir á Íslandi, þótt ég njóti almennt engrar þjónustu hér, annars en að hafa bankareikning. Reyndar mun ég ekki borga skatta hér fyrr en næst því nám mitt hefur alfarið verið styrkt af kanadískum peningum, en nú síðast fékk ég Rannís styrk þannig að ég mun fara að borga skatta á Íslandi aftur.
3. Ég fæ ekki lengur neina sjúkraþjónustu nema borga himinháar upphæðir. 'Eg er með sjúkratryggingu á vísakortinu mínu sem ætti að greiða þetta, en þar er sjálfábyrgðin svo há að það borgar sig ekki. Sjúkratryggingin mín í Kanada gæti einnig borgað þetta, en til þess þyrfti ég auðvitað að sýna kvittun á ensku og það kostar um 5000 krónur að fá kvittunina þýdda yfir á ensku af löggiltum skjalaþýðanda. Þannig að ég verð bara að borga minn fjögurþúsund kall fyrir það að fá sýklalyf (sem að auki kosta 1800 krónur).
Mér líður eins og eins og ég sé ekki Íslendingur lengur. Búið að taka af mér velflest réttindi íslenskra þegna.
Ég kannaði það aðeins hvort ég gæti ekki átt lögheimili á Íslandi á meðan ég er í námi, þannig að ég gæti haldið ákveðnum réttindum, en af því að ég fór ekki í nám beint frá Íslandi, heldur hafði verið að kenna ytra, þá var það ekki hægt. Þannig að íslenskur námsmaður erlendis sem flytur út til að læra heldur öllum réttindum á Íslandi en námsmaður sem bjó ytra fyrir hefur engin réttindi. Mér finnst það satt að segja ekki rétt. Ég hafði verið að kenna íslensku í Manitoba, og þannig að þjóna Íslandi á vissan hátt, og hefði ég ekki farið í framhaldsnám hefði ég komið heim til Íslands eftir að ég hætti kennslu. Og vonin er að fá vinnu heima þegar námi lýkur. En sem sagt, nú er þannig komið að ég nýt sama og engra réttinda á Íslandi lengur þótt ég sé íslenskur ríkisborgari.
Ágreiningur Steingríms og Ingibjargar
2.1.2007 | 17:40
kolrangt á málefnin. Ég var að lesa nýjasta bloggið hjá Birni Inga
Hrafssyni (http://bingi.blog.is/blog/bingi/?nc=1#entry-96364) þar sem
hann slæst í hóp með þeim sem setja út á Steingrím J. Nú er hann í
nokkrum bloggum að skammast yfir því (eins og aðrir - m.a. Fréttablaðið
og Egill Helgason) að Steingrímur skuli ekki tilbúinn til þess að
samþykkja Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherraefni sameiginlegrar
vinstri stjórnar. Ég skil ekki alveg hugsun þessa fólks. Af hverju
þurfa vinstri grænir að samþykkja það fyrirfram að Ingibjörg Sólrún
verði forsætisráðherra ef þessir flokkar ná að mynda ríkisstjórn? Af
hverju ekki ákveða það þegar tíminn kemur? Ekki ákváðu Framsóknarmenn
og Sjálfstæðismenn hver ætti að vera forsætisráðherra fyrir síðustu
kosningar þótt allir hafi vitað að þeir myndu halda áfram í ríkisstjórn
ef Framsókn yrði ekki þurrkuð út. Hvað er öðruvísi núna? Ég veit að
Steingrímur hefur sagt að hann vilji kosningabandalag, og það er
kannski þess vegna sem fólk vill vita fyrirfram að Ingibjörg Sólrún
verði forsætisráðherra, en ég get ekki séð að það sé nauðsynlegt.
Reyndar er ég viss um að hún stæði sig vel og það væri sjálfsagt
eðlilegt að Samfylkingin fengi stólinn ef þannig ríkisstjórn yrði
mynduð, en að þetta skuli þurfa að vera aðalmálið núna og að fólk skuli
telja það minnka líkur á að þessir flokkar muni vinna samann þótt
Steingrímur sé ekki alveg tilbúinn til þess að gefa stólinn eftir núna
í upphafi árs... Er ekki verið að búa til ósamstöðu sem ekki er til
staðar? Sjálfsagt langar Steingrím í forsætisráðherrastólinn (langar
ekki flesta stjórnmálamenn í hann?) en ég er líka þess sannfærð að hann
léti Ingibjörgu hann fúslega eftir ef þessir tveir flokkar ættu þess
kost eftir kosningar að mynda ríkisstjórn-svo framarlega sem
Samfylkingin væri töluvert stærri en Vinstri grænir eftir kosningar.
Mér sýnist málið fyrst og fremst vera það að hann vill halda
möguleikanum opnum ef svo færi að Vinstri grænir kæmu sterkir út í vor.
Þá væri forsætisráðherrastólinn að sjálfsögðu öflugra samingatól en ef
búið væri að semja hann af sér áður en til kosninga er haldið. Ég er
hvorki félagi í Samfylkingunni né Vinstri grænum en ég vona að þessir
tveir flokkar myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor.Og ég trúi því
hreinlega ekki að Ingibjörg og Steingrímur muni láta
forsætisráðherrastólinn eyðileggja möguleikana á því. Og ég held að
blaðamenn viti það og vegna þessa eru þeir ekki að gera sér meiri rellu
yfir þessu. En að sjálfsögðu vilja Framsóknarmenn gera meira úr þessu
máli en ástæða er til - þeir vilja ná manni inn í vor.
Hið pólitíska munstur
8.12.2006 | 08:21
Stjórnmálin eru allt í kring um mann þessa dagana. Ekki er hægt að kíkja á moggann án þess að sjá eitthvað um prófkjörin heima, bloggsíður Íslendinga eru fullar af því sama, hér í Kanada voru miðjumenn að kjósa sér nýjan fulltrúa sem á að reyna að ná ríkistjórninni til baka úr höndum íhaldsmanna...
Ég var eitthvað að þvælast um netið og fann síðu Gests Svavars sem var með mér í íslenskunni á sínum tíma, rétt eins og Svandís systir hans. Svavar og Guðrún voru svo mínar hjálparhellur fyrst þegar ég flutti til Kanada. Alla vega, ég var að lesa bloggið hans Gests (http://gammur.blogspot.com/index.html) og sá þá tengil á þessa síðu: http://www.politicalcompass.org/index. Maður svarar fjölda spurninga og síðan er manni sagt hvar maður stendur í pólitíska litrófinu. Ég vissi það nú svona nokkurn veginn en ákvað samt að taka prófið. Í ljós kom að ég er vinstrisinnaður sjálfræðissinni og er nokkurn veginn á nákvæmlega sama stað í litrófinu og Dalai Lama. Hins vegar ekki eins langt til Vinstri og Nelson Mandela og Gestur Svavars.
Það sem mér fannst athyglisverðast var að Steven Harper, forsætisráðherra Kanadamanna fyrir íhaldsflokkinn, er talinn vinstrisinnaðri en Tony Blair. Ég vissi svo sem að Tony Blair er ekki mjög vinstrisinnaður, en að hann skuli vera talinn hægrisinnaðri en hægri menn í Kanada!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Icebank! Hvaða vitleysa er þetta eiginlega
24.11.2006 | 03:03
Nafni Sparisjóðabankans breytt í Icebank | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fleiri glæpamenn í pólitíkina, takk.
12.11.2006 | 21:03
Hvað er eiginlega að Sjálfstæðismönnum? Árni Johnsen er glæpamaður sem hefur setið í fangelsi fyrir að misnota sjóði almennings. Og fólk vill setja hann á þing? Endilega. Reyndum að koma honum í stöðu þar sem hann getur haldiið áfram að bruðla með fé almennings til eigin nota. Það virðist hreinlega vera kostur hjá hægrimönnum að hafa nógu lágan siðferðisstandard. Þess betra. Þá er hægt að treysta þessu liði til að troða á almannafé og færa það í hendur þeirra sem þegar eiga nóg. Allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa hvort eð er stuðlað að því að gera þá fátæku fátækari og hina ríku ríkari. Árni Johnsen er líklega þokkalega ríkur og hann var því að sjálfstöðu bara að halda uppi merkjum Sjálfstæðismanna þegar hann reddaði sér smá aukapening frá Þjóðleikhúsinu. Hann hefur líklega fengið hrós fyrir hjá ráðamönnum þótt það hafi ekki verið gert opinberlega.