Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Breyttar áherslur við krabbameinsskoðun

Ég sá athyglisverða frétt í sjónvarpinu áðan. Kanadíska krabbameinsfélagið hefur sent út þau skilaboð til kvenna að mánaðarleg sjálfsskoðun sé ekki sérlega gagnleg og aðalatriðið sé fyrir konur að þekkja brjóst sín vel. Ég segi nú að ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig við eigum að þekkja brjóstin án þess að skoða þau reglulega. Og af því að ég skil þetta ekki almennilega þá hvet ég ykkur til þess að lesa greinina sjálf. Hana má finna á vef CBC hérna. Kannski þið náið þessu betur en ég.

Veðurspár

Íslenskir veðurfræðingar eru alveg ótrúlega sannspáir miðað við norður ameríska kollega þeirra. Veðuspáin í Vancouver Sun fyrir þriðjudaginn er 27 gráður, Vancouver weather page segir 24 gráður, Find local weather segir 32 gráður og Google weather segir 35 gráður. Það er sem sagt ellefu stiga munur á þeim sem spá heitustu veðri og þeim sem spá köldustu. Og hverjum á ég að trúa? Allir eru reyndar sammála um að það verði sól þannig að ég get vísast treyst á gott veður, hversu heitt svo sem verður.

Ungbörn og tungumál

Nýleg doktorsrannsókn við Háskólann í Bresku Kólumbíu hefur sýnt fram á að ungabörn geta aðgreint hvort franska eða enska er töluð jafnvel þótt þau geti ekki heyrt neitt. Rannsóknin fór þannig fram að börnunum var sýnt myndband af fólki að tala. Skrúfað var fyrir hljóðið þannig að börnin gátu ekki heyrt tungumálið, aðeins séð andlitið á fólkinu. Textinn var Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry. Textinn var fyrst lesinn á ensku og þegar barnið virtist hafa misst áhugann skipti lesandinn yfir í frönsku. Lagt var upp með þá kenningu að ef börnin gætu greint á milli tungumála þá myndu þau aftur fá áhuga þegar skipt væri yfir í frönskuna. Þetta gekk eftir hjá yngstu börnunum sem byrjuðu aftur að horfa á skjáinn með áhuga þegar skipt var um tungumál en þetta virtist engin áhrif hafa á átta mánaða gömlu börnin, nema þau börn sem komu frá tvítyngdu heimili. Þau virtust geta greint á milli tungumála rétt eins og yngstu börnin. 

Ég hef lesið margar skýrslur um ungbörn og tungumál og það er alltaf ótrúlega spennandi. Einu sinni las ég t.d. grein þar sem því var haldið fram að öll börn notuðu sitt eigið táknmál strax frá fæðingu. Þau kreppa hnefann eða teygja úr fingrunum eftir því hvað það er sem þau vilja. Fjöldi barna var rannsakaður (frá  þriggja daga gömlum börnum) og þau virtust alltaf nota sama fingramálið. Skrítið.


Mikilvæg uppgötvun tengd brjóstakrabba

Vísindamenn við UBC (skólann minn) hafa nýverið gert mikilvæga uppgötvun sem tengist meinvörpum úr brjóstakrabba. Í ljós hefur komið að í öllum æxlum brjóstakrabba sem dreifa sér til annarra líkamshluta er ákveðið prótein á yfirborðinu. Talið er að þetta prótein sé valdurinn að því að krabbinn dreifir sér og því er nú hægt að einbeita sér að því að finna lyf sem ræðst sérstaklega á þetta prótein. Lyfið myndi þá annað hvort eyða próteininu eða nota það sem nokkurs konar ekkeri til þess að drepa krabbann sjálfan. Þar sem ég er enginn læknir eða líffræðingur ætla ég bara að vísa ykkur á greinar þar sem þið getið sjálf lesið meira um þetta:

Greinin úr The Vancouver Sun.

Grein af vef UBC.


Þið verðið að sjá þetta

Hafið þið heyrt um McGurk áhrifin? Alveg ótrúleg sjónblekking. Sýnir með óyggjandi hætti hversu mikið við notum sjónina við að hlusta á aðra; þ.e. við notum varalestur.

Ég ákvað að búa til mína eigin McGurk mynd. Hér er það sem þið þurfið að gera. Horfið á mig tala og myndið ykkur skoðun á því sem ég segi. Þegar þið eruð viss um hvað það er sem ég er að segja, lokið þá augunum og hlustið á mig án þess að horfa á mig. Segi ég enn það sama?


 

Ég vona að mér hafi tekist að klippa þetta nógu vel saman til að þið getið séð áhrifin. Hvað er í gangi? Jú, ég tók upp á vídeó sjálfa mig segjandi annars vegar 'map' og hins vegar 'tap'. Síðan setti ég hljóðið frá 'map' yfir myndina af 'tap'. Útkoman verður því samblanda af báðu. Þið heyrið 'map' en sjáið mig segja 'tap'. Það sem gerist í heila ykkar er að þið treystið hljóðinu í því að þið heyrið nefhljóð en þið treystið sjóninni með það hvar hljóðið er myndað. Og af því að þegar ég segi 't' þá er tungan og kjálkinn í sömu stöðu og þegar ég segi 'n' og þess vegna haldið þið að ég sé að segja 'n' en ekki 'm'. 'm' er jú myndað með því að loka vörunum. Þetta þýðir að ef þið hélduð að ég væri að segja 'nap' en ekki 'map' þá voruð þið að lesa af vörum mínum. Það fyndna við þetta er að þetta breytist ekkert þótt þið vitið hvað ég er að segja. Þegar ég horfi á þetta sjálf finnst mér ég vera að segja 'nap' jafnvel þótt ég hafi sjálf tekið þetta upp og þótt ég viti að ég sagði aldrei 'nap'. Eingöngu 'map' og 'tap'. Skemmilegt? Svona getur hljóðfræði verið athyglisverð.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband