Ungbörn og tungumál

Nýleg doktorsrannsókn við Háskólann í Bresku Kólumbíu hefur sýnt fram á að ungabörn geta aðgreint hvort franska eða enska er töluð jafnvel þótt þau geti ekki heyrt neitt. Rannsóknin fór þannig fram að börnunum var sýnt myndband af fólki að tala. Skrúfað var fyrir hljóðið þannig að börnin gátu ekki heyrt tungumálið, aðeins séð andlitið á fólkinu. Textinn var Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry. Textinn var fyrst lesinn á ensku og þegar barnið virtist hafa misst áhugann skipti lesandinn yfir í frönsku. Lagt var upp með þá kenningu að ef börnin gætu greint á milli tungumála þá myndu þau aftur fá áhuga þegar skipt væri yfir í frönskuna. Þetta gekk eftir hjá yngstu börnunum sem byrjuðu aftur að horfa á skjáinn með áhuga þegar skipt var um tungumál en þetta virtist engin áhrif hafa á átta mánaða gömlu börnin, nema þau börn sem komu frá tvítyngdu heimili. Þau virtust geta greint á milli tungumála rétt eins og yngstu börnin. 

Ég hef lesið margar skýrslur um ungbörn og tungumál og það er alltaf ótrúlega spennandi. Einu sinni las ég t.d. grein þar sem því var haldið fram að öll börn notuðu sitt eigið táknmál strax frá fæðingu. Þau kreppa hnefann eða teygja úr fingrunum eftir því hvað það er sem þau vilja. Fjöldi barna var rannsakaður (frá  þriggja daga gömlum börnum) og þau virtust alltaf nota sama fingramálið. Skrítið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband