Færsluflokkur: Tónlist
Rolling Stones verða aldrei þreyttir
26.11.2006 | 23:28
Nú finnst mér ég búin að sjá allar hljómsveitir sem ég verð að sjá. Sá Stones í gær. Frábærir eins og búast mátti við.
Ég var komin að BC place um það leytið sem upphitunaratriðið (Bonnie Raitt) átti að byrja og stóð í röð fyrir utan þegar hún steig á svið. Það tók langan tíma að komast inn því það þurfti að leyta á þúsundum manna. Og það snjóaði. Leiðindakerlingar fyrir aftan mig í röðinni voru að kvarta yfir snjókomunni en ég var guðslifandi fegin að það snjóaði í stað þess að það rigndi. Má ég nú frekar biðja um snjó en rigningu. Kanadamenn stóðu kurteisir í röðinni að venju og lítið var um troðning. Ég komst loksins inn og fór þá í næstu röð - að kaupa stuttermabol á uppsprengdu verði. Eftir það hefði ég getað farið í næstu röð til að fá eitthvað að drekka en ég nennti því ekki og keypti mér því frostpinna í staðinn. Gat það án þess að fara í röð því ekki margir vildu kaupa frostpinna þegar bjór var í boði.
Þegar ég komst loksins í sætið mitt var Bonnie Raitt búin með sitt prógram (sem þó tók 50 mínútur) og ég settist við hliðina á fullri kerlingu á sínum fyrstu tónleikum sem vissi greinilega ekki mikið um Stones því hún talaði alltaf um þá sem 'hann'. Þegar ég spurði hvaða 'hann' hún ætti við varð hún voða hneyksluð á mér og sagði: 'Nú, hann sem við komum til að sjá!' Ég spurði hvort hún ætti við Jagger og hún sagði 'já', ennþá hneyksluð á vitleysunni í mér. Ég sagðist nú vera allt eins hrifin af Richards og hún spurði hver það væri. Ég reyndi að vera mjög upptekin við að horfa yfir svæðið svo hún talaði ekki meira við mig. Sérstaklega eftir að hún fór að tala um að Bonnie Raitt hafi verið 'niðurspiluð' svo hún skyggði ekki á 'hann'. Mér þótti það ólíklegt en hún gaf sig ekki.
Tónleikarinir fóru fram á BC place eins og ég sagði áður og er það fótboltahöll BC ljónanna sem unnu Stanley bikarinn (Kanadameistaratitilinn) fyrir aðeins örfáum dögum. Eftir því sem sagt var í blöðunum í morgun voru 51.000 manns á tónleikunum.
Eftir langa bið var húsið myrkrað. Klukkan var tíu mínútur í níu og Stones komu á sviðið spilandi 'Jumping Jack Flash'. Ég veit ekki hvort það voru léleg hljómgæði eða hvort þeir breyttu útsetningunni en ég fattaði ekki strax hvað þeir voru að spila. Þaðan fóru þeir í 'It's Only rock and roll' og síðan streymdu lögin frá þeim, flest velkunn. Þeir tóku ein tvö lög af nýju plötunni en annars voru þetta meira og minna standardar. Eftir flotta útgáfu af 'She was hot', steig Bonnie Raitt á svið og tók 'Shine a light' með Jagger. Eftir átta lög kynnti Jagger hljómsveitina og þá sem spiluðu með þeim og fór svo af sviðinu. Á meðan tók Keith þrjú lög. Mér fannst hápunkturinn 'Slipping away' frá 'Vodoo lounge' en ég las annars staðar að sumum fannst toppurinn vera 'Connection'.
Jagger kom til baka og þeir tóku 'Miss you' og sviðið fór allt í einu að hreyfast og pallurinn sem þeir stóðu á var keyrður niður eftir höllinni inn á milli fólksins þar sem þeir sungu 'Get off my cloud' og toppinn á kvöldinu 'Start me up'. Þar á eftir kom 'Honkey tonk woman' og á meðan það var spilað var pallurinn þeirra dreginn til baka (eða var það á meðan þeir spiluðu 'Sympathy for the devil'?) Þar á eftir kom Paint it black og var ótrúlega flott. Í upphafi steig Richards fram á sviðið og kastljósið á honum. Þar spilaði hann upphafstónana og allt varð vitlaust. Því miður gat ég ekki séð endann á laginu þótt ég hafi heyrt hann. Ég hafði staðið í einum gangveginum uppi á fjórðu hæð vegna þess að ég gat ekki setið (fótboltaslys fyrr um daginn - get ekki beygt hnéð) og í miðju lagi vorum við sem stóðum þar rekin í burtu af öryggisvörðum. ég veit ekki hvað var að en lögreglan var mætt á svæðið og þeir voru að skipta sér af einhverjum. Kannski var búist við ólátum (sem ekki urðu).
Þar á eftir skelltu þeir sér í 'Brown sugar' en ég gat lítið séð af því vegna þess að ég gat ekki staðið neins staðar annars staðar því allt var fullt af fólki, og ég gat ekki farið í sætið mitt því ég gat ekki setið. Svo ég ákvað að fara bara að haltra mér af stað. Liðnir voru tveir tímar og þetta hlaut því að vera búið bráðum. Ég vissi að ég myndi missa af einhverju góðu því hljómsveitir enda alltaf á topplögum en ég var búin að vera í fótunum enda búin að standa á öðrum fæti í tvo tíma, og ég átti eftir langa göngu að strætó. Ég vissi því ekki fyrr en ég kom heim að uppklappslögin voru 'You can't always get what you want' og , því miður 'Satisfaction'. Mikið hefði ég viljað sjá Satisfaction.
Almennt séð voru tónleikarnir stórkostlegir. Ég þekkti flest lögin, sjóið var flott, sviðið var ótrúlegt (á hæð við átta hæða hús) og þeir gáfu aldrei eftir.Hins vegar var hljóðið slæmt. Ég hef heyrt það áður um tónleika í BC place; höllin er einfaldlega of stór og of hátt til lofts. Mér fannst ég aldrei fá þessa tilfinningu þegar hljóðið fyllir allt. En Guð minn góður, Mick Jagger er í ótrúlegu formi. Hann er kominn yfir sextugt og hann hoppar um sviðið í rúma tvo klukkutíma. Og hver sem er gæti verið stoltur af magavöðvunum. En hvað ætli hann hafi skipt oft um föt?
Stones blífa.
En þó ég eigi hættu á að reita Stones aðdáendur til reiði verð ég samt að segja að þessi lífsreynsla stenst engan veginn samanburð við Paul McCartney tónleikana tvenna sem ég hef séð. Og þá er ég ekki að segja að Paul hafi verið betri (þótt hljóðið hafi reyndar verið mun betra - minni höll), heldur skiptir það svo miklu máli hvaða tilfinningar maður ber til viðkomandi. Mér finnst Stones frábærir. Þeir hafa samið ótrúlegan fjölda af frábærum lögum og ég mun aldrei efast um hæfileika þeirra. En þótt ég hafi haft nógan áhuga á þeim til að lesa um þá bækur o.s.frv. hef ég aldrei verið heltekin. Mér finnst þeir frábærir og ég er aðdáandi að einmitt því leyti að ég elska tónlistina þeirra en ég er ekki aðdáandi að sama leyti og ég er aðdáandi Bítlanna og Pauls. Þess vegna var það hreinlega miklu viðkvæmari stund þegar ég sá Paul. Ég var búin að elska hann frá því ég var tíu ára, dreyma um að sjá hann á tónleikum. Þegar ég sá hann því fyrst 2002 var að rætast minn elsti draumur. Og það er erfitt að jafna það.
Nú er ég búin að sjá Paul, Rolling Stones, og ég sá Creed áður en þeir hættu. Af núlifandi hljómlistamönnum er því enginn sem ég þarf nauðsynlega að sjá. Og það er gott því það er dýrt að fara á tónleika. Ég vildi gjarnan geta séð Clapton þegar hann kemur hér seinna í vetur en ég er ekki viss um að ég hafi efni á því. Við sjáum til.
Ljósmyndir úr Vancouver Sun
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bítlaaðdáendur kætast
20.11.2006 | 08:03
Þrátt fyrir að það séu 36 ár síðan Bítlarnir hættu er enn að koma út nýtt efni með þessari bestu hljómsveit allra tíma. Mér skilst reyndar að ekki séu allir jafn sáttir við að farið hafi verið að krukka í gömlu lögin en ég er búin að hlusta aðeins á nýja diskinn og sýnist mér að George gamli Martin (og sonur hans) hafi gert ótrúlega hluti hér. Þvílík hljómgæði. Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að hreinsa gömlu upptökurnar svona til. Og samblandan á lögunum er flott.
En þið skulið ekkert vera að lesa það sem ég er að skrifa. Farið heldur og hlustið sjálf á plötuna. Það er hægt að gera hér: http://www.thebeatles.com/hearlove/
Þarna er líka hægt að senda kort. Ég er búin að vera að senda út og suður til allra Bítlaaðdáenda sem ég þekki.
Og komið svo endilega aftur hingað og segið mér hvað ykkur finnst.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)