Færsluflokkur: Íþróttir

Vetraríþróttir - Skautahlaup á langri braut

 

Eftir 93 daga verða næstu Vetrarólympíuleikar settir í BC höll í Vancouver og tveggja vikna hátíð íþróttaunnenda mun hefjast. Íslendingar munu senda skíðamenn, einn til fjóra, og augu Íslendinga munu væntanlega vera á alpagreinakeppninni í Whistler.

En það verður auðvitað margt annað í gangi og margir fræknir íþróttamenn munu leggja sig alla fram til að láta stóra drauma rætast. Ég er að vona að ég geti fundið tíma af og til til að segja ykkur frá öðrum fræknum íþróttamönnum sem vert er að fylgjast með. Og kynna þannig líka einstakar keppnisgreinar.

Skautahlaup á langri braut - Clara Hughes

Keppni á skautahlaupi hefur þróast í þrjár mismunandi keppnisgreinar, skautahlaup á langri braut, skautahlaup á stuttri braut og maraþon skautahlaup. Allar greinarnar falla undir ISU, Alþjóðlega skautasambandið og á Ólympíuleikum er keppt í tveim þessa greina, skautahlaup á langri braut og á stuttri braut. Þegar aðeins er notað orðið skautahlaup er venjulega verið að vísa til löngu brautarinnar. 

Skautahlaup á langri braut er upphaflega gerðin af skautahlaupi og keppt hefur verið í greininni síðan 1892, lengst allra keppnisgreina á vetrarleikum. Þessi íþróttagrein er sérlega vinsæl í Hollandi og í Noregi og þessar þjóðir standa sig jafnan best í greininni auk Kanadabúa, Bandaríkjamanna, Þjóðverja, Ítala, Japana, Kóreubúa, Kínverja og Rússa. 

Keppt er á 400 metra löngum egglaga skautahring (á meðan stutti hringurinn er 111 m) og eingöngu er keppt við tíma. Tveir íþróttamenn skauta á sama tíma og verða þeir að skiptast á að skauta innri braut og ytri braut.  

Skautarnir sjálfir eru töluvert öðruvísi en þeir skautar sem notaðir eru í hokkí annars vegar og í listdans á skautum hins vegar. Þessir skautar minna á gönguskíði því hællinn er laus og þannig er skautablaðið lengur á ísnum en ella. 

Einn af þeim íþróttamönnum sem vert er að fylgjast með á næstu Ólympíuleikum er kanadíska skautakonan Clara Hughes frá Winnipeg. Hún er ein fárra sem hafa unnið til verðlauna á hvort tveggja sumarleikum og vetrarleikum.

Clara Hughes  fæddist 1972í Winnipeg og lagði fljótt fyrir sig skautahlaup. Átján ára gömul skipti hún hins vegar yfir í hjólareiðaíþróttina og fór meðal annars á sumarleikana 1996 í Atlanta, þar sem hún vann til tveggja bronsverðlauna og 2000 í Sidney. Hún tók einnig þátt í fjórum Pan American leikum og vann til átta verðlauna. Þá tók hún þátt í þremur Commonwealth leikum og hjólaði fjórum sinnum í Tour de France kvenna.

Sama ár og Hughes keppti á Ólympíuleikunum í Sidney, árið 2000, sneri hún sér aftur að skautahlaupi og vann sér rétt til að keppa fyrir hönd Kanada á vetrarólympíuleikunum 2002 í Salt Lake City. Hún varð tíunda í 3000 m hlaupi en þriðja í 5000 m hlaupi, og náði þar að vera á undan landa sínum Cindy Klassen, sem lengi hefur verið stórstjarna í skautahlaupi. Með þessum bronsverðlaunum náði Hughes að verða önnnur konan í heiminum til að vinna til verðlauna á hvort tveggja sumarólympíuleikum og vetrarólympíuleikum. Sú fyrsta var Christa Rothenburger sem vann gull í 1000 m skautahlaupi og silfur í 1000 m hjólreiðum.

Á Ólympíuleikunum í Torino, 2006, vann hún sín fyrstu gullverðlaun í 5000 m skautahlaupi og silfur í liðakeppninni. Þar vann hún sín fimmtu Ólympíuverðlaun. Landa hennar, Cindy Klassen, vann hins vegar sex verðlaun á sömu leikum. 

Fyrir rúmri vikum var Hughes valin til þess að hlaupa fyrst með Ólympíueldinn á þriggja mánaða ferð hans um Kanada. Og í janúar verða allra augu á þessari frábæru íþróttakonu sem þrátt fyrir 37 árin er enn á toppnum í íþrótt sinni. 

 


Vinnur Teitur sinn annan titil á rúmu ári?

Á þessari stundu fer fram fótboltaleikur milli Vancouver Whitecaps og Montreal Impact í Montreal. Þetta er síðari leikurinn í úrslitakeppni USL deildarinnar sem er nokkurs konar fyrsta deild í Norður Ameríku. Þetta er í fyrsta sinn sem tvö kanadísk lið leika um titilinn.

Eins og þið vitið kannski er Teitur Þórðarson þjálfari Vancouver Whitecaps og liðið vann deildarbikarinn í fyrra í fyrstu tíð Teits. Liðið varð fyrir mörgum skakkaföllum í vor og í sumar og leika þeir nú án sex leikmanna sem spiluðu með sigurliðinu í fyrra. Fjórir hættu í vor, einn var rekinn eftir að hafa slegist tvisvar við samherja (í annað skiptið á leikvellinum í miðjum leik) og sá sjötti fékk rautt spjald í fyrri leiknum gegn Montreal um síðustu helgi.

Fyrri leikurinn, sem leikinn var í Vancouver, fór 3-2 fyrir Montreal og mér skilst á vini mínum sem var á vellinum að Vancouverliðið hafi verið heppið með að tapa ekki stærra. Þeir verða því að gera betur í dag og vinna annað hvort með tveggja marka mun eða vinna með eins marks mun og skora alla vega fjögur mörk.

Átján mínútur eru nú liðnar af leiknum og staðan er enn 0-0. Ekki hefur verið mikið um færi. 

O o. Eftir að Whitecaps sóttu stíft hafa leikar nú snúist því Montreal fékk vítaskot rétt í þessu og til að gera hlutina enn verri þá fékk einn leikmaður Whitecaps rautt spjald. Þeir eiga þá eftir að spila manni færri annan leikinn í röð.

Þeir skora. 1-0 fyrir Montreal. Róðurinn á eftir að vera erfiður. Ég held að titillinn sé farinn til Montreal.

Ég læt ykkur vita hvernig þetta fer.

---

Montreal var að skora sitt annað mark. Staðan í leiknum er því 2-0 fyrir Montreal og í samanlögð staða úr leikjunum tveim er því 5-2. Það er nær útilokað að tíu Vancouvermenn geti skorað þrem mörkum meir en ellefu Montrealmenn.

---

3-0.

---

3-1. Vancouver skorar á fertugustu og fjórðu mínútu.


Spennandi fréttir - OL í fyrsta sinn í S-Ameríku

Frábærar fréttir fyrri S-Ameríku en þar hafa aldrei verið haldnir Ólympíuleikar áður. Það var því tími til kominn. Rio á reyndar eftir að laga ýmislegt frá því þeir héldu PanAm leikana árið 2007 en þeir hafa væntanlega lært af reynslunni.

Ég hafði verið alveg viss um að annað hvort Rio eða Chicago myndu fá leikana og taldi möguleika Chicago hafa styrkst heilmikið við stuðnin Opruh (sem hefur ótrúleg áhrif hvort sem okkur líkar betur eða verr) og komu Obama til Kaupmannahafnar. En á móti þeim var líklega slæm fjárhagsstaða Bandaríkjanna, minnkandi stuðningur Chicagobúa við leikana og kannski líka sú staðreynd að leikar voru haldnir í Salt Lake City 2002. Hélt þó að þeir myndu komast alla vega í lokaumferð.

Madrid átti aldrei raunverulega möguleika vegna þess að Sumarleikarnir 2012 verða í London og Vetrarleikarnir 2016 verða í Rússlandi. IOC myndi aldrei senda leikana til Evrópu þrjú skipti í röð. 'Eg held að Madrid hafi hvort eð er verið að undirbúa sig undir að vinna leikana 2020. Það er oft talið gott að senda inn tilboð oftar en einu sinni.

Tokyo var á hraðri niðurleið síðustu mánuði. Þeir byrjuðu vel en það var ljóst í sumar að þeir ættu ekki möguleika.

Þannig að um leið og ljóst var að Chicago var fallið úr keppni gat enginn unnið nema Rio.

Hey, ef ég held mig við Ólympíuleika þá á ég kannski eftir að búa í Brasilíu. Það gæti verið spennandi.

 

 
mbl.is Ríó fær að halda ólympíuleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

6 mánuðir í næstu Ólympíuleika

Í dag eru akkúrat sex mánuðir í opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Vancouver, en þeir verða settir rétt fyrir níu að staðartíma, 12. febrúar 2010 (athöfnin hefst um sex leytið).

En áður en leikarnir hefjast þarf að hlaupa með eldinn. Hann verður tendraður hér í Bresku Kólumbíu 30. október og verður hlaupið með hann út um allt Kanada, þar á meðal á nyrsta odda Ellesmere eyju.

Vídeóið sem ég sýni hér er gefið út í tilefni af þessu hlaupi og glöggir geta hugsanlega tekið eftir að sú sem trúir því ekki að hún sé þarna er Alanais Morissette. Víð sýnum þetta vídeó öllum okkar sjálfboðaliðum og það falla vanalega mörg tár á meðan. 

Fyrirtækið ætlar að draga út nöfn þrjátíu starfsmanna sem hljóta þann heiður að hlaupa með kyndilinn - ég held um litla putta og vona að ég fái þetta tækifæri en líkurnar eru ekki miklar þar sem aðeins þrjátíu af 1400 starfsmönnum verða valdir. En það er aldrei að vita, um að gera að vera vongóð.

Lagið er auðvitað hið stórgóða 'Fix you' með Coldplay.


Ísland fékk silfrið

Íslendingar töpuðu orrustunni um gullið með tveggja stiga mun, á Heimsleikum lögreglu og slökkviliðsmanna. Þeir höfðu boltann þegar örfáar sekúndur voru eftir og hefðu með þriggja stiga körfu tryggt sér sigur, en boltinn fór því miður ekki ofan í. En silfrið var stórkostlegur árangur og hópur stuðningsmanna (sem skrópaði í vinnu til að komast á leikinn) faganaði sínum mönnum vel að leik loknum.

Til hamingju strákar. Við erum stolt af ykkur.

Basketball 008

Íslendingar komnir í úrslit í körfunni

Íslensku lögreglu- og slökkviliðsstrákarnir eru komnir í úrslit í þriggja manna körfuboltanum á Heimsleikum lögreglu og slökkvliðsmanna. img_2740.jpgÞeir léku gegn einu kanadísku liðanna í undanúrslitunum og unnu með sirka tíu stiga mun. Leikurinn var reyndar hnífjafn framan af en svo tók íslenska liðið að síga fram úr og ég held að sigurinn hafi aldrei verið í hættu.

Ég tók smá vídeó á litlu Canon myndavélina mína og setti á YouTube. Gæðin eru ágæt á tölvunni minni en á YouTube eru þau ekki mjög. En þið getið samt séð brot úr leiknum og að mikið var stuð á þeim Íslendingum sem komu að horfa. Ætli hafi ekki verið skipt jafnt á milli þeirra Íslendinga sem búa í Vancouver og íslenskra lögreglu- og slökkviliðsmanna sem voru ekki sjálfir að keppa á sama tíma.

Leikið er til úrslita á morgun klukkan tvö að staðartíma. Ég veit ekki gegn hverjum. Sumir sögðu að þeir myndu leika á móti bandarísku liði en aðrir sögðu á móti kanadísku liði. En hvort sem er, við skulum bara vona að íslensku strákarnir vinni.


Frábær handboltamynd

Ég fór á kínverska markaðinn í Richmond í gærkvöldi og kom m.a. við á bás sem sendi kínverskar, japanskar og kóreskar bíómyndir. Rak augun í hulstur sem sýndi tvær handboltakonur. Allt letur var á kóresku svo ég spurði afgreiðslumanninn um myndina og hann sagði mér að myndin væri byggð á sannsögulegum atburðum og fjallaði um kóreska kvennalandsliðið í handbolta sem fór á Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Ég keypti myndina enda væntanlega eina bíómyndin sem til er um handboltalið, eða ég veit ekki betur.

Myndin er alveg dásamleg. Hún fjallar m.a. um togstreituna á milli yngri og eldri leikmanna. Þær eldri sem flestar tóku þátt í leikunum 1992 (gull) og 1996 (silfur) þóttu orðið of gamlar og bæði yngri leikmenn og þjálfarinn vildu losna við þær. Þar að auki voru þær orðnar giftar konur með börn og ýmis vandamál. En þær voru einfaldlega bestar og ein þeirra, Mi-Sook, með bestu handboltaleikmönnum heims.

Mér þótti mikið til þess koma hversu raunverulegur handboltinn var og hversu lítið var gert af því að klippa á milli nærskota og fjarskota eins og svo oft er gert í íþróttamyndum. Vanalega getur maður séð að viðkomandi leikari eða leikkona er aðeins notaður í nærskotunum. Það var ekki áberandi í þessari mynd og leikurinn var býsna sannfærandi.

Leikurinn um gullið, sem leikinn var gegn miklu stærri dönskum stelpum, var líka æsispennandi enda fór hann í tvær framlengingar og vítakeppni. Það er ekki oft sem maður heldur með asísku liði á móti skandinavísku en það gerði ég á meðan ég horfði á myndina.

Mæli eindregið með henni. Enski titillinn er Forever the moment, sem mér finnst reyndar ekki mjög góður titill. Á kóresku heitir myndin 우리 생애 최고의 순간 sem þýðir víst Bestu stundirnar í lífi okkar

Það er reyndar athyglisvert að í lok myndarinnar eru sýndar alvöru myndir frá lokaleiknum og kóresku stelpurnar þar eru óneitanlega massaðri en litlu sætu stelpurnar sem leika í myndinni. En það kemur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þetta er showbusiness.

Hér eru tvær mismunandi auglýsingar um myndina. Sú fyrri einbeitir sér að gullleiknum: 

 

 

 En hin síðari sýnir meira frá myndinni sjálfri:

 

 

 

 

 


200 dagar í Vetrarólympíuleikana

Í dag eru 200 dagar þar til Vetrarólympíuleikarnir hefjast í Vancouver. Af því tilefni sýni ég ykkur þetta vídeó sem er alveg dásamlegt og sem við sýnum öllum okkar sjálfboðaliðum til að kveikja neistann. Mér finnst alltaf jafnskemmtilegt að sjá hliðstæðurnar sem þeir sýna á milli íþrótta og daglegs lífs að öðru leyti.

Annars er uppáhaldsatriðið mitt alltaf maðurinn á skautunum í sólsetrinu í lok myndbandsins. Kvikmyndatökumenn náðu því atriði af algjörri tilviljun. Þeir voru að taka landslagsmyndir og þessi manneskja var þarna einfaldlega að skauta.


Fótboltaáhugamenn - vantar hjálp frá ykkur

Við erum með pott í vinnunni um það hvernig enski boltinn fer næsta vetur. Ég hef svo lítið getað fylgst með þeim enska undanfarin ár af því að sjónvarpið hér sýnir ekki mikið úr boltanum svo ég er orðin býsna ryðguð í þessum málum. 'Eg þigg því uppástungur frá ykkur.

Liðið er svo skipað:

  • 2 markverðir
  • 5 varnarmenn
  • 5 miðvallarmenn
  • 3 framherjar
  •  

    Einn af þessum fimmtán er svo fyrirliðinn. Helst sá besti því fyrirliði fær tvöföld stig á við aðra.

    Einungis má nota þrjá menn úr hverju liði í enska.

    Hvernig ætti ég að skipa liðið mitt?

    Mér dettur í hug menn eins og:

    • Steven Gerrard
    • Fernando Torrest
    • Frank Lampard
    • Cesc Fabregas
    • Emmanuel Adebayor (??? he seems to be slipping, doesn't he?)
    • Didier Drogba
    • Gael Clichy
    • Wayne ROoney
    • Rio Ferdinand
    • ???

Í fótbolta

Ég leik með þremur fótboltaliðum. Aðalliðið er Vancouver Presto, sem er fjórðudeildarlið kvenna. Við höfum leikið saman í sex ár og sitjum kyrfilega í efri hluta fjórðu deildar en erum ekkert á förum upp.

Ég hef líka leikið í rúmlega ár með blönduðu innanhússliði. Leikið er sex gegn sex og þurfa að vera tveir kvenmenn á vellinum. Við spilum nú í fimmtudeild, en ég er ekki viss af hverju því liðið er býsna gott.

Í vor stofnuðum við svo nokkur í vinnunni lið sem spilar í UBC deild. Leikið er utanhúss á grasi en liðin spila sjö á móti sjö. Við heitum því ömurlega nafni Wyld Stallyns, sem er víst tekið úr myndinni um Bill og Ted. En þrátt fyrir ömurlegt nafn þá er Wyld Stallyns býsna gott lið og við urðum á sunnudaginn í öðru sæti í deildinni og spiluðum þar að auki úrslitaleikinn í úrslitakeppninni. Töpuðum honum naumlega, 1-2. Set inn mynd af liðinu sem tekin var í upphafi úrslitakeppninni. Takið eftir að ég spila í íslensku landsliðstreyjunni. Veit ekki hvort það er gott eða...

Wyld Stallyns


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband