Færsluflokkur: Bækur

Er að lesa Karitas án titils

Í dag datt ég í það að lesa Karitas án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur og þessi bók er algjör snilld (eins og mér hafði verið sagt). Ég náði loks að rífa mig frá bókinni af því að ég var orðin svöng og nú er ég að hugsa um að reyna að vinna eitthvað áður en ég leyfi mér að lesa meira því ef ég byrja að lesa aftur verður ekkert úr lærdómnum í dag. Og þótt nú sé jólavikan þá fær maður svo sem aldrei frí frá ritgerðasmíð - fyrr en ritgerðin er búin. En Karitas freistar. Það er spurning hvort lestur eða skriftir vinna stríðið.

Vantar hjálp frá bókmenntaáhugamönnum

Mörg ykkar kannast eflaust við þetta fallega ljóð Hallgíms Péturssonar Nú vil ég enn í nafni þínu. The Vancouver Chamber Choir er að fara að syngja þetta á tónleikum og bað mig um að hjálpa sér við textann og eins að kíkja á hvort lausleg þýðingin væri rétt. Gallinn er hins vegar að ég er ekki alveg viss um hvað síðasta erindið þýðir. Er einhver góður í þessu sem getur hjálpað  mér?

Nú vil ég enn í nafni þínu
náðugi Guð sem léttir pínu           <- á þetta ekki örugglega að vera pínu?
mér að minni hvílu hallað                 Það var þínu í textanum sem ég fékk
og heiðra þig fyrir gæsku alla.           en í ensku þýðingunni virðast þeir
                                                       halda mínu.

Þáða&#39; af þér á þessum degi,
því er skylt ég gleymi eigi;
en ég má það aumur játa,
angri vafinn sýta&#39; og gráta.

Móðgað hef ég margfaldlega
mildi þína guðdómlega.
útslétt mínar syndir svartar,
sundur kramið lækna hjarta.

 

Hin lauslega þýðing sem einhver gerði hljómar svona (hún á ekki að hljóma sem ljóð, bara svo söngvararnir viti hvað  þetta þýðir):

Now I want in your name
dearest God who lightens mine        < ég held að &#39;eases pain&#39; væri betra út af &#39;pínu&#39;
to lay me down to rest again
I honor you for all your kindness.

I accepted you on this day
and promise never to  forget you
but dear me, I must confess I am
surrounded by worries, sadness and crying.

Many times I have offended
your divine mercy.
My sins are black
and my  heart is black.

Mér finnst síðasti hlutinn á þýðingunni lengst frá merkingunni en hvað segir í ljóðinu? Eina merkingin yfir útslétta sem ég þekki er sú að jafna. Getur varla verið sú merkingin hér. Og er merkingin í síðustu línunni að lækna sundurkramið hjarta? Er það þá Guð sem gerir það?

Það er ekki furða þótt ég hafi valið málfræðina yfir bókmenntirnar á sínum tíma. Hef ekkert gaman af því að rýna í svona torf. 

Þigg hjálp.


Búin með Potter

Ég las inn í nóttina og laust fyrir klukkan þrjú náði ég að klára sjöundu bókina í Harry Potter seríunni. Fjögur hundruð blaðsíður voru lagðar af velli í dag, sem var tvöfalt meira en ég las í gær. Það er langt síðan ég hef lesið eins margar blaðsíður á eins stuttum tíma.

Núna veit ég öll leyndarmálin! 


Ævintýri næturinnar

Eina mínútu eftir miðnætti í gær labbaði ég út í myrkrið til þess að sækja nýjustu Harry Potter bókina. Sem betur fer var hætt að rigna en það hefði þó ekki skipt miklu máli því ég var í regnkápu og með regnhlíf ef ske kynni að úrhellið hæfist á ný.

Sex mínútur yfir tólf var  ég komin í langa röð í bókabúðinni en af því að flestir höfðu keypt bókina í forsölu alveg skotgekk þetta og tólf mínútum yfir tólf var ég því komin með bókina í hendur. Það var svo sem ekki allt. Í pokanum sem ég fékk var líka örk með límmiðum af öllum bókarkápunum hingað til, pappír til að setja á hurðarhúninn á herbergi manns með colloportis galdri (this spell will magically lock a door, precenting it from being opened), límmiða með eldingarörinu hans Potters (sem maður getur væntanlega sett á sjálfan sig) svo og bókarmerki. Einnig vær hægt að grípa með sér veggspjald en þar sem ég var nokkuð viss um að ég myndi ekki setja Harry Potter veggspjald upp heima hjá mér þá lét ég það vera.

Um hálfeitt leytið skreið ég undir sæng með bókina í hönd (eftir að hafa drepið tvær moskítur) og hóf lesturinn. Á blaðsíðu númer tvö voru augun farin að límast saman en ég var svo þrá að ég komst í gegnum fyrsta kaflann áður en ég lokaði bókinni. Ég held ég hafi ekki náð að hugsa heila hugsun til enda áður en ég var sofnuð.

Vaknaði reyndar um klukkutíma seinna við það að moskíta var að fljúga við höfuðið á mér og íhugaði þá að halda áfram að lesa en ákvað að ég myndi varla komast niður eina blaðsíðu svo ég hallaði mér bara aftur á koddann.

Nú er ég rétt skriðin á fætur, ætla að næra mig og fara svo á vit galdramanna og norna. 


mbl.is Harry Potter rokselst um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er ekki í röð

Eftir tvo tíma hefst sala á Harry Potter hér í Vancouver og ég sit fyrir framan tölvuna en ekki neins staðar í biðröð. Enda er mígandi rigning og það getur varla verið gaman fyrir neinn að hanga fyrir utan bókabúð í þessu úrhelli. Það er annars athyglisvert að á Íslandi hófst sala bókarinnar klukkan ellefu, á miðnætti þeirra í London, en alls staðar annars staðar er haldið í það að hefja ekki sölu fyrr en á miðnætti. Við hefðum í raun getað farið að selja bókina fyrir sex klukkutímum en kannski hefur sölumönnum ekki þótt það eins spennandi eins og að halda sig við miðnætursöluna. Það var reyndar búið að skipuleggja heilmikið Harry Potter partý fyrir börnin í VanDusen garðinum í Vancouver og margar bókabúðir voru einnig með húllumhæ á dagskrá.

Ég hugsa nú að ég lalli út í bókabúð á miðnætti enda tekur það mig ekki nema um sjö mínútur eða svo að ganga þangað. Efast samt um að ég lesi mikið í nótt. Einu sinni gat ég lesið á kvöldin (og næturnar) en það virðist vera einn af þeim hæfileikum sem ég hef misst með árunum. Nú les ég þrjár blaðsíður og sofna svo. Hef það frá mömmu - hún getur aldrei lesið í rúminu.

Var annars að velta því fyrir mér hversu langur tími líður á milli þess að þeir sem mættu í raðir snemma í dag, eða jafnvel í gær, fengu bókina í hendur og hinir sem mættu bara á svæðið á miðnætti (eða klukkan ellefu heima á Íslandi). Fimmtán mínútur? Hálftími? 


mbl.is Biðin á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shel Silverstein var snillingur

Einn skemmtilegasti barnabókarhöfundur Bandaríkjamanna var án efa Shel Silverstein sem var alveg jafngóður og Dr. Seuss og jafnvel betri. Hann skrifaði aðallega ljóð fyrir börn og þótt ég sé orðin aðeins eldri en börn þykir mér ákaflega gaman að lesa ljóðin hans (og skoða teikningarnar sem með fylgja). Ég valdi þetta ljóð sérstaklega fyrir Dodda og þau hin á Amtinu á Akureyri.

OVERDUES

What do I do?
What do I do?
This library book is 42
Years overdue.
I admit that it&#39;s mine
But I can&#39;t pay the fine—
Should I turn it in
Or hide it again?
What do I do?
What do I do?

Seinna ætla ég að segja ykkur frá bókinni hans: Uncle Shelby&#39;s ABZ book.


Nýjar bækur

Í dag fékk ég þrjár nýjar bækur. Það var reyndar bara tilviljun því ég fékk tvær í póstinum en eina þurfti ég að kaupa sjálf. Þeir sem hafa gaman af hugvísindum hafa kannski áhuga á að heyra um þessar bækur en aðrir geta hlíft sér við lesturinn.

Í póstinum upp í skóla fékk ég bókina North American Icelandic eftir Birnu Arnbjörnsdóttur. Bókin er gefin út af mínum gamla skóla, Manitóbaháskóla og ég hef verið beðin um að skrifa ritdóm um þessa bók fyrir AASSC (The Association of the Advancement of Scandinavian Studies in Canada). Ég hef áður lesið doktorsritgerðina hennar Birnu sem þessi bók byggir á að hluta.  Auk þess hef ég sjálf skrifað nokkuð um íslensku eins og hún er töluð í Kanada og safnað heilmiklu af efni. Þannig að þetta ætti að vera skemmtilegur lestur. 

Heim fékk ég svo sent nýjasta heftið af Canadian Journal of Linguistics. Þetta heft er helgað kanadískri ensku og virðist hafa margar spennandi greinar. Ég sá einmitt nýlega sjónvarpsþátt um enska tungu eins og hún er töluð í Kanada og þar var ýmislegt sem ég vissi ekki. Ég hlakka til að lesa þetta hefti.

Eina bókin sem ég keypti var The Logic Book eftir Bergmann, Moor og Nelson. Þetta er kennslubók í rökfræði en í brjálæði mínu ákvað ég að heimsækja heimspekideildina og læra svolitla rökfræði. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að ég muni ekki læra neitt gagnlegt. Ég held ég hafi skrifað um þetta áður en í svona kúrsi er fyrst og fremst unnið með setningarökfræði og umsagnarökfræði. Slík grunnrökfræði gagnast hins vegar merkingarfræðingum takmarkað þannig að ég veit ekki hvort ég læri eitthvað gagnlegt. ég er hrædd um að fyrst muni ég kunna allt, og svo, þegar farið verður í sannanir og þvíumlíkt, kunni ég ekki neitt, en ég þarf heldur ekki að kunna það fyrir málfræði. Ég hef áhuga á rökfræði sem tæki fyrir mig í málrannsóknum en hef takmarkaðan áhuga á rökfræði rökfræðinnar vegna. Þess vegna hef ég lítinn áhuga á sönnunum. En alla vega, keypti þessi bók sem kennd verður í tímanum og þurfti að borga óhugnarlega mikið fyrir hana. Það er eins gott að það sé þess virði.

En af því að ég er að tala um bækur. Ég er núna að lesa bók sem heitir Blackfly season og er eftir kanadíska höfundinn Giles Blunt. Þetta er spennusaga sem gerist í smáborg í norður Ontario. Ég hef býsna gaman af henni.


Konungsbók

Ég fék tvær bækur eftir Arnald í jólagjöf. Bókina frá því í fyrra (sem ég fékk í kilju og ætla því að taka með mér út og lesa þar, svona til að halda íslenskunni) og Konungsbók. Byrjaði á Konungsbók enda stór og þung bók og ég vil ekki taka hana með mér út því ég verð ábyggilega með allt of mikinn farangur. Enda mun ég varla lesa hana aftur í bráð og get því vel geymt hana hér hjá búslóðinni minni sem er niðri í kjallara hjá mömmu og pabba á meðan ég er í útlegð.

En aftur að Konungsbók. Ég var mjög spennt fyrir bókinni þar sem ég lærði nú einhvern tímann eitthvað í handritalestri og efnið höfðaði því vel til mín. &#39;Eg hafði líka nokkuð gaman af bókinni. Hún er ágætlega skrifuð og flettan er áhugaverð þótt ég verði að segja að mér finnst hún standa nokkuð að baki Erlendsbókum Arnalds, sérstaklega hinum nýrri. Einhvern veginn náði hún aldrei sama flugi og til dæmis Mýrin og Röddin gerðu. Ég veit eiginlega ekki af hverju. Kannski af því að mér fannst alltaf eins og bókin væri skrifuð í gömlum stíl (eins og hjá höfundum sem voru að skrifa um og eftir aldamótin 1900). Ég er alls ekki viss um að Arnaldur hafi verið að reyna að láta bókina hljóma gamla en það var samt þessi bragur á henni. Sem passaði auðvitað ekki við bókina þar sem hún átti bara að gerast fyrir fimmtíu eða sextíu árum. Annars get ég eiginlega ekki fett fingur út í neitt sérstakt, mér bara fannst hún ekki alveg eins sterk og margar aðrar bækur Arnalds. 

En ef einhver les þessa síðu sem er Arnaldsaðdándi og er búinn að lesa allar bækurnar hans og vantar eitthvað meira í sama dúr þá mæli ég eindregið með bókunum eftir Henning Mankell. Frábær sænskur rithöfundur sem ég veit að hefur verið eitthvað þýddur á íslensku.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband