Færsluflokkur: Sjónvarp
Haustdagskráin að hefjast í sjónvarpinu
19.9.2010 | 22:15
Með haustinu hefst ný sjónvarpsvertíð. Fjöldinn allur af nýjum sjónvarpsþáttum hefur göngu sína og sumir munu varla lifa mikið lengur en sex þættina. Aðrir þættir slá í gegn og mun kannski eftir að vera á skjánum næstu árin. Gamlir þættir snúa til baka, en hætt hefur verið framleiðslu á öðrum. Þar á ég mest eftir að sakna Law and Order. Ég er alls ekki sátt við NBC. Þótt þættirnir hefðu tapað nokkrum vinsældum þá var enn fjöldi manns sem horfði í hverri viku. En þeim hefur líklega þótt nóg komið eftir sextán ár á skjánum. Ég held að þrennt hafi ráðið því að þættirnir döluðu í vinsældum síðastliðin ár: Brotthvarf Jerry Orbach (Lennie Briscoe), brotthvarf Jessy L. Martin (Ed Green) og minnkað hlutverk Sam Waterston (Jack McCoy). Þótt margir góðir hafi komið og farið þá voru þessir þrír aðalstjörnurnar í þáttunum, að mínu mati.
En ég ætlaði ekki að skrifa um Law and Order sérstaklega heldur sjónvarpsdagskrána sem framundan er.
Ég settist niður og skrifaði upp nokkurs konar eigin útgáfu af sjónvarpsvikunni. Bestu kvöldin hér í Kanada verða Sunnudagar, mánudagur og miðvikudagur. Þriðjudagar og fimmtudagar sem oft voru góð sjónvarpskvöld eru ekki svipur hjá sjón.
Sunnudagskvöld
Desperate Housewives (hefjast aftur í næstu viku)
The Glades - Ef þessir þættir eru ekki sýndir á Íslandi þá skulið þið hvetja stöðvarnar til þess að kaupa þá.
The Simpsons (hefjast í næstu viku)
Nýr þáttur sem ég ætla að tékka á: Weeds
Mánudagskvöld
House
How I met your mother
Chuck
Two and half men
Castle
Haven - spennandi þættir sem hafa verið í gangi í sumar.
Það er ljóst að ég get ekki horft á þetta allt. Þættirnir House, How I met your mother og Chuck eru allir sýndir klukkan átta. Og Castle og Haven báðir klukkan tíu. Ég get sleppt öllum þáttunum klukkan átta en vil helst horfa bæði á Catle og Haven. Veit ekki af hverju bestu þættirnir eru alltaf klukkan tíu.
Að auki er fjöldi nýrra þátta að hefjast á mánudögum: Lone Star, The Event, Hawaii five-O líta allir ágætlega út.
Glee
The Good wife
Law and Order: SVU
Enn og aftur stangast þættir á klukkan tíu. Mun væntanlega horfa á SVU. Glee er hins vegar klukkan átta. Ekkert merkilegt klukkan níu.
Hef ekki neinn sérlegan áhuga á neinu sem er að hefjast á þessum kvöldum.
Criminal minds
Hellcats
Shattered
Og nú eru það Criminal minds og Hellcats sem stangast á. Það verður Criminal minds sem ég horfi á. Hellcats eru þættir sem byrjuðu nú í september og er um klappstýrulið í háskóla í USA. Ég hef aðallega horft vegna þess að þættirnir eru teknir upp hér í Vancouver og nánar tiltekið í UBC, skólanum mínum. Ég þekki því umhverfi þáttanna vel. Þættirnir Shattered eru klukkan tíu og eru mjög athyglisverðir kanadískir þættir en ég er hrædd um að þeir verði ekki langlífir. Kanadískt sjónvarpsefni á yfirleitt erfitt uppdráttar vestra. Þeir þættir eru líka teknir upp hér í Vancouver.
Nýir athyglisverðir þættir á miðvikudögum eru þættirnir Undercovers, Better with you og The whole truth.
Aðeins tveir þættir þessi kvöld. Big bang theory klukkan átta og The Mentalist klukkan tíu. Klukkan níu má horfa á Bones eða Fringe en ég hef ekki heillast sérlega af þessum þáttum og mun líklega láta þá í friði.
Nýir þættir: Aðeins einn hefur vakið athygli mína: My dad says sem hefur snillinginn William Shatner í aðalhlutverki. Ég kíki á þá þætti þó ekki væri nema bara fyrir hann. Þar að auki eru þeir beint á eftir Big bang theory klukkan hálf níu þannig að það hentar ágætlega.
Föstudagskvöld
Medium eru einu þættirnir sem ég horfi á föstudögum, en ég er að vona að annað hvort Supernatural eða Ghost whisperer kæmu klukkan níu á föstudögum en CBC hefur hætt framleiðslu á Ghost Whisperer. Hef ekki hugmynd um af hverju. Þessir þættir fengu aftur og aftur flesta áhorfendur á föstudögum. Ekki nóg með það, þeir hafa líka hætt að framleiða Cold Case (eru þeir klikkaðir) og New Adventures of Old Christine.
Nýir þættir á föstudögum sem gætu verið ágætir: Outlaw, Blue Bloods, Body of proof.
Laugardagskvöld
Dauð. Ekkert sem horfandi er á.
----
Ólíkt því sem er algengt heima eru föstudags- og laugardagskvöld mjög léleg sjónvarpskvöld vestra. Líklega vegna þess að þá fara flestir í markhópunum á djammið.
Nú eiga fleiri og fleiri TiVo og svipuð tæki og geta horft á sjónvarpsþætti nær hvenær sem er. Ég hef ekki efni á svoleiðis apparati og verð því að horfa á sjónvarpið þegar þættirnir eru sýndir. Ég get ekki einu sinni horft á einu stöð og tekið upp á annarri því aðeins er hægt að fá eitt sjónvarpsmerki inn í einu. Reyndar fékk ég skilaboð frá kapalstöðinni minni um daginn að ég þyrfti að hringja í þá því þeir væru að breyta kerfininu og kannski lagast þetta þá. En í raun er þetta í lagi því það takmarkar sjónvarpáhorfið að þurfa að velja á milli þátta. Ef ég get tekið upp eina stöð á meðan ég horfi á aðra þá horfi ég bara meira á sjónvarp.
Og ef einhvern ætlar að skrifa athugasemd hér um það að ég horfi alltof mikið á sjónvarp - sleppið því.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Vertu sæll Jesse - ég mun sakna þín
24.4.2008 | 06:21
Þótt titillinn á þessu bloggi vísi ekki þangað, þá eiga aðdáendur American Idol samt eftir að verða hissa á því hver það var sem féll úr keppni í kvöld. I'll say no more.
Hjá mér var dagurinn fremur rólegur. Ég vann að ritgerðinni minni í morgun, klifraði með Marion sem var einn dag í bænum og notaði tækifærið til að klifra veggi, las helming af grein sem ég þarf að klára sem fyrst, hélt áfram að vinna að ritgerðinni minn...
Í kvöld horfði ég svo á síðasta þáttinn með Jesse L. Martin í Law and Order. Mikið rosalega á ég eftir að sakna hans. Áhorfið á þættina hefur farið niðurávið á undanförnum árum og ekki á það eftir að batna við brotthvarf Jesse. Hvorki Jeremy Sisto né nýji lögreglumaðurinn, Anthony Anderson eiga eftir að komast með tærnar þar sem Jesse hefur hælana. Og þar sem Sam Waterston hefur fengið mun minna hlutverk sem ríkissaksóknari þá má búast við að þættirnir eiga ekki langt eftir. Ég held þeir hafi einfaldlega misst of mikið.
Þetta þýðir líka að fallegasti maður sem nokkurn tímann hefur komið fram í þáttunum er nú hættur. Já, fallegri en Chris Noth.
En af því að ég er að tala um Law and Order þá get ég minnst á það hér að Law and Order: Special Victims Unit hefur heldur betur fengið stórleikara til að koma fram í gestahlutverkum undanfarið. Í þættinum nú í vikunni lék Bill Pullman kærasta Oliviu, og í næsta þætti verður enginn annar en Robin Williams í gestahlutverki. Áður fyrr var það upprunalegi þátturinn sem fékk stóru stjörnurnar og SVU fékk minna þekkta gesti. Nú hafa hlutverkin snúist við.
Hvenær ætli við fáum að sjá nýja þætti um Ljótu Betty?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aðþrengdar eiginkonur að hefjast á ný
13.4.2008 | 18:23
Jibbý, nýr þáttur um örvæntingarfullu eiginkonurnar í kvöld. Undanfarna viku hefur þátturinn verið auglýstur á hverju kvöldi og brotin sem sýnd hafa verið lofa góðu.
Hér kemur smá yfirlit um stöðu mála þegar við síðast skildum við eiginkonurnar og svo skal ég segja ykkur við hverju má búast í þeim sjö þáttum sem eftir eru fyrir sumarfrí.
Staðan þegar þættirnir fóru í frí vegna verkfalls rithöfunda
Susan: Var búin að fá nóg af Mike og pilluátinu hans og sendi hann því í meðferð.
Bree: Bree og fjölskyldan fluttu inn til Susan og Julie. Susan hafði átt von á því að þetta yrði erfitt en var fljót að átta sig á því hversu þægilegt það var að hafa Bree inni á heimilinu að þrífa og elda.
Lynette: Heilsa Lynette er á batavegi og fjölskyldan slapp ómeidd frá fellibylnum svo hún getur ekki verið annað en þakklát.
Gaby: Orðin laus við eiginmann sinn, Victor (sem fékk girðingu í gegnum sig), og hefur nú snúið sér alfarið að fyrrum eiginmanni, Carlos.
Katherine: Hið "fullkomna" líf Katherine virðist vera að falla um koll þar sem dóttir hennar, Dylan, finnur mikilvægan bréfsnepil í ruslinu (ef ég man rétt þá var það miðinn sem amman skrifaði á dánarbeðinu).
Það sem búast má við í næstu sjö þáttum:
Mike uppgötvar að það ar Orson sem keyrði á hann í annarri þáttaröð.
Orson, sem býr hjá Susan ásamt Bree, fer að ganga nakinn í svefni.
Gabrielle kemst að því að Carlos er blindur "á fyndinn hátt" eftir að þau giftast á ný. Til að vinna sér inn aukapening þá leigja þau út herbergi (til Justine Bateman), sem að sjálfsögðu á sitt eigið leyndarmál.
Lynette kemur Bree á óvart með hegðun sinni í kirkju Bree. Hún þarf einnig að eiga við Rick (kokkinn sem hún var skotin í) þegar þau tvö lenda í samkeppni á veitingahúsamarkaðnum.
Bree og Katherine keppast um það hvor er betri húsmóðir þegar þær sjá um bæjardansleikinn. Má búast við eitruðu andrúmslofti.
Edie fer víst langt yfir strik siðsemdar og mun það líklega leiða til endaloka hennar á Wisteria Lane.
Eins og þið sjáið er margt spennandi framundan. Jibbí. Ég fæ að sjá nýjan þátt í kvöld, vonandi þurfið þið hin ekki að bíða lengi.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nýr sjónvarpsþáttur
13.2.2008 | 06:52
Ég er dottin í nýjan sjónvarpsþátt. Hann er ekkert sérlega góður en samt algjörlega ómögulegt að hætta að horfa. Eins og ávanabindandi eiturlyf. Þessi þáttur kallast MVP (sem í íþróttamáli stendur fyrir 'most valuable player') og fjallar um eiginkonur og kærustur hokkímanna.
Aðalstjarnan er fyrirliðinn Gabe sem er góði gæinn. Hann er nýbyrjaður að vera með ungum ljóshærðum leikskólakennara sem þangað til í þættinum í kvöld var hrein mey.
Damon er vondi strákurinn sem berst við djöfla úr fortíðinni. Konan hans og barn létust þegar hann keyrði fullur. Í staðinn sefur hann hjá öllu sem hreyfist.
Trevor er nýliðinn úr hjólhýsahverfinu og kærastan hans á fremur erfitt með að passa inn í hóp fínu eiginkvennanna. Þar að auki þarf hún að berjast við hinar svokölluðu 'puckbunnies' (nafn yfir hokkí grúppíur) sem sitja um leikmennina.
Auk þess spila stórar rullur ekkja og dóttir fyrirliðans fyrrverandi sem deyr í fyrsta þættinum. Sú eldri er að reyna að koma undir sig fótum eftir að eiginmaðurinn lét allar eigur sínar renna til liðsins en ekki til fjölskyldunnar, og sú yngri, sem saknar ríkidæmisins, gerir allt til þess að komast yfir nýliðann svo hún nái aftur stöðu prinsessunnar.
Ég veit ekki af hverju ég horfi en ég get bara ekki hætt. Kannski það hafi eitthvað að gera með vonda strákinn sem sjá má hér á síðunni!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Svolítið um Sturlu Gunnarsson
6.8.2007 | 04:15
Eitt af einkennum sumarsins er að næstum því engir nýir sjónvarpsþættir eru sýndir. Maður hefur því þrjá kosti. Í fyrsta lagi, maður getur sleppt því að horfa á sjónvarp, sem öllu jöfnu er góður kostur, en stundum langar mann einfaldlega að setjast í hægindastólinn og horfa inn í veröld aðra en manns eigin. Annar kostur er því að horfa aftur á sömu þættina og maður sá í vetur, eða síðastliðinn vetur. Þriðji möguleikinn er sá að uppgötva eitthvað nýtt. Ég hef svolítið gert af því að horfa á sjónavarpsþætti sem ég hef aldrei séð áður, og sumir lofa mjög góðu, jafnvel þótt hætt sé að framleiða þá. Einn af þessum þáttum er Zoe Busick: Wild Card. Þættirnir fjalla um konu á fertugsaldri, Zoe, sem allt í einu sér líf sitt umhverfast þegar systir hennar deyr. Zoe þarf að snúa baki við spennandi lífi í Las Vegas og flytja til Chicago þar sem hún tekur við uppeldi þriggja systrabarna sinna. Hún fær vinnu í tryggingafyrirtæki og fer að leysa alls kyns tryggingasvik og skyld mál. Í aðalhlutverki er Joely Fisher sem er alveg frábær leikkona. Hún lék á sínum tíma í þáttunum um Ellen, síðar í Till Death.
Ástæða þess að ég minnist á þessa þætti er sú að þegar ég fór að horfa á þáttinn í kvöld tók ég eftir því að leikstjórinn var enginn annar en okkar eigin Sturla Gunnarsson. Hann hefur leikstýrt einstökum þáttum í mörgum seríum, meðal annars þáttunum Da Vinci's Inquest og Da Vinci's City Hall, Intelligence og The Best Years. Annars er alltaf uppáhaldsmyndin mín eftir Sturlu Rare Birds sem ég mæli með að allir sjái.
Sturla ólst upp í Vancouver og mamma hans, Ástríður, býr hér ennþá. Ég gisti einmitt hjá henni þegar ég kom hingað veturinn 2003 og hélt fyrirlestur. Hún er alveg frábær.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frábært hjá Jóni
2.8.2007 | 16:03
Til hamingju Jón. Flott hjá þér!
Jón hefur verið að gera mjög skemmtilega hluti og gaman að sjá hann fá viðurkenningu fyrir verk sín.
Ég mæli annars með því að Íslendingar kíki á mynd Jóns The Importance of Being Icelandic. Þetta er heimildarmynd um þrjá Vestur Íslendinga sem fara í nám við háskóla Íslands til þess að kynnast landi og þjóð og um leið sjálfum sér. Tveir þessa nemenda urðu síðar ritstjórar Lögbergs Heimskringlu í Winnipeg, Lilliane, sem lést fyrir tveimur árum, og David, sem er núverandi ritstjóri. Bæði alveg frábærar manneskjur og góðir pennar. Þriðji nemandinn Kristine Good var svo í tímum hjá mér í íslensku fyrir elrenda stúdenta þegar ég kenndi stundakennslu við HÍ.
Þessi mynd vakti mikla reiði meðal Vestur Íslendinga. Þeir töldu að Jón væri að gera grín að sér og sumir urðu svo fullir heiftar að þeir voru farnir að tala um landráð. Ég var orðin mjög spennt að sjá þessa mynd eftir að hafa heyrt svo mikið um hana, og eftir að hafa heyrt hversu reiðir sumir urðu, en þegar ég svo loks sá hana skildi ég aldrei af hverju fólk hafði reiðst svona. Mér fannst þetta mjög áhugaverð heimildamynd og ég gat ekki séð neitt sem ætti að pirra fólk, hvað þá að reita það til reiði. Það er reyndar eitt atriði í myndinni þar sem Davíð Þór (held ég) er með uppistand og gerir grín að vestur-íslensku, en það var það eina. Öðrum Íslendingum sem sáu myndina fannst hún jafnsaklaus og mér. Kannski er það sem pirrar fólk mest að í lokin komast öll þrjú að þeirri niðurstöðu að þau séu ekki Íslendingar heldur Kanadamenn með íslenskar rætur.
En Jón hefur gert mjög spennandi hluti í Kanada og er meðal annars einn aðalmaðurinn í Gimli kvikmyndahátíðinni sem haldin er um Íslendingadagshelgina á hverju ári. Þar eru sýndar íslenskar og vestur-íslenskar bíómyndir auk nokkurra fleiri.
Hef ekki séð Jón í nokkur ár núna. Við hittumst alltaf reglulega í Winnipeg, sérstaklega þegar Svavar og Guðrún voru sendiherrahjón því þá tóku þau okkur krakkana (við bæði í kringum þrítugt) að sér og buðu okkur reglulega í mat. Eftir að Jón flutti til Toronto hef ég aðeins séð hann einu sinni á Íslendingadeginum. Jón, skreppa til Vancouver!!!!
Jón Gústafsson hlýtur verðlaun í New York | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábærir grínþættir
18.7.2007 | 04:33
Ef ske kynni að einhver frá Sjónvarpinu eða Stöð2 skyldi villast inn á þetta blogg þá ætla ég að segja ykkur frá nokkrum frábærum kanadískum þáttum sem íslenskar sjónvarpsstöðvar ættu að kaupa í staðinn fyrir margt af þessu ameríska rugli.
Í fyrsta lagi, Corner Gas er alveg frábær sjónvarpsþáttur með dásamlegum persónum. Aðalsprautan, Brent Butt, leikur bensínstöðvareiganda í Dog River, smábæ í Saskatchewan. Hjá honum vinnur besservisserinn Vanda og á hverjum degi eru þau trufluð við vinnu sína af Hank, sem er skólabróðir Brents og auðnuleysingi. Aðrir aðalkarakterar eru Lacy sem rekur kaffisöluna við hliðina á bensínstöðinni, foreldrar Brents, Oscar og Emma, og löggurnar tvær, Karen og Davis. Það sem þessu liði dettur í hug er alveg frábært og minnir um margt á lífið í litlu sjávarþorpum Íslands. Fyndnasta atriði þáttanna var þegar nýr dýralæknir kom frá nágrannabæ sem er enn minni en Dog River og í einu atriðinu er hún að afsaka sveitamennsku sína við Emmu og Lacy: "You have to forgive me, I'm used to slower pace." Emma lítur á hana með forundran og segir: "There is a slower pace?"
Corner Gas þættirnir hafa náð geysilegum vinsældum og eru líklega langvinsælustu grínþættir sem komið hafa frá Kanada. Búið er að selja þá út um allan heim. Hér er síðan þeirra: http://www.cornergas.com/
Annar frábær þáttur, sem ég hef þó séð mun minna af en lofar góðu miðað við það sem ég hef séð er Little Mosque on the Prairie (Húsið á sléttunni hét á ensku Little House on the Prairie). Þátturinn fjallar um þorp á sléttunum þar sem enska biskupa kirkjan er í fjárhagsvandræðum og leigir því safnaðarheimilið undir mosku. Þarna er gert ótæplegt grín að bæði kristnum og múslimum. Sem dæmi úr þættinum sem ég sá í kvöld. Biskupinn er að koma og presturinn er hræddur um að ef biskupinn sjái hversu fáir mæta í messu þá muni erkibiskupsdæmið láta loka kirkjunni. Múslímarnir koma með lausn á vandanum. Þeir munu mæta í kirkju hjá þeim kristnu og þá mun biskupinn verða hrifinn. Þá þarf að þjálfa múslimina, kenna þeim réttu lögin o.s.frv. Þau eru við æfingu þegar presturinn kemur inn, alveg í öngum sínum og segir að biskupinn muni sjá algjörlega í gegnum þetta. Til að mynda hefðu múslimirnir allir staðið upp sem einn þegar þeir áttu að syngja. Það gerðist aldrei í kristnum söfnuði. Það væru alltaf einhverjir sem stæðu upp strax en svo væru aðrir sem stæðu stynjandi á fætur, o.s.frv. Þetta var sem sagt allt æft. Það var líka fyndið að sjá svipinn á múslimunum þegar biskupinn messaði svo á sunnudeginum og fór að tala um reiði guðs.
Einhver amerísk sjónvarpsstöð hefur ákveðið að kaupa þættina en þó eru nokkrar áhyggjur yfir því hvernig Ameríkanar munu taka sjónvarpsþætti sem fjallar svo opinskátt um íslamstrú. Hér má sjá meira um þessa þætti: http://www.cbc.ca/littlemosque/
Þriðji þátturinn sem ég vil nefna er aðeins alvarlegri en þessir tveir sem ég hef talað um, en það eru þættirnir Robson Arms. Þeir þættir gerast allir í fjölbýlishúsi í Vancouver þar sem búa skrautlegir karakterar. Undarlegur húsvörður af ítölskum ættum, tuttugu og eitthvað ára gamlir potthausar, eitt hommapar, ein undarleg kona, ungt par með nýfætt barn, o.s.frv. Þetta eru mjög fyndnir þættir en hafa þó alvarlegri undirtón en svona venjulegir grínþættir. Tveir leikaranna eru þeir sömu og í Corner Gas en þarna má líka sjá marga þekkta kanadíska leikara. Sérstaklega eru margir aukaleikarar frægir. Í einum þættinum má t.d. sjá engan annan en Leslie Nielsen.
Hér getið þið lesið betur um Robson Arms: http://www.robsonarms.com/?page=home
Það er alveg undarlegt að einu kanadísku grínþættirnir sem sýndir eru í íslensku sjónvarpi skuli vera Trailer Park Boys. Það eru nú ljótu vitleysingjarnir. Skora núna á íslensku sjónvarpsstöðvarnar að tryggja sér sem fyrst réttinn að þessum ofangreindu þáttum og sýna nú Íslendingum almennilegan kanadískan húmor.
Frábær grínmynd frá Kanada er svo Men with brooms, þar sem þjóðaríþróttin krulla leikur aðalhlutverk. Sú mynd er líklega fjögurra ára og í aðalhlutverki er enginn annar en Paul Gross sem lék riddaralögregluna í þáttunum Due South hér um árið. Þar má líka sjá Leslie Nielsen sem föður Paul Gross, Peter Outerbridge sem ég man eftir úr þáttunum Michael Hayes sem sýndir voru á Íslandi hér um árið (hann leikur nú aðalhlutverk í þáttunum ReGenesis) og Molly Parker, sem lék í mynd Sturlu Gunnarssonar Rare birds. Í myndinni kemur líka fram kanadíska stórhljómsveitin Tragically Hips sem hefur verið geysivinsæl hér í rúman áratug en hefur aldrei almennilega náð flugi annars staðar.
Margt annað gott kemur frá Kanada en ég læt staðar numið hér.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
900 stöðvar á sjónvarpinu
10.7.2007 | 05:47
Núna í vor skipti ég úr kapli yfir í stafrænt sjónvarp og fyrstu þrjá mánuðina hef ég aðgang að öllum sjónvarpsrásum fyrirtækisins. Það eru sirka 300 sjónvarpsrásir og annað eins af útvarpi. Stundum er ekki horfandi á neitt á þessum 300 rásum. Þegar þessir þrír mánuðir eru úti get ég sett saman pakka sem hentar mér. Þá mun ég greiða fyrir grunnrásirnar 30, eða hvað þær eru nú margar og svo get ég annað hvort bætt við mismunandi pökkum (bíórásir eru einn pakki, lífsstíll er annar, afþreying sá þriðji, menning og menntun er einn pakki, o.s.frv.) eða greitt fyrir einstaka auka rás (en takmarkaðra val þar). Þetta er ólíkt betra en kapallinn var. Ég borgaði bara fyrir grunnkapal því ef maður vildi bæta við þá varð maður fyrst að kaupa aukapakka 1, svo aukapakka 2 og að lokum aukapakka 3. Ef maður vildi einhverja rás sem var í aukapakka 3 þá varð maður að kaupa alla hina. Og alltaf var það svo að mest spennandi rásirnar voru ofarlega og kannski bara tvær þrjár í hinum pökkunum sem maður vildi. Ég saknaði þess mikið eftir að ég flutti hingað á sjöundu og þurfti að fara að borga fyrir sjónvarpið (á 12. götu fékk ég aðgang að sjónvarpi þeirra fyrir ofan og þar af leiðandi allan pakkann ókeypis) að hafa ekki lengur Bravo þar sem hægt var að horfa á Law & Order alla daga og ýmislegt annað gott.
Ég er farin að hugsa um það hvort ég ætla mér að láta grunninn nægja þegar þessu þriggja mánaða tilboði lýkur eða hvort ég vil bæta einhverju við. Hver aukapakki kostar 6 dollara á mánuði (um 360 krónur) og hver aukastöð kostar 2. Ég hugsa að ég bæti við 'popular choices' þar sem ég fengi A&E, Bravo, Showcase, TLC, CourtTV og women's network. En það væri líka gagnlegt að hafa pakkann sem kallast 'time choice'. Þá sér maður sömu rásir og eru í grunnpakkanum en ég sé þessar rásir frá mismunandi tímabeltum. Oft á veturna, t.d. finnst mér of seint að fara að horfa á sjónvarp klukkan tíu. En í staðinn gæti ég bara horft á sjónvarpið frá Halifax og séð þáttinn klukkan sex í staðinn. Þetta getur líka verið gagnlegt á bestu sjónvarpskvöldunum, eins og t.d. þriðjudögum, þegar allar sjónvarpsstöðvarnar keppast við að setja vinsælustu þættina klukkan níu (í vetur voru þrír þættir klukkan níu á þriðjudegi sem ég vildi horfa á). Með mismunandi tímabeltum gæti ég hreinlega horft á þættina á mismuandi tímum (það er ekki hægt að taka upp eina rás og horfa á aðra á þessum stafrænu stöðvum). Gallinn er að þetta eykur sjónvapsáhorf óþarflega mikið.
Svo væri gaman að bæta við Fox Sports og BBC Canada, en ég sé til með það. Ég hef ekki horft eins mikið á þessar stöðvar undanfarið eins og ég hefði búist við. Ég hef orðið fyrir pínulitlum vonbrigðum með BBC og ég horfi líklega minna á Fox Sport af því það er sumar og sumaríþróttirnar eru ekki eins spennandi og vetraríþróttirnar. Mér finnst reyndar gaman að fara á hafnarboltaleiki en það er ekki skemmtilegt að horfa á þá í sjónvarpi. Þær íþróttir sem ég horfi mest á í sjónvarpi eru líklega enski fótboltinn og hokkí og hvort tveggja er í sumarfríi. Það er hægt að kaupa NHL stöðina aukaleg þar sem allir hokkíleikir eru sýndir, en vanalega sýnir CBC Vancouver alla Canucks leikina beint og ég er ekki svo mikill aðdáandi að ég þurfi að fylgjast mikið með öðrum liðum, svo ég hugsa að ég spari mér þann pening. En ég hef enn tíma til að raða þessu öllu saman.
Eitt af því sem er frábært við útvarpsstöðvarnar er að utan við þessar venjulegu stöðvar er hægt að velja þá tónlist sem maður vill hlusta á. Ég hluta lítið á tónlist í í útvarpi því það er alltaf verið að spila dansmúsík og leiðindi sem ég nenni ekki að hlusta á. Þarna getur maður valið næstum hvaða tónlistartegund sem er og hlustað á það. Í kvöld hef ég t.d. haft 'rock alternative' á sjónvarpinu og það hefur ekki enn komið leiðinlegt lag. Súper. Ég veit það er til fjöldinn allur af útvarpsstöðvum sem einbeitir sér að ákveðinni tegund tónlistar en maður þarf að muna hver er hvar. Þarna á sjónvarpinu þarf ég ekkert að muna hvaða stöð er hvar. Ég fer bara inn, finn tegundina af tónlist sem ég vil hlusta á og stilli á það. Og á meðan hvert lag er spilað má fá upplýsingar um heiti lagsins, flytjendur, plötu, útgáfuár, o.s.frv. Kannski ég fari að hlusta meira á útvarp.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Enn breytingar hjá Law & Order
7.6.2007 | 23:43
Undanfarna daga hafa verið að berast upplýsingar frá NBC um Law & Order þættina. Mikilvægast er að skrifað hefur verið undir samkomulag um áframhald á framleiðslu þáttanna sem í haust munu hefja sitt átjánda tímabil.
Milena Govich sem lék Ninu Cassady í aðeins einn vetur mun hætta og í hennar stað kemur Jeremy Sisto sem sumir kannast kannski við úr Six feet under (voru þeir þættir ekki örugglega sýndir heima?). Mér leiðist Sisto og ég er hundfúl yfir þessum breytingum. En kannski er það vegna þess að ég var að vona að ef Govich færi þá kæmi Chris Noth aftur til baka yfir á Law & Order flaggskipið. Nú þegar á að færa Law & Order: Criminal intent yfir á kapal eru miklar líkur á að Noth og/eða D'Onofrio muni báðir yfirgefa þáttinn. Chris Noth var frábær í Law & Order seríum 2-5, áður en hann gerði garðinn frægan sem Mr. Big í Sex and the City. Hugsið ykkur, Chris Noth og Jesse Martin saman á skjánum. Úllalla.
Aðrar breytingar sem tilkynnt hefur verið um er brotthvarf Fred Thompson (sem Arthur Branch) en talið er líklegt að hann muni reyna að fá tilnefningu sem forsetaefni Repúblikana. Hann er lögfræðingur sem hefur verið töluvert í stjórnmálum samhliða leiklistarferli sínum. Ef stóll ríkissaksóknara losnar er ekki ólíklegt að Sam Waterston muni fá stöðuhækkun, enda hefur hann verið aðstoðarmaður ríkissaksóknara núna í 12 ár. Waterston er þar að auki farinn að eldast og sjálfsagt þreyttur á að keyra á milli New York og Connecticut þar sem hann býr. Hlutverk ríkissaksóknara er töluvert minna og er vanalega tekið upp á einum degi þannig að hann gæti með þessu móti verið áfram í þáttunum án þess að vinna of mikið. Þar að auki er Waterston hátt launaður og þar sem þátturinn hefur tapað miklum vinsældum er ekki ólíklegt að NBC vilji ódýrari leikara í hlutverk EADA. Og hver kemur þá í stað Sams er ekki gott að vita. Ég held hins vegar að það sé ljóst að Sam Waterston muni halda áfram því í fyrsta lagi hefur ekki verið sagt að hann muni hætta (og vanalega er það komið á hreint á þessum tíma hver hættir og hver heldur áfram) og í öðru lagi tel ég það sjálfsmorð fyrir þættina ef Jack McCoy er ekki þarna ennþá. Hann er án efa langvinsælasti karakterinn. Og það er ljóst að karakterarnir skipta ótrúlegu máli. Eftir brotthvarf Jerry Orbachs, t.d. tapaði þátturinn miklum vinsældum og hefur aldrei náð sér almennilega eftir það. Þar auð auki fór NBC að rokka með tímann sem var ekki gott heldur. Miðvikudagskvöldin voru góð. Föstudagskvöld...fáránlegt. Hér horfir enginn á sjónvarp á föstudögum.
En við verðum að sjá hvað gerist og hvort þátturinn nær að jafna met Gunsmoke (longest running drama) sem sýnt var í bandarísku sjónvarpi í 20 ár.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tveir nýir sjónvarpsþættir
31.5.2007 | 06:13
Ég horfði á tvo nýja sjónvarpsþætti í kvöld. Flestar vetrarseríurnar eru komnar í sumarfrí og þá reyna sjónvarpsfyrirtækin að halda áhorfendum föngnum með nýjum sumarseríum. Slíkar seríur hafa af og til slegið í gegn en oftar en ekki hverfa þær eftir eitt sumar.
Fyrri þátturinn sem ég horfði á kallast Hidden Palms. Hugsið OC, bara verra. Þetta er um ríkan unglingsstrák sem flytur til Palm Springs með mömmu sinni og nýjum stjúpföður. Pabbi stráksins drap sig og sjálfur var strákurinn kominn á kaf í eiturlyf og drykkju. Strax fyrsta daginn kynnist hann nágrannastráknum sem hefur óhreint mjöl í pokahorninu, og nágrannastelpu sem hegðar sér eins og skógardís, hlaupandi í hvítum sumarkjól innan um úðarana á golfvellinum sem liðið býr við. Hún á hins vegar líka dimma fortíð sem tengist dauða kærasta hennar. Þetta var alveg ótrúlega lélegur þáttur með leiðinlegum karakterum, fullur af klisjum og ótrúverðugri rómantík. Það er nokkuð ljóst að ég mun ekki fylgjast með þessum þáttum.
Hin serían byrjar mun betur. Hún heitir Traveler og er tvo stráka sem leigðu saman hús, ásamt þeim þriðja, á meðan þeir voru í framhaldsnámi í háskóla. Að námi loknu ákveða þeir að keyra þvert yfir Bandaríkin áður en þeir þurfa að fara að vinna fyrir sér. En þeir komast ekki lengra en til New York. Þar virðist sem þriðji félaginn hafi leitt þá í gildru því áður en þeir vita að þér eru þeir eftirlýstir fyrir hryðjuverk (fyrir að sprengja upp listasafn). Við tekur þvílíkur eftirleikur þar sem ekki bara FBI er á eftir þeim heldur einhverjir aðrir líka - hugsanlega þeir sem standa á bakvið sprengjurnar. Fólk hrynur niður í kringum þá og þeir geta ekkert gert nema reyna að bjarga sér. Tveir þættir voru sýndir í kvöld og ég sat límd við sjónvarpið. Ég er hrædd um að ég muni eiga stefnumót við imbann á miðvikudagskvöldum.
Mín skilaboð til íslenskra sjónvarpsstöðva: Krækið í Traveler en sleppið Hidden Palms.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 06:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)