Færsluflokkur: Íþróttir

Mikill fótboltadagur

Í gær voru tveir fótboltaleikir hjá mér - annan spilaði ég, hinn horfði ég á.

Klukkan eitt spiluðum við stelpurnar í Presto við Cocquitlam United, lið sem við höfðum aldrei spilað við og þekktum ekki. Við vissum líka lítið um þær því tveim af þrem leikjum þeirra hefur verið fresta hingað til svo við vissum aðeins um úrslits eins leiks. Þar töpuðu þær 2-1 fyrir liði sem við unnum 3-2 í síðustu viku. Reyndar var niðurstaðan 3-2 ekki lýsandi því við hefðum átt að vinna þann leik stærra. En alla vega, þetta gaf okkur traust á að við ættum að geta unnið þetta lið, en við töluðum um að passa okkur samt á vanmati.

Við stelpurnar spiluðum þennan leik frábærlega. Enginn veikur punktur var sjáanlegur. Og við uppskárum fljótlega. Siobhan skoraði fyrstu tvö mörkin með því að stinga af varnarmenn sína. Annað markið skoraði Adrienne eftir góða hornspyrnu frá mér. Sjálf skoraði ég fjórða markið eftir aukaspyrnu frá Adrienne. Vörnin ýtti öllum alltof hátt upp. Heimskulegt af þeim því þær hefðu átt að vera búnar að sjá að bæði ég og Siobhan vorum hraðari en þeirra varnarmenn og því ekki gáfulegt að gefa svona stórt autt svæði. Adrienne setti boltann bara á milli varnarmanna og markmanns og ég hljóp hraðar en vörnin og átti því auðvelt með að komast fyrst að boltanum. Reyndar hélt markmaðurinn að hún ætti séns á að komast þangað fyrst og hljóp út en ég náði boltanum, lék á markmann og skaut í autt netið. Ég átti líka stoðsendinguna í fimmta markinu. Hljóp upp hægri kant, alveg upp að endalínu, sendi boltann fyrir markið, hitti Lucy, varnarmaður reyndi að  losna við boltann en hann endaði í markinu.

Staðan var 5-0 í hálfleik og dómarinn stakk upp á að sjá hversu lengi við gætum verið með boltann án þess að skora. Í fjórðu deild þykir ekki skemmtilegt að valta alveg yfir hitt liðið. Sérstaklega vegna þess að reglurnar eru þannig að ekki má skrá meira en fimm marka sigur hvort eð er. Svo við reyndum þetta. En svei mér þá, það er erfiðara að reyna að skora ekki en að reyna að skora, þegar hitt liðið spilar ekki vel. Við skoruðum óvart tvö eftir þetta. Fyrra markið kom úr hornspyrnu frá Adrienne. Hún sendi háan bolta fyrir markið, boltinn hitt Lucy og fór af henni og inn. Lucy var með sektarsvip og sagðist alls ekki hafa reynt að skora. Síðara markið kom frá Alichiu sem sendi boltann í markið úr þröngu færi. Hún sór fyrir að hafa reynt að koma boltanum inn. Sagðist hafa haldið að færið væri of þröngt. Undir lok leiks skoruðu hinar stelpurnar eitt, enda vorum við farnar að slaka of mikið á. Þá var líka búið að færa alla úr sínum stöðum. Ég var á miðjunni, Adrienne miðjumaður var komin í vörnina, sóknarmennirnir spila aldrei sókn, o.s.frv. Lokatölur 7-1 og munu skráðar sem 6-1 til að virða 5-0 regluna

Bíllinn minn er enn á verkstæði svo ég tók hjólið. Skellti því fyrst á strætó fyrstu tuttugu og eitthvað kílómetrana en hjólaði svo þaðan á völlinn. Eftir leik hjólaði ég svo á lestarstöðina, skellti hjólinu á lestinu og fór yfir á Swangard fótboltavöllinn - heimavöll Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðar þjálfar. Jana hafði hringt í mig um morguninn og sagst hafa aukamiða. Ég skipti um föt þar (vilti ekki drepa alla á svitalykt) og horfði svo á leikinn með Jönu, Óla Leifs og Dísu, konunni hans Teits. Þetta var síðasti leikurinn áður en úrslitakeppnin hefst. Whitecaps þurftu að vinna leikinn með þriggja marka mun til þess að vinna vesturdeildina og spila á móti Minnesota í fyrstu umferð úrslita. En það tókst ekki, leikurinn endaði 2-2 og þeir enduðu því í öðru sæti í vesturdeildinni og fimmta í USSF deildinni. Þeir hefja því úrslitaspilið við Portland sem endaði í fjórða sæti. Það hefði verið auðveldara að mæta Minnesota en þeir þurfa hvort eð er að vinna öll liðin ef þeir vilja vinna bikarinn að það skiptir ekki öllu hvaða leið þeir fara.

Þetta er síðasta ár Whitecaps í USSF deildinni. Á næsta ári færast þeir upp og munu spila í meistaradeildinni, MLS. Þetta hefur haft mikil áhrif á þá undanfarna leiki því leikmenn hafa komið og farið. Teitur er búinn að vera að prófa fjölda stráka og sumir hafa bara spilað örfáa leiki áður en þeir eru sendir í burtu. Þetta er öðruvísi kerfi en í Evrópu. Þeir geta hreinlega prófað hina og  þessa og valið svo hverja þeir vilja nota á næsta ári. En þeir verða líka að ákveða það fljótlega. Vegna þessa hefur liðið ekki verið eins stöðugt eins og hjá flestum öðrum liðum í deildinni og það hefur haft sín áhrif að leikmenn þekkja ekki hver annan vel eða hvernig þeir spila.

En alla vega, góður fótboltadagur í gær með 7-1 sigri Presto og 2-2 jafntefli Whitecaps.

P.S. það sem skyggir á var tap Arsenal fyrir Chelsea í dag. En bjóst ekki við sigri. Það virðist vanta hálft liðið hjá Arsenal og af því að Chelsea er með frábært lið í ár þá er ljóst að lasið og meitt lið mun ekki leggja þá að velli.


Enn og aftur fótbolti

Ný fótboltavertíð er ekki bara hafin í enska boltanum heldur líka hjá mér í mínu brölti. Við stelpurnar í Presto erum búnar að spila tvo leiki og höfum byrjað vel. Höfum unnið báða leikina okkar 4-2 og markastaðan er því 8-4 sem ég hef trú á að nægi til að sitja á toppnum. Það er reyndar hugsanlegt að eitthvert liðanna sem spila á morgun vinni stórt en miðað við markatölu fyrstu umferðar yrði liðið að vinna með meir en fimm marka mun til að sitja fyrir ofan okkur.

Dómarinn í dag var sama kona og dæmi hjá okkur í síðustu viku. Þá dæmdi hún býsna vel en í dag gerði hún nokkur mistök. Það versta kom í lok fyrri hálfleiks. Við fengum innkast—kantmaðurinn okkar kastaði boltanum til framvarðar sem sendi boltann fyrir markið. Þar voru aðeins ég og einn varnarmaður og ég var á bak við varnarmanninn. Boltinn kemur til hennar en hún missir hann fram hjá sér, beint til mín. Ég er ein í boxinu með boltann beint fyrir framan mig og á bara eftir að pota honum inn...og þá flautar kerlingarálftin til hálfleiks. Ég er 99% viss um að dómari á að leyfa skotið.

Þegar sirka 15 mínútur voru eftir var staðan 3-1 fyrir okkur, og þá kom röð mistaka hjá dómara. Fyrst dæmdi hún hendi á leikmann í mínu liði sem datt og rak olnbogann í boltann rétt áður en hún lenti í grasinu. Algjörlega fáránlegt að dæma á það. Hafði engin áhrif á leikinn. Síðan sleppti hún að dæma á háskaleik þrátt fyrir að leikmaður hins liðsins hafi verið með takkana bókstaflega í andlitinu á leikmanni míns liðs, og stuttu á eftir dæmdi hún brot á okkar leikmann eftir að leikmaður hins liðsins steig á boltann og datt. Þær fengu aukaspyrnu sem leiddi til marks. Staðan 3-2. Sem betur fer skoruðum við stuttu síðar og tryggðum okkur sigurinn.

Benita hefur heldur betur verið á skotskónum. Skoraði þrjú mörk í síðasta leik og tvö í þessum. Ég skoraði ekkert í síðasta leik enda hundlasin og hafði ekkert þol. Setti samt upp tvö mörk. Skoraði eitt í þessum og setti upp eitt. Ég er eiginlega betri í að setja upp aðra leikmenn vegna þess að ég er ein af fáum í liðinu sem líta upp áður en við skjótum. Flestar stelpurnar þruma boltanum bara eitthvað. En það er svo sem ekki hægt að kvarta, þetta er fjórða deild og við erum að spila að gamni okkar. Og ég veit að ég á eftir að sakna þess ógurlega þegar ég flyt.

Það var annars vel við hæfi að vinna þennan leik í dag, á sama degi og Þórsarar komust upp í meistaradeild. Og það var enn skemmtilegra vegna þess að liðið sem við spiluðum við var í bláum buxum og gulri treyju. Ég sagði þjálfaranum í upphafi leiks að það ætti að vera auðvelt fyrir mig að spila vel gegn þeim fyrst þær spiluðu í litum aðalandstæðingsins!!!!

---

Á morgun er aðeins vika þar til ég hleyp hálfa maraþonið. Ég var búin að undirbúa mig svo vel - hljóp 18 kílómetra fyrir tveim vikum og átti svo að hlaupa 20 í síðustu viku. Nema hvað ég fékk mér flensu. Var reyndar orðin lasin daginn sem ég hljóp 18 kílómetrana. Flensuskömmin sat í mér í eina tíu daga og ég er rétt að skríða saman aftur. Þetta setti strik í reikninginn. Hef ekki hugmynd um hvernig hlaupið mun ganga í næstu viku. Ég get alla vega lofað því að tíminn verður ekki góður. En aðalatriðið hjá mér er hvort eð er bara að klára!

---

Úti er eins og hellt sé úr fötu. Regnið dynur á þakinu og úr verður ákaflega þægilegt suð. Það er í raun býsna notalegt að skríða undir sæng með góða bók þegar rignir úti. Maður getur alla vega þakkað fyrir að vera ekki úti. Vona að það rigni vel í nótt og verði svo þurrt á morgun svo ég verð ekki blaut í hlaupatúrnum.


Þoli ekki þegar dómarar gera út um leiki

Það er óþolandi þegar slök dómgæsla gerir út um leik í íþróttum. Þetta er auðvitað alltaf að gerast en er verst þegar það virðist ekki vera tilviljun hvar slæma dómgæslan lendir. Undanfarna daga hafa til dæmis verið háværar raddir um það í Kanada að það hafi ekki verið einleikið hvernig öll kanadísku liðin lentu í því í annarri umferð úrslitakeppninnar í hokkí að slök dómgæsla kostaði þau leikinn. Öll höfðu liðin unnið sinn fyrsta leik og annar sigur hefði þýtt tvö-núll stöðu gegn amerískum liðum.

Verst fór þetta í leik Vancouver og Los Angeles á laugardaginn. Eftir góða 2-0 byrjun náði Vancouver að glopra leiknum í jafntefli og framlengingu. Í framlengingunni gerði dómarinn út af við leikinn. Kevin Bieksa, leikmaður Vancouver, lenti í samstuði við einn leikmanna LA og skarst illa. Hann missti fjölda leikja í vetur þegar skauti skar í gegnum hásinina hjá honum og flýtti sér því að velli þegar hann var skorinn. Reglan er sú að við skiptingu má maður koma inná völlinn áður en hinn er kominn út af, en sá sem kom inná má ekki snerta pökkinn fyrr en hinn er kominn útaf. Þegar Bieksa nálgast bekkinn stekkur Christian Ehroff inn á völlinn, varnarmaður LA reynir að senda pökkinn upp eftir fjölunum og hittir pökkurinn Bieksa á leiðinni útaf. Ehroff kemur ekki við pökkinn, það er leikmaðurinn á leið útaf, sem er meiddur í þokkabót. Og hvað gerir dómarafjandinn? Hann dæmir á Vancouver fyrir of marga menn á vellinum, og það þýddi tveggja mínútna brottvísun. LA skoraði manni fleiri og jafnaði leikinn. Algjörlega fáránlegur dómur og dómarinn vann þennan leik fyrir LA. Svona má maður ekki gera í bráðabana. Vanalega passa dómarar sig betur í þannig stöðu.

Og hvers vegna hafa menn þessar samsæriskenningar um að NHL deildin reyni að koma í veg fyrir að of mörg kanadísk lið komist áfram? Af því að hokkí er svo vinsælt í Kanada að þeir munu horfa á keppnina hver sem er að spila. Bandaríkjamenn, aftur á móti, vilja eingöngu horfa á sín eigin lið, og það þýðir að þeim mun fleiri bandarísk lið eru í keppninni þeim mun meira áhorf á hokkí í Bandaríkjunum og þar af leiðandi meiri peningar frá auglýsingum. Það er allt gert til að auka áhorfið sunnan við landamærin og ef það þýðir að dómarar þurfa að hjálpa amerísku liðunum aðeins þá gera þeir það.

Annars ætti ekki að þurfa að hjálpa þeim. Montreal og Ottawa hafa ekkert sérlega gott lið í ár og munu detta út án hjálpar dómara, og Vancouver, þrátt fyrir að vera með besta kanadíska liðið í ár, er að öllum líkindum ekki með nógu gott lið til að komast alla leið að þessu sinni. Þannig að dómararnir geta bara haldið sig við að dæma þokkalega.

Annars er Vancouver að spila þriðja leikinn gegn LA í kvöld. Staðan er 1-0 fyrir okkur. Leikið er í LA að þessu sinni. Vonandi vinnum við í kvöld, og helst á miðvikudaginn líka svo við þurfum ekki að spila of marga leiki og koma þreytt í aðra umferð sem væntanlega verður gegn Chicago. Þeir slógu okkur út í annarri umferð í fyrra svo við eigum mikils að hefna.


Á Whistlermóti unglinga

Eins og ég nefndi hér á blogginu fyrir nokkrum dögum þá fór fram alþjóðlegt skíðamót unglinga hér í Whistler. Tveir fjórtán ára gamli Íslendingar kepptu á mótinu; þau Jakob Helgi Bjarnason og Helga Vilhjálmsdóttir.

Pabbi Jakobs er Bjarni Bjarnason sem æfði skíði með mér á Akureyri fyrir, ja, örfáum árum. Svo mér var boðið að koma uppeftir og eyða helginni með Íslendingunum. Þarna voru líka Vilhjálmur pabbi Helgu og Óli Harðar sem einnig æfði skíði á Akureyri þarna um árið. Þeir Bjarni og Óli eru reyndar aðeins eldri en ég þannig að við æfðum aldrei saman en þeir voru í fullorðinsflokki þegar ég var í unglingaflokki þannig að maður vissi auðvitað hverjir þeir voru enda skíðaklúbburinn ekki svo stór. 

Ég keyrði uppeftir á föstudagskvöldinu og var fram á sunnudagskvöld. Fékk herbergi útaf fyrir mig í íbúð Villa og Helgu og það var ekki bara séð um að redda mér húsnæði heldur fæði líka. Og ég þurfti ótrúlega lítið að gera til að vinna fyrir þessu öllu saman. Stóð við marklínu og lét vita tímana sem aðrir keppendur komu niður á.

Krakkarnir stóðu sig ótrúlega vel. Jakob varð í fyrsta sæti í svigi og öðru sæti í stórsviginu, og Helga, sem er byrjandi í þessum alþjóðamótum varð í kringum tuttugasta sæti í sínum greinum. Ótrúlega frábært hjá þeim báðum þegar miðað við að það voru í kringum hundrað keppendur í hvorum flokki.

Það er alveg ljóst að ef góður árangur á að nást á erlendum stórmótum þá verða krakkarnir að byrja að æfa og keppa erlendis. Snjórinn kemur allt of seint á Íslandi og brekkurnar eru yfirleitt ekki nógu langar. Þegar þau koma svo upp í fullorðins flokk og fara að keppa á alþjóðlegum mótum þá er undirbúningurinn ekki nógu góður. Þess vegna tel ég að þessir krakkar sem eru að fara erlendis nú eigi meiri möguleika á góðum árangri í framtíðinni en nokkur Íslendingur hefur náð áður. Hingað til er Kristinn Björnsson líklega sá besti sem við höfum átt. Ég held að Jakob eigi eftir að ná lengra en hann. Og þá verður virkilega gaman að fylgjast með Ólympíuleikum.

Það var annars alveg geysilega skemmtilegt fyrir mig að eyða þessari helgi með Íslendingunum og að komast aftur í snertingu við skíðaíþróttina. Ég hef ekkert haft með hana að gera síðan ég hætti sjálf að æfa, nema þá aðeins að fara á skíði af og til. Það voru því margar góðar minningar sem komu fram þegar ég tók þátt í þessu með þeim núna. En ég sakna þess ekki að bræða undir skíðin og skafa. Sá þáttur var aldrei mjög skemmtilegur.

Nú verð ég bara að eignast mína eigin gríslinga svo ég geti orðið skíðamamma.    

    

   

 


Jakob með gull og silfur á alþjóðamóti unglinga á skíðum

Ég leitaði og leitaði í íþróttafréttum Morgunblaðsins að frásögn af frábærum árangri Jakobs Helga Bjarnasonar á Whistler móti unglinga nú um helgina en fann ekkert. Fann hins vegar frétt um að Íslendingur hefði skorað mark í annarri deildinni þýsku. Jakob sigraði svigið og varð annar í stórsviginu og þar sem þetta var mjög vel metið alþjóðlegt FIS mót þá er ég nokkuð viss um að þetta marki besta árangur sem nokkur Íslendingur hefur unnið á erlendri grun í skíðaíþróttinni. Ef það er ekki nógu gott til að skrifa um þá veit ég ekki hvað er.

Ef Mogginn skrifaði um árangur Jakobs og ég var soddan klaufi að finna það ekki þá bið ég hér með afsökunar. Ef hins vegar hefur ekki verið skrifað neitt um þennan frábæra árangur stráksins þá mæli ég með að úr því verði bætt hið fljótasta.

Lofa að blogga um mótið um helgina við fyrsta tækifæri en nú er ég farin í háttinn.


Um tónlist, hokkí og lærdóm

Í síðustu viku héldu Muse tónleika í Coliseum skautahöllinni hér í Vancouver. Ódýrustu miðar  voru rúmlega 60 dollarar sem eru tæplega áttaþúsund krónur.  Ég fór ekki að þessu sinni þótt mig hafi langað en þar sem ég er aftur orðin nemandi með enga peninga verð ég að passa aurana. Ástæða þess að ég minnist á þetta er aðallega sú að þessir tónleikar sýndu svo vel hvernig tímarnir hafa breyst. Muse hafa tvisvar áður komið til Vancouver síðan ég flutti hingað. Í bæði skiptin léku þeir á stað sem líkist meira stærri útgáfu af Sjallanum. Miðaverð var að minnsta kosti  helmingi lægra en það var nú og maður gat staðið alveg upp við sviðið  án þess að nokkrir verðir pössuðu upp á að fólk reyndi að komast að tónlistarmönnunum. Þá voru þeir orðnir geysilega frægir í Evrópu og spiluðu á fótboltavöllum, en hér í N-Ameríku voru þeir enn tiltölulega óþekktir. Ég naut góðs af því. En nú hafa N-Ameríkanar loksins skilið hversu miklir snillingar eru þarna á ferð og þeir geta loksins spilað í höllum.

Eagles munu spila hérna í vor og ég er að velta því fyrir mér að athuga hvort ég geti nælt mér í miða. En eins og ég sagði áður, verð aðeins að horfa í aurinn þannig að það er hugsanlegt að ég láti þetta tækifæri mér úr greipum ganga. Það er alltaf hægt að fara á tónleika hér og ef ég færi á  alla þá tónleika sem mig langar á þá væri ég gjaldþrota, jafnvel þótt ég hefði vinnu.

---

Að öðru. Liðið mitt í hokkí tryggði sér í fyrradag rétt til þess að spila í úrslitakeppninni og við erum aðeins einu stigi frá því að tryggja okkur Norðvestur titilinn. Það tryggir heimaréttinn sem er mjög mikilvægur ef leika þarf sjö leiki til að fá úrslit. Reyndar lítur út eins og er að við munum spila í fyrstu umferð gegn Detroit Redwings, sem eftir hæga byrjun hafa verið á siglingu undanfarið, þótt reyndar hafi þeir tapað gegn Nashville í gær. En það eru fjórar umferðir eftir svo margt getur breyst og annað lið gæti endað í sjötta sætinu, sætinu sem við munum að öllum líkindum leika gegn.  Ég ætla að vona að við komumst alla vega í aðra umferð og helst alla leið. Gallinn við Vancouver er að svo margir hafa verið meiddir, þar á meðal okkar besti varnarmaður, að enginn veit hvaða lið mun mæta á svæðið þegar pökkurinn fellur. Á góðum degi getum við unnið besta lið, en stundum er eins og allt hrynji og við töpum fyrir verstu liðum deildarinnar.

Fótboltinn fer líka að byrja hjá liði Teits Þórðarsonar, Vancouver Whitecaps. Einn vinur minn fékk nýlega vinnu sem blaðamannafulltrúi liðsins svo það er hugsanlegt að ég fari á fleiri leiki en ég hef á undanförnum árum, sérstaklega ef ég fæ góðan díl.

---

Ég er líka byrjuð að skrifa. Vann vel á fimmtudag og föstudag en tók svo frí að mestu frá skriftum í gær. Í dag ætla ég að reyna að gera eitthvað en hversu mikið það verður fer svolítið eftir því hver plön mín verða seinni partinn. Það er svolítið óljóst ennþá.


Sjokkerandi úrslit í hokkí - Rússland og Svíþjóð úr leik.

Vá, klikkaður dagur í hokkí. Stórþjóðirnar Svíþjóð og Rússland slegnar úr keppni í hokkí. Að mínu mati tvær af þremur bestu hokkíþjóðum í heimi. En hvorugt lið spilaði nógu vel í dag. Kanada lagði Rússa að velli 7-3 og sigurinn var aldrei í hættu. Svíþjóð tapað óvænt fyrir Slóvökum 3-4, en Slóvakar hafa heldur betur staðið sig. Töpuðu reyndar fyrir Tékkum í fyrsta leik en unnu svo Rússa í vítakeppni - í leik sem ég var á. Ég var reyndar mjög hrifin af Slóvökum í þeim leik og þeir hafa frábær menn eins og Gaborik, Hossa, Demetra og Halak.

En sem sagt, eftir tvö daga leika Kanadamenn við Slóvaka og ég verð að halda með mínum mönnum og spá þeim sigri. Finnar leika svo við Bandaríkjamenn. Finnar ættu að vinna þann leik að mínu mati en Bandaríkjamenn hafa náð að vinna alla sína leiki hingað til án þess að hafa spilað endilega sérlega vel, þannig að þeir gætu haldið áfram að hafa heppnina með sér. Ég spái því Bandaríkjamönnum sigri.

Það þýðir að Kanada spilar við Bandaríkin um gullið, endurtekning á gullleiknum í Salt Lake City fyrir átta árum. Þá sigruðu Kanadamenn og ég leyfi mér að spá því að svo fari einnig að þessu sinni.

---

Þetta var annars góður dagur fyrir Kanadamenn, sem auk þess að vinna Rússa fengu gull og silfur í tveggjamanna bobsleðakeppni kvenna, silfur í skautaboðhlaupi kvenna á stuttri braut, og brons í 5000 m kvenna á langri braut. Verðlaunin eru því orðin fimmtán, og Kanadamenn enn í fjórða sæti í verðlaunakeppninni.


Verðlaunasókn Kanadamanna og hokkí

Nú eru liðnir tólf dagar af þessum Ólympíuleikum og Kanadamenn eru töluvert óánægðir með árangur sinna manna, þrátt fyrir sex gullverðlaun, fjögur silfur og eitt brons, samanlagt 11 verðlaun þegar keppnin er rúmlega hálfnuð. Töluverðum fjármunum var veitt í íþróttaiðkun og búist var við betri árangri á heimavelli. Þetta er reyndar langt frá því að vera slæmt. Í Salt Lake City fengust sautján verðlaun (7-3-7) og í Torino fengust 27 (7-10-7). Það ætti því að vera hægt að jafna Salt Lake árangurinn en Torino árangurinn verður erfiðari. Hins vegar má benda á að kanadísku stelpurnar í hokkí eru komnar í úrslit og fá því að minnsta kosti silfur þar; nokkuð öruggt er að Kanadamenn fá verðlaun í krullu karla og kvenna, og eins og er, standa kanadískar stelpur bestar að vígi eftir fyrri keppnisdag í bobsleðakeppni með lið í fyrsta og fjórða sæti. Þá eru eftir keppnir í skautaboðhlaupi þar sem Kanadamenn eru sterkir í báðum kynjum. Kannski var þrýstingurinn of mikill á keppendur.

Ég fór á minn fjórða hokkíleik í kvöld - sá Kanada rúlla yfir Þýskaland 8-2. Þeir hefðu reyndar aldrei átt að þurfa að spila þennan leik því leikurinn var umspil um sæti í fjórðungsúrslitum. Eftir að hafa tapað fyrir Bandaríkjunum hafa Kanadamenn gert leiðin að gullinu þyrnum stráða. Á morgun þurfa þeir að spila við Rússa, eitt af bestu landsliðum í heimi, og ef þeir vinna þá, þá tekur við leikur gegn Svíþjóð, sem einnig hefur frábært lið í ár. Þessi þrjú lið eru að mínu mati best og við hefðum átt að fá gullleik milli tveggja þeirra. Í staðinn er líklegt að annað liðið sem leikur til úrslita verði annað hvort Finnland eða Tékkland. Það gerir úrslitaleikinn alls ekki eins spennandi og hann hefði getað verið. Undarlegt hvernig úr þessu spilaðist.

Hinir leikirnir sem ég hef séð á þessum Ólympíuleikum voru Kanada-Sviss, Rússland-Slóvakía og Svíþjóð-Finnland. Allt magnaðir leikir.

Leikurinn á morgun á eftir að verða ótrúlegur. Hugsið ykkur hverjir verða á vellinum:
Fyrir Rússland menn eins og Ovechkin, Malkin, Datsyuk, Kovalchuck, Nabokov, Gonchar, Markov, Semin, Federov...
Fyrir Kanada: Crosby, Iginla, Luongo, Brodeur (þó ég efist um að hann leiki á morgun, held að Luongo haldi sætinu), Niedermayer, Getzlaf, Heatley, Marlow, Thornton...

Vá, ótrúlegt.

Of ef Kanada kemst framhjá Rússlandi, þá taka Svíarnir við með Sedin bræður, Lidström, Lundquist, Öhlund, Alfredson, Backström, Ericson, Pahlson, Zetterberg...

---

Fyrir utan hokkí hef ég aðeins séð pínulítið af krullu. Kíkti á völlinn í gær og heimsótti kollega minn á krulluvellinum, og nokkra af sjálfboðaliðunum sem ég þjálfaði. Einn þeirra hafði rétt tíma til að segja hæ og svo þurfti hann að hlaupa til að hjálpa kínverskum keppandi í lyfjaprófi. Stuðið í krullunni hefur verið ótrúlegt og aldrei nokkurn tímann hefur stuðningur verið eins mikill. Áhangendur öskra og syngja og berja bumbur og krulluspilarar eiga í erfiðleikum með að heyra skipanir fyrirliðans fyrir látunum. Reglulega brýst út söngur, þá vanalega þjóðsöngurinn, og sumir eru víst vel fullir. Uppselt er á hverjum degi. Hverjum hefði dottið í hug að svona mikið stuð væri á krulluleik.

Ég hef líka farið tvisvar út í UBC þar sem fram fer hokkí kvenna. Þar hefur verið góð stemning líka en kannski ekki eins og í krullunni, sem er undarlegt þar sem Kanada er hokkíþjóð. En aðal spennan er í kringum karlaliðið. Kanadamenn eru enn býsna miklir þursar þegar kemur að íþróttum - sérlega hokkí.

Farin að hátta.


Skrifað um Björgvin Björgvinsson í kanadískum blöðum

Björgvin hefur nú þegar vakið athygli og hann er ekki einu sinni byrjaður að keppa. Hér er grein úr Vancouver Sun:

 

WHISTLER — The world’s top female skiers couldn’t get a downhill training run in Thursday.

But, Cristian Javier Simari Birkner, Argentina’s, uh, skiing legend, and the delightfully monikered Bjoergvin Bjoergvinsson of Iceland — good thing skiers don’t wear namebars across their backs like hockey players — did get one done.

Ah, the vagaries of Whistler Mountain weather.

On another challenging day of light snow and fog and later big fluffy flakes that Cypress would kill for, the first women’s downhill training run for Sunday’s super combined was cancelled. The men, however, did manage to squeeze in a full field, but length-shortened, training run for Saturday’s marquee downhill.

In an unprecedented move for an Olympic Games, the International Ski Federation (FIS) scheduled both training runs for 9:30 a.m. starts on adjacent courses.

Since both runs merge at the end into one common finish area, FIS decided to have the men stop a couple of hundred metres from the finish. That paid off as the men ended their run right where a persistent layer of fog was sitting.

The fog did, however, cause a 50-minute delay in the start of the women’s training run.

Then just after it finally did get started, a crash by the second skier out of the gate, American Stacey Cook, resulted in another long hold while she was helicoptered off the course as a precaution. By the time that was completed, the snowfall had turned heavy, the fog had got thicker and the run was cancelled.

Cook was not seriously hurt and could be skiing again Friday.

Getting the men’s training run in was a huge relief for FIS after Wednesday’s scheduled first training run had to be cancelled because of fog after only 42 of the 87 skiers were able to make it down the Dave Murray Downhill.

FIS requires at least one complete training run before a downhill race can be held. So even if Friday’s final scheduled training run is cancelled by weather, the race, a key feature of the broadcast networks’ opening day of competiton, could still go Saturday.

Manuel Osborne-Paradis of North Vancouver, a medal contender, wasn’t stressing about the weather or a potential delay in running the race. He noted that, technically, Olympic organizers have two weeks to get the downhill race run.

“Maybe we’ll be rivalling the [gold medal hockey game on Feb. 28],” he cracked. “They’ll see what they should be airing, the downhill or the gold medal game.”

Given this country’s hockey obsession, Manny figured he knew how that one would turn out.

“Yeah, we might be running at 9:30 in the morning so we can get some air time. [Or] between periods.”

Austrian veteran Michael Walchhofer posted the fastest training run time of one minute, 34.46 seconds. He was followed by Robbie Dixon of North Vancouver in 1:34.55 and Erik Guay of Mont Tremblant, Que., in 1:34.68.

Swiss veteran Didier Cuche, the hottest speed skier on the World Cup circuit and the man who was fastest on Wednesday, was initially listed as having the fastest time Thursday, but was later disqualified for missing a gate.

“Training runs are training runs, everyone’s trying out different things, looking for that right line,” said Dixon. “It’s nice to get the confidence from skiing the training runs well, but you can’t get all psyched about that. You’ve got to look towards race day. Try to do the same things and hope that it works out.”

Osborne-Paradis, challenged by the fog and flat light late in his run, was just 22nd in 1:35.91.

Bjoergvinsson and Simari Birkner, by the way, wound up 76th and 77th, respectively, nearly nine seconds back of Walchhofer.

They won’t be medal threats, but hey, they are Olympians.

 

(http://www.vancouversun.com/health/Olympic+skiing+downhill+training+okay+women+cancelled/2551670/story.html)

 

Ég get annars bætt við  þetta að í dag fór ég yfir í Ólympíuþorpið til að sjá móttökuathöfnina fyrir Íslendingana, og reyndar önnur lið líka. Set kannski inn myndir fljótlega.

 


Skíðaíþróttin á rangri leið?

Ég hætti að æfa skíði á sínum tíma vegna hnémeiðsla. Ég varð ekki fyrir slysi eða neinu svoleiðis, en endalaus pressa á hnén olli skemmdum og ég var farin að finna mikið til á hverri æfingu. Ég var átján ára.

Þessa dagana hef ég lesið mikið um áhyggjur manna yfir nýjum búnaði skíðamanna því hnémeiðsli eru orðin algengari og alvarlegri. Á aðeins einni viku hafa fjórir meðlimir alpagreinaliðs Kanada orðið fyrir alvarlegum hnémeiðslum sem verða til þess að ekkert þeirra mun geta keppt á Ólympíuleikunum eftir tvo mánuði. Þar er með talin Kelly VanDerBeek, sem var talin líklegust Kanadamanna til að vinna til verðlauna í alpagreinum. Í engum þessara tilvika var um alvarlegt fall að ræða, heldur fremur saklausar byltur. Talið er að eitthvað í skíðabúnaðinum sé valdur þess að meiðsli eru orðin svo mikið alvarlegri. Það er auðvitað mjög slæmt ef satt er.

Annars finnst mér skíðaíþróttin hafa farið í ranga átt, sérlega á Íslandi. Þegar ég var heima um daginn rakst ég á fyrrverandi keppinaut minn í skíðaíþróttinni. Dóttir hennar og systurdóttir mín spila saman fótbolta. Hún sagði mér að hún væri guðslifandi fegin að dætur hennar vildu ekki æfa skíði því það væri ómögulegt fyrir venjulegt fólk að greiða fyrir íþróttina, eins og kröfurnar væru orðnar.

Þegar við vörum að keppa á sínum tíma þá átti maður eitt par af skíðum í gegnum alla barnaflokkana. Þegar maður kom upp í unglingaflokk þurfti maður helst að eiga tvö pör, eitt fyrir svig og eitt fyrir stórsvig. Við fórum aldrei til útlanda í æfinga- eða keppnisferðir, ekki einu sinni þegar maður var í unglingalandsliðinu. Á þeim tíma sem ég var í unglingalandsliðinu þá æfðum við einu sinni í Kerlingafjöllum yfir sumar þar sem við vorum á skíðum. Við fórum á tvær hlaupaæfingar, önnur var í Reykjavík og hin á Ísafirði, og við æfðum eina helgi um vetur á Akureyri. Það var allt of sumt á tveim árum.

Núna eru krakkar farnir að fara í æfingaferðir í barnaflokki, svo ég tali nú ekki um unglinga. Þannig var þetta reyndar orðið fyrir nokkrum árum. Veit ekki hvernig það er núna í hallærinu. Þar að auki þurfa krakkar víst að eiga tvö pör til keppni (svig g stórsvig) og svo önnur tvö fyrir æfingar. Þar að auki þurfa þau að eiga bæði sviggalla og stórsvigsgalla. Já, það er ekki ódýrt fyrir foreldra að eiga börn á skíðum.

Annars var ýmislegt á rangri leið líka þegar ég var að æfa, svona undir lokin alla vega. Síðasta árið vorum við með júgóslavneskan þjálfara og hann kom með hugsunarháttinn að heiman upp í brekkurnar, þar sem við áttum öll líf okkar undir því að ná árangri. Hann var því farin að fjölga æfingum og setti meðal annars á aukaæfingar á daginn þegar við áttum öll að vera í skólanum. Það var því þannig að þeir sem skrópuðu í skólann áttu orðið kost á tveim æfingum á dag, á meðan þau sem voru samviskusamari og fóru í skólann komu aðeins á kvöldæfingar. Ég hafði alltaf æft af því að mér fannst gaman á skíðum, en þetta var ekki orðið skemmtilegt lengur og þegar þetta bættist við hnéverkinu þá var ekki of erfitt að hætta. En enn þann dag í dag fæ ég fiðring við það eitt að sjá vel lagða braut. Mig langar enn að skella mér niður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband