Sitt lítið um tónleika

Það er alltaf gaman að fara á tónleika þótt maður upplifi þá á mismunandi hátt.Best er auðvitað þegar maður fer á tónleika með tónlistarmönnum sem maður hreinlega elskar af öllu hjarta. Hjá mér eru Paul McCartney einu tónleikarnir sem falla í þann flokk, en sem betur fer hef ég séð hann tvisvar svo ég get alla vega sett tvær færslur í flokkinn. Þegar ég sá Paul í fyrsta sinn þá hreinlega grét ég. Ég var svo hrærð yfir því að ég skyldi fá þetta tækifæri að sjá goðsögnina á sviði. Ég grét reyndar ekki fyrr en í þriðja lagi því í fyrstu tveim lögunum var ég ekki enn farin að trúa því að ég væri þarna og að þetta væri Paul fyrir framan mig á sviðinu. En svo opnuðust flóðgáttirnar og héldust opnar í ein þrjú lög þar á eftir áður en ég jafnaði mig og fór að dansa með hinum.

Stundum er tónlistin bara hluti af tónleikunum. Sviðið, ljósasjóið o.s.frv. spilar næstum jafnmikinn þátt. Þannig voru t.d. U2 tónleikarnir sem ég sá í fyrra, Rolling Stones tónleikarnir að sumu leyti, og pottþétt Creed tónleikarnir sem ég fór á fyrir einum átta árum.

Aðrir tónleikar eru magnaðir af því að þeir fara fram í litlu rými þar sem maður er nálægt tónlistarmönnunum og tónlistin hreinlega umlykur mann. Ég sá t.d. bæði Muse og Travis á tiltölulega litlum stöðum því þeir voru ekki orðnir nógu stórir í N-Ameríku til að fylla stærri staði. Þá voru þeir að spila á leikvöngum í Evrópu. Sá líka Default þegar þeir voru rétt að verða frægir þar sem þeir spiluðu í hálfgerðri hlöðu í Fargo. Og ég myndi líka setja Godsmack og Alice in chains tónleikana undir þann hatt.

Svo eru það tónleikarnir sem koma manni á óvart af því að maður bjóst kannski ekki við miklu. Það gerist sjaldan reyndar því ég fer vanalega ekki á tónleika nema mig langi virkilega, en annað árið mitt í Kanada keypti minn þáverandi miða á tónleika með The Guess Who, sem voru gríðarlega vinsælir í Kanada á sjöunda og áttunda áratugnum (aðalsprautan var Randy Bachman sem síðar stofnaði Bachman Turner Overdrive eða BTO). Ég hafði heyrt eitt eða tvö lög með þeim og fannst þau þokkaleg en ekkert sérstök. Hljómsveitin var hins vegar frá Winnipeg svo Tim fannst við endilega verða að fara. Og ég sé ekki eftir því. Gömlu mennirnir voru hreint magnaðir og krafturinn í American Woman var ótrúlegur.

Af og til kemur fyrir að tónleikarnir valda manni vonbrigðum því manni finnst að maður gæti allt eins hafa setið heima og hlustað á plötuna. Þannig leið mér m.a. þegar ég sá Maroon5 fyrir nokkrum árum. Það var einmitt þegar 'This love' var vinsælt með þeim en einhvern veginn var ekkert gaman á tónleikunum.Ég varð líka svolítið svekkt yfir tónleikunum með Death cab for cutie. Mér finnst bandið æðisleg en tónleikarnir bættu eiginlega engu við.

Og svo eru það tónleikarnir sem maður getur séð aftur og aftur af því að maður veit aldrei hvað gerist næst eða hvað dettur upp úr tónlistarmönnunum. Þannig eru tónleikar með Chris Isaak. Hrein gleði tónleikana út í gegn. Chris er án efa með fyndnari tónlistarmönnum og það er hrein unun að hlusta á hann á milli laga. Og bandið hans, The Silvertones, tekur sig ekki mjög alvarlega svo þeir eru alltaf til í að grínast og sprella.  En af því að ég fór einmitt að tónleika með Chris í kvöld þá ætla ég að segja ykkur nánar frá þeim í annarri færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband