Færsluflokkur: Tónlist

Stálgítarinn

Ég verð að segja ykkur sögu sem ég las á netinu um daginn og snertir Chris Isaak og bassaleikarann hans Roly Salley. Kenney-Dale Johnson, trommuleikari hljómsveitarinnar, hélt úti bloggi fyrir nokkrum árum og skrifaði þar margt skemmtilegt.

Þeir voru í hljómsveitarútunni sem hefur þráðlaust internet. Roly var á ebay eða einhverri slíkri síðu og hafði boðið í fágætan stálgítar. Svona einn þeirra sem maður situr með í kjöltunni. Chris laumaðist þá aftast í vagninn með aðra tölvu og byrjaði að bjóða í gítarinn á móti Roly. Að lokum var það Chris sem vann og Roly var hundfúll að tapa gítarnum. Vissi ekki að Chris hafði keypt hann. Chris lét senda gítarinn til Atlanta þar sem þeir áttu að spila síðar í túrnum og ætlunin var að láta Hershel spila á gítarinn upp á sviði, svona til að stríða Roly.

 

Nema hvað, þeir eru að spila á tónleikunum í Atlanta þegar Chris stingur upp á að þeir spili hawaiiska lagið Sweet Lei lani en stálgítar er mikið notaður í hawaiiskum lögum. Þeir fara að spila lagið og Hershel spilar á gítarinn, nema hvað Roly spilar bara á sinn bassa og horfir ekkert yfir á hinn enda sviðsins þar sem Hershel er með gítarinn góða. Lagið er að verða búið og Roly tekur enn ekki eftir neinu svo Kenney kallar til hans: Hey, á hvað er Hershel að spila. Nema hvað á ensku er það tvírætt, 'what is Hershel playing' sem getur líka þýtt 'hvað er Hershel að s

pila'. Svo Roly lítur á Kenney eins og hann séð bilaður og segir: "Nú, Sweet lei lani". Og þá fyrst tekur hann eftir gítarnum. Svo Chris útskýrir brandarann fyrir áhorfendum og afhendir gítarinn sínum rétta eiganda.

Á myndinni hér að ofan eru þeir Chris og Roly saman en það er greinilegt þegar maður sér þá á sviði hversu góðir vinir þeir eru og þeir allir í hjómsveitinni.


Magnaðir tónleikar

Það er alltaf gaman að fara á góða tónleika og enn betra þegar boðið er upp á skemmtilegt spjalla á milli laga. Paul McCartney er býsna góður með það, Billy Joe Armstrong í Green Day hafði margt skemmtilegt að segja þegar ég sá þá spila og Fran Healy í Travis var geysi skemmtilegur í bæði skiptin sem ég hef séð hann á sviði. En enginn er betri en Chris Isaak hvað þetta snertir.

Tónleikarnir hófust á laginu Dancing og Chris skellti sér svo beint í Two hearts og Somebody's crying áður en hann bauð gesti velkomna. Chris of félagar bjuggu í Vancouver í þrjú ár á meðan þeir gerðu sína stórkostlegu sjónvarpsþætti og borgin á því alltaf sérstakan stað í hjarta þeirra. Chris sjálfur bjó á húsbáti niðri við Granville island á meðan þeir voru hér. Chris lofaði því að þeir skyldu spila bæði góðu lögin sín. Svo spurði hann hvort einhver í salnum hefði komið á tónleika með þeim áður. Við vorum mörg sem höfðu séð þá áður svo Chris sagði, mjög alvarlega: "Mér hefur alltaf líkað svo vel við hversu góðir Kanadamenn eru með það að gefa fólki annað tækifæri. Þetta sem gerðist síðast, það mun ekki gerast aftur. Við lofum að spila vel í þetta sinn." 

Chris kynnti sérlega fyrir áhorfendum gítarleikara sinn og yngsta meðlim hljómsveitarinnar, Hershel Yatowich, og þóttist vera að kenna honum sviðsframkomu. Hann benti á bassaleikarann, Roly Salley, og sagði Hershel að hann ætti að fylgjast með Roly og læra af honum. Hvernig ætti að heilla áhorfendur o.s.frv. Hann sagði Hershel að nú væri það hans starf að halda okkur sem sátum á svölunum hamingjusömum. Það væri alltaf hætta á að þeir sem sætu þarna uppi fyndust þeir vanræktir svo nú skyldi bætt úr því. Síðan bað hann Hershel að spila eitthvað rómantískt og Hershel spilaði Love me tender. Chris greip míkrafóninn, byrjaði að syngja og gekk svo út í sal. Svo hvarf hann. Við heyrðum bara í honum, gerðum ráð fyrir að hann væri einhvers staðar í hvarfi frá okkur þarna uppi. Nema hvað allt í einu birtist uppi á svölum og gekk niður mín megin. Hann var sirka metra frá mér. Þegar hann kom út á endann á svölunum öskraði hann niður: "Strákar, ég veit ekki hvernig ég á að komast niður héðan", svo hann settist bara í autt sæti og sat og söng við hliðina á ákaflega hamingjusamri konu. Allt í einu kallaði hann: "strákar, haldið tóninum, ég ætla að koma niður" og svo rauk hann af stað niður bakdyr og kom loks hlaupandi upp á svið aftur. 

 Við fengum að heyra I want your love, Cheater's town, Speak of the devil og smellinn Wicked game. Þeir spiluðu líka Best I've ever had, One day, Big wide wonderful world, Worked it out wrong, Take my heart og kántrílagið Western stars sem K.D. Lang hefur tekið upp sína arma. Þegar hann söng Yellow bird lét Hershel gítarinn syngja eins og fugl. Eingöngu magnaðir gítarleikar geta spilað þannig.

Eftir eitt lagið þar sem píanó var í aðalhlutverki kallaði Chris til ljósamannsins og bað hann um að halda fókusnum á hljómborðsleikaranum Scott, sem ekki er hluti af Silfurtónum en hefur spilað með þeim í einhver ár. Þegar ljósið skein vel á Scott sagði Chris: Það er alltof oft að maðurinn fremst á sviðinu með míkrafóninn fær meiri athygli en hann á skilið. Fólk heldur að það sé hann sem hafi hæfileikana og sé aðalsprautan í hljómsveitinni. En ef þið lítið framhjá honum og horfið aftar á sviðið þá finnið þið oft þann sem raunverulega hefur mestu hæfileikana." Scott þóttist snortinn og veifaði til áhorfenda. Nema hvað þá hélt Chris áfram: "Því er ekki þannig farið í þessari hljómsveit, en í sumum öðrum..."

Þeir sungu Dark moon og Return to me. Og svo fór Chris að tala um James Brown. Hann hitti hann einu sinni og var með stjörnur í augum. James Brown var hetjan hans. Svo Chris gekk upp að Brown, kynnti sig og sagðist vera mikill aðdáandi. James Brown leit á Chris og sagði svo: "Ah" (og þetta sagði Chris með svona James Brown rödd.) "Ah". Og svo bætti Chris við: "Alveg síðan þá hef ég reynt að lifa eftir þessu sem best ég get."

 

 

 Hann söng svo James Brown lagið I'll go crazy og skellti sér svo í You don't cry like I do. Svo kom að laginu þar sem Chris níðist á Roly, Baby did a bad thing. Hann gerir það alltaf. Ég hef séð þá þrisvar og alltaf ræðst hann á Roly í þessu lagi. Sennilega af því að bassinn er aldrei meir áberandi en einmitt þarna. Í miðju lagi kynnti hann Roly og sagði að hann hefði sérlegur áhugamaður um ekkjur og fráskyldar konur. Bauð svo tveim brussum upp á svið og kallaði til Roly að þetta gæti verið happakvöldið hans. Þessar tvær voru vel fullar og önnur þeirra greip míkrafóninn af Chris og var næstum hent út. En Chris sagði öryggisverðinum að láta hana í friði, þetta væri ekki henni að kenna heldur Jaegermeister. Svo þóttist hann vera stelpan að hringja í mömmu sína og segja henni að hún væri að dansa uppi á sviði og væri orðin ástfangin. "En mamma, þetta er allt í lagi. Hann er ekki tónlistarmaður. Hann er bassaleikari." Roly þóttist móðgaður yfir þessu en hann er orðinn vanur Chris eftir 25 ára samstarf. Roly er uppáhaldið mitt í hljómsveitinni. Hann lifir sig inn í tónlistina og hann er alltaf brosandi, alveg sama hvað vitleysa kemur upp úr Chris. Ég hefði átt að dansa við hann. Nema hvað ég sat uppi og hefði ekki verið komin á sviðið fyrr en lagið var búið.

 Hljómsveitin var klöppuð upp enda enginn búinn að fá nóg. Við vildum að hann spilaði fram á morgun. Scott og trommuleikarnir komu fyrst fram á sviðið, Kenney-Dale og Kúbumaðurinn sem ég man ekki hvað heitir, enda er hann ekki heldur í Silfurtónum. Kenney-Dale hafði haft sig lítið í frammi sem var svolítið sorglegt því hann er þrælskemmtilegur. Þeir byrjuðu að spila Lonely with a broken heart sem þeir nota stundum til að hefja tónleika. Roly og Hershel komu svo hlaupandi inn og bættu við bassa og gítar og að lokum kom CHris í speglafötunum sínum. Hann hefur gaman af því að vera í undarlegum fötum og heldur því fram að eina leiðin til að klæða sig svona sé að vera í sjóbisnes, svona af því að enginn í hljómsveitinni stundaði skautadans. 

Þeir spiluðu Blue hotel, San Francisco days, Pretty woman og enduðu svo á Blue Spanish sky. Ég veit að Chris hefur notað það sem lokalag á þessu tónleikaferðalagi en ég er svolítið hissa á því. Mér finnst það of rólegt. En kannski var bara ágætt að enda á einhverju rólegu og fallegu. 

En ef þið hafið ekki náð því með þessum lestri þá skemmti ég mér konunglega, eins og alltaf þegar ég sé Chris Isaak á tónleikum.


Sitt lítið um tónleika

Það er alltaf gaman að fara á tónleika þótt maður upplifi þá á mismunandi hátt.Best er auðvitað þegar maður fer á tónleika með tónlistarmönnum sem maður hreinlega elskar af öllu hjarta. Hjá mér eru Paul McCartney einu tónleikarnir sem falla í þann flokk, en sem betur fer hef ég séð hann tvisvar svo ég get alla vega sett tvær færslur í flokkinn. Þegar ég sá Paul í fyrsta sinn þá hreinlega grét ég. Ég var svo hrærð yfir því að ég skyldi fá þetta tækifæri að sjá goðsögnina á sviði. Ég grét reyndar ekki fyrr en í þriðja lagi því í fyrstu tveim lögunum var ég ekki enn farin að trúa því að ég væri þarna og að þetta væri Paul fyrir framan mig á sviðinu. En svo opnuðust flóðgáttirnar og héldust opnar í ein þrjú lög þar á eftir áður en ég jafnaði mig og fór að dansa með hinum.

Stundum er tónlistin bara hluti af tónleikunum. Sviðið, ljósasjóið o.s.frv. spilar næstum jafnmikinn þátt. Þannig voru t.d. U2 tónleikarnir sem ég sá í fyrra, Rolling Stones tónleikarnir að sumu leyti, og pottþétt Creed tónleikarnir sem ég fór á fyrir einum átta árum.

Aðrir tónleikar eru magnaðir af því að þeir fara fram í litlu rými þar sem maður er nálægt tónlistarmönnunum og tónlistin hreinlega umlykur mann. Ég sá t.d. bæði Muse og Travis á tiltölulega litlum stöðum því þeir voru ekki orðnir nógu stórir í N-Ameríku til að fylla stærri staði. Þá voru þeir að spila á leikvöngum í Evrópu. Sá líka Default þegar þeir voru rétt að verða frægir þar sem þeir spiluðu í hálfgerðri hlöðu í Fargo. Og ég myndi líka setja Godsmack og Alice in chains tónleikana undir þann hatt.

Svo eru það tónleikarnir sem koma manni á óvart af því að maður bjóst kannski ekki við miklu. Það gerist sjaldan reyndar því ég fer vanalega ekki á tónleika nema mig langi virkilega, en annað árið mitt í Kanada keypti minn þáverandi miða á tónleika með The Guess Who, sem voru gríðarlega vinsælir í Kanada á sjöunda og áttunda áratugnum (aðalsprautan var Randy Bachman sem síðar stofnaði Bachman Turner Overdrive eða BTO). Ég hafði heyrt eitt eða tvö lög með þeim og fannst þau þokkaleg en ekkert sérstök. Hljómsveitin var hins vegar frá Winnipeg svo Tim fannst við endilega verða að fara. Og ég sé ekki eftir því. Gömlu mennirnir voru hreint magnaðir og krafturinn í American Woman var ótrúlegur.

Af og til kemur fyrir að tónleikarnir valda manni vonbrigðum því manni finnst að maður gæti allt eins hafa setið heima og hlustað á plötuna. Þannig leið mér m.a. þegar ég sá Maroon5 fyrir nokkrum árum. Það var einmitt þegar 'This love' var vinsælt með þeim en einhvern veginn var ekkert gaman á tónleikunum.Ég varð líka svolítið svekkt yfir tónleikunum með Death cab for cutie. Mér finnst bandið æðisleg en tónleikarnir bættu eiginlega engu við.

Og svo eru það tónleikarnir sem maður getur séð aftur og aftur af því að maður veit aldrei hvað gerist næst eða hvað dettur upp úr tónlistarmönnunum. Þannig eru tónleikar með Chris Isaak. Hrein gleði tónleikana út í gegn. Chris er án efa með fyndnari tónlistarmönnum og það er hrein unun að hlusta á hann á milli laga. Og bandið hans, The Silvertones, tekur sig ekki mjög alvarlega svo þeir eru alltaf til í að grínast og sprella.  En af því að ég fór einmitt að tónleika með Chris í kvöld þá ætla ég að segja ykkur nánar frá þeim í annarri færslu.


Stjörnum prýddir tónleikar - Ringo í essinu sínu

Það eru liðin rúm tuttugu ár síðan Ringo Starr kom í fyrsta sinn fram með sinni breytanlegu hljómsveit, 'The All Star Band'. Þá voru í hljómsveitinni m.a. Billy Preston og Joe Walsh. Síðan hefur hann reglulega farið í tónleikaferð með hljómsveitinni, en hljómsveitarmeðlimir koma og fara eftir því sem hentar í hvert sinn. Það virðist aldrei vera vandamál fyrir Ringo að fá menn til að spila með sér. Bæði er að hann er léttur og skemmtilegur og virðist koma vel saman við alla, en einnig er hann auðvitað goðsögn í lifanda lífi sem fyrrum Bítill. Þeir Burton Cummings og Randy Bachman (úr Guess Who og Bachman líka úr BTO) hafa líka spilað með honum, svo og Peter Framton, sonur Ringos Zak Starkey, og fleiri og fleiri. Þegar ég keypti miða á Ringo og All Star Band 2010 vissi ég því að ég mætti eiga von á að sjá fleiri stjörnur en Ringo. En ég vissi ekki hverjar.

Tónleikarnir voru haldnir á túni við víngerð í Woodinville, Washington ríki, rétt norðaustan við Seattle. Þar er búið að koma fyrir stóru tjaldi og á hverju sumri eru haldnir þar fjölmargir tónleikar. Tónleikagestir mæta með kex og osta og kaupa svo vín á staðnum. Síðan er setið á dúkum og teppum og matur snæddur á meðan beðið er eftir að tónleikar hefjist. Ég kom fremur seint, stuttu áður en tónleikarnir hófust, en af því að ég var bara ein var miklu auðveldara að finna auðan blett á lóðinni, en ef ég hefði verið með öðrum. Ég fékk því magnað stæði, beint fyrir framan sviðið, fyrir aftan dýrasta svæðið þar sem fólk sat á stólum. En af því að við sátum í brekku sá maður yfir þá sem voru fyrir framan. Þetta var frábært útsýni þegar miðað er við að ég keypti ódýrasta miða. Ætti kannski að útskýra að ódýrustu miðarnir voru sæti á grasinu en ekki í stólum eins og dýrari miðarnir. En það er líka langbest. Það er þannig sem fólk nýtur nestisins og þess sem svæðið hefur uppá að bjóða. 

Ringo var ótrúlega tímanlegur. Á miðanum stóð að tónleikar hæfust klukkan sjö og ég held hún hafi ekki verið mikið yfir það þegar maður heyrði allt í einu fyrstu tónana af 'It don't come easy'. Ég skimaði eftir trommaranum snjalla en hann kom ekki á svið fyrr en rétt áður en kom að hans hluta í laginu: Got to pay your dues if you want to sing the blues, but you know it don't come easy...

Karlinn er orðinn sjötugur en hann hreyfði sig eins og unglingur og reitti af sér brandarana þar að auki.

Eftir upphafslagið skellti Ringo sér í gamla Bítlalagið 'Honey don't en síðan kom að nýrra lagi sem ég þekkti ekki en kallast 'Choose love'. Það hljómaði fallega og Ringo gerði þetta vel.

En nú kom að stjörnunum. Fyrstur var kynntur til sögunnar Rick Derringar sem eitt sinn spilaði með hljómsveitinn The McCoys og þeirra stærsti smellur var án efa lagið 'Hang on Sloopy' sem sat í einu viku á toppi breska vinsældarlistans þar til því var skellt um koll af Bítlunum með 'Yesterday'. Það var alla vega nógu vinsælt til þess að ég hafi heyrt það.

Á eftir Rick Derringer tók við snillingurinn Edgar Winter með næststærsta smell sinnar hljómsveitar (The Edgar Winter Group): 'Free Ride'. Ótrúleg tilviljun að fyrir ferðina niðureftir setti ég saman disk með eintómum þjóðvegalögum og þar á meðal var einmitt við Free Ride með Edgar Winter Group. Winter var fyrsti maðurinn (að eigin sögn) að setja ól á hljómborð og spila á það eins og gítar.

Þegar þriðja stjarnan var kynnt til sögunnar, Wally Palmer úr hljómsveitinni The Romantics, stóð ég loks á gati...þar til fyrstu tónar lagsins hófust: 'Talking in her sleep'. Þekkti það undireins. "When you close your eyes and go to sleep/And it's down to the sound of a heartbeat/I can hear the things that you're dreaming about/When you open up your heart and the truth comes out. You tell me that you want me/You tell me that you need me... Ah, níundi áratugurinn!!! Ringo sagði eftir lagið: Einu sinni talaði ég í svefni!

Ringo söng 'I wanna be your man' en síðan kynnti hann næstu tvær stjörnur. Fyrst var það Gary Wright sem þekktastur er fyrir smellinn 'Dreamweaver' sem hann samdi eftir að George Harrison gaf honum bók um hindúisma.

Á eftir Wright var röðin komin að bassaleikaranum Richard Page úr hljómsveitinni Mr. Mister. Sú hljómsveit var einnig mjög vinsæl á níunda áratugnum og lögin þeirra eru nátengd unglingsárum mínum. Page klikkaði ekki heldur fór beint í lagið Kyrie sem var ótrúlega vinsælt á Íslandi í kringum áramótin 1985/86. Þetta var ágætis uppbót fyrir það að ég fór aldrei á tónleika á unglingsárunum. 

Aftur var komið að Ringo og hann söng fyrst nýja lagið sitt 'The other side of Liverpool' sem fjallar um æskuárin, og svo skellti hann sér beint í Yellow Submarine og allir sungu með.

Nú var komið að öðrum umgangi hjá stjörnunum og Winter hóf seinni umferð með aðalsmelli sínum, laginu 'Franskenstein' þar sem hann spilaði bæði á hljómborð og saxafón. Ég las einhvers staðar að hann hafi átt einn stærsta þátt í að gera syntheziserinn að vinsælu hljóðfæri og að 'Frankenstein' hafi verið fyrsta lagið þar sem svuntuþeysir var í aðalhlutverki. Ég var annars hissa á því að 'Frankenstein' hafi verið vinsælla lag en 'Free Ride' því ég þekkti aðeins það síðara.

Ringo söng lagið Peace Dreamer, einnig af nýju plötunni en það var ekki eins gott og 'The other side of Liverpool'. En kannski var það bara vegna þess að ég hafði aldrei heyrt það en var búin að heyra Liverpool lagið. Síðan hófst lagið Back Off Boogaloo sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Ég hlustaði á Ringo í bílnum á leiðinni niðureftir og hækkaði alltaf í þegar kom að þessu lagi.

Nú var komið að Palmer sem söng lagið 'What I like about you' sem var fyrsti smellur The Romantics. Virkilega gott lag þótt það veki ekki hjá mér eins miklar minningar og 'Talking in her sleep'.  Á eftir Palmer söng Derringer annan af sínum smellum, Rock and Roll Hoochie Koo, og skellti sér svo bein yfir í Eruption með svakalegu gítarsólói. Gítarinn hreinlega hljóðaði í næturkyrrðinni.

Ringo tók því næst gamla Bítlalagið 'Boys'. Ókei, það var ekki upphaflega Bítlalag. Það var fyrst sungið af The Shirelles, en Bítlarnir tóku það síðan upp og það kom út á fyrstu plötu þeirra, Please Please me. Áður en hann byrjaði með Bítlunum söng Ringo þetta lag með Rory Storm and the Hurricane og honum þykir greinilega enn vænt um lagið. Þegar hann kynnti það sagðist hann ætla að syngja lagið því honum þætti það gaman. 

Komið var að tveim síðustu lögum stjarnanna. Fyrst söng Wright 'Love is alive'  og síðan söng Ricard Page hitt Mr. Mister lagið sem varð vinsælt, 'Broken Wings'. Það var greinilegt að yngri mennirnir tveir Richard Page og Wally Palmer voru ekki eins þekktir og hinir því undirtektirnar við þeirra lögum voru ekki eins miklar og hjá hinum eldri. En kannski ekki skrítið. Tónleikagestir voru flestir komnir yfir fimmtugt og margir hverjir á sjötugsaldri. Þetta var að miklu leyti fólkið sem hefur fylgt Ringo frá upphafi. En þegar Romantics og Mr. Mister voru vinsæl þá voru þau væntanlega upptekin við að ala upp börn og hlusta á gamlar plötur frá sjöunda og áttunda áratugnum. 

Ringo sá um að ljúka tónleikunum og við tók syrpa af frábærum lögum. Fyrst 'Photograph', síðan 'Act Naturally', þá 'With a little help from my friends' og að lokum 'Give peace a chance'. 

Mér fannst vanta nokkur lög sem ég hefði gjarnan viljað heyra. Þar situr á toppnum lagið 'Goodnight Vienna' af samnefndri plötu. En ég hefði líka viljað heyra 'You're sixteen', 'Oh my my' og 'No no song'.  Og að sjálfsögðu hefði ég viljað heyra 'Octopus' garden' og 'Don't Pass me by'. Ó hvað gaman hefði verið að syngja með.

Almennt séð voru tónleikarnir frábærir og sá gamli hefur engu glatað. Hann spjallaði við tónleikagesti á milli laga og þóttist meira að segja gleyma sér á spjallinu. Eitt sinn sagði hann: "Ég veit ekki hverjir hafa meira gaman af þessu, þið eða ég." Stjörnurnar hans voru fjölbreyttar svona hver úr sinni áttinni og allt saman frábærir tónlistarmenn. Það kryddaði tónleikana að heyra svona margt skemmtilegt. Ég viðurkenni reyndar að ef ég hefði farið á Paul McCartney tónleika þá hefði ég ekki verið ánægð með að aðrir væru eitthvað að frekjast til að syngja, en á Ringo tónleikum er það allt í lagi því það var bara svo gaman að vera þarna. Þar að auki er ég vön því að hlusta á Ringo tromma á meðan aðrir syngja. 

Og það að tónleikarnir fóru fram undir beru lofti í fallegu umhverfi vínekrunnar sakaði ekki.

Ég get sagt með sanni að brosið í andliti mér fór ekki af mér allt kvöldið, nema að sjálfsögðu til að syngja með. 

Hér er myndband sem einhver tók upp á tónleikum fyrr í sumar. Eitthvað er reyndar að hljóðblöndun þarna í upphafi. En þetta er gott sambland af því sem þarna var boðið uppá:

 
P.S. Ég tók ekki myndirnar á síðunni. Myndavélar voru ekki leyfðar á svæðinu og ég vildi ekki taka sénsinn. Svo myndirnar á síðunni eru af netinu, teknar hér og þar, og engin þeirra á All Star tónleikum.

Sumarlög - ábendingar þegnar

Ég var að dunda mér við það í morgun að setja saman disk með sumarlögum. Hann er ekki tilbúinn. Öll lögin verða að hafa 'summer' í titlinum. Ég er ekki búin að ákveða endanlega hvaða lög verða á disknum, né röðina, nema hvað hann mun pottþétt hefjast á 'Summer in the city' sem er besta sumarlag allra tíma.Hér eru lögin sem ég er komin með.

1. Summer in the City - Lovin Spoonful
2. Hot summer nights - Meatloaf 
3. Summer loving - Grease
4. Here comes the sun - The Beatles
5. Summertime - Robbie Williams
6. Lazy Hazy days of summer - Nat King Cole
7. In the summer time - Mongo Jerry
8. Summer Jammin - Inner CIrcle
9. Sunny - Bony M
10. Summertime Blues - Eddie Cochran
11. Summer '79 - The Ataris
12. The boys of summer - Don Henley
13. Summer of 69 - Bryan Adams
14. Summer fades to fall - Faber Drive
15. Summer holiday - Chris Isaak
16. Summertime - Kenney Chesney
17. Unemployed in the summertime - Emiliana Torrini
18. Summer skin - Death Cab for Cutie
19. All summer long - Kid Rock
20. School's out for summer - Alice Cooper
21. Gold int he air of summer - Kings of convenience

Allar ábendingar um önnur góð sumarlög vel þegnar en munið að orðið 'summer' eða þá 'sumar' verður að vera í tilinum. Heyrðu, var ekki til lag með Ingimar Eydal kallað 'Sumarást'?

Ef þið hafið skoðun á hver af þessum lögum verða að vera á disknum og hverjum ég ætti að henda, þá eru slíkar ábendingar að sjálfsögðu þegnar líka.  Eins og er eru þetta of mörg lög svo ég verð að skera niður.


Um tónlist, hokkí og lærdóm

Í síðustu viku héldu Muse tónleika í Coliseum skautahöllinni hér í Vancouver. Ódýrustu miðar  voru rúmlega 60 dollarar sem eru tæplega áttaþúsund krónur.  Ég fór ekki að þessu sinni þótt mig hafi langað en þar sem ég er aftur orðin nemandi með enga peninga verð ég að passa aurana. Ástæða þess að ég minnist á þetta er aðallega sú að þessir tónleikar sýndu svo vel hvernig tímarnir hafa breyst. Muse hafa tvisvar áður komið til Vancouver síðan ég flutti hingað. Í bæði skiptin léku þeir á stað sem líkist meira stærri útgáfu af Sjallanum. Miðaverð var að minnsta kosti  helmingi lægra en það var nú og maður gat staðið alveg upp við sviðið  án þess að nokkrir verðir pössuðu upp á að fólk reyndi að komast að tónlistarmönnunum. Þá voru þeir orðnir geysilega frægir í Evrópu og spiluðu á fótboltavöllum, en hér í N-Ameríku voru þeir enn tiltölulega óþekktir. Ég naut góðs af því. En nú hafa N-Ameríkanar loksins skilið hversu miklir snillingar eru þarna á ferð og þeir geta loksins spilað í höllum.

Eagles munu spila hérna í vor og ég er að velta því fyrir mér að athuga hvort ég geti nælt mér í miða. En eins og ég sagði áður, verð aðeins að horfa í aurinn þannig að það er hugsanlegt að ég láti þetta tækifæri mér úr greipum ganga. Það er alltaf hægt að fara á tónleika hér og ef ég færi á  alla þá tónleika sem mig langar á þá væri ég gjaldþrota, jafnvel þótt ég hefði vinnu.

---

Að öðru. Liðið mitt í hokkí tryggði sér í fyrradag rétt til þess að spila í úrslitakeppninni og við erum aðeins einu stigi frá því að tryggja okkur Norðvestur titilinn. Það tryggir heimaréttinn sem er mjög mikilvægur ef leika þarf sjö leiki til að fá úrslit. Reyndar lítur út eins og er að við munum spila í fyrstu umferð gegn Detroit Redwings, sem eftir hæga byrjun hafa verið á siglingu undanfarið, þótt reyndar hafi þeir tapað gegn Nashville í gær. En það eru fjórar umferðir eftir svo margt getur breyst og annað lið gæti endað í sjötta sætinu, sætinu sem við munum að öllum líkindum leika gegn.  Ég ætla að vona að við komumst alla vega í aðra umferð og helst alla leið. Gallinn við Vancouver er að svo margir hafa verið meiddir, þar á meðal okkar besti varnarmaður, að enginn veit hvaða lið mun mæta á svæðið þegar pökkurinn fellur. Á góðum degi getum við unnið besta lið, en stundum er eins og allt hrynji og við töpum fyrir verstu liðum deildarinnar.

Fótboltinn fer líka að byrja hjá liði Teits Þórðarsonar, Vancouver Whitecaps. Einn vinur minn fékk nýlega vinnu sem blaðamannafulltrúi liðsins svo það er hugsanlegt að ég fari á fleiri leiki en ég hef á undanförnum árum, sérstaklega ef ég fæ góðan díl.

---

Ég er líka byrjuð að skrifa. Vann vel á fimmtudag og föstudag en tók svo frí að mestu frá skriftum í gær. Í dag ætla ég að reyna að gera eitthvað en hversu mikið það verður fer svolítið eftir því hver plön mín verða seinni partinn. Það er svolítið óljóst ennþá.


Aldrei sátt hvort eð er

Ég horfði ekki á Óskarinn. Nennti því ekki. Hafði sjónvarpið reyndar í gangi í um hálftíma en einhvern veginn er ég búin að fá leið á keppninni. Var kannski enn minna spennt í ár en oft því undanfarna mánuði hef ég ekki haft neinn tíma til að fara í bíó og þekkti því fæstar myndanna og hafði enga skoðun. Held að Inglorious Basterds hafi verið eina myndin af þessum helstu þarna sem ég hafði séð. Oftast er ég hvort eð er svo ósátt við valið að það er kannski eins gott að hafa enga skoðun. Þá verður maður ekki svekktur.

Annars er ég svekkt yfir því að þetta lag Paul McCartneys skuli ekki einu sinni hafa fengið tilnefningu:


mbl.is Bigelow stjarna kvöldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtileg tilviljun

Skemmtileg tilviljun að þessi frétt kemur núna því eftir nokkra klukkutíma mun ég einmitt sjá þá Bono og félaga stíga á svið BC Place íþróttahallarinnar í Vancouver. Ég er búin að vera að hlusta á síðustu tvær plöturnar þeirra undanfarna daga, svona til að undirbúa mig, og er komin að þeirri niðurstöðu að 'How to dismantle an Atomic Bomb' sé mun betri plata en 'No line on the horizon' þótt sú nýja sé ekki slæm. Ég held ég sé ekki ein um þá skoðun.

Segi ykkur meir frá tónleikunum síðar í vikunni.


mbl.is U2 með ókeypis tónleika í Berlín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

U2 og helgarvinna

Á miðvikudaginn fer ég á tónleika með U2. Ég hef sama og ekkert hlustað á þá síðan ég var unglingur og hlustaði á The Unforgettable Fire, Joshua Tree og Rattle and Hum. En þvílíkar plötur þetta voru. U2 var pottþétt með betri hljómsveitum á níunda áratugnum - en kannski ekki svo mikil samkeppni. Ótrúlega margt lélegt á þessum tíma. 'Eg veit ekki af hverju ég ætti að hlusta á það. Ætli smekkurinn hafi ekki breyst. Ég ætlaði heldur ekki að fara á þessa tónleika og keypti því ekki miða í vor þegar þeir komu í sölu, og svo sá ég alltaf eftir því. Ég meina, þetta er U2. Þannig að þegar mér bauðst í gær að fara með vinafólki þá greip ég tækifærið.

Ég er annars í vinnunni núna. Var að prófa nokkra af sjálfboðaliðunum okkar í tungumálum. Yfirleitt læt ég aðra sjálfboðaliða um prófin um helgar en get eingöngu gert það þegar prófin eru tekin í gegnum netið heiman frá. Sumir hafa ekki nógu hratt internet, eða þeir eiga ekki míkrófón og heyrnatól, og þurfa því að koma hingað á skrifstofuna til að taka prófið. Ég þarf sjálf að sjá um slík próf vegna öryggisatriða. Annars er gott að koma hingað um helgar. Næstum enginn er að vinna og maður kemur heilmiklu í verk. Ég tók doktorsritgerðina mína með mér og hef verið að dunda við hana á meðan sjálfboðaliðarnir taka prófið. Ég held ég verði hér eitthvað áfram og vinni meira í henni.

 


Hvaðan tónlistin kemur - Rowland Salley

Undanfarið hef ég mikið hlustað á tónlistarmanninn Rowland Salley sem helst er þekktur fyrir að vera bassaleikari Chris Isaak. Færri vita að hann er fantagóður lagasmiður. Lögin hans hafa sterkar rætur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, enda er Roly þaðan, og flokkast líklega sem þjóðlagarokk með kántrí og blúsívafi. Í textum sínum horfir hann heilmikið til æskuáranna við Mississippifljót og það er kannski ekki skrítið þegar maður les lýsingu hans sjálfs á því hvers vegna hann varð tónlistarmaður. Mér finnst þetta ein fallegasta lýsing sem ég hef lesið. Ég er of löt í kvöld til að þýða þetta:

One day when I was about five or six my ma and dad suddenly informed my sister and brother and me that we were going to take a drive. We were going south from our place in Northern Illinois to visit some people in a place called Louisiana. This was my first big road trip and it wound right down along the Mississippi river toward Shreveport. The friends had a house on the edge of a small town and there was a railroad that ran by about a half mile off in the open flatlands behind their place. One of the sweetest things I can recall from my earliest days happened one night on this trip. It was hours after supper and everyone was asleep in the house but me. I was still wide awake in my cot out on the upper porch looking at the stars when a train came along, slow and easy. I listened to the thing approach...feeling that the sound it was making was multiplying the size of the world around both me and it, with no apparent limit. This was completely fantastic to me. Then this train did something chilling. Over the rhythm of its huge mechanical self it let out a long combination of deep whistle notes...a chord in fact. This sound rolled through the wide open night and seemed to hold and to offer me everything that you could possibly want or need...and it set my life to music. It’s amazing how this man-made thing of steel forged for commerce can be such a musical phenomenon... that it is. When I write songs I try to make them do what that whistle did to me that night.


P.S. Myndin hér á síðunni er vatnslitamynd eftir Rowland Salley - af járnbraut. Þessi mynd skreytti m.a. sólóplötu hans.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband